Archive for the 'tónleikar' Category

Messías

Í fyrra söng Hljómeyki í frábærri Messíasaruppfærslu með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þar erum við ekki með í ár en Messíasarlaus er ég nú samt ekki, Kór Neskirkju ásamt Sinfóníuhljómsveit áhugamanna reddar málunum. Tvennir tónleikar, hinir fyrri voru í gær og síðan aftur á sunnudaginn kemur.

https://fbcdn-profile-a.akamaihd.net/hprofile-ak-snc6/276979_238460729614869_1684600601_n.jpg

Troðfull Neskirkja í gær, standing ovation og hrópað og klappað. Ógurlega skemmtilegt enda var gríðarmikil stemning á tónleikunum. Þann níunda verður stemningin allt öðruvísi en örugglega ekki verri, þar sem það verða sing-along tónleikar og fólk getur mætt með nótur og sungið af hjartans lyst. Býst við fullri kirkju af kórnördum og þakið ætti að fjúka af.

Verstur fjárinn að geta ekki bæði sungið og spilað! Það er ekki nokkur leið, allavega ekki sópran og aðra fiðlu (já ég er tekin við leiðarastöðu í annarri fiðlu, allavega fram á vorið).

Mæli allavega sterklega með þessu á sunnudaginn, veit ekki betur en þetta sé fyrsta skipti hér á landi sem boðið er upp á svona sing-along klassíska tónleika. Og ansi margir hafa jú sungið Messías gegn um tíðina. Mamma og pabbi eru búin að festa sér miða og finna til nóturnar.

Svíþjóð dagur 3

Laugardagur og aðal tónleikadagurinn. Sænskir verktakar virtust ekki byrja klukkan sjö um helgar, sæi það gerast hér (við hlið hótelsins var verið að gera upp næsta hús og þeir höfðu byrjað snemma morguninn áður).

Aftur morgunmatur klukkan níu með sama genginu og daginn áður. Notaði mér að senda sms til Péturs gegnum vodafone síðuna í stað þess að splæsa frá mér. Nógu dýr yrði símreikningurinn örugglega samt. Hvenær ætli komi annars að því að það verði ekki svona dýrt að tala milli landa?

Chillað á hótelinu fram að hádegi og þá stímt af stað á tónleikana hans Halla sem fram fóru í alveg ógurlega flottu raftónlistarrými sem heitir Audiorama og er úti á einni fjölmargra eyja í miðborg Stokkhólms. Leigubílstjórinn rataði ekki á tónleikastaðinn en það vildi til að ég gerði það. Tónleikarnir voru mjög fínir, flottustu sem ég hafði séð þar til þá, á hátíðinni. Bara tvö verk og bæði þrælflott.

Hafði mælt mér mót við sænska vinkonu, Mariu, í Moderna Museet eftir þessa tónleika, fengum okkur mat á kaffiteríu safnsins, coq au vin, mæli með því. Hún ætlaði síðan með mér á næstu tónleika, klukkutími í þá þannig að við röltum okkur yfir göngubrú út á næstu eyju við.

Veðrið var frábært eins og hér sést:

haust í Stokkhólmi

Síðan komu kórtónleikar. Nordic Voices. Ótrúlegur hópur, bókstaflega ótrúlegur. Verk skrifað fyrir þau af Lasse Thoresen bráðfyndið og skemmtilegt en ég hélt ég yrði ekki eldri þegar þau sungu aukalag, ókynnt en þau léku sér þvílíkt að yfirtónum að ég hef aldrei heyrt annað eins. Ef þið sjáið auglýstan konsert með Nordic Voices einhvers staðar nærri ykkur er skyldumæting. Takk.

Kvaddi Mariu, niður á Moderna Dans Teatret þar sem var danssýning hjá íslenskum danshöfundi, ég var ekkert þannig hrifin, öfugt við Pétur sem var algerlega gagntekinn af þessum dansi. Fokvont rauðvín í boði og allt of heitt, vont rauðvín þolir ekki íslenskan herbergishita.

Tebolli á kaffihúsinu og svo síðustu tónleikarnir, kammerkór konunglega tónlistarháskólans. Verk eftir meðal annars Matthew Whittall, Kanadamann sem hefur verið búsettur í Finnlandi um árabil. Frábært stykki.

