Sarpur fyrir mars, 2023

Ástralíutúr H&H dagur 15

Seinni tónleikadagur. Alveg að klárast!

Svaf ekki vel (tímdum ekki svefntöflu, pillurnar alveg að klárast og við þyrftum að geta sofið vel bæði fyrir keyrsluna til Sydney frá Canberra og svo alveg bráðnauðsynlegt að geta sofnað í fluginu langa milli Singapore og London. Hallveig tók eina, lá meira á henni en mér þennan dag, af einhverjum undarlegum orsökum!

Kaffi og brauð, hún fór svo út að liggja aðeins í lauginni en ég kreisti aftur augun í veikri von um að geta sofið en ekki gekk það nú. Ójæja.

Mæting á tónleikastað klukkan fjögur. Við ákváðum að fara bara á bílnum okkar frekar en biðja Stephen eða Jo sækja okkur. Reyndist gott/slæmt. Komum á staðinn í góðum tíma, alveg ljómandi hljómburður í kirkjunni sem tónleikarnir voru í. Wesley Music Center, bæði kirkja og tónleikastaður, talsvert betri hljómburður en í Blue Mountains Theatre þar sem fyrri tónleikarnir voru.

Rebecca, ópuerugrúppan og Sam víóluleikari.

Renndum yfir nýju verkin tvö. Mín einbeiting ekki alveg í toppi, merkilegt nokk. Svo var kíkt á byrjanir og snúnustu kaflana í Traversing. Svo ætluðum við upp á hótel, skipta um föt og reyndar var planið að koma við í búð og kaupa eina góða freyðivín til að geta skálað um kvöldið og eitthvað smá að borða, við vorum hvorugar búnar að borða neitt frá morgunmatnum og útilokað að borða ekkert fram til níu um kvöldið þegar tónleikarnir yrðu búnir og við kæmumst aftur uppeftir.

Fyrrihluti plansins gekk, tja ekki alveg eins og í sögu, kirkjan/tónlistarsentrið er rétt hjá þinghúsinu og allri stjórnsýslunni og það voru ENGAR búðir. Slógum „supermarket“ inn í gúgul maps og fundum einn slíkan. Í Canberra má greinilega selja áfengi í almennum matarbúðum, öfugt við New South Wales, þar sem bæði Sydney og Blue Mountains eru (Canberra og umhverfi er sín eigin sýsla og tilheyrir ekki NSW).

Þessi fogl var fyrir utan:

Þegar við vorum búnar að redda þessum bráðnauðsynjum var klukkan orðin frekar margt og við ákváðum að skjótast bara á hótelið, skella freyðaranum í kæli og skipta um föt. Sem betur fer vorum við samt með konsertfötin með okkur því þegar við ætluðum að leggja af stað steinhætti navigation allt í einu að virka! Google Maps í mínum síma náði ekki sambandi við bílinn, Google Maps í Hallveigar síma var algerlega í ruglinu, Apple Maps fann staðinn sem við vorum en fór ekki af stað og ekki séns að við rötuðum sisvona á hótelið, verandi á stað sem við þekktum ekki neitt.

Hallveig var að keyra. Ég endaði á að koma GM í gang í símanum mínum en guidehæfileikar mínir höfðu fokið út um gluggann í svefnleysinu og mér tókst að láta okkur missa af tveimur útafakreinum og allt í einu vorum við komnar á einhvern highway á leið til Melbourne eða hvað veit ég?

Var farin að fabúlera um að því miður yrði að sleppa tónleikunum þar sem aðal gengið væri óvart týnt. Allavega steinhættum við við að reyna að fara á hótelið, það yrði bara að hafa sig þó freyðarinn yrði ekki kaldur (og það var sko meira en 30° hiti þennan dag).

Þorði varla að treysta að GM væri að leiða okkur á rétta vegu (amen) en þegar við sáum þinghússpíruna vissum við að þetta væri að smella inn. Komum í góðum tíma á tónleikastað, báðar frrrekar stressaðar. Mættum einni kórkonu úti og alveg: VIÐ VILLTUMST 😮 og hún: jájá það villast allir í Canberra! Sem var svo það sem öll sem við sögðum frá þessu sögðu líka. Allir villast í Canberra. Svo við hættum snarlega að skammast okkar fyrir þetta og vorum bara dauðfegnar að vera komnar á svæðið svo ekki þyrfti að sleppa tónleikunum!

Jo rétti mér stóra möppu með myndskreytingum við óperuna The Water Babies sem hún og Freddie Hill stóðu að nokkrum árum fyrr og við ætlum að leggja fyrir Óperudagateymið. Ég þóttist sjá að þetta væri hennar eigin eintak og neitaði að taka það með heim en tók myndir af öllum flottu myndskreytingunum.

Tónleikar. Fyrst Blue Mountains Suite eftir Rebeccu sem var líka á tónleikunum í BM. Þá kom að litlu nýju verkunum tveimur. Þau flugu í gegn, ég vona nú að þessi verk lifi áfram, er alveg svolítið sátt við þau). Tvær smá vitlausar innkomur en ég gat sungið þær báðar inn og það tók örugglega enginn eftir vitleysunum.

Svo söng SCUNA kórinn Gleðina, Sálm 150 og Vorlauf. Tókst bara alveg ágætlega. Þau sungu svo tvö stykki til, enn betur enda búin að kunna þau lengur og heldur engin íslenska.

Hlé. Ópera. Að ég held (og Hallveig líka) besti flutningur á henni hingað til. Hallveig í fantaformi, einbeitingin kikkaði inn 100%. Verst að þetta var ekki tekið upp.

Fólk alsælt, fengum mikið klapp og þakkir. Búnar á því, algerlega. Kvöddum Jo, myndum ekki sjá hana aftur áður en við færum allavega. Eltum hljóðfæraleikarana upp á hótel, að við héldum en þá var smá misskilningur á ferð og þau voru að koma við og kaupa sér eitthvað teikavei og við vorum ekki alveg þar, langaði bara upp á hótel. Elizabeth 2. fiðluleikari kom þá með okkur í bílinn til að leiðbeina uppeftir en akkúrat þá tókst okkur að koma fjandans Gúgul Maps í gang. Smá fyndið samt því hún var líka með það í gangi og líka talið og við skildum ekkert í því að það væri allt í einu komið Turn left in 300 metres.

Buðum henni svo inn í freyðivínsglas (með klökum því við nenntum ekki að hafa það nógu lengi í frysti) þar til þau hin kæmu til baka með matinn hennar.

Lengi að sofna, adrenalínkikkið ætlaði ekki að láta sig en gekk nú samt á endanum, allavega hjá mér, Hallveig heldur lengur að sofna. Ansi hreint langur dagur/langir dagar framundan, heimferð í einum rykk daginn eftir!

Ástralíutúr H&H dagur 14

Næstsíðasti heili dagurinn. Til hafði staðið að fara með okkur í langan útsýnistúr og skoða heritage house sem hafði tilheyrt fjölskyldu Jo og Stephens en við eiginlega báðumst undan því, þar sem seinni tónleikarnir eru jú á morgun og ekkert vit í að þreyta okkur í dag. Svo við sváfum út, vöknuðum báðar reyndar klukkan sjö en harðneituðum að hlusta á það og kreistum aftur augun þar til við sofnuðum aftur. Morgunmaturinn fylgir ekki hér í Alivio Tourist Park og Hallveig hafði borðað í mötuneytinu (sic – ekki veitingastað) þar í gær og það var ekkert þannig spennandi. Svo við keyrðum bara niður í bæ til að fá okkur hádegismat. Vorum góða stund að finna stæði, ekkert allt of mikið af þeim þarna niðri í steinsteypumiðborg en tókst nú samt á endanum eftir smá sikksakk.

