Sarpur fyrir júlí, 2022

Dublin Lá a seacht

Morgunmatur, aldrei þessu vant (hissa?) Reyndar byrjaði dagurinn heldur fyrr, ég vaknaði um hálfáttaleytið og kíkti á veðurspána. Hún var talsvert mikið betri en hún hafði litið út kvöldið áður. Þá var spáin upp á 15° og 80% líkur á regni. Þarna var regnspáin búin að frestast til klukkan fjögur, hitastigið hækka um tvær til þrjár gráður og jafnvel myndi sólin láta sjá sig aðeins.

Ég fletti þá upp á leiðum til að komast út á Howth tangann norðan við Dublin. Sýndist einfaldast að ganga í veg fyrir lestina, um hálftíma gang en öðru eins vorum við nú orðin vön þessa daga. Strætókerfið í borginni er nefnilega ekki gott net heldur frekar eins og krakkar teikna sól, með geisla út í allar áttir og svo alltaf lengra og lengra á milli eftir því sem utar dregur. (Reyndar svolítið eins og heima, hafið þið þurft að fara í strætó frá Grafarvogi í Hafnarfjörð?)

Leyfði Jóni að sofa í klukkutíma til en hann var sáttur þegar hann vaknaði og sá spá og plan. 

Eftir morgunmat og dittósturtu röltum við austurúr og komumst á lestarsporið hjá Clontarf stöðinni ríflega hálftíma síðar. Veður gott, engin þörf á jakka!

Þessir flottu valmúar á leiðinni
grákrákur eru í uppáhaldi líka

Lestin, tja hvernig eru lestir? Keyrandi í frekar óspennandi umhverfi milli húsa og stöðvarnar álíka. 

En þessi lest, Dart, var reyndar snyrtileg og fín og fljót í förum svo við lentum sirka kortéri síðar á Howth. Stefnan var á garð, Ardán Garden sem við höfðum einhvern veginn náð að gúgla okkur fram til að væri spennandi. Strætó þangað var um 22 mínútum síðar, smá rölt út á bryggju og til baka og viðkoma í hraðbanka þar sem ég var ekki viss um að fólkið sem ætti þennan prívat garð tæki kort. Sem reyndist alveg hárrétt. Hér útsýni af bryggjunni:

og hér kort af höfðanum:

Strætó hringaði tangann. Við orðin smá svöng eftir röltið sáum veitingastað þar sem hann endaði (strætó sko) og kíktum inn. Opnar eftir kortér. Nújæja förum þá í garðinn. Fundum leiðina en þá hringir Hallveig systir í mig til að ráðfæra sig smá og þegar það samtal var búið voru bara 5 mín í opnun. Ok við þangað (sérstaklega þar sem við áttum síðan pantað borð á veitingahúsi klukkan fimm og það hefði verið kjánalegt að fara að borða hádegismat kannski um tvöleytið). 

Reyndist frábær ákvörðun, við höfðum lofað konunum tveim sem við spjölluðum við á tónleikunum kvöldið áður að fá okkur fisk og franskar ef við færum til Howth, Jón pantaði sér þannig en mér leist betur á krækling í hvítvínssósu. Og svei mér þá ef ég hef bara nokkurn tímann fengið betri krækling á ævinni, og hef ég þó smakkað slíkt góðgæti víða! Þegar ég var búin með kræklinginn bað ég meira að segja um skeið til að klára sósuna. Skrifaði á Tripadvisor um þennan stað, eins og reyndar fleiri veitingahús í ferðinni og síðan hótelið. 

Garður reyndist yndislegur, ekki risastór en svakalega margar flottar plöntur.

Hjónin sem eiga og reka garðinn voru hin elskulegustu og voru impóneruð yfir því að við kæmum alla leið frá Íslandi, vissu ekki til þess að Íslendingar hefðu heimsótt sig áður. Furðuðu sig á að við hefðum fundið þennan garð á gúglinu, nokkuð sem var líka eiginlega tilviljun. Töluðu um að langa að fara til Íslands en minntust samt ekkert á norðurljós, mesta furða.

Eftir garðheimsóknina ákváðum við að vera ekkert að fara í veg fyrir strætó enda ekki nema um hálftíma gangur eða svo yfir höfðann og að lestarstöðinni. Fín ákvörðun, veðrið ljómandi og nánast allt niður á við. Þurftum samt að ganga á götunni, þarna voru bókstaflega engar gangstéttir, fyrr en nær dró bænum. Mættum samt bara tveimur bílum alla leiðina niður höfðann þannig að það gerði svo sem ekkert til. Hér er útsýni yfir höfða við Höfða.

