Sarpur fyrir maí, 2008

dagur #5 – heimferð

eins gott að klára þetta áður en ég legg af stað í næstu ferð (í fyrramálið, sko)

Vaknað (nú, skrítið…), síðasti morgunmatarskammtur, upp að pakka, tókst að troða öllu draslinu í töskuna, mesta furða reyndar, 6 flöskur úr Lavinia í tveimur kössum, slatti af gjöfum, þó mér tækist að gleyma bolnum hennar Fífu og einu öðru í poka bak við tjöldin í herberginu. Lok og læs – opna aftur, gleymdi að tæma ísskápinn (nokkrir ostar, gesiérkrukka og pylsa, eins gott). Taskan níðþung, auðvitað, ég var handviss um að þurfa að borga hellings yfirvigt.

Tékkað út, ég hafði notað eitt ítem úr minibarnum, einn lítinn 1664 bjór, kostaði heilar 3.50 evrur, borgaði, fékk útprentaða kvittun á þykkan ljósgulan rifflaðan gæðapappír, alveg hugsa ég að blaðið hafi verið bjórsins virði. Diljá hafði drukkið eina hálfslíters vatnsflösku, okkur fannst svolítið skondið að hann kostaði 8 evrur, jafnvel þótt hann væri stærri en bjórinn.

Hér sjást Ásdís og Mary bíða eftir nokkrum hinna í lobbíinu.

Stærsti hluti hópsins tölti síðan niður að óperutorgi, þar sem hægt var að taka rútu á flugvöllinn. Nokkrar ákváðu samt að taka leigubíl, nenntu ekki niðureftir. Veðrið var mjög fínt og allir með töskur á hjólum, þannig að göngutúrinn var nú ekki sérlega erfiður. Rútan stóð síðan þarna tilbúin fyrir okkur, rúlluðum af stað og þrátt fyrir að rútan fari á átján mismunandi terminala 2 áður en hún stoppar við terminal 1 þar sem við fórum, hittum við náttúrlega hinar í innrituninni, múhaha. Slapp við yfirvigt, var ekki nema kílói yfir, fjúkkitt.

Einhvern veginn tókst mér að missa af hvar maður setti umslagið með taxfree dótinu þannig að umslagið kom með mér heim. Vill til að ég er að fara út aftur. Sýnist reyndar að maður hljóti að skila taxfree kvittuninni áður en maður fer inn í gegn um tékk, sérkennilegt það.

Eitthvað var lítið af búðum niðri, það við sáum, þannig að við fórum bara upp, þar hlyti að vera eitthvað taxfree verslunarsvæði og kannski veitingastaðir. Olli hinsvegar þvílíkum vonbrigðum, búðin oggupínulítil og ómerkileg, ég hafði ætlað að kaupa gauloises fyrir þennan vin, reiknaði með að það hlytu nú að fást franskar sígarettur á vellinum, en nei, breskar og bandarískar. Undarlegt. Þarna var líka einn ræfils kaffibar með einum afgreiðslumanni fyrir margar vélar sem voru að fara. Ásdís var ekki alveg sátt við þetta, enda er hún með platínukort og á rétt á að fara í lounge. Við vorum líka búin að sjá miklu flottari búðir annars staðar á vellinum. Hún spurði hvort hún mætti ekki fara þar inn, en fékk þau svör að þar sem við séum í Schengen, fáum við bara litla og ómerkilega búð og ekkert fínt svæði til að bíða eftir vélinni.

Get bara ómögulega skilið hvað það kemur málinu við, ef einhver veit röksemdafærslu fyrir þessu má hann/hún gjarna láta mig vita.

Nú, keypti samt einn ost í pínubúðinni, þrátt fyrir að hafa verið settur í „lofttæmdar“ umbúðir tókst mér að finna lyktina af honum alla ferðina. Afsakaði mig við sessunaut minn en sem betur fór hafði hún ekki tekið eftir neinu (þetta var sami osturinn og ég tók síðan með mér í ostapartíið góða).

Leifsstöð gekk fyrir sig eins og venjulega, keypt ein gin og smá nammi, ætt í rauða hliðið og borgað af aukavíninu – dettur ekki í hug að svindla á því, hreint ekki svo mikið sem maður þarf að borga ef maður er með þokkaleg vín með sér (borgar sig samt ekki að kaupa tveggja evru ruslvín, þá er maður farinn að borga fáránlega mikið miðað við gæði á víninu). Tollvörðurinn var vinalegur og skemmtilegur, það er yfirleitt bara mjög fínt að eiga við þá í rauða hliðinu.

