Sarpur fyrir júlí, 2015

Brussel daag 10. Góðar fréttir og annars eiginlega ekkert

Dagurinn byrjaði á besta mögulegan máta. Fífa fékk tölvupóst um að hún hefur fengið skólavist í Designskolen Kolding – sem þýðir að innan mánaðar verður hún farin í nám til Danmerkur. Það er mjög erfitt að komast að í þessum skóla og við erum gríðarlega stolt af henni!

Annars gerðum við nú lítið þennan dag. Nema Jón Lárus sem fór í strætó og lestum 18 kílómetra leið þar sem hann hafði mælt sér mót við sprúttsala nokkurn, nei ókei gaur sem flytur inn og selur góð vín og Jón langaði í eitt sérstakt slíkt og lagði þetta á sig. Var ekkert að draga okkur hin með, enda óþarfi.

Dagurinn fór annars meira og minna í afslöppun eins og síðasta degi í fríi sæmir. Skutumst í búð til að kaupa í nesti fyrir ferðalagið, löng heimferð fyrir höndum daginn eftir.

Veit eiginlega ekki hvað ég get eipað um daginn annað en auðvitað matarklámið að venju, höfðum splæst í andabringur í búðinni þremur dögum fyrr og frestað eldun tvö kvöld (fyrst komum við seint heim og síðan var grillveður).

Ekki vont!

Dagur 10

Settumst út á pall í síðasta skiptið í þessu fríi, létum okkur hafa það þó það væri pínu svalt (hefði verið búin að kveikja upp í útiarninum heima á palli við þetta hitastig). Sólarlag ekki af ljótasta tagi:

IMG_1573

Svo var bara farið að pakka og púsla í töskur og ganga frá. Frábært frí við það að klárast, bara heimferðin eftir. Gæti nú reitað færslu samt því við verðum í 6 tíma í London.

Brussel daag 9. Hortasafnið

Ekki lá mikið fyrir, þennan næstsíðasta dag ferðarinnar. Alla (tja flesta) langaði þó að fara og skoða hús Art nouveau arkitektsins og hönnuðarins Victor Horta. Sá eini sem ekki langaði fékk samt ekki leyfi til að hanga einn heima í húsi í tölvunni sinni þannig að hann kom með líka.

Af stað eftir morgunmat, lestin niður á Zuid stöðina og svo labbað af stað, góður 1,5 kílómetri. Við vorum eiginlega vel snemma á ferðinni, lestin fór 10.45 en safnið átti ekki að opna fyrr en klukkan tvö. Þannig að planið var að rölta þetta í rólegheitum og fá sér hádegismat á leiðinni.

Römbuðum á veitingahús beint fyrir framan þennan turn sem er hluti af gamla virkisveggnum um Brussel:

Það var víst Napóleon sem lét rífa virkisvegginn. Gaur!

Maturinn reyndist ljómandi, krakkarnir fengu sér nærri öll carbonara, eggjarauðan og osturinn borin fram sér eins og á að gera það. Við Jón fengum okkur hins vegar rétt dagsins sem var grillað lamb með kartöflukrókettum og fersku salati og var alveg ljómandi gott.

Það var reyndar fullkalt til að sitja úti og þjónninn skildi ekkert í okkur. Fínt samt þegar sólin lét sjá sig.

Eftir mat, áfram í áttina að Horta. Upp langa langa brekku, ég hefði ekki viljað vera á hjóli, tja nema reyndar á leiðinni til baka.

Vorum svo samt hálftíma of snemma hjá safninu, tók mynd af framhliðinni:

smá hringsól um hverfið, Jón fékk sér einn bjór hjá alveg voðalega fýlulegum þjónustueinstaklingi, sem kom svo ekki einu sinni til að leyfa honum að borga (við Finnur sátum líka við borðið en langaði hvorugt í neitt, kannski var það ástæðan fyrir fýlunni en það var samt nóg af lausum borðum, ekki eins og við værum að taka pláss frá borgandi viðskiptavinum).

Loksins var klukkan svo orðin tvö og við gátum farið inn í safnið. Þar mátti ekki einu sinni vera með handtöskur, skil það reyndar ekki því þar var ekkert nægilega smárra muna til að hægt væri að troða þeim í litlar handtöskur, tæpast einu sinni bakpoka.