Þetta skilti skil ég alls ekki bara! Það leit ekki út fyrir að neitt hefði máðst af því, það var bara svona. Heimsendi eftir 50 metra?

og þessa flottu turna á turni rákumst við á á leiðinni niður í bæinn:

Lestin í miðborgina, ósköp þægileg og lítt til frásagnar frekar en fyrr um daginn. Komum ekkert við á hótelinu, enda hefði það verið verulega úr leið. Vorum komin í bæinn klukkutíma áður en við áttum pantað á veitingastaðnum.

Og hvað gerir maður þá? Nú döh, pöbb! Vorum reyndar góða stund að finna slíkan sem okkur litist á, á leiðinni frá lestarstöðinni inn að aðalgötunum. Enduðum hér, mjöööög flott en áttu reyndar ekkert þannig spennandi bjór. Ég fékk mér reyndar bara kaffi.

Reyndar urðum við (les Jón) fyrir smá vonbrigðum með bjórúrvalið í ferðinni nema reyndar á Porterhouse. Flestar krárnar voru alveg með 16 krana en af þeim voru alltaf tveir Guinness og tveir Heineken og svo voru þarna Carlsberg, Coors Light og einhverjir álíka óspennandi drykkir. Það hlýtur að vera að það séu síðan til einhverjir barir með míkróbrugghúsabrugg en við allavega römbuðum ekki á þá. 

Þá var það The Church. Veitingastaðurinn ansi flottur. Kokkteilarnir líka.

Þarna var mjög mikil breidd í vali, ekki alveg eins elegant seðill og á Winding Stair. Ég endaði á að kaupa mér bara vængi sem voru þarna á appetizer hluta seðilsins og það reyndist feikinógur kvöldmatur. Þetta verður semsagt síðasta matarmyndin úr þessari matarmiklu ferð. Jón fékk sér grísarif og var mjög sáttur.

Eitt var merkilegt þarna. Við höfðum tekið eftir því á Winding Stair að þar var hægt að fá Roederer Cristal á um 200 evrur. Keyptum ekki en fannst ekki dýrt, þetta verð er ekki langt frá útsöluverði, mjög lítil álagning. Í The Church kostaði Cristalinn heldur meira fyrir nú utan að vera vitlaust stafsettur, tvö af þremur nöfnum.

Þessi dagur var eiginlega hápunktur dvalarinnar, Howth höfðinn er mjög flottur og ég væri alveg til í að fara þangað aftur, t.d. til að sjá flotta kletta ekki langt frá veitingahúsinu sem við borðuðum á, náðum því bara ekki í þetta skiptið.

Heim á hótel, pakkað niður og fylgst með hvort flugið okkar, morguninn eftir væri ekki enn á áætlun, hefði verið heldur verra ef það hefði frestast hvað þá verið fellt niður þar sem Freyja okkar var að útskrifast síðdegis sama dag frá HÍ og við ætluðum að hýsa veisluna! Ég ætla ekki að skrifa heimferðardagsfærslu en skemmst er frá því að segja að þrátt fyrir mannfæð á Dublinarflugvelli var flugið nokkurn veginn á áætlun, Fífa okkar og Carlos sóttu okkur út á völl (takk elskurnar!) og veislan small Írlandsbloggi lokið, næst væntanlega Kraká í haust. Till then.

Dublin Lá a sé

Sváfum AFTUR út, alveg til tæplega níu. Það var eitthvað.

Eftir morgunmat, rólegheit í ca tvo tíma, þá niður í bæ, skoðuðum þennan minningargarð um þau sem fórust í Páskauppreisninni

Vatnskrossinn
nærmynd af vopnum í vatni

Röltum Henry Street til að finna The Church, kirkju sem var búið að breyta í veitingahús og við búin að panta mat kvöldið eftir. Gott að vera búin að staðsetja sig. Ætluðum að kíkja á Leprechaun safnið sem er þar nálægt en steingleymdum því, og hefðum reyndar ekki endilega tímt að fara á safn inn úr góða veðrinu. Stefndum á hádegismat í stræti úttroðnu af veitingastöðum, þó við myndum eiginlega ekki nákvæmlega hvar það var. Á leiðinni fundum við mjósta húsið í Dublin, eiginlega bara rönd í háhýsahverfi. Höfðum held ég gengið fram hjá því daginn áður þegar við vorum að leita að því en sést yfir það því þetta lítur ekkert út eins og heilt hús heldur bara eins og smá ósmekkleg tenging milli hinna tveggja.

En áður en við römbuðum aftur á veitingahúsagötuna æpti Jón Lárus upp fyrir sig. Þarna! Við ætlum að borða þarna! Ítalskur staður, keðja, að nafni Zizzi þar sem hann og bræður mínir og mágur höfðu borðað í Manchester þegar þeir fóru með Óla bró í fimmtugsafmælisferðina í janúar 2020. Þarna fékkst alveg frábær matur og svo var líka til svakalega flottur bjór, Peroni gran riserva. (doppio malto)

Var reyndar ekki búið að opna þegar við komum en vorum harðákveðin svo við fórum í kortérs labb þar til opnaði. Ákváðum að ef við færum ekki í lengri túr daginn eftir, lokadaginn, myndum við borða þar aftur í hádeginu. Græddi mjög flotta eyrnalokka á þessum auka göngutúr.

Þarna fékk ég næstbesta carbonara sem ég hef á ævi minni fengið. Eða besta. Ekki alveg viss. Hitt var í Brussel fyrir nokkrum árum:

Sátum úti, eins og reyndar eiginlega alltaf í ferðinni. Við hlið okkar settust einhverjir krakkar, þjónynjan kom út og sagði að þau þyrftu að kaupa sér eitthvað, strákurinn sagði ókei kaupi mér eina kók. Svo voru þau á óttalegum þvælingi eitthvað og aldrei kom kókið, stráksi sat í góða stund við borðið. Okkur þótti þetta frekar dularfullt og pössuðum vel upp á veski og bakpoka, leist ekkert á svipinn á stráknum. Svo kom önnur stelpan aftur og fór að gantast við hann og brosti svo til mín. Við alveg ókei, höfum haft stráksa fyrir rangri sök. Svo fóru þau bara.

Kíktum síðan í bókabúð kenndri við Ódysseif, gamlar og flottar, nýjar en aðallega notaðar  bækur eftir helstu höfunda landsins. Gaman að kíkja en keyptum samt ekki neitt.

Liffey var falleg þennan dag:

Á leið frá bókabúðinni í veg fyrir strætó gengum við síðan fram á krakkana af staðnum, nú að betla… 

Stefnt á tónleika um kvöldið klukkan átta, þótti vit að fara bara aftur upp á hótel til að hvíla okkur og slaka, hefði ekki verið þannig mikið við að vera allan daginn, að koma þreytt og slæpt og sofna á barokktónleikum var eiginlega bara ekki í boði! Þetta fagra blómatorg varð á vegi okkar á leið í strætó:

Komin á hótelið. Tókum mynd út um gluggann:

En nei sko ekki út um gluggann á herberginu okkar heldur frá ganginum hjá lyftunum. Þetta var útsýnið út um gluggann á herberginu:

Rifum okkur upp um fimmleytið, niður í bæ, fengum okkur að borða á Wagamama. Stórfínar gjósur (gyosas) en aðeins minna spennandi pad thai teppanyaki. Dauðsá eftir að hafa látið afganginn af dipping sósunum með gjósutegundunum tveimur þegar diskarnir voru teknir, þær hefðu sannarlega hresst upp á teppanjakið. Fyrir utan að það reyndar kom líka seint og um síðir, hafði verið eitthvað ves í eldhúsinu. Enduðum á að þurfa ekki að borga fyrir það, sem var ágætt.

Bestu gjósur sem ég hef fengið held ég!

Römbuðum á tónleikahúsið, gengum gegn um St. Stephen’s Green garðinn milli horna. Flottur tónleikasalur þarna National Concert Hall. Átti að vera Bachkonsertahátíð með Írsku barokksveitinni undir stjórn Rachel Podger og hún átti líka að vera einleikari í öllum verkunum. Nema hvað svo var hún bara veik! Svo við fengum í staðinn óttalegt medley af barokkmúsík, reyndar hélt tvöfaldi fiðlukonsertinn í D-dúr sér, það er standard sem fiðluleikarar flestir eiga að geta gripið til svo önnur úr hljómsveitinni hoppaði inn í 1. fiðlupartinn. Það var fínt, talsverð snerpa og stuð. Svo kom flautuleikari sem átti að spila móti Rachel í konsert fyrir flautu, fiðlu og sembal. Spilaði stutt einleiksverk fyrir flautu, mjög vel gert. Svo spilaði sama konan og hafði hoppað inn áður annan og þriðja kaflann úr þrefalda konsertinum. Annar kaflinn þægilegur og small alveg, þriðji kaflinn flóknari en hún réð nú alveg við hann, datt einu sinni aðeins út en þessi kafli var annars flugeldasýning semballeikarans svo þau hafa orðið að reyna að spila hann. Svo kom ein útgáfan af La Folia eftir Corelli, þarna útsett fyrir tvær fiðlur og strengi, alveg fínt, tónleikarnir enduðu síðan á Bach Aríu sem er ranglega sögð á G-streng. Alveg gaman en ég hefði nú kannski samt ekki keypt mér miða á þennan samtíning. En ekki þeim að kenna, fólk getur jú veikst á síðustu stundu. Takk Liz fyrir að redda okkur miðum!

Tókum tali tvær elskulegar konur sem sátu hjá okkur, höfðu mikinn áhuga á Íslandi og önnur átti ekki nógu sterk orð til að lýsa bókinni sem var skrifuð um síðustu aftökuna á Íslandi. Þessa sem unga ástralska konan skrifaði. Gætum endað á að þurfa að redda okkur henni og lesa.