Fékk far með Arnheiði í bæinn ásamt Önnu og Bryndísi, hún hafði geymt bílinn á vellinum, síðan með Önnu, hennar maður kom að ná í hana til Bryndísar og ég fékk að fljóta með vestureftir. Takk stelpur, og takk fyrir ferðina, allir vinnufélagar. Sérstakar þakkir til Örnólfs og Helgu sem komu heim með bolinn minn og:

hnífapörin sem ég keypti – í sætu búðinni…

illt

í hálsinum, nei ekki inni í hálsi heldur með svona tak vinstra megin eins og ég hafi sofið asnalega. Nema ég byrjaði í gær og er verri í dag – eða var það þegar ég vaknaði í nótt við hálfgerða martröð, dreymdi íbúð og sjávardýr, meðal annars fullt af risastórum humrum, einn gígantískan krabba og tvær sjávarskjaldbökur með slönguhausa. Endaði á því að önnur (örugglega baneitraða) skjaldbakan stökk á mig og beit mig vinstra megin í hálsinn, þá náttúrlega vaknaði ég og var illt. Tók verkjatöflu, verstur fjárinn að eiga ekki íbúfen bara parkódín, held það sé ekkert vöðvaslakandi. Þarf að kaupa vöðvaslakandi…

dagur #4

Vaknað fyrst við áminningu um söngtíma klukkan 8, honum var nú reyndar sleppt, svolítið langt að skjótast, þá aftur klukkan 8:45 með andfælum, hélt að klukkan væri 9:15 og við Elín höfðum mælt okkur mót við Bryndísi og Hönnu niðri í morgunmatarsal klukkan 9 til að taka daginn snemma. Hefðum svo alls ekkert þurft að vera svona snemma á ferðinni, þar sem búðin sem átti að vera fyrsti áfangi á leiðinni niður í bæ opnaði náttúrlega ekkert fyrr en 10.

Enn var stímt í sætu búðina, því auðvitað var það hún, (hmm, ég held að ég hafi gleymt einu úr henni á hótelinu, fattaði það í gær, spurning hvort Örnólfur og frú hafi fengið það ásamt bolnum hennar Fífu sem mér tókst að gleyma líka – tjöldin á hótelherberginu gátu falið helling af dóti).

Síðasta ferð upp í topp á Printemps, reyndar tvær, fyrst á útsýnispallinn (með stoppi á ferðatöskuhæðinni til að sýna stelpunum bakpokann sem ég var nærri búin að kaupa en tímdi síðan ekki)

svo upp austan megin í flottu hvelfinguna þar sem veitingastaðurinn er,

fengum okkur hádegismat þar ásamt hvítvínsglasi (ég) og arfavondum mexíkóskum bjór með tequilabragði (þær). Ég fegin.

Nú, eftir þessi smástopp, meira sightseeing, tókum þriðja rúntinn með rútu, fórum síðan á kaffihús til að klára að smakka franska bakkelsið sem var skylda að taka út í ferðinni. Ég fékk mér eina köku og kakó (fínt kakó, NB, sterkt og gott og alvöru súkkulaði) en hinar tvær sem voru með í för fengu sér tvær og hálfa á mann. (ókei, ég fékk smábita af nokkrum tegundunum) Hélt að augun ætluðu út úr litlu mjóu frönsku stelpunni sem afgreiddi, vonandi hélt hún að við værum Kanar…

Höfðum mælt okkur mót við eina til í Madeleine kirkjunni klukkan fimm, þar sem á sama tíma hér heima hófst jarðarför fyrrverandi samkennara okkar sem lést viku áður en við fórum út. Við kveiktum á kertum fyrir hana elsku Noru okkar og sátum í góða stund í kirkjunni. Stundum vonar maður að til séu æðri máttarvöld, sé svo þá er hún núna á betri stað. Hvíl í friði.

Eftir þessa stuttu kyrrðar- og minningarstund lá leiðin í eina alflottustu vínbúð sem við höfum augum litið, Lavinia. Upprunalega spænsk búð en með útibú í París. Afhentur innkaupalistinn sem við Jón höfðum sett saman hér heima (tja, aðallega hann, reyndar), nær allt reyndist til, hefði eiginlega þurft kerru til að koma flöskunum upp á hótel en Hanna reyndist betri en engin og hjálpaði mér að burðast með þær. Níðþungt, ég var skíthrædd um að ég þyrfti að borga þvílíka yfirvigt í flugvélinni.

