Sarpur fyrir október, 2016

Berlin Tag #3. Große Brunch

Sunnudagur runninn upp. Talað um kosningaúrslit yfir morgunmatnum. Ég held annars ekki að ég eigi almennt að fara til Berlínar, síðast þegar ég var hér (mitt fyrsta skipti í Berlín) var seint í september 2008.

Bæði hné og fingur voru til friðs. Ákvað samt að taka ekki plástrana af fyrr en heima. Tómt vesen ef ég þyrfti eitthvað að leita mér hjálpar, þó ég hefði reyndar ekki gleymt evrópska sjúkrakortinu mínu heima eins og ég annars hafði óttast.

Eftir morgunmatinn fór ég í langan göngutúr austur frá hótelinu. Leiðsögumaðurinn daginn áður hafði bent okkur á að ef við vildum sjá dæmigerðan austurþýskan arkitektúr ættum við að ganga eftir breiðgötu beint í austur. Væflaðist aðeins smá króka, hálftíma-þrjú kortér eða svo og rölti síðan af stað eftir breiðgötunni. Tók þessa mynd af laufteppi:

img_2825

og tyllti mér á bekkinn sem sést á myndinni smástund. Koma þá ekki Tryggvi og Ibba og höfðu fengið alveg sömu göngutúrahugmyndina. Slóst í för með þeim og við gengum áfram í austurátt.

Listaverkin á veggjunum dæmigerð austantjaldsverk, öll af hamingjusömu fólki, duglegu að vinna vinnuna sína. Mér finnst svo gott þegar saga fær að halda sér, það væri svo mikil synd að eyðileggja þetta. Fyrir utan nú að þetta er alveg bráðfallegt.

Snerum heim eftir íbúðargötu við hliðina á breiðgötunni. Þau fóru upp að skipta í fínu fötin, voru á leið í óperuna eftir sameiginlegan brönsj sem deildirnar buðu upp á. Ég fór og keypti lestarmiða því ég hélt við ætluðum í lestinni á veitingahúsið. Reyndumst svo taka leigubíl.

Deildi slíkum með tveimur til. Við vorum nokkrum mínútum of snemma á veitingastaðnum sem var alveg stappfullur. Veitingafólkið hafði sagt okkur að koma klukkan tvö því þá væri laust en það reyndist semsagt ekki vera. Þurftum að bíða góða stund þar til við öll 28 vorum komin í sæti.

Þarna var risastór ansi flott ljósakróna þó lýsingin frá henni væri kannski ekki á pari við stærðina:

img_2833

Skildum síðan vel að staðurinn væri vinsæll. Ótrúlega flott hlaðborð:

þarna yfir desertinum má sjá hana Þorbjörgu mína sem býr í Berlín núna fram til áramóta og er sárt saknað bæði af vinnustað og úr kórnum!

Sátum góða stund yfir þessu, enda ekki hægt annað. Tókst samt að borða ekki yfir mig, ég veit ekki alveg hvernig ég fór að því. Grænmetið sumt gæti hafa verið það besta sem ég hef fengið. Lítið kjöt en fullt af alls konar grænmeti og ávöxtum.

Tók lestina heim á hótel ásamt Þórunni Sigurðar og upp á herbergi smástund. Eða átti að vera smástund allavega. Varð svo syfjuð um fimmleytið að ég lagði mig og vaknaði ekki fyrr en hálfátta.

Dreif mig út í annan göngutúr, úr því ég var svona voðalega ódugleg að kaupa miða á listviðburði var þó allavega málið að kynnast borginni. Unter den Linden í myrkri er ekkert leiðinleg sko! Jólaskraut farið að birtast í nokkrum verslunargluggum og allt upplýst þó allt sé lokað á sunnudögum.

Currywurst í kvöldmatinn, ekki alveg á pari við hádegið en ekkert svo slæmt samt. Ég hef aldrei smakkað currywurst áður og þetta var ekkert sem verstur skyndibiti.

Upp og skrifa færslu. Niður á bar að bíða eftir Parsifalförum og fleirum. Setið fram til hálfeitt við spjall. Ekki verst.

Berlin tag #2. Ausschlafen und spazieren

Steinsofnaði strax eftir birtingu á pósti gærdagsins! Klukkan hefur verið um hálfníu. Vaknaði um fjögurleytið, sofnaði aftur, rumsk klukkan sjö og svo ekki fyrr en hálftíu. Þrettán tíma svefn gerið svo vel! Minnti mig helst á þegar ég svaf yfir mig í Ítalíuferð Hljómeykis í fyrra og fólk hélt helst að ég lægi fárveik uppi á herbergi.

Ljómandi morgunmatur á hótelinu, upp í sturtu, smá net, (aðrar 10 evrur fyrir daginn, alveg hefði ég ekki pantað þetta hótel sjálf. Frítt net er eitt það fyrsta sem ég skoða þegar ég panta mér hótel).

Útsýnið af 29. hæð:

img_2789

Smá innkaupaleiðangur. Bara smá samt, þeas keypti ekki mikið en glápti þeim mun meira.

Vonda Evrópusamband með hættulega sýkta mat!

Svo var stefnan tekin á langan göngutúr með Váleiðsögumanni. Arkað af stað frá hótelinu. Sá þessa klukku:

img_2790

stoppaði og smellti af henni myndinni hér fyrir ofan, hálfhljóp svo af stað að ná hinum og datt í götuna. Beint á vinstra hnéð sem ég meiddi mig á fyrir nokkrum vikum. Urr. Hélt samt smá áfram, haltrandi en þegar ég fann að það vessaði einhver vökvi gegn um buxurnar mínar gafst ég upp, sagði skilið við hópinn og fór frekar í apótek. Þar var ekki til neinn silfurplástur (urr aftur), annað og stærra apótek, þar fékk ég allavega sótthreinsandi sprey og box af plástrum. Upp á hótel í viðgerðarleiðangur. Plástrarnir reyndust litlir og asnalegir, litu sannarlega ekki þannig út á myndinni en ég átti einn silfurplástur í töskunni og splæsti honum á hnéð. (Hafði ætlað hann á puttann á mér sem er enn lengri og leiðinlegri saga, þessi er alveg nógu leiðinleg).

Var hins vegar svo súr yfir að hafa misst af hinum að ég hringdi í meistara Tryggva og fékk hann til að spyrja að því hvort ég gæti farið í lest og náð hópnum einhvern veginn. Leiðsögumaðurinn vildi meina að það væri best að labba af stað og hitta okkur því það styttist í að þau nálguðust hótelið aftur.

Á Safnaeyju hringdi ég aftur og þá voru þau einmitt að koma þangað þannig að þetta náðist nú saman.

Bráðskemmtilegur túr það sem eftir var af honum, enduðum á heilmikilli sögu gyðinga í Berlín, hetjusögum og sorgarsögum og listaverkum til minningar um helförina.

Hótel. Planaður hittingur klukkan átta, hitti fleiri og rölt á eitt ítalskt veitingahús, ekkert pláss, ókí, næsta, pláss til hálftíu. Klukkutíma höfðum við til að panta og borða. Tróðumst fimm við fjögurra manna borð. Bara fínt samt.

Pantaði mér kálfshjarta á spínatbeði. Var verulega voguðust af okkur, hin pöntuðu sér rísottó með trufflum, ravioli með spínati og ricotta lasagna. Allt mjög gott, ég hefði samt ekki viljað skipta við neinn hinna. Hjartað var fáránlega gott, ég yrði ekki hissa þó það hefði verið marinerað í marsalavíni.

Hentum okkur sjálfum út ríflega klukkutíma síðar. Sáum ekki að fólkið sem átti borðið okkar pantað klukkan hálftíu væri mætt á svæðið þannig að við vorum í ágætis málum. Hótelið var næsti viðkomustaður, þar hittum við par úr hópnum og ekki vorum við fyrr sest en fleira fólk streymdi að. Skelltum saman nokkrum borðum og sátum lengi fram eftir, yfir drykkjum og fyrstu tölum þegar þær loksins sýndu sig.

Ekkert viss um að ég vilji neitt fara að tjá mig um kosningaúrslitin. En kokkteillinn var góður!

Berlín Tag #1 Dort und Wein

Jæja ferðablogg. Alveg nauðsynlegt, er það ekki annars? Það finnst mér skoh!

Kennaragengið úr Tónlistardeild Listaháskólans ásamt dittó frá Sviðslistadeildinni var búið að plotta mikið eftir beðna (er hægt að segja svona?) útlandaferð. Margbúin að fara með Suzukiliðinu, heldur sjaldnar með Hafnarfirði en LHÍ gengið var bara alls ekki búið að fara neitt.

Flugið var á algerlega óguðlegum tíma, flogið klukkan 06.10. Mæting klukkan 02.50 fyrir Engeyjarr- nei fyrirgefið Kynnisferðarútuna. Ég var búin að ákveða að fara í bælið klukkan tíu og athuga hvort ég næði að sofna og gæti þannig náð svona ríflega fjögurra tíma svefni en nei, hringir þá ekki kórstjóri í öngum sínum og sárvantar sópran í eldsnögga upptöku klukkan tíu. Bóngóða ég gat ekki sagt nei þegar maðurinn bar sig svona illa en fékk loforð um að þetta yrði búið hálfellefu, ég ætlaði þá bara að labba út. Tókst næstum því, ég var allavega komin aftur heim fyrir ellefu og fór að sofa.

Síminn pípti á mig klukkan 02.25, nesti og Jón Lárus skutlaði mér niður á BSÍ. Hitti þar nokkra mismyglaða ferðafélaga, þrjár stappfullar rútur út á völl. Gekk hnökralaust að skrá töskurnar inn og aldrei þessu vant engin röð í öryggistékki.

Venjulegi pakkinn í Leifsstöð, fékk mér ekki freyðivín í morgunmat þó kórstjórinn kvöldið áður segði að ég ætti sannarlega fyrir því. Reddast í Berlín! Rauðvínsflaska í fríhöfninni til að eiga uppi á herbergi. Keypti mér in-ear Sennheiser heyrnartól því ég gleymdi mínum risastóru heima.

Vélin af stað örlítið á eftir áætlun en það gerði ekkert til því það var þvílíkur meðvindur að við græddum það allt til baka. Steinsvaf mest af leiðinni. Berlín Schönefeld, lítill og krúttlegur völlur 40 mín frá miðborginni, (búið að leggja niður Tempelhof í miðborginni og Berlín varð ekki ónýt). Hress gaur frá váflugi kom með rútu og sótti okkur. Nei ekkert of hress, bara ljómandi skemmtilegur og sagði okkur frá því sem fyrir augun bar á leiðinni. Nestið étið í rútunni.

Hótel, riiisastórt, ég með einkaherbergi á 29. hæð og sko ekki efst! Herbergið ljómandi en netið dýrt og ömurlegt. Já ég er að skrifa bloggfærslu á dýru og ömurlegu neti. Næ ekki að tengja símann við netið sem ég keypti á 10 evrur sólarhringinn. Bögg.

Nújæja, ekki var planið að hanga inni á herbergi allan daginn. Ég var með eina sendiferð á dagskránni, heimsókn í spennandi vínbúð. Smá bögg (ókei ekki smá) að ná ekki netinu á símann og geta ekki notað google maps til að finna. Meiningin var að fara í þessa sendiferð á laugardagsmorguninn en hafandi svo sem ekkert sérstakt fyrir stafni síðdegis á föstudeginum ákvað ég að láta vaða. Tók smástund að finna lestina, hún hét S eitthvað og ég fann ekkert nema fullt af U inngöngum og H sem voru sporvagnarnir sem ég hélt annars að gætu verið S. S reyndist síðan vera Schnellbahnnet, ofanjarðarlestir. Besta mál. Hélt ég.

Keypti miða og fann rétta brautarpallinn. Þekkti ekki almennilega inn á endastöðvarnar þannig að ég spurði stelpu sem stóð og beið með mér hvort ég stæði réttu megin til að komast vesturúr. Jú jú sagði hún en athugaðu að það er verið að gera við teinana og það þarf að taka strætó eftir tvær stoppustöðvar. Bögg!

Ég út á þarnæstu stoppustöð. Klórandi mér í hausnum og skiljandi lítið í óskýru skilaboðunum í hátalarakerfi stöðvarinnar. Rölti út, var nærri búin að falla fyrir leigubíl en sá þá strætó sem stóð og beið og leit einmitt út fyrir að vera í framhaldsakstri. Hafði semsagt rambað beint á réttan útgang úr lestarstöðinni og beygt í rétta átt. Alveg af tilviljun.

Strætó fínn, sá ansi margt á leiðinni. Einfaldasta mál að finna vínbúðina. Innkaupaseðillinn virkaði samt ekki nema að hluta til, vínbúðin hafði fengið póst frá Jóni Lárusi um vínin sem okkur langaði að kaupa en tókst að misskilja hann alveg herfilega. Náði nú samt alveg að kaupa spennandi rauðvín.

img_2777

Svona lítur uppskeran semsagt út.

Níðþungt drasl, ég hafði ekkert ætlað að fara í vínbúðina þegar ég fór út þannig að ég var ekki með bakpokann minn og dröslaði þessu öllu til baka í strætó og lest og upp á hótel. Fór vitlausu megin út úr lestarstöðinni á Alexanderplatz og þetta blasti við:

img_2776

Inn og út aftur hinu megin, inn á hótel, fram hjá Börger King stað inni í hótelbyggingunni, ætti ég að fá mér bara svoleiðis í kvöldmat upp á herbergi? kannski? upp á 29. hæð og losna við vínin, niður aftur að fá mér að borða, þetta fína bistró og bar freistaði óneitanlega meira en Börgerking. Þar inni sátu svo Tryggvi, Ibba og Elín Anna. Bættist í hópinn og ánægjuleg kvöldmatarstund.

Þau stímdu á tónleika í Berlínarfílharmóníunni, ég hafði ekki keypt miða á þetta og fór upp á herbergi alveg útúrkeyrð. Öfundaði þau samt pínu af að vera að fara á tónleika í þessu stórkostlega húsi hjá þessari stórkostlegu hljómsveit. Samt ekki. Sú öfund var víst pínu endurgoldin.

Herbergi. Rauðvínsglas úr fríhöfninni. Náttföt. Blogg.

Meira á morgun.


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

október 2016
S M F V F F S
 1
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
3031  

sagan endalausa