Archive for the 'hneykslun' Category

jólasöngvar

Langholtskórsins byrjaðir, Gradualekórinn tekur þátt að vanda, stelpurnar báðar þar með. Ég fer á tónleikana annað kvöld en hrikalega er ég fegin að Fífa er stoltur bílprófshafi og keyrir í kvöld og á sunnudaginn (jáannars ég er semsagt að syngja Jesu, meine Freude með glænýjum Kammerkór Dómkirkjunnar á sunnudagskvöldið) þannig að við þurfum ekki að vera í sækjum-og-sendum pakkanum nákvæmlega núna.

Sá pakki fer reyndar ört minnkandi, Fífa sér nánast alveg um sig sjálf (eða fær bílinn lánaðan gegn bensínkaupum með misreglulegu millibili), Freyja þarf eiginlega skutl þegar sellóið er með í för, annars er hún á eigin vegum og Finnur meira að segja fer á hlaupahjólinu bæði í karate inn í Brautarholt og hljómsveit í Sóltúnið nánast alltaf.

Var reyndar að tala við samkennara mína fyrr í ár, komst að því að þau smyrja enn nesti fyrir 17-19 ára unglinga sína. Sárhneykslaðist á því – stelpurnar sjá algerlega um sig sjálfar og tíáringurinn hefur borið ábyrgð á nestinu sínu frá í fyrrahaust.

meira umferðarhneyksl

Var að keyra Freyju í afmæli inn á Langholtsveg (hmm hef orðið ekki tölu á ferðunum inn í Vogahverfi í dag – og enn allavega ein eftir ef ekki tvær), á leið niður Frakkastíg mætum við bíl að keyra upp að Hverfisgötu.

Ef fólk man ekki hvernig liggur í götunum á þessu svæði, þá er Frakkastígurinn mjór, lagt báðum megin og einstefna niðurávið.

Ekki nokkur leið að mæta bílnum þannig að ég stoppaði á miðri götunni á meðan hann beygði austur Hverfisgötu. Hefði bíllinn verið neðar hefði ég örugglega keyrt niðurfyrir og látið hann bakka en um það var eiginlega ekki að ræða.

Ekki nóg með þetta, á leiðinni til baka heim fer ég venjubundna leið Sæbraut, beygi inn á Skúlagötu (bútinn sem mun halda áfram að heita Skúlagata svo það gleymist nú ekki), þar vestur að Klapparstíg og upp. Þá var verið að vinna í lóðinni þar sem brann fyrir rúmu ári, og lokað. Bílstjórinn á undan mér átti voða erfitt með að ákveða hvað hann ætti nú að gera úr því hann komst ekki upp götuna, stóð í óratíma á gatnamótunum (og þarna er líka þröngt þannig að ekki komst ég frekar framhjá), beygði svo austur Lindargötu eins og var nánast hið eina í stöðunni. Ég giska á að þetta hafi verið vandamál fyrri bílstjórans, hann (eða hún) hafi ekki komist upp Klapparstíg og laumast þar af leiðandi upp Frakkastíg í staðinn.

Ekki var þetta nú alveg búið enn, ég ákveð að fara ekki að dæmi þess fyrri heldur keyri niður Frakkastíginn og austur að Barónsstíg, þar upp og svo Grettisgötuna. Lendi á eftir bíl sem ég held örugglega að hafi ekki verið sá sami og fyrr. Komum að Frakkastíg og hann BEYGIR UPP GÖTUNA og síðasta sem ég sé af honum er rauð afturljós þar sem ég sit gapandi á gatnamótunum.

Stebbi lögga sagði í Útsvarsþætti gærkvöldsins að lögreglan í Reykjavík væri í átaki gegn ölvunarakstri, held þeir ættu að drífa sig í miðborgina.

(Liggur við að ég þurfi að búa til kort af svæðinu til að sýna aðstæður en ég nenni því eiginlega ómögulega)

skuldahalar

okkur ofbauð magnið af fellihýsum, tjaldvögnum, hjólhýsum og húsbílum sem við mættum í gær. Byrjuðum að telja undir Hafnarfjalli og það voru heilir 60 slíkir skuldahalar sem við náðum að telja á leið í bæinn. Hafa örugglega farið langt yfir hundraðið alla leiðina þó þéttleikinn hafi væntanlega verið mestur þarna (ég er ekki einu sinni alveg viss um það, alveg frá Bröttubrekku var mjög mikil umferð og reyndar slatti alla leiðina). Hvernig ætli þetta hafi litið út í dag þá úr því það var svona mikið í gær, fimmtudaginn fyrir helgina?

í framhaldi

af pistlinum frá um daginn, ég held ekki ég hafi sagt þessa sögu fyrr.

Sonur vinkonu minnar er íþróttagarpur, hans sterka hlið hefur alltaf verið sú. Hann ákvað þess vegna að fara á afreksíþróttabrautina í FB.

Það er ekkert vesen á þessum strák en hann varð fyrir miklum vonbrigðum með andann í deildinni. Akkúrat sama og kom fram í norsku könnuninni, mikið partístand og mikið sukk, alltaf þessi gríðarlega samkeppni milli krakkanna og vináttan fannst honum rista grunnt.

Eitt skiptið þegar kennari var veikur og tími féll niður bauð aðalstjarna deildarinnar stráknum heim á meðan, bjó rétt hjá skólanum. Jú jú, fínt – en það fyrsta sem gerðist þegar þeir komu inn í húsið var að stjarnan býður honum eina jónu. Jáneitakk.

Þetta væri svo sem nóg saga, en það versta er eftir.

Eftir áramót er sett fyrir ritgerð um forvarnargildi íþrótta. Stráksa er orðið heitt í hamsi og rakkar niður forvarnargildið sem tóma þvælu. Þetta var hins vegar ekki það sem átti að koma út, kennarinn varð brjálaður, rakkaði niður ritgerðina og gaf honum þrjá í einkunn.

Næs?

urgrmbllscrz!

Hvernig væri að Kópavogur myndi nú skila Ómarsbjöllunni og dómari myndi biðjast afsökunar á tveimur risa klúðrum? (skoða komment líka – eða fara aðeins dýpra í færslurnar mínar)!

(já, ég veit að það er ekkert einfalt að búa til spurningar og dæma – en þetta er bara samt ekki hlutur sem lið eiga að geta sætt sig við. Fyrst mótherjaliði gefið rétt fyrir sannanlega vitlaust svar – þeir nefndu borg sem var ekki rétta borgin, borg sem er til, bara í vitlausu landi – þrátt fyrir að nafnið hljómi líkt, það var samt ekki þessi borg, svo gefið vitlaust fyrir rétt svar, sem dómari vissi ekki að væri rétt líka. Minnir helst á Jónas R. Jónasson sem var með spurningakeppni fyrir nokkrum árum, spurði hvaða frægi maður hefði haft viðurnefnið ‘hinn mikli’. Sá sem spurður var hikstaði við, þar sem hann þekkti ansi marga, Alexander mikla og Pétur mikla til dæmis, en nei, það var sko vitlaust, Gatsby hinn mikli var hið eina rétta svar…)

nú fer ég

að hafa áhyggjur af Alzheimers Light

Var sveimérþá búin að steingleyma einni pöntun. Mundi eftir tveimur en sú þriðja algerlega dottin úr mér. Semsagt með þrjú verk í gangi.

Held ég…

verst að vera ekki á ferðinni áðan

í nágrenninu. Læti í klúbbhúsi Fáfnis hér ekki langt frá.

En stafsetningarvillurnar í færslunni. Þær eru ekki fáar. Eða þær voru ekki fáar, það er búið að prófarkalesa þetta núna. Þarna stóð heiðskýru, húsið var gert af (þarf ekki að gerða það af með gerðingu, þá?), lögreglan var með skyldi, hvellhettan skrapp í bakgarðinum. Og fleira.

Greinilega legið mikið á að koma fréttinni á netið…

Fór á tónleika

í dag, hlustaði á glænýtt verk eftir hana Þóru Marteins (sem er, held ég, hætt að blogga í bili)

Mjög flott Missa brevis, skemmtileg hljómavinna, vel unnið með textann og heilmiklar andstæður, fallegar laglínur, einmitt eins og ég vil hafa messur. Til hamingju, Þóra mín. Kórinn líka bara mjög fínn, sumt af þessu var ekkert sérlega auðvelt en leyst með glans.

Svolítið sérkennileg uppákoma rétt í lok messunnar, alveg í fíngerðasta – dona nobis pacem (gef oss frið – eða er það gefðokkur rólegheit í nýju útgáfunni, kannski?). Opnast dyrnar á Dómkirkjunni, inn kemur kona, haldandi á plastpokum, skrjáfar ekki smá í pokunum. Ég lít við, og í því segir fraukan stundarhátt: Getið þið sagt mér hvar klósettið er?

Talandi um að hafa ekki sans fyrir umhverfinu.

Veit svo sem ekki hvort það var út af þessu, en Martin ákvað að láta syngja síðasta kaflann aftur, eftir klapp og blómvandaafhendingar og standing ovation. Fínt.

já og hvernig væri nú

að láta Ástrík KJURT!? Þetta er eins og að einhver vildi taka Íslendingasögurnar og hreinsa út úr þeim öll dráp og laga allt til. Ég meina, það er voða ljótt að drepa, er það ekki?

Sé ekki betur en það sé nú gert grín að Frökkum sjálfum í bókunum, og það ekki lítið. Hvað er með að drepa niður allan húmor?

ekki myndi ég

vilja vera saksóknari né heldur sakborningur í þessu máli.

Ótrúlegt að maðurinn skuli ekki segja sig frá málinu sem óhæfan, skiljandi ekki neitt í neinu.

ég hef

alltaf verið sárhneyksluð á gleymdufatahrúgunum sem safnast fyrir í skólum landsins. Að fólk skuli ekki fylgjast betur með fötunum sem börnin fara í skólann og koma með heim. Eða koma ekki með heim.

Svo sem ekkert mikið minna hneyksluð núna en nú á ég strák. Fann tvær húfur og tvo vettlinga af honum í hrúgunni áðan. En ég leita þó að minnsta kosti. Og þetta voru ekki heilar úlpur og/eða kuldagallar.

Mér fannst eiginlega verst að á meðan ég stóð þarna við komu nær engir foreldrar að róta í hrúgunum. Fólki virðist vera alveg sama.

barnaníðingsdómurinn

Mótmælum öll!

sjá hér

Hélt að Mogginn hefði tekið réttan pól í hæðina í dag, en var síðan bent á að mögulega væri þetta hefnd, sömu dómarar og vísuðu Baugsmálinu frá.

vona Moggans vegna að það sé ekki rétt.

fékk

bréf í póstinum í gær sem ég bara verð að birta (já, búin að fá leyfi). Hér kemur:

Sæl.

Ég verð að fá að ausa aðeins úr skálum reiði minnar við ykkur.

Í borgum eða bæjum í Evrópu þar sem stundum svæði á stærð við 101 eða jafnvel mun stærri eru öll undir svokallaðri hverfisvernd sem hefur verið kölluð verndun götumyndar hér á landi er stundum gripið til þess ráðs að byggja hús sem eru eftirlíkingar af annað hvort húsinu sem fyrir var eða einfaldlega af húsastílnum sem er ríkjandi. Þetta getur verið mjög eðlileg ráðstöfun til að yfirbragð hverfisins haldi sér á svæðum þar sem meginreglan er að ekki meigi hrófla við neinu.

Deiliskipulagið í miðborg Reykjavíkur á ekkert skylt við þetta fyrirkomulag, verndun götumynda er notuð á einstaka húsaraðir ( stundum 3 hús í röð eða stundum 1 hornhús) en engin heildstæð verndun götumynda er gangi í miðbænum. Síðan vill það stundum verða að fólk vaknar upp við það að búið er að reisa blokk á næstu lóð þar sem við lýði var verndun götumynda eins og gerðist á Lindargötu og þá er einfaldlega vernduninni aflétt eftir á en það er annað mál.

Það er undarlegur bræðingur að taka upp þessa aðferð við að byggja eftirlíkingar þegar um er ræða örlítið brot af þeim húsum sem fyrir eru. Dæmið um Laugaveg 74 er alveg stórfurðulegt, Við Laugaveg er nú leyfilegt er að rífa 75% af húsum byggðum fyrir 1918 og í öllum þeim tilvikum er ekki verið að gera neinar ákveðnar kröfur um útlit nýbygginga, fullyrðingar stjórnmálamanna um að arkitektar myndu í þetta skiptið reyna að byggja hús sem féllu að þeirri byggð sem fyrir er hafa ekki gengið eftir.

Laugavegur 74 tilheyrir einni af þeim sárafáu húsaröðum sem áttu að vera undir hverfisvernd. Saman eru þau 3, Laugavegur 70,72 og 74 sem samkvæmt auglýsingabæklingi sem dreift var í öll hús eru:

„Samstæða reisulegra timburhúsa sem njóta verndar sem mikilvæg í götumynd Laugavegar, reist árið 1902“

Í þessum sama bæklingi stóð einnig:

„Nauðsynleg uppbygging og viðhald sögulegs umhverfis haldist í hendur“

Stuttu eftir að þetta er skrifað samþykir skipulagsráð að hús nr. 74 verði rifið með því skilyrði að byggð verði eftirlíking af framhliðinni. Það fannst þeim nægja til að viðhalda vernd götumyndar og fannst ekki einu sinni að þyrfti að kynna þetta
(ástæða þess að þetta mál komst upp er að lóðaeigendur ákváðu að reyna að selja lóðina þegar þeim hafði áskotnast nægilegt byggingarmagn). Þar sem einungis er um að ræða 3 húsa röð er barnaskapur að halda að þetta hús verði einhvers virði þegar framhliðin er leikmynd. Ef að lóðaeigandi myndi síðan sækast eftir því eftir einhvern stuttan tíma að fá að breyta framhliðinni í eitthvað allt annað þá er ekki líklegt að nokkur myndi standa í vegi fyrir honum enda eftirlíkingar sjaldnast einhvers virði. Í rauninni er ekki svo ólíklegt að fallið verði frá því að byggja leikmyndina.

Þetta mál er ekkert annað svik við þessa agnarlitlu húsverndarstefnu sem lofað hafði verið. Skipulagsráð er að fara í kringum kerfið sem það hannaði sjálft. Ég veit ekki hvort að þetta telst löglegt yfir höfuð en siðlaust er það að minnsta kosti.

Ég er á því að þetta mál verði að komast í hámæli, þannig að þeir sem hafa aðgang að blaðamönnum ættu að láta í sér heyra.

Kveðja

Þórður Magnússon


bland í poka

teljari

  • 373.922 heimsóknir

dagatal

janúar 2022
S M F V F F S
 1
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
3031  

sagan endalausa