Borgað í stæðið, eina skiptið sem við höfum þurft að gera slíkt hér og stímdum á staðinn sem Hallveig var búin að spotta. Haldið þið ekki að hann hafi svo reynst sænskur? Rye Café, föttuðum þegar við vorum sestar að matseðillinn var að hluta til á sænsku!

Nenntum nú samt engan veginn að færa okkur. Ég var dedicated bílstjóri svo Hallveig gat fengið sér einn aperol eða jafnvel tvo.

Minn matur var fínn, einhverjar grísakinnakrókettur með laukfrönskum en poached eggið og reykti laxinn hennar Hallveigar var með hollandaise gerðu úr brúnuðu smjöri og ég hef eiginlega varla fengið betri sósu nokkurn tímann. Pant svoleiðis í síðbúna afmælismorgunmatinn minn þegar ég verð komin heim, Jón Lárus og krakks!

Kíktum í kringlu svæðisins rétt hjá þar sem við höfðum lagt bílnum, skimaði eftir sundbol svo ég gæti farið í laugina á cabinhótelinu en fann engan nema einhverja kolsvarta og 10 númerum of stóra, ekki alveg málið. Keyptum smá mat til að eiga morgunmat og hádegismat á tónleikadegi og heimferðardegi sem yrði á laugardaginn.

Heim á hótel. Við eigum báðar eftir að þurfa að venja okkur við að keyra réttu megin á veginum.

Stephen Horn, frændi hennar Jo sótti okkur svo klukkan fjögur og fór með í nærri tveggja tíma túristaferð. Höfðum ætlað í Lanyon sem er svona heritage house sem fjölskylda þeirra átti en er nú í þjóðareigu en þegar við vissum að það var einn og hálfur tími hvora leið þá lögðum við ekki í það, miðað við þungan dag á föstudeginum (á morgun) og Stephen fór með okkur og sýndi allt það markverðasta í Canberra (sem er NB borið fram KANbra ekki Kan Berrra eins og í War of the Worlds verkinu)

Þetta var æði. Fórum upp á fjall til að sjá Canberra að ofan, merkilegt að sjá þessa rönd sem minnti mig á París, nema það er engin brú þarna í miðjunni svo það er ekki hægt að fara þarna alla leið:

Hér eru Stephen og Hallveig að virða fyrir sér útsýnið:

Við fengum líka að sjá votlendi en hvorki slöngur né flatnefi enda sýna þau sig ekki nema þau neyðist til (Stephen sagði samt að þeim sé kennt þegar þau sjá slöngur að vera fyrri til því annars lifirðu ekkert af, þegar ég sagði að þau væru örugglega hræddari við okkur en við við þau. Það er smá reality check!)

Þinghúsið:

gosbrunnurinn ógeðslega flotti fyrir framan Hæstarétt:

og allir fánarnir – fann reyndar ekki þann íslenska. Samt bókað þarna einhvers staðar, línan var talsvert lengri.

Kórinn var svo búinn að skipuleggja drinks evening á voðalega krúttlegum glænýjum bar við vatnið sem sést á myndinni frá fjallstoppnum fyrir ofan. Hér er formaður kórsins, afskaplega skemmtilegur strákur sem langar að koma til Íslands, stelpa sem í skiptinámi frá Belgíu og annar flottur strákur sem er í námi í háskólanum.

og hér smá Canberrskt sólarlag:

Stephen keyrði okkur svo heim á hótel, redduðum okkur pizzu á hótelveitingahúsinu því það var ekkert í boði að borða þarna á drykkjarkvöldinu og við vorum ekkert búnar að borða síðan sænska hádegismatinn! Morgundagurinn verður væntanlega eitthvað!

Ástralíutúr H&H dagur 13

Fyrri löngukeyrsludagur – Canberra hér kæmum við.

Húsið góða í Bullaburra kvatt. Það sem hafði verið mikill lúxus þar hjá okkur.

Hallveig tók fyrri legg, þetta er um þrír og hálfur tími. Svolítið mikið af þessum gaurum á götunni en umferðin samt alveg þolanleg. Veit ekkert hvað hann var að gera þarna megin, var á hraðakstursgreininni.

Matarstopp og teygjúrskönkum í mjög krúttlegu kaffihúsi á leiðinni.

Lent í Canberra um fjögurleytið, mjög fín smáhýsi en slatta langt frá bænum og einhvern veginn ekkert í kring, við héldum að við yrðum kannski í meira göngufæri við búðir og þannig en það var semsagt ekki. Hallveig skaust í sund og ég lagði mig, eftir að hafa fullvissað mig um að ég yrði sótt til að fara á kóræfinguna um kvöldið, háskólakór ætlaði semsagt að flytja þrjú af lögunum mínum á tónleikum föstudagskvöldsins.

Herbergið mitt og svo hér útsýnið af svölunum. Kannski morgunsól…

Stephen Horn, frændi hennar Jo sem syngur í háskólakórnum náði í mig, komum við og ég keypti mér eitthvað smá að borða og oggulítinn bjór fyrir kvöldið, æfingin gekk þokkalega, gaf leyfi fyrir að nota píanóið með Sálmi 150 því hann er slatta snúinn rytmískt, í verkinu er symball og á æfingunni var einhver með smá handsymbal og það var ógeðslega fyndið en þau ætla að redda alvöru symbal á fæti fyrir tónleikana. Þurfti smá að leiðrétta framburð, skiljanlega, erfiðast var au-ið í Vorlauf. Ekki fyrsta skipti sem einhver syngur það upp á þýska mátann.

En þetta verður fínt.

Komin í lúxuskabínuna, reddaði skattstaðgreiðslunni á síðasta séns, pínuoggulitli bjórinn minn kominn í glasið og fer að hrynja út!

Ástralíutúr H&H dagur 12

Túristadagurinn mikli. Algjör frídagur frá vinnu svipað og daginn áður. Við vorum búnar að mæla okkur mót við Rebeccu og Jo til að fara í útsýnistúra og kengúruskoðun. Veðrið var ekki upp á mjög marga fiska, smá skúrir og þoka. Sóttum Rebeccu á okkar fína tojóta hæbrid, hún var að fara með bílinn sinn í viðgerð svo þetta var alveg ídeal að við værum á okkar bíl. Jo hafði boðist til að keyra bílaleigubílinn en sú hugulsama tillaga gekk auðvitað ekki upp því við tvær vorum einu skráðu bílstjórar á hann. Ég keyrði til Katoomba þar sem viðgerðarverkstæðið var en Hallveig tók síðan við því hún hefur smá tendens til bílveiki þegar hún situr afturí, burtséð frá því að hún var orðin ansi hreint lunkin að keyra vinstra megin, enda búin að keyra talsvert meira en ég. Jo fór svo á sínum bíl því hún gæti þurft að rjúka burtu til að sinna framkvæmdastjóraerindum fyrir verkefnið.

Fyrst kaffibolli á algjöru hippakaffihúsi! Það var svo mikil kryddlykt í horninu sem okkur var vísað á að við ætluðum út að finna annað kaffihús en nefndum þetta við staffið og þær vísuðu okkur á annan stað í húsinu sem var talsvert betri. Ágætis kaffi. Einhver nefndi að ég ætti afmæli og kaffihúsið leysti mig út með lítilli köku þegar við fórum.

