Archive for the 'tónlistarnám' Category

enn held ég áfram

að monta mig, sveimérþá! Freyja spilar fyrsta kaflann úr fyrstu sellósvítu Bachs á jólatónleikum í dag:

alveg hreint gott

þegar stóráfangar eru búnir – stráksi kláraði grunnprófið sitt á víóluna í morgun. Ég var því miður að kenna í LHÍ og gat ekki fylgt honum en pabbi hans er nú betri en enginn og reddaði málinu (vá hvað þetta hljómaði annars rembulega eitthvað – eins og pabbinn sé eitthvað verri að fylgja en ég, aðallega mér sem fannst ómögulegt að vera ekki með, frekar en að Finnur tapaði einhverju). Svo sem ekki eins og foreldrar fái að vera inni í prófinu.

Skólastjórinn og kennarinn hans voru ógurlega ánægðar með hann. Nú er ég síðan viss um að hann tekur ekki upp hljóðfærið í nokkra daga ef ég þekki hann rétt…

Hér vídjó frá undirbúningsrennsli:

Bach gavotta í gé moll – Finnur Jónsson víóluleikari og Ásta Haraldsdóttir píanóleikari

og hér er valverkefnið – lag sem hann samdi alveg sjálfur en mamman hjálpaði svolítið með píanópartinn:

nei

ég hef voða lítið verið að blogga undanfarið. Eins og mér hefur legið mikið á hjarta. Eyðilegging á tónlistarskólunum okkar – já eyðilegging er ekki of sterkt orð yfir það sem virðist vera að gerast hér. Verð að henda inn grein sem má lesa hér um mikilvægi tónlistarmenntunar og já, minna á grein sem ég hef birt áður hérna – fagið mitt er nefnilega ekki bara eitthvað hobbí. Skiptir svo gríðarmiklu máli fyrir þessa andlegu heilbrigði. Heilbrigð sál í hraustum líkama, já það er helling verið að hugsa um hrausta líkamann en virðist sem heilbrigða sálin sé aðeins minna mál. Hefði ég tíma myndi ég snara greininni – kannski eftir vikuna.

Icesvei – nei best að fara ekki út í þann pakka.

Deadline, I’m still sticking to it.

jólasöngvar

Langholtskórsins byrjaðir, Gradualekórinn tekur þátt að vanda, stelpurnar báðar þar með. Ég fer á tónleikana annað kvöld en hrikalega er ég fegin að Fífa er stoltur bílprófshafi og keyrir í kvöld og á sunnudaginn (jáannars ég er semsagt að syngja Jesu, meine Freude með glænýjum Kammerkór Dómkirkjunnar á sunnudagskvöldið) þannig að við þurfum ekki að vera í sækjum-og-sendum pakkanum nákvæmlega núna.

Sá pakki fer reyndar ört minnkandi, Fífa sér nánast alveg um sig sjálf (eða fær bílinn lánaðan gegn bensínkaupum með misreglulegu millibili), Freyja þarf eiginlega skutl þegar sellóið er með í för, annars er hún á eigin vegum og Finnur meira að segja fer á hlaupahjólinu bæði í karate inn í Brautarholt og hljómsveit í Sóltúnið nánast alltaf.

Var reyndar að tala við samkennara mína fyrr í ár, komst að því að þau smyrja enn nesti fyrir 17-19 ára unglinga sína. Sárhneykslaðist á því – stelpurnar sjá algerlega um sig sjálfar og tíáringurinn hefur borið ábyrgð á nestinu sínu frá í fyrrahaust.

eins og

ég er oftast nokk ánægð með vinnutímann minn þrátt fyrir að ég kenni tvo daga í viku ansi lengi fram eftir degi og svo kór- og hljómsveitaræfingar líka, þá hefur það stundum sína galla.

Til dæmis í dag þegar ég hefði svo gjarnan viljað koma upp í Þórshamar og fylgjast með Finni vinna sér inn fyrir næsta lit á belti í karate. En nei, kennsla.

Eftir rúma viku spilar svo Freyja sólósellópartinn í Jólakonserti Corellis og ég sé tæpast fram á að komast að hlusta á það heldur. Nema ef ég gef unglingunum mínum frjálsa mætingu í síðasta tímann fyrir jól, það hefur stundum virkað…

búin að bjóða

grilljón og átján manns á tónleikana hjá EssÁ næstu helgi, svo er nú auðvitað allt of margt að gerast og boðin hrúgast á mann á smettinu.

Yfirskriftin er Íslensk tónlist á aðventu, flutt verk eftir Jón Leifs, Magnús Blöndal Jóhannsson og svo dansasvíta undirritaðrar, Blandaðir dansar. Ætti að geta bara orðið nokkuð gaman.

Ég var annars alveg harðákveðin að drífa mig á tónleika Schola Cantorum í dag en síðan komst víólubarnið í þvílíkt æfingastuð og honum þykir svo mikið betra ef ég er með honum að æfa að ég bara gat ekki staðið upp og farið.

Hef samt ekkert ógurlegt samviskubit því ég held ekki að neinn úr Schola hafi komið á Hljómeykistónleikana um daginn. Nema reyndar stjórnandinn…

afrakstur

helgarinnar – já þessi helgi var reyndar frekar þung, tónleikar Hljómeykis á fimmtudag (gengu gríðarvel), partí á eftir, aðalfundur Tónverkamiðstöðvar á föstudag og veisla á eftir til að þakka fólkinu sem kom að flutningum og björgun eftir brunann fyrir einu og hálfu ári, aðalfundur Hljómeykis og partí á eftir, matarboð í kvöld með hluta af systkinahópnum, tilraunakeyrsla á matseðli áramótanna sveimérþá!

En aðalatriðið var nú samt tónleikarnir sem krakkarnir spiluðu á á laugardaginn – maður verður jú að setja hluti í samhengi! Hér koma þau:

Freyja:

og Finnur:

yngri unglingur

heimtaði að fá að fara á Chopin tónleika í Salnum á þessu kalda kvöldi þótt hvorugt foreldra hennar né stóra systir orkaði að fara með.


(pínu yngri þarna, reyndar)

Hún gæti reyndar verið á verri stöðum á föstudagskvöldi, fjórtánáringurinn…

nýstárlegt

Freyja er á kammermúsíknámskeiði alla þessa viku, fullt af pólskum krökkum og fjórir kennarar með þeim hér á landi, og svo Kammerklúbburinn (sem Freyja er í), allt hluti af stóru verkefni (styrktu af vonda ljóta Evrópusambandinu), hef sagt frá því hér áður, 20 krakkar héðan og einn kennari fara til Póllands á námskeið, tvö skipti, og svipað í hina áttina. Freyja fór út í september.

Nema hvað, úr því nú er hópur hér stöndum við Kammerklúbbsforeldrar á haus við að hjálpa til og í dag var ég búin að lofa að baka eitthvað kaffimeðlæti, helst íslenskt, ég skelli í rúsínulummur. Svo fer ég á kóræfingu, þegar ég er búin þar rýk ég heim og næ í lummuhlaðann, hrifsa krukku af heimagerðri rabarbarasultu úr ísskápnum og beint á tónleika hjá íslensk/pólska samstarfinu.

Tónleikar búnir, ég sæki teskeið og opna sultukrukkuna til að hræra í sultunni.

Vill til að ég tek eftir því hvað sultan er eitthvað óvenjuleg í laginu (þeas skrítin áferð á henni) þannig að ég bauð ekki upp á rúsínulummur með rauðrófuchutney…

pólland

hún Freyja og 10 af krökkunum í kammerhópnum hennar fóru til Póllands fyrr í haust. Þar fengu þau frábærar viðtökur og námskeið, spiluðu og æfðu allan daginn. Sáum tvö vídjó með þeim, ásamt pólskum samstarfskrökkum og kennara, hér er annað:


Freyja er í miðjunni í sellóhópnum, situr á öðru púlti.

Þau eru nú að safna fyrir ferð út aftur í sumar, vonandi gengur það hjá þeim (söfnunin sem ég er að vonast til að verði EKKI klósettpappír)

Apakattaeyja

Var með krakkana í Finns bekk í tónfræðinni í formgreiningu í dag. Lét þau greina þriðja kaflann úr E-dúr fiðlukonsert Bachs, þetta líka fína rondóform (sonurinn fattaði það, mamman montin).

Frekar auðgreinanlegt form, ABACADAEA þar sem A hlutinn kemur alltaf eins, tutti í hljómsveitinni en B-E kaflarnir eru grand sólókaflar hjá einleiksfiðlunni.

Auðvitað fóru krakkarnir að reyna að lesa eitthvað út úr stöfunum…

(og þið sem hélduð að ég væri að lýsa Íslandi með titlinum, vaþaggi???)

Ungsveitin

Fífa tók í dag þátt í öðru ævintýri Ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Þetta er svo mikið frábært framtak, krakkarnir fá nefnilega nánast engin tækifæri til að spila þessi stóru hljómsveitarverk með fullri stærð af hljómsveit. Ungfónían hans Gunnsteins er auðvitað fín og það er hægt að spila með okkur í áhugamannabandinu líka en hvorugt er neitt nálægt þessum level. Vinnan þarna algerlega á topp basis, krakkarnir taka þetta líka þvílíkt alvarlega, allir mæta á allar æfingar á réttum tíma, búnir að læra partinn sinn heima þannig að það þarf ekki nema að fínpússa og svo er tími til að búa til músík á æfingunum í stað þess að hamast á einhverjum stöðum sem sitja ekki.

Ég sat þarna ásamt nær fullum sal í Háskólabíói, á frábærum stað, 10. bekk nálægt miðju og naut Nóttar á Nornagnípu og fjórðu sinfóníu Tjækofskís. Að sjá alla þessa glæsilegu og kláru krakka, spilandi þarna eins og atvinnufólk, það var ótrúlega magnað.

Að ári er stefnt á fimmtu Mahler, í Hörpu, Fífa stefnir á að sækja um þá og Freyja líka. Samt ansi erfitt að komast að í sellóunum, þarf að undirbúa sig mjög vel. En fimmta sinfónía Mahlers er auðvitað ótrúlega flott stykki, við spiluðum hana hjá Zukofsky hér í fornöld og ég hef haldið mikið upp á hana síðan þá.

Allavega er ég bara svo ótrúlega þakklát fyrir að krökkunum bjóðist þetta tækifæri, Sinfó, takk fyrir okkur!

Stavanger dagur #7

Vöknuðum um morguninn – en þá kom bara enginn að sækja okkur á æfinguna eins og okkur hafði annars verið lofað. Kom ekki til greina að fara að hlaupa í strætó, það voru mótshaldarar sem vildu endilega hafa okkur í þessari hljómsveit – og það var búið að tala um að ná í okkur! Enda vorum við sótt, bara klukkutíma of seint.

Hljómsveitarstjórinn hafði greinilega unnið mjög vel á æfingunni daginn áður meðan við vorum í fríi og svo þennan fyrsta klukkutíma á þessari æfingu því bandinu hafði farið alveg óhemju fram.

Okkur Hildu var plantað aftast í fyrstu fiðlu og verkið var spilað í gegn. Alveg hrikalegt sarg í strengjunum (til þess ætlast) en ég hugsa það hafi hljómað bara vel. Mjög skemmtilegt stykki, ætlað til að æfa einu sinni í svona klukkutíma og spila svo.

Nú, „korværksted“ kom næst, mamma átti að stjórna einu lagi þar (Maístjörnunni, gleymdi að segja þér frá því, það vantaði eitthvað þriggja radda íslenskt þannig að ég skrifaði allar raddirnar niður á næturvaktinni. Var náttúrlega ekkert hægt að segja frá því fyrirfram að íslendingarnir ættu að koma með eitt lag í röddum til að syngja þannig að hægt væri að koma með nótur að heiman, ónei, óþarfi að gera hlutina auðvelda fyrir fólk). Við sungum með, kunnum auðvitað lagið þó það væri ekki á prógramminu okkar. Það var æft pínulítið og svo sungið í gegn enda ekki erfitt. Svo kom norski stjórnandinn, hann var mjög almennilegur og indæll, bað okkur um að syngja líka með í danska laginu, það var æðislega sætt lag eftir hljómsveitarstjórann okkar.

Svo komu allsherjartónleikar. Fyrst kom þetta korværksted, sungið í gegn um 4 lög sem höfðu verið æfð um morguninn, svo fórum við bara og settumst. Þá átti að vera samsöngur og „kongressen synger nordisk“. Það var auglýst eftir fólki sem þyrði að koma upp á pall og syngja – þeim sem höfðu mætt í samsönginn á morgnana. Helga kom og bað okkur um að koma upp líka og syngja þó við hefðum ekki mætt þarna á morgnana neitt. Tvær okkar fóru upp, hinar þrjár sátu aðeins lengur – við vorum að reyna að benda þeim að koma upp líka en þá byrjaði finnski stjórnandinn bara þannig að það hefði bara verið asnalegt að fara að troða sér inn í hópinn. Þar voru þær heppnar, því finnska lagið var bara alveg þrælsnúið, fullt af texta á finnsku og svoleiðis veseni! Eftir það lag (sem við náttúrlega gátum ekkert í) kom íslenska lagið, þá bættust hinir krakkarnir við og við sungum Móðir mín í kví, kví með öllum hópnum. Næst kom Det var en lørdag aften, öll 14 erindin eða svo – það er alveg fallegt lag en ætlar bara aldrei að enda þegar öll erindin eru tekin. Svo sem ósköp sætur og hjartnæmur texti en maður er bara orðinn svo hundleiður á laginu þegar það er hálfnað að maður getur ekki beðið eftir því að það klárist!

Síðast kom færeyska lagið, þar var góðkunningi okkar Ólafur Hátún að stjórna. Hann lét bara allan salinn syngja, kenndi öllum tvö mismunandi viðlög og söng sjálfur forsönginn. Algjör sökksess. Það var rosalega gaman að honum. Enda má segja að hann hafi verið í skýjunum sjálfur, daginn áður hafði hann verið kosinn forseti NMPU til næstu tveggja ára.

Síðast var svo hljómsveitarverkið, það gekk bara ágætlega og hitt fólkið sagði að það hefði hljómað mjög vel út í sal.

Svo fórum við bara aftur í bæinn – lentum í smá veseni sem ég ætla ekki að segja frá hér (semsagt á blogginu, gæti verið pínu viðkvæmt), en allavega fórum við og keyptum smá gjafir handa konunni sem sá um okkur uppi í Ramsvik, hún var nefnilega alveg frábær og hafði reynst okkur mjög vel, líka handa skólastjóra tónlistarskólans í Stavanger, hann var fínn og allt stóðst sem hann sagði, eini stjórnandinn þarna sem virtist hafa yfirsýn yfir það sem hann var að gera.

Okkur hafði verið sagt að miðdegismaturinn (Norðmenn borða aðalmáltíðina sína um fjögurleytið á daginn) væri í Ramsvik – við þangað en þá var bara enginn þar, og heldur enginn matur. Konan kom eftir góða stund og sagði okkur að maturinn hefði verið niðri í konserthúsi. Það var svo sem auðvitað! En hún bauðst til að láta koma með hann til okkar – og hringdi auðvitað í skólastjórann fyrrnefnda sem tók til mat fyrir okkur og keyrði með til Ramsvíkur í eigin persónu.

Enduðum síðasta daginn á mótinu á því að spila billjarð, ég hafði aldrei prófað það áður en sýndi auðvitað mikla hæfileika! (verst ég hef svo aldrei getað neitt síðan þá heldur).

Jæja, svo tókum við bara saman dótið okkar og fórum niður í miðbæ, lestin okkar fór um kvöldið. Fundum geymsluhólf og tróðum dótinu okkar þar inn. Einhver kona kom og gaf sig á tal við mig og ég kunni ekki við að rífa mig frá henni þó það liti út fyrir að hún ætlaði að segja mér alla ævisöguna þarna tvístígandi á brautarstöðinni. Ætlaði aldrei að losna við hana. Hin sátu inni á veitingahúsinu og hlógu að mér á meðan. Svo þegar ég loksins losnaði og fór til hinna sögðu íslensku tónmenntakennararnir tveir sem voru þarna með okkur að þær hefðu lent í henni áður og hún væri algerlega óþolandi. (ég þurfti nú ekkert að láta segja mér það sko!)

Nú, fyrrihluta kvölds gerðum við Hilda og Marta það sem við höfðum vanrækt allan tímann, að heimsækja vinkonu hennar ömmu sem við höfðum lofað að kíkja á. Sáum svo eftir að hafa ekki gert það mikið fyrr, alveg frábærlega skemmtileg heimsókn. Vorum þar eins lengi og við gátum og svo skutlaði hún okkur niður á lestarstöð.

Þegar í lestina var komið fór ég nánast strax að sofa því ég ætlaði ekki nema hálfa leið til Osló, vakin um miðja nótt til að skipta um lest og fara að heimsækja vinkonu mína síðan í lýðháskólanum.

Læt ég þá þessari ferðasögu lokið hér á blogginu, heimsóknin ekki alveg eins söguleg eins og NMPU mótið.

flottir víólukrakkar

spiluðu á vortónleikum Suzukiskólans í Grensáskirkju um daginn.

Hér er tíáringurinn gríðarlega einbeittur:

Takk Meinhorn fyrir að taka myndir fyrir mig…

Útskrift

herra Finnur einbeitti útskrifaðist úr þriðju Suzukivíólubókinni í gærmorgun á Degi tónlistarskólanna. Við erum ógurlega montin af honum, hann spilar heillangt lag, Bourrée eftir Bach. Hér má sjá snáða stoltan með útskriftarskírteinið sitt:

Auðvitað var svo tekið vídjó af laginu, endilega kíkið.

Hann er áskrifandi að nýjum tölvuleik eftir útskriftir úr bókum þannig að frá því í gærmorgun hefur ekki verið mjög auðvelt að draga hann frá tölvunni…

Hvít jól

ein útgáfan, þarna má sjá bæði Finn (fremst í víólunum í röndóttri peysu) og Freyju (eina sellóstelpan) og líka auðvitað fullt fullt af öðrum æðislegum krökkum í Suzukiskólanum í Reykjavík. Gessovel:

langar

svoooo að fara að hlusta á krakkana mína í kvöld, Finnur að spila í fyrsta skipti í White Christmas með Suzukikrökkunum, Freyja í fjórða, hún hins vegar í Pachelbel (ekki að það sé skemmtiefni fyrir sellóleikarana en samt…) Freyja líka tvö erfið lög með sellóhópnum sínum. Get bara ómögulega sleppt síðustu kóræfingunni fyrir jól – sérstaklega vegna þess að þeirri fyrir viku var fórnað á altari Beethoven níundu.

Svo kemst ég ekki á tónleika yngri deildarinnar vegna sýningar á Söngvaseið á laugardaginn. Vond mamma!

Eins gott að pabbinn klikki ekki á vídjóupptökunni á eftir…

fffuuu, vona

að lesendur mínir hafi ekki ætlað að flykkjast í auðu sætin í Langholtskirkju í kvöld, ég held það hafi verið selt 20 miðum fleira en kemst í kirkjuna. Bætt við sætaröðum meðfram bekkjunum og einum heilum bekk fremst, Fífu til hrellingar þar sem henni fannst hún reka bogann framan í konu sem þar sat, í hverju stroki.

Glæsilegur flutningur hjá krökkunum, maður sat þarna rígmontinn og með tárin í augunum. Takk fyrir mig, allir!

hlakka allverulega

til tónleika kvöldsins, annað rennsli á Níundu sinfóníu Beethovens hjá krökkunum í Ungfóníu og Háskólakórnum. Heyrði vel af fyrri flutningnum látið og hann ætti að vera enn betri í kvöld.

Kíkið endilega í Langholtskirkju klukkan 8 – veit ekki betur en enn sé til eitthvað af miðum. Við ætlum að mæta snemma til að fá þokkaleg sæti…

Chanson triste

hér spilar Freyja Chanson triste eftir Tjækovskí, gekk alveg ágætlega hjá henni. Voða montin mamma. Júlíana Rún spilaði með og gaf góðfúslegt leyfi til að setja þetta á netið.


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

júní 2023
S M F V F F S
 123
45678910
11121314151617
18192021222324
252627282930  

sagan endalausa