Hótel, sturta og punta sig upp, leiðin lá á Moulin Rouge. Allir í sitt fínasta púss – svínvirkaði, ein klipin í rassinn í metró, önnur fingurkoss og nokkur úllöllu fuku í kring um okkur.

Þar skyldi farið á sýninguna sem stendur nú yfir þar, Féerie (ætlaði að tengja á wmp síðuna en það virkar ekki), ógurlega flotta sýningu, litskrúðið nær ótrúlega mikið, dansarnir flottir, kannski fullmikið af berbrjósta dönsurum sem pirruðu suma aðra meira en mig, en það hefði verið flottara ef strákarnir hefðu ekki alltaf verið svona ógurlega fullklæddir á móti. Reyndar fannst mér milliatriðin eiginlega skemmtilegri en dansarnir, fimleikafólk að balancera, búktalari og svo hrikalega fyndinn jongleur (hvað heitir það nú aftur á íslensku?) Vel þess virði að fara á kabarettinn þó það sé bara fyrir hann.

Auðvitað biðum við eftir aðal can-can dansinum við Offenbach, jújú, hann var til staðar en samt eiginlega við eitthvað Offenbach remix, fannst það nú eiginlega ekki bæting á músíkinni. En dansinn var flottur.

Reyndar þótti mér eitt hallærislegt við sýninguna, með henni fylgdi hálf kampavínsflaska á mann en það var ekki komið á borðið til okkar og flöskurnar opnaðar, hvað þá að hellt væri í glösin fyrir okkur, þurftum að sjá um slíkt sjálf. Fyrir svona dýra sýningu finnst manni alveg að það mætti þjóna örlítið betur. Ekki það, ég kann alveg að opna kampavínsflöskur og sá um það fyrir okkar borð, Hanna vinnur stundum sem þjónn og sá um hin borðin tvö. Síðan var kona sem stóð (tja, sat til að byrja með) fyrir aftan eitt okkar borða, hún lifði sig þvílíkt inn í sýninguna að hún stóð upp og argaði á fullu í örugglega hálftíma. Örnólfur greyið var kominn með hellu fyrir eyrun og höfuðverk af þessu í lokin. Ekkert þýddi að reyna að ná augnsambandi við hana, gersamlega úti á þekju. Ewa hvessti augun á manninn sem var með henni, þar til hann spurði: Do you have a problem? Hún: You are my problem. Hann yppti bara öxlum og gerði ekkert í málinu. Maður hefði nú haldið að þjónar myndu kannski koma og reyna að lempa manneskjuna aðeins til.

Heim á hótel var haldið, einhverjir gengu, sumir aftur í metró (ég þar á meðal). Nokkrir hittust aftur uppi á herbergi hjá okkur Elínu, ekki samt lengi enda síðasta kvöldið.

óhugnanlegt 2

og ég er ansi hrædd um að þetta sé ekki grínsíða. Því miður.

mér sýnist líta vel út

með uppskeru í ár af stóra rifsberjarunnanum…

hressandi

að lesa færslurnar hjá þeim útlendingum sem ég fylgist með á rss í dag – ekki orð um júróvisjón.

Horfðum reyndar á keppnina hjá Hallveigu og Jóni Heiðari (takk fyrir eðalborgara, Jón) en við Jón Lárus skildum krakkana eftir og stungum af í osta- og rauðvínspartí hingað ásamt nokkrum öðrum ircurum og horfðum ekki á stigagjöfina (sem er annars yfirleitt skemmtilegi hlutinn af fyrirbærinu)

Partíið var snilld, við ætluðum rétt aðeins að kíkja í 1-2 tíma en enduðum á því að fara ekki heim fyrr en um hálffjögurleytið um nóttina. Við bóndinn vorum reyndar aðalmengunarvaldar partísins, komum með baneitraðan ost sem ég hafði keypt í Frakklandi og var búinn að vera að menga íbúðina hjá okkur síðan á þriðjudaginn. Unglingarnir hér heima eru sárfegnir að vera lausir við hann úr ísskápnum.

dagur #3

Þennan dag átti að fara á markað, allir ruku út upp úr klukkan 9 – nema við Hanna sem langaði báðar til að sofa út. Fórum reyndar niður í morgunmat en svo bara upp aftur og ég steinsofnaði, ekki veitti af.