En safnið var stórkostlegt, alveg magnað hvað maðurinn var frjór. Líka mindblowing hvað hefur kostað að gera öll þessi húsgögn og járnverk þarna inni. Því miður mátti auðvitað ekkert taka neinar myndir frekar en á Tinnasafninu nokkrum dögum fyrr. Hér má lesa um það og sjá örfáar myndir

Sömu leið heim, gengum í gegn um langan og mjóan skemmtigarð sem er settur upp meðfram lestarteinunum við Zuidstöðina. Fórum samt ekki í neitt tæki, tvö þeirra litu svo skelfilega út að sum okkar urðu sjóveik bara við að horfa á þau.

Small akkúrat að við gátum gengið upp í lestina okkar. Watermaal stöð, röltum í verslunarklasann til að kaupa í kvöldmatinn, gátum ekki alveg ákveðið okkur hvaða kjöt yrði fyrir valinu þannig að það varð bara grigliata mista – naut, svín, kálfur, lamb og pylsur. Sælgæti allt saman. Sorrí íslenskur landbúnaður, það er ekki alltaf allt best heima!

Brussel daag 8. Brugge

Pínu villandi fyrirsögn því auðvitað er Brugge/Bruges ekki Brussel en við byrjuðum og enduðum daginn jú í Brussel.

Vorum semsagt búin að ákveða að skoða hina fögru Brugge þennan dag. Eitthvað höfðum við rokkað með daginn, eftir spánni hjá yr.no en þetta varð úr, svona úr því það styttist í ferðinni og spáin ekki sérlega góð neinn af dögunum sem eftir væri. Belgíubúar eru áreiðanlega eins og Íslendingar alltaf að tala um að það hausti snemma þetta árið. Gola og frekar svalt og gengur á með skúrum.

Nújæja, fólk vaknaði með fyrra fallinu og við lögðum af stað upp úr tíu. Lestin fór bara á klukkutima fresti en þennan dag höfðum við ákveðið að fara með strætó sem fer talsvert oftar. Fundum stoppustöðina auðveldlega, strætó mætti á svæðið á réttum tíma en bílstjórinn var eiturfúll yfir að við værum ekki með nákvæmlega rétt fargjald á reiðum höndum (í strætó kostar tvær og hálfa evru en í lestina bara tvær). Fengum ekki einu sinni næga miða frá honum þegar okkur tókst þó að borga, sem betur fer var svo ekki tékkað. Veit ekki hvort við þurfum eitthvað að vera að taka strætó aftur, troðningur og svo var hann jú talsvert lengur niður í bæ en lestin.

Fórum út á stoppustöð sem hét Kauphöllin en þegar við stigum út úr vagninum sáum við samt hvergi kauphallarbygginguna. Vorum smástund að oríentera okkur í rigningunni hvert við ættum að labba til að finna Central stöðina.
Rákumst á LitluHörpu á leiðinni:
Brugge

Klukkan var að nálgast hálftólf þegar við loksins vorum búin að kaupa miða til Brugge og fórum niður á brautarpall til að grípa lest til Midi stöðvarinnar þar sem ég þóttist hafa lesið að lestirnar færu þaðan. Sá svo á skilti við pallinn að lestin sem kom á undan þeirri sem við ætluðum að taka var með áfangastað Oostende og stoppaði í Brugge. Þannig að við þóttumst heppin og hoppuðum upp í InterCity lest.

Það reyndist síðan vera mistök. Þessi lest var hægfara og fór stóóóran krók þannig að í stað þess að vera klukkutíma á leiðinni vorum við tvo og hálfan. Ekki alveg það sem við höfðum ætlað að eyða auka einum og hálfum tíma í. Ójæja.
Finni leiddist samt ekki í lestinni:

Brugge

Allir sársvangir og þegar við komum til Brugge var ákveðið að byrja á því að finna veitingastað og laga ástandið. Fyrir framan tónleikahúsið í Brugge (ég hélt að það væri bara Concertgebouw í Amsterdam).

Fundum stað með fyndnum þjóni sem vildi ekki leyfa okkur að sitja úti því það gæti komið rigning (komu svo líka dropar), fengum okkur pizzur (krakkarnir nema Atli), þorsk með kartöflumús og salati (Atli) og krækling og belgískar (við Jón). Þjónninn ætlaði ekki að trúa Freyju þegar hún vildi panta sér Duval, krakkar á þessum aldri ekki vön að drekka klausturbjóra. Var svo ánægður með hana þegar kom í ljós að hún vissi alveg hvað hún væri að panta sér.
Við Finnur í stíl:
Brugge

Appelsínið hans Finns í góðu skapi:

Brugge

en þarna var það nærri búið:

Brugge

Áfram haldið inn í bæ – reyndar reyndust síðan veitingastaðirnir við aðaltorgið frekar ódýrari en þessir við konserthúsið. Óvenjulegt.

