Sarpur fyrir nóvember, 2010

fékk áfall

um daginn þegar ég fann aftur vefsíðuna sem ég var annars búin að týna, með upplýsingunum um keppnina sem ég er að skrifa fyrir.

Hálftími. HÁLFTÍMI! í minnsta lagi, ekki 20 mínútur. Það munar gríðarmiklu.

2 önnur verkefni í burðarliðnum, ég er reyndar að pæla í að einhenda mér í að klára kvartettinn, setja keppnisverkið í pásu fram í miðjan desember.

Svo er verk fyrir Listahátíð, með dansi – ógurlega spennandi. Alveg hreint hellingur að gerast, ég get víst ekki kvartað.

búin að bjóða

grilljón og átján manns á tónleikana hjá EssÁ næstu helgi, svo er nú auðvitað allt of margt að gerast og boðin hrúgast á mann á smettinu.

Yfirskriftin er Íslensk tónlist á aðventu, flutt verk eftir Jón Leifs, Magnús Blöndal Jóhannsson og svo dansasvíta undirritaðrar, Blandaðir dansar. Ætti að geta bara orðið nokkuð gaman.

Ég var annars alveg harðákveðin að drífa mig á tónleika Schola Cantorum í dag en síðan komst víólubarnið í þvílíkt æfingastuð og honum þykir svo mikið betra ef ég er með honum að æfa að ég bara gat ekki staðið upp og farið.

Hef samt ekkert ógurlegt samviskubit því ég held ekki að neinn úr Schola hafi komið á Hljómeykistónleikana um daginn. Nema reyndar stjórnandinn…

jaeæja

ætla ekki örugglega allir að kjósa?

Listinn minn orðinn endanlegur, ég ætla ekki að henda honum öllum inn hérna, en hann hefur reyndar breyst talsvert frá því þegar ég birti uppkast að honum um daginn.

Efsta fólkið hjá mér er samt:

Smári Páll McCarthy 3568
Ásdís Hlökk Theodórsdóttir 2787
Jón Ólafsson 7671
Margrét Jensína Þorvaldsdóttir 3315
Gunnar Grímsson 5878
Máni Arnarson 5834
Svanur Sigurbjörnsson 4096

og svo 18 til.

Enginn þeirra sem ég set á lista er þar eingöngu vegna þess að ég þekki viðkomandi og treysti, hef sett talsverða vinnu í að velja eftir bestu vitund.

Náði ekki að gera algeran fléttulista, það hallar aðeins á konur. Svo verður að vera.

Það skiptir gríðarlegu máli að sem flestir segi skoðun sína með því að kjósa, þeim mun færri sem leggja leið sína á kjörstað, þeim mun auðveldara verður fyrir hina ráðandi stétt að hundsa vilja okkar. Ég vil ekki trúa því að þeir sem sitja við stjórnvölinn núna muni ekki hlusta en ef við erum verulega óheppin komast hrunflokkarnir að og þeir munu nokkuð örugglega gera allt sem í þeirra valdi stendur til að halda stjórnarskránni eins og hún er.

Þannig að það er bara um að gera að FARA ÚT OG KJÓSA!

nóvember

bráðum búinn, sveimérþá en kaktusinn blómstrar eins og honum sé borgað fyrir það! Hefur ekki verið svona flottur í mörg ár – reyndar síðan kötturinn hrinti honum niður hér í denn.
Jón Lárus segir frá á síðu sinni en hér er líka mynd:

yfirgengilegur lúxus

já, fórum alveg langt fram úr því sem við nokkurn tímann gerðum fyrir hrun og vorum með trufflusveppi í matinn fyrir familíuna í gærkvöldi. Tja, vorum með trufflusveppi í matnum, reyndar, ég held að ekki nokkur manneskja hafi svonalagað sem uppistöðu í rétti. Enda held ég reyndar ekki að það væri sérlega gott, allt allt of bragðmikið og sérstakt.

Kálfakjöt varð fyrir valinu og já, verst að hafa fengið smekk fyrir svona fokdýru hráefni (nei við keyptum þetta ekki, okkur áskotnaðist dós eftir krókaleiðum).

Uppskriftin er allavega á Brallinu. Fáránlega gott.

afrakstur

helgarinnar – já þessi helgi var reyndar frekar þung, tónleikar Hljómeykis á fimmtudag (gengu gríðarvel), partí á eftir, aðalfundur Tónverkamiðstöðvar á föstudag og veisla á eftir til að þakka fólkinu sem kom að flutningum og björgun eftir brunann fyrir einu og hálfu ári, aðalfundur Hljómeykis og partí á eftir, matarboð í kvöld með hluta af systkinahópnum, tilraunakeyrsla á matseðli áramótanna sveimérþá!

En aðalatriðið var nú samt tónleikarnir sem krakkarnir spiluðu á á laugardaginn – maður verður jú að setja hluti í samhengi! Hér koma þau:

Freyja:

og Finnur:

undarlegt

atvik sem ég sá í gær, var að keyra Finn á hljómsveitaræfingu (einu sinni sem oftar), lendi á rauðu ljósi á gatnamótum Frakkastígs og Hverfisgötu.

Við Finnur sitjum í rólegheitum í bílnum og bíðum eftir grænu þegar við sjáum tvo gaura hlaupandi á harðaspani niður götuna og beygja fyrir hornið hjá Austurlandahraðlestinni. Örstuttu seinna kemur sá aftari til baka, sótbölvandi og haldandi á síðum frakka á herðatré.

Sá fyrri hefur semsagt ætlað að stela frakkanum af hinum, væntanlega af kaffi Grand en hinn tekið eftir því.

ahhhh

tíu vikna önninni í LHÍ lokið, á bara eftir að reikna út einkunnir og skila, ég set metnað minn alltaf í að vera fyrsti kennarinn sem skilar einkunnunum, oftast tekst það nú.

Fyrsti áfangi í jólafríi, var reyndar stórfurðulegt að heyra fyrstu gleðilegjólakveðjuna eftir tíma í gær.

Komin í pásu í leikfimi líka, alveg kominn tími á það, þurfti að þvinga mig út alla síðustu viku. Byrjuð að láta renna í bað og allt en nei, það ER SÍÐASTA VIKAN, DRATTASTU ÚT!

En svei mér þá ef ég er ekki bara að komast í jólastemningu, og það er ekki einu sinni kominn fyrsti í aðventu, hvað þá fyrsti des. Hefur kannski eitthvað með það að gera að við héldum hlaðborð fyrir Pólverjana, krakkana okkar og foreldra eftir námskeið á sunnudaginn var og þar var á boðstólum hangikjöt og laufabrauð, rúgbrauð og síld, lax og paté – held við getum alveg sparað okkur að fara á eitthvað jólahlaðborð í ár.

útvarpið

já eða úbartið – þátturinn var semsagt í gærkvöldi, hér er hægt að hlusta. Bara skemmtilegur, þó ég segi sjálf frá… :þ

í tilefni

dags íslenskrar tungu (rekum nú öll út úr okkur tunguna og skoðum hina íslensku tungu), ein færsla um þróun tungumálsins.

Ég er ekki pikkföst á því, ekki einu sinni fylgjandi því að tungumálið megi ekki þróast og breytast. Reyndar er bara kjánalegt að reyna að standa gegn slíku. En ég er svolítið hissa á breytingunni á hugtakinu að vera hálfþrítugur/fertugur/fimmtugur og svo framvegis. Einu sinni þýddi þetta klárlega að vera hálfnaður með tuginn en núna virðist merkingin hafa færst algerlega yfir í helming af fertugu, hjá yngra fólki allavega, semsagt að á tvítugsafmælinu sé fólk hálffertugt og hálffimmtugt við tuttuguogfimm.

Ef við líkjum þessu við klukkuna – myndi einhver skilja hálffjögur sem tvö?

baka, baka, baka

bakstursdagur mikill hér í dag, Fífa ákvað að baka hafraklatta með rúsínum, ég þurfti að baka eplaköku fyrir kaffisamsæti eftir tónleika Kammerklúbbsins, Finnur var með vinahóp og bakaðir voru karamellusnúðar (ókei, hitaðir, úr frysti) og núna er Jón Lárus að setja seytt rúgbrauð í ofninn, verður þar í nótt. Eigum að koma með íslenskar kræsingar á lokahóf pólsk-íslenska samstarf Kammerklúbbsins annað kvöld, og hvað er íslenskara en seytt rúgbrauð með kæfu?

Krakkarnir (þeas. Fífa og Finnur) voru eiginlega orðin frekar fúl yfir að ég væri alltaf að baka en aldrei fengju þau neitt af afurðunum.

Allavega eins gott að ofninn sé í standi.

yngri unglingur

heimtaði að fá að fara á Chopin tónleika í Salnum á þessu kalda kvöldi þótt hvorugt foreldra hennar né stóra systir orkaði að fara með.


(pínu yngri þarna, reyndar)

Hún gæti reyndar verið á verri stöðum á föstudagskvöldi, fjórtánáringurinn…

nýstárlegt

Freyja er á kammermúsíknámskeiði alla þessa viku, fullt af pólskum krökkum og fjórir kennarar með þeim hér á landi, og svo Kammerklúbburinn (sem Freyja er í), allt hluti af stóru verkefni (styrktu af vonda ljóta Evrópusambandinu), hef sagt frá því hér áður, 20 krakkar héðan og einn kennari fara til Póllands á námskeið, tvö skipti, og svipað í hina áttina. Freyja fór út í september.

Nema hvað, úr því nú er hópur hér stöndum við Kammerklúbbsforeldrar á haus við að hjálpa til og í dag var ég búin að lofa að baka eitthvað kaffimeðlæti, helst íslenskt, ég skelli í rúsínulummur. Svo fer ég á kóræfingu, þegar ég er búin þar rýk ég heim og næ í lummuhlaðann, hrifsa krukku af heimagerðri rabarbarasultu úr ísskápnum og beint á tónleika hjá íslensk/pólska samstarfinu.

Tónleikar búnir, ég sæki teskeið og opna sultukrukkuna til að hræra í sultunni.

Vill til að ég tek eftir því hvað sultan er eitthvað óvenjuleg í laginu (þeas skrítin áferð á henni) þannig að ég bauð ekki upp á rúsínulummur með rauðrófuchutney…

talandi um snillinginn

hann son okkar þá var pabbi hans að hjálpa honum með landafræðiverkefni í gærkvöldi – sjá hér.

sölumaðurinn

hann sonur minn er fyrsta barnið mitt sem hefur minnsta vott af sölumannsgeni. Ekki veit ég hvaðan.

Hann hringdi út kertasölu í gærkvöldi og við báðum hann í leiðinni um að nefna klósettpappír/eldhúsrúllur/lakkrís sem systir hans er að selja, svona til að fækka nú aðeins sníkjuhringingunum til frændgarðsins.

Nokkur sýnishorn:

Skyldi nokkuð vera þörf fyrir lakkrís hjá ykkur?
Væri hægt að vekja áhuga þinn á klósettpappír?
Er nokkuð skortur á klósettpappír hjá ykkur?

(já semsagt, salan á fullu…)

nýi kammerkór

Dómkirkjunnar kom opinberlega fram í fyrsta skipti áðan. Reyndar slatti af okkur endurunninn úr fyrrverandi kammerkór en samt alveg nokkur ný andlit, ég var ekki í kórnum hér áður fyrr nema bara svona sem íhlaupamanneskja. Þetta þýðir reyndar að ég er nú í fyrsta skipti í einhvers konar kirkjukór, fyrir nú utan athafnakórana.

Eigum nú eftir að slípast pínu til en þetta getur bara sem best orðið hinn ágætasti kammerkór, þegar við höfum sungið okkur enn betur saman.

vín á ofurverði

Nú eru að detta inn í Vínbúðir aftur rándýrir toppar úr víngerð í heiminum. Eða allavega snobbtoppar.

Château Margaux, Château Mouton Rotschild og Château Latour.

Verðið á þeim verður rúmlega 68 þúsund á Margaux, Rotschild um 80 þúsund og nær 82 þúsund fyrir Latour.

Samkvæmt verði á þessum vínum í útlöndum er smurt ansi hressilega á þetta núna. Hingað til hafa toppvín fengist á tiltölulega góðu verði hér á Íslandi vegna verðlagningarreglna ÁTVR. Þær hafa hins vegar ekkert breyst þannig að nú eru það væntanlega viðkomandi birgjar sem leggja á lúxusskatt. Ég skil það reyndar nokkuð vel – hér er enn til lið sem veit ekki hvað það á að gera við peninginn en við hinir ræflarnir myndum örugglega ekki kaupa þessi vín þó þau væru „bara“ á helmingi verðsins.

Við höfum einu sinni keypt Margaux, nokkur ár síðan, þá kostaði flaskan 15 þúsund. Fannst okkur það nú feikinóg – sérstaklega miðað við það að þetta er alls ekki besta vín sem við höfum smakkað. Reyndar frekar lélegur árgangur en svona hús eiga ekki að láta frá sér neitt nema toppa (sum húsanna reyndar framleiða ekki vín ef þrúgurnar eru ekki í toppi, selja þær þá bara en sleppa heilum árgangi úr). Fullt af vínum sem fá álíka dóma og vín frá þessum húsum en eru bara á broti af verðinu.

Þrátt fyrir að detta ekki í hug að kaupa svona nöfn er náttúrlega samt eitursúrt að horfa upp á þetta litla merki um að hér er ennþá gríðarlegt gap milli þeirra sem eiga og þeirra sem eiga kannski smá en aðallega bara skuldir.

flandur

eilíft flandur á þessum krökkum manns – nú er tíáringurinn í æfingabúðum með kórnum. Sú sjálfráða og kærastinn í bíó og bara við aldna settið og miðbarnið heima. Hún æfir sig á meðan við horfum á burst í Útsvari. Eiginlega bara frekar næs, frekar tómlegt en samt ansi þægilegt.

Dotta svo yfir einu hvítvínsglasi fyrir framan tölvuna, aldna settið hvað?

úbartsviðtal

var að enda við að eipa um tvö af verkunum mínum í viðtali við hana Margréti Sigurðardóttur, Ópus held ég þættirnir heiti og ég valdi að tala um tvenns konar dúetta, fiðludúettana mína (10 myndir fyrir 2 fiðlur) og svo dúetta sem ég gerði fyrir Hallveigu systur, Eyva minn og hann Árna Heimi fyrir nokkrum árum. Þannig að nú dettur þetta aftur í spilun – vonandi eitthvað meira en bara þennan eina þátt.

Hann verður víst á dagskrá þann 15. nóvember og á netinu þar á eftir, ég mun pottþétt plögga þegar nær dregur.

Annars er bara ansi hreint gaman að rifja svona upp. Hlakka til að heyra hvernig hún klippir mig sundur og saman í þættinum.

bráðsniðugt

að skiptast á sölu – nú er ég búin að kaupa bæði gulrætur og kleinur á móti kertasölu, hver veit hvað kemur svo upp næst?

Verst að það eru allir með fjárans klósettpappírinn (sem minnir mig á, nú er Freyja komin með svoleiðis blöð og er farin að selja aftur, klósettpappír, eldhúsrúllur og lakkrís).

Væri svo verulega til í að þurfa ekki að standa í þessu sölustússi samt. Ekki beinlínis það skemmtilegasta sem ég veit…


bland í poka

teljari

  • 377.779 heimsóknir

dagatal

nóvember 2010
S M F V F F S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
282930  

sagan endalausa