Kannski var það vegna þess að ég var ekki alveg vöknuð aftur, eða vegna þess að ég var á kafi í að senda sms til hinna ferðafélaganna, en þegar ég var á leiðinni út af hótelinu gekk ég af öllu afli á glerhurðina (sem var afskaplega vel þrifin og yfirleitt frekar sein að opnast fyrir manni). Það var vægast sagt ekki mjög þægilegt. Fékk kúlu á ennið og nefrótina (gleraugun rákust þar í). Frekar klaufalegt. Grey Hanna stóð fyrir utan hótelið og horfði á þetta, ég held að hún hafi eiginlega fengið meira sjokk en ég sjálf. Keypti handa mér kalda kókdós til að halda við kúlurnar, reddaði mér sjálfsagt.

Nú, annars var þetta bara fínn dagur, Pelforth brune á kaffihúsi (var andstyggileg og sendi Jóni sms með að ég sæti og drykki einn af uppáhaldsbjórunum okkar)

Keyptum okkur miða í Open Tour sightseeing rúturnar, tveggja daga miða, fórum í 2 hringi þennan dag, mér var skítkalt á fyrri hringnum þannig að ég keypti mér sjal áður en ég fór í þann síðari, skíthrædd um að kvefast, má ekki við því fyrir næstu Frakklandsferð.
Þessa flottu göngubrú sáum við á fyrri hringnum, ég man ekkert eftir henni frá fyrir 1 1/2 ári, Parísardama, getur verið að hún sé ný?

Náði líka að kaupa Berthillonís og eitt bjórglas. Við söfnum bjórglösum og ég átti ekki stórt Seize glas, þegar við keyptum okkur sirka dýrasta bjór í heimi (10 evrur á veitingahúsi við hlið Notre Dame), fengum bjórinn í slíkum glösum og ég gerði eins og venjulega, spurði þjóninn hvort væri hægt að kaupa svona glas. Þjónninn hins vegar greinilega alls ekki vanur að fá svona spurningu, vísaði mér inn á manager, ég spurði hann og hann: Jú jú, kostar 10 dollara. !!! Ég skellti glasinu á borðið og ætlaði að strunsa út, þegar hann kallaði á mig til baka, og gaf mér glasið, hlæjandi að túristaaulanum sem hafði alveg trúað þessu okri.

Nújæja, annan hring með rútu, sá reyndist mun lengri þannig að við enduðum á að hlaupa upp á hótel, ætlunin var að fara út að borða öll saman um kvöldið, á veitingastað með sérrétti frá Auvergne. Tíminn stemmdi, tók svo reyndar smá hringl og vesen að finna veitingastaðinn en mættum þar samt á slaginu átta. Maturinn var frábær, sérkennilegt samt að tveir sérréttir staðarins (teygjanleg kartöflustappa með geitaosti og ekta súkkulaðimousse) voru ekki á flottasta seðlinum, sem langflestir tóku. Reyndar fengu allir að smakka á súkkulaðimúsinni, þjónninn kom með risastóra skál og allir gátu fengið sér, þó við hin værum með créme caramel. (músin var mikið betri).

Ekkert partí þetta kvöldið, allir þreyttir og sirka beint að sofa.

dagur #2

byrjaði á mjög fínum morgunmat, ekkert bara kaffi og sætabrauð á þessu hóteli, litlar bagettur fínir ostar og skinka, jógúrt, hunang og sultur, niðurskornir ferskir ávextir og, jú, sætabrauð, bæði pain au chocolat og snúðar með rúsínum og vanillukremi, nýkreistir safar, te og kaffi. Lúxus, eitthvað annað en maður lendir stundum á í Miðjarðarhafslöndum.

Námskeið ferðarinnar var þennan morgun, suzukiskólinn í París, mjög skemmtilegir tímar og fræðandi þó á frönsku væru, en ósköp lítil aðstaða sem kennararnir hafa, enda eru þetta bara nokkrir kennarar sem taka sig saman og leigja húsnæði, engin yfirbygging á skólanum eins og við þekkjum hér heima.