Finnur fékk sína obligatorísku vöfflu og svo fórum við á pöbb sem selur bjór sem heitir Garre, einn af toppbjórunum og hann fæst hvergi annars staðar. Borinn fram með ostateningum í stað hins venjulegra jarðhnetu- eða saltkexs.

Brugge

Fallegt í Brugge:

Brugge

Heimferðin í lestinni tók núna klukkutíma og fimm mínútur, stoppaði á einum stað í stað 8 eða 9 og fór engan krók.

Rétt misstum samt reyndar af lestinni okkar uppeftir, þessi kom 5 mínútum seinna á Midi stöðina en Ottignieslestin lagði af stað. Þannig að við hoppuðum út úr stöðinni og fengum okkur belgískar í pappírshorni í kvöldmatinn.

Uppeftir og svo meira bjórsmakk. Mesti bjórsnobbbjórinn í Belgíu heitir Westvleteren, bruggaður í klaustri, fæst helst á gatnamótunum við klaustrið en samt líka í örfáum bjórbúðum. Við höfðum rambað inn í búðina á rölti um miðbæinn og þar stóðu nokkrir kassar af honum á gólfinu. Jón Lárus og Atli keyptu sitthvora flöskuna. Hafði staðið til nokkur kvöld í röð að smakka en alltaf eitthvað komið upp. Nú var ekki (mikið) seinna vænna og bjórarnir voru teknir upp með viðhöfn og drukknir:


(já við keyptum líka glas)

Góður en stóð ekki aaalveg undir hæpinu.

Enduðum kvöldið á að sitja fram yfir miðnætti og spila, öll sjö.

Brussel daag 7. Jeanneke og Manneken

Rigning að morgni. Búðarferð á dagskránni, nú höfðum við fengið leyfi til að nota bílinn sem var ágætt, þurftum líka að losa okkur við ansi hreint margar bjórflöskur (hei við erum í bier hemel hér!) og gott að losna við að labba rúman kílómetra með fulla poka af gleri og svo til baka með gler með einhverju í.

Í bílnum voru sæti fyrir sex, Emil fórnaði sér og var heima. Auðvitað keyptum við svo allt sem okkur langaði í, stórhættulegt að fara í flottar kjörbúðir í útlöndum!

Ég keyrði heim og neitaði að taka leiðbeiningum og hafði fullkomlega rangt fyrir mér. Ekki í fyrsta skiptið og örugglega ekki það síðasta, en heim rötuðum við nú samt á endanum.

Vorum eitthvað að velta fyrir okkur hvort við nenntum í bæinn en létum nú samt slag standa, vorum mikið heima daginn áður og tímdum eiginlega ekki að eyða dýrmætum útlandatíma í að hanga í húsinu, rigning eða ekki rigning.

Reyndist hin besta ákvörðun því svo stytti auðvitað upp og sólin kíkti meira að segja svolítið á okkur.

systurnar bak við brotið öryggisgler á lestarstöðinni okkar í Watermaal.
Á meðan þessi mynd var tekin strögglaði Jón Lárus við miðasjálfsalann sem vildi ekki selja honum miða fyrir hópinn. Tókst samt á endanum og síðan þegar lestarvörður kom að stimpla miðana okkar sagði hann okkur í óspurðum fréttum að miðinn gilti allan daginn á öllu Brusselsvæðinu, fram og til baka, upp og niður og hvað veit ég? Hefðum viljað vita það fyrr, höfðum keypt framogtilbakamiða allan tímann! Frekar óskýrt hjá þeim, allt saman.

Gerðum svo sem ekki mikið. Löbbuðum gegn um skemmtilega veitingahúsahverfið til að finna Jeanneke Pis systur hans Manneken:

forðuðumst ýtnu þjónana á veitingastöðunum en hingað skal samt haldið aftur að borða, á miðvikudag eða fimmtudag

áfram, snarbrjálaðar vöfflur með margra sentimetra lagi af rjóma og jarðarberjum (engin mynd), hópur splittaðist en við Jón, Fífa, Atli og Finnur kíktum aftur á Manneken sem að þessu sinni var ekki uppáklæddur:

Bjórsnobbararnir settust svo á pöbb og snobbuðust með allskonar skemmtilegheit:

þessi bjór heitir Kwak og segir nafnið sitt sjálfur.

