Sarpur fyrir ágúst, 2006

bíllinn

í morgun kom Jón Lárus með eina af morgunupphrópununum sínum (Gaaa! Hvernig verður klukkan alltaf svona margt?) og ég sagði: þú getur alveg verið á bílnum í dag, ég er ekki að fara neitt fyrr en í kvöld. Jón: Nei nei, ég hjóla. Ekki smá duglegur.

Svo klukkan níu, rétt um það bil sem ég kem heim frá að fylgja litla gaur í skólann hringir síminn. Deildarstjóri tónfræðagreina í Hafnarfirði: Heyrðu, steingleymdi að hringja í þig, það er fundur núna eftir kortér.

Ég þangað.

Komin heim, rétt um hádegi. Skrifstofustúlkan í Suzuki hringir: Hvenær ætlaðirðu að kíkja hingað og skrá hópana inn í kerfið?

Ég þangað.

Eins gott að eiga svona hetju fyrir mann!

Svo fór ég reyndar á fundinn inn í Garðabæ núna í kvöld (ss. eina sem ég hélt ég þyrfti að fara í dag). Er að fara að semja verk fyrir stórt norrænt barna- og unglingakóramót sem verður haldið hér næsta vor. Þema Mystik og magt eða eitthvað þvíumlíkt. Er að spá í einhvers konar þjóðsögu, Djáknann á Myrká eða álíka. Hugmyndir vel þegnar.

Reyndar var farið inn í bílinn áðan, eftir að við skutumst í búð og gleymdum að læsa. Allt draslið úr hanskahólfinu lá á gólfinu. Immmbrotsþjófurinn fann samt ekki framhliðina á græjunni, ég sé ekki að neitt hafi verið tekið. Eins gott.

frægðin

maður endar á að verða landsfrægur matgæðingur, Fréttablaðið vatt upp á sig og nú á maður að mæta í Gestgjafanum. Ritstjórinn hringdi í mig, sagðist bæði hafa litist vel á rifsberjakjúklinginn (sem ég reyndar stal og staðfærði úr eldgömlu Familie Journalen) og heyrt annað gott (Nanna, hefur þú eitthvað með þetta að gera?) Bað mig um smárétt í klúbbablaðið. Ljósmyndari mætir á mánudagsmorguninn og ég bý til mitt fjölskyldufræga heita brauð. Varð eiginlega að gera pínu breytingu á því svo ég eigi nú eitthvað í því, en ég nefni nú frænkuna sem lét mig hafa uppskriftina til að byrja með.

gaman aðissu.

yfirstaðið

bæði pest og fyrsti kennsludagur, líst bara ljómandi vel á bekkina mína tvo í LHÍ. Skemmtilegir og klárir krakkar. Voru það reyndar í fyrra líka. Gaman.

Svo erum við í Hljómeyki að fara í upptöku á tveimur lögum fyrir Mýrina. Mugison sér um músíkina og bað okkur að taka smá part. Föstudagskvöldið fer í þetta. Verður pottþétt gaman.

úpps

pest

hrundi í andstyggilega pest í gær, vonandi sú sama og þau hin hér heima voru með fyrir tveimur vikum (skrítið samt að ég hafi beðið svona lengi með að fá hana). Svei mér ef þetta voru ekki verstu magaverkir sem ég hef á ævinni fengið. Ojbara. Parkódín forte bjargaði mér, fuku 3 slíkar í gærkvöldi. Og ég sem var bæði búin að bjóða fólki í mat og átti að fara á kóræfingu (jamm, mistök). Hvorttveggja afboðað að sjálfsögðu.

Var búin að boða til mín mann á fund núna klukkan 9 og ég er hreint ekki með heilsu í það. Og næ ekki í hann, garg!

Orkan sirka á núllpunkti, engin lyst, ekkert. Úff

sigling

og grill í dag, í boði Samstarfs, starfsmannafélags Samskipa. Snilldarveður til siglinga, okkur var hrúgað um borð í búr og stór lyftari fenginn til að hífa búrið svona 3-4 metra niður að sjó svo fólk kæmist um borð í Litlafellið, bát starfsmannafélagsins. Ég hélt að ég myndi verða skíthrædd, frekar lofthrædd, þoli til dæmis engan veginn að fara í kláfa og þannig lagað (humm, kannski er ég að skána af þessari vitleysu, líkt og sjónvarpsfælninni). Fékk að minnsta kosti ekkert panic attack. Siglingin frábær, skipstjórinn gat spýtt í á bátnum, sjórinn eins sléttur og hann getur mögulega orðið, held ég.

Grillið var í höndum Grillvagnsmeistara, ekki smá gott, alvöru borgarar, grillspjót, kjúklingar og pylsur og alls konar meðlæti. Mikið betra en ég bjóst við. Oft bara hálfkaldar pylsur á svona samkomum.

Fyrsti skóladagurinn

Lítill strákur í forstofunni heima, að leggja af stað í skólann sinn. Maður fær bara tár í augun.

Smá sería um þetta á flickr, ef þið smellið á myndina getið þið séð nokkrar næstu myndir (já já, ég veit, ég er nú að hugsa þetta fyrir fjölskylduna…)


Lítill skólastrákur
Originally uploaded by hildigunnur.

öðruvísi

það var kominn tími til að breyta aðeins um línu í Gretti.

dýrt

er nú drottinsorðið, maður! Borgaði skólagjöldin í Tónlistarskólanum í Reykjavík fyrir Fífu, hún er komin upp í 162 þúsund (jamm komin inn í söngdeildina, í hálft nám, með fiðlunni)

Eins gott að vera með góðan afslátt fyrir hina krakkana í Suzukiskólanum.

hliðarspor

algerlega óvænt, birtist í langhundinum um fiskinnflutninginn áðan.

Getið þið hvað ég fann í Nóatúni?

ég var nærri farin að gráta.

búin

að negla stjórnanda, hámenntaðan kórstjóra og bloggara til og með 😀

brill!

Finnur

með nýju skólaskærin sín inni í eldhúsi áðan:

Mamma! Veistu að það er hægt að klippa gat á náttbuxurnar mínar?

stolið

frá eðalsteinakonunni

Þetta eru sannar spurningar úr þjónustuveri Landssímans…

1. Ég er að flytja frá Akureyri til Reykjavíkur í eitt ár. Er hægt að flytja gsm númerið með sér til Reykjavíkur eða eða þarf ég að fá mér nýtt númer?

2. Nei, nei. Þetta er eitthvað bilað hjá ykkur. Ég er búinn að hafa þetta símtæki í 40 ár, og hann fer nú varla að bila úr þessu!

3. Ég er að fara til USA á morgun, og ætla að taka GSM símann minn með. Þarf ég að taka hleðslutækið með mér líka.

4. Þegar maður er staddur í útlöndum, og hringir heim, þarf maður að setja 354 fyrir framan, en hvað þarf maður að setja fyrir framan þegar maður er að senda tölvupóst erlendis frá?

5. Ég er með breiðvarpið, og horfi mest á spænsku stöðina. Hún er svarthvít hjá mér, og ég er að horfa á matreiðsluþátt. Veistu nokkuð litinn á kökunni sem er á skjánum núna?

6. Hvað á þetta að þýða að loka símanum. Ég gerði allt upp hjá ykkur fyrir nokkrum mánuðum síðan.

7. Ég var að pæla í að gefa stráknum mínum LSD. Getið þið reddað því fyrir mig? (ADSL)

8. Ég stillti GSM símann minn á þýsku, en þegar ég sendi þýskri vinkonu minni SMS, fær hún þau bara á íslensku!

þriðji – eða var það fjórði

kaflinn í junk food framhaldssögunni.

Ég er búin að fá leyfi hjá Tollstjóra fyrir innflutningnum, vonandi er búið að faxa bréfið frá Fiskistofu á bæði Sjoppusa og TVG (þar strandaði málið í upphafi)

Búin að panta fiskinn aftur (gat ekki valið ókeypis sendingu, hrumpf!) Búin að senda reikninginn á Sjoppusa. Á að fá þetta afgreitt sem einn pakka frá þeim (vegna þess að það voru þeir sem stoppuðu þetta til að byrja með)

Tek það fram að þetta er púra þrjóska í mér. Er að fara til útlanda eftir mánuð, hefði getað keypt mér 1-2 dósir af laxinum og ekki staðið í þessu veseni. En ég þoli ekki svona rugl og klúður, hlutirnir bara skulu ganga í gegn. Ef það er þá á annað borð hægt.

Ég er samt ekki viss um að ég nenni að standa í þessu aftur. Að minnsta kosti ekki oft.

hjúkkitt

ég þarf ekki að deila kúrsunum mínum, þetta er bara sett upp sem tveir ólíkir valkostir fyrir krakkana. Einhvern veginn held ég… nei, kannski best að segja það bara ekki neitt 😉

ææææðislegir

tónleikar hjá Ísafold áðan. Troðfullur salurinn í Listasafninu. Nýja verkið hans Hauks brill. Takk fyrir mig, krakkar.

styttist

í skólabyrjun hjá þeim litla, hann fékk pennaveski hjá ömmu sinni um daginn. Amman harðneitaði að kaupa handa honum Bionicle pennaveski, sem þýddi að hann gat ekki einu sinni horft á það sem var keypt, það var svo sárt í augunum. Ekki að ræða það að hann tæki veskið með sér heim.

Svo var hann náttúrlega búinn að steingleyma því í dag, þegar ég sótti veskið. Eða sætta sig við orðinn hlut, að minnsta kosti (… og vit til að greina þar á milli)

ormur jónsson.

tungumálaáhugi

barnanna minna er ekki lítill. Nú eru þau í verkefninu: Læra sænsku.

Keyptum okkur Wallace and Gromit fyrir sumarfríið, nú er bara horft á hana með sænska talinu. Leigðum svo Narníu í gær og nú er búið að horfa á hana einu sinni á íslensku og tvisvar á sænsku. Magnað.

2 1/2

kíló af rifsberjum (og slatti af sykri) komin ofan í rétt rúmlega fjórar franskar sultukrukkur. Varð lítið úr en þetta hljóp að minnsta kosti hjá mér í þetta skiptið.

Gæti þurft að gera annan skammt, sultuæturnar hérna klára þetta nú á 1-2 mánuðum ef ég þekki þá rétt…

Haldið þið

að það sé ekki hola í lögunum um fiskinnflutning? Indæla konan frá Fiskistofu hringdi í mig í dag aftur, meira að segja tvívegis, og maður má bara alveg flytja upp að þremur kílóum af fiski (frá öruggum löndum) til einkaneyslu. Verstur fjárinn að ég var búin að afpanta, og vegna þess að ég valdi Super Saver Delivery frá Amazon get ég ekki bætt laxinum inn í pöntunina aftur. Búin að senda sjoppusakonunni póst um hvort þau geti farið með pakkana tvo sem einn fyrir mig, annars ekki séns að ég tími að kaupa laxinn líka.

framhald á þessari æsispennandi sögu á morgun…


bland í poka

teljari

  • 377.779 heimsóknir

dagatal

ágúst 2006
S M F V F F S
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
2728293031  

sagan endalausa