Rölt áleiðis í bæinn, fundum búð rétt hjá hótelinu með alveg skelfilega sætum vörum, sérstaklega í eldhús og framreiðslu, ég fór held ég fjórum sinnum þangað í ferðinni, fann alltaf eitthvað nýtt og stóðst aldrei að kaupa eitthvað smotterí. Kláraði skylduinnkaupin (fyrir utan vínbúðina), hringdi meira að segja heim til að tékka hvort eldri unglingurinn væri nú til í bol sem ég sá handa henni (það gekk). Gott að koma því frá. Sest á kaffihús, auðvitað, rósavínsglös, Anna Margrét ætlaði ekki að komast yfir að hafa farið í snyrtivörudeildina í Printemps og keypt Armanivörur – í heimajogginggallanum sínum.

Síðan var á planinu að hitta Parísardömuna, höfðum mælt okkur mót klukkan 2 í Montmartre hverfinu. Ég og nokkrar til lentum í tómu tjóni með að kaupa miða í metróið, fyrst fórum við niður þar sem mátti aðeins koma upp, svo vildi sjálfsalinn í rétta innganginum ekki taka við kreditkorti hjá einni, né heldur sýna upplýsingarnar á öðru máli en frönsku, en allt gekk það nú upp á endanum, komum um kortéri of seint uppeftir. Göngutúrinn var síðan bara snilld eins og venjulega, ágætis veður nema smá köflóttar skúrir af og til.

Fjallganga upp í Sacre coeur, rúnt í kirkjunni, áfram upp á markað (keypti gesiérs, mmm), skoðuðum gömlu kirkjuna, hring á öðrum markaði rétt hjá, síðan niður í sollinn, allt undir frábærri leiðsögn, auðvitað. Hvet alla til að hafa samband við Kristínu og komast í gönguferð, ef þið eigið leið um París (víí, fer í annan túr hjá henni í næstu viku).

Borðuðum síðan kvöldmat (já, göngutúrinn tók nærri 4 tíma) á Svarta kettinum rétt við Rauðu mylluna. Lentum þar á ógurlega miklum daðurþjóni sem naut sín þvílíkt vel innan um allar þessar Suzukikellur. Ágætis matur, ég keypti mér pasta en svo voru desertarnir þvílíkt rosalega góðir, sérstaklega profiteroles fylltar vanillukremi með súkkulaðisósu og rjóma. Aftur þangað, takk.

Hópurinn splittaðist upp eftir þetta, einhverjir fóru í siglingu á Signu en flestir hinna komu í partí í svítuna okkar Elínar. Sátum þar þar til rétt upp úr miðnætti en þá hrundu flestir út eftir langan dag. Óhemju gott að sofna…

sem ein af fáum

sem var ekki að fylgjast með íslensku söngvurunum massa það í júró (til hamingju með það, annars) fór ég á kórtónleika í kvöld. Kór Akraneskirkju hélt tónleika í Seltjarnarneskirkju, synd að ekki voru fleiri, allir að glápa á sjónvarpið, væntanlega, á prógramminu íslenskir sálmar og svo gamla litla messan mín sem ég samdi þegar ég var enn í tónfræðideildinni í Tónó (já og sem Jón Lárus kom og hlustaði á flutning á svona þegar við vorum að byrja að draga okkur saman, til mikillar furðu skólafélaga hans sem ekki var vanur að sjá hann á klassískum tónleikum).

Kórinn er alveg ljómandi góður, mjög fallegur hljómur og langoftast tárhreinn, raddirnar vel blandaðar, greinilega góður raddþjálfari á ferð og virkilega fínar raddir. Sungu fyrst Litaníuna eftir sr. Bjarna Þorsteinsson, Örn Arnarson söng sóló, mjög fínt en ég hafði á tilfinningunni að hann væri pínu stressaður (á því bar hins vegar alls ekki þegar hann söng tvö sálmalög með gítar, síðar í dagskránni). Svo komu nokkrir íslenskir sálmar, sumir með undirleik, aðrir ekki, allt mjög frambærilega sungið og spilað.

Í lokin söng kórinn svo messuna, Missa brevis, klassískan messutexta en án trúarjátningar. Svolítið stór biti fyrir áhugakór, enginn undirleikur, skiptir oft snögglega um tóntegund, nóg af skrítnu tónunum mínum, pólíritmi í gangi, snúin sóló, en kórinn leysti þetta allt af hetjuskap. Auðvitað kom hitt og þetta upp á, en þau leiðréttu sig jafnan og lentu saman, verkið rann fínt í gegn án stoppa, sólistarnir góðir (sérstaklega tenórinn, sem leiðrétti Gloríukaflann upp á sitt eindæmi, þegar hann hafði fallið örlítið)

Takk fyrir mig, Sveinn Arnar, kór og einsöngvarar.

híhí

fréttin þarna náði mér algerlega, enda hef ég ekki lesið Weekly World News áður. Trúði bara hverju sem er upp á nöttarana þarna fyrir vestan.
Hér og hér eru örlítið ótrúlegri fréttir frá miðlinum…

óhugnanlegt

þetta hér er sveimérþá með því óhugnanlegra sem ég hef lengi séð! (hérna er original fréttin).

hvernig stendur á

því að það er sama hvað ég tek til á skrifborðinu, hrúgurnar eru alltaf komnar upp undir loft og það er stórhættulegt fyrir köttinn að stíga á bunkann?

ferðasagan – dagur 1

Kannski maður geri eins og í fyrra og hendi ferðasögunni inn, þó það sé ekki nema fyrir ferðafélagana (áminning – fá tölvupóstinn hjá samkennurunum)

Alltaf þægilega dagflugið, vöknuðum klukkan 4, Jón Lárus hafði boðist til að skutla mér út á völl (takk luv) og tveir kennarar ætluðu að vera samferða. Gekk nokk hnökralaust að vakna, fara í sturtu, pína í mig smá morgunmat, sækja hinar og keyra úteftir. Svosem ekki í frásögur færandi. Morgunmatur númer 2 á Kaffitári. Út að hliði, einhvern veginn tókst mér að lesa vitlaust á skiltin og hefði farið til London nema fyrir flugvallarstarfsmanninn sem vinnur við að leiðrétta syfjaða farþega, rambaði síðan á rétt hlið og vél. Morgunmatur númer 3 í vélinni, hmm, nei, það var nú eiginlega hádegismatur. Vélin ógurlega flott, skjár við hvert sæti, en maturinn nákvæmlega eins og venjulega, eggjakakan á skinkusneiðinni með kartöfluteningunum. Svo sem bara ágætt.

Komin klakklaust til CDG, eitthvað fannst mér flugvöllurinn hafa látið á sjá síðan við fórum í október 2006, fannst hann flottur þá en núna var fýla og talsvert ósnyrtilegra. Töskur allra skiluðu sér, það hafði greinilega verið reynt að brjótast inn í mína, lásinn var spenntur örlítið upp, nóg til að ég gat engan veginn opnað hann strax. Út, reynt að veiða okkur í 2 stóra leigubíla, væntanlega leyfislausir gaurar, fólk smástund að ákveða hvort því skyldi tekið, 15 evrur á haus, enduðum í löglegum leigubílum – og borguðum 14 evrur á manninn með þjórfé, þrátt fyrir að vera bara 3 í bíl, eitthvað átti nú að okra á túristunum.

Nújæja, á hótelið komumst við, tók reyndar óratíma að finna út úr herbergjaskipuninni, hótelið hafði klúðrað uppsetningunni á herbergjunum royally, ég endaði í herbergi með Elínu Hannesar, nokkuð sem stóð ekkert til, en það var auðvitað bara fínt. Hún hafði átt að vera með Ewu, sem fékk síðan einkaherbergi. Vorum í ógurlega fínu herbergi uppi á sjöttu hæð, líklegast besta herbergi ferðafélaganna, þó hin væru reyndar líka ágæt. Fann upptakara sem ég gat notað til að brjóta upp lásinn, sem betur fór.

Allir hittust niðri í lobbíi og fórum af stað út, einhverjir fóru niður að Signu, ég og Sarah (kennarinn hans Finns) röltum í verslanamiðstöðina stóru, Printemps Haussmann sem var rétt hjá hótelinu, fyrstu ferð þangað, þær urðu nokkrar.

Rándýrt mall, ég keypti held ég ekkert þar nema annan lás á ferðatöskuna og svo reyndar mat á skemmtilegum veitingastað þar uppi á efstu hæð. En útsýnið ofan af efstu hæðinni var gríðarlega flott, það var aðallega það sem heillaði við búðina. Reyndar mjög flottar vörur, alls konar merkjavara, ógurlega gaman að skoða húsbúnaðardeildina og fleira.