Byrjuðum heima hjá Rebeccu sem býr uppi í sveit og hefur almennt kengúrur í garðinum bara að tjilla. Þær létu samt ekkert sjá sig en hún átti tromp uppi í erminni. Húsið hennar er stórkostlegt, allt í fimmta/sjötta áratugar stíl, ég var bara komin í Sörlaskjólið til ömmu þegar ég kom inn í eldhús.

Geggjað flott hádegisverðarhlaðborð í sætari kantinum. Jo kom með afmælisköku, Rebecca helling af heimabökuðu og kex og osta og ólífur og svo kakan sem ég fékk á kaffihúsinu.

Þá kom trompið í erminni hennar Rebeccu. Nágranni hennar nefnilega er með kengúrur í garðinum sínum, hún er kengúruungabjargari og hugsar um unga (joeys) sem missa mæður sínar og álíka. Þvílíku krúttin! Svo finnst þeim franskbrauð gott.

Ekki var sólin að sýna sig mikið svo við fórum af stað og keyrðum bakleiðir að svakalega flottum útsýnispalli yfir ekki Megalangadal heldur þann næsta við hliðina, Grose Valley. Leist bara semí vel á skiltin, einn göngutúr einn og hálfur tími, annar fjórir tímar, og sá þriðji átta tímar (óneitakksamogþegið!) Nema svo var einn. 100 metrar að útsýnispalli. Við þangað!

Alveg búnar á því. Jo þurfti að fara að sækja prógrömmin fyrir Canberra tónleikana og við keyrðum Rebeccu að ná í bílinn sinn í viðgerð, kíktum svo í búð til að kaupa í afmælismatinn minn sem Hallveig ætlaði að elda handa mér, komum við og keyptum freyðivín til að skála í með matnum og svo heim í hús. Ó svo gott. Hvílíkur afmælisdagur!

Ástralíutúr H&H dagur 11

Þetta var sko hvíldardagur frá himnaríki. Ekkert prógramm. Hafði steinsofið alla nóttina, takk svefntafla og þegar ég vaknaði um áttaleytið nennti ég alls ekki að vera vakandi svo ég setti á þægilegt hlaðvarp, steinsofnaði aftur og svaf til hálfellefu. Ég fór ekkert úr náttfötunum allan daginn. Langsísta veðrið hingað til í ferðinni, dæmigert íslenskt sumarveður 14° og rigning meiripart dags. Sem betur fer er spáin fyrir batnandi aftur, þokkalegt á morgun og svo aftur sumar á miðvikudaginn þegar við keyrum niður til Canberra.

Hallveig var reyndar suddalega dugleg og kláraði að skrifa stóra og þunga Evrópuumsókn um stórt verkefni sem skólinn hennar er að taka þátt í. Kom alveg hoppandi inn til mín þar sem ég lá í leti og las uppi í rúmi. Vúhú! Textinn kominn!

Svo nennti hún samt ómögulega að hanga í húsinu allan daginn svo hún skaust niður til Katoomba seinnipartinn til að kaupa sitt af hverju, til dæmis millistykki, við vorum búnar að deila því eina sem ég kom með allan tímann, mjög hugvitsamlega og úthugsað í þaula þar sem báðar eru með tölvu og síma og þráðlaus heyrnartól (Hallveig með tvenn) og ég með ipadinn líka. Ástralir eru sko ekki með innstungur sem passa við okkar norður- og miðevrópsku klær.

Kom svo við til að kippa með einhverju að borða fyrir okkur, reyndist smá hindrunarhlaup því í litla bænum næst Bullaburra þar sem við erum að gista, Lawson, eru nokkrir staðir en þeir voru allir lokaðir á mánudögum nema Subway (neitakk) Cheesesteak Factory sem við vorum búnar að prófa og var vægast sagt óspennandi en eitt bístró var opið og var með alveg ágætis mat. Liðið hér uppi í smábæjunum væntanlega lítið að fara út að borða á mánudögum.

Svo horfðum við á 7. þáttinn af Stormi. Tókst að tengja vélina hennar Hallveigar við stóra sjónvarpsskjáinn á svæðinu, millistykkið sem ég hafði dregið með mér til að tengja tölvuna mína við skjávarpana í fyrirlestrunum mínum nokkrum dögum fyrr en hafði steingleymt uppi í húsi kom semsagt í góðar þarfir. Snillar sem við getum verið.

Báðar komnar upp fyrir 20 þúsund króna roaming charges – þetta á eftir að kosta eitthvað! Ég vona að limitið mitt upp í 35k dugi… Kannski hefði verið vit að kaupa bara fyrirframgreiddan síma til að nota hér en það er allavega fullseint núna þegar ferðin er vel ríflega hálfnuð. Aðallega notað fyrir gps í keyrslunni.

Afmælið mitt á morgun! Það er eitthvað.

Já og þið þarna fyrir norðan með ykkar Langadal, eigið ekkert í Bláfjöllin hér úti:

Ástralíutúr H&H dagur 10

Þrír dagar núna með semí fríi, var að spá hvort þetta yrði stutt blogg en eitthvað smá er nú í gangi samt.

Svaf vægast sagt ömurlega, adrenalínið var í toppi eftir tónleikana kvöldið áður, fór ekkert inn í rúm fyrr en um hálftvö, sofnaði eitthvað undir tvö – og vaknaði kortér yfir þrjú. Ekki dúr á auga fyrr en um sexleytið, svo dreymdi mig að ég vaknaði klukkan ellefu en neih, klukkan var 10 mín yfir sjö þegar ég kíkti á símann.

Frekar mygluð, sendi á Jo að við Hallveig (sem fór enn seinna að sofa en ég, það var enn ljós frammi þegar ég vaknaði ríflega þrjú) myndum ekki koma með henni á myndasýningu og drykki í hádeginu sem hún var annars búin að bjóða okkur að koma með á. Ekki fræðilegur.

Um ellefuleytið, við enn á náttfötunum, komu húseigendur, dásamlegt fólk og gestrisið, mæli með þessu airbnbi ef einhver á leið þarna hinu megin á hnöttinn. Það er meira að segja matur í boði sem við erum heldur betur búnar að nota okkur. Allavega, þau komu til að hreinsa koi pollinn. Þau eiga sko líka hús í Sydney og eru sirka jafn mikið hér og þar. Komu á þessum bíl:

hrikalega flottur Mazda sportbíll. Sóttu svo annan bíl sem var í bílskúrnum. Ég hrósaði bílnum við manninn og hann alveg: já þetta er midlife crisis bíllinn minn! Ég: Já ég á líka Mözdu en reyndar bara Mözdu 3. Hann. Já ég á líka þannig sko, nota hann þegar ég þarf að koma mörgum milli staða. Fínir bílar!

uuu ókei – hef ekki séð Mözdukrúttinu mínu lýst sem stórum bíl áður en hei, komast fleiri í hana en þennan, það er ljóst.

Fullt af liði alltaf að tagga mig í dag og hrósa tónleikunum (aðallega tónskáldasíðuna mína reyndar). Jo sendi þetta tvennt á mig:

(frá söngkennaranum hennar):

Richard Morphew:- Congratulations on a wonderful and successful concert. The music and performers were excellent, and what a “House” – more patrons than were at a piano recital given by Roger Woodward.
You must be pleased and over the moon, and I am proud of you, too.

(og frá vini):

Marguerite Rummery: It was a very moving exceptional performance from everyone. An amazing work. Thank you.

Ekkert þannig leiðinlegt skoh…

Náði að sofna í sirka klukkutíma síðdegis. Ætlaði svo út á pall en þá kom snarbrjálað þrumuveður og úrhelli svo það varð minna úr því.

Hallveig öööölskar þrumuveður! Tók vídeó af látunum.

Planaður hátíðakvöldverður í veitingahúsi rétt hjá tónleikastaðnum daginn áður. Rebecca fiðluleikari sótti okkur Hallveigu, við harðneituðum að keyra því við vildum sko geta fengið okkur vínglas til að skála og það er ekki í boði að keyra vitlausu megin á götunni þar sem fólk ratar ekki fullkomlega eftir eitt til tvö glös.

Komum á staðinn, þar var búið að taka frá borð og nokkur sest, óvenjulegt að það var sellóleikari að spila dinnertónlist. Frekar flott bara. Við Hallveig pöntuðum okkur sko kampavín! og heilan kjúkling og besta hallúmíost sem ég hef fengið, með hlynsírópi. Verðum að prófa. Fullt af skemmtilegu fólki, meðal annars langtíma facebookvinur, Margot McLaughlin kórstjóri sem ég hitti í svip á tónleikunum í gær en vissi að ætlaði að koma í kvöld líka.

Nema hvað. Haldið þið ekki að á borðinu bak við okkur hafi verið ALLUR KÓRINN HENNAR? og þær sungu fyrir mig Vókalísuna mína. Sem var ástæðan fyrir sellóleikaranum, hann var alls ekki ráðinn af staðnum í dinnermúsík, vókalísan er fyrir átta kvenraddir og eitt selló. Ég var svo gersamlega gapandi! Enduðu á afmælissöngnum fyrir mig, á íslensku, þrátt fyrir að ég eigi ekki afmæli fyrr en á þriðjudaginn.

Þarna á myndinni eru svo Jenny Eriksson og hennar maður, hún er einn forsprakka The Marais Project, sem spilaði nýju verkin mín í gær nema hún var nýbúin að brjóta á sér handlegginn, einhver mannfýla með hausinn niðri í símanum sínum labbaði beint fyrir hana á hjólastíg þar sem hún hjólaði í sakleysi sínu. Þau splæstu svo mat og víni í okkur Hallveigu, við þökkuðum bara kærlega fyrir okkur. Við erum að plotta að fá Marais til Íslands næsta eða þarnæsta sumar. Vinir sem standa fyrir hátíðum geta beðið spenntir eftir póstum frá okkur/þeim.

Rebecca hafði gleymt símanum sínum í græna herberginu á tónleikastað og Jo hafði tekið hann með. Ætlaði að kippa með í matinn en fann hann svo hvorki í töskunni sinni né bílnum. Frekar súrt, við vitum öll hvað er glatað að finna ekki símann sinn. Svo þegar við vorum komnar af stað til baka, bara rétt komnar í bílinn datt mér í hug að hringja í símann til að athuga hvort hann hringdi kannski í töskunni hennar Jo. Þá grípur bluetooth í bíl Rebekku og síminn hringir. Jo var þá í bílnum bara hinum megin við götuna og auðvitað var síminn í töskunni hennar, var bara svo lítill að hún fann hann ekki. Þetta var frekar fyndið.

Rebecca skutlaði okkur svo heim. Og ég ætla þokkalega að taka svebbntöbblu núna svo ég sofi ekki aftur bara 3 tíma!

Ástralíutúr H&H dagur 9

Fyrri tónleikadagur. Sofið út eins og hægt var, fórum reyndar ansi snemma að sofa svo það var sosum ekki um að ræða að sofa til tíu neitt.

Áttum ekki að mæta fyrr en hálffjögur á tónleikastað sem var um 20 km í burtu. Snemmbúinn hádegismatur, crumpets og kók/peffsímaggs (já). Crumpets eru góð! ég skil ekki hvers vegna svoleiðis fæst hvergi heima. Ef ég hef rangt fyrir mér má einhver segja mér það.

Skutumst að kaupa smá inn fyrir sun-má og freyðivín til að skála í í kvöld eftir tónleika, það yrði ekki skálað saman heldur er festival dinner annað kvöld fyrir þau sem taka þátt og aðeins fleira fólk.

Fengum okkur geggjað kaffi á fínasta kaffihúsi sem spilaði OMAM músík hjá sér, urðum ekkert súrar að heyra það. Alls konar íslensk músík í Blue Mountains í dag.

Heim í hús með freyðarann í kæli og ísinn í frysti.

Þá var það bara að taka sig til fyrir mætingu. Google maps er alveg að gera sig hér eins og þið getið ímyndað ykkur. Litla Julia tók á móti okkur á bílastæðinu við Blue Mountains Theatre Hub.

Salurinn reyndist stór og frekar þurr, eitthvað voru gerðar tilraunir með uppmögnun og enduðum á að hafa smá lyftingu í fyrri hluta tónleikanna en ekki í óperunni sjálfri, það hefði engan veginn gert sig með þessar svakalegu styrkleikabreytingar í henni.

Hér eru Marais Project og Kanimbla Quartet á æfingu fyrir performansinn, báðir hópar með góðan bút af prógramminu fyrir hlé. Marais plús Hallveig og Jo fluttu svo líka glænýju verkin mín tvö og ég stjórnaði. Á því eðlilega enga mynd af því.

Jo hafði búið til geggjaða myndasýningu fyrir óperuna, ég vona að við fáum hlekk á vídeóið sem var tekið.

Þá performans. Byrjaði á varaborgarstjóra sem hélt stutta tölu, byrjaði á þökkum til frumbyggja eins og er víst alltaf gert hér, það er (loksins) mikið tillit tekið til þeirra, enda ansi löng og ljót saga um illa meðferð, en fólk hér hefur tekið sig verulega á og nú fá frumbyggjar þann heiður sem þau eiga skilið. Hún var alveg ógurlega ánægð með þessa heimsókn frá hinumegin á hnettinum og þakkaði okkur fyrir að koma og Jo fyrir að eiga þetta frábæra frumkvæði. Hún er búin að leggja alveg fáránlega mikla vinnu í þetta og hefur verið mjög ein við það, ég hef reynt að styðja hana af megni en erfitt frá mörgþúsund kílómetrum og hálfum sólarhring í burtu!

Marais, reyndar með varagömbuleikara því Jenny forsprakki Marais var svo óheppin að handarbrjóta sig fyrir hálfum mánuði, sem betur fer var hægt að redda nýjum. Þau eru eiginlega sænsk grúppa, Jenny Eriksson, Tommie Anderson og svo Susie Bishop sem ég held ekki að sé sænsk en það er ekki að heyra á hvorki fiðluspileríinu né söngnum. Þau semsagt spila mest sænska þjóðlagatónlist (á sænsku sko) en svo var líka eitt stykki eftir Susie (það er sko hún sem á litlu Juliu). Hvílíkt hæfileikabúnt þessi unga kona!

Kanimbla kvartettinn flutti svo Blue Mountains svítu eftir Rebeccu Daniel, líka mjög flott stykki, þetta með bárujárninu sem ég nefndi í færslu gærdagsins. Sá kafli fékk þennan bakgrunn:

Eftir hlé var svo aðalatriðið. Traversing the Void, eftir mig og Jo. Ég sat úti í sal en gat náttúrlega ekkert verið að taka myndir, laumaðist í þessa þegar strengjakvartett plús óbó og klarinett og stjórnandi voru komin inn og verið var að stilla. Þarna er svo kunnugleg mynd í bakgrunni, af hvítum cockatoo, hún er tekin af Merryl Watkins og meðhöndluð af Fífu minni til að það séu bara vængirnir eftir. Stórkostleg mynd.

Og það var nú það. Þetta var gaman! Hvílíkt sem þetta er búið að vera lengi í undirbúningi!

Alveg búnar á því, keyrðum beint heim og náttföt og freyðivín í skrifandi stundu og Suðurkrossinn ljómandi á himninum hér uppi í sveit og engri ljósmengun. Skál!

Ástralíutúr H&H dagur 8

Ferðin hálfnuð. Það er eitthvað.

Hallveig átti alveg frí í dag, ég hefði verið til í það líka en eitt útvarpsviðtal skyldumæting í plöggið. Jo sótti mig (svaf aðeins of illa, tók sko ekki svebbntöbblu, kannski ekki alveg málið að taka slíkar alla ferðina). Frekar spes viðtal með gaur sem var sosum búinn að undirbúa sig smá en vissi voða lítið um hvað músíkin snýst og spilaði O mio babbino caro sem fyrra kynningarlag og seventís popp sem hið seinna. En hann var samt alveg mjög jákvæður og vona að kynningin skili mætingu á svæðið. Ég fékk pínu heimþrá að sjá bárujárnsþakið í glugganum í stúdíóinu:

ok sést reyndar ekki alveg nógu vel á myndinni en það var semsagt bárujárn á gamla móðinn þarna bak við. Jo og Rebecca Daniel á hinni myndinni, Rebecca er breskur fiðluleikari sem er búin að búa í áratugi hér í Bláfjöllum þeirra Ástrala og leiðir Kanimblakvartettinn sem spilar í uppsetningunni. Tengingar – hún er líka tónskáld og á tónleikunum verður flutt Blue Mountains svíta hennar fyrir strengjakvartett, lokakaflinn heitir Rain on a tin roof og eitt alfyrstu verka minna eftir að ég kem heim úr námi heitir Syngur sumarregn (á bárujárninu bratta er næsta lína textans sem er eftir ömmu okkar og ég gef Hallveigu í útskriftargjöf þegar ég er rétt lent heima úr námi).

Jo þurfti svo að fara í plöggdreifingu og ég ætlaði bara að taka leigara heim en Rebecca bauðst til að skutla mér þessa 15 km heim í hús. Vel þegið og mjög gaman að spjalla. Hún var í Royal Academy sem fiðlari á sínum tíma, væri skemmtilegt að vita hvort einhver vina minna man eftir henni. Við vorum alveg sammála um að aðal málið til að venja sig við í vinstrihandarakstri væri að smella á rúðuþurrkurnar í stað stefnuljósa. Það er semsagt eins í Bretlandi og heima þrátt fyrir að þar sé vinstri handar akstur eins og hér í Ástralíu. Magnað. Annars segjum við Hallveig alltaf „driving on the wrong side of the road“, örlítið til lókal pirrings en ef það er ekki right side of the road þá hlýtur það að vera wrong side, ekki satt? (never mænd left side).

Steinsofnaði heima, þrátt fyrir smá brunalykt. Alltaf smá vari á hér uppi í Bláfjöllum!

Ekkert. Ekkert prógramm restina af deginum sem var fáránlega vel þegið. Já nema smá tásur á pallinum með Koi pollinn í baksýn og smá freyðara á kantinum. Sorrí Ásgeir! og sorrí hvítulappir, ég held það vanti brúnkufrumur í fótleggina mína 😦

Koi gengið stóð samt fyrir sínu:

Gersamlega nauðsynlegur hvíldardagur, sólin reyndar ansi hreint heit á pallinum, Evy sólarvörnin sem ég hafði vit á að taka með að heiman var alveg að gera sig. Hvílíkur feginleiki í hvert sinn sem dró fyrir sól, alveg öfugt við heima. Við vorum svo báðar búnar að vera að hugsa, ó sólin fer að fara af pallinum! þegar hún var þá á leið í hina áttina og fullt fullt eftir! Drösluðum annarri viftunni út á pall, munaði hellingi, annars hefði þetta verið óbærilegt.

Blessuð sólin elskar allt, nema kannski snjakahvítu leggina mína! Kross putt að brenna ekki.

Pasta puttanesca í kvöldmat og svo snemma að sofa. Hlökkum til tónleikanna á morgun!

Ástralíutúr H&H dagur 7

Þessi dagur yrði þungur. Setti vekjarann á sjö og ætlaði reyndar aldrei að sofna, þrátt fyrir svefntöflu, sem ég var annars samviskusamlega og samviskulaust búin að skella í mig. Snúsaði tvisvar (er þetta annars orð?) og reif mig svo upp, fékk mér bara appelsínusafa og fór hljóðlega að, til að vekja ekki Hallveigu sem mátti sko sofa út þennan dag.

Til að byrja með, fyrirlestur fyrir unglingadeild í tónlistarskólanum sem við æfum í fyrir tónleikana á laugardaginn, Julie stjórnandi er kennari þessara krakka. Hélt grunnfyrirlesturinn minn um að skrifa fyrir raddir þó þau séu kannski ekki alveg komin á þann stað, ekki fór ég að kynna fyrir þeim tónfræðaatriði, þau fá það í tímum, hver veit hvort það hafi kviknað áhugi á að semja músík.

Við Jo komum við og fengum okkur kaffi og sóttum svo Hallveigu, ég var að fara að halda annan fyrirlestur, nú í háskóla, Western Sydney University, í seríu sem heitir The Art of Sound. Fórum þangað á tveimur bílum og skólinn splæsti í hádegismat en svo hélt Hallveig áfram niður til Sydney því við þurftum að skipta um bílaleigubíl, meðal annars vegna þess að sá sem við vorum á var eiginlega bara bæjarsnattbíll og okkur leist lítið á að keyra á honum fjögurra tíma ferðina til Canberra, vikuna eftir. Svo var eitthvað með að það allt í einu vantaði á hana vinstri hliðarspegil, blessuðu litlu gulu hænuna sem var alveg óvart breiðari á vinstri hlið en bílstjórinn hafði mögulega getað áttað sig á…

Þessi fyrirlestur var hins vegar um mína eigin músík og svo verkið og tónleikana á lau, þetta voru postgrad stúdentar. Mjög skemmtilegt að tala við þau og þau áhugasöm. Sögðum líka frá nýju verkunum tveimur sem verða frumflutt á laugardaginn.

Hallveig og Camerarctica á risaskjá í fyrirlestrasalnum:

Annað nýja verkið heitir Hraun og auðvitað þurfti ég að sýna þeim mynd frá Fagradalsfjalli. Tók þessa mynd reyndar þegar flest voru farin.

Uppeftir, komum við hjá liðinu sem var að prenta prógrammið og Jo þarf enn að gera breytingar, svo hún skutlaði mér heim í hús og rauk svo uppeftir til að gera lokabreytingarnar.

Hallveig var ekki mætt þegar ég kom en ég heyrði í henni svo ég var hin rólegasta. Dauðlangaði að heyra í mínu fólki en klukkan var víst fimm um morgun heima. Ekki vit í að ná í neinn og ekki færi ég nú að ræsa gengið.

Nýi bíllinn var ógurlega fínn, glæný tojóta hæbrid og eitthvað annað að keyra! Ég rúntaði á æfinguna með viðkomu í vínbúð sem við vissum um, keyptum freyðivín til að skála eftir tónleikana á laugardaginn. Cloudy Bay freyðara, erum frekar spenntar að smakka, höldum báðar upp á Cloudy Bay hvítvín, hún reyndar Sauv blanc en ég Chardonnay. En þetta ætti að verða eitthvað!

Æfingin tókst fínt, þrátt fyrir að það örlaði fyrir þreytu hjá okkur báðum, Hallveig eftir að hafa keyrt fram og til baka til Sydney og villst í langa langa stokkinum þar sem gúgl maps virkaði ekki og ég eftir að hafa haldið tvo mismunandi fyrirlestra í tveimur skólum. Tekur á!

Ég stjórnaði svo nýju verkunum tveimur. Ætla að athuga hvort ég geti fengið einhvern til að rúlla þeim inn á vídeó þó ekki væri nema síma á tónleikunum, helst báðum því þau eru með mismunandi besetningu, barokkhljóðfærahópurinn kemur ekki með okkur til Canberra.

Heim. Bjór og franskar og restin af pad tæinu síðan í gær, ætli það séu svona stórir skammtar alls staðar á tælenskum veitingahúsum? Dugar okkur Jóni Lárusi að kaupa einn skammt frá Krúa og hvað þá Thai Koon uppi í Mjódd.

Ástralíutúr H&H dagur 6

Steinsvaf til ríflega níu, hafði ekki einu sinni dottið í hug að setja klukkuna því ég vakna alltaf klukkan sjö, meira að segja hér. Ótrúlegur lúxus nema nú þurfti ég auðvitað að rjúka á fætur, því Jo ætlaði að koma hingað um hálftíu og við vorum búnar að lofa online viðtali klukkan tíu. Allt gekk þetta nú, kaffi og viðtal og þá loksins gat ég fengið mér eitthvað að borða.

Ákváðum að taka því með ró fram eftir degi, seinnipartinn væri kynning í bókabúð og svo æfing um kvöldið. Fínt að slaka á í húsinu bara, nógur tími til að fara að þeytast um og skoða eitthvað. Veðrið, sól og 27° hiti og garðurinn svona:

Náðum báðar smá sól á pallinum og alltaf jafn sérkennilegt að sólin er að fara í öfuga átt við það sem man reiknar með. Sólarvörn og hattur tékk, þessi sól er þokkalega sterk og ekki var í boði að brenna eða fá sólsting.

Jo sótti okkur svo klukkan kortér fyrir fjögur til að fara í kynningu í local bókabúð. Þangað kom ekki margt fólk en afskaplega góðmennt og mikið spjallað um allskonar, bæði auðvitað kynningin og svo almennt hvernig hlutum væri háttað í tónlistarlífi landanna tveggja. Mjög gaman, afskaplega áhugasamur hópur.

Þessar auglýsingar og kynning voru í lókal blaði dagsins:

Eftir spjallið fór Jo heim að sækja nóturnar sínar og við Hallveig fórum í einhverja rándýra matarbúð á meðan, ógurlega falleg ávaxta- og grænmetisborð, fullt af lúxusostum og ég veit ekki hvað og hvað. Tókst að kaupa mat fyrir marga marga þúsundkalla og við sem ætluðum eiginlega bara að kaupa til að geta eldað pasta puttanesca, neyðarmáltíð ítalska heimilisins því það er alltaf allt til í það, á hverju heimili.

Vorum að skoða hvort við gætum farið að kaupa smá bjór og svo sem eina vínflösku handa okkur (Ástralir nefnilega selja ekki áfengi í matvörubúðum frekar en Íslendingar) en vildum ekki stinga báðar af áður en Jo kæmi aftur, nema hvað ganga upp að okkur tvær konur, ein ung og ein ca á mínum aldri og sú eldri: Hei! Ég þekki ykkur! Ég bara, ha? Þá reyndist þetta vera Julie Cooney sem verður stjórnandi á tónleikunum og dóttir hennar, sem spilar á óbó í uppsetningunni. Eruð þið að djóka með tilviljun? Hún þekkti okkur bara af myndum sem Jo hafði sent. Indælasta lið.

Hallveig náði í vínbúðina (fjúkk segi ég nú á skrifandi stundu), ég hinkraði eftir Jo, svo var komið að æfingunni.

Þessi líka fíni og áhugasami strengjakvartett plús fyrrnefndur óbóleikari og ungur klarinettleikari. Þau voru búin að undirbúa sig vel og það er ótrúlega gott í þessu stykki að vera með stjórnanda, það var ekki slíkum til að dreifa þegar Hallveig og Camerarctica frumfluttu verkið fyrir tveimur árum. Nefnilega ekki alveg sjálfgefnar innkomur og slíkt.

Tveimur og hálfum tíma síðar (pásulaust), einbeiting fokin út um gluggann en gegn um verkið komumst við nú samt. Önnur á morgun. Hallveig var búin að spotta tælenskt veitingahús skammt frá airbnb húsinu okkar, við þangað og vorum þar um kortér fyrir. Þá var búið að loka, eða var allavega verið að loka. Hallveig náði að sjarmera út úr þeim að búa til skammta af pad thai handa okkur til að taka með okkur heim í íbúð. Splæsti slíkum á Jo líka.

Heim í hús. Matur. Bjór. Mjög langur dagur í vændum.

Ástralíutúr H&H dagur fimm. Blue Mountains

Þá hefst nú hin eiginlega vinnuferð!

Höfðum tekið svefntöflur og ég vaknaði klukkan sjö eins og ég geri bara eiginlega alltaf, nánast algerlega laus við flugþreytu og tímarugling. Hallveig vaknaði við klukkuna klukkan níu, enn hressari.

Þokkalegasti morgunmatur, tékkað út af hótelinu klukkan ellefu (þúst hvaða rugl er það annars? að fólk geti ekki fengið herbergin fyrr en klukkan þrjú síðdegis, þrátt fyrir að útskráning sé klukkan ellefu! Ekki það, gerði svo sem ekki til).

Fórum yfir götuna á Harry’s Coffee and Gelato og fengum okkur kaffi og vatn og biðum þar eftir Jo, tengiliðnum okkar og framkvæmdastjóra alls heila klabbsins. Hún kom um tólfleytið og við buðum henni upp á samloku og te og spjölluðum aðeins um framhaldið. Æfing stóð til klukkan eitt, ekki langt frá hótelinu (samt nógu langt til að það hefði ekki verið vit að labba). Hótelgaurarnir voru góða stund að finna töskurnar okkar sem við höfðum geymt meðan við biðum en þær trilluðu nú út á endanum samt.

Míns á ný risastór sólgleraugu! Veðrið var eins gott og það bara getur orðið, hafði farið niður fyrir 30 gráðurnar ofan í sirka 26-28° og sól.

