Sarpur fyrir nóvember, 2009

grameðluostur

gömul vinkona mín kom hér í mat um daginn, hún hafði með sér danskan ost sem er algjört æði, ekki Gamle Ole né heldur Gamle Oles Farfar, þessi er samt ekki ólíkur, heitir Gamle Svend.

Af honum er ekki beinlínis ilmur.

Fyrst kom Freyja með táfýluostanafnbótina en svo í gær fussaði hún og sveiaði yfir fýlunni af grameðluostinum atarna.

En hún borðaði hann nú samt bráðinn út á gratíneruðu lauksúpuna í kvöld og fannst góður.

langar

svoooo að fara að hlusta á krakkana mína í kvöld, Finnur að spila í fyrsta skipti í White Christmas með Suzukikrökkunum, Freyja í fjórða, hún hins vegar í Pachelbel (ekki að það sé skemmtiefni fyrir sellóleikarana en samt…) Freyja líka tvö erfið lög með sellóhópnum sínum. Get bara ómögulega sleppt síðustu kóræfingunni fyrir jól – sérstaklega vegna þess að þeirri fyrir viku var fórnað á altari Beethoven níundu.

Svo kemst ég ekki á tónleika yngri deildarinnar vegna sýningar á Söngvaseið á laugardaginn. Vond mamma!

Eins gott að pabbinn klikki ekki á vídjóupptökunni á eftir…

margar útgáfur og margar kirkjur

langur dagur í dag, Söngvaseiðssýning, (fyrsta kirkja, í nunnuklaustrinu) mæting eitt, búið kortér fyrir fimm, brunað beint inn í Hallgrím (kirkja #2), tónleikar hjá Finni og hinum strákunum í Drengjakórnum, nánast troðfull kirkja, yndislegir tónleikar hjá þeim, heim sækja Freyju, selló og víólu, beint á æfingu í Grensás (#3) fyrir tónleika á morgun hjá Finni og Freyju, þaðan keyra stelpurnar næstum hálftíma of seint inn í Langholt (#4), Finn heim, aftur í Langholtið á aðventukvöld að hlusta á stelpurnar.

Í öllum kirkjunum nema nunnuklausturskirkjunni heyrði ég síðan mismunandi útgáfur af White Christmas – allt flutt af börnunum mínum ásamt kórum og hljómsveitum þeirra. Þrjár mismunandi í dag. Þarf eiginlega að finna Bing Crosby á jútjúb og hlusta. Og þó, væmið…

Hér kemur ein útgáfa dagsins. Reyndar síðan í Kringlunni í gær.

haha

ekki veit ég hvernig mér tókst að líma vitlaust myndband inn, ég var eitthvað ósátt við keyrsluna á jútjúblinknum þannig að ég skoðaði Chanson triste líka og hef greinilega klippt og skorið þaðan. Vandamálið var síðan ekki youtube heldur væntanlega of margt opið hjá mér. Allavega búin að líma rétt myndband inn núna, Ella og Guðlaug…

guttarnir

í Kringlunni í dag:

Sætir og fínir.

langferðastrætó

þurfti að skjótast inn í leikhús í dag í smástund, á Bústaðaveginum mætti ég strætó. Held að það sé spurning um ný gleraugu því ég gat ekki fyrir mitt litla líf séð annað en á strætó stæði Istanbúl.

Svo kom hann nær og auðvitað stóð Listabraut…

kringlusöngur

ef þið eigið leið í Kringluna núna upp úr hádeginu, labbið endilega við á blómatorginu klukkan eitt til að heyra Drengjakórinn syngja nokkur lög.

Sjáumst þar.

snareldun

Hljómsveitaræfingin hjá Finni fór hálftíma fram úr áætlun (á þetta til hún Ewa blessunin), ég sat og beið eftir honum, stelpurnar á leið í óperuna í kvöld þannig að ég var að verða pínu stressuð. Æfing búin klukkan kortér fyrir sex, búið að setja fram kex, safa og mandarínur eftir æfingu, Finnur náttúrlega varð að fá sér svoleiðis, ég pakka og hrifsa drenginn heim, komin klukkan sex. Fífa var reyndar búin að búa til tortilludeig, ég tek til við að hakka lauk og ólífur og hvítlauk og blaðlauk og jalapenos, steikt ásamt hakki og tómatjukki og tacokryddi á pönnu, Freyja reif bita af osti, hitað í ofni, búið til guacamole (rétt mundi eftir avocadoinu tilbúnu úti í glugga) steiktar tortillur á píadínupönnunni góðu (Fífa rúllar út), passar nákvæmlega að hakkjukkið pípir þegar ég steiki síðustu tortilluna, borðað, gengið frá, uppþvottavél sett af stað, þurrkað af borðinu, sest við tölvuna. Klukkan er sjö.

Miðað við alveg frá grunni (mínus deigið), ekki slæmt, ekki slæmt!

(já, Jón Lárus er semsagt í viðskiptavinahófi Samskipa – annars hefði ég örugglega ekki þurft að gera neitt af þessu…)

litli guttinn

þessi sem syngur jólalög hástöfum á leiðinni í skólann á morgnana fékk útkomu úr samræmdu prófum fjórða bekkjar heim með sér í gær.

Stendur sig stórvel í stærðfræði (botna, einhver?) er í efsta prósentinu, íslenskan þokkaleg líka, 8,5 í stafsetningu, sama í málfræði – en ritunin dregur minn mann niður. Tvo, fékk hann þar. Ekki get ég sagt að ég sé hissa, þvílík harmkvæli þegar er ritunarverkefni heima, bæði kvíðir hann fyrir að finna eitthvað að skrifa og svo er hann lengi að skrifa líka. Hugsa að hann hafi skrifað nafnið sitt í prófinu, örugglega ekki mikið meira.

Flottur samt og það er ekki hægt að vera bestur í öllu.

ekki fyrr

eru öll kertin (nánast, Harpa, þarf að koma þínum á sinn stað og svo ætlaði ein vinkona að kaupa fleiri) en næsti seljapakki mætir á svæðið. Nú er það hinn hefðbundni klósettpappír, eldhúsrúllur og (nýtt, nýtt) lakkrís sem Gradualestelpurnar eru að selja. Tvær svoleiðis stelpur hér á bæ núna.

Má alveg leggja inn pöntun hér (þriggja laga klóstpappír 30 rúllur á 4100, 500 grömm af lakkrís 1000 24 rúllur af eldhúsbréfi 3300) en annars eru þær bara komnar á að selja þetta sjálfar takk. Ein söluherferð tvisvar á ári er feikinóg fyrir foreldrana!

barbíkjöt

einhvern tímann hef ég nefnt að Freyja var illa haldin af eyrnabólgu þegar hún var lítil, heyrði ekki sérlega vel. Það er orðið allt í fína núna sem betur fer.

Einu sinni vorum við í Krónunni með hana, ætli hún hafi ekki verið um fimm ára eða svo. Stóð einhvers staðar aðeins frá okkur, væntanlega við nammihilluna, mér verður að orði: Já, það vantar barbekjúsósu. Freyja lítur upp með skelfingarsvip: Barbíkjötsósu??? :O

Nú er búið að finna hvað maður notar slíka í:

löngunin

til að fara í sumarbústað helltist allt í einu yfir mig af fullum þunga. Væntanlega vegna þess hve fráleitt það er að það verði tími til þess í desember að fara í svoleiðis útstáelsi. Langar samt til að fara í heitan pott í myrkri og labba niður að Glanna og bara hafa fjölskylduna saman að gera ekkert nema spila Trivial og Skrabbl og leggja kapal. Og grilla.

Spurning um að tékka á janúar? Verður maður ekki að hafa eitthvað til að hlakka til eftir jólin líka. Reyndar plottuð árshátíð kórsins og sushipartí nú þegar í jan en aldrei of margt skemmtilegt í janúar er það nokkuð? Febrúar í allra síðasta lagi.

meira púsl

Finnur (eða réttara sagt við foreldrarnir) verðum pínu óvinsæl í dag, hann fær nú í fyrsta skipti að spila með í White Christmashópnum í Suzuki (já, þarna vídjóið sem ég set inn á hverju ári – ég tími ekki einu sinni að taka nýtt því ég er komin með svo mörg innlit á þetta…) og það verða bara tvær æfingar á því. Í kvöld og á sunnudaginn. Í kvöld þarf hann semsagt að skjótast af kóræfingu. Það er ekki vinsælt, tónleikar strákanna á sunnudaginn kemur. Verður samt eiginlega að vera þannig. Pabbi hans sækir hann klukkan rétt fyrir sex, skýtur honum og Freyju á æfinguna, aftur til baka í kirkjuna á kóræfinguna, ætti að ná í skottið á henni, pabbinn nær í Freyju aftur, hún er að spila með í Kanon eftir Pachelbel, æft beint á eftir White Christmas, þá beint í Hafnarfjörð að ná í mig. Eða heim fyrst, fer eftir hvort æfing dregst eitthvað, í Suz eða ekki.

Sunnudagurinn verður svo svipaður, ég reyndar með sýningu klukkan tvö, allt í lagi með það, tónleikar hjá Finni klukkan fimm til svona hálfsjö, æfing í Grensáskirkju (Suz) tíu mínútur fyrir sjö (White Christmas), sjö til kortér yfir (Pachelbel) og svo eru stelpurnar báðar að fara að syngja á aðventukvöldi í Langholtskirkju klukkan átta, eiga eiginlega að mæta sjö en Freyja verður að fá að koma aðeins seint. Suztónleikarnir eru síðan á mánudagskvöld og ég kemst ekki 😥 ekki vinsælt að sleppa tveimur Hljómeykisæfingum og ég valdi Beethoven. Jón Lárus verður bara að vera með vídjóvélina á staðnum.

Voða sniðugt að vera með jólatónleikana snemma en ekki alveg eins þegar allir ætla að hugsa þannig.

Langar annars ekki einhvern að hlusta á litlu englana syngja í Hallgrímskirkju á sunnudaginn klukkan fimm? Eigum enn 3 miðum óráðstafað – og þurfum að borga þá ef við getum ekki selt. Fimmtán hundruð kall miðinn hjá okkur, tvöþúsund við innganginn. Plííís!?

fffuuu, vona

að lesendur mínir hafi ekki ætlað að flykkjast í auðu sætin í Langholtskirkju í kvöld, ég held það hafi verið selt 20 miðum fleira en kemst í kirkjuna. Bætt við sætaröðum meðfram bekkjunum og einum heilum bekk fremst, Fífu til hrellingar þar sem henni fannst hún reka bogann framan í konu sem þar sat, í hverju stroki.

Glæsilegur flutningur hjá krökkunum, maður sat þarna rígmontinn og með tárin í augunum. Takk fyrir mig, allir!

hlakka allverulega

til tónleika kvöldsins, annað rennsli á Níundu sinfóníu Beethovens hjá krökkunum í Ungfóníu og Háskólakórnum. Heyrði vel af fyrri flutningnum látið og hann ætti að vera enn betri í kvöld.

Kíkið endilega í Langholtskirkju klukkan 8 – veit ekki betur en enn sé til eitthvað af miðum. Við ætlum að mæta snemma til að fá þokkaleg sæti…

æji

nú rekast tónleikar illilega á – var búin að fá miða á Heilagrar Cecilíumessuna hans Áskels í Hallgrímskirkju klukkan fjögur, þá hefur Jónsi samband og býður mér á tónleikana inni í Langholti klukkan fimm, þar er meðal annars verið að flytja verk eftir mig, ég afþakka pent en svo uppgötva ég áðan að stelpurnar mínar eru báðar að syngja á þeim tónleikum, Freyja að koma fram á tónleikum með Graduale í fyrsta skiptið. Lúxusvandamál þarna á ferð. Held ég verði samt eiginlega að hlusta á Cecilíu en verð hinum megin í anda (tíhí, kannski maður setjist bara við dyrnar og laumist út og taki bíl inn í Langholt fyrir fimm ef ekki verður gaman í Hallgrími. Efast samt stórlega um það…)

búna skila

laginu, sknilld. Náði samt ekki að byrja á næsta, sterar eru fínir en þeir lengja víst ekki daginn hjá manni…

mætti halda

að ég sé rauðhærð, allavega er búinn að vera þvílíkt – tja ekki sparka-í-Hildigunni dagur en allavega vera-fyrir-og-svína-á-Hildigunni dagur. Allt frá því á leiðinni vestur í Neskirkju í morgun, heim aftur, inn í Hafnarfjörð, meira að segja í Fjarðarkaupum tókst fólki alveg þvílíkt að þvælast fyrir mér á leiðinni inn í búð. Og ég sem er búin að þurfa að keyra svo MIKIÐ í dag.

En það fer að verða búið. Eitt skutl í viðbót, ná í Finn í hljómsveit en svo bara elda og kannski rauðvínsglas í kvöld. Er að pæla í þessari uppskrift, hljómar vel…

textinn

já þessi sem ég er búin að leita að í óratíma…

Fundinn.

Tók nokkrar ljóðabækur á bókasafninu um daginn, aðallega vesturheimsskáld, Stephan G og Káinn, er að spá í að gera kannski eitthvað smotterí fyrir ferð Drengjakórsins á næsta ári, ef þeir vilja.

Nema hvað:

Freyja er heima í dag, lasin, ég á ekki auðvelt með að semja þegar einhver er heima þannig að ég ákveð bara í morgun þegar við erum búin að moka Finni í skólann og Jón Lárus og Fífa farin í vinnu og skóla að fara nú bara aftur niður að leggja mig. Sé kannski ekki fram á að geta sofnað, er enn á svo stórum steraskammti að því fylgja erfiðleikar með svefn. Gríp því Stephan G, opna þar sem ég er komin, þar eru ljóð til einstaklinga, framhjá þeim, finn þetta fína ljóð. Jahá, svona gæti lag byrjað við þetta. Rýk upp í tölvu til að gleyma þessu nú ekki, sest við, klára laglínuna, kíki á altinn, já hvernig væri að hafa nú byrjunina í bassa og tenór svona – og nú er lagið bara tilbúið. Truflaði mig ekki einu sinni að hafa sjónvarpið niðri í gangi.

Vildi þetta gengi oft svona vel…

plögga skal

tónleika dótturinnar og félaga í Ungfóníu og Háskólakórnum:

Ungfónía flytur um helgina eitt magnaðasta verk tónlistarsögunnar, sjálfa 9. sinfóníu Beethovens. Fjórði þátturinn er frægastur fyrir Óðinn til gleðinnar sem allir þekkja, en þar hefur Háskólakórinn upp raust sína og fjórir einsöngvarar. Samtals taka um 130 manns þátt í flutningnum. Þetta er í fyrsta sinn sem ungir hljóðfæraleikarar og söngvarar flytja verkið hér á landi.

Tónleikarnir eru laugardaginn 21. nóvember kl. 17.00 og mánudaginn 23. nóvember kl. 20.00, bæði skiptin í Langholtskirkju. Miðar kosta aðeins kr. 2.000 og 1.500 fyrir nemendur og ellilífeyrisþega. Hafið endilega samband í kommentakerfinu og pantið miða.


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

nóvember 2009
S M F V F F S
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
2930  

sagan endalausa