Sarpur fyrir febrúar, 2010

Útskrift

herra Finnur einbeitti útskrifaðist úr þriðju Suzukivíólubókinni í gærmorgun á Degi tónlistarskólanna. Við erum ógurlega montin af honum, hann spilar heillangt lag, Bourrée eftir Bach. Hér má sjá snáða stoltan með útskriftarskírteinið sitt:

Auðvitað var svo tekið vídjó af laginu, endilega kíkið.

Hann er áskrifandi að nýjum tölvuleik eftir útskriftir úr bókum þannig að frá því í gærmorgun hefur ekki verið mjög auðvelt að draga hann frá tölvunni…

snúin

tilvera að vera með snúinn fót. Það var alger óþarfi að hrynja í götuna á bílastæðinu fyrir utan Suzukiskólann í dag, leit út eins og þjappaður snjór en undir leyndist flughálka, ég beint á hausinn og hægri fótur þurfti endilega að snúast í rammvitlausa átt.

Náði að keyra heim með harmkvælum, urraði á Finn (sem ég var að keyra heim af hljómsveitaræfingu) þegar hann spurði hvort við gætum komið við einhvers staðar að kaupa eitthvað í svanginn (hann reyndist svo reyndar ekkert svangur þegar heim var komið), réð við að ýta löppinni beint niður á bensíngjöf og bremsu með því að passa upp á að hún færi ekkert á ská og ógnarvarlega í þokkabót.

Inn, alltaf verra og verra, hlóð mér í tölvustólinn, löppin upp á stól við hliðina, argaði á teygjusokk og íbúfen og kælielementið sem við notum í kælitöskuna okkar í langferðum og handklæði til að vefja utan um. Búin að sitja nánast eins og klessa síðan, smá viðkoma í sófanum og önnur við matborðið, Fífa eldaði hrikalega góðan pastarétt, bóndinn heim til að horfa á Útsvar á plúsnum og nú aftur við vélina. Reyndar fyndið, símtal yfir matnum, vinkona ætlaði að draga mig á tónleika en ég – uh nei fer ekki mikið en áttu hækjur? Hún átti eina og skutlaði til mín. Fæ svo tvær á morgun frá litlusystur líka.

Á morgun er Finnur svo að útskrifast úr þriðju Suzukibókinni, þangað verð ég að fara, það er bara svo einfalt. Haltra yfir bílastæðið og passa mig á laumuhálku undir snjó.

‘Stralia

já þá er það ákveðið og pantað fyrir okkur bóndann, vikuferð til Ástralíu á stóru nútímatónlistarhátíðina. Ekki smá spennandi.

Tónleikarnir „mínir“ verða 7. maí, við förum væntanlega út 2. maí og komum til baka þann 9. (nei, húsið verður ekki tómt ef einhver les hér í vafasömum tilgangi). Það eru bara þrjú verk á tónleikunum, hin tvö eiga Seppo Pohjola (finnskur – gat einhver giskað?) og Ross Edwards sem er ástralskur. Báðir heimsþekkt tónskáld, svona fyrir þá sem þekkja til.

Fleiri tónskáld á hátíðinni eru til dæmis Arvo Pärt, Rautavaara, Elliot Carter. þannig að maður er í góðum félagsskap, já og svo kennarinn minn frá Danmörku, Svend Hvidtfelt Nielsen. Hans verk verður reyndar flutt áður en við komum út. Ætti nú samt að hafa samband við hann að gamni og tékka hvort hann ætlar líka út.

Spes annars að Philip Glass er settur í Young Composers klassann, sjá listann. Hann var nú ekkert unglamb síðast þegar ég vissi – og varla yngst síðan þá…

sokkar

Aldrei skil ég svona pakka af sokkum eins og er oft hægt að kaupa, barnasokkar, 5 í pakka sitt parið af hverjum lit. Jú stelpusokka reyndar kannski, en á stráka (pardon, my prejudice’s showing), Finni er allavega nákvæmlega sama í hvernig litum sokkum hann er en mamma hans vill nú helst að þeir séu hreinir, heilir og já, samlitir.

Þar sem sokkar hverfa í Hozone layer í þvotti er náttúrlega til dobía af stökum sokkum, mismunandi lit en að öðru leyti alveg eins.

Ef ég myndi nú hvar ég keypti 10 pör af gráum sokkum (öllum eins) í fyrra myndi ég fara þangað aftur og kaupa annað sett. Búið að vera snilld, finn alltaf tvo sem má para saman. Örugglega slatti af þeim í hósonlaginu en það gerir barasta nánast ekkert til. Þeir sem eftir sitja á jörðinni eru hins vegar farnir að slappast smá, þó amma drengsins hafi stoppað í einn eða tvo.