Frábær hópur sem við hittum á æfingunni, þegar við loksins fundum bílastæði (sko ekki einfalt í Sydney). Ein úr hópnum, fiðluleikari og söngvari var með glænýja ógurlega sæta krílið sitt með sér Hér eru þær, Susie (söngvari) Julie (kríli) og svo Tommie teorbuleikari í bakgrunni.

og hér Cathy varagömbuleikari, Hallveig og Jenny sem átti að spila á gömbu en handarbrotnaði í síðasta mánuði og getur ekki spilað. Glatað en Cathy líka mjög fín.

og síðast en ekki síst, hún Jo sem heldur utan um alla þræðina og það er sko henni að þakka að þetta er allt að gerast!

Svo var farið að sækja bílaleigubílinn. Hvorug okkar Hallveigar hefur keyrt í vinstri umferð áður, Hallveig bauðst til að byrja. Jo skutlaði okkur á leiguna, þar var tekinn voðalega krúttlegur skærgulur Peugeot og svo keyrði hún á undan okkur uppeftir sem var ágætt. Hallveig sko massaði vinstrihandaraksturinn.

Húsið alveg voðalega fínt, risastórt alveg með tveimur svefnálmum og þremur svefnherbergjum. Þessi dásemd í garðinum, fiskar og allt.

Skotist að kaupa eitthvað að drekka og (frekar óspennandi) Aussie Cheesesteak. Þreyta. Hvíld. Sofa.

Ástralíutúr H&H dagur 4. Sydney

Jæja. Þá var það sjálf Sydney!

Flugið gekk fínt, pínu þröngt en slapp til. Fjögur sæti í miðjuröð, við vorum í tveim til vinstri og svo einn gaur í því ysta til hægri. Ágætt að geta breitt smá úr okkur, bæði með dótið okkar og svo að lyfta armhvílunum og geta fært okkur örlítið til.

Þurftum að fylla samviskusamlega út bleðil með upplýsingum um okkur og hvern dauðann við værum annars að vilja til Ástralíu. Mikið er þægilegt í Evrópusamvinnu að þurfa ekki að vera með svona persónunjósnir milli landa!

Lent á svæðinu, við gátum ekki notað sjálfvirkan skanna á leið í gegn um útlendingaeftirlit heldur þurftum í langa röð. Ég komst svo beint í gegn en Hallveig lenti í einhverju úrtaki og var kippt til hliðar þegar hún var búin að sýna miðann sinn og passann. Rýnt mikið í myndina af henni í passanum en loks hleypt inn. Höfum á tilfinningunni að það geti verið vegna upplýsinga um Kínaferð sem kom fram í passanum, en annars höfum við ekki græna glóru – þetta er ágætis mynd af henni!

Upp á hótel, þokkalega staðsett, vældum okkur inn í að fá að komast inn í herbergið snemma, vorum mættar um níuleytið en áttum ekki herbergið fyrr en frá klukkan þrjú! Ég VEIT EKKI hvernig við hefðum eiginlega verið ef við hefðum þurft að redda okkur ósofnar í alla þessa klukkutíma! (Hallveig var búin að bilja um early check in þegar hótelið var pantað og ítreka síðan en hafði ekki fengið nein svör nema að það færi eftir hvort eitthvað væri laust). Það var ekki fyrr en hún sagði að við myndum þá kaupa okkur auka dag til að geta komist inn að gaurarnir tveir létu sig og neinei það þyrfti nú ekkert!)

Netið á hótelinu vægast sagt slappt en ég náði samt að lokum að láta Jo vita að við værum lentar. Svo steinsváfum við til hádegis og veitti ekki af!

En nú áttum við semsagt heilan dag (mínus morgun) í Sydney og hann skyldi notast í topp. Liðið í hótellobbíinu benti okkur á að fara aðeins í norðurátt og þar væri gata með slatta af ágætis veitingastöðum. Við þangað. Þeir reyndust nú ekki sérlega spennandi en við settumst inn á ítalskan stað sem leit þokkalega út og fengum okkur einhverja steikarsamloku (ég) og kjúklingaborgara (Hallveig). Það var vægast sagt fáfengilegt en vorum allavega ekki svangar á eftir. Upp á hótel aftur með viðkomu í búð, smá vatn og hindber duttu í körfuna.

Svo niður í bæ. Það var hins vegar tóm snilld. Gengum gegn um grasagarðinn sem er stórkostlegur, við Jón Lárus vorum búin að taka hann út þegar við fórum 2010 en það var í maí og hann var talsvert blómlegri núna. Sáum samt engar leðurblökur eins og síðast.

Þessir kisar urðu á vegi okkar í einu fjölmargra vatns/bjórstoppa:

(öll dýr heita sko kisar heima hjá Hallveigu!)

Komum síðan vestan megin að Óperuhúsinu sem var að sjálfsögðu skyldustopp og reyndar eina sem Hallveig ætlaði alls ekki að missa af. Svo fínt! Kíktum inn, engar sýningar í gangi fyrr en í júní, sumarfrí í óperunni svo við fórum ekki nema rétt inn í anddyri. Óperubarinn var samt opinn svo þar mátti fá sér einn drykk í hitanum. Fundum ekki sæti nema í sólinni svo blævængirnir dýru síðan daginn áður komu í góðar þarfir, bæði til að kæla og til að leggja yfir útsetta staði í brennandi sólinni. Við vorum reyndar sem betur fer með öfluga sólarvörn keypta heima á Íslandi og duglegar að nýta okkur hana. Annars værum við bókað þokkalega sólbrenndar eftir daginn!

Brúin fína í baksýn.

Ég stakk upp á því að við færum í smá siglingu á höfninni, við Jón höfðum gert slíkt 2010 og Hallveig tók því fagnandi. Fætur voru líka orðnir svolítið aumir í sandölunum sem ekki höfðu fengið neina notkun, hvað þá í svona hita, síðan síðasta sumar svo það var ansi hreint gott að setjast og sigla. Tókum bara strætóbát sem fór klukkutíma hring frekar en túristadittó.

Tvö af mínum uppáhalds kennileitum:

Enduðum á því að vandræðast í góða stund með hvað við ættum að fá okkur að borða, gúgli frændi vísaði á ítalskan stað í grenndinni, við þangað, ekkert laust uppi en mættum fara niður á barinn og hinkra í hálftíma eða svo eftir lausu borði. Á barnum var síðan bæði gríðarleg stemning og fínasta úrval af barsnakki svo við ákváðum að fá okkur þar bara arancini, burrata, brauðskál og vöfflufranskar, já og freyðivín sérstaklega bruggað fyrir veitingahúsið (eða allavega sérstaklega bottled fyrir þau). Þetta reyndist algjört himnaríki. Tókst semsagt að borða á (ca) versta og (örugglega) besta ítalska staðnum í Sydney! Hefði viljað taka mynd af smáréttunum okkar en það var svo dimmt niðri að það eiginlega hefði ekki gert sig.

Leigubíll upp á hótel, aumir fætur munið þið – settumst í bólið og horfðum á þátt af Stormi sunnudagsins og grétum aðeins með úttauguðu hetjunum okkar. Svefntafla og steinsofnuðum báðar á punktinum! Snilldardagur!

Ástralíutúr H&H dagur 3

Ekki get ég nú sagt að þessi dagur hafi byrjað gæfulega. Ég nefnilega, eftir að hafa sofnað í ágætum tíma undir miðnætti, vaknaði klukkan eitt og í skrifandi stundu klukkan hálffjögur ekki sofnuð enn. Líst á mig á morgun!

Nokkrum klukkustundum síðar. Þónokkrum. Snilldar dagur í Singapore þrátt fyrir þreytu og á stundum hellirigningu. Rusluðum okkur á fætur um hálftíu fyrir ágætis hótelmorgunmat, úttékk af hóteli og fengum að geyma töskur þar sem flugið var ekki fyrr en um kvöldið.

Það má ekki reykja á hótelinu en það er annað sem má ekki heldur í herbergjunum:

Kínabær áfram, mjög hlýtt en ekki sól, ótrúlega skemmtilegar göngugötur og allt öðruvísi en að kvöldinu. Lét gabba mig til að kaupa blævængi á 4$ stykkið og svo sáum við auðvitað nokkra staði þar sem svipaðir fengust fyrir einn og fimmtíu. Heimsku túristar!

Svona eiga skrifstofubyggingar að vera:

Hádegismatur og bjór með klökum – við vorum nærri búnar að brenna okkur á að kaupa tvo Tiger sem reyndust síðan vera 66 cl, rétt svo föttuðum og fengum einn og tvö glös. Það var klaki í bjórnum!

Einn ískaffi á röltinu, svo kom hellidemba sem varði í góða stund, sem betur fer er þak yfir flestum göngugötunum svo það slapp til. Leituðum í góða stund að leigubíl en fundum engan svo við fórum bara til baka á hótelið og báðum lobbíið panta fyrir okkur bíl. Leiðin lá í Gardens by the Bay sem Carlos hafði sagt að við mættum ekki missa af.

Það reyndist alveg hárrétt. Magnaðir garðar. Ég gæti þurft að draga Jón Lárus með mér þangað einhvern tímann, ef við eigum erindi á þessar lengdar- og breiddargráður. Ekki nokkur leið að velja myndir en hér koma samt nokkrar:

Leigubíll á hótelið til að sækja töskurnar og svo beint út á flugvöll. Splæstum okkur í lounge, sem er gersamlega dásamlegt og svo mikið þess virði, samt er Changi flugvöllur ekkert brjálaður úr stressi neitt, hef vitað verra. En það er samt bara svo ótrúlega gott að geta bara sest í algjöru ró og næði, sérstaklega þegar um svona langt ferðalag er að ræða.

Svo var bara lagt upp í lokaflugið á leiðinni austurúr. Quantas vél, okkur tókst að koma okkur ljómandi vel fyrir – í röðinni fyrir aftan þá sem við áttum að vera og eitthvað stelpugrey: hurðuuuu? En gekk samt fínt inn í nóttina.

Ástralíutúr H&H dagur 2. Singapore

Hér kemur strax næsti dagur því ekki sendi ég út frá langa fluginu! (né nennti að skrifa á meðan það var). Vöknuðum semsagt eftir steinsvefn í allavega 6 klukkustundir (takk svefntöflur) þrátt fyrir karldreifinn. Hann skammaðist svo til að flytja sig aftur til konunnar síðasta ca einn og hálfan tíma og ég var fljót að flytja mig yfir í sæti I. Nýju noise canceling heyrnartólin sem Jón gaf mér í fyrirfram afmælisgjöf voru alveg að gera sig!

Þetta fannst mér merkilegt! Hægt að spjalla við aðra farþega í vélinni:

Þrátt fyrir hálftíma töf á Heathrow lentum við á undan áætlun. Flugstöðin í Singapore er snyrtileg og fín, við þurftum að skrá upplýsingar um okkur til að komast inn, fórum svo í röð en þá kom flugvallarstarfsmaður og dró alla Evrópubúana úr röðinni og í aðra talsvert styttri þar sem var sjálfvirkni. Hallveig þurfti reyndar að fara til starfsmanns, hafði víst misritað eina tölu í upplýsingagjöfinni en það tók bara smástund. Töskurnar okkar rúlluðu svo báðar samviskusamlega á svæðið og við tókum leigubíl á hótelið, lúxusdýr sem við erum!

Hótel mjög huggulegt og fínt og gosbrunnur fyrir utan. Get ekki póstað vídeóinu með minn aðgang en það er allavega á insta hjá mér ef einhver vill sjá.

Út skyldum við fara eftir smá hvíld á herberginu og einn bjór eða svo. Carlos tengdasonur hefur verið í Singapore og sagði okkur að við yrðum að prófa hawker centres, mathallir sem þau eru fræg fyrir hér. Fórum í eitt það flottasta, sögufrægt hús sem leigubílstjórinn á leiðinni á hótelið sagði að við mættum alls ekki missa af!

Röltum þangað, ekki mjög spennandi leið en húsið var flott og allir þessir götubitastaðr! vó!

Hokkien fyrir mig, lengi langað að prófa, Hallveig fékk önd og meira að segja tófúið var gott! Og þá er mikið sagt!

Leiðin til baka var talsvert skemmtilegr! Fórum inn í China Town. Einn drykkur og rölt í svakalegri stemningu og svo bara upp á hótel.

Og hér er ég nú og held vöku fyrir Hallveigu. Best að hætta…

Ástralíutúr H&H dagur 1

Þá hófst ferðin mikla og langþráða! Við Hallveig systir á leið til Ástralíu að flytja kammeróperuna Traversing the Void, tónlist mína við texta Josephine Truman sem býr á skógareldasvæði í Blue Mountains fyrir austan Sydney.

Finnur skutlaði út á völl, vélin ekki fyrr en klukkan hálfeitt og það var afskaplega næs bara, engin traffík. Obligatoríska mímósan og laxabrauðsneiðin á Nord. Kostar smá en er líka ansi vel útilátin.

Fyrra flug dagsins og það fyrsta af sex í ferðinni var nú bara til London. British Airways stóðu sína plikt með ágætum. Sniðugt hvernig þau hlaða í vélar, kallað inn í hollum eftir hvar fólk sat í vélinni, fyrst liðið í bissniss class og svo eftir hópum, öftustu fyrst. Við vorum í síðasta hópnum, sátum i fínum sætum í 9. röð. Freistuðumst næstum því að setjast í tóma öftustu röð á bisniss en lögðum ekki í það, allavega ég.

Flugið ekki sérlega í frásögur færandi. Flugstöð 5 á Heathrow ný og fín, kíktum í Boots og fengum okkur síðan að borða á Vagabond. Reitaði ekki mynd. Ætluðum í lounge en þá var löng biðröð inn í það og við hefðum ekki getað verið nema ca hálftíma hvort sem er. Svo fengum okkur sitthvort vínglasið á bar og stímdum síðan út að hliði 10 fyrir langa flugið, tæpir 13 tímar.

Þokkalega risastór vél, sjáið þennan hreyfil!

samt ekki eins stór og vélin við hliðina sem var tveggja hæða.

Ekki alveg stútfull vél, við Hallveig náðum heilli sætaröð þar sem við áttum að sitja í sætum J og K en I var laust. Það var ekki SVO slæmt!

Sá Adam var reyndar ekki lengi í Paradís því einhver leiðinda gaur kvartaði, ca klukkutíma eftir flugtak um að inflight entertainment kerfið hans virkaði ekki og var fluttur í sæti I! og manspreadaði þar eins og enginn væri morgundagurinn. Við vorum alveg mökk súrar yfir því, því auðvitað steinsofnaði gaurinn nánast strax yfir myndinni sinni og svo hafði konan hans flutt sig í ónýta sætið hans til að hafa betra pláss!!! Urrr!

Tókum svo síðan svefntöflu og steinsofnuðum. Meira á morgun!


bland í poka

teljari

  • 377.628 heimsóknir

dagatal

mars 2023
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa