Lufsuðumst á lappir upp úr klukkan 10, fengum morgunmat og fórum niðureftir (vorum sótt). Höfðum æfingartíma í litla salnum í um hálftíma, svo konsert. Það var alveg ágætlega mætt á hádegistónleikana, salurinn var lítill en þétt setinn. Þarna sungum við þjóðlagaútsetningar og spiluðum frumsamda tónlist (kvartett eftir Gunnar Reyni). Fengum töluvert hrós. Eftir tónleikana hlupum við á annan stað til að hlusta á Åssidens Skolekor, þau sungu A Ceremony of Carols eftir Britten, alveg ljómandi vel. Eftir það löbbuðum við niður í bæ og slöppuðum af. Fórum í Kaupfélag staðarins (EPA) og niður á torg.
Frá hálfsex til sex fengum við hálftíma æfingartíma í stóra salnum. Það var í fyrsta skipti sem við sungum og spiluðum þar og fengum reyndar hálfgert sjokk, það var nefnilega alls ekki þægilegt að syngja þar. Ágætt að hlusta en vont að syngja (öfugt við Háskólabíó, þar finnst manni allt í lagi að syngja en hljómar hins vegar illa úti í sal). Fórum satt að segja í frekar vont skap, leist ekki nógu vel á tónleikana um kvöldið. Renndum prógramminu einu sinni í gegn og fórum síðan út. Við sem vildum vorum keyrð upp í Ramsvik, tónleikarnir áttu ekki að byrja fyrr en klukkan hálfníu um kvöldið. Vorum reyndar að hugsa um að vera bara niðurfrá en sem betur fór ákváðum við að drífa okkur. Reyndist nefnilega akkúrat það sem við þurftum til að frískast upp og losna við vonda skapið. Fengum te og brauð og ávexti og lögðum okkur smástund. Og héldum góða skapinu á lofti þannig að þegar við vorum sótt aftur voru allir komnir í ágætisskap aftur. Sem betur fór. Annars hefði konsertinn ekki gengið eins vel og raun bar vitni. Jón Ásgeirsson (píanókvartett um íslensk þjóðlög) var aðalnúmerið, enda mjög skemmtilegur að hlusta á. Eftir konsertinn og þakkirnar og hamingjuóskirnar fórum við niður í Rauða Sjóhúsið (skemmtistaður þar sem efri hæðin var frátekin fyrir NMPU mótið – það hefðum við gjarnan viljað vita fyrr). Sungum, drukkum bjór og borðuðum pizzu með Færeyingunum og Åssidens Skolekor. Skemmtum okkur alveg stórvel.
Heim um þrjúleytið um nóttina, hljómsveitaræfing morguninn eftir.
Nýlegar athugasemdir