Sarpur fyrir maí, 2016

Kolding dag 1 – Út

Já það er tekið smá sumar og dóttir og tengdasonur heimsótt til Jótlands. Haldið þið ekki að hér sé sól og heitt?

Eftir tvær stúdentsveislur (aðra okkar eigin, velheppnaða stúdentsveislu velheppnaðrar stúdínu þar sem ekkert klikkaði nema of lítið freyðivín keypt, afsakið veislugestir ruglið í undirritaðri og svo hina, veislu kærastans hennar þar sem hreint ekki vantaði upp á drykkjarföng og við bóndinn vorum síðust út) var stefnan semsagt tekin á Kolding á miðJótlandi. Undirbjuggum okkur með því að hlusta á The Julekalender klippur og Jón Lárus stillti danska dúólingóið á jóskan framburð. Djók.

IMG_2277

Allavega, frekar ósofin (nei ekki drukkin, það var dagur á milli!) skutluðum við Fífu leynigesti í stúdentsútskrift á BSÍ til að taka rútuna því við vorum fimm í bílnum sem renndum svo á Leifsstöð. Innritun í kassa og uppgötvun sjálfsinnritunar farangurs, mjööög sniðugt dæmi. Ekki mikil né leiðinleg bið í öryggistékk, obligatoríska súkkulaðið og croissantinn á Segafredo. Fífa var glöð að hafa okkur þarna þar sem hún hefur mikið verið að ferðast ein og það er alveg smá skemmtilegra að vera með fólkinu sínu.

Smá seinkun á fluginu en annars viðburðasnautt. Beint út og fundum strax bílaleiguna þar sem við vorum búin að panta sjömannabíl. Þar var hins vegar tölvuvesen, engar raðir hjá Hertz eða Europcar eða Avis og fleiri en hjá Enterprise var röð upp á svona 5-6 manns og hver afgreiðsla tók einn og hálfan óratíma. Þegar loksins kom að okkur gekk álíka hægt, loksins þótti mér nú samt komið að lokum þegar almennilega stúlkan (sem var reyndar búin að afsaka sig í bak og fyrir með hægaganginn og  ítrekað bjóða okkur kaffi eða te eða vatnsglös) sagði að nú ætti bara eftir að prenta út voucher fyrir okkur kallaði ég á krakkana sem voru annars löngu búin að gefast upp og höfðu fundið sér sæti, að nú væri þetta að koma. Þá tók kortér að prenta út blessaðan samninginn!

Svo fengum við loksins leiðbeiningar um hvar við ættum að finna bílinn. Við þangað. Upp á fimmtu hæð sem Danir kalla fjórðu (hvað er með þessa núlltu hæð?) Fundum afgreiðslueinstakling og fengum í hendur mjög fansí lykil. Ég ýtti á opnatakkann og rak upp undirskálaaugu. Haaaa? neeeeii? ekki er þetta bíllinn okkar? Jújú sagði afgreiðslueinstaklingurinn. Og er eitthvað trikk til að starta? nei ekkert þannig snúið, það er bara takki. Þarft ekkert að stinga „lyklinum“ í neitt, hann þarf bara að vera í bílnum. Jón Lárus var enn ekki farinn að taka eftir hvernig bíllinn leit út og þegar ég gekk svo að bílnum til að opna urðu augun hans sveimér eins og Sívaliturn.

volvo-xc90-first-edition-03

Við vorum búin að borga fyrir Volkswagen Touran eða sambærilegan en bíllinn reyndist vera kolsvartur glænýr Volvojeppi, XC 90 með öllum hugsanlegum græjum, leðursætum og loftkælingu og myndavél þegar maður bakkar og rauðum ljósum á hliðarspeglunum þegar bíll er í blinda blettinum og hvað veit ég?

Sveimérþá ef þetta var ekki biðarinnar virði!

Við vorum búin að ákveða að ég myndi byrja að keyra, Jón Lárus hafði skoðað leiðina og hlaðið gúgulleiðbeiningum inn á símann sinn og ætlaði að vera á oríenteringarvakt. Gekk fínt nema það voru reyndar verulegar tafir kring um Køge.

IMG_2284

Stoppuðum á rasteplads til að fá okkur smá í svanginn. Skiptum um bílstjóra enda var mig að byrja að svíða í augun og Jón keyrði rúman klukkutíma, bút af Sjálandi, yfir allan Fjón og svo skiptum við aftur áður en við komum inn til Kolding. Orientasjón sko.

Storebæltsbroen:

IMG_2292

Hótelið fundum við með góðri leiðsögn. Plöntuðum bílnum í bílakjallara (hundraðkall á dag en hei, þegar maður ætlar að vera á bíl þá kostar það bara – og ekki fræðilegur að leggja þessari drossíu við umferðargötu og hætta á pústra)!

Fífa sótti okkur svo á hótelið og við gengum heim í pínuoggulitlu íbúðina þeirra Atla þar sem hann hafði útbúið auka útskriftarveislu fyrir Freyju, Emil og Finn, með dönskum snittum, pulled pork samlokum og feikinógu freyðivíni, enginn þurfti að láta sér eitt glas duga. Tja nema Finnur sem fékk bara appelsín. Þrátt fyrir að vera kominn í fyrirheitna landið þar sem hann má kaupa sér bjór! (ókei hann hefur reyndar ekki minnsta áhuga á því…)

IMG_2298

Sátum fram til ríflega tíu og stungum síðan af, nema Finnur sem ætlar að gista hjá systur sinni. Galopnuðum svaladyr á hótelherberginu til að lifa af molluna. Eini gallinn á herberginu var að enginn  var þar minibar, í sjálfu sér svo sem í lagi en það þýddi enginn ísskápur sem var verra. Hef ekki gist á ísskápslausu hótelherbergi ég veit ekki hvað lengi!

Duolingoskammturinn og sofa. Vel þegið. Mjög vel þegið!

 


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

maí 2016
S M F V F F S
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
293031  

sagan endalausa