Sarpur fyrir júlí, 2008

wall-e

stendur undir sér sem nýjasta Pixar myndin. Mælum með henni. Ekki flókinn söguþráður en húmor í mörgum lögum. Fórum öll nema eldri unglingurinn, henni var boðið í garðpartí. Held svei mér þá að við höfum skemmt okkur álíka vel öll saman, Finnur sat þó fremst í sætinu allan tímann og starði dáleiddur á skjáinn.

Endilega skella sér í bíó…

og borgarstjóri getur

ekki svarað einni einustu spurningu með jái eða neii. Tómum málalengingum. Verður svo fúll.

Hvað er eiginlega langt eftir af þessum sirkus?

lengsti

hjólatúr hingað til í sumar, völdum þokkalega daginn til þess. Öskjuhlíðin, Fossvogsdalur, framhjá Víkingssvæðinu, undir Breiðholtsbraut, fundum þvílíkan snilldarstað, ég held ég færi þangað frekar en í Nauthólsvík – þar hefur væntanlega verið troðið í dag:

Áfram, upp í Fornalund, skoðuðum þar hellur og ákváðum nokkurn veginn hvernig lögnin hér bak við verður.

Heim, ekki sérlega leiðinlegt að hjóla niður Ártúnsbrekkuna, Sæbrautarmegin til baka. Túrinn samt slatti langur, finn fyrir fótunum ennþá.

Síðan þá, tja, garðurinn, ótrúlega heitt eins og Reykvíkingar og reyndar flestir aðrir landsmenn hafa væntanlega tekið eftir. Það besta við garðinn hérna er að það er svo auðvelt að komast í forsælu þegar verður of heitt á pallinum, eins og í dag.

Út í garð aftur núna, ennþá 18 stiga hiti á mælinum. Þvílík snilld.

Björn Stefán Lárusson in memoriam

Í dag lést föðurbróðir Jóns Lárusar, á hjartadeild Landspítalans.

Bjössi frændi, eins og hann var alltaf kallaður, var sá fyrsti úr tengdafjölskyldu minni sem ég hitti. Hann bjó í íbúð tengdaforeldra minna (prestshjóna austur í Odda) á Skúlagötu í Reykjavík, þar bjó svo Jón Lárus líka á meðan hann var í menntaskóla og síðar háskóla.

Bjössi tók fyrst eftir okkar sambandi með því að allt í einu var farin að heyrast klassísk tónlist innan úr herbergi Jóns, nokkuð sem ekki hafði farið mikið fyrir. Ekki leist honum nú illa á það, enda hafði hann takmarkaðan áhuga og álit á nýmóðins tónlist, svo sem jazzi, rokki, poppi eða þaðan af nýrri stefnum. Gott að einhver ætlaði að ala strákinn upp á almennilegri músík, fannst honum.

Björn var ótrúlega víðlesinn og fróður maður, einnig skarpgreindur og það var afskaplega skemmtilegt að tala við hann. Nokkrum árum yngri hefði hann væntanlega brillerað í spurningakeppnum ýmiss konar, enda sóttist fólk eftir að fá að vera með honum í liði í spurningaspilum. Oftar en ekki hrókur alls fagnaðar í samkvæmum, fylginn sér í pólitískum umræðum, ekki vorum við alltaf samstíga þar, en hann hlustaði ávallt á annarra rök, og tók mark á þeim, þó þau mögulega samrýmdust ekki hans skoðunum.

Fyrir utan einlægan tónlistaráhuga og gleði hafði hann mikið yndi af málaralist, stundaði söfn hér á landi og fór í margar utanlandsferðir til að skoða spennandi myndlistarsýningar. Víðförull var hann einnig, fór bæði langt í vestur og austur.

Björn var heilsulítill mestallt sitt líf, fékk flogaveiki ungur að árum. Hann kvæntist aldrei og eignaðist engin börn. Vann í Slippfélaginu meðan honum entist heilsa.

Ég votta Stefáni tengdaföður mínum, eina eftirlifandi bróðurnum, samúð mína, svo og öllum öðrum aðstandendum. Læknar og hjúkrunarfólk hjartadeildar og gjörgæslu Landspítalans eiga skilið bestu þakkir fyrir góða aðhlynningu og virðingu.

Bjössa frænda verður sárt saknað.

borgarstjóri sýnir

alltaf betur og betur hvað hann er bilaður.

Nú má ekki segja það sem honum ekki hentar.

Fáviti!

24°

sýndi síðan mælirinn í Sundlaug Seltjarnarness megnið af tímanum sem við vorum þar (jámm, annar hjólatúr, Finnur var orðinn ansi hreint þreyttur í bröttu brekkunum upp frá Tjörninni).

Snilldardagur. Grillaður lax síðan í kvöldmatinn. Verður lífið mikið betra?

22°

erum að bráðna hér úti í garði. Hjóluðum í Kringluna áðan, 4 af 5, bara eldri unglingurinn eftir heima – enda eigum við bara 4 hjól…

uppistand

fórum á æfingauppistand Snorra Hergils á Organ í kvöld. Bara hellings gaman að því, allt á ensku, enda verið að æfa sig fyrir Edinborg.

