Sarpur fyrir september, 2010

nýtni á texta

Humm. Ég þarf að fara að nýta textann betur í verkinu sem ég er að vinna. Er að skrifa fyrir samnorræna keppni, snilldartexti á latínu, verkið á að vera 20-30 mínútur, ég er hálfnuð með textann en bara búin með fimm mínútur af músík. Þetta gengur náttúrlega engan veginn. Nýta og endurnýta, það er greinilegt að ég þarf að vera duglegri í endurvinnslunni.

Mér finnst annars glatað að kunna ekki almennilega latínu. Þessi texti er reyndar talsvert ítölskuskotinn, það þurfti reyndar latínumann til að segja mér það, ekki áttaði ég mig á því sjálf, ónei. Ég er með enska þýðingu á honum en ekki frá orði til orðs og þær þýðingarvélar sem ég hef fundið á netinu hjálpa ótrúlega lítið við nákvæmnisþýðingu. Ætti kannski ekki að vera að semja við texta sem ég skil ekki nógu nákvæmlega en hann er bara svo FLOTTUR!

Svo get ég reyndar væntanlega ekki notað ensku þýðinguna á honum þar sem hún er örugglega undir höfundarrétti. Humm. Spurning um að kaupa sér þýðingu?

alltaf jafn

fáránlega góð tilfinning þegar miðvikudagskvöldið er runnið upp (geta annars kvöld runnið upp eða bara dagar?) og þessir þrír löööööngu dagar vikunnar búnir. Mánudagur frá níu til tíu, þriðjudagur hálftíu til tíu og miðvikudagur hálftíu, tja kennslan reyndar ekki nema til hálfátta en í kvöld var líka fundur, var búin klukkan hálftíu og náði í unglinginn á hljómsveitaræfingu klukkan rétt fyrir tíu.

(já já, ég veit, heimskulegt að monta sig af því hvað maður hafi nú mikið að gera, eins og þið öll hin séuð ekki álíka upptekin).

Mér finnst hins vegar vel þess virði að hrúga svona á þrjá daga til að geta haft síðustu tvo frí (bwahahah, frí!). Eða til að semja…

Spurning reyndar hvort maður á að henda inn umsókn um starfslaun á föstudaginn, ég hef ekki sótt um starfslaun í örugglega 7 ár eða svo. Ef einhver man eftir bloggfóníunni minni – já ég sótti semsagt um hana síðast og er alveg búin með svona 3 mínútur af þriðja kafla (Allegro furioso – Barnaland kemst í málið) þannig að ekki get ég sýnt fram á að vera búin með mikið þar. Hef samt svo sem verið að semja heilan helling þannig að það gerir væntanlega ekki sérlega mikið til.

vísindavakan

við Jón Lárus fórum með guttann á Vísindavökuna á föstudaginn var. Fullt af gríðarlega spennandi básum og sýningum, stráksi hreifst auðvitað af Sprengjugengi efnafræðinema og hauskúpum mannfræðideildar og heilaþverskurði læknadeildar og stærðfræðiforriti á netinu. En mikið þarf nú vakan að komast í annað húsnæði en Listasafn Reykjavíkur og básarnir þurfa líka að verða stærri og fjölmannaðri. Ótrúlegur troðningur, ekki bara erfitt að komast að básunum heldur nánast ómögulegt að komast milli þeirra líka.

Hvar gæti þetta verið næst? Hörpu? Sting upp á því.

plögg dagsins

er færsla. Nema færsla dagsins sé plögg

Hann Smári McCarthy kunningi minn og einn alklárasti (ef ekki sá klárasti) náungi sem ég veit ætlar að bjóða sig fram til stjórnlagaþings.

Ef það á einhver erindi þar inn þá er það hann. Ég hef ákveðið að gerast stuðningsmaður og undirskrifandi og hvet alla vini og kunningja og já, alla sem hefur einhvern tímann þótt eitthvað vit í því sem ég er að tjá mig að skoða það sem hann hefur fram að færa.

Akkúrat núna er hann á alþjóðaráðstefnunni Internet at liberty, hér er viðtal sem var tekið við hann þar:

Hér er svo pistill frá honum um stjórnlagaþing og nýja stjórnarskrá. Stel miskunnarlaust af facebook þar sem ég held maður þurfi að vera fbvinur til að geta lesið:

Markmið nýrrar stjórnarskrár
by Smári McCarthy on Sunday, 05 September 2010 at 14:37
Þegar lagt er upp með að skrifa nýja stjórnarskrá verðum við að velta fyrir okkur hvað markmiðin eru. Margir hafa sagt núgildandi stjórnarskrá vera ágæta, sem ég er nokkuð ósammála, en þó er ég á því að ef breyta eigi stjórnarskránni þá verðum við að vita til hvers.
Ísland hefur ekki haft margar stjórnarskrár, en sú sem nú gildir er sú eina sem við höfum haft á lýðveldistímanum þrátt fyrir ætlanir um að breyta henni frá upphafi. Stjórnarskrá Íslands frá 1944 var samþykkt á sínum tíma til bráðabirgða, og þjáist hún verulega fyrir það að vera runnin undan rifjum danskra embættismanna í stað þess að hafa verið smíðuð með íslenskar aðstæður í huga og hagsmuni íslendinga að leiðarljósi.
Það er hægt að rífast mikið um það hversu mikil áhrif stjórnarskrá hefur á raunverulegu dagsdaglegu starfsemi innan lands. Mitt viðhorf kemur til af því að ég hef unnið í áratug við að skoða hvernig upplýsingar flæða og hvernig kerfi virka, og ef ég hef lært eitthvað á þeim tíma þá er það það að grunnforsendurnar geta skipt sköpum – rangar grunnforsendur geta leitt til hörmunga.
Lexíur frá Bólivíu
Það er ekki oft sem Ísland er borið saman við Bólivíu, en þar gekk ný stjórnarskrá í gildi 7. febrúar 2009. Þar hafa verið í gildi þar 17 mismunandi stjórnarskrár síðan 1826; að meðaltali ein ný stjórnarskrá á ellefu ára fresti. Það er óhætt að fullyrða að Bólivíumenn eru komnir með ágætis reynslu af því hvernig mismunandi form stjórnarskráa getur haft mismunandi áhrif á stjórnun lands, réttarríkið og, ekki síst, afkomu þjóðar.
Það er áhugavert að skoða Bólivísku stjórnarskránna frá 2009 í ljósi þess að hún var samin með ólíkt uppbyggileg markmið í huga miðað við fyrri stjórnarskrár. Hún táknaði enda sambands milli ríkis og kirkju í Bólivíu, hún kvað skýrt á um jafnræði milli þjóðflokka, setur skýr mörk um landeignir, og tekur á mörgum erfiðum málefnum – til dæmis stendur í 384. grein að kókaplantan sé hluti af menningararfleið landsins, að hún sé ekki eiturlyf í sínu náttúrulega formi, og að ríkið skuli annast eftirlit með verðlagningu, endursölu, framleiðslu og iðnvæðingu plöntunar.
Landeignareglan segir að enginn aðili megi eiga meira en 5000 hektara lands, eða 50 ferkílómetra, sem er þannig séð ekki svo ólíkt íslensku landúthlutunarreglunni frá landnámsöld. Einnig kemur fram í stjórnarskránni að allar náttúruauðlindir séu þjóðarinnar, og enginn hafi framsalsrétt á þeim til erlendra aðila.
Það er margt gott við þessa nýju stjórnarskrá, en kannski ekki síst hvað hún þorir að ganga langt til að ná sínum settu markmiðum. En þó er ég ekki allskostar sáttur við allt sem í henni er. Einmenningskosningar sem ákvarðast af “fyrstur í mark”-kjöri eru til dæmis afskaplega óréttlátar, þar sem aðeins hluti atkvæða í hverju kjördæmi hefur áhrif á niðurstöður kosninganna, og þá er íslenska nálgunin, að nota færanlega hlutfallskosningu, miklu betri. Enn betra væri að nota kerfi sem uppfyllir skilyrði de Condorcet, í það minnsta fyrr stærsta hlutmengi sem hefði Condorcet-sigurvegara, en slíkt er ekkert sérstaklega algengt. Einnig er vafasamt í Bólivísku stjórnarskránni hve mikil völd kjörstjórn hefur, en eflaust má færa ágætis rök fyrir því að svo sé.
(Spænskan mín er afleit, þannig að mín vitneskja um þessa stjórnarskrá kemur úr ýmsum heimildum á ensku, aumum tilraunum til að lesa stjórnarskránna sjálfa með hjálp orðabókar, og spjall við vinkonu mína sem þekkir þetta ágætlega)
Þetta Bólivíska dæmi er ágætt út af því hversu nýlega er búið að taka það fyrir og hversu mikil hefð er fyrir stjórnarskrárbreytingum í landinu. Evo Morales hélt því fram þegar þessi var samin að nú væri markmiðið að búa til stjórnarskrá sem myndi endast í þúsund ár. Eða í það minnsta aðeins meira en ellefu.
En hvert þá?
Ef Íslendingar ætla sér nú að búa til sína eigin stjórnarskrá sem á að endast í hundrað ár, hvað þá þúsund, þá verðum við að geta gert okkur í hugarlund hvernig heimurinn mun verða eftir þann tíma. Ég þykist ekkert sérstaklega berdreyminn og hef afskaplega litla spáhæfileika, en ég get ímyndað mér að einhver af vandamálum næstu aldar verði:
Verulegar breytingar á aðgengi að auðlindum, þá bæði vegna breytinga á loftslagi og vegna þess hvað gengið var hart á auðlindir á tuttugustu öld. Stríð munu eflaust blossa upp vegna aðgengis að frumefnum á borð við litíum og tantalum, en fæst þeirra verða árásarstríð; þau munu flest eiga sér stað bak við luktar dyr í stofnunum á borð við WTO.
Aðgengi að upplýsingum; þar sem þróun á upplýsingatækni hefur enga ástæðu til að hægjast og skilningur okkar á mætti upplýsinga eykst stöðugt, þá munu ótal vandamál koma upp í tengslum við tjáningarfrelsi, hugverkarétti, og gerviskorti. Sú barátta sem nú á sér stað í netheimum um þessi mál mun smitast í auknu mæli yfir í “kjötheima”.
Iðnaður mun breytast verulega með tilkomu aukinnar sjálfvirkni. Ég tel að spádómar Piore og Sabel muni rætast, og ný iðnbylting muni færa framleiðslugetuna í hendurnar á almenningi með auknum hætti, ef eigandavald stendur ekki of mikið í vegi fyrir það.
Þetta þrennt muni skapa aðstæður þar sem draumur Gorz um gullöld atvinnuleysisins geta orðið að veruleika – atvinnulíf mun gjörbreytast og verða valkvæmt að meira mæli en áður, en þá þarf að tryggja öllum grunnframfærslu og skapa betri jarðveg fyrir menningarstarfsemi.
Meðan á þessu stendur mun þjóðin eldast verulega. Barneignum fækkar, fólk lifir lengur, og ef ekkert breytist mun þetta hafa verulega íþyngjandi áhrif á velferðarkerfið. Geta okkar til að sinna sjúkum, öldruðum og fötluðum mun verða gríðarlega stór þáttur í samfélaginu okkar.
Skilningur okkar á mannslíkamanum, lífríkinu og eðlisheiminum á eftir að aukast verulega. Í dag skiptum við um hér um bil hvaða líffæri sem er í fólki, ekki er langt þar til að verulega erfiðar siðferðislegar spurningar fara að blossa upp í samfélaginu: geta tveir eða fleiri einstaklingar notað sama líkama? Hvaða réttindi hafa klón? Hefur einstaklingur sem hefur losað sig við líkama sinn ennþá kröfu til mannréttinda?
Þjóðríkjum mun fækka en sjálfstæðum löndum mun fjölga. Síðustu hundruð ár hafa bandaríki Ameríku verið eina landið sem hefur stækkað markvisst, þróunin allsstaðar annarsstaðar er að smærri lönd verða til þar sem forsendur þjóðríkjafyrirkomulagsins bresta. Á Íslandi verður birtingarmyndin líklega aukin krafa til sjálfsstjórnar á því stigi sem við kennum nú við sveitarfélög.
Togstreita milli þjóðernishyggju og múltíkúltúralisma á eftir að ná meiri hæðum með aukinni tengingu milli trúarbragða og þjóðarímyndar. Evrópusambandið á eftir að þurfa að finna einhverja nýja leið út úr því veseni sem það er að koma sér í. Dulda kynþáttahatrið sem felst í fjölþjóðastefnu þarf að uppræta; á Íslandi mun það þýða verulega aukningu í blöndun þjóða, tungumála og hefða.
Ef við ætlum að smíða stjórnarskrá fyrir Ísland sem endist næstu öldina, þá munum við þurfa að taka tillit til þessara atriða, og margra annarra. Við þurfum að taka mið af því gildismati sem er að koma fram og forðast að hengja okkur í gildismati fyrri tíma.
Hverjir bera kyndilinn?
Ég hef ekki séð annað en að þeir sem munu koma að gerð nýrrar stjórnarskrár passi nokkuð vel í þrjá hópa.
Fyrsti hópurinn verður uppfullur af afdönkuðum pólitíkusum sem vilja baða sig einu sinni enn í frægðarljómanum sem fylgir því að stofna nýtt lýðveldi og svo einstaka rísandi stjörnu úr stuttbuxnadeildum flokkanna sem er að reyna að afla sér reynslu í vernduðu umhverfi. Kosningaherferðir þessa hóps verða auðþekktar á því að þeir slá upp undir tveggja milljón krónu hámarkið með styrkjum frá undarlega ónefndum aðilum og fá svo í kjölfarið stuðningsyfirlýsingar og ókeypis auglýsingar frá ýmsum aðilum, kannski mismikið eftir því hvað baráttan verður hörð.
Annar hópurinn verður skipaður fræðimönnum, prófessorum í stjórnmálafræði, lögfræði, og fleiri greinum, sem flestir hverjir munu hafa langan starfsferil að baki í að rannsaka núverandi stjórnskipulag, og vita það að ef breytingar eru gerðar verður öll vinnan þeirra rýrð gildi sínu að hluta. Þó verða þessir aðilar flestir hverjir með einhverjar hugsjónir sem koma af því að hafa horft upp á eitthvað misfarast í stjórnkerfi landsins alla sína starfsævi; þeir munu bera þetta atriði upp sem baráttumál sitt. Þessir aðilar munu birtast í kappræðum sem yfirvegaðir og sjálfsöruggir, leiðréttandi öll mistökin sem hópur þrjú gerir með spekingslegum svip.
Þriðji hópurinn er skipaður pólitískum öfgamönnum sem hafa sterkar skoðanir á öllu milli himins og jarðar, hafa rætt heimsmálin yfir þó nokkuð mörgum kaffibollum og telja sig vita nákvæmlega hvað þurfi að gera. Einhverjir í þessum hóp munu aldrei hafa lesið stjórnarskrá Íslands, hvað þá annarra landa, og flestir þeirra munu telja að allsherjarregla sé “regla” í merkingunni “lögmál”, en ekki “regla” í merkingunni “reiða”. Kosningaherferðir þessa hóps munu sennilega eiga sér stað fyrst og fremst á Facebook, en einhverjir eiga örugglega eftir að efna til fámennra útifunda á Austurvelli.
Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér. Þennan kyndil verður ögn breiðari og skynsamari hópur að bera. Sér í lagi þarf ungt fólk að koma inn í þetta af miklu afli. Ungt fólk mun þurfa að verða gamalt undir þeirri stjórnarskrá sem verður til núna, nema um Bólivískan óstöðugleika verði að ræða, og því skiptir miklu máli að unga fólkið fái að leggja sitt gildismat í púkkið. Ég sagði við vin minn um daginn, sem á von á barni, að aðkoma hans að nýrri stjórnarskrá yrði sennilega besta gjöf sem hann gæti gefið barninu sínu, og mér var mjög alvara með það. Góður vinur minn sagði eitt sinn um ástandið í Íran að “ef unga fólkið tekur ekki völdin munu illu skeggin halda þeim.” Sama á við hér.
Markmið hinna
Mín markmið með nýrri stjórnarskrá eru því ólík markmiðum margra annarra. Ég tel að við verðum að ákveða hvert við viljum fara áður en við leggjum af stað, en það er ljóst að sumir eru bara ekkert sammála um að það eigi nokkuð að leggja af stað. Allskonar stefnur blossa upp á þessum leikvelli, enda eru hagsmunir svo margra með í leiknum – ekki bara þeirra sem nú lifa á landinu, heldur líka þeirra sem munu flytja hingað eða fæðast hér á næstu öld. Einhverjir eiga eftir að leika afturhaldssemishlutverkið í þessu stjórnlagaþingi, einhverjir munu taka eitthvað sem þeir kalla gullin meðalveg, og einhverjir eiga eftir að ganga hart fram með stefnuskrá úr framtíðinni.
Hvað svo sem gerist í stjórnlagaþinginu, þá verður útkoman að vera betra samfélag. Ef við getum ekki sammælst um neitt annað en það þá er það þó eitthvað.

letisunnudagar

eru hreint ekki sem verstir. Bannaði bóndanum að fara í hjólatúr þegar ruslatunnan fauk um koll í garðinum, það eru nú takmörk fyrir því hvað er hægt að láta veðrið ekki hafa áhrif á sig. Í svona veðri er bara best að þurfa sem minnst að fara út.

Fífa reyndar á æfingu í allan dag og svo ætla ég að kenna henni að elda alvöru bolognese í kvöld. Já og þarf víst að skjótast á bókasafnið. Og sækja Finn til ömmu sinnar og afa. Og hjálpa honum að æfa sig (hlakka til þegar hann fer að geta gert það sjálfur eins og stelpurnar).

Samt rólegt, víst rólegt!

að búa til

afmælisgjafir er góð skemmtun.

Er samt ekki alveg handviss um að mér takist að klára mína fyrir kvöldið. Og prenta út. Og já, humm prentarinn er leiðinlegur við mig og blettar pappírinn.

Það festist nefnilega blað í honum um daginn, ég náði því öllu út nema einu snifsi sem ég gat engan veginn fundið, skildi ómögulega í þessu. Var búin að taka prentarann eins mikið í sundur eins og ég þorði, alla lausu partana sem er auðvelt að fjarlægja og svo skrúfa lokið af. Óskiljanlegt.

Fékk uppgefið hverjir þjónusta Brother prentara, það reyndist vera verkstæði við hliðina á Suzukiskólanum í Sóltúni. Viðgerðarmaðurinn var byrjaður á því að útskýra ítarlega hvar þeir væru til húsa en ég rata reyndar á vinnustaðinn þannig að mér tókst að stoppa hann.

Svo var pappírssnifsið fast í blekhylkinu. Ég hafði ekki hugmynd um að það væri hægt að ná því í sundur, tók það bara úr. Viðgerðarinn var svona 15 sekúndur að kippa þessu í lag og tók ekki krónu fyrir. Mjög næs.

Síðan þarna hafa blöðin komið út með rönd og flekkjum, ég vona það sé bara prenthylkið ekki að ég hafi klúðrað prentaranum með að taka hann í sundur.

mig langar eiginlega

alveg helling til að byrja aftur að blogga af viti. Smettið stal blogginu mínu og mér leiðist það, núna segir maður einhvern veginn allt sniðugt sem manni dettur í hug í einhverjum smástatusum á vegg en það bara kemur ekkert í staðinn fyrir almennilegar færslur, stuttar eða lengri. Hef svo sem talað um þetta bæði hér og þar áður.

Spurning um að reyna að sparka sér af stað aftur?

Hér er allavega allt í fullum gangi, eiginlega fullmiklum gangi fyrir minn smekk. Er að reyna að losa mig úr einhverju af þessum félagsmálapakka sem er orðinn helst til fyrirferðarmikill (hmm, spurning hvort það hefur eitthvað með bloggletina að gera kannski) bætt við mig einni stjórnarsetu og fulltrúaráðssetu og listráðssetu (reyndar sem varamaður en aðalmaðurinn er mjög upptekinn og ég held ég hafi mætt á fleiri fundi en hann í blessuðu ráðinu hingað til). Nafnanefnd (nú má fólk gjarnan benda mér á eldra tónskáld með ættarnafn annað en Leifs, Viðar og Nordal, mig vantar eitt stykki takk).

Krakkarnir hamast í skólum og tónlistarskólum og kórum (öll) og karate (Finnur), Freyja fór til Póllands í viku með kammerhópnum sínum og kom gersamlega upptendruð til baka, stefnt á að fara aftur í sumar. Klósettpappírs- og eldhúsrúllusala virðist verða amk. þreföld í vetur hjá Freyju (arrrgh!!!) ásamt kertum og kaffi Finns megin. Fífa er að vinna smá með skóla og neitar að selja, segist borga fyrir sig sjálf í sínar ferðir. Ekki kvarta ég.

Nú er að sjá hvort er hægt að linka beint inn á myndir af smettisvef. Hér er mynd af flottum Póllandshópi.

Best annars að eyða ekki alveg öllum umræðuefnunum ef ég ætla mér að sjá hvort ég kemst af stað með að henda inn svo sem eins og einni færslu á dag hérna. Hætt…

Stavanger dagur #7

Vöknuðum um morguninn – en þá kom bara enginn að sækja okkur á æfinguna eins og okkur hafði annars verið lofað. Kom ekki til greina að fara að hlaupa í strætó, það voru mótshaldarar sem vildu endilega hafa okkur í þessari hljómsveit – og það var búið að tala um að ná í okkur! Enda vorum við sótt, bara klukkutíma of seint.

Hljómsveitarstjórinn hafði greinilega unnið mjög vel á æfingunni daginn áður meðan við vorum í fríi og svo þennan fyrsta klukkutíma á þessari æfingu því bandinu hafði farið alveg óhemju fram.

Okkur Hildu var plantað aftast í fyrstu fiðlu og verkið var spilað í gegn. Alveg hrikalegt sarg í strengjunum (til þess ætlast) en ég hugsa það hafi hljómað bara vel. Mjög skemmtilegt stykki, ætlað til að æfa einu sinni í svona klukkutíma og spila svo.

Nú, „korværksted“ kom næst, mamma átti að stjórna einu lagi þar (Maístjörnunni, gleymdi að segja þér frá því, það vantaði eitthvað þriggja radda íslenskt þannig að ég skrifaði allar raddirnar niður á næturvaktinni. Var náttúrlega ekkert hægt að segja frá því fyrirfram að íslendingarnir ættu að koma með eitt lag í röddum til að syngja þannig að hægt væri að koma með nótur að heiman, ónei, óþarfi að gera hlutina auðvelda fyrir fólk). Við sungum með, kunnum auðvitað lagið þó það væri ekki á prógramminu okkar. Það var æft pínulítið og svo sungið í gegn enda ekki erfitt. Svo kom norski stjórnandinn, hann var mjög almennilegur og indæll, bað okkur um að syngja líka með í danska laginu, það var æðislega sætt lag eftir hljómsveitarstjórann okkar.

Svo komu allsherjartónleikar. Fyrst kom þetta korværksted, sungið í gegn um 4 lög sem höfðu verið æfð um morguninn, svo fórum við bara og settumst. Þá átti að vera samsöngur og „kongressen synger nordisk“. Það var auglýst eftir fólki sem þyrði að koma upp á pall og syngja – þeim sem höfðu mætt í samsönginn á morgnana. Helga kom og bað okkur um að koma upp líka og syngja þó við hefðum ekki mætt þarna á morgnana neitt. Tvær okkar fóru upp, hinar þrjár sátu aðeins lengur – við vorum að reyna að benda þeim að koma upp líka en þá byrjaði finnski stjórnandinn bara þannig að það hefði bara verið asnalegt að fara að troða sér inn í hópinn. Þar voru þær heppnar, því finnska lagið var bara alveg þrælsnúið, fullt af texta á finnsku og svoleiðis veseni! Eftir það lag (sem við náttúrlega gátum ekkert í) kom íslenska lagið, þá bættust hinir krakkarnir við og við sungum Móðir mín í kví, kví með öllum hópnum. Næst kom Det var en lørdag aften, öll 14 erindin eða svo – það er alveg fallegt lag en ætlar bara aldrei að enda þegar öll erindin eru tekin. Svo sem ósköp sætur og hjartnæmur texti en maður er bara orðinn svo hundleiður á laginu þegar það er hálfnað að maður getur ekki beðið eftir því að það klárist!

Síðast kom færeyska lagið, þar var góðkunningi okkar Ólafur Hátún að stjórna. Hann lét bara allan salinn syngja, kenndi öllum tvö mismunandi viðlög og söng sjálfur forsönginn. Algjör sökksess. Það var rosalega gaman að honum. Enda má segja að hann hafi verið í skýjunum sjálfur, daginn áður hafði hann verið kosinn forseti NMPU til næstu tveggja ára.

Síðast var svo hljómsveitarverkið, það gekk bara ágætlega og hitt fólkið sagði að það hefði hljómað mjög vel út í sal.

Svo fórum við bara aftur í bæinn – lentum í smá veseni sem ég ætla ekki að segja frá hér (semsagt á blogginu, gæti verið pínu viðkvæmt), en allavega fórum við og keyptum smá gjafir handa konunni sem sá um okkur uppi í Ramsvik, hún var nefnilega alveg frábær og hafði reynst okkur mjög vel, líka handa skólastjóra tónlistarskólans í Stavanger, hann var fínn og allt stóðst sem hann sagði, eini stjórnandinn þarna sem virtist hafa yfirsýn yfir það sem hann var að gera.

Okkur hafði verið sagt að miðdegismaturinn (Norðmenn borða aðalmáltíðina sína um fjögurleytið á daginn) væri í Ramsvik – við þangað en þá var bara enginn þar, og heldur enginn matur. Konan kom eftir góða stund og sagði okkur að maturinn hefði verið niðri í konserthúsi. Það var svo sem auðvitað! En hún bauðst til að láta koma með hann til okkar – og hringdi auðvitað í skólastjórann fyrrnefnda sem tók til mat fyrir okkur og keyrði með til Ramsvíkur í eigin persónu.

Enduðum síðasta daginn á mótinu á því að spila billjarð, ég hafði aldrei prófað það áður en sýndi auðvitað mikla hæfileika! (verst ég hef svo aldrei getað neitt síðan þá heldur).

Jæja, svo tókum við bara saman dótið okkar og fórum niður í miðbæ, lestin okkar fór um kvöldið. Fundum geymsluhólf og tróðum dótinu okkar þar inn. Einhver kona kom og gaf sig á tal við mig og ég kunni ekki við að rífa mig frá henni þó það liti út fyrir að hún ætlaði að segja mér alla ævisöguna þarna tvístígandi á brautarstöðinni. Ætlaði aldrei að losna við hana. Hin sátu inni á veitingahúsinu og hlógu að mér á meðan. Svo þegar ég loksins losnaði og fór til hinna sögðu íslensku tónmenntakennararnir tveir sem voru þarna með okkur að þær hefðu lent í henni áður og hún væri algerlega óþolandi. (ég þurfti nú ekkert að láta segja mér það sko!)

Nú, fyrrihluta kvölds gerðum við Hilda og Marta það sem við höfðum vanrækt allan tímann, að heimsækja vinkonu hennar ömmu sem við höfðum lofað að kíkja á. Sáum svo eftir að hafa ekki gert það mikið fyrr, alveg frábærlega skemmtileg heimsókn. Vorum þar eins lengi og við gátum og svo skutlaði hún okkur niður á lestarstöð.

Þegar í lestina var komið fór ég nánast strax að sofa því ég ætlaði ekki nema hálfa leið til Osló, vakin um miðja nótt til að skipta um lest og fara að heimsækja vinkonu mína síðan í lýðháskólanum.

Læt ég þá þessari ferðasögu lokið hér á blogginu, heimsóknin ekki alveg eins söguleg eins og NMPU mótið.


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

september 2010
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
2627282930  

sagan endalausa