Kannski var þetta í Adams í Penis Mall. Mætti tékka…

ætli við séum útlendingar þá?

Við erum mikið fyrir að bjóða fólki í mat, eitt það skemmtilegasta sem ég geri. Þá alls ekki alltaf sama liðinu, auðvitað kemur fjölskyldan og nánir vinir oft en þó nokkuð oft bjóðum við fólki sem við þekkjum ekkert óhemju vel, margsinnis boðið bloggurum og tvisvar ircvinum, stundum verða hálfgerðir matarklúbbar úr þessu með boðum fram og til baka, stundum ekki, hvorttveggja fínt.

Eitt svona boð um helgina – móttekið fagnandi en ég fékk kommentið – þetta er bara eins og í útlöndum

óvenjulegur kattamatur

Sérfæði kisu kláraðist um helgina, hún er með smá nýrnasteina og verður að vera á einhverju urinary fæði, nema hvað ég hélt að Dagfinnur væri með opið fyrir hádegi á laugardögum og ég næði að fara að kaupa poka handa henni. Það reyndist ekki vera svo við fórum bara út í Dreka og keyptum dós af venjulegum kattamat handa henni.

Nema hvað, Finnur fann ekki dósina inni í ísskáp í gærmorgun og vissi ekkert hvað hann ætti að gefa kisu. Hugsaði, mjög lógískt, hvað myndi ég fá mér ef ég væri svangur. Jú, rúsínur.

Fífa rak svo augun í rúsínur í dallinum hennar í gærkvöldi. Fjölskyldan argaði af hlátri – Finnur sem betur fer hló með okkur. Ég var einmitt í símanum við mömmu að hjálpa henni smá með tölvuvesen, hún náttúrlega skildi ekkert í því að ég skyldi skella svona upp úr.

Veit nú ekki hvort kisa át mikið af rúsínum en – tja hún hefur allavega farið vel með úrganginn…

klaufaskapur getur borgað sig

í gærmorgun var ég að vandræðast með litla guttann minn, hann er í Drengjakór Reykjavíkur eins og margir lesendur munu væntanlega vita (montna mamman lætur ekki að sér hæða). Kórinn æfir nú í húsnæði Karlakórs Reykjavíkur á Grensásvegi þar sem verið er að mála Hallgrímskirkju að innan, það tekur alveg svolítinn tíma með allan þennan geim. Nema hvað, stráksi er bara níu ára og ekki séns að hann fari sjálfur í strætó á Grensásveginn – ég er að kenna báða æfingadagana og verð að vera á bílnum. Hef treyst á eina ógnar almennilega og indæla mömmu vinar Finns í kórnum til að koma honum á staðinn. Nú hafa málin flækst örlítið og ég þarf að koma honum heim til vinarins á mánudögum til að þetta gangi upp.

Nema í gær. Þá var ég með tónfræðikrakkana í prófi og komst ekkert frá til að skutla honum eftir sinn tíma.

Sendi mömmunni póst um málið með því að svara pósti sem hún hafði sent á allan drengjakórinn. Tek ekki eftir því fyrr en á andartakinu sem ég smellti á Senda, að allir kórforeldrar voru í cc við bréfið. Sendi strax afsökunarbeiðni á spaminu (er það kannski tvöfalt spam?). Allt í fína, enginn fúll – en auðvitað fékk ég svo svör frá foreldrum fjögurra kórdrengja (mamma vinarins þar með) um að sjálfsagt sé að redda drengnum fari á æfingu.

Frábært fólk atarna.

líó

Ég myndi líka vilja sjá húsið þeirra…

fórum um helgina

að sjá pínu oggulitla nýjustu frænkuna, ógurlega fín, innilega til hamingju Guðrún og Guðmundur og litla kríli með lífið.

Á ekki alminlega mynd, myndavélin mín er ónýt. Myndir koma síðar.

ástralía

mjakast nær og líklegar, tónleikarnir „mínir“ verða níunda, á lokadegi hátíðarinnar, ég myndi væntanlega vilja fara út svona 2.-3. maí til að ná slatta af hátíðinni og til að klára nú örugglega þotuþreytuna áður en mitt verk verður flutt. Spennandi. Er að hjóla í hina og þessa styrki sem er mögulegt að fá – eins gott að reyna að finna eitthvað.

Noregur er pottþéttur, búin að fá flugmiða og reikna með að heimsækja frændfólk mitt sem býr stutt frá Kristiansand, ég fer út til að mæta á æfingu þann 11. mars og svo þarf ég að spreða og spandera tíma fram á þann 14. þegar tónleikarnir eru.

Magnað að tónleikarnir lendi annars á afmælinu mínu.

Já, búin að sjá að hótelið sem ég verð á er með frítt þráðlaust net. Hjúkkitt…

vá hvað

Carmina Burana var flott í kvöld hjá Sinfó, Hallveigu, Jóni Svavari, Rumon, Óperukórnum og Gradualekórnum – hlustaði á æfingu í morgun og svo í útvarpinu í kvöld, get ekki beðið eftir að fara á tónleikana á morgun.

Klökknaði alveg við að sjá báðar stelpurnar mínar þarna uppi á sviði og standa sig svona líka vel, ekki stórt hlutverk sem stúlknakórinn syngur en mjög flott og mikilvægt í verkinu, þær fengu víst fyrirskipun um að syngja eins gróft og þær gátu, ekki eins og þessar skóluðu raddir sem þær eru margar, búnar að læra í mörg ár, fengu að máta belting og allt. En maður verður víst að ráða yfir nokkrum söngstílum, gaman að prófa svona líka.

Hraðinn hjá Rumon gríðarlegur, ég verð að viðurkenna að ég kann mjög vel að meta það, enda hraðafíkill en ég hef á tilfinningunni að óperukórinn sé ekki alveg alls staðar vanur svona miklum hraða og snöggum skiptingum, það er eina sem ég gat sett út á flutninginn. Held samt ég geti nánast fullyrt að þetta er alveg í anda Orff og verksins. Love it!

bústaðsraunir

Familían er farin að þrá að komast í sumarbústað, við erum, eins og sumir lesendur hér vita kannski, með aðgang að sumarbústöðum í eigu Starfsmannafélags Samskipa uppi við Bifröst. Frábærir bústaðir á snilldarstað.

Nema hvað, við höfðum ætlað að fara núna um helgina, áttuðum okkur á því á sunnudaginn var að stelpurnar eru að syngja á tónleikum með Sinfóníunni bæði á fimmtudags- og föstudagskvöldið, við hefðum ekki náð af stað fyrr en eftir klukkan tíu á föstudagskvöldinu og það fannst okkur nú fullseint.

Nema hvað, við tölum um hvort bóndinn geti nú ekki athugað með að skipt um helgi, smá misskilningur veldur því að hann fær að skipta yfir á helgina eftir tvær vikur. Nema þá er Finnur að útskrifast úr þriðju bók á víóluna á heilmiklum skólatónleikum á laugardagsmorguninn. Garg. Hann hjólar aftur í formann bústaðanefndar og bókar helgi í mars, héldum að það myndi ganga – en neeeeiiii, ég fatta á miðri æfingu í gærkvöldi að það eru tónleikar hjá mér á sunnudeginum og æfing á laugardagsmorgninum. Ákváðum nú að fara bara samt – ég verð bara að skjótast í bæinn, vill til að þetta er ekki neitt gríðarlega langt…

tvöfalt plögg og söknuður

Vá hvað ég mun sakna Söngvaseiðs, síðasta sýningin í dag. Þó ég hafi auðvitað ekki tekið þátt í öllum 85 sýningunum (eða svo) þá er þetta búið að vera hrikalega skemmtilegt og ég búin að kynnast fullt af yndislegu fólki, börnum og fullorðnum, kvöddum fyrri barnahópinn með tárum í gær og svo alla í dag auðvitað.

Ég held reyndar að það sé nánast uppselt en prófið samt – það gæti verið einn og einn miði eftir.

Svo þarf ég hins vegar að hlaupa beint eftir sýningu, tek væntanlega ekki einu sinni uppklappið, tónleikar hjá okkur í Sinfóníuhljómsveit áhugamanna klukkan fimm (Söngvaseiðssýningin er búin kortér fyrir fimm) í Seltjarnarneskirkju. Þar eru mjög áhugaverð verk, Hymni eftir Snorra Sigfús, yndislegt hægferðugt verk með sterk höfundareinkenni Snorra, konsert fyrir – haldið ykkur: 8 pákur og eitt óbó eftir Jiri Druzchetsky, í klassískum stíl og svo Pákusinfónían eftir Haydn, bráðskemmtilegt stykki með stefjum frá austurevrópu. Lofa Frank í stuði á pákunum.

Hvernig væri nú að kíkja á annanhvorn staðinn í dag? Mjög ólíkt en bráðgóð skemmtun á báðum stöðum.

já er þetta ekki Elsa?

fékk frekar spes símtal áðan, hringt um miðjan dag inn í kennslu, ég kannast ekkert við númerið en tek símann samt, dettur helst í hug að eitthvað foreldri sé að láta mig vita að barnið komist ekki í tíma.

Svara eins og ég er vön, með nafninu mínu í spurnartóni.

Stutt þögn hinum megin. Svo: Já, er þetta ekki Elsa?

Ég: Nei, hrædd um ekki.

Já en hvað er þá númerið hjá Elsu?


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

febrúar 2010
S M F V F F S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
28  

sagan endalausa