Þessi dúfa heitir ekki Kvak svo ég viti, samt

Þarna var líka hægt að fá bjórsmakk, misstór. Keypti ekki svoleiðis, bara tók mynd af þarnæsta borði með smakkrönd, undirstöður borðsins ekki aaalveg sléttar:

Heim, keyptum annað súkkulaðismakk á leiðinni, lest til Watermaal að venju, út á pall í klukkutíma, svo gerðum við þistilhjörtu með hollandaissósu í kvöldmatinn og svo buðu Fífa og Atli upp á smakk á hollenskum ostum. Truffluostur úr kúamjólk, fenugreek (sem ég man ómögulega hvað heitir á íslensku og google translate hjálpar ekki) geitaostur, pestóostur og 50 mánaða gouda ásamt fjórum tegundum af sinnepi, balsamik, trönuberja, hunangs og wasabisinnep.

Sagði einhver matarsnobb? naah!

Brussel daag 6. Markaður

Rifum alla á lappir um hálftíuleytið þennan morgun því veðrið var frábært og svo var matarmarkaður svæðisins bara opinn frá átta til eitt. Löbbuðum eftir morgunmat að torgi svona einn og hálfan kílómetra burtu þar sem markaðurinn var staðsettur. Rákumst á þessi fallegu hús á leiðinni:

Markaðurinn reyndist talsvert stór, enda eini markaðurinn á þónokkuð stóru svæði. Fullt af fallegum grænmetis og ávaxtastöndum, ostar og kjöt og kökur og föt og skinkur og pylsur og bara allt sem á að vera á svona mörkuðum. Á einum stað var síðan veitingahorn, við nokkur ákváðum að fá okkur samósur hjá alveg massahressum sölumanni sem kunni sitt fag alveg til hins ítrasta og naut lífsins í vinnunni:

Hann var líka með rósavín úr malbec þrúgunni, það höfum við aldrei prófað áður en var alveg ljómandi gott. Neyddumst til að fá okkur tvö glös hvort meðan krakkarnir voru að frílysta sig á markaðnum.

Afrakstur markaðarins var síðan þessi:

plús reyndar sjö stór cordon bleu buff (nei EKKI Gordon Blue eins og stendur iðulega á íslenskum útgáfum). Kjötkaupmaðurinn gaf okkur síðan box af einhverju torkennilegu salati í kaupbæti enda styttist í tímanum sem var opið á markaðnum. Gott samt.

Heim. Byrjaði að rigna. Lagði mig og steinsofnaði í örugglega tvo tíma meðan sum hinna horfðu á formúluna í sjónvarpinu og spiluðu á píanó og tölvuleiki og hvað veit ég?

Cordon bleu í kvöldmatinn, sveppirnir á myndinni eru af tegundinni bláfótur og voru alveg fáránlega góðir í rjómajafningi. Höfum aldrei smakkað þessa sveppi fyrr en ég væri til í meira – ef við finnum!

Brussel daag 5. Tinnasafnið

Aftur var steinsofið fram að hádegi eða svo. Tja nema við Jón sem vöknuðum klukkan átta. Mikið sem maður er pavloviseraður að vakna á morgnana, skil þetta ekki alveg.

Þetta var fyrsti dagurinn sem veðrið var minna en spennandi. Rigndi nánast allan daginn, þar af hellirigndi slatta af deginum. Sem betur fer var einmitt planið að fara í Tinnasafnið (eða réttara sagt Hergé safnið) í Louvain-La-Neuve. Það lá heppilega við húsinu okkar, Louvain-La-Neuve liggur við hliðina á Ottignies sem er endastöðin á lestinni í hverfið okkar.

Regnhlífin var dregin á loft og skundað af stað eftir hádegismat.

Brjáluð hellirigning í Louvain:

Stóðum hana af okkur og svo áfram, gegn um matarmarkað þar sem meðal annars var vagn þar sem hægt var að kaupa
pylsur, hamborgara og, já snigla!

Leist ansi vel á stand þar sem fengust meðal annars fersk þistilhjörtu og næpur (ég get ekki skilið hvers vegna það fást hvergi næpur heima, eins og þær eru góðar!) en ákváðum að kaupa okkur frekar eitthvað á leiðinni út svo við værum ekki að þvælast með innkaupapoka í safninu. Áfram á Musée Hergé. Þar mátti alls ekki taka myndir nema í fordyrinu, hér eru þær tvær sem ég tók:

Safnið reyndist svo bráðskemmtilegt, ekki sérlega dýrt inn (afsláttur fyrir skólafólk) og ókeypis græja með gagnvirkri leiðsögn um svæðið. Ég hafði til dæmis ekki áttað mig á hvað skilin í skrifum Hergés voru greinileg við Bláa lótusinn, við ritun hans hafði hann nefnilega kynnst Kínverja vel og allt í einu farið að átta sig á hvað þessar stereótýpur sem evrópubúar og fleiri vildu troða öllum í voru vitlausar og hættulegar. Eftir þessa bók breyttust skrif hans um aðrar heimsálfur til mikils betra. (verst að hann áttaði sig aldrei á núönsum kvenþjóðarinnar samt…)

Stytt upp þegar við komum út af safninu. Auðvitað var verið að loka matarmarkaðinum og okkar standur alveg samanpakkaður. Ójæja, matarmarkaður á okkar svæði daginn eftir, yrðum að láta það duga.

Heim í lestinni, grillaður kálfur í kvöldmatinn. Meira hvað þetta Evrópusambandskjöt er fáránlega meyrt og gott! Sátum svo lengi fram eftir kvöldi úti á palli bak við hús.

Brussel daag 4. Atomium og vatnsleikjagarður

Þennan dag vorum við búin að lofa Finni að fara í vatnsleikjagarð, það sem hann spurði um fyrst af öllu þegar við ákváðum að fara til útlanda var hvort það væri ekki örugglega vatnsleikjagarður einhvers staðar í nágrenninu.

Morguninn var ekki sérlega viðburðarríkur, bara rólegheitin. Þau elstu voru búin að bjóðast til að elda kvöldmatinn og ætluðu ekki með í garðinn. Jón Lárus var eiginlega búinn að afboða sig líka, þar til ég benti honum á að Atomium byggingin væri við hliðina á garðinum – það var nefnilega hans fyrsta hugsun þegar Brussel kom upp sem áfangastaður í íbúðaskiptunum. Þannig að þennan dag gátum við fullnægt heitustu óskum föður og sonar í ferðinni.

Lögðum íann um eittleytið, lest niður í miðbæ, belgískar í hádegismat:

og svo metró annað eins í norðurátt þar til komið var á áfangastað.

Ekki er hægt að segja annað en að Atomium sé mikilfenglegt:

Vatnsleikjagarðurinn, engar myndir því ég nennti ekki inn með dótið mitt og þar með símannmyndavélina. Hann var hins vegar með mörgum bráðskemmtilegum rennibrautum og öðrum græjum. Ég skokkaði upp stiga, lagði ekki í að fara alla leið upp alveg strax og ætlaði semsagt að byrja létt. Það reyndist ekki vera alveg svo:

Snarbrá þegar hraðinn var gígantískur og baklendingin þannig að ég rétt gat kraflað mig að bakkanum – enda var sér lífvörður við einmitt þessa braut…

Klikkað skemmtilegt samt þó ég finni enn aðeins fyrir vatninu sem ég fékk upp í nefið!

Fullt af brautum, bráðskemmtileg vatnshring“ekja“ (minnir að það sé/hafi verið slík í Salalaug) og öldulaug með þvílíkum öldugangi. Sáum ekki eftir þessu.

Metró til baka, rétt misstum af lestinni uppeftir (einu sinni á klukkutíma, munið þið), en það var svo sem ekki slæmt að tylla sér niður og fá sér einn Grimbergen úr krana (nema Jón Westmalle Tripel og Finnur jarðarberjasjeik).

Lestin heim. Jón fór stöð lengra en við hin, var búinn að spotta einhverja spennandi vínbúð sem hann ætlaði að heimsækja.

Fífa og Atli höfðu farið út í búð og fyllt á ísskápinn og voru síðan búin að standa á haus frá fimm að útbúa alls konar fyllingar í tacos. Grillað kjöt, marineraðar rækjur, pico de gallo (án kóríanders samt, eins gott!), mangó salsa, guacamole og fleira. Freyja og Emil settust við og bjuggu til kökurnar. Hvorki fannst vigt né mæliglas á staðnum. (Ég skil reyndar ómögulega eldamennskuna sem fólkið hér í húsinu stundar, hér er enginn bakaraofn, enginn frystir, engin matvinnsluvél né blandari, engin hrærivél og semsagt engin vigt né mæliglas. Gæti trúað að þau séu grænmetisætur sem skýrir allavega að einhverju leyti frystisleysið en ekki hitt)! Þau þurftu semsagt bara að fikra sig áfram með deigið og það tókst bara hreint ágætlega vel.

Ágætt að þetta tók tímann sinn þar sem Jón Lárus hringdi, svona um það bil sem ég fór að búast við honum til baka. Þá hafði hann fundið vínbúðina sem var lokuð (eigendurnir í sumarfríi), síðan villst á heimleiðinni, beygt einhvers staðar út af leið og labbað í óratíma þar til hann var kominn út í skóg og áttaði sig á að þetta væri nú eitthvað málum blandið. Hringdi semsagt til að láta vita að hann yrði seinn og þurfti síðan að ganga hátt í 3 kortér til að komast alla leið heim.

Borðuðum ekki fyrr en um hálftíuleytið þegar hann sýndi sig, við höfðum reyndar stundað að borða kvöldmatinn seint en þarna tók nú steininn úr samt. Fáránlega góður matur hjá krökkunum!

Láðist því miður að taka myndir af matnum en hér er nú samt desertinn, í boði Emils:

Brussel daag 3. Aftur í bæinn

Öllum leyft að sofa eins lengi og þeir gætu, síðustu dröttuðust upp um hálftólfleytið. Hádegismatur og svo aftur í bæinn. Löbbuðum á hina lestarstöðina sem átti að vera heldur stærri og ætluðum að athuga með hvort hægt væri að kaupa einhverja ódýrari lestarmiða þar (hópmiða eða eitthvað). Þar var hins vegar heldur ekkert stöðvarhús í notkun, bara miðasjálfsali eins og á hinum staðnum. Greinilega eitthvað verið að lagfæra hana, mjög óhrjáleg, pallarnir ekki í notkun heldur lá sporið við malarbakka. Þrátt fyrir að það væri bara miðvikudagur um eittleytið sáust samt engin ummerki um að vinna við þetta væri í gangi (sumarfrí, vonandi, frekar en að þarna hafi verið byrjað á einhverju og svo bara hætt við í miðju kafi).

Fórum aftur út á Brussel Central og stefnan var tekin í smá innkaup, einhverjir sáu H&M í hillingum. Villtumst smástund um hverfið en enduðum á að finna rétta leið. Skiptum hópnum og ákváðum að hittast kortér fyrir fimm við lestarstöðina aftur.

Við Jón Lárus og Finnur fórum í smá innkaup, skólaföt á stráksa, ekkert á okkur gamlingjana. Þröngt og óspennandi á verslunargötunni, sérstaklega fyrir utan Primark þar sem þar var síðasti dagur útsölu og löng biðröð inn í búðina svo við forðuðum okkur eins fljótt og við gátum.

Þarna hefði verið gott að vaða:

Svo langaði Finn í vöfflu og við fórum að leita að vöfflustað, helst þar sem hægt væri að setjast niður og borða. Öfugt við daginn áður ætluðum við aldrei að finna vöfflustand. Gengum samt gegn um alveg stórskemmtilegt veitingahúsahverfi með örmjóum götum og þjónum sem reyndu að veiða okkur inn á staðina. Við einn þeirra sagði ég – æ við erum bara að leita að vöfflum – og þá steinhætti hann að reyna að draga okkur inn og benti bara á næsta góða vöfflustað, hinn almennilegasti. Úff hvað ég gæti ekki unnið við að reyna að draga fólk svona inn á staði!

Fundum síðan reyndar ekki þennan stað sem hann benti á, settumst inn á annan, þar tóku þau ekki visa, fundum hraðbanka, sætið okkar á staðnum farið, aðeins lengra og fundum annan. Vöfflur með rjóma og sósum, ég fékk mér karamellusósu, ógurlega gott.

Til baka á lestarstöðina. Reyndum að kaupa okkur þessa hópmiða en á endanum hefði það ekki komið neitt betur út. Fundum svo kjörbúð í stöðinni með þokkalegu úrvali þannig að við kláruðum að kaupa inn fyrir bolognese sem átti að vera í kvöldmatinn.

Heima í húsi var tekið til við að undirbúa matinn. Heill hellingur af grænmeti saxað og svo kjötið. Hér sést hin mannlega matvinnsluvél úti í garði:

Og svo fordrykkur:

Setið fram eftir kvöldi við spjall, svo varð full svalt á pallinum, inn, krakkarnir tóku uppvaskið og svo spilað, meira að segja tókst að draga Finn frá netspjalli í tölvunni til að spila. Besta mál.

Brussel daag 2. Búð og bær

Vöknuðum klukkan sjö (sko við bóndinn, ekki krakkahrúgan). Hvað var með það? Klukkan bara fimm að okkar líkamsklukku! Leyfðum samt krökkunum að sofa aðeins áfram og fórum bara út á pallinn bak við með kaffi en ekki te. Höfðum ekki náð að versla neitt daginn áður, þau elstu af ungviðinu komu með brauð og ost og eitthvað meira smotterí til að redda morgninum og eitthvað hafði fyrrverandi húsaskiptiliðið skilið eftir fyrir okkur líka. Te var ekki til. Jú reyndar en bara fullt af grænum, dítox, teínlausum og ávaxtateum sem mér finnast almennt ekki vera drykkir. Átti vatn sem ég hafði keypt á lestarstöðinni daginn áður og reyndar eitthvað smá úr litlu búðinni kvöldið áður (nei það var ekki BARA keyptur bjór)

Þegar yngra gengið hafði verið ræst löbbuðum við kílómetra leið í næstu stóru kjörbúð til að versla inn. Þar var ekkert verið að spara, keyptum eiginlega bara það sem okkur datt í hug. Fullt af stórhættulegri útlenskri landbúnaðarvöru og allt.

Deildum á okkur innkaupunum, sáum reyndar eftir því að hafa ekki fattað að taka með okkur fleiri bakpoka, níðþungt að labba með þetta heilan kílómetra. Eins gott við vorum mörg.

Föttuðum svo, reyndar vel eftir að við komum heim, að við höfðum steingleymt einum pokanum í búðinni. Of seint til að fara til baka og svo vorum við lengi fram eftir degi að átta okkur á hvað hlyti að hafa verið í þessum poka. Oh well, shit happens. Einhver heppinn viðskiptavinur hefur fengið stóran pakka af parmaskinku, gott brauð, poka af lauk, annan af snakki, geitaost með graslauk og þrjá bjóra. Og örugglega eitthvað meira sem ég man ekki í augnablikinu.

Heima, hádegismatur á pallinum og svo löbbuðum við annan kílómetra á lestarstöðina til að fara niður í miðbæ. Við erum greinilega í þvílíku úthverfi því þegar við fundum brautarpallinn vorum við nýbúin að missa af lestinni og hún gekk bara á klukkutíma fresti. Ekki nenntum við aftur í húsið í millitíðinni þannig að við röltum aðeins í kring og settumst svo bara og biðum.

Lestin, þegar hún mætti á svæðið, tók 20 mínútur niður í bæ. Rölt af Central niður á Grand Place, súkkulaðibúð á leiðinni, völdum okkur súkkulaðimola á mann, hluti miðbæjarins tekinn út. Til dæmis þessi gaur sem er þekktari án Einsteinklæðanna:

Leitað að ísbúð en fundum ekkert nema endalausar vöfflubúðir, langaði bara ekkert í vöfflu nákvæmlega þarna, enduðum á ítölskum veitingastað sem var líka ísbúð. Og svo seldu þau aperol spritz!

Heim í lestinni og grillað naut á pallinum. Ekki slæmt. Hreint ekki slæmt. Sátum svo lengi frameftir kvöldi við spjall og steingleymdum að ganga frá eftir matinn! eins gott það er ekki mikið af maurum í húsinu…

Brussel daag 1. Þangað

Jæja, ferðablogg. Efast um að neinn sé enn að lesa þessa síðu en þetta er eiginlega bara fyrir sjálfa mig og fjölskylduna, höfum oft lifað á því eftirá að lesa ferðabloggin og rifja upp skemmtilega daga og uppákomur. Ég létti talsvert fyrir mér lungnabólguna fyrir nokkrum árum með að rifja upp hitann á Ítalíu 2007.

Allavega:

Þægilega morgunflugið. Óvenjulega „þægilegt“, þurftum að vakna klukkan þrjú því Váflugið átti að fara í loftið kortér fyrir sjö, mæting kortér fyrir fimm og við þurftum að skipta á rúmunum fyrir fjölskyldurnar tvær frá Brussel sem yrðu í okkar húsi, fyrir nú utan allt þetta smotterí sem alltaf þarf að gera áður en lagt er íann (smá morgunmat, klára að ganga frá snyrtidótinu eftir tannburstun, þið þekkið þetta jú).

Við vorum 5 í bílnum, við Jón Lárus, Finnur, Freyja og Emil kærasti Freyju. Fífa, sú elsta, og Atli kærastinn hennar höfðu farið á undan og voru búin að vera nokkra daga í Amsterdam og ætluðu að hitta okkur í Brussel.

Skotgekk að skrá okkur inn, Vástarfsfólkið indælt og hjálpsamlegt. Tvær rauðvín og eitthvað smotterí í fríhöfninni. Segafredo á vellinum reyndist ágætis skipti fyrir Kaffitár, croissant og súkkulaði eiginlega betra en þar, (allavega súkkulaðið. Sorrí Kaffitár).

Hliðnúmer voðalega hátt þannig að við lögðum af stað snemma. Á leiðinni hlustuðum við á stanslausan straum útkalla fyrir „síðustu farþega í flug númer þettaogþetta sem vinsamlegast áttu að koma sér út í vél því verið væri að bíða eftir þeim“.