Hló samt held ég mest að hálfvitakonunni (erkitýpu heimsk ljóska, sveimérþá), ekki nóg með að hún væri með default Nokia lagið á símanum, leyfði honum að hringja í minnst mínútu og SVARAÐI síðan: „Hæ, já, skoh, jújú, allt ágætt, ég er sko hér á sjói (lítur í kring um sig), hvað heitir þessi staður aftur?“ Fattaði síðan alla opinmynntu í kring um sig og sagðist víst ekki geta talað lengur. Afsakaði sig við skemmtarann og fékk frosty: „Thank you“ á móti.

Vona Snorra gangi vel í Edinborg, á það vel inni. Mæli með sjóinu þegar hann kemur aftur.

Nanna

ansi hreint góð í þessari færslu.

risahvönnin

Ekki man ég nákvæmlega hvenær, en fyrir örfáum árum kom upp umræða um risahvönn, að hún geti verið skaðleg. Upp risu sjálfskipaðir röflarar, í blöðum og á bloggi, vælandi um að allt þyki nú hættulegt og hvaða vitleysa og leyfið þessum flottu plöntum að vera til, og svo framvegis.

Hvernig líður þeim nú, þegar barn liggur í einangrun, þakið annars stigs brunasárum?

sjá hér

Vonandi batnar drengnum fljótt og vel. Og burt með risahvannirnar úr Hljómskálagarðinum, takk.

frekar flott…

þétting

grillhint

Skiptum um hest í miðri á áðan, ætluðum að kaupa kjúklingabringur fyrir mexíkóskan rétt en í búðinni langaði okkur allt í einu í grill.

Galdurinn við góðan grillmat (kaupi maður ekki úr kjötborði og geymi sjálfur lengi) er að kaupa kjöt á eða sem næst síðasta söludegi. Nokkuð viss með að fá gríðarlega meyrt kjöt. Keyptum formarinerað lamb, (ekki rautt, samt) í Nóatúni áðan, rann út í dag, meyrara og betra kjöt hef ég ekki fengið lengi. Ekkert of salt heldur, hvítlauks- og rósmarínlögur Nóatúns er nefnilega bara fínn, öfugt við hið endalausa ofsalta og yfirpaprikulegna kjöt sem maður fær oft.

Mæli með þessu.

einn kafli

birti hér að gamni einn kaflann af tíu úr fiðludúettunum mínum, Hlíf Sigurjónsdóttir og Martin Frewer spila kafla 9, Allegretto e ritmico. Ég er bara komin með fimm af þeim í hendurnar, hina fimm á eftir að klippa til, hlakka til að fá seinni helminginn.

audacity

er eiginlega bara frekar flott forrit. Frítt á netinu, semsagt freeware, mér sýnist ég eiga eftir að geta notað það helling. Jei.

og sú yngri

tekur með sér símann sinn til vinkonu, að beiðni mömmu sinnar, en hefur síðan slökkt á honum. Tapar svo sem á því, þar sem ég ætlaði að hringja í hana og segja að hún mætti vera klukkutímanum lengur en ég var áður búin að segja.

eldri unglingurinn

farin að færa sig upp á skaftið. Þau pabbi hennar voru að þrífa í eldhúsinu, ég kem inn og segist geta tekið gaseldavélina fyrir (ekki skemmtilegasta verkefnið). Unglingurinn: Hmm, ég var nú búin að setja pabba í það verkefni…

gott svar

No matter who you supported in the primary,
this is just simply a wonderful response by
Jon Stewart to a stupid question:

Is America ready for a black president?

In Larry King’s interview with Jon Stewart,
Larry brought up the subject of the primaries
and asked Stewart if America was ready for
a woman or a black president.

Jon looked at him quizzically and said, „This
is such a non-question.

Did anyone ask us in 2000 if Americans were
ready for a moron?“

nú rúlla

úrvals kórverk íslensk, valin aðallega af mér og Þorgerði, með aðstoð nokkurra kórstjóra (takk Maggi, Árni Harðar og fleiri), fram og til baka í spilaranum í tölvunni. Í augnablikinu: Brennið þið vitar, auðvitað fengu karlakórarnir að vera með.

Get ekki alveg sleppt þessu, ennþá.

vá hvað þetta verkefni er búin að vera mikil innspýting.

Ég má hundur heita ef ég verð ekki featured composer á svona symposium einhvern tímann!

get svo ómögulega

hætt að vinna, nú er ég farin að pæla í hvað þurfi að vera með í næstu bæklingum og hverju við höfum mögulega gleymt núna.

úfff

kíkið á þetta.

Hélt fyrst að það væri fótósjoppað, en það virðist reyndar ekki vera.


bland í poka

teljari

  • 377.628 heimsóknir

dagatal

júlí 2008
S M F V F F S
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
2728293031  

sagan endalausa