Sarpur fyrir júní, 2011

já lagið

fékk tvær áskoranir í dag um að leyfa ykkur að heyra lagið sem ég fékk bréfið út af. Var svo sem búin að hugsa það en ekki alveg komið í framkvæmd.

Lagið er allavega hér, ekki í útgáfunni með kórnum sem er núna í Manstettir að halda tónleika með frægu söngkonunni heldur frumflutningurinn á tónlistarhátíðinni Vilbergsdögum í Garðabæ fyrir nokkrum árum.

Man ekki hvort ég hef sagt söguna bak við lagið – við vorum þónokkrir tónlistarmenn í Garðabæ sem vildum heiðra minningu gamla skólastjórans okkar hans Vilbergs Júlíussonar. Heilmörg hljóðfæri voru til staðar en líka söngur og þar af einhver ósköp af sópransöngkonum og síðan tveir sellóleikarar. Eitthvað kom til tals að hafa kammermúsík og annar sellóleikarinn segir: Hví ekki gera verk fyrir 8 sóprana og 1 selló – öfugt við frægt verk Villa-Lobos fyrir 8 sellóleikara og einn sópran? Greip þetta á lofti og ekki löngu seinna varð verkið semsagt til…

krítík

Maður er nánast alveg hættur að fá gagnrýnendur á tónleika hjá sér, sjávarútvegs„aðallinn“ sem heldur Morgunblaðinu uppi með valdi hefur væntanlega lítinn áhuga á menningu og listum og ég veit ekki hvað Jónas Sen fær að fara á marga tónleika á vegum Fréttablaðsins, ekki sérlega marga. Helgi Jóns fer á tvenna til þrenna í viku, við vorum svo heppin í Hljómeyki að okkar tónleikar voru einir þeirra sem hann fór á hér fyrir nokkrum vikum. Umfjöllun hans má heyra hér: Schnittke umfjöllun

Hins vegar fékk ég skemmtilegt bréf inn um raflúguna í morgun frá gagnrýnanda Moggans:

Sæl Hildigunnur.

Frumheyrði stykki í RÚV 1 fyrripartinn í dag sem kom mér hressilega á óvart.
Ekki fyrir „nie erhörte Klänge“ né „gjörnýtingu á möguleikum hljóðfærisins“
heldur heillandi ferskleika og skemmtilega samtvinnun í anda þeirrar
millimúsíkur sem brúar bezt gjána milli popps og framúrstefnu.

Það var fyrir kvennakór og selló, og reyndist í afkynningu vera eftir þig –
hvað kom mér enn meir á óvart! Að vísu afspyrnuvel flutt (Graduale Nobili
og Bryndís Halla). En mér er sama. Verkið kom þrælskemmtilega út; heiðtært
og gáskafullt í senn.

Það vantar meira af svona lögðu hér, ef ný tónlist á að komast aftur inn á heilbrigða
þróunarbraut, burt frá steingeldum akademisma í frjótt jarðsamband við
venjulega hlustendur.

Bravó!

Með hvatningarkveðju,
SMNV,
RÖP

Fékk góðfúslegt leyfi til að birta bréfið hér, takk fyrir það. Ekki leiðinleg sending atarna.

pöntun en sumarfrí

jamm, datt inn pöntun í síðustu viku, frekar stór, lofaði að byrja að kíkja á hana strax í þessari viku.

Svo kom gott veður…

Allavega er ég lítið búin að gera í vikunni nema vera í sumarfríi. Reyndar alveg kominn tími á slíkt. Hrundi samt í mig byrjun á verkinu í baðinu áðan þannig að ég opnaði Finale og er komin með fyrstu taktana. Þurfti svo að lofa sjálfri mér að láta kjurt á meðan veðrið helst. Tími ekki að sitja inni svona úr því ég ræð þessu smá.

Hef alltaf skilað á tíma hingað til (bankbankbank) og ætla ekki að byrja að hafa áhyggjur af því í þetta sinn.

Á móti er ég með sólarexem og smá brunablett á annarri öxlinni. Þess virði.

fullorðnast

já börnin manns eru víst að fullorðnast, eiginlega hraðar en ég vildi.

Fífa og kórinn hennar eru farin til Manchester að halda tónleika með Björk og bandi, sjá hér. Fór á generalprufuna hér heima um daginn og þetta verður gríðarlega flott, reyndar eiginlega aðgengilegasta músík frá Björk í talsverðan tíma, ég upplifði þetta sem einhvers konar punkt sem músíkin hennar síðastliðin ár safnast í.

Nokkrir tónleikar úti, síðan verða vonandi tónleikar hér í haust og svo getur verið að þær fái að fara með í framhaldstúrinn, þar verða New York, Ríó, Róm og Japan ef ég man rétt. Á allt samt eftir að koma í ljós.

Allavega er stóra barnið mitt komið í atvinnumannapakkann, verður núna burtu í heilan mánuð. Tómlegt hér heima en mikið hrikalega held ég að þetta verði gaman hjá þeim.

allt að gerast

búin að hlusta á öll sænsku verkin

Martröð komin á dagskrá í Sviss
Martröð komin á dagskrá í Seattle
Vókalísa komin á dagskrá í Úkraínu

og fleira í deiglunni.

Sting af til Sverige á sunnudaginn, auðvitað á þá að fara að kólna þar…

ofneysla

jámm, þessa dagana er ofneysla í gangi hér á bæ. Sænskum nútímaverkum í tugatali mokað inn þar til þau buna aftur út um eyrun.

Undirrituð er semsagt að fara til Svíþjóðar og velja verk á hátíð.

Um hálfsjöleytið í dag var ég komin með svo mikið nóg að mig langaði mest til að stroka þau öll út. Það væri hins vegar verulega óréttlátt því ég er búin að hlusta á mörg fín. Slatti eftir enn sem verða víst að klárast í vikunni, fer út á sunnudaginn kemur.

Hlustaði á Rammstein til að hreinsa hugann (nú líður væntanlega yfir nokkra lesendur).

Svo datt inn ræma af uppáhalds teiknimyndaseríunni minni:


bland í poka

teljari

  • 377.779 heimsóknir

dagatal

júní 2011
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
2627282930  

sagan endalausa