Keyrð út í vél af flugvallarrútu og svo auðvitað þurfti okkar vél líka að bíða, komst ekki af stað fyrr en kortéri of seint vegna einhverra farþegaaula sem gátu ekki komið sér á svæðið á réttum tíma (jájá það geta auðvitað verið eðlilegar ástæður en voðalega held ég nú að það sé oft bara vegna þess að fólk plani ekki né passi tímann).

Flugið átakalaust, las í bókinni hennar Margrétar Tryggva (Útistöðum) og spilaði smá candy crush á símann (offline skoh). Reyndist reyndar smá mistök. Gat dottað í hálftíma eða svo.

Lent á Gatwick, smá mál reyndist að finna lestina til St. Pancras hvaðan Eurostarlestin átti síðan að fara til Brussel. Það er að segja, ekkert mál að finna lestina en svo var einhver starfsmaður sem benti okkur á vitlausan brautarpall þannig að við misstum af fyrstu lest og þurftum að bíða eftir næstu – eins gott að við höfðum ekki hætt á að kaupa far með Eurostar klukkutímanum fyrr því við hefðum ekki náð henni og verið í fokvondum málum með að komast yfir. Allt gekk þetta þó á endanum.

Á St. Pancras gátum við fljótlega tékkað okkur inn á lestarsvæðið, þar eru tvenn landamæratékk, fyrst út úr Englandi og svo inn í Schengen, plús öryggisskoðun eins og á flugvelli. Krakkarnir voru hissa á þessu þar til ég benti á að hryðjuverk eru talsvert algengari á lestarstöðum en flugvöllum og Eurostar væri örugglega freistandi skotmark.

Nújæja, komin þar inn, tæpur klukkutími í ferðina og allir svangir. Innst í biðsalnum (sem annars var stappfullur og nánast hvert sæti setið var pínulítill pöbb og þar var tilboð á borgara og bjór fyrir 10 evrur. Besta mál. Og pláss í sætum. Keyptum slíkt fyrir okkur og borgara og gos fyrir krakkana. Bjórinn og gosið var fínt en mæómæ hvað ég skildi vel hvers vegna staðurinn var tómur. Borgarinn reyndist úr kjötfarsi og var alveg skelfilega vondur. Það er eiginlega komið upp í vana að núllstilla bragðlaukana á Englandi áður en haldið er áfram ferðinni. 2007 fyrir Ítalíu, einhver skelfilegur lítill staður rétt hjá Stansted flugvellinum (sjá ;þessa færslu frá Ítalíublogginu  og svo borgari og franskar sem brögðuðust sannarlega verr en þeir litu út þegar við vorum á leið til Ástralíu, sjá fyrsta daginn úr þeirri ferð. Held nú samt að við sleppum að fá okkur borgara á breskum völlum héðan í frá, sveimérþá ef Makkdónalds og Börgerking eru ekki þúsund sinnum betri kostir.

Ég hafði eytt fullmiklu af hleðslunni á símanum mínum við að spila tölvuleik í fluginu en var nú vongóð um að um borð í lúxuslest Eurostar væri hægt að hlaða símann. Ekki svo. Lúxuslestin reyndist ekkert sérlega mikill lúxus, ekkert slíkt og hún var orðin talsvert meðtekin og lítið flott við hana nema auðvitað þægindin og fljóta ferðin til meginlandsins.

Komin til Brussel Midi lestarstöðvar. Ætluðum að hitta undanfarana. Engir undanfarar. Sms gengu á milli og enginn skildi hvers vegna við fundumst ekki. Þar til þau: Uh eruð þið ekki á Brussel Central? Við: Uuuu nei! (þetta allt á næstum því galtómum símum okkar Jóns, ég þurfti að slökkva á mínum í lokin). Endaði á að þau tóku leigubíl til okkar og svo heimtaði ég sjömannaleigara í húsið og við sáum ekki eftir því. Bílstjóranum veitti ekki af GPS-inu til að rata, þarna eru mjóar hlykkjóttar götur og endalausar einstefnur. Rákum augun í litla kjörbúð rétt hjá húsinu okkar.

Húsið reyndist vera æði. Þrjár hæðir plús kjallari, furugólfborð, fullt af herbergjum, tvennar svalir, verönd og lítill garður þar sem nýtur bæði morgunsólar og kvöldsólar. Lítið tekið af myndum þennan dag en hér er villan:

Skutumst út eftir nokkrum nauðsynjum, les smá bjór.


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

júlí 2015
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa