Jæja, ferðablogg. Efast um að neinn sé enn að lesa þessa síðu en þetta er eiginlega bara fyrir sjálfa mig og fjölskylduna, höfum oft lifað á því eftirá að lesa ferðabloggin og rifja upp skemmtilega daga og uppákomur. Ég létti talsvert fyrir mér lungnabólguna fyrir nokkrum árum með að rifja upp hitann á Ítalíu 2007.
Allavega:
Þægilega morgunflugið. Óvenjulega „þægilegt“, þurftum að vakna klukkan þrjú því Váflugið átti að fara í loftið kortér fyrir sjö, mæting kortér fyrir fimm og við þurftum að skipta á rúmunum fyrir fjölskyldurnar tvær frá Brussel sem yrðu í okkar húsi, fyrir nú utan allt þetta smotterí sem alltaf þarf að gera áður en lagt er íann (smá morgunmat, klára að ganga frá snyrtidótinu eftir tannburstun, þið þekkið þetta jú).
Við vorum 5 í bílnum, við Jón Lárus, Finnur, Freyja og Emil kærasti Freyju. Fífa, sú elsta, og Atli kærastinn hennar höfðu farið á undan og voru búin að vera nokkra daga í Amsterdam og ætluðu að hitta okkur í Brussel.
Skotgekk að skrá okkur inn, Vástarfsfólkið indælt og hjálpsamlegt. Tvær rauðvín og eitthvað smotterí í fríhöfninni. Segafredo á vellinum reyndist ágætis skipti fyrir Kaffitár, croissant og súkkulaði eiginlega betra en þar, (allavega súkkulaðið. Sorrí Kaffitár).
Hliðnúmer voðalega hátt þannig að við lögðum af stað snemma. Á leiðinni hlustuðum við á stanslausan straum útkalla fyrir „síðustu farþega í flug númer þettaogþetta sem vinsamlegast áttu að koma sér út í vél því verið væri að bíða eftir þeim“.
Keyrð út í vél af flugvallarrútu og svo auðvitað þurfti okkar vél líka að bíða, komst ekki af stað fyrr en kortéri of seint vegna einhverra farþegaaula sem gátu ekki komið sér á svæðið á réttum tíma (jájá það geta auðvitað verið eðlilegar ástæður en voðalega held ég nú að það sé oft bara vegna þess að fólk plani ekki né passi tímann).
Flugið átakalaust, las í bókinni hennar Margrétar Tryggva (Útistöðum) og spilaði smá candy crush á símann (offline skoh). Reyndist reyndar smá mistök. Gat dottað í hálftíma eða svo.
Lent á Gatwick, smá mál reyndist að finna lestina til St. Pancras hvaðan Eurostarlestin átti síðan að fara til Brussel. Það er að segja, ekkert mál að finna lestina en svo var einhver starfsmaður sem benti okkur á vitlausan brautarpall þannig að við misstum af fyrstu lest og þurftum að bíða eftir næstu – eins gott að við höfðum ekki hætt á að kaupa far með Eurostar klukkutímanum fyrr því við hefðum ekki náð henni og verið í fokvondum málum með að komast yfir. Allt gekk þetta þó á endanum.
Á St. Pancras gátum við fljótlega tékkað okkur inn á lestarsvæðið, þar eru tvenn landamæratékk, fyrst út úr Englandi og svo inn í Schengen, plús öryggisskoðun eins og á flugvelli. Krakkarnir voru hissa á þessu þar til ég benti á að hryðjuverk eru talsvert algengari á lestarstöðum en flugvöllum og Eurostar væri örugglega freistandi skotmark.
Nújæja, komin þar inn, tæpur klukkutími í ferðina og allir svangir. Innst í biðsalnum (sem annars var stappfullur og nánast hvert sæti setið var pínulítill pöbb og þar var tilboð á borgara og bjór fyrir 10 evrur. Besta mál. Og pláss í sætum. Keyptum slíkt fyrir okkur og borgara og gos fyrir krakkana. Bjórinn og gosið var fínt en mæómæ hvað ég skildi vel hvers vegna staðurinn var tómur. Borgarinn reyndist úr kjötfarsi og var alveg skelfilega vondur. Það er eiginlega komið upp í vana að núllstilla bragðlaukana á Englandi áður en haldið er áfram ferðinni. 2007 fyrir Ítalíu, einhver skelfilegur lítill staður rétt hjá Stansted flugvellinum (sjá ;þessa færslu frá Ítalíublogginu og svo borgari og franskar sem brögðuðust sannarlega verr en þeir litu út þegar við vorum á leið til Ástralíu, sjá fyrsta daginn úr þeirri ferð. Held nú samt að við sleppum að fá okkur borgara á breskum völlum héðan í frá, sveimérþá ef Makkdónalds og Börgerking eru ekki þúsund sinnum betri kostir.
Ég hafði eytt fullmiklu af hleðslunni á símanum mínum við að spila tölvuleik í fluginu en var nú vongóð um að um borð í lúxuslest Eurostar væri hægt að hlaða símann. Ekki svo. Lúxuslestin reyndist ekkert sérlega mikill lúxus, ekkert slíkt og hún var orðin talsvert meðtekin og lítið flott við hana nema auðvitað þægindin og fljóta ferðin til meginlandsins.
Komin til Brussel Midi lestarstöðvar. Ætluðum að hitta undanfarana. Engir undanfarar. Sms gengu á milli og enginn skildi hvers vegna við fundumst ekki. Þar til þau: Uh eruð þið ekki á Brussel Central? Við: Uuuu nei! (þetta allt á næstum því galtómum símum okkar Jóns, ég þurfti að slökkva á mínum í lokin). Endaði á að þau tóku leigubíl til okkar og svo heimtaði ég sjömannaleigara í húsið og við sáum ekki eftir því. Bílstjóranum veitti ekki af GPS-inu til að rata, þarna eru mjóar hlykkjóttar götur og endalausar einstefnur. Rákum augun í litla kjörbúð rétt hjá húsinu okkar.
Húsið reyndist vera æði. Þrjár hæðir plús kjallari, furugólfborð, fullt af herbergjum, tvennar svalir, verönd og lítill garður þar sem nýtur bæði morgunsólar og kvöldsólar. Lítið tekið af myndum þennan dag en hér er villan:

Skutumst út eftir nokkrum nauðsynjum, les smá bjór.
Nýlegar athugasemdir