Þær sögðu okkur frá garði sem væri nánast beint bak við tónleikahúsið og fáir Dublinarbúar vissu eiginlega af. Við ákváðum að kíkja á hann og löbbuðum þangað eftir tónleikana. Fundum hann en hann var lokaður, eins og reyndar allir þessir garðar eru síðkvölds og á nóttunni. Yrði mögulega skoðaður daginn eftir.

Löbbuðum 2 km í veg fyrir strætó heim á hótel. Var farið að skyggja talsvert og búið að opna kasínóin. Nei við létum ekki freistast. Hótel, rauðvínsglas og sofa. Síðasti dagurinn í uppsiglingu. 

Dublin Lá a cúig

Fimmti dagur. Steinsváfum til næstum því níu! Magnað. Morgunmatur í seinna lagi. Aldrei þessu vant fór ég í full Irish en Jón í brauð og álegg, venjulega snýr þetta hinsegin hjá okkur.

Rólegheit fram eftir morgni, planið um daginn var Book of Kells og svo  matur á The Winding Stair um kvöldið, einhverjum mjög góðum stað úr ferðabókinni sem við höfðum tekið á bókasafninu áður en við fórum. Pöntuðum okkur miða á bókarsýninguna og bókasafnið klukkan hálffjögur. 

Út undir hádegi, löbbuðum niður á móts við Lidlélegheitin og fengum okkur að borða, pasta og hot wings, vel útilátið, snerti varla á frönskunum sem fylgdu vængjunum mínum. Strætó í bæinn. Við höfðum ekki enn náð upp í verðlagninguna á strætó. Stundum kostaði 2 evrur á mann, stundum 1.30, upphaflega keyptum við kort á 20 evrur og þegar við notuðum það fyrst var eins og upphæðin væri 13 evrur. Furðulegt. Héldum að við værum búin að fatta þetta en neibb.

Allavega komin niður í bæ byrjuðum við að labba heillangt  meðfram kajanum í átt að sjónum, skoðuðum Tollhúsið hið írska, ansi glæsilegt. Með Now hjólum en ekki Wow hjólum í statífum.

Á leiðinni voru minnismerki um hungursneyðina sem tengdist kartöfluuppskerubrestinum og um mannflutningana til Vesturheims. Átakanlegar styttur:

og sagan af einu skipi sem flutti alla farþegana án þess að neinn dæi um borð, nokkuð sem var aldeilis ekki normið! Það skip er enn þarna í höfninni. Hér er mynd af því ásamt geggjaðri brú kenndri við Samuel Beckett, teiknaða af Santiago Calatrava (eiginleg ástæða fyrir göngutúrnum var að skoða þessa brú):

Þessi gaur gæti hafa verið að vinna við höfnina þegar skipið var í höfn:

Skemmtileg hefð er að skreyta rafmagnskassa með grafflistaverkum.

Og til baka. Þurftum að eyða ríflega klukkutíma þar til við ættum tíma hjá Book of Kells. Og hvað gerðum við á meðan? Nú döh, pöbb! Jón fann uppáhalds bjórinn sinn, Rochefort, belgískan quadrupel og ég fékk glas af mjög góðu rósavíni. Sátum í góðu yfirlæti þar til tími var kominn til að kíkja á bókasafnið.

Sýning og kynning á bókinni sjálfri, ekki vinsælt að taka myndir, mjög gaman þó við reyndar næðum alls ekki upp í röðina á kynningunni, átta eða níu númeraðar stöðvar með upplýsingum sem hægt var að hlusta á í símunum okkar, fundum held ég aldrei eina stöðina en það sem þetta bókasafn er stórkostlegt! Ég var impóneraðri af því heldur en bókarupplýsingunum. Stytturnar þarna eru bara af körlum en það er búið að velja þrjár konur til að bæta við:

Féllum fyrir innkaupapoka og bol með Kells prentum í túristabúðinni á leið út. Man má nú smá!

Þá þyrftum við aftur að eyða tíma. Besti kaffibolli ferðarinnar á rooftop barnum hjá Marks and sparks. Kaffið hans Jóns Lárusar í stíl við annan nýja bolinn úr Dunnes frá deginum áður:

smá keypt handa krökkunum í matarbúðinni í Marks and Spencer, ansi hreint flott og svo aftur í Dunnes og sumarjakki handa Finni, sem annars gengur í úlpu og gönguklossum allt árið! 

Leituðum að tággranna húsinu sem var talað um í ferðabókinni en fundum ekki, örugglega of mjótt til að það sæist!

en svo var mögulega besta matarupplifun ferðarinnar (amk. þar til síðasta daginn) á The Winding Stair, rétt við Millennium göngubrúna. Tveir túristar á undan okkur voru að skoða matseðilinn fyrir utan og fóru inn en voru gerð afturreka því þarna þarf að panta borð. Sem við vorum búin að gera. Vorum 20 mín fyrir tíma en komumst samt strax inn. 



Þarna fengum við mat sem ég hef ekki fengið áður. Grillaðan nautamerg! Og snigla með. Ok hvorttveggja var hluti af rump steak máltíð, líka franskar og sveppir og sósa en vá hvað þetta var magnað! Verðum að reyna að herma eftir þessu heima. Þjónninn klappaði sér aftan á mjöðmina þegar við pöntuðum og spurði hvort það væri í lagi, hvort við áttuðum okkur á hvað rump steak þýddi. Okkur fannst það ansi hreint fyndið.

Strætó uppeftir, það sem er hægt að verða þreytt af engu, eða svo til! Á leiðinni var heilmikil umferðarteppa, ekki bara í Reykjavík þar sem myndast Ártúnsbrekkuraðir á leið heim eftir vinnu…

Smá bjór, Guinness Extra Stout, algert sælgæti, og svo bara sofa.

Dublin Lá a ceathair

Bara stefnt á rölt í bænum þennan dag. Um tíuleytið fórum við út, bættum á strætókortið í lókal búðinni, heilsuðum upp á mávaungann sem var alltaf á vappi þar fyrir framan:

Strætó í bæinn. Byrjuðum á Trinity College. Þar er til húsa hin fræga Book of Kell. Engir miðar lausir fyrr en þrem tímum síðar. Hentaði eiginlega ekki plani. Ákváðum að hinkra með þá heimsókn þar til daginn eftir og panta þá tíma.

Pizza í hádegismat. Ljómandi bara. The Well, mjög góðar pizzur og spænskur bjór, Sál Madridborgar held ég hann hafi heitað. 

Stímdum þá á annað safn, Chester Beatty, bandaríkjamaður sem bjó á Írlandi og var með Austurlandadellu á háu stigi. Svakalega flott safn en ég gat ekki skoðað það allt, fæ svo svakalegt visory overload. Meikaði tvö herbergi, eitt stórt og eitt minna. Settist svo fram og sofnaði næstum því meðan Jón skoðaði restina af safninu. 

Duttum inn í eina verslunarmiðstöð, Dunnes, ótrúlega flott bygging. Jón fann tvo flotta boli, svo það var afgreitt. Sáum líka jakka handa Finni en keyptum ekki þann daginn, betra að bera það undir hann. 

Kíktum á ísstað með besta ís Dublinar, skv ferðabókinni sem við vorum með. Mjög fínn og léttur ís, keyptum okkur samt bæði eina kúlu af coffee bean ís og það var eiginlega of mikið af kaffibaunum, þegar ísinn var runninn niður í hverjum bita var enn slatti eftir af kaffibaunum til að tyggja. Ég steinhætti að vera syfjuð og varð hrædd um að geta svo ekkert sofnað um kvöldið! Hin ískúlan, honeysuckle og karamellu var hins vegar frábær og líka súkkulaði-viskíkúlan sem Jón fékk, ekki frá því að hún hafi verið best. Reyndist eina viskíið sem var innbyrt í ferðinni, Jón hræðist að vera rekinn úr viskíklúbbnum!

Bæði alveg búin á því eftir eiginlega ekkert, ok ekki mikla dagskrá. Sammála um að fara bara upp á hótel. Sem betur fer var hótelherbergið stórt og huggulegt, maður hugsar alltaf, æ það gerir ekkert til hvernig hótelið er, erum ekkert í útlöndum til að hanga þar en svo er alltaf einhver tími eins og þessi, orðin dauðþreytt og meika ekki meiri þvæling og þá er bara best að koma sér á hótelið og slaka á. Sem er ekki gaman ef það er ósnyrtilegt og leiðinlegt.

Jón tók þarna allt í einu eftir því að það voru ekki bara hlussuinnstungurnar heldur voru usb tenglar á boxinu. Jahá. Hættum semsagt að þurfa að púsla hleðslu. 

Matur á hinu hótelveitingahúsinu, sama og við fórum í kokkteila kvöldið áður. Ljómandi fínt bara, sérstaklega borgarinn hans Jóns með kóreskum kjúklingi. Spes samt að á báðum þessum hótelveitingahúsum voru sjónvarpsskjáir með íþróttum í beinni (án hljóðs samt). Og ekki nokkur leið, allavega á þessu, að finna sæti þar sem ekki var skjár að taka athygli. Allt í lagi að hafa svona á öðrum staðnum en báðum!!! Líka pínu fyndið að Jón rak augun í kassa með Midleton viskíi, einu flottasta írska viskíinu og spurði strákinn á barnum hvað sjúss af því myndi kosta. Strákurinn hikstaði og kannaðist ekkert við þetta viskí, Jón benti á kassann og hann, jaaááá, sko það er engin flaska í kassanum, þetta er bara til sýnis! Eiginlega mjög fyndið, en reyndar hefði verið ótrúlegt að í þessum úthverfahótelbar væri þetta viskí yfirleitt til. 

Upp í herbergi, ég steinsofnaði von bráðar  (um tíuleytið) þrátt fyrir kaffibaunirnar. 

Dublin Lá a trí

Mögulega besti veðurdagurinn í uppsiglingu. Eftir ágætis morgunmat og smá rólegheit uppi á hóteli löbbuðum við upp í verslanamiðstöð ca einn og hálfan kílómetra frá hótelinu, í átt frá bænum. Jón var að leita að bol, bolabúskapurinn orðinn frekar sorglegur. Þar var þó ekki um sérlega auðugan garð að gresja. Keyptum bara eina rauðvínsflösku og tvo bjóra. Hádegismatur á Nando’s stað í mollinu. Höfðum hugsað okkur að taka strætó beint í bæinn en svo nenntum við ómögulega að vera að þvælast með þessar drykkjarvörur allan daginn svo við röltum okkur aftur niður á hótelið. Svona leggja síðan greinilega ekki bara Íslendingar:

(pet peeve hjá mér þegar fólk talar um að það sé allt verst í heimi hér á landi, aular eru alls staðar til)

Stefnan var að fara í svona hop-on-hop-off strætó. Þegar við komum niður í miðbæ var fjárfest í miðum í eina týpuna. Einn bjór í hliðargötu og svo fundum við strætóinn. Bráðskemmtilegur bílstjóri-skástrik-leiðsögugaur reytti af sér brandarana í bland við upplýsingar. Urðum margs vísari og smá sólbrennd í túrnum. 

Hoppuðum bara einu sinni af, í stærsta garði Evrópu innan borgar, Phoenix Park sem heitir víst ekkert eftir fuglinum Fönix heldur er nafnið hljóðlíking af írsku orðunum fionn uisce sem þýðir hreint vatn. Ekki get ég sagt að við höfum tekið garðinn út í heild sinni, inni í honum kæmust fyrir 6 stykki Hyde Park og þrjú heil Monaco. Dásamlegt var þetta nú samt.

Röltum niður að næsta stoppi, þar var krá sem dró inn farþega úr þessum Big Bus túrum með loforði um frían Guinness. Stóð alveg við það, reyndar var sá fríi pínulítill en pint á hálfvirði. Ég lét þann litla duga en Jón fékk sér pintu:

Það var ekki svona lítið að gera á pöbbnum, það sátu bara öll úti nema við sem þurftum smá hvíld frá sólinni.


Gripum restina af túrnum, keyrði meðfram Liffey ánni. Ekki jafn skemmtilegur leiðsegjandi en sem betur fer var þetta bara smá bútur af túrnum.

Fætur farnir að segja til sín, keyptum pakka af plástrum því ég var nokkuð viss um að vera komin með allavega eina blöðru. 

Skemmtilegri mynd af Spírunni (sem skemmtilegi fararstjórinn sagði okkur að fólk hefði verið fúlt yfir kostnaði við og kallaði ýmsum nöfnum, til dæmis The Stiffy by the Liffey)

Írskur matur í kvöldmat

(nei þetta er ekki kóríander þarna ofan á, fuss!)

Spjölluðum þar við unga konu frá Texas sem var jafn sátt við veðrið, 22° og sól frá sínum vanalegu 35° og mollu eins og við vorum frá okkar 14° og rigningu. Bráðskemmtileg þjónustuynja sagði okkur að njóta nú annars tveggja sumardaga í Dublin. Enn verra en hjá okkur greinilega, við eigum þó allavega sumarkvöldin fjögur!

Hótel. Kokkteilar á mjög vel stokkuðum hótelbar. 

Upp og krota ferðasögu. Sofa.

Dublin Lá a dó

Steinsváfum til klukkan hálfátta (hálfsjö að íslenskum tíma) en fannst við hafa sofið út. Morgunmatur var ekki innifalinn hjá okkur en við keyptum voucher fyrir slíkum til að tékka á hvernig hann væri á hótelinu, myndum svo kaupa fyrir vikuna ef hann væri góður, sérstaklega þar sem ekki var um auðugan garð að gresja af stöðum sem hægt væri að fá morgunmat í nágrenninu. Sem betur fer var hann hörkugóður. Írskar “slátur”pylsur, white og black pudding reyndust mjög góðar. Geggjað flottir lampar í morgunmatarsalnum:

Upp á herbergi aftur, fram til ca ellefu. Enginn í akkorði!

Eins gott ég hafði fattað á síðustu stundu að taka með millistykki því auðvitað er Írland með þessar fáránlegu hlussuinnstungur eins og Bretar. Þýddi samt að við gátum bara hlaðið eina græju í einu. Slíkt þyrfti að plana. Tveir símar, tölva og ipad. Mér láðist að hlaða símann áður en við fórum út og hann var í talsverðri notkun, alltaf að nota google maps og taka myndir og fletta einhverju dóti upp svo hann varð nánast tómur í lok dags, rétt slapp til.

Strætó niður í bæ um ellefuleytið. Nokkrar strætóleiðir stoppa einnar mínútu gang frá hótelinu og bruna beint niður í bæ svo það var ekkert vandamál. Endastöðin á leiðinni sem við tókum var Lower Abbey rétt hjá kennileiti sem heitir Spire og er fjallhá málmnál beint upp í loftið.

Hádegismatur var fyrsta boðorð. Vorum búin að lesa um einhvern tælenskan stað og sikksökkuðum okkur gegn um Temple Bar svæðið til að finna hann. Svo reyndist það bara vera teikavei staður og því nenntum við ekki. Meira sikksakk og smá villur og þá fundum við stað sem hét Duck, kínverskur og reyndar ekki nema rétt ríflega teikavei, þó var hægt að setjast og borða. Pöntuðum okkur nánast ketó máltíðir, bara kjöt, ég klúðraði því samt aðeins með að kaupa mér kók með.

Þetta var svo fáránlega mikið, hefði verið feikinóg að kaupa einn skammt! Fengum brottfararbox og pökkuðum rest niður í bakpoka fyrir kvöldmat. 

Þá bara meira rölt og meiri skoðunarferðir, yfir göngubrýr og meðfram ánni, kíktum á kastalann, eða réttara sagt kastalagarðinn, ég er búin að sjá nóg af kastalaherbergjum um ævina. En garðurinn var flottur.

Þetta fannst mér fyndið nafn á veitingastað. Þeeeegiðu!

Bjór og freyðari á Porterhouse kránni, Jón gat ekki ákveðið sig svo honum var boðið svona örsmakk. Mjög gott, sérstaklega súkkulaðiporterinn sem er þarna í miðjunni en barþjónynjan átti reyndar ekki miða fyrir hann eins og hina tvo.

Þá aftur að strætóstoppustöðinni. Þetta últra tacky fyrirbæri varð á vegi okkar. Allt í lagi með strætóinn en þessir plastvíkingahjálmarmeðhorn, hrollur!

Fundum strætóstoppið. Þar beið með okkur hópur ungs fólks sem var búið að fá sér í allavega aðra tána ef ekki báðar. Mjööög hávært en svo sem ekki með nein leiðindi. Við nenntum þeim eiginlega ekki, bökkuðum úr röðinni og ákváðum að taka bara næsta strætó sem átti að koma þremur mínútum síðar. Reyndist mistök því strætóarnir hér eru ekki troðnir út eins og hægt er heldur komst ekki öll röðin í þennan. Þar á meðal ekki háværi hópurinn. Fórum í sama strætó og þau. 10 mínútna ferð af háværu rausi þar til þau fóru út tveimur stoppustöðvum á undan okkur.

Við höfðum síðan plottað að koma við í stórum LIDL súpermarkaði kortérs gang frá hótelinu, hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að kaupa þokkalegt rauðvín fyrir kvöldið. En neibb. Úrvalið var alveg hroðalega lélegt, bæði af víni og bjór, pínulitla hverfisbúðin (ekki sérstök vínbúð sko) var skárri. Talsvert skárri. Keyptum samt eina, ösnuðumst ekki til að fletta henni upp með Vivino appinu. Svona er ég hrædd um að þetta verði ef og þegar verður leyft að selja áfengi í verslunum hér heima. Drasl í búðunum og rándýrar sérverslanir.

Rest af önd og svíni í kvöldmat. Vínið úr LIDL var fokvont (urr). Enduðum á að hella því. Jón hljóp út í hverfisbúðina, þar var til fínn lager í kæli sem bjargaði málinu. Pældum í að kíkja í kokkteil á hótelbarnum en orkan var bara búin eftir, tja svo sem ekki mikið…

Dublin Lá a haon

Ferðablogg. Langt síðan síðast, enda hef ég ekki ruslað mér út fyrir landsteinana síðan 2019. Hvernig ætli standi nú á því?

En hér erum við í Dublin. Okkur hafði langað að fara eitthvert sem við hefðum aldrei farið áður. Flugum með Play, flugið fór klukkan 6 um morguninn, vakn kl 3, mæting kl 4, nánast galtóm flugstöð og við þurftum að bíða í kortér allavega eftir að komast í morgunmat á Nord. Allt lokað reyndar nema bankinn, opnaði upp úr hálffimm.

Flug gekk að óskum, af stað á réttum tíma, meðvindur svo við lentum hálftíma fyrr en planað, öll í vélinni voða glöð. Þar til að það var svo ekkert opnað. Sárvantaði starfsfólk á plan á Dublinflugvelli og það kom ekki starfsmaður að færa stigann að fyrr en hálftíma eftir lendingu. Nújæja þá væri hægt að fara að opna. En ónei, þá vantaði annan starfsmann til að lóðsa fólkið inn. Þar var annar hálftími. Svo í staðinn fyrir að koma hálftíma fyrr til landsins enduðum við hálftíma síðar. 

Ekki að við værum að flýta okkur svo sem. Klukkan var að ganga hálfellefu og við máttum logga okkur inn á hótelið klukkan þrjú.

Almennilegasta kona að tékka passana okkar, við vorum smá hissa því við héldum að Írland væri í Schengen en þá er það barasta ekkert þar þrátt fyrir að vera í ESB.

En konan var allavega ræðin og spurði um norðurljós og allskonar. Þetta átti eftir að vera smá þema í ferðinni. 

Leigubíll á hótelið, sem var ca mitt á milli flugvallarins og miðbæjarins. Leigubílstjórinn var líka hinn ræðnasti þó hann spyrði ekkert um norðurljósin, spurði hvað við værum að gera og benti okkur á ýmsa möguleika á t.d. skemmtilegum görðum og útisvæðum. Vorum þarna farin að fá á tilfinninguna að Írar væru hið almennilegasta og gestrisnasta fólk. 

Lent á hótelið um ellefuleytið, gátum ekki tékkað okkur inn fyrr en klukkan þrjú. Hin ljúfasta stúlka í afgreiðslunni sagði alveg sjálfsagt að geyma fyrir okkur töskurnar og benti okkur á hvert við gætum farið til að fá okkur eitthvað að borða þar sem veitingastaðurinn á hótelinu opnaði ekki fyrr en hálftíma síðar. Ekki nenntum við að sitja og bíða eftir því.  Á svæðið þar sem veitingahúsin voru var um kortérs gangur (já þetta er ekki beinlínis miðsvæðis). Komum við í apóteki, þar var enn ein ræðna og brosandi afgreiðslumanneskjan.



Ekki var allt orðið opið þegar við komum á svæðið, enduðum á pöbb með brunch. Þokkalegasta Eggs Benedict en ekkert meira en það. Hefði eiginlega átt að taka mynd því þetta leit betur út en það bragðaðist. Brauðið var gott en poached eggin ofsoðin og of lítið af annars góðri hollandaisesósu (vá þetta er boring – hætt!)

Búin að borða áttum við enn þrjá tíma í inntékk. Vorum búin að reka augun í að ekki langt frá hótelinu (og í þá átt sem við vorum komin) var grasagarður borgarinnar. Svo við ákváðum að kíkja þangað. Góður hálftíma göngutúr í garðinn sem reyndist dásamlegur. Mest hrifumst við af stóru kaktusabeði: 

Og svo yndislegur rósagarður með ótrúlegustu fjölbreytni rósa, lit og tegundum. Hér er smá sýnishorn.

Svo var þarna lítill kór með útitónleika, fínn aukabónus.

Þegar klukkan var orðin passleg í að fara til baka röltum við af stað aftur, þessa þriggja kortéra leið. Vorum alltaf að sjá einhverjar flottar plöntur sem við vissum ekki hvað væri, PictureThis appið var í mikilli notkun.

Eitt bjórstopp á leiðinni, tær aðeins farnar að kvarta í Scarpa skónum. 

Þá hótelið. Strákur í lobbíinu furðaði sig á nafninu mínu og spurði hvaðan við værum. Já, Ísland? Hvað er margt fólk? Og sjáið þið NORÐURLJÓS???

Herbergið reyndist risastórt en enginn ísskápur sem er pirrandi!

Steinsofnuðum í tvo tíma. Hótelveitingahús í kvöldmat. Borgari handa mér og lambaleggur handa Jóni, reitaði ekki mynd frekar en fyrr um daginn. Fínt samt.

Rauðvínsflaska kæld í vaskinum, keypt í pínulítilli hverfisbúð, samband við írska vinkonu sem reyndist hafa lent í slysi í síðustu viku svo við stefndum ekki á að hittast en spjallaði smástund og hún gat bent okkur á tónleika í vikunni. Þurfti að kaupa fyrir okkur miðana því það var meira en að segja það að kaupa þá online nema vera með aðgang og til að fá aðgang þyrfti ég írska adressu. En hún reddaði málinu og ég borgaði henni inn á PayPal reikninginn hennar, hvílíkur munur frá að þurfa að fara gegn um bankakerfið!

Svo bara sofa. Ekki veitti af.


bland í poka

teljari

  • 377.628 heimsóknir

dagatal

júlí 2022
S M F V F F S
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31  

sagan endalausa