Sarpur fyrir desember, 2010

morgunstund

nei ekkert með gull, en mikið er eitthvað gott að vakna fyrst og fá rólegheitastund í 1-2 tíma að morgni áður en þau hin vakna. Bara tölvan og tebolli og ristuð brauðsneið, einhver róleg músík (ekki jóladiskur, orðið ágætt af þeim í bili).

Eldri unglingur reyndar kíkti hér við í nokkrar mínútur, gisti hjá kærastanum og farin í vinnuna, sú yngri gisti líka, með kammerklúbbsvinum sínum, frábær hópur þar, nokkuð viss um að þau sofa til hádegis. Karlpeningurinn hins vegar steinsofandi hér niðri.

Væmnu færslu lokið. (best að finna væmna mynd til að bæta í).

nýja serían

Breyttum til í gær og ákváðum þegar við skreyttum tréð að appelsínugula serían sem við höfum notað síðastliðin ár skyldi fá pásu og settum eina af okkar fjölmörgu marglitu gluggaseríum á tréð. Ekki í frásögur færandi svosem. Nema hvað að ég hafði í fyrra keypt 120 ljósa seríu til að nota í annan gluggann framan á húsinu sem ljósagardínu.

Skellti henni í gluggann, tveimur eldri með 50 ljósum hvorri hinum megin. Sams konar umbúðir, sams konar perur. Ekki sams konar útkoma:

Já, semsagt 120 perurnar, nýja serían, er hægra megin, 100 perur í tvennu lagi til vinstri.

Væntanlega er þetta eitthvað straummál, að hver pera lýsir ekki jafnskært þegar straumurinn þarf að ná meira en tvöfalt lengra á einni línu.

Allavega er ég búin að setja áminningu í dagatalið mitt fyrir næstu Þorláksmessu: Muna að setja löngu seríuna á tréð! og endurtakist árlega.

Gleðileg jól

nær og fjær, elskulegu lesendur

jólajóla

búin að öllu. Feis!

tja eða svona nánast öllu sem ég ætla að gera.

Mun ekki þvo veggi né loft. Þó væntanlega myndi vera þörf á því, sérstaklega inni í skrifstofu, rykugir veggir bak við tölvuna.

Mun heldur ekki „taka skápana“ Gleymið því. Þreif samt gaseldavélina áðan, gallinn við gasið eru þessar djúpu hellur eða hvað maður kallar þær undir járngrindunum.

Hér eru enn bunkar á skrifborðinu mínu, ég er reyndar búin að átta mig á því að ég mun væntanlega aldrei losna við einn af þeim, alltaf dót í vinnslu í hlaða. Verður að hafa það.

En pakkar eru tilbúnir og jólakort send sveimérþá, búin að syngja á nokkrum jólatónleikum og hlusta á margfalt fleiri, þó ég hefði viljað fara meira. Ein eða tvær jólamessur munu væntanlega detta inn líka svona úr því maður er nú kominn í kór sem tengist kirkju.

Búin að hengja upp ljósagardínurnar og familían meira að segja búin að setja upp og skreyta jólatréð. Bóndinn langt kominn með að þvo gólfin.

Jamm sé fram á rólegasta aðfangadag í manna minnum. Sem er ekki slæmt.


hluti pakkaflóðsins.

jólakortin, tónleikar og smá röfl

frá – eða nánast. Tvö ár í röð sendum við engin og það þynnti svolítið út í haugnum sem er bara reyndar ágætt. Gott að skerpa á áherslunum og senda svo bara frekar kort á netinu á breiðari hóp. Keypti samt aaaðeins of fá kort í ár en væntanlega fullmörg frímerki reyndar.

Styttist líka í jólatónleikaflóðinu, fór á tónleika í fyrrakvöld, söng eina í gærkvöldi, fór á eina til í kvöld og stefni á að fara á styrktartónleika í Neskirkju á miðvikudagskvöldið – kyrrðartónleikarnir hjá Hallveigu og Steina eru orðnir alveg ómissandi hluti aðventunnar.

Stráksi söng áðan í upptöku á jólamessu biskups til sýningar á aðfangadagskvöld. Hann var ekkert sérlega glaður með það reyndar, drengjakórinn söng í messu í gær líka og það verður að viðurkennast að það er ekki það alskemmtilegasta sem hann gerir. Ég er pínu hrædd um að hann sé mögulega að gefast upp á kórnum og það er eingöngu út af öllum þessum messum sem þeir þurfa að syngja. Drengjakórinn sér um eina í mánuði og það fer umtalsverður tími á æfingum í að undirbúa þær (allavega samkvæmt honum).

Ef kirkjan ætlar að laða til sín fólk er ekki besta leiðin að láta litla krakka syngja við messur með prédikun af fullri lengd og altarisgöngu. Reyndar græt ég ekki aðferðirnar per se en mér finnst synd að drengir fælist frá kórstarfinu út af þessu.

stolið

frá jonas.is – spurning hvort sé ekki slattans vit í þessu?

18.12.2010
Hópíþróttir brengla
Samkvæmt þjálfurum barna í hópíþróttum ber dómari leiks einn ábyrgð á, að fylgt sé reglum. Leikmenn sjálfir eru án ábyrgðar, siðlausir. Ef þeir hindra mark með broti, er það nauðsyn, sem brýtur lög. Sama er að segja um látalæti leikmanna. Þau eru nauðsynleg aðferð við að hafa áhrif á dómarann. Um allt land eru siðlausir þjálfarar að kenna börnum okkar, að þriðju aðilar eigi að sjá um allt siðferði. Það eru dómararnir. Leikmenn sjálfir mega hins vegar haga sér eins og hentugast er. Úr þessari þjálfun kom ábyrgðarlaust fólk á vinnumarkaðinn. Tók líka yfir bankana. Með afleiðingum, sem allir hafa séð.

enn af jólasöngvum

Alveg fannst mér ótrúlega magnað í gærkvöldi að hafa Táknmálskórinn með á söngvunum. Allt önnur upplifun og meiri en venjulega, þó mér þyki reyndar alltaf yndislegt að fara og hlusta. Bæði Langholts- og Gradualekórarnir voru í fantaformi, einsöngvarar fínir og svo þessar yndislegu hreyfingar bæði hjá einsöngvara og kór Táknmálskórsins.

Veit ekki hvort eru enn til miðar í kvöld en hvet ykkur til að athuga og fara ef svo er.

jólasöngvar

Langholtskórsins byrjaðir, Gradualekórinn tekur þátt að vanda, stelpurnar báðar þar með. Ég fer á tónleikana annað kvöld en hrikalega er ég fegin að Fífa er stoltur bílprófshafi og keyrir í kvöld og á sunnudaginn (jáannars ég er semsagt að syngja Jesu, meine Freude með glænýjum Kammerkór Dómkirkjunnar á sunnudagskvöldið) þannig að við þurfum ekki að vera í sækjum-og-sendum pakkanum nákvæmlega núna.

Sá pakki fer reyndar ört minnkandi, Fífa sér nánast alveg um sig sjálf (eða fær bílinn lánaðan gegn bensínkaupum með misreglulegu millibili), Freyja þarf eiginlega skutl þegar sellóið er með í för, annars er hún á eigin vegum og Finnur meira að segja fer á hlaupahjólinu bæði í karate inn í Brautarholt og hljómsveit í Sóltúnið nánast alltaf.

Var reyndar að tala við samkennara mína fyrr í ár, komst að því að þau smyrja enn nesti fyrir 17-19 ára unglinga sína. Sárhneykslaðist á því – stelpurnar sjá algerlega um sig sjálfar og tíáringurinn hefur borið ábyrgð á nestinu sínu frá í fyrrahaust.

lúxusinn

kannski ekki alveg eins og þarna hedóníski næstum því útrunni pakkinn um daginn en bóndinn fékk jólagjöf frá vinnunni í gær…

jútjúbið

leita nú að skemmtilegum klippum til að sýna krökkunum mínum í Hafnarfirði á nammideginum þeirra á eftir.

Jamm, við erum með nammidag í tónfræðinni líka, sem þýðir að í stað þess að enginn mæti í tímann síðustu vikuna mæta alltaf allir.

Í Suzuki spilum við tónfræðispil og krakkarnir læra alltaf helling á því, Suz krakkar eru öll til dæmis með áttundaheitin á tæru, það eru svo auðveld og algeng stig að fá. Hafnarfjarðarbekkirnir eru hins vegar flestir stærri þannig að það er ekki eins auðvelt að koma því við að spila. Eigum reyndar einn leik sem stórir bekkir geta spilað en það er bara vesen að starta honum, þarf að setja upp skjávarpa í stofunum og ég og skjávarpi og windows erum ekki góðir vinir.

Þannig að skemmtilegar og helst fræðandi þínrörklippur verða væntanlega málið í dag.

nýr julekalender

tja eða nýr? – sá sem við höfum horft samviskusamlega á síðustu ár fer kannski að verða pínulítið þreyttur. Hann er danskur og var fyrst sýndur 1991, seinni veturinn okkar í Danmörku. Þá gekk ég með frumburðinn og var örlítið byrjuð á sjónvarpsfælninni sem ég geng ennþá með. Horfði á einn þátt og fussaði og sveiaði, bóndinn hélt lengur út og þar sem við bjuggum bara í einu herbergi komst ég ekki hjá því að uppgötva að þetta var bara ansi hreint skemmtilegt, jafnvel þótt við horfðum á það í pínu oggulitlu gulu svarthvítu sjónvarpstæki sem leigusalar okkar höfðu lánað okkur.

Nú gæti ég fabúlerað um hvernig stendur á því að á meðgöngunni varð ég alveg húkkt á Lykkehjulet, nokkuð sem ég myndi ekki láta mig dreyma um að horfa á, menningarsnobbarinn ég! (tja, eða ekki)

Allavega kolféllum við fyrir The Julekalender og höfum horft á það síðan, fyrst á spólu sem við áttum, svo eyðilagði gamla vídjótækið hana, eignuðumst þetta svo á DVD fyrir nokkrum árum. Krakkarnir duttu í þetta líka.

En nú er semsagt kominn tími á eitthvað nýtt. Okkur var bent á jóladagatalið tveimur árum síðar, jámm glænýtt efni frá 1993!

Og við höfðum aldrei heyrt af því!

Því miður virðist ekki eiga að gefa þetta út í bili en þættirnir eru til á þérrörinu, reyndar í lélegri rippaðri vídeóútgáfu.

Hér er sá fyrsti:

meira umferðarhneyksl

Var að keyra Freyju í afmæli inn á Langholtsveg (hmm hef orðið ekki tölu á ferðunum inn í Vogahverfi í dag – og enn allavega ein eftir ef ekki tvær), á leið niður Frakkastíg mætum við bíl að keyra upp að Hverfisgötu.

Ef fólk man ekki hvernig liggur í götunum á þessu svæði, þá er Frakkastígurinn mjór, lagt báðum megin og einstefna niðurávið.

Ekki nokkur leið að mæta bílnum þannig að ég stoppaði á miðri götunni á meðan hann beygði austur Hverfisgötu. Hefði bíllinn verið neðar hefði ég örugglega keyrt niðurfyrir og látið hann bakka en um það var eiginlega ekki að ræða.

Ekki nóg með þetta, á leiðinni til baka heim fer ég venjubundna leið Sæbraut, beygi inn á Skúlagötu (bútinn sem mun halda áfram að heita Skúlagata svo það gleymist nú ekki), þar vestur að Klapparstíg og upp. Þá var verið að vinna í lóðinni þar sem brann fyrir rúmu ári, og lokað. Bílstjórinn á undan mér átti voða erfitt með að ákveða hvað hann ætti nú að gera úr því hann komst ekki upp götuna, stóð í óratíma á gatnamótunum (og þarna er líka þröngt þannig að ekki komst ég frekar framhjá), beygði svo austur Lindargötu eins og var nánast hið eina í stöðunni. Ég giska á að þetta hafi verið vandamál fyrri bílstjórans, hann (eða hún) hafi ekki komist upp Klapparstíg og laumast þar af leiðandi upp Frakkastíg í staðinn.

Ekki var þetta nú alveg búið enn, ég ákveð að fara ekki að dæmi þess fyrri heldur keyri niður Frakkastíginn og austur að Barónsstíg, þar upp og svo Grettisgötuna. Lendi á eftir bíl sem ég held örugglega að hafi ekki verið sá sami og fyrr. Komum að Frakkastíg og hann BEYGIR UPP GÖTUNA og síðasta sem ég sé af honum er rauð afturljós þar sem ég sit gapandi á gatnamótunum.

Stebbi lögga sagði í Útsvarsþætti gærkvöldsins að lögreglan í Reykjavík væri í átaki gegn ölvunarakstri, held þeir ættu að drífa sig í miðborgina.

(Liggur við að ég þurfi að búa til kort af svæðinu til að sýna aðstæður en ég nenni því eiginlega ómögulega)

kvartett

eitt stykki afhent. Svona strengja.

Þá er bara að halda áfram með pöntunina.

Never a dull moment…

fékk spes póst

í gær, einhverjir Ítalir sem hafa fundið upp á því að setja á stofn auglýsingasíðu fyrir íslenska ferðaþjónustu. Vilja að ég linki á þá sem er sjálfsagt mál, benda fólki á nokkrar bloggsíður, flestar á íslensku sem er frekar sérstakt. En þetta lítur nú bara vel út hjá þeim, sjá hér

eins og

ég er oftast nokk ánægð með vinnutímann minn þrátt fyrir að ég kenni tvo daga í viku ansi lengi fram eftir degi og svo kór- og hljómsveitaræfingar líka, þá hefur það stundum sína galla.

Til dæmis í dag þegar ég hefði svo gjarnan viljað koma upp í Þórshamar og fylgjast með Finni vinna sér inn fyrir næsta lit á belti í karate. En nei, kennsla.

Eftir rúma viku spilar svo Freyja sólósellópartinn í Jólakonserti Corellis og ég sé tæpast fram á að komast að hlusta á það heldur. Nema ef ég gef unglingunum mínum frjálsa mætingu í síðasta tímann fyrir jól, það hefur stundum virkað…

sunnudagur

að vera vakinn um níuleytið á sunnudagsmorgni af litlum tíu ára gutta sem er búinn að steikja french toast fyrir alla fjölskylduna og leggja á borð – er eitthvað mikið betra til?

Hjá sumum er desember ekkert minna pakkaður en aðrir mánuðir en hér á bæ er þetta að verða ansi þægilegt bara, komið jólafrí í áhugamannabandinu (já tónleikarnir í gær gengu bara mjög vel, takk), líka Hljómeyki, Listaháskólinn klárast í nýhafinni viku og 2 vikur eftir af hinum skólunum.

Spurning um að fara að kíkja á jólakort og -gjafir?

rauð ljós

nei, ekki hverfi hinna rauðu ljósa – ég verð því miður að segja að ég varð ekki sérlega hissa á því að keyrt hefði verið á mann sem gekk víst yfir annaðhvort Miklu- eða Kringlumýrarbraut á rauðu ljósi. Klárt að bílstjórar eiga að reyna að vara sig og vera vakandi og ef viðkomandi bílstjóri stakk af er náttúrlega engin afsökun fyrir því.

Það er bara orðið hroðalegt að sjá hvað bæði gangandi og akandi vegfarendur bera litla virðingu fyrir rauða litnum. Hér í miðbænum sjáum við iðulega fólk sem anar út á götuna á móti hárauðu, hefur ekki einu sinni fyrir því að líta til hliðar til að athuga hvort mögulega gæti bíll verið að keyra yfir gatnamótin á grænu ljósi. Hef oftsinnis þurft að klossbremsa. Hinir akandi eru litlu skárri, bara síðustu viku sá ég að minnsta kosti fjórum sinnum bíla fara yfir gatnamót á MIÐJU rauðu ljósi, ekkert að skafa gult neitt, nei mörgum sekúndum inn í ljósið. Ég þurfti að bremsa og sveigja frá einum sem beygði bara í veg fyrir mig á gatnamótum Gömlu Hringbrautar og Bústaðavegar/Snorrabrautar (hann var á rauðu beygjuljósi og bara fór samt).

Eiginlega bara mesta furða að ekki skuli vera meira um slys!


bland í poka

teljari

  • 380.688 heimsóknir

dagatal

desember 2010
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa