Vöknuðum um morguninn – en þá kom bara enginn að sækja okkur á æfinguna eins og okkur hafði annars verið lofað. Kom ekki til greina að fara að hlaupa í strætó, það voru mótshaldarar sem vildu endilega hafa okkur í þessari hljómsveit – og það var búið að tala um að ná í okkur! Enda vorum við sótt, bara klukkutíma of seint.
Hljómsveitarstjórinn hafði greinilega unnið mjög vel á æfingunni daginn áður meðan við vorum í fríi og svo þennan fyrsta klukkutíma á þessari æfingu því bandinu hafði farið alveg óhemju fram.
Okkur Hildu var plantað aftast í fyrstu fiðlu og verkið var spilað í gegn. Alveg hrikalegt sarg í strengjunum (til þess ætlast) en ég hugsa það hafi hljómað bara vel. Mjög skemmtilegt stykki, ætlað til að æfa einu sinni í svona klukkutíma og spila svo.
Nú, „korværksted“ kom næst, mamma átti að stjórna einu lagi þar (Maístjörnunni, gleymdi að segja þér frá því, það vantaði eitthvað þriggja radda íslenskt þannig að ég skrifaði allar raddirnar niður á næturvaktinni. Var náttúrlega ekkert hægt að segja frá því fyrirfram að íslendingarnir ættu að koma með eitt lag í röddum til að syngja þannig að hægt væri að koma með nótur að heiman, ónei, óþarfi að gera hlutina auðvelda fyrir fólk). Við sungum með, kunnum auðvitað lagið þó það væri ekki á prógramminu okkar. Það var æft pínulítið og svo sungið í gegn enda ekki erfitt. Svo kom norski stjórnandinn, hann var mjög almennilegur og indæll, bað okkur um að syngja líka með í danska laginu, það var æðislega sætt lag eftir hljómsveitarstjórann okkar.
Svo komu allsherjartónleikar. Fyrst kom þetta korværksted, sungið í gegn um 4 lög sem höfðu verið æfð um morguninn, svo fórum við bara og settumst. Þá átti að vera samsöngur og „kongressen synger nordisk“. Það var auglýst eftir fólki sem þyrði að koma upp á pall og syngja – þeim sem höfðu mætt í samsönginn á morgnana. Helga kom og bað okkur um að koma upp líka og syngja þó við hefðum ekki mætt þarna á morgnana neitt. Tvær okkar fóru upp, hinar þrjár sátu aðeins lengur – við vorum að reyna að benda þeim að koma upp líka en þá byrjaði finnski stjórnandinn bara þannig að það hefði bara verið asnalegt að fara að troða sér inn í hópinn. Þar voru þær heppnar, því finnska lagið var bara alveg þrælsnúið, fullt af texta á finnsku og svoleiðis veseni! Eftir það lag (sem við náttúrlega gátum ekkert í) kom íslenska lagið, þá bættust hinir krakkarnir við og við sungum Móðir mín í kví, kví með öllum hópnum. Næst kom Det var en lørdag aften, öll 14 erindin eða svo – það er alveg fallegt lag en ætlar bara aldrei að enda þegar öll erindin eru tekin. Svo sem ósköp sætur og hjartnæmur texti en maður er bara orðinn svo hundleiður á laginu þegar það er hálfnað að maður getur ekki beðið eftir því að það klárist!
Síðast kom færeyska lagið, þar var góðkunningi okkar Ólafur Hátún að stjórna. Hann lét bara allan salinn syngja, kenndi öllum tvö mismunandi viðlög og söng sjálfur forsönginn. Algjör sökksess. Það var rosalega gaman að honum. Enda má segja að hann hafi verið í skýjunum sjálfur, daginn áður hafði hann verið kosinn forseti NMPU til næstu tveggja ára.
Síðast var svo hljómsveitarverkið, það gekk bara ágætlega og hitt fólkið sagði að það hefði hljómað mjög vel út í sal.
Svo fórum við bara aftur í bæinn – lentum í smá veseni sem ég ætla ekki að segja frá hér (semsagt á blogginu, gæti verið pínu viðkvæmt), en allavega fórum við og keyptum smá gjafir handa konunni sem sá um okkur uppi í Ramsvik, hún var nefnilega alveg frábær og hafði reynst okkur mjög vel, líka handa skólastjóra tónlistarskólans í Stavanger, hann var fínn og allt stóðst sem hann sagði, eini stjórnandinn þarna sem virtist hafa yfirsýn yfir það sem hann var að gera.
Okkur hafði verið sagt að miðdegismaturinn (Norðmenn borða aðalmáltíðina sína um fjögurleytið á daginn) væri í Ramsvik – við þangað en þá var bara enginn þar, og heldur enginn matur. Konan kom eftir góða stund og sagði okkur að maturinn hefði verið niðri í konserthúsi. Það var svo sem auðvitað! En hún bauðst til að láta koma með hann til okkar – og hringdi auðvitað í skólastjórann fyrrnefnda sem tók til mat fyrir okkur og keyrði með til Ramsvíkur í eigin persónu.
Enduðum síðasta daginn á mótinu á því að spila billjarð, ég hafði aldrei prófað það áður en sýndi auðvitað mikla hæfileika! (verst ég hef svo aldrei getað neitt síðan þá heldur).
Jæja, svo tókum við bara saman dótið okkar og fórum niður í miðbæ, lestin okkar fór um kvöldið. Fundum geymsluhólf og tróðum dótinu okkar þar inn. Einhver kona kom og gaf sig á tal við mig og ég kunni ekki við að rífa mig frá henni þó það liti út fyrir að hún ætlaði að segja mér alla ævisöguna þarna tvístígandi á brautarstöðinni. Ætlaði aldrei að losna við hana. Hin sátu inni á veitingahúsinu og hlógu að mér á meðan. Svo þegar ég loksins losnaði og fór til hinna sögðu íslensku tónmenntakennararnir tveir sem voru þarna með okkur að þær hefðu lent í henni áður og hún væri algerlega óþolandi. (ég þurfti nú ekkert að láta segja mér það sko!)
Nú, fyrrihluta kvölds gerðum við Hilda og Marta það sem við höfðum vanrækt allan tímann, að heimsækja vinkonu hennar ömmu sem við höfðum lofað að kíkja á. Sáum svo eftir að hafa ekki gert það mikið fyrr, alveg frábærlega skemmtileg heimsókn. Vorum þar eins lengi og við gátum og svo skutlaði hún okkur niður á lestarstöð.
Þegar í lestina var komið fór ég nánast strax að sofa því ég ætlaði ekki nema hálfa leið til Osló, vakin um miðja nótt til að skipta um lest og fara að heimsækja vinkonu mína síðan í lýðháskólanum.
Læt ég þá þessari ferðasögu lokið hér á blogginu, heimsóknin ekki alveg eins söguleg eins og NMPU mótið.
Nýlegar athugasemdir