Sarpur fyrir ágúst, 2010

Stavanger dagur #6

Lufsuðumst á lappir upp úr klukkan 10, fengum morgunmat og fórum niðureftir (vorum sótt). Höfðum æfingartíma í litla salnum í um hálftíma, svo konsert. Það var alveg ágætlega mætt á hádegistónleikana, salurinn var lítill en þétt setinn. Þarna sungum við þjóðlagaútsetningar og spiluðum frumsamda tónlist (kvartett eftir Gunnar Reyni). Fengum töluvert hrós. Eftir tónleikana hlupum við á annan stað til að hlusta á Åssidens Skolekor, þau sungu A Ceremony of Carols eftir Britten, alveg ljómandi vel. Eftir það löbbuðum við niður í bæ og slöppuðum af. Fórum í Kaupfélag staðarins (EPA) og niður á torg.

Frá hálfsex til sex fengum við hálftíma æfingartíma í stóra salnum. Það var í fyrsta skipti sem við sungum og spiluðum þar og fengum reyndar hálfgert sjokk, það var nefnilega alls ekki þægilegt að syngja þar. Ágætt að hlusta en vont að syngja (öfugt við Háskólabíó, þar finnst manni allt í lagi að syngja en hljómar hins vegar illa úti í sal). Fórum satt að segja í frekar vont skap, leist ekki nógu vel á tónleikana um kvöldið. Renndum prógramminu einu sinni í gegn og fórum síðan út. Við sem vildum vorum keyrð upp í Ramsvik, tónleikarnir áttu ekki að byrja fyrr en klukkan hálfníu um kvöldið. Vorum reyndar að hugsa um að vera bara niðurfrá en sem betur fór ákváðum við að drífa okkur. Reyndist nefnilega akkúrat það sem við þurftum til að frískast upp og losna við vonda skapið. Fengum te og brauð og ávexti og lögðum okkur smástund. Og héldum góða skapinu á lofti þannig að þegar við vorum sótt aftur voru allir komnir í ágætisskap aftur. Sem betur fór. Annars hefði konsertinn ekki gengið eins vel og raun bar vitni. Jón Ásgeirsson (píanókvartett um íslensk þjóðlög) var aðalnúmerið, enda mjög skemmtilegur að hlusta á. Eftir konsertinn og þakkirnar og hamingjuóskirnar fórum við niður í Rauða Sjóhúsið (skemmtistaður þar sem efri hæðin var frátekin fyrir NMPU mótið – það hefðum við gjarnan viljað vita fyrr). Sungum, drukkum bjór og borðuðum pizzu með Færeyingunum og Åssidens Skolekor. Skemmtum okkur alveg stórvel.

Heim um þrjúleytið um nóttina, hljómsveitaræfing morguninn eftir.

Stavanger dagur #5

Við vorum _sérlega_ upplitsdjarfar þegar við rifum okkur upp tveimur tímum eftir að hafa farið í háttinn en hljómsveitaræfingin beið víst ekki eftir að okkur þóknaðist að vakna. Þannig að við fórum á fætur klukkan 8, ösluðum gegnum venjulegu teppiseðjuna, slabb slabb.

Við vorum sótt 20 mín. fyrir 9. Keyrð til Tastaveden skóla þar sem æfingin átti að vera. Okkur leist minna og minna á þetta, helst leit út fyrir að fólkið sem átti að spila með okkur hefði lært max. 1 ár á hljóðfærin, amk. strengjaleikararnir. Það voru 2 konur þarna (örugglega útkjálkafiðlukennarar) sem gátu svolítið spilað en greinilega óvanar hljómsveitavinnu (finnst þér ekki augljóst að ef maður á að spila langan tón í crescendo að byrja þá á uppstroki? Þær föttuðu það ekkert fyrr en þær sáu okkur Hildu gera slíkt). Hinir voru svona ca. fyrsta árs nemendur. Verkið (Latin Suite eftir Bent Lorentzen) var svona effektastykki, ekkert erfitt þegar maður er búinn að fatta það. En þessi æfing var samt ein alleiðinlegasta upplifun ævi minnar. (gæti svo sem líka haft með eigin svefnleysi að gera). Við flýttum okkur, þegar æfingin var búin, að biðja um frí daginn eftir vegna þess að þá áttum við að halda tvenna tónleika. Það var sem betur fer auðsótt. Æfingin var búin klukkan 11 og svo átti að vera matur klukkan 12:30. Við nenntum ekki að hanga þarna í 1 1/2 tíma, þar sem ekkert var við að vera þannig að við löbbuðum niður í bæ. Tvö okkar ætluðu svo að koma aftur í skólann og borða en við Bryndís vorum búin að ákveða að fá okkur pizzu niðri í bæ. Tók kortér að labba niður í Tónlistarhús þar sem við gátum skilið hljóðfærin eftir og svo annað kortér niður í miðbæ. Skoðuðum pínulítið í búðir en fórum svo á pizzustaðinn (Peppe’s, mjög góðar pizzur). Þau tvö sem höfðu ætlað að fara til baka í skólann hættu við og fengu sér pizzu með okkur því þau nenntu ómögulega að labba hálftíma til að fá mötuneytismat. Sáu ekki eftir því, þar sem þetta var besti maturinn sem við fengum alla ferðina, kannski fyrir utan kjúkling og salatbar sem við keyptum á Grand Café í Osló á leiðinni til Stavanger. Á meðan hinir… tja…

Þegar við komum aftur upp í konserthús til að æfa fyrir tónleikana daginn eftir hittum við hina í hópnum (sem voru ekki í hljómsveitinni). Þau spurðu okkur hvar við hefðum verið, þar sem þau höfðu ekki séð okkur í matnum. Þau höfðu fengið einhverja viðbjóðslega kássu; soðið kjöt, grænmeti og kartöflur, allt algerlega mauksoðið og fullkomlega bragðlaust. Það hlakkaði náttúrlega í okkur hljómsveitargenginu.

Þennan dag, daginn fyrir konsertana okkar, fengum við að æfa í 2 tíma í litla konsertsalnum. Það var fínt. Hefðum reyndar líklegast verið rekin út ef mamma hefði ekki tilfallandi verið með blaðið með æfingatímunum þar sem stóð svart á hvítu að við ættum salinn þennan tíma. En við vorum semsagt heppin með það. Höfðum salinn frá 5-7.

Fórum svo heim til Ramsvíkur. Lyktin á ganginum var verri en nokkru sinni fyrr. Teppið var samt farið að þorna frá um nóttina. Allt í einu stoppaði ég. „Bryndís“! „Já“? „ÞAÐ RIGNDI EKKERT Í NÓTT!!!“

Geturðu ímyndað þér hvað þessi leki reyndist vera? Frárennslisvatnið frá sturtunum á hæðinni fyrir ofan!!! Ekki furða þó það hafi alltaf lyktað illa. Þetta myndu held ég flestir kalla óheilsusamlegar aðstæður. Eða hvað?

Ég var annars held ég ekki búin að lýsa fyrir þér herbergjunum. Við 9 fengum 2 1/2 herbergi (2 herbergi og stóran fataskáp með rúmi) Mamma og pabbi fengu fataskápinn, strákarnir tveir gátu breitt úr sér í stóru herbergi og við stelpurnar 5 höfðum eitt herbergi saman, sem betur fer þokkalega stórt. Þar var 1 rúm, 1 sófi og þrjár sváfu á dýnum á gólfinu.

En þetta var nú útúrdúr. Þarna um kvöldið borðuðum við ávexti, osta og smá bjór og allir fóru snemma að sofa, enda urðum við að vera vel upplögð fyrir tónleikana daginn eftir. Íslenskur tónmenntakennari sem var þarna á mótinu átti að stjórna samsöng með íslenskum lögum morguninn eftir og hafði ætlað að biðja okkur að leiða sönginn en hætti sem betur fer við það svo við fengum að sofa út.

Stavanger dagur #4

Við höfðum það bara gott á sunnudeginum, sváfum nokkurn veginn út. Enda þurftum við að standa brunavakt nóttina eftir. Teppið á ganginum var rennvott, að venju, og einhver minntist á hvað það væri skrítið með veðrið þarna, það rigndi alltaf á nóttunni, þó sæmilegt væri yfir daginn. En við fáruðumst ekkert meira yfir því. Æfðum ekkert þennan dag, bara lágum í leti í „skýjað með köflum“ veðri, löbbuðum út í sjoppu til að kaupa póstkort o.s.frv. Skoðuðum fiskinn niðri við bryggju (í Ramsvik) og komumst að þeirri niðurstöðu að þarna væri lítið um vandamál, væri meiraðsegja hægt að veiða sardínur í olíu.

Lufsuðumst niður í bæ + ætluðum að fá okkur að borða einhvers staðar. En – enn eitt undur þessa bæjar kom okkur fyrir sjónir. ÞAÐ VAR ALLS STAÐAR LOKAÐ!!! Bærinn er að reyna að lokka til sín túrista en – túristar þurfa líka að borða á sunnudögum. Það hugsar greinilega enginn út í! Við fórum upp í konserthús og hlustuðum á hálfan kvöldkonsert (salsa-band í meðalgæðum). Orkuðum svo ekki meira (höfðum heyrt seinna ensemble tónleikanna æfa og ekki litist á blikuna) þannig að við fórum út. Rifumst svolítið um hvort við ættum að taka með okkur hljóðfærin til Ramsvik þar sem við áttum að fara á hljómsveitaræfingu morguninn eftir. Siggi harðneitaði að burðast með sellóið niður í bæ, það varð úr að ég hringdi á leigubíl og krakkarnir nema við Bryndís fóru heim með honum. Siggi ætlaði reyndar niður í bæ aftur að fá sér einn bjór, vissi um opna krá. Við ákváðum að gera það líka. Löbbuðum niður í bæ en leist ekkert á krána, allt of löng biðröð. Enduðum a hamborgarastandi sem fyrir eitthvert kraftaverk var opinn til 10. Fórum svo bara heim í strætó. Við áttum bjór þar sem notast skyldi á næturvaktinni. Komnar heim fórum við að raða niður á vaktir. Hilda, Marta og Hulda voru stálheppnar, fengu vaktina frá 11-1 (það var náttúrlega enginn farinn að sofa hvort eð var). Við Bryndís áttum vakt frá 1-3, svo Siggi og Gunnar til 5, síðast mamma og pabbi frá 5-7. En það varð bara ekki svoleiðis. Klukkan hálftvö fóru allir nema við Bryndís og Siggi að sofa, fyrir utan 3 af Færeyingunum þó þeir ættu ekki vaktir þessa nótt. Við sátum þarna að tali og sumbli, (Bryndís átti romm og við rændum Jolly Cola inni í ísskáp), Siggi fór upp klukkan hálffimm en við Bryndís og færeyingarnir til klukkan sex. Þá vöktum við Gunnar og hann tók við.

Stavanger dagur #3

Big-bandið var með seinni tónleikana sína þennan dag, þeir tókust ekki alveg jafn vel og þeir fyrri, spurning hvort það hafði eitthvað með að gera að hafa vakað til hálfsex um nóttina.

Þetta kvöld var svo hin stórkostlega NMPU veisla sem allir höfðu beðið eftir í ofvæni (!?). Það var það skrítnasta sem ég hef vitað en þegar ég hugsa um það eftirá get ég drepist úr hlátri. Byrjaði á því að við vorum sótt upp í Ramsvik kl. 7. Fengum sér rútu fyrir okkur og Færeyingana sem voru með okkur í húsinu. Allar 5-6 rúturnar með ráðstefnugestina fylgdust að. Keyrðum í amk. klukkutima, gegnum bæi, kringum bæi, króka + lykkjur meðfram fjörðum og víkum og vogum. Sáum fullt af flottum húsum og alltaf var einhver að segja: „Þarna hlýtur veislan að vera“. En nei, áfram var haldið þar til við loksins renndum í hlað í – hvað heldurðu? Sandnes Psykologiske Institutt og Mentalsykehus!!! Geturðu ímyndað þér hlátursöskrin í rútunum? Við vissum sko ekki að við hefðum hegðað okkur SVONA illa! Veislan var semsagt í íþróttasal geðsjúkrahúss fylkisins. Og pabbi sem hafði einmitt sagt í byrjun ferðar að þetta hlyti að vera Hraðferð-Kleppur, (við létum svo illa). Sjálf veislan byrjaði á því, þegar fólk var sest, að bera inn matinn. Fyrst komu kartöflur. Svo leið hálftími. Þá kom sósan. Borðin voru nefnilega ansi mörg og fátt í þjónustuliðinu. Við sátum nokkurn veginn fyrir miðjum sal, en heldurðu að þeim hafi samt ekki tekist að klára allt kjötið áður en kom að okkur. Ég, Bryndís, Siggi, Hulda, Marta og Gunnar vorum þau einu í öllum salnum sem ekki fengu neitt. Þetta var svo dæmigert fyrir allt sem á undan var gengið að við lágum fram á borðið í krampa. Svo þegar gestgjafinn steig á svið og spurði hvort allir hefðu fengið mat, þá æptum við auðvitað: NEIII! Fengum afsökunarbeiðni og loforð um mat eftir smástund, það þyrfti að sækja hann niður í Sandnes. Við biðum í um klukkutíma. Það var náttúrlega allt morandi í ræðuhöldum á meðan, en við vorum sko ekki að hlusta. Létum þögla brandara fjúka – ein okkar setti tauservéttu á diskinn sinn, saltaði og pipraði og réðst á hana með hnífapörunum. Svolítið svöng sko…

Fórum að tala um hvernig við ættum að taka á móti norskum hóp frá Stavangri til Garðabæjar. Til dæmis planta þeim út á Álftanes + segja „þið verðið að taka strætó í bæinn til að fá að borða, verst hann gengur ekki nema einu sinni í viku“.

Nú á endanum fengum við alveg ágætan mat, betri en hinir því allt kom á sama tíma og var heitt.

Hins vegar nálgaðist hátíðarræða NMPU þannig að við flýttum okkur eins og við gátum að borða til að geta flúið út úr salnum. Sú ákvörðun reyndist rétt, karlanginn talaði í einn og hálfan tíma – nei annars, 40 mínútur en það er jú alveg nógu langt! Var víst alveg hundleiðinlegur og allir urðu að sitja grafkyrrir og hlusta, þetta átti að vera svo yfirmáta hátíðlegt. Fullkomlega + algerlega misheppnað.

Eftir ræðuna var borinn fram ís. Klukkan var þá orðin hálftólf (byrjaði klukkan 8). Þetta var svo dæmigert fyrir skipulagninguna á hátíðinni að þú trúir því ekki.

Loksins þarna varð svolítið gaman (þeas. fyrir hitt fólkið líka). Big-bandið spilaði fyrir dansi og við dönsuðum stanslaust til klukkan eitt. Hefðum reyndar frekar viljað hafa big-bandstrákana með okkur en að spila, bandið keyrði nefnilega af stað í tónleikatúrinn niður Evrópu strax eftir hófið. Kveðjustundin varð heldur stutt, rétt tími til að skiptast á heimilisföngum. Helst vildum við síðan fá bandið í konsertferð til Íslands. Sjáum til.

Stavanger dagur #2

Vöknuðum um morguninn ca. klukkan 8. Greinilegt var að það hafði rignt um nóttina (gólfið var nefnilega blautt frammi á gangi). Hlaut að vera sprunga í veggnum þar sem þetta var á annarri hæð af þremur + ris. Okkur fór að renna grun í hvers vegna þessi ólykt var á ganginum. Hrósuðum bara happi yfir því að lekinn náði ekki inn í herbergi!

Þessi dagur fór í að labba – við æfðum reyndar 2 tíma, fórum á konsert með sæmilegum dönskum barnakór. Skemmdi reyndar svolítið fyrir sér með því að enda 3 af 4 lögum á dúrhljóm með sexund. Svolítið leiðigjarnt. Þau eru annars að koma til Íslands í haust (<= útúrdúr). Eftir konsertinn þvældumst við um bæinn í lengri tíma. Það lokar allt þarna snemma, búðir byrja að loka um 4 og eftir klukkan 6 er allt lokað. Æðislega asnalegt. Versta var þó að það var bannað að selja bjór eftir kl. 5:00. Hann er þá bara fjarlægður úr hillunum! Hef ekki vitað asnalegra (nema hér þá (bjórferlíki og bjórlíkhús)) En hér eftir kemur Stavangerbær alltaf til að heita „bannað eftir fimm“.

Um kvöldið var svo annar konsert. Fyrst strengjakvartett frá Þrándheimi. Mjög gott, miðað við aldur krakkanna (11-14 ára). Síðan voru Færeyingarnir, þau spiluðu ansi vel. Síðast var svo Telge Big Band. Þeir voru ekki bara skemmtilegir, spiluðu líka æðislega vel. Big band músík er ótrúlega hrífandi (ég vildi ég kynni á trompet).

Þetta kvöld skemmtum við okkur heldur betur (ég fór ekki að sofa fyrr en 05:30 sem er seint, þegar maður þarf að fara á fætur kl. 8:00!!!) Þetta var líka síðasta kvöldð sem big-bandið var þarna með okkur, þeir eru á konsertferðalagi um Evrópu, strax og þeir voru búnir með sína konserta þarna. Hvort það varð tómlegt eftir að þeir fóru? Gettu þrisvar!

eldgömul ferðasaga

Eins og dyggir lesendur þessa bloggs hafa væntanlega tekið eftir, hefur það eiginlega breyst í ferðasögublogg með fáeinum öðrum færslum inn á milli, svona þegar eitthvað liggur á hjarta sem þarf lengra mál en flettismettistatus (ég ÆTLAÐI ekki að hrynja svona – dauðsé eftir blogginu sko).

Nú sé ég ekki fram á neinar ferðir til að skrifa sögur um næstu marga mánuði (stefnt á Boston í mars reyndar, en það er laaaangt þangað til). Þannig að mér datt í hug að henda inn gömlu ferðasögubréfi sem ég skrifaði til vinkonu minnar eftir kórferð til Noregs þegar ég var, tja, ríflega tvítug.

Já, hvers vegna ég eigi bréfið? – ég tók reyndar ljósrit af því áður en ég sendi…

Ferðin var á NMPU þing (Nordisk musikpedagogisk union) í Stavanger, við vorum um 10 krakkar sem bæði sungum og spiluðum á hljóðfæri, fórum sem fulltrúi Íslands undir stjórn móður minnar.

Byrja eftir smá inngang sem kemur hvorki sögunni né ykkur nokkurn hlut við.

Nú nú, ætli ekki sé best að byrja á ferðasögunni. Eins og að hefur verið ýjað tóku Norðmenn ekki ýkja höfðinglega á móti okkur, þú hefðir t.d. átt að sjá húsið sem við sváfum í (tja, það varð svo sem ekki mjög mikill svefn, því skal ég segja frá svolítið seinna). Leit ekkert mjög hryllilega út að utan en herbergin voru ferlega shabby, vægast sagt. Og GANGURINN, oj barasta! Það var ógeðsleg lykt þar, sem magnaðist með hverjum deginum sem leið. Það var viss ástæða fyrir því!

Nú, þegar við komum þarna fyrst, leist okkur heldur lítið á þetta. Fengum morgunmat, brauð, te, jarðarberjasultu og lifrarkæfu, það var svo sem ágætt (við urðum samt svolítið leið á því, fengum þetta sama hvern morgun og hvert kvöld meðan við vorum þarna). Fengum nóg af þessu, eins mikið og við vildum, konan sem sá um okkur þarna var alveg ágæt. Eftir morgunmatinn fórum við niður í bæ => upp í konserthús. Vorum við opnun þingsins, þar spilaði Rogalands Ungdomssymfoniorkester. Þau spiluðu meðal annars síðasta kaflann úr fimmtu sinfóníu Beethovens EINFALDAÐAN!!! Það myndi ekki einu sinni (setjið hér inn nafnið á ómerkilegum hljómsveitarstjóra – ritskoðað) gera! Hálfgerð guðspjöll (guðlast/helgispjöll). En það var svo sem í lagi (ég meina spilamennskan).

Á eftir fórum við að vesenast í hvernig þetta ætti að vera allt saman. Fengum að vita að við yrðum sótt í allt sem við þyrftum að mæta í (hljómsveitaræfingar og konserta). Fyrir aðrar ferðir myndum við sjálf borga í strætó, gætum líka alveg verið uppi í Ramsvik þar sem við bjuggum. Nema hvað, við áttum auðvitað að borða í Konserthallen í hádeginu en það þurftum við náttúrlega ekkert. Borða – til hvurs??! En við fengum þessu ekkert breytt þannig að það þýddi ekkert að hugsa um það (kom í ljós að við hefðum eins getað sleppt þessum mat; fyrsta daginn fengum við tvær minikjötbollur, 2 stórar (!!) kartöflur og smá sósulafs, vatnsþunnt. Annað eftir þessu).

En við ákváðum að gera eins gott og hægt var úr fremur lélegum aðstæðum. Eins gott að byrja á jákvæðu hugarfari. Þessu héldum við svo áfram, gerðum bara grín að öllu saman. Ekki veitti af.

Við ákváðum að æfa á hverjum degi fram að konsertum, (það veitti ekkert af því heldur) og fengum stofu í Musikkskolen sem við gátum æft í og læst hljóðfærin inni yfir nóttina svo við þyrftum ekki að dröslast með þau fram og til baka frá Ramsvik á hverjum degi. Það var mikill munur. Nefnilega ekki svo auðvelt að komast frá Ramsvik til konserthússins, það gekk strætó frá miðbænum (svona þriggja kortéra ferð – innskot) og síðan var kortérs gangur í húsið.

Þegar við komum aftur til Ramsvik um kvöldið hittum við big-bandið sænska, þá grúppu sem við áttum eftir að hafa mest samskipti við, allavega ég og tvær vinkonur mínar. Fundum okkur strax kavaléra, Jonas, Jonas og Janus (kallaðir Jomas hinn símalandi, (J)Onassis og Pianus (sá spilaði á píanó), þeir snerust í kring um okkur sirkabát þar til þeir fóru. Það var fínt, mikið meira en annars.

Nú nú, þessa fyrstu nótt fórum við (þrjár) að sofa um klukkan 2:30. Ekki sem verst.

Framhald einhvern næstu daga.

vá hvað

ég er gríðarlega ánægð með sjálfa mig núna – ákvað að gera úrslitatilraun til að setja inn íslenska stafi í Finale, neyddist til þess nefnilega fyrir nokkru síðan þegar vélin mín hrundi, að uppfæra stýrikerfið í snjóhlébarðann (Snow Leopard, nýjasta Makkastýrikerfið). Hingað til hefur engum tekist að ná íslensku stöfunum inn, en eftir smá fikt, reyndar minna en ég hélt, gekk þetta bara í gegn. Ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum þegar stafirnir birtust í textaboxinu (maður skrifar textann yfirleitt fyrst inn í box og límir síðan undir nóturnar frekar en að skrifa beint í nóturnar. Hljómar asnalega en er samt talsverður kostur, hægt er að taka texta úr öðrum skjölum og líma inn í textaboxið og eiga aðeins við hann þar, frekar en að slá allt beint inn. Það er reyndar líka hægt að skrifa beint undir nóturnar ef vill). Allavega komu stafirnir í textaboxið, ég hélt niðri í mér andanum meðan ég límdi hann síðan við nóturnar, en þeir héldust inni. Alla leið yfir í prentun og .pdf skjal.

Jei!

til hamingju með daginn

allir mínir samkynhneigðir, gagnkynhneigðir og/eða tvíkynhneigðir vinir, kunningjar og aðrir lesendur!

ekki versla við Hljómsýn og Litsýn

minns er fúll núna!

Forsagan: Fjölskyldan gaf mér heyrnartól í jólagjöf, ég á erfitt með að vinna heima nema þegar ég er ein, þar sem tónsmíðar þurfa talsverða einbeitingu og gengur illa ef einhver er með sjónvarpið í gangi niðri í herbergi fyrir neðan skrifstofuna mína (tröppur á milli, ekki hægt að loka). Þannig að mig var farið að langa í góð heyrnartól. Fórum fyrst í Pfaff til að athuga með Sennheiser, því miður voru ekki til þar tól sem mér fannst henta mér. Við í Hljómsýn og fundum þar þessi og leist vel á. Smelltum okkur á þau.

Nema hvað. Við erum búin að nota þau og passa gríðarvel upp á þau í rúmlega hálft ár, sándið fínt, ekkert upp á það að klaga. Einn daginn sit ég inni í stofu og Freyja hjá mér. Hún ætlar að fara að horfa á einhvern þátt í tölvunni, tekur heyrnartólin og ætlar að setja þau upp á höfuðið. Nema spöngin bara brotnar! Hún er þá úr einhverju ósköp venjulegu plasti, ekkert styrkt. Freyja var ekkert að þvinga þau út og hún er ekki höfuðstór, var bara að smeygja þeim ósköp venjulega upp á höfuðið. Hreint ekki verið að fara illa með þau á nokkurn hátt.

Ég nokkrum dögum seinna í Hljómsýn og lýsi atvikum. Fæ þar mjög almennilegan starfsmann sem segist ætla að athuga hvort ekki sé hægt að græja þetta fyrir mig. Heyri svo ekkert frá þeim í um 3 vikur. Fer núna eftir helgina og þá var komið annað hljóð í strokkinn. (annar afgreiðslumaður sem ég áttaði mig síðan á að var eigandinn): Þið hljótið að hafa farið illa með þetta, svonalagað brotnar ekkert við eðlilega notkun. Við höfum ekkert með þetta að gera. Farðu bara upp í Litsýn, þeir sjá um viðgerðir fyrir okkur. Sagt með talsverðum þjósti.

Ókei, shit happens, við getum auðvitað ekki sannað að það hafi ekki verið farið illa með græjuna. Upp í Litsýn.

Þar er ósköp almennilegur afgreiðslumaður, tekur á móti heyrnartólunum, spyr mig hvað þau hafi kostað (30 þúsund – áttu reyndar að vera heldur dýrari), jújú þá geti nú verið að það fáist varahlutur. Ég heim. Strax daginn eftir fæ ég sms um að þetta sé tilbúið. Þangað aftur og jú jú, viðgerðin búin en getið hvað þetta kostaði.

Fimmtán þúsund fjögur hundruð og áttatíu krónur takk.

Ég ætla ekki að efast um að þetta hafi verið talsverð vinna, en að manninum skyldi ekki detta í hug að hringja í mig þegar hann áttaði sig á því hvað þetta gæti orðið dýrt og spyrja hvort ég vildi samt láta gera við – það get ég ómögulega skilið. Hefði ekki dottið það í hug – annaðhvort fengið að kaupa varahlutinn og altmuligmanden minn hefði fiktað þetta saman, eða þá bara taka fram duct tape og vírherðatré eða álíka.

Allavega mun ég væntanlega hvorki stíga fæti inn í búðina né viðgerðarþjónustuna aftur. Grrrr!


bland í poka

teljari

  • 377.779 heimsóknir

dagatal

ágúst 2010
S M F V F F S
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
293031  

sagan endalausa