Veit ekki hvort það er bara kórnördinn í mér eða hvort þessir kórtónleikar báðir voru toppurinn á hátíðinni fyrir hinum líka. Eric Ericssonshallen er líka frábært tónleikahús, aflögð kirkja á eyjunni, nánast hringlaga og mjög skemmtilegur hljómburður.

 

Rukum út þegar byrjað var að klappa, höfðum pantað mat á Le Bar Rouge, veitingahúsi/bar í Gamla Stan. Gengum þangað, tæplega hálftíma gangur frá Skeppsholmen þar sem við vorum. Já gleymdi því í síðustu færslu, tók mig einn og hálfan óratíma að finna stað og panta mat daginn áður en tókst að lokum.

Þurftum að bíða góða stund eftir borðinu og það var alveg voðalegur hávaði þarna inni (enda bar) en maturinn var fínn.

Pétur var ekki að kýla Halla þarna:

Smástund kíktum við í lokapartí hátíðarinnar og röltum síðan upp á hótel, himnaríki að komast úr skónum og í bólið.

Dagur #3. Tónleikar í Prag

Vöknuðum klukkan 7 en sofnuðum sem betur fer aftur – 5 að íslenskum tíma. Rumskuðum ekki fyrr en klukkan að verða níu og fannst við hafa sofið út. Morgunmatur og svo aðalæfing fyrir tónleikana um kvöldið. Gekk fínt. Hádegismatur, steiktar svínasneiðar og síðan bakaðar í rjómaosta/ostasósu með kúmeni. Afskaplega gott (já þetta blogg fjallar semsagt aðallega um músíkina og matinn í ferðinni, ekki endilega í þeirri röð).

Langur bíltúr til Prag, þarna vorum við 7 plús selló og hin hljóðfærin í bílnum. Fyrst var sellóinu troðið ofan á þær þrjár sem sátu fyrir aftan bílstjórann en síðan tók Martin fyrstifiðluleikari sem sat frammi í við hlið Miljos það og setti fyrir framan sig. Ekki það þægilegasta en við komumst jú öll með tölu til Prag. Þarna varð nú þrengst í bílnum.

Tónleikarnir þennan dag (16. júní, daginn fyrir þjóðhátíðardaginn) voru partur af stórum Íslandsdegi sem var haldinn í borgarbókasafni Prag. Það reyndist vera rétt hjá hótelinu sem við gistum á í Gradualekórferðinni þremur árum fyrr. 

Jana hafði verið hrædd um að það kæmi enginn á Íslandsdaginn því það var svo góð spá að allir myndu bara fara upp í sveit og enginn nenna að hanga inni í dimmum sal allan daginn. Þar reyndist hún hins vegar ekki sannspá því uppselt var á daginn og stappfullt í salnum. Við hlustuðum á part af fyrirlestri og skildum auðvitað ekki bofs, sáum hins vegar myndasýningu sem Palli stjórnaði, fyrst af húsum og graffitíi í Reykjavík og síðan af ferðaklósettum úti um landið. Fyndið. Flest pínulítil og í laginu eins og A. Það hefur verið heilmikil vinna að hreinlega finna öll þessi klósett. Palli átti heiðurinn af Reykjavíkurmyndunum en Jana hinum.

Þá tók við jarðfræðifyrirlestur um   Ísland en þá gáfumst við nú upp og fórum út, enda skildum við ekkert.  Einn og hálfur tími í tónleikana, sem voru lokapunktur Íslandsdagsins. Við Jón Lárus röltum í bæinn, það var allt of heitt til að vera í sólinni þannig að við fundum útiveitingahús og pöntuðum okkur bjór (Jón þeas, ég vildi ekki drekka neitt áður en ég syngi) og ísrétt (semsagt ég).

Þá var komið að tónleikunum. Afskaplega lítið pláss baksviðs, eitt þröngt herbergi til að skipta um föt. Uppgötvaði að ég hafði ekki pakkað niður tónleikakjólnum, hafði fundið hann til, brotið saman og sett í poka en ekki hafði pokinn ratað í bakpokann. Vildi til að ég var í nýja sumarkjólnum og það varð bara að duga – hefði ég verið í stuttbuxum og bol hefði ég orðið að fara og kaupa mér eitthvað dress. Sem hefði pottþétt verið taaaaaaalsvert dýrara í miðborg Prag en í Plzen. Úff já.

Tónleikarnir voru ógurlega skemmtilegir, verkin hvert öðru áheyrilegri (montin ég, nei nei!) Kannski eitthvað rati á þigrörið, þarf að fá leyfi hjá öllum fyrst. Tékkneska verkið eftir son slasaða sellóleikarans var hreint ekki síst og miðað við að hann er bara 18 ára var það aldeilis magnað. Sönglögin tókust fínt, svona flest allavega. Mjög gaman. Eydís kynnti á tékknesku og maður skildi bara nöfnin á lögunum.

Pöbbamatur og einn bjór og svo keyrt til Karlovy Vary. Vorum ekki komin þangað fyrr en að verða eitt um nóttina, við hrundum beina leið í bólið.

ánægð

já ég er gríðaránægð með upphaf Myrkra, fallegir gítartónleikar í hádeginu, skemmtileg blanda úr tónleikum hátíðarinnar í Víðsjá (58’08 og áfram) í dag og glæsilegir Sinfóníutónleikar. (linkur kemur þegar hann dettur inn hjá RÚV) Sérstaklega er ég hæstánægð með að nú virðist aftur vera farið að mega skrifa skemmtilega tónlist, nefni þar til sögunnar Huga Guðmunds og kennara hans frá Kaupmannahöfn, Hans Abrahamsen.

Á morgun kennir ýmissa grasa, Guðrún Jóhanna og Javi með hádegistónleika, Duo Landon klukkan þrjú (flytja meðal annars fiðludúetta undirritaðrar), Nordic Affect klukkan fimm, (verk Huga frá í útvarpinu flutt aftur), Caput með portrettónleika Önnu Þorvalds klukkan átta, Áshildur og mikið fleiri flautur klukkan tíu (heyrðu já, bráðskemmtilegt verk af þeim tónleikum var líka flutt í Víðsjánni, í lokin) og að síðustu Duo Harpwerk klukkan miðnætti með glæný verk eftir nemendur Listaháskólans og fleiri. (kannski hefði ég eiginlega átt að telja það með laugardagstónleikunum, fræðilega séð kominn laugardagur auðvitað).

Ég mun semsagt búa í Hörpu á morgun. Gott að fólk er hætt að taka sig endalaust alvarlega í faginu mínu og það má semsagt taka mark á manni þó maður sé ekki grafalvarlegur og depressífur!

Myrkir músíkdagar

hér er maður á kafi, bólakafi í hátíð nýrrar tónlistar á Íslandi, Myrkum músíkdögum, haldnir að mestu í Hörpu. Hellingur af spennandi tónleikum, 22 tónleikar í allt, byrjar í hádeginu á fimmtudaginn. Ég er búin að vera að setja upp og samræma prógrömm sem dreifa á fyrir hverja tónleika fyrir sig, ótrúlega mikil vinna en nálgast að verða tilbúin. Svo á eftir að ljósrita…

Dagskrá má finna hér.

Ég á eitt verk á hátíðinni, ekki kórverk (sem er reyndar frekar skrítið miðað við að það eru tvennir kórtónleikar) heldur strengjaverk, allir 10 fiðludúettarnir mínir. Hlakka til að heyra þá aftur, ásamt bráðskemmtilegum dúettum Atla Heimis sem við fengum nasaþefinn af síðast þegar mínir voru fluttir.

Vel má nefna að tónlistarnemar fá ókeypis á alla tónleika hátíðarinnar gegn framvísun nemendaskírteina (hmm, veit reyndar ekki til þess að gefin séu út nemendaskírteini í öllum tónlistarskólum…)

En mikið hlakka ég til þegar prógrömmin verða tilbúin!

hraðamet

Kokkteillinn virkaði, veit ekki hvað af dótinu gekk svona heiftarlega frá hæsinni, kannski blandan, en allavega mætti röddin á svæðið í gær og betri í morgun.

Söng semsagt með, gekk ágætlega í morgun en tók samt eitt stykki samþjappaðan raddreddsterakúr. Held hann hafi gert nákvæmlega ekkert fyrir mig, fann engan mun frá í morgun. (nú er að vita hvort ég get sofnað í nótt…).