Náði að kaupa boli á yngri krakkana (í C&A) og svo tappatogara, sem náttúrlega hafði steingleymst að taka með, dæmigert.

Við Sarah gengum svo fram og til baka að leita að uppáhalds litla franska veitingastaðnum mínum, L’Incroyable, en fundum hann hvergi – hmm, þarf að tékka hvort hann sé nokkuð búinn að leggja upp laupana. Enduðum á stað sem ég man ekki hvað heitir og fengum, ja, kjötsúpu, bara án súpu, mauksoðið kjöt, kartöflur og grænmeti, alveg ágætt en ég geri nú ekkert síðra svoleiðis sjálf. Fín súkkulaðimús í desert, samt.

Aftur á hótelið, eins og venjulega er fáránlega gott að setjast niður með rauðvínsglas eftir endalaust plamp. Sváfum með galopna glugga, við Elín látum hvorugar smá umferðarnið trufla okkur (tja, reyndar lokaði ég glugganum þarna fyrstu nóttina, fullmikið af sírenuvæli, en hinar næturnar voru fínar).

loksins

við erum búin að bíða nánast síðan við fluttum hingað eftir að hér við götuna verði gjaldskyld bílastæði. Eins og oft hefur komið hér fram er maður iðulega mjög þreyttur á bílastæðavandræðum hér fyrir utan. Lið sem vinnur á Laugavegi er komið hingað upp úr níu á morgnana, bílarnir standa allan daginn fyrir utan húsið hjá mér, ekki nokkur leið að fá stæði, svo er líka fólk sem leggur hér í götunni og fer til útlanda í nokkrar vikur (urr). Í dag og gær komu hingað bréf frá Bílastæðasjóði, loksins er þetta komið á plan og nú er verið að hafa samráð við íbúa. Við skrifuðum náttúrlega eins og skot og lýstum jákvæðri skoðun okkar á málinu.

Vonandi fer þetta í gegn, fyrr en seinna.

túpa/túba

umræður áðan:

jonr:
túpulaga? cyradis, kannastu við þetta? ef þetta væri klarinettulaga, þá væri allt ok
cyradis:
hehe
cyradis:
það myndi vera túbulaga
cyradis:
ef það væri hljóðfærið
cyradis:
túpa er svona rör
jonr:
tannkremstúba er ss. eitthvað surreal?

Í framhaldinu sýndi ég Finnboga umræðurnar, hann kannaðist við fyrirbærið bjórtúbu og kom með þessa mynd:

en lagði ómögulega í slíka fulla tannkrems…

komin niður

í gegn um bunkann, sleppti slatta, er bókað ekki að missa af miklu.

Tannlæknir áðan, lokasprettur á nýju tönninni, gert upp, 81K úff. Hrikalega er svona dót dýrt. Má víst samt þakka fyrir að ekki þurfti að gera brú eða setja festingu í bein.

Erfiðar fréttir í morgun, stundum vildi maður óska þess að trúa á eitthvað og geta beðið fyrir fólki. Vonandi fer allt vel.

Best að vinna smá áður en ég sest við ferðasöguna…

úff

tók óratíma að fara gegn um póstinn og mér sýnist ég munu skauta yfir blogglistann minn, 251 ólesnar færslur…

komin

til baka frá París, voða fín ferð, ekki tókst allt sem ætlunin var að gera samt (tja, ekki tókst að kaupa allt sem ég ætlaði að kaupa, aðallega). Ætti að vera hægt að redda í næstu ferð, ekki oft sem maður fær tækifæri til að leiðrétta slíkan rugling svona fljótt.

Nánar á morgun, nú er ég að spá í að sinna manni og börnum aðeins.

farin

til Frakklands, hafið það gott á meðan.

var að velta

fyrir mér hvort ég ætti að taka lappann með. En nei, nenni því ómögulega, er ekki viss um að maður komist í net í vélinni (og ef það er hægt er það bókað dýrt) eða þá á hótelinu. Nevermænd, ég ætti að lifa af netlaus fram á þriðjudag. Kortið í myndavélinni er risastórt þannig að ég þarf ekki að hafa tölvuna með sem geymslu, nei, bækur og krossgátur, þaðheldégnú.


bland í poka

teljari

  • 380.688 heimsóknir

dagatal

maí 2008
S M F V F F S
 123
45678910
11121314151617
18192021222324
25262728293031

sagan endalausa