Sarpur fyrir júní, 2012

Dagur #7. Karlovy Vary

Vaknaði eldsnemma. Allt of snemma. Skrifaði dagbókarfærsluna sem birtist í gær. Sofnaði aftur og svaf til níu. Ekki slæmt.

Framan af degi var ekki mikið frásagnarvert, við Jón settumst bara út á svalir og lásum. Það var um 28° hiti en skýjaslæða, hefði eiginlega ekki getað verið mikið þægilegra. Ég lét alveg vera að fá mér bjór þennan daginn enda tónleikar um kvöldið. Eitthvað smá þurftum við að hoppa út og inn með stólana vegna rigningardropa sem duttu af og til.

Skutumst í hádegismat þegar húsbóndinn kom heim eftir hljómsveitaræfingu. Heimtuðum að fá að borga fyrir alla sem borðuðu, maður er svo borinn á höndum sér hérna að maður reynir að gera það sem maður getur.

Aftur út á pall og setið þar þangað til var kominn tími til að finna sig til fyrir tónleika kvöldsins. Í þetta skipti klikkaði ekki kjóllinn. Smá upphitun og svo keyrt yfir í hina hlíðina í nýuppgert listahús. 

Hina hlíðina já, miðbær Karlovy Vary er árfarvegur og ansi mjór, skógi vaxnar hlíðar báðu megin. Hús Miljos og Hönu er á frábærum stað norðan í hlíðinni beint yfir túristamiðbænum. Örugglega rándýrt svæði.

Tónleikahúsið var mjög fallegt og eins og ég sagði, nýuppgert. Becherovkasnafs er framleiddur í Karlovy Vary og verksmiðjan hafði kostað viðgerðirnar á húsinu sem hafði víst verið í ansi mikilli niðurníðslu.

Æfing fyrir tónleika, svo smá bið, leist ekki á að margir myndu koma, 5 mínútum fyrir byrjun sátu bara 8 í salnum en síðan hópaðist að fólk á síðustu stundu og salurinn var svo til fullur. Lítill salur reyndar, bara um 40-50 manns. Tékkarnir sögðu okkur síðan að þetta hefði verið í fyrsta skipti sem haldnir voru tónleikar í þessum sal (húsið var semsagt ekki listahús áður en það féll í niðurníðslu heldur einhvers konar frístundahús fyrir börn).

Tónleikarnir gengu ljómandi vel, talsvert betur en á Íslandsdeginum.  Fínar undirtektir, mjög skemmtileg upplifun. Dauðsá eftir að vera að fara heim daginn eftir og missa af síðustu tvennu tónleikunum. Við höfðum ekki tíma til að vera alveg tvær vikur en hefðum alveg getað tekið helgina inn í og farið heim á mánudegi. Athugunarleysi. Síðustu tónleikarnir yrðu í Bayreuth, hinni miklu Wagnerborg, heiður að fá verkið sitt flutt þar í tónleikaröð og ég hef ekki einu sinni komið þangað!
Blóm og fuglsstytta eftirá, sérstaklega viðeigandi þar sem við enduðum á að syngja Lítill fugl eftir Fúsa, gaf Hönu blómin mín svo þau gætu notið. Heimboð hjá slasaða sellistanum, skálað í Plzensku freyðivíni og spjallað fram á nótt – skildum auðvitað lítið þar sem megnið fór fram á tékknesku. Gæti vel hugsað mér að læra málið, eftir 5 ferðir til Tékklands er maður aðeins byrjaður að grípa. Og nei, þetta verður ekki síðasta ferðin!

Annar kaflinn úr Strengjakvartett #1

Dagur #6. Villur

Þessi dagur fór í heimsóknir til Plzen. Fórum af stað upp úr hálfníu, Eydís keyrði bílinn hans Miljos. Ferðin þangað gekk rífandi og við fórum beint heim til Jaromírs og Alenu sem höfðu tekið á móti okkur með kostum og kynjum eins og ég lýsti á enska blogginu mínu fyrir fjórum árum sjá hér og reyndar færslurnar á undan. Spjall og samlokur og kökur – og svo farið út að fá sér hádegismat. Þetta var síðan bara forsmekkurinn að deginum svona matarlega séð.

Tékkland er semsagt stórhættulegt ef maður vill passa línurnar. Að minnsta kosti ef maður er í því að heimsækja heimafólk. Allir búnir að útbúa heilu fötin af smurðu brauði og kökum. Ein heimsókn á dag er eiginlega hámarkið.

Og við sem vorum að fara í þrjár…

Allavega var gríðarskemmtilegt að hitta þau aftur, ásamt fleira fólki – Andrea, söngkonan sem söng í fuglaverkinu mínu (mynd) bættist við á veitingahúsinu.

Alena fór að kenna og Andrea heim en við fórum aðeins aftur til baka með Jaromír. Hann var að enda við að klára bachelorgráðu í einhvers konar heilsuvísindum og við fengum að prófa ótrúlega græju, fótanuddtæki sem maður stendur á og hristist og hristist, svei mér þá ef stofnfruman mín settlaðist ekki á sinn stað (djóóók). Okkur Jóni þótti þetta hrikalega gott en Eydís gat ekki tekið undir, entist bara nokkrar sekúndur. Þetta er mjög spes. Verst að báðar myndirnar sem ég tók eru út úr fókus – kannski er maður bara ekki í fókus á græjunni!

Tramminn niður í bæ, keyptum Hobbitann á tékknesku, gjöf handa Fífu og ís/bjór. Sem var auðvitað misráðið. 

Næsta heimsókn – römbuðum á húsið hjá fiðluleikarapari vinum Eydísar. Við höfðum aldrei hitt þetta fólk áður en eins og aðrir þarna voru þau hið indælasta fólk. Tveir frekar fyrirferðarmiklir guttar en ótrúlega mikil talent, spiluðu fyrir okkur á blokkflautu (ekkert Góða mamma neitt, invention eftir Bach – sá átta ára) og Le petit négre eftir Debussy á píanó, sá ellefu ára. Þeir voru líka mjög flinkir með einhverjar sirkusgræjur og sá eldri kunni að hjóla á einhjóli.

Bakkelsi og ís með jarðarberjum þarna. Skildum mest í þessari heimsókn, bóndinn var þýskur og töluð var heilmikil blanda tungumála. Frekar snúið að reyna að tala/skilja 4 mál í einu. Lofaði að senda þeim fiðludúettaseríuna mína.

Þá fyrsta villan. Síðasta heimsókn dagsins var til Vařeks, fagottleikara frá fyrir fjórum árum. Skoðuðum kort af leiðinni en tókst að keyra frekar illilega af leið og vorum komin svona fjórðung af leiðinni til Prag þegar við áttuðum okkur. Spurðum til vegar og snérum við, tókst að komast í réttan bæjarhluta, fyrst þó í vitlaust hverfi, hringt í Vařek sem sagði okkur til og fór út að gatnamótum til að veifa okkur.

Meiri veitingar, flottir krakkar, gaman að hitta þau aftur. Spjölluðum í góða stund, uppgötvuðum okkur til ánægju að Vařek hafði orðið svo impóneraður af gestabókinni okkar, þegar við buðum þeim í mat einu sinni að hann hafði startað sinni eigin og við fengum að skrifa – og svo af stað aftur, nú heim til Karlovy Vary. Eftir krókaleiðum.

Aftur semsagt vitlaus beygja. Gríðarfalleg leið reyndar, ekkert verri en hin leiðin, verst að við vorum ekki alveg viss um það og þurftum að tékka á kortinu enn og aftur. Gaman að sjá héra hlaupa yfir veginn líka. Römbuðum síðan loksins á aðalveginn til Karlovy Vary.

Ekki var þó ævintýrið alveg úti, einu sinni til tókst okkur að beygja vitlaust, einni beygju of snemma inn í bæinn og lentum á flugvellinum við KV í staðinn. Það var nú ekki langvinnt sem betur fór, þetta síðla kvölds var orðið ágætt af þröngum vegum gegn um skóg í myrkri.

Heim og beint að sofa eftir langan dag.

Dagur #5. Kassar

Sváfum út, alveg til rúmlega átta. Allir hinir sváfu ekki út (hmm enginn hinna svaf semsagt út). Miljo fór á æfingu, Ivan eldri sonurinn í skólann, Eydís keyrði Hönku út á flugvöll í veg fyrir yngri soninn sem hafði verið í sumarbúðum fyrir astmakrakka í Þýskalandi og fór síðan til Plzen í heimsóknir. Við vorum semsagt í algjöru fríi þennan dag og upp á eigin spýtur. Engar harðsperrur frá deginum áður, mesta furða!

Sturta og morgunmatur sem þau hin höfðu skilið eftir á borðinu fyrir okkur, te og kaffi á brúsum.

Nokkrum dögum fyrr hafði ég nefnt við Miljo að mig bráðvantaði að kaupa víólukassa. Keyptum nefnilega víólu í fullri stærð fyrir Finn í vetur, trekvart hljóðfærið hans var að verða of lítið og við höfum haft þá stefnu að kaupa þokkalega góð hljóðfæri handa krökkunum þegar þau hafa þurft fulla stærð. Nógu góð instrúment til að þau geti látið þau duga, gerist þau ekki atvinnuhljóðfæraleikarar. Freyja á ágætis selló og núna fékk Finnur semsagt víólu. (Fífa var með svo góða fiðlu í láni að hún hefur ekki fengið slíka gjöf – svo þurfti hún auðvitað að skila henni og á bara draslhljóðfæri. Dauðsé eftir því).

Allavega, keypt var gömul víóla sem víóluleikari í Sinfóníunni átti. Sá dó fyrir nokkuð mörgum árum. Hljóðfærið var í eeeeldgömlum kassa, ég er að hugsa um að fara með hann á Þjóðminjasafnið. Eða Tónlistarsafn Íslands. Ég er ekki að grínast.

Já, hafði semsagt spurt hvort þau vissu hvar væri hægt að kaupa þokkalega víólukassa, hvort maður þyrfti að fara til Prag eða Plzen eða álíka. Tja nei, sagði Miljo, það er búð í Karlovy Vary, tékkum á henni fyrst. (Tékkum! Múhahaha). Kvöldið fyrir þennan heita dag rak ég svo augun í búðina. Þriggja mínútna göngutúr frá húsinu okkar.

Við þangað.

Afgreiðslugaurinn sat fyrir utan og las í blaði þegar við komum. Inn í búð og við urðum gersamlega dolfallin. Þetta var ekki beinlínis Tónastöðin.

Kassa áttu þau, jújú. Kostuðu ekkert. Keyptum bæði víólu- og fiðlukassa, samanlagt innan við 11 þúsund krónur. (fiðlukassinn minn er orðinn ansi lélegur, enda orðinn 35 ára gamall. Engin þreytumerki á fiðlunni samt). Kannski er þetta óttalegt drasl, það á eftir að koma bara í ljós en tapið verður þá ekki stórt.

Svona þegar ég skrifa þetta þá hefði ég auðvitað átt að kaupa fiðlu handa Fífu líka…

Svo aftur niður í bæ. Það var heitt. Fórum í austurenda miðbæjarins, þar var risahótel í mörgum byggingum, rándýrt greinilega enda þvílíku glæsikerrurnar fyrir utan.  Var skíthrædd um að bílastæðavörðurinn kæmi hlaupandi eftir mér og skammaði mig fyrir að taka mynd af bílnum á stæðinu.

Þarna uppi í brekku átti víst að vera einhver turn, við reyndum að labba uppeftir en römbuðum ekki á réttan stíg.

Út í hinn enda bæjarins, maður var orðinn ansi þyrstur en bjórverðið þarna var nánast hærra en í miðborg Prag, enda er þetta ekki bara túristastaður heldur sérstaklega sækja ríkir túristar Karlovy Vary heim. Enduðum alveg í hinum enda miðbæjarins og þá var auðvitað bara kominn tími á hádegismat. Langaði í andaconfit en það var alls staðar dýrt, vorum nærri fallin fyrir því á einum veitingastað en það var einhver svo hrikalega ágengur þjónn eða eigandi eða álíka fyrir utan að reyna að troða okkur inn á staðinn að við fengum alveg nóg og hættum við. Enduðum á pizzu og bjór á Litla prinsinum. Fínt bara.

Smá útúrdúr í litla verslunarmiðstöð, tókst að kaupa mér þriðja kjólinn í ferðinni, veit ekki hvað í ósköpunum kom yfir mig í þessari ferð. Ég sem kaupi mér nánast aldrei nein föt…

Fylltum upp af drykkjarvörum og svo heim. Göngutúrinn endaði í ríflega átta kílómetrum þennan dag – og það var sko ekki allt á jafnsléttu! Í ríflega þrjátíu gráðu hita og sól.

Ákváðum að gera nákvæmlega ekkert restina af deginum, plöntuðum okkur út á svalir (sólin var nánast farin af svölunum) með bók og hvítvín. Kláraði þarna aðra bókina í ferðinni en Jón skrapaðist áfram í fimmtu bókinni í Song of Ice and Fire.

Um kvöldið settumst við út með hinu fólkinu og sáum þar í fyrsta skipti eldflugur. Magnað fyrirbæri. Ekki nóg með að við værum að sjá þær í fyrsta skipti heldur höfðu gestgjafar okkar aldrei séð svoleiðis heldur. Tókst ekki að taka mynd af þeim samt. Seinna um kvöldið heyrðum við líka í fyrsta skipti í tékkneskri sekkjapípu, okkur tókst að draga Miljo að hljóðfærinu og hann spilaði fyrir okkur í góða stund.

Allt í allt snilldardagur. Þó það hafi verið fullheitt.

heyrnartólin

þau skærgrænu og retró – þættinum barst bréf með beiðni um mynd:

Fín, ik?

Tékkland dagur #4. Göngur

Vaknaði hálfsjö en gat sem betur fer sofnað aftur og sofið alveg til klukkan átta. Bara sofið út… Restin af húsinu steinsvaf hins vegar til ríflega 10 þannig að við lágum bara uppi í bóli og lásum.

Eftir síðbúinn morgunverð löbbuðum við ásamt Eydísi í bæinn þar sem Miljo og Hanka þurftu að skjótast í búð og vesenast eitthvað. Bráðfallegur miðbær, heitir hverir og hellingur af túristum. Eydís heimtaði að við fengjum okkur oblátur. Já lásuð rétt. Oblátur. Það er sérréttur þarna og hreint ekki eins slæmt og það hljómar, eiginlega bara slatti gott. Hægt að fá þær með vanillukremi, hnetukremi eða súkkulaði. Við Jón Lárus fengum okkur bæði með dökku súkkulaði og það var eiginlega alveg eins og Prins Póló.

Þarna var hægt að kaupa snafs staðarins, hið þekkta Becherovka, á bás. Tæpast sæi maður slíkt hér uppi á klaka:

 

 

Heim aftur, lögðum ekki í snarbröttu brekkuna sem við höfðum gengið niður og tókum aðeins lengri leið. Samt bratt. Jón Lárus loggaði leiðina sem við gengum og hún var um fimm km.

 

 

Eftir léttan hádegismat fórum við síðan í göngutúr um skóg í nágrenni Karlovy Vary. Lenka, annar fiðlarinn í kvartettinum býr í útjaðri skógarins, við byrjuðum á því að pikka hana upp og gengum síðan af stað. Sáum skærgrænt hús (sko skærara en okkar!) og ég sagði að svona lit á húsum sæi maður tæpast á Íslandi. (Svo sá ég reyndar hús í dag í mjög svipuðum lit á Kárastíg – útúrdúr). Upp og niður, þvílíkar hæðir og hóla. Um miðja vegu komum við skyndilega að veitingastað.  Þar inni í miðjum skógi (reyndar við ána) var síðan til Master, mjög sérkennilegt að finna hann þarna. Reyndar alveg nógu spes að koma að þessum veitingastað.

Þarna voru ótrúlega fallegir klettar. Efst á þeim voru síðan stangir til að festa í reipi fyrir klifurvitleysinga. Tók mynd til að sýna tengdasyninum sem er einmitt slíkur klifurvitleysingur…

Mér var ekki alveg sama að labba yfir þessa dúandi brú: 

Miljo og Lenka fóru síðan til baka sömu leið en við hin héldum áfram meðfram ánni þar til við mættum Miljo sem kom á bílnum til að sækja okkur.  Heim til Lenku aftur í kaffi og kökur þó klukkan væri orðin meira en sex. Bráðfallegt hús og risastór og flottur garður.

Heim, stirð og stíf, örugglega harðsperrur á morgun eftir 12 ½ km göngu sem var mjög langt frá því að vera á jafnsléttu. Og enn var borðað…

 

Dagur #3. Tónleikar í Prag

Vöknuðum klukkan 7 en sofnuðum sem betur fer aftur – 5 að íslenskum tíma. Rumskuðum ekki fyrr en klukkan að verða níu og fannst við hafa sofið út. Morgunmatur og svo aðalæfing fyrir tónleikana um kvöldið. Gekk fínt. Hádegismatur, steiktar svínasneiðar og síðan bakaðar í rjómaosta/ostasósu með kúmeni. Afskaplega gott (já þetta blogg fjallar semsagt aðallega um músíkina og matinn í ferðinni, ekki endilega í þeirri röð).

Langur bíltúr til Prag, þarna vorum við 7 plús selló og hin hljóðfærin í bílnum. Fyrst var sellóinu troðið ofan á þær þrjár sem sátu fyrir aftan bílstjórann en síðan tók Martin fyrstifiðluleikari sem sat frammi í við hlið Miljos það og setti fyrir framan sig. Ekki það þægilegasta en við komumst jú öll með tölu til Prag. Þarna varð nú þrengst í bílnum.

Tónleikarnir þennan dag (16. júní, daginn fyrir þjóðhátíðardaginn) voru partur af stórum Íslandsdegi sem var haldinn í borgarbókasafni Prag. Það reyndist vera rétt hjá hótelinu sem við gistum á í Gradualekórferðinni þremur árum fyrr. 

Jana hafði verið hrædd um að það kæmi enginn á Íslandsdaginn því það var svo góð spá að allir myndu bara fara upp í sveit og enginn nenna að hanga inni í dimmum sal allan daginn. Þar reyndist hún hins vegar ekki sannspá því uppselt var á daginn og stappfullt í salnum. Við hlustuðum á part af fyrirlestri og skildum auðvitað ekki bofs, sáum hins vegar myndasýningu sem Palli stjórnaði, fyrst af húsum og graffitíi í Reykjavík og síðan af ferðaklósettum úti um landið. Fyndið. Flest pínulítil og í laginu eins og A. Það hefur verið heilmikil vinna að hreinlega finna öll þessi klósett. Palli átti heiðurinn af Reykjavíkurmyndunum en Jana hinum.

Þá tók við jarðfræðifyrirlestur um   Ísland en þá gáfumst við nú upp og fórum út, enda skildum við ekkert.  Einn og hálfur tími í tónleikana, sem voru lokapunktur Íslandsdagsins. Við Jón Lárus röltum í bæinn, það var allt of heitt til að vera í sólinni þannig að við fundum útiveitingahús og pöntuðum okkur bjór (Jón þeas, ég vildi ekki drekka neitt áður en ég syngi) og ísrétt (semsagt ég).

Þá var komið að tónleikunum. Afskaplega lítið pláss baksviðs, eitt þröngt herbergi til að skipta um föt. Uppgötvaði að ég hafði ekki pakkað niður tónleikakjólnum, hafði fundið hann til, brotið saman og sett í poka en ekki hafði pokinn ratað í bakpokann. Vildi til að ég var í nýja sumarkjólnum og það varð bara að duga – hefði ég verið í stuttbuxum og bol hefði ég orðið að fara og kaupa mér eitthvað dress. Sem hefði pottþétt verið taaaaaaalsvert dýrara í miðborg Prag en í Plzen. Úff já.

Tónleikarnir voru ógurlega skemmtilegir, verkin hvert öðru áheyrilegri (montin ég, nei nei!) Kannski eitthvað rati á þigrörið, þarf að fá leyfi hjá öllum fyrst. Tékkneska verkið eftir son slasaða sellóleikarans var hreint ekki síst og miðað við að hann er bara 18 ára var það aldeilis magnað. Sönglögin tókust fínt, svona flest allavega. Mjög gaman. Eydís kynnti á tékknesku og maður skildi bara nöfnin á lögunum.

Pöbbamatur og einn bjór og svo keyrt til Karlovy Vary. Vorum ekki komin þangað fyrr en að verða eitt um nóttina, við hrundum beina leið í bólið.

Dagur #2. Plzen-Karlovy Vary

Eftir morgunverðarhlaðborð hjá Jönu vorum við sótt af Miljo og Eydísi. Keyrðum fyrst á gamlar slóðir í Plzen á æfingu þar sem ég fékk að heyra kvartettinn í fyrsta skipti, öðruvísi en sem midi skrá úr tölvunni. Ekki hægt að líkja því saman hvað live flutningur er mikið flottari, ég var bara nokkuð ánægð með árangurinn. Fínir spilarar, hafði ekki nema nokkrar smá athugasemdir fyrir þau. Æfðum líka íslensku lögin sem ég hafði hamast við að útsetja dagana áður en við fórum út Þrjú þjóðlög og þrjú kompóneruð lög, (átti reyndar tvö þeirra útsett fyrir). Hrikalega gaman að fá að syngja með þessum fínu músíköntum.

Miljo bauð upp á hádegismat á stað þar sem matseðillinn var eingöngu á tékknesku – tók smástund að átta sig á því hvað var í boði og samt kom maturinn mér á óvart þegar hann kom. Ekki sem verstur matur, kjúklingasnitsel með frönskum og mjög góðu hrásalati og rifnum gulrótum.

Eftirá átti svo að æfa hin verkin á efnisskránni, eitt tékkneskt og eitt annað íslenskt, óbókvintett eftir Sigurð Sævarsson. Við ákváðum að rölta frekar um í Plzen og rifja upp miðbæinn, ekki ástæða til að sitja yfir þeim meðan þau æfðu.

Byrjaði á að hoppa inn í búð og kaupa mér þennan sumarkjól sem ég fann ekki í Danmörku, í stað uppáhalds kjólsins míns sem rifnaði uppi í Skálholti í fyrra. Átti eftir að koma sér vel.

 

Á torginu var alveg ógurlega skemmtilegur markaður, ég reyndar dauðsá eftir að vera búin að borða. Fáránlega mörg spennandi tjöld með alls konar pylsum og steikum og mismunandi útgáfum af kartöflum og svo auðvitað bjór og ís og nammi. Keyptum risastór regnbogahlaupstykki til að fara með heim og gefa krökkunum.

Leituðum og leituðum að Master bjórnum, firnadökkur bjór frá Urquell brugghúsinu sem er staðsett í Plzen. Hvergi fannst hann. Í staðinn var tekinn einn dökkur Kozel á Svejk veitingastaðnum (frekar óspennandi) og svo röltum við til að hitta á kvartettinn. Tróðum okkur 6 og sellói , fiðlum, víólu og töskunum okkar í tæplega 8 manna Peugeot/Golf/Égveitekkihvaðblöndu Miljos og keyrðum til Karlovy Vary sem yrði bækistöð okkar þessa viku. Hana, kona Miljos tók á móti okkur með kostum og kynjum, inniskóm og kvöldmat. Í Tékklandi er sá siður að allir fara úr skónum en húsráðendur útvega inniskó fyrir gestina. Skemmtilegt.

Einnig þarna sátum við góða stund og spjölluðum yfir rauðvíni sem Miljo kom með í kút frá Spáni. Skiptumst á að sýna myndir af krökkunum okkar og húsunum okkar (sumarhúsi þeirra). Óttalega var nú svo samt gott að fara að sofa í stóra herberginu sem okkur var úthlutað.

Tékkland dagur #1. Þangað.

Aldrei þessu vant tókum við rútuna út á völl, Fífa ætlaði að fá að nota bílinn og hún var búin að vera lasin þannig að við vorum ekkert að ræsa hana til að skutla okkur. Enda er líka bara ágætlega þægilegt að fara með rútunni.

Höfðum gleymt að tékka okkur inn á netinu um morguninn en sem betur fer er það jú þægilegt í kössunum á vellinum. Losnuðum við þessa einu tösku sem við vorum með – veit ekki hvort Loftbrúrmiðinn minn hefði dugað fyrir 100 kílóum eins og þeir gerðu sjálfkrafa hér einu sinni, þegar ég flaug í fyrsta sinn á slíkum miða hikstaði stelpan í baggage drop á heimildinni minni, hafði aldrei séð þvílíka tölu áður í reitnum leyfileg þyngd farangurs. Og ég sem var bara með ósköp venjulegt magn, eina tösku ef ég man rétt, enda þurfa tónskáld ekki mikið magn af græjum með sér.

Fríhafnarsmotterí, ein bók, reyndar heyrnartól í stað þessarra (sjá líka næstu færslu hér að neðan), samt ekki nándar nærri eins dýr, síðar kannski. Skærgræn og retro. Smágjafir handa gestgjöfum.

Saga Lounge, ég uppgötvaði að ég get ekki boðið með mér gestum á mínu korti (bögg), það er bara aukakort frá bóndans, spurning hvort hann geti tekið með sér inn. Tékka á því fyrir Parísarferðina, hvort krakkarnir geti komið með okkur. Slefuðum nefnilega í platínukort fyrir hrun og höfum haldið þeim síðan. Lúxusdýrin.

Upp að hliði þegar var komið Go to gate melding, dauðsáum eftir því þar sem við stóðum þar upp á endann í 20 mínútur sem hefði verið betur varið í facebook og annan tebolla niðri.

Flugferðin var ekki í frásögur færandi nema flugfreyjan átti í ógurlegu basli með að koma frá sér tilkynningunum sínum á dönsku. Ekki hennar besta hlið. Þjónustan um borð var annars óaðfinnanleg. Lúxusdýrin tímdu annars ekki að kaupa sér mat í vélinni heldur voru með túnfisksamlokur að heiman.

Köben, ná í tösku, geyma tösku í garderoben, lestin til Ørestaden til að kíkja á verslunarmiðstöðina þar. Rándýrt fargjald reyndar, 72 danskar krónur fram og til baka, alveg tvær stöðvar. Hún var alveg eins og aðrar slíkar kringlur. Ætlaði að svipast um eftir sumarkjól en endaði samt á að kaupa mér svartan og ekkert sumarlegan – eitt það leiðinlegasta sem ég geri er að versla. Nema mat, alltaf gaman að koma í útlenskar matarbúðir. Þarna var reyndar bara slík inni í risa Bilka markaði. Freistuðumst líka að kaupa stóran bakka af kirsuberjum. Þau eru ennþá kaupandi í Danmörku, öfugt við hér heima.

Vorum að spá í að fara í ruslfæði en sáum þá sushistað og fengum okkur slíkt í staðinn. Góð skipti og alveg ljómandi sushi.

Aftur á völlinn, enga stund að tékka inn, óratími í “öryggisbiðröðinni”, næsta lounge, ekki eins flott og Saga, reyndar bjartara en ekki eins mikið úrval af mat og drykk. Reyndar annað lounge á Kastrup, prófast síðar. Samt ekki á leiðinni heim.

Flugið til Prag gekk að óskum, ekki í frásögur færandi. Á flugvellinum var hins vegar tekið á móti okkur með kostum og kynjum, brauði og salti, íslenskum fána og snafs.

Þar voru komnar tvær aðalsprauturnar í Íslandsfanatikerunum (nei ekki fanklúbbi, fanatíkerum), Jana og Palli (Pavel). Jana lét ekki fótbrot og hækjur aftra sér frá því að koma og ná í okkur á völlinn. (ókei bóndi hennar, sem er ekki í fanklúbbnum, keyrði).

Við áttum að fá að gista hjá þeim þessa nótt þar sem Miljo víóluleikari og aðalsprautan í verkefninu var að spila á tónleikum þetta kvöld og gat ekki náð í okkur nema við myndum bíða á flugvellinum í tvo klukkutíma. Þáðum frekar gistingu hjá fanatikuliðinu. Sáum auðvitað svo ekki eftir því, yndislegt fólk sem hlóð undir okkur, talaði ágætis ensku og við spjölluðum fram eftir kvöldi yfir mat, bjór, víni og meiri snafsi.


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

júní 2012
S M F V F F S
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930

sagan endalausa