Sarpur fyrir júní, 2019

Salzburg Tag eins

nauh haldið þið ekki að það sé ferðablogg. Aftur? Strax?

uh já.

Dómkórinn minn kæri á leið til Saltborgar í kórakeppni. Það er þannig þegar kórar fara í kórakeppni þá er lagt vel í og fullt af æfingum raddæfingum, tækniæfingum, samæfingum, aukaæfingum, allt er þetta ekki til þess gert að kórinn standi sig vel í keppninni þó það mætti halda. Kór verður ekki góður til að standa sig vel í keppni, kór fer í keppni til að verða góður!

Svona svipað og með tunglferðina í BNA

og skilji þau sem vilja!

Allavega.

Vaknað fjögur. Stuð! Freyja skutlar á völl, höfðum lofað að sækja hana Jónínu út í Skerjafjörð, lögðum af stað á sekúndunni hálffimm (ok innan mínútunnar sem sýnir hálffimm á símanum) eins og til stóð. Vorum svo reyndar pínu stund að finna Reynistað en gekk á endanum.

Hittum uppáhalds ferðafélagana í fríhöfninni. (mynd af þeim neðar). Nord skyldi það vera og mímósa. Var búin að vera hálfskrítin í maganum dagana á undan en hann hagaði sér nokkurn veginn þarna.

Flugtíminn stóðst upp á punkt og prik, vorum hálfsúr yfir að vera plantað sitt hvoru megin við gang í röð 12 í vélinni en svo kom í ljós að áðurnefnt uppáhaldsfólk var í röðinni og svo var þetta vél með Saga class svo röð 12 var bara rétt við inngang svo það gerði ekki bofs til.

Í skemmtara vélarinnar reyndist að finna ræmuna Crimes of Grindelwald sem við höfðum misst af í bíó svo megnið af leiðinni fór hjá okkur báðum í að glápa á hana. Svo sem ágætt að hafa sleppt henni í bíó, greinileg millimynd en samt fínt að ná henni. Fyrsta var góð.

Flogið til München og beðið þar lengur en til stóð, þar sem gleymst hafði að koma með annars kyrfilega pantaðan bílstól fyrir hann Hilmar litla, son Guðbjargar sópransólistans okkar. Biðraðir og hætt við biðraðir og aftur biðraðir við einu sjoppuna á svæðinu, frekar mikið óundirbúna fyrir svona hóp.

Rútan var tveggja hæða. Við upp.

Þar var heitt.

Við í rútunni

en það stóð til bóta þegar rútan með fúla bílstjóranum lagði í hann.

Við uppi á lofti höfðum lítið af honum að segja sem betur fer samt.

Nema það að hann var svo fúll að hann ákvað að stoppa ekki fyrir utan innganginn að hótelinu sem hann hefði annars bara mjög vel getað gert (sáum mökk af rútum stoppa þar meðan á dvöl okkar stóð og þau hin voru sótt beint þangað á rútu) heldur stoppaði á þröngri gangstétt hinu megin við hótelið.

Allt gekk þetta nú samt á endanum.

Hótelið alveg ágætt, herbergið okkar Jóns Lárusar vel stórt með sófahorni sem nýttist bara ansi hreint vel í ferðinni.

Sturta og hótelbar.

Hittingur um klukkutíma síðar og stefnt niður í bæ. Þessir ferðafélagar eru ekki af verra taginu!

Salz félagar.jpg

takið eftir snúrusalatinu fyrir aftan, þarna voru rafmagnsstrætóar sem gengu fyrir svona.

Niður í bæ, göngugatan sem við áttum eftir að þekkja ansi vel, yfir ána, fram hjá dómkirkjunni sem við áttum líka eftir að kynnast betur og upp á Stieglkeller eða Stígvélakjallara sem var hæsti kjallari sem ég hef á ævi minni komið í! Fjórða hæð og uppi í hlíð! Hér má sjá útsýnið úr kjallaranum:

Ljómandi matur, þríréttað, við Jón höfðum bæði valið okkur svín með knödel, erum reyndar lítið fyrir knödel en svínið var mjög gott, meyrt og passlega feitt og kryddað, alveg eins og það átti að vera!

Þessir ferðafélagar áttu eftir að koma mjög mikið við sögu!

Salz bestu mín!

Röltum heim, ansi hreint lúin eftir langan dag. Ferðafélagarnir hér fyrir ofan kíktu í heimsókn í sófakrókinn og hvítvínsglas. Svo sofa! Ekki veitti af!

Barcelona dia cinc

Lokadagur og heim. Sólarupprásin af fallegra taginu:

Barcelona morgunsól

Flugið okkar var ekki fyrr en seinnipartinn og það átti að pikka okkur upp á hótelinu hálffjögur og keyra út á völl. Tékkað út fyrir klukkan tólf eins og venjan er. Við nenntum nú ómögulega að vera eitthvað að hanga á hótelinu til að tékka okkur út á lokasekúndunni svo eftir morgunmat og sturtu rusluðum við saman herberginu og skiluðum lykilkorti um hálftíu.

Stefnan tekin á skólann hennar Fífu, rétt til að sjá nú hvernig þetta hefði litið út hjá henni. Skólinn hennar heitir IAAC eða Institute for Advanced Architecture of Catalonia og deildin heitir Master in design for emergent futures og hefur með að gera hinar og þessar leiðir til að finna út og dreifa vitneskju um hvernig þetta mannkyn getur haldið áfram að búa á þessum hnetti.

Fífa hafði ekki mikinn tíma til að sýna okkur en smá gátum við nú séð frá því sem bekkurinn hennar var að gera. Mjög fjölbreytt. Hún er að vinna lokaverkefni tengt microbiome og hvernig bakteríuflóran er okkur nauðsynleg. Asnaðist ekki til að taka neinar myndir á svæðinu.

Kvöddum hana síðan í þetta skiptið, sakn þar til í haust!

Þá bara lokatúristapakkinn. Fórum og fengum okkur að borða á einu fjölmargra smátorga. Mest óspennandi matur ferðarinnar. Meritar ekki lýsingu. Ég var búin að finna út að allir sumarkjólarnir mínir væru orðnir meira og minna blettóttir, trosnaðir og jafnvel götóttir svo ég var á höttunum eftir einum eða tveimur. Og svo þurftum við að fara í vínbúðina frá laugardeginum til að sækja pöntunina sem við höfðum lagt inn.

Gekk allt saman upp. Enduðum niðri á höfn.

Barcelona höfn

Hafnarsvæðið er rosalega skemmtilegt orðið. Því var umbylt algerlega fyrir ólympíuleikana, eins og reyndar ansi miklu af borginni, hún var tekin mjög vel í gegn. Þessi göngubrú er að ég held frá þeim tíma.

Þarna rétt fyrir innan bendir Krissi Kól út á haf.

Barcelona Krissi Kól

Lokabjór og tapas á hótelveitingahúsinu, voðalega stressaður þjónn sem náði ekki pöntuninni minni svo við Jón deildum bara kolkrabbanum sem hann hafði pantað, inn á hótelið, endurraða í ferðatöskuna (vínflöskur niður, síðar leggings og jakkar upp).

Mundum eftir tax free nótunni úr vínbúðinni og gátum nokkurn veginn fengið okkur að borða á flugvellinum fyrir endurgreiðsluna.

Flug heim ágætt, á tíma og lentum meira að segja 10 mín fyrir áætlun. Höfðum flogið út með Norwegian en heim með Vueling. Bæði fín.

Fékk fyrirspurn þegar ég var komin heim, hvernig var Barcelona? ég: Svipuð og Róm. hann: ha? (mjööög ólíkar borgir auðvitað). Ég: Já, sko, sama tilfinningin og þegar ég kom fyrst til Rómar, hvers vegna hef ég aldrei komið hingað áður? og hvenær get ég komið aftur?…

Barcelona dia quatre

Jæja. Sunnudagur. Síðasti heili dagurinn í Barcelona að þessu sinni. Skyldi skiptast milli Suzukigengisins og Fífu.

Bakpokarnir höfðu svínvirkað um nóttina, bólgan var alveg horfin og ég fann mjög lítið fyrir fætinum. Eins gott!

Þennan morgun var á ferðaplani að fara í hop-on-hop-off tveggja hæða strætó með kennurunum. Það var ekkert minna en frábært. Fyrir utan að ég steingleymdi hattinum mínum inni á hótelherbergi og var skíthrædd um að skaðbrenna í hársverðinum! Slapp reyndar til en ég setti rútubæklinginn upp á haus þegar við vorum lengi utan skugga.

Það er nefnilega merkilega skemmtilegt að fara í svona ferð. Sjónarhornið er allt annað en frá götu. Ég hef takmarkaða þolinmæði fyrir heyrnartólunum sem mani (sic) er skammtað við kaup á miðum í rútuna. In-ear heyrnartól nefnilega passa ómögulega í eyrun á mér, detta endalaust úr ef ég held þeim ekki hreinlega í með höndunum. Sem ég nenni ekki. Jón setti sín í og heyrði hvað var sagt og hlustaði svo á skelfilega muzakið milli merkilegu staðanna. Ég bara horfði og naut.

Sjáið þið bara hvað við vorum meðetta:

Barcelona - við

Eftir hringinn, sem teygðist reyndar á upp í úthverfi, örugglega aðallega til að geta keyrt fram hjá heimavelli Börsunga var planið að kíkja á útitónleika hjá honum Jesúsi frá föstudeginum. Ein úr hópnum var búin að spyrja um leiðbeiningar hvernig við kæmumst þangað best af hringnum. Bílstjórinn alveg: Jájá, best að klára hringinn og fara svo út á næstu stoppustöð. Þá eruð þið komin á götuna. Við hlýddum þessu samviskusamlega! Eeen! jújú við vorum komin á götuna. Tónleikarnir voru við númer 30. Stoppustöðin var sirka rétt hjá númer 230. Ég skýt á að við höfum þurft að ganga 3 kílómetra! Eins gott að hnéð hagaði sér!

Við hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að setjast niður og fá okkur að borða og drekka þegar við loksins kæmumst á áfangastað. Það reyndist hins vegar ekki alveg málið, enginn matur á staðnum, bara lítill bar og við komumst ekki einu sinni fyrir á borðunum fyrir utan en það voru reyndar dregin út nokkur hænuprik (les barstólar) og hvítvín/bjór/vatn fengum við. Tónleikarnir mjög skemmtilegir reyndar.

En við vorum orðin svöng. Við Jón Lárus mundum eftir að hafa labbað fram hjá veitingahúsi með álitlegum tapas seðli rétt á undan. Hópurinn (eða reyndar það sem eftir var af honum, nokkur höfðu átt pantað borð á veitingastað og stungu af áður en tónleikar kláruðust) röltu þangað. Þá reyndist þetta einn af þessum týpísku katalónsku stöðum – sem hljómar svo sem ekki illa nema þeir hafa tendens til að vera með spilakassa. Og það langaði okkur ekki! Ekki spennandi stemning.

Við vorum komin ekki sérlega langt frá hótelinu, örstutt frá enda Paral·lel strætis. Löbbuðum til baka í áttina að honum, semsagt aftur fram hjá pöbbnum, þá var Jesús sestur með velfortjent bjórkrús. Þökkuðum honum kærlega fyrir tónleikana og hann spurði hvað við værum að fara að gera. Við: BORÐA! hann: Það er verslunarmiðstöð hér rétt hjá, farið endilega þangað og upp á þak, þar er fullt af skemmtilegum veitingastöðum og snilldar útsýni yfir borgina! Við þangað! Reyndist hið alskemmtilegasta. Greinilega fjölskylduvænir staðir, frekar mikill hávaði en hellings stemning. Barcelona er reyndar mjög fjölskylduvæn borg, leikvellir úti um allt og ekki fitjað upp á nef þó fólk sé með börn hvar sem er. Besta mál.

Við Jón Lárus deildum djúpsteiktum sjávarréttum. Ekki verst. Hreint ekki sem verst:

Barcelona - sjávarréttir

Þau hin voru með alls konar annað, við vorum sérstaklega hrifin af djúpsteiktum eggaldinsneiðum með hunangi. Þurfum að gera tilraunir með þetta allt saman!

Röltum þakhringinn eftir mat. Útsýni til dæmis svona:

Barcelona höll

Endinn á Paral·lel var einmitt við þetta torg. Við höfðum séð gosbrunn í gangi þegar við vorum að koma inn í verslunarmiðstöðina (sem var NB með mögulega lengstu rúllustigum sem ég hef séð! kannski fyrir utan einhverjar stöðvar í London Underground) en þegar við komum út aftur var búið að slökkva á honum svo við slepptum að labba upp að höllinni. Ég er sko með gosbrunnablæti! (viðvörun til fólksins sem við erum að fara að ferðast með eftir eina og hálfa viku! Eyrún og Ástráður take note!)

En semsagt. Beint upp á hótel þar sem við ætluðum að hitta Fífu aftur. Stóðst eiginlega á endum, við vorum komin rétt á undan henni.

Búið að þrífa herbergið. Ekki í frásögur færandi. Og þó!

Ég hafði sett mynd á Instagram fyrsta kvöldið. Life Hack. Taka með sér drusluvínglös á hótel. Má skilja eftir.

Barcelona - full glös

Eins og fólk veit þá er ekki boðið upp á almennileg glös á hótelherbergjum. Tja allavega hótelherbergjum sem venjulegt fólk tímir að nýta sér. Tannburstaglösin eru misskemmtileg sem hugguleg vínglös að kvöldi (já eða um miðjan dag þess vegna). Og í öllum lifandis bænum, þvoið þau áður en þið drekkið úr þeim! Fréttum af herbergisstarfskrafti á góðu hóteli sem var kennt að þurrka úr tannburstaglösunum með skítugu handklæðunum frá fyrri notanda herbergis! But I digress!

Allavega höfðum við komið með glös með okkur. Lítil og ræfilsleg en mátti notast við þau og endalaust betri en tannburstaglösin. Þó þau væru reyndar úr gleri á þessu hóteli (voru einnota úr þunnu bláu plasti í París fyrir ári). Þau höfðu fengið að vera í friði fram að þessu. Því þarna, þegar við komum upp á herbergi voru glösin HORFIN! Við skildum ekkert! Þarna var alveg dót sem hefði verið meira vit í að stela, líkjörsflaska til dæmis, sem við höfðum ekki læst inni í peningaskáp, nei tvær glasadruslur hurfu! Var ég búin að taka það fram að við skildum ekkert?

Og við neyddumst til að drekka fína rósacavað úr þessu: (já við vorum búin að þvo glasið).

Barcelona tannburstaglas

Ímyndið ykkur okkur, vínsnobbarana! Og grey Fífa þurfti að fá sinn skammt úr (þó glærum) kaffibolla!

Hneyksluðumst á þessu góða stund! Sátum svo líka lengi vel og spjölluðum alveg hneykslunarlaust. Vorum í góðum tíma, ekki stóð annað til þennan dag en að fá okkur ís og svo var planið að fara í matarboð til fjölskyldu sem reyndist Fífu alveg frábærlega þegar hún kom fyrst til Barcelona, leyfðu henni að gista og redduðu henni herbergi til leigu í vetur.

Niður í lobbí, sirka tveim tímum seinna, urðum jú að klára cavað! Ekki myndi það geymast!

Ég var alveg ákveðin í því að kvarta yfir vínglasahvarfinu. Sveif á afgreiðsluna og sagði okkar farir ekki sléttar! Manngreyið alveg haaaaa??? voruð þið með ykkar eigin glös? þrifafólkið nefnilega hefur fyrirmæli um að taka öll glös sem ekki fylgja herbergjunum því þau hafi alveg bókað verið fengin lánuð á veitingastað hótelsins (sem ég hef satt að segja oft gert og skilið svo bara eftir á herberginu þegar ég tékka mig út). Hann hafði bara aldrei heyrt um að fólk kæmi með glös með sér. Baðst margfaldlega afsökunar og ætlaði að leita glösin uppi!

Hlógum að þessu alla leið út á Römblu.

Ís. Reyndar eini ísinn í ferðinni, mesta furða. Ég fékk mér ís með bökuðum eplum. Hreint ekki sem verst.

Ætluðum að vera komin til Lolu og Luis klukkan átta og ekki vildum við vera of snemma á ferðinni svo við tókum þetta bara rólega. Lína tvö yfir í Poblenou þar sem Fífa býr líka.

Það væru engar ýkjur að segja að tekið hafi verið höfðinglega á móti okkur. Yndislegt lið! Luis talar eingöngu spænsku og katalónsku og Jón Lárus fékk fína æfingu í spænskunni sinni og ég skildi ekkert! (ok smá en bara gegn um ítölskuna) En það gerði ekki spor til. Lola talaði ensku og krakkarnir þeirra líka.

Luis er í katalónsku löggunni, Guardia Urbana. Sem sagt götulögreglu Barcelona. Í Barcelona eru svo starfandi Mossos d’Esquadra sem er landslögregla Katalóna, Guardia Civil herlögregla Spánar þrátt fyrir nafnið, (hlutverk hennar innan Katalóníu var að hluta til yfirtekið af Mossos en hún sér samt um landamæragæsluna ennþá) Guardia Maritima sem er hafnarlögreglan og svo er Policia Nacional, Spánarlögreglan, sem inniheldur meðal annars antiterror squads og það voru þau sem voru send á mótmælin í kring um kosningarnar hvort Katalónía ætti að verða sjálfstæð. Sem var tekið eins fáránlega illa á og mögulegt var! Og svo fyrir utan þessi fyrirbæri er líka sérstök spillingarlögregla, SVA, Servicio de Vigilancia Aduanera.

En ég held samt að Rannsóknarrétturinn sé ekki til lengur.

Allavega sátum við í góða stund úti á svölum. Í komplexinu er þetta:

Barcelona sundlaug

sem var ansi mikill lifesaver fyrir dótturina í hitanum í haust sem leið.

Þetta var í matinn:

Barcelona fondue

ostafondue í aðalrétt og alls konar tapasdæmi, takið sérstaklega eftir brauðinu sem er neðst í miðið, grillað brauð með tómat og kryddi, sérkatalónskur skyndiréttur sem var iðulega í boði.

Spjallað lengi frameftir. Okkur var ráðlagt að taka bara leigubíl upp á hótel, langþægilegast þegar klukkan væri orðin þetta margt og Raval ekki besti staðurinn ef fólk væri ekki fullkomlega óríenterað/liti út fyrir að vera túristar. Og leigubílar ekki dýrir. Ég spurði hvort þau myndu hringja á bíl. Hringja? ha? hvers vegna? Luis fer bara með ykkur út og veifar bíl! Sem reyndist eiginlega auðveldara en meira að segja þau héldu, það var akkúrat bíll að skila af sér fólki nánast beint fyrir utan. Fífu höfðu þau ekki nokkrar áhyggjur af, að labba heim til sín 10 mínútna spöl, enda ekki í Raval.

(ég held nú samt að við hefðum ekki lent í neinum vandræðum sko, svo slæmt var hverfið nú ekki…)

Bíllinn samt ekkert dýr og ansi hreint þægilegt að vera keyrt upp að dyrum.

Á herberginu fundum við svo þessi:

barcelona glösin hrein

Tandurhrein…

Barcelona dia tres

Þriðja daginn vöknuðum við vel fyrir klukkan sjö og gátum ómögulega sofnað aftur. Mættum í morgunmatinn klukkan kortér yfir sjö. Örnólfur og Helga Steinunn strengjakennarar og -leikarar voru álíka morgunhanar og tylltu sér hjá okkur. Besta mál. Mættum svo aðeins fleirum þegar við vorum búin með rólegheitamorgunmat og á leiðinni upp á áttundu – nei úpps tíundu hæð.

Héngum bara uppi á herbergi þar til matarmarkaðurinn væri við það að rúlla upp hlífum. Meiningin var að vera með Fífu megnið af deginum en hún gat ekki hitt okkur fyrr en um tvöleytið svo við ákváðum að kíkja á matarmarkaðinn. Hann er með þeim flottari sem ég hef séð, satt að segja. Tók ekki mikið af myndum þar samt.

 

Settumst á einn af frekar fáum stöðum þar sem hægt var að tylla sér og borða, glas af cava og bestu patatas bravas í ferðinni. Ef ekki þær bestu þá allavega flottasta framreiðslan (ok þær voru líka bestar)

barcelona patatas bravas

Patatas bravas er semsagt steiktar kartöflur með tvenns konar sósum, aioli og spicy mæó. Mjög algengt á tapas seðlum. Fengum okkur slíkt nokkrum sinnum í ferðinni, fjórum sinnum að mig minnir. Oftast hrúga af öbblum með aiolíinu undir og spæsí mæóinu sprautað í listrænar rendur yfir en þetta var langflottast. Útskornar kartöflur!

Barcelona er auðvitað meðal annars þekkt fyrir að vera heimaborg Gaudi, eins frumlegasta og flottasta arkitekts sögunnar. Við áttum eftir að skoða slatta af húsum frá honum en þetta, sem hýsir Gaudi safnið var rétt hjá hótelinu og við vorum alltaf að labba fram hjá því:

Barcelona Gaudi íshús

Þetta líta út eins og risa ísar þarna uppi á þaki en ég held nú samt ekki að það sé meiningin.

Af matarmarkaði stefndum við á vínbúð sem Jón Lárus var búinn að spotta Framhjá þessum skemmtilegheitum fyrst samt, ásamt því að rekast alveg óvænt á ferðafélaga, Steingrím gítarkennara, Kolbrúnu konu hans og Þórunni Huldu píanókennara sem voru á leiðinni á flamencosýningu.

Barcelona pálmatorg

Barcelona svalirBarcelona mandarínur

Ekki alveg eins skemmtilegt var að mér tókst að missa algerlega jafnvægið og hrynja fram fyrir mig, var eitthvað að glápa upp í loftið á flott hús og steig niður í lægð í gangstéttinni, svona trjábeð. Hruflaði mig ansi illa á báðum hnjám og öðrum olnboga og fékk smá sjokk, hélt reyndar fyrst að ég hefði meitt mig í framan líka en það slapp til. Haltraði að næsta útiveitingahúsi og bað Jón panta fyrir mig sódavatn, aðallega til að hreinsa, og setti plástur sem hann var með í veskinu á versta hruflið. Ég er líka vön að vera með plástur í veskinu en hafði gleymt að endurnýja síðast þegar ég þurfti að nota hann. Vorum svo með plástrapakka uppi á hóteli fyrir hin sárin, slyppi til þangað til við kæmum þangað.

Það er reyndar fyndið (já eða ekki) að ég er alls ekkert vön því að vera svona mikill klaufi en í síðustu kennaraferð (Berlín með LHÍ kennurunum) datt ég líka og hruflaði þá reyndar bara hnéð. Væntanlega þetta með að vera að glápa svona mikið upp fyrir mig. Skamm borgir með að vera svona flottar!

Gat alveg gengið áfram, kláruðum vínbúðarheimsóknina (keyptum smotterí og pöntuðum eina flösku sem Jón hafði haft augastað á en var ekki til í búðinni, myndi vera reddað á mánudeginum). Heim á hótel. Silfurplástrarnir í töskunni reyndust óklipptir svo við báðum Fífu koma með skæri sem var auðsótt mál.

Dóttla mætti á svæðið. Hnéð með minni hruflunni var farið að bólgna upp. Gat samt alveg labbað. Verst þegar ég var búin að hvíla mig og var að byrja en svo varð það allt í lagi.

Treysti mér samt til að labba alla leið að þekktustu Gaudi húsunum. Svona með því að setjast nokkrum sinnum á bekki á leiðinni. Já og fá okkur að borða. Engar matarklámmyndir samt þó það hafi verið alveg ljómandi.

En húsin voru æði! La Pedrera að utan og innan og flottasti ljósastaur sem ég hef séð.

 

Ekkert sár á nefi. Svei mér þá!

Barcelona ég

Eftir þetta innlit í La Pedrera var hnéð á mér farið að mótmæla svolítið, (les bólgna einhvern slatta), svo við tókum metró upp á hótel. Fífa var að halda upp á afmælið sitt með bekkjarfélögunum um kvöldið svo hún kvaddi okkur og tók línu tvö en við línu þrjú inn í El Raval.

Smá hvíld, svo vorum við að spá í að fara eitthvað í mat en hnéð mótmælti enn ákveðnar þannig að við enduðum á að borða á hótelveitingastaðnum. Sem var alveg ljómandi, paella með humri og ágætis cava, eini gallinn var að það voru sjónvarpsskjáir þar sem var verið að sýna úrslitaleikinn í evrópsku meistaradeildinni. Það var ekki hljóð á, sem betur fer en svona skjáir eru samt ansi hreint miklir athyglisþjófar. Og okkur gat ekki staðið meira á sama um leikinn…

 

En þetta var nú samt fínt!

Aftur upp á herbergi. Hnédruslan öskraði, hvernig sem ég reyndi að snúa mér í rúminu. Þar til mér datt í hug að reyna að hækka undir hana, líka til að minnka bólguna. Reyndist alveg málið. Hrúgaði undir fótinn báðum tölvubakpokunum okkar og sitt hvorum púðanum úr rúminu.

Net fram að því að það slokknaði á mér eftir daginn!

 

Barcelona segon dia

Annar dagurinn var þrælplanaður og undirlagður í vinnu. Sem var ljómandi. Kannski minna spennandi blogglega séð nema fyrir þau sem voru með. Og þó!

Við Jón Lárus vöknuðum um hálfníuleytið og höskuðum okkur niður í morgunmat. Ljómandi morgunverðarborð, enskur, continental, salt og sætt, mjög gott nýbakað brauð, álegg af hinu og þessu tagi, ferskir ávextir, jógúrt og morgunkorn, allt mögulegt. Þurrkaðir rabarbarar á eftirréttaborðinu – nei djók, churros, Jón hafði rekið augun í churros stað daginn áður og spurði Fífu hvað væri með þessa fylltu rabarbara!

Kaffið leit ekki vel út. Frekar óárennilegar kaffivélar en það kom á óvart og var vel drykkjarhæft. Svona miðað við útlit vélanna.

Og svo var hægt að fá mímósu í morgunmatnum! Cavaflöskur og appelsínusafi og freyðivínsglös!

Við kennararnir og einn maki vorum með þvílíkt prógramm þennan föstudag. Jón Lárus hafði harðneitað að taka þátt í vinnudeginum, langaði frekar að njóta dagsins með dótturinni og borginni. Hann hefði nú samt haft ansi hreint gaman af því að koma á fyrsta hlutann, við þurftum bara að labba þriggja mínútna leið frá hótelinu í konservatorí þar sem við hittum Oriol Sana, fiðlukennarann sem hafði planað prógramm dagsins fyrir okkur. Hann hafði komið því til leiðar að við fengjum að hlusta á útskriftarverkefni nokkurra jazzfiðlara. Það var alveg svakalega skemmtilegt! Krakkarnir höfðu gríðarlega mismunandi stíl, sum klassískir jazzarar, önnur þjóðlagaskotin og sum meira freejazz. Oriol bauð okkur öllum upp á kaffi í skólakantínunni. Það reyndist eitt besta kaffið í ferðinni:

IMG_0006

Svolítið meira spennandi en espressóinn úr vélinni um morguninn, þó hann væri allt í lagi.

Mér varð samt svolítið kalt þarna og fór út til að hlýja mér (já). Þetta er ekki besta hverfið í Barcelona. Reyndar eiginlega það versta, sagði Fífa okkur. El Raval, milli Paral∙lel strætis og Römblunnar. Fór upp fyrir skólann, inn á lítið torg/garð fyrir ofan. Þar reyndist vera fullt af lögreglufólki frá Guardia Urbana (ég á eftir að segja aðeins betur frá lögreglunni á svæðinu síðar) sem var greinilega að taka til á torginu, samt í mestu rólegheitum. Tjald í eigu heimilislausrar konu stóð þar og hún að taka það saman en samt án þess að lögreglan virkaði neitt ógnandi, slatti af fýrum sem voru greinilega vanir því að þurfa að hreinsa draslið sitt frá og virtust þekkja lögreglufólkið. Bara svona: Æ fólk, hér er að verða aðeins of druslulegt, eruð þið til í að taka aðeins til? Þarna voru líka nokkrar konur að leika við hundana sína og eitthvað af fólki með börn í kerrum. Ekkert óþægilegt við andrúmsloftið þrátt fyrir lögregluna. Og sólin hlýjaