Sarpur fyrir nóvember, 2012

Svíþjóð dagur 3

Laugardagur og aðal tónleikadagurinn. Sænskir verktakar virtust ekki byrja klukkan sjö um helgar, sæi það gerast hér (við hlið hótelsins var verið að gera upp næsta hús og þeir höfðu byrjað snemma morguninn áður).

Aftur morgunmatur klukkan níu með sama genginu og daginn áður. Notaði mér að senda sms til Péturs gegnum vodafone síðuna í stað þess að splæsa frá mér. Nógu dýr yrði símreikningurinn örugglega samt. Hvenær ætli komi annars að því að það verði ekki svona dýrt að tala milli landa?

Chillað á hótelinu fram að hádegi og þá stímt af stað á tónleikana hans Halla sem fram fóru í alveg ógurlega flottu raftónlistarrými sem heitir Audiorama og er úti á einni fjölmargra eyja í miðborg Stokkhólms. Leigubílstjórinn rataði ekki á tónleikastaðinn en það vildi til að ég gerði það. Tónleikarnir voru mjög fínir, flottustu sem ég hafði séð þar til þá, á hátíðinni. Bara tvö verk og bæði þrælflott.

Hafði mælt mér mót við sænska vinkonu, Mariu, í Moderna Museet eftir þessa tónleika, fengum okkur mat á kaffiteríu safnsins, coq au vin, mæli með því. Hún ætlaði síðan með mér á næstu tónleika, klukkutími í þá þannig að við röltum okkur yfir göngubrú út á næstu eyju við.

Veðrið var frábært eins og hér sést:

haust í Stokkhólmi

Síðan komu kórtónleikar. Nordic Voices. Ótrúlegur hópur, bókstaflega ótrúlegur. Verk skrifað fyrir þau af Lasse Thoresen bráðfyndið og skemmtilegt en ég hélt ég yrði ekki eldri þegar þau sungu aukalag, ókynnt en þau léku sér þvílíkt að yfirtónum að ég hef aldrei heyrt annað eins. Ef þið sjáið auglýstan konsert með Nordic Voices einhvers staðar nærri ykkur er skyldumæting. Takk.

Kvaddi Mariu, niður á Moderna Dans Teatret þar sem var danssýning hjá íslenskum danshöfundi, ég var ekkert þannig hrifin, öfugt við Pétur sem var algerlega gagntekinn af þessum dansi. Fokvont rauðvín í boði og allt of heitt, vont rauðvín þolir ekki íslenskan herbergishita.

Tebolli á kaffihúsinu og svo síðustu tónleikarnir, kammerkór konunglega tónlistarháskólans. Verk eftir meðal annars Matthew Whittall, Kanadamann sem hefur verið búsettur í Finnlandi um árabil. Frábært stykki.

Veit ekki hvort það er bara kórnördinn í mér eða hvort þessir kórtónleikar báðir voru toppurinn á hátíðinni fyrir hinum líka. Eric Ericssonshallen er líka frábært tónleikahús, aflögð kirkja á eyjunni, nánast hringlaga og mjög skemmtilegur hljómburður.

 

Rukum út þegar byrjað var að klappa, höfðum pantað mat á Le Bar Rouge, veitingahúsi/bar í Gamla Stan. Gengum þangað, tæplega hálftíma gangur frá Skeppsholmen þar sem við vorum. Já gleymdi því í síðustu færslu, tók mig einn og hálfan óratíma að finna stað og panta mat daginn áður en tókst að lokum.

Þurftum að bíða góða stund eftir borðinu og það var alveg voðalegur hávaði þarna inni (enda bar) en maturinn var fínn.

Pétur var ekki að kýla Halla þarna:

Smástund kíktum við í lokapartí hátíðarinnar og röltum síðan upp á hótel, himnaríki að komast úr skónum og í bólið.

Svíþjóð dagur 2

Ég skildi eiginlega ekki prógrammið á hátíðinni, fyrstu tónleikar föstudagsins voru ekki fyrr en klukkan 7 um kvöldið þannig að ég, sem ekki hafði neinar fundaskyldur var verkefnalaus nánast allan daginn. Fór niður í morgunmat ásamt formanni og framkvæmdastjóra en skreið síðan aftur upp á herbergi, hengdi Do not disturb miðann utan á hurðina mína, steinsofnaði og svaf til rúmlega tólf (ókei, tíu að minni líkamsklukku). Stundum þarf maður bara á svoleiðis að halda.

Eftir hádegi ranglaði ég um göngugötuna sem hótelið stóð við, inn í åhléns stórmarkað og keypti tvennar sokkabuxur og já, naglaklippur fyrir táneglur (sjá upphaf síðasta pósts).

Aðrar sokkabuxurnar reyndust síðan með gati (urrrr), nennti samt ekki að fara og röfla heldur náði í neyðarsaumasettið inni á baði á herberginu og rimpaði því saman.

Síðbúinn hádegismatur á standi, kebabtallrik (þýðir tallrik annars diskur á sænsku?), borðað úti á torgi með vettlinga. Ekki séns að ég gæti klárað. Þokkalegasti matur en ekkert í líkingu við æðislega kebabið hjá Tyrkjanum okkar úti í París samt.

kebabtallrik

Til baka á hótelið enn og aftur. Hékk á netinu og las til sirka hálfsex þegar ég drattaðist aftur af stað niður í bæ. Hafði séð snilldargjöf fyrir litla gutta, banananestisbox, keypti slíkt á heilar 15 krónur sænskar og fyllti síðan með nammi (já, veit…) (gutti er síðan búinn að nota nestisboxið stanslaust síðan ég kom heim. Nammilaust, svona oftast allavega).

Klukkutími í tónleika, hinir gaurarnir uppi á hóteli, endaði aftur á fjárans McD eftir að hafa ráfað um stræti og torg leitandi að veitingastöðum sem ég þyrði að vera viss um að tækju ekki nema hálftíma í að leyfa mér að panta, koma með mat og ég að borða. Ekki um auðugan garð að gresja, eins og mig annars hefði langað í hitt og þetta sem ég sá á útstilltum matseðlum.

Tónleikar Hafdísar voru síðan þrælflottir, sérstaklega hennar verk. Fínn flutningur líka. Fór á eina aðra, lettnesk þjóðlagagrúppa, skrautlegir búningar en frekar þreytandi músík.

Aftur á hótel, las til hálftvö áður en ég hrundi út af.

Svíþjóð dagur 1

úff dagur! Illt í tánöglunum. Ekki gott að keyra sig í nýlegum skóm þó þeir séu frá Echo. Hélt að ég hefði verið búin að ganga þá alveg til en það var víst svolítið frá því.

 

Ég var semsagt að fara á Norræna tónlistardaga í Stokkhólmi. Hafði verið í prógrammnefndinni og þá fær maður að fara og fylgjast með hátíðinni. Þrjú íslensk tónskáld áttu verk á hátíðinni, Hafdís Bjarnadóttir, Haraldur V. Sveinbjörnsson og Áki Ásgeirsson. Áka verk var reyndar flutt á miðvikudeginum en ríflega helmingur hópsins kom ekki fyrr en á fimmtudegi þannig að við misstum af hans verki og hinum á fyrsta kvöldinu.

 

Jæja, dagurinn byrjaði samt vel lengi fram an af. Vakna klukkan fimmsnemma eða ríflega svo, Kjartan sótti okkur Pétur (framkvæmdastjóra Myrkra músíkdaga og Norrænna tónlistardaga á Íslandi) og Halla. Hafdís og Palli, maðurinn hennar höfðu farið tveimur dögum fyrr og Áki 4-5 dögum.

 

Innritun og smá verslað, ekki mikið samt. Keypti samt tvær bækur. Hafði ekki þorað annað en að vera í lopapeysunni minni þar sem ekki er á vísan að róa með hitastig á þessum tíma. Hún kom sér vel í flugvélinni en var síðan ekki notuð meira alla ferðina nema þá sem rauðvínsflöskuböffer.

 

Kjartan og Pétur voru síðan að flýta sér einhver ósköp á fundi og ruku beint úr vélinni inn í bæ. Höfðu ekki tékkað inn töskur þannig að þeir voru snöggir út í lest. Við Halli vorum hins vegar ekki eins tímabundin, sóttum töskur og tókum síðan lest niður á aðalbrautarstöð. Þar skildi leiðir, ég tók leigubíl á hótelið, tók einn og hálfan óratíma, örugglega álíka lengi og það hefði tekið fyrir mig að labba, hellings umferð og bíllinn mjakaðist varla áfram.

Ekkert var um að vera á hátíðinni fyrr en um kvöldið þannig að ég náði í miðana sem höfðu verið teknir frá fyrir mig. Orðin svöng og ákvað að brjóta odd af oflæti mínu og fara á MacD og síðan að fara bara í þær útréttingar sem ég ætlaði mér í ferðinni.

 

Inni í þeim var ekki ein einasta H&M ferð. Hin í den islandske delegation sluppu ekki eins vel.

 

Ég fór hins vegar í ríkið með óskalista frá bóndanum. Fékk allt sem á listanum var, þetta fínasta Systembolag á Regeringsgatan. Rambaði síðan á hönnunarbúð og fékk þar jólagjafir handa dætrunum. Frágengið (nú verða þær væntanlega viðþolslausar af forvitni)

 

Aftur á hótelið í góða stund, svo fórum við Pétur til að finna staðinn þar sem kvöldtónleikarnir áttu að vera, Pétur hafði ekki náð í miðana sína þar sem afgreiðslan lokaði snemma, smá klúður en kom reyndar ekki að sök.

Tónleikar/uppákomur kvöldsins voru allar rétt hjá að mestu leyti aflögðu samgöngumannvirki sem heitir Slussen. Ég hafði farið þar og skoðað þegar við vorum að ákveða verkin á hátíðina en tókst samt ekki að ramba á venjúið þrátt fyrir að við leituðum og leituðum. Fyrstu tónleikarnir voru síðan úti, lúðrasveitaverk með 3-4 sveitum hér og þar um svæðið, samanstóð aðallega af nokkrum nótum sem kölluðust á, upp og niður, ég saknaði þess að nýta ekki miðlana betur. Hittum á hin ásamt sænska formanninum sem rataði auðvitað á venjúið. Þar voru þrjú frekar flott vídjóverk ásamt lifandi flytjendum. Slepptum síðustu tónleikunum enda byrjuðu þeir ekki fyrr en hálftólf um kvöldið og dagurinn var orðinn ári langur. Leigubíll upp á hótel og steinsofnaði.

 

Smá brot úr einu verkanna í Slussen klúbbnum:


bland í poka

teljari

  • 377.779 heimsóknir

dagatal

nóvember 2012
S M F V F F S
 123
45678910
11121314151617
18192021222324
252627282930  

sagan endalausa