Titillinn já. Sett var hraðamet á Messíasi hér á landi í kvöld. Stjórnandinn, Matthew Halls, þandi kórinn til síns ýtrasta (og vel það stundum) í kóloratúr. Það fyrirgafst honum hins vegar fyrir að vera sá hinn almest inspírerandi stjórnandi sem ég hef á ævinni unnið með. Hreyfingarnar, útgeislunin, snerpan alveg magnað allt saman. Hefði helst viljað endurtaka þetta á morgun og hinn! Hann harðbannaði okkur að skrifa inn styrkleika- og hraðabreytingamerkingar því það yrði allt saman spontan. Gríðarlega töff.

Hlakka til (að mestu leyti) að heyra þetta á jóladag – stillið endilega á Rás 1 og njótið, þið sem voruð ekki í salnum. Vildi óska að það hefði verið sjónvarpsupptaka…

Hóst. Hóst.

gat nú verið! 5 dögum áður en við eigum að syngja Messías með Sinfóníunni og daginn fyrir fyrstu æfingu með enska stjórnandanum byrjar mín að hósta. Skrítin í röddinni og illt í hálsinum á mánudeginum, ákveð að syngja ekkert á kvöldæfingunni heldur sitja úti í sal og hlusta. Tókst næææstum því, tók undir í eina kaflanum sem ég er ekki alveg með á tæru (eða þeas var ekki á mánudaginn – lærður núna).

Vakna svo auðvitað í morgun alveg þegjandi hás. Muuu.

Fór á hljómsveitaræfinguna, sat reyndar inni í kór en það var ekki spurning um að syngja eða ekki. Steinþagði.

Heim og kveinkaði mér á smettinu. Fékk auðvitað fullt af ráðleggingum.

Þannig að nú sit ég með trefil og hitapoka, sötrandi hálsbólgudrykk frá kaffisigrúnu, royal jelly töflur (í stað própólis, var ekki til í heilsubúðinni og heilsuhúsið lokað í dag vegna vörutalningar!), bé vítamín, dé vítamín (þetta tvennt reyndar sérstakar söngvararáðleggingar frá sérfræðingnum í heilsubúðinni sem gaf mér dé vítamínskot upp á 500 einingar, hvað sem það nú er) sniffandi tetréolíu og búin að spreyja mig með avamys nefspreyinu drengsins (það reyndar í stað þess að skola nefið með saltvatni).

Svo er bara að krossa putta. Þið megið gjarnan gera það með mér, takk. Held mig heima á morgun, ekki bara út af tónleikunum, væri ekki beinlínis sniðugt að fara að kenna með röddina í þessu ástandi. Þarf yfirleitt bara að kynna mig þegar ég hringi í skólana og tala með minni fínu rámu bassarödd, til að þau grípi þetta…

todmobile

Þegar ég var í tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík hér forðum daga (úff hvað mig langar ekki að rifja upp hvað er langt síðan) voru bæði Þorvaldur Bjarni og Eyþór Arnalds með mér í tónsmíðabekknum (ásamt fleirum auðvitað). Þannig að ég var sjálfskrifaður Todmobileaðdáandi eiginlega frá því áður en grúppan var stofnuð.

Í kvöld, loksins, fékk ég svo að troða upp með bandinu, fyrsta skipti ever sem Todmobile hefur haft kór á tónleikum. Komum fram í fimm lögum af um 20, hrikalega skemmtilegt, stemningin í Eldborg ólýsanleg. Þetta verður sko ekki í síðasta skipti, pant Hljómeyki vera áskriftarkór!

Nú erum við annars búin að syngja bæði með Sólstöfum og Todmobile á innan við ári. Stefnubreyting? Nei fjölhæfni…

yfirhæp

Stundum

eru hlutir skemmdir með því að hrósa þeim í topp.

Oft

efast maður fyrirfram um að slíkt hrós eigi rétt á sér.

En það er engu logið á Gustavo Dudamel. Það er ástæða fyrir því að hann er stjarna, það er ástæða fyrir því að hann var valinn einn 100 áhrifamestu í heimi af Time magazine.

Á tónleikunum í kvöld var ekki nóg með að hann hefði tónlistina og hljómsveitina undir fingrunum heldur hafði hann salinn fullkomlega á sínu valdi. Ég hef aldrei orðið vitni að öðru eins og hef ég þó setið ansi marga tónleika hjá frægu og flottu tónlistarfólki. Meira að segja var íslenski tónleikahóstinn varla til staðar.

Kórónaði síðan allt saman með að vera ótrúlega laus við stjörnustæla, lét hljómsveitina njóta klappsins, fór svo langt inn í sveitina undir klappi að blómastúlka Hörpu fann hann ekki fyrr en henni var bent á hann.

Takk fyrir mig, Dudamel og Gautaborg – ég hefði helst viljað halda áfram að hlusta í alla nótt.

Afmælistónleikarnir

Nýkomin heim frá Egilsstöðum, Þorbjörn bróðir varð fertugur í sumar og lengi var búið að plana að halda afmælistónleika undir merkjum Sumartóna í Egilsstaðakirkju. Fyrst var held ég meiningin að það væru bara Þorbjörn sjálfur og svo Hallveig systir sem héldu tónleika en síðan kom upp sá möguleiki að við systkinin, sem erum jú öll söngmenntuð og störfum (mismikið þó) við söng, gæfum bróður vorum söng í afmælisgjöf. Tónleikaröðin myndi greiða píanista sem spilaði með okkur.

Til stóð að tónleikarnir yrðu 30. júní, daginn eftir afmælið sjálft. Búið var að bóka þennan líka æðislega píanóleikara og við nokkurn veginn búin að velja lög, aríur, dúetta og fleira. Þá kom fyrsta babbið í bátinn, lýst hér.

Batinn tók talsverðan tíma, (sem betur fer er hann fullur núna, hamingjunni sé lof) þannig að ekkert vit var í að halda tónleikum og veislu til streitu. Töluðum okkur saman og fundum út að eini möguleikinn væri um miðjan ágúst. Sextándi varð fyrir valinu, vegna ýmissa ástæðna, þeirrar kannski helstrar að Torvald sem sér um sumartónaröðina var að fara til útlanda daginn eftir en líka vegna þess að Hallveig verður með tónleika á menningarnótt og vildi ekki vera of nálægt henni. Þá hófst leit að nýjum meðleikara því okkar kona var auðvitað búin að lofa sér á þeim tíma. Töluðum við alla sem okkur mögulega kom í hug að gætu tekið svonalagað að sér með stuttum fyrirvara. Leitin gekk takmarkað vel þar til Þorbjörn auglýsti á flettismettinu. Þá kom strax ein sem var spennt fyrir þessu. Við tókum vel í það, héldum fund með henni og afhentum nótur.

Viku síðar kom síðan í ljós að þarna hafði hún reist sér hurðarás um öxl. Nánast ekki spilað neitt af þessu áður og sumt var vægast sagt snúið þó það kannski liti einfalt út. Fyrir píanóleikara sem er ekki í fullri þjálfun – já þetta var semsagt einum of. Hún bauðst reyndar til, ef við ekki fyndum neinn annan, að hætta við sumarfrísferðina sína og æfa sig dag og nótt fram að tónleikum. Við vildum nú samt reyna frekar að finna aðra lausn.

Allt í uppnámi aftur. Þar til Kristín mágkona, kona Óla bróður stakk upp á að hann hringdi í vin sinn og meðleikara, hljómsveitarstjórann og píanistann Peter Ford, sem hann hafði margoft unnið með, við sæktum semsagt píanóleikara alla leið til Bretlands. Peter brást glaður við og var til í að spila fyrir farmiða og uppihaldi (takktakktakk!).

Síðan kom nú það alvarlegasta upp á. Besti vinur hennar Hallveigar (og auðvitað vinur okkar allra) lést við köfun á Eyrarsundi. Minningarathöfn um hann var haldin, jú 16. ágúst. Klukkan 15:00 og tónleikarnir voru settir klukkan 20:00. Ekki kom annað til greina en Hallveig væri við athöfnina (reyndar þótti okkur öllum hræðilega sárt að geta ekki verið þar líka). Þetta átti nú samt að geta gengið upp, Hallveig flaug í bæinn að morgni þess sextánda og átti flug til baka klukkan 18:00.

Nema hvað upp úr hádeginu fær hún sms frá Flugfélagi Íslands um seinkun á fluginu til klukkan 20:30! Það var víst fótboltalið að spila leik á Eskifirði og þeir þurftu að ná fluginu í bæinn. Og auðvitað kom engan veginn til greina að áhöfn og vél biðu á Egilsstaðavelli frekar en Reykjavík. Fótbolti náttúrlega gengur fyrir öllu…

Tónleikunum frestað til klukkan 21:15 og prógrammið stokkað upp þannig að Hallveig yrði ekkert fyrr en eftir hlé. Auglýstum seinkunina á netinu og í útvarpinu og hringdum og sendum sms til allra sem okkur datt í hug að myndu mögulega ætla að koma á tónleikana. Um 30 manns mættu samt á svæðið klukkan átta.

Hringdum í flugfélagið upp úr klukkan hálfníu og vélin hafði farið í loftið 8 mínútum eftir áætlaðan tíma. Ekki mátti nefnilega fara út í Egilsstaðavélina fyrr en Grænlandsvél sem lenti rétt á undan hafði tæmt sig (grrr – gat það lið ekki beðið í 5 mínútur úr því þessi vél var tveimur og hálfum tíma of sein þá þegar???) Hallveig og stúlka sem hafði líka farið í minningarathöfnina, ætlaði á tónleikana og var með bílinn sinn úti á velli höfðu látið taka frá sæti númer 1a og 1b, voru hvorug með farangur til að bíða eftir svo þær gátu rokið beint úr vélinni upp í kirkju.

Hófum tónleikana, enn pínu stressuð. Húsfyllir í kirkjunni. Í hléi mætti Hallveig á svæðið, svippaði sér í tónleikapilsið (var fulltónleikadressuð fyrir utan það) – og við gátum klárað.

Þrátt fyrir þetta ótrúlega hindrunarhlaup voru tónleikarnir mjög skemmtilegir, allavega fyrir okkur – og Peter píanóleikari stóð sig stórkostlega! Kærar þakkir.

Fleiri myndir hér.

Var að hugsa um

að leyfa öðrum að komast að í húsinu langþráða núna um helgina. Tókst ekki alveg, hlustaði á litlusystur vígja Kaldalón í gær og laumaðist að heyra yngri dótturina syngja í Silfurbergi áðan. Annars er nú spurning um að okkar fjölskylda sé búin að vera nægilega frek á tímann þarna alveg í bili.

Þvílík örtröð fólks niðurfrá báða dagana. Bílum lagt auðvitað gersamlega úti um allt, þetta var ekki alveg eins svakalegt og menningarnótt eða þorláksmessa en def næsti bær við. Öngþveiti á götunum, ösnuðumst til að fara að versla vestur á Granda og festumst auðvitað, bæði á leiðinni þangað og heim aftur (Bilbo kvót hvað?)

Silfurberg er ekki besti salurinn, skil ekki alveg hvers vegna allir þessir mislitlu krakkar fengu ekki Norðurljósin en væntanlega hefur meiningin verið að vígja alla salina. Kannski hefði verið hægt að hafa eina opna ráðstefnu? Stelpurnar voru allavega flottar, sungu tvö lög bæði útsett af mér…

hátíð

já, formleg opnunarhátíð Hörpu, enn syngjum við systkinin og dóttirin nema reyndar hefur bróðurdóttir tekið við af Tobba bró – hann sendir dóttur sína í Raddir Íslands.

Ég var eiginlega búin að gefa Fífu miðann minn en svo bauðst henni að syngja líka með og treystir sér ekki í að sitja alla þessa löngu tónleika fyrir seinna hlé og fara svo upp á svið að syngja, þannig að ég ákvað að nota miðann minn bara sjálf, mun sem sagt sitja í sal og hlusta í fyrsta skipti í kvöld. Heilmikið bland í poka (bland í Hörpu?) prógramm og reykvélar hjá nýgildingunum, við fundum fyrir því á æfingunni í gær, allt í þoku þegar við komum inn. Vonandi verður hægt að loftræsa salinn í seinna hléi.

Svo er nú að detta ekki fram af svölum 3 með lága handriðinu.

Gæti skrifað röflfærslu um hitt og þetta, til dæmis PR mistök númer 1 upp í 200 (getið hver þau voru) og fæðina sem visir.is virðist leggja á húsið en ég er að hugsa um að gleðjast – og vona það verði ekki brjáluð mótmæli fyrir utan í kvöld. Pínu hrædd um það nefnilega.

Allavega kom frétt á þýskri sjónvarpsstöð, hægt er að sjá okkur Hallveigu systur og Fífu á 4:15 – meira að segja skýrt!

Og enn heldur

ævintýrið áfram – maður var kominn með fráhvarfseinkenni frá Níundu en smá skammtur eftir. Formleg opnun Hörpu á föstudaginn, hellingur og glás af spennandi efni, alls konar músík, mikið breiðara svið (já Bubbi, nýgilda tónlistin fær sinn skammt, þú getur andað léttar). Endað á lokakafla Beethoven og síðan þjóðsöngnum sem við syngjum ásamt Röddum Íslands og væntanlega tekur salurinn undir.

Í stað Óperukórsins kemur Kór íslensku óperunnar, nei ekki sami kórinn sko, talsvert minni (20 í stað um 70) þannig að við verðum eitthvað færri á sviðinu. Verður mjög forvitnilegt að finna mun á kaflanum hjá Askenasí og Sakari. Fyrsta æfing núna eftir hálftíma.

Ef þið eigið ekki miða er um að gera að horfa á þetta í sjónvarpinu, jámm bein útsending…

ó

Hörpuævintýri ríflega hálfnað – í þessari viku, mæting á síðustu tónleika vikunnar eftir rúman hálftíma.

Skrýddi mig upp í skósítt svart og ermasítt ásamt perlufesti og eyrnalokkum. Okkur hafði verið uppálagt að vera bara með lítt áberandi skraut og enga liti, allar Hljómeykis/Áskonurnar hlýddu þessu samviskusamlega en þegar við komum í upphitun tókum við eftir því að langflestar Óperukórskonurnar voru með perlufestar. Hvítar, sem er auðvitað ekki litur, ég hafði samt hugsað um hvort ég ætti að skrýðast perlufesti en hætti við, gæti skorið mig úr. Hefði semsagt ekki gert það. Spurði eina Óperukórsfraukuna hvers vegna við hinar hefðum ekki verið látnar vita af perlufestaákvörðun en þá er þetta víst standard á tónleikum Óperukórsins og ekkert þurft að tala um það sem sé.

Þannig að á fyrstu tónleikunum skiptumst við í Óperukórinn og Óperlukórinn.

En vá annars hvað þetta er GAAAMAN!

útskriftir

eru á fullu í Listaháskólanum þessa dagana, kemst á allt allt of fáa tónleika en reyni að redda því með að gerast fiðluleikari á gamals aldri og stökkva á spilamennsku þar sem mér býðst. Útskriftarnemarnir hafa ekki verið neitt voðalega fúlir yfir því reyndar, enda oft erfitt að veiða hljóðfæraleikara, það er ofgnótt af tónsmíðanemum í deildinni en ekki alveg eins mikið af hljóðfæraleikurum enda eru þau flest eins og útspýtt hundskinn á þessum tíma árs að reyna að halda sína eigin lokatónleika annarinnar plús spila á öðrum hvorum tónsmíðatónleikum. Þannig að fleiri puttar sem geta stutt á strengi eru vel þegnir.

Hvort maður hefur tíma í þetta, það er hins vegar allt annar handleggur á allt öðrum manni. En skemmtilegt er það.

Samæfing kóra í fyrramálið, hlakka til að hitta Óperukórinn sem mun syngja með okkur í Hörpu í þessari viku.

smellir

Man nokk vel eftir því þegar ég var krakki og var kennt að á tónleikum ætti ekki að heyrast í manni þar sem það gæti auðveldlega truflað fólk í kring. Nokkuð sem ég hef innrætt mínum ungum líka með góðum árangri. Það sem ég þoldi verst, mögulega fyrir utan skrjáf í konfektpokum (hvað var líka eiginlega með að selja konfekt í hörðum sellófanpokum í leikhúsi og óperu?) voru heldri frýr sem þurftu alltaf að vera að taka upp gleraugun sín og setja niður aftur og létu smella í gleraugnahulstrunum.

Nú er ég ein þessara frúa sem þarf að nota gleraugu til að geta lesið prógrammið.

En ekki að ræða það að ég láti heyrast til mín smella í gleraugnahulstri! Né heldur skrjáfa í nammipoka…

alveg er ég viss um

að fullt af Neiurum er búið að fela mig á smettinu, búin að vera allt of aktíf að plögga já í málinu sem má ekki nefna.

En nóg um það, bloggið á að vera frísvæði.

Byrjuðum á Béfætinum, níundu sinfóníunni á æfingunni á mánudaginn var. Við Hljómeykisfyrstusóprönur fundum tæpast fyrir hæðinni enda í fínu formi eftir Schnittke. Hlakka annars verulega til að fara á fyrstu æfingu í Hörpu eftir rétt ríflega mánuð. Fór þangað um daginn að skoða, Eldborgin er að verða ansi hreint flott bara, myndin sem ég tók var því miður ónýt en þetta svæði verður líka skemmtilegt:

Svo stendur til að endurtaka Schnittke, erum að reyna að koma saman dagsetningu (plís plííís!). Það var ótrúlega magnað að flytja þetta, ég er búin að setja þrjá af fjórum köflum á netið. Hér fer sá fyrsti. Tek samt fram að það að horfa og hlusta á upptökur af þessu er ekkert nálægt upplifuninni af tónleikum, fullt af fólki sem kom í Guðríðarkirkju er búið að segjast koma aftur í bænum. Ein keyrði meira að segja upp í Skálholt daginn eftir fyrri tónleikana og hlustaði á þá síðari.

Já, kaflinn…

að afloknum

fyrstu Myrkum músíkdögum sem ég kem að sem hluti stjórnar Tónskáldafélagsins. Gersamlega búin á því eftir helgina, sautján tónleikar og aðrar uppákomur plús svo móttökur og tvö partí svona frekar langt fram á nótt. Að minnsta kosti var ekki fræðilegur að ég vaknaði til að mæta í spriklið á mánudagsmorgninum. Og tek ég þó fram að ég er ekki nægur masókisti til að vera klukkan eldsnemma, 10:15 er feikinógu snemmt fyrir slíkar píningar.

Hátíðin gekk allavega gríðarlega vel, mjög fjölbreyttir tónleikar með alls konar músík, langoftast mjög vel sótt, helst að það hafi virkað hálftómlegt á tónleikunum okkar í Hljómeyki í Neskirkju – en hún er reyndar ansi stór, hefðum við verið í Listasafninu hefði verið ágætlega setið.

Svo er víst bara að byrja að undirbúa Norræna tónlistardaga sem verða hér á landi í haust. Þar er undirrituð víst titluð aðstoðarverkefnisstjóri – og það verður ekki minni hátíð en sú sem nú var að klárast…

stend á haus

í Myrkum músíkdögum, hátíðin byrjaði í dag og þó ég sé nú ekki formlega í framkvæmdanefnd hennar þá er ýmislegt um að hugsa og svona sem stjórnarmaður í Tónskáldafélaginu mæti ég nú á alla þá tónleika sem ég mögulega næ.

Mæli annars með hátíðinni, sýnist hún verða gríðarlega fjölbreytt og skemmtileg, heimasíðan er hér, kíkið endilega!

jólakortin, tónleikar og smá röfl

frá – eða nánast. Tvö ár í röð sendum við engin og það þynnti svolítið út í haugnum sem er bara reyndar ágætt. Gott að skerpa á áherslunum og senda svo bara frekar kort á netinu á breiðari hóp. Keypti samt aaaðeins of fá kort í ár en væntanlega fullmörg frímerki reyndar.

Styttist líka í jólatónleikaflóðinu, fór á tónleika í fyrrakvöld, söng eina í gærkvöldi, fór á eina til í kvöld og stefni á að fara á styrktartónleika í Neskirkju á miðvikudagskvöldið – kyrrðartónleikarnir hjá Hallveigu og Steina eru orðnir alveg ómissandi hluti aðventunnar.

Stráksi söng áðan í upptöku á jólamessu biskups til sýningar á aðfangadagskvöld. Hann var ekkert sérlega glaður með það reyndar, drengjakórinn söng í messu í gær líka og það verður að viðurkennast að það er ekki það alskemmtilegasta sem hann gerir. Ég er pínu hrædd um að hann sé mögulega að gefast upp á kórnum og það er eingöngu út af öllum þessum messum sem þeir þurfa að syngja. Drengjakórinn sér um eina í mánuði og það fer umtalsverður tími á æfingum í að undirbúa þær (allavega samkvæmt honum).

Ef kirkjan ætlar að laða til sín fólk er ekki besta leiðin að láta litla krakka syngja við messur með prédikun af fullri lengd og altarisgöngu. Reyndar græt ég ekki aðferðirnar per se en mér finnst synd að drengir fælist frá kórstarfinu út af þessu.


bland í poka

teljari

  • 375.560 heimsóknir

dagatal

janúar 2023
S M F V F F S
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
293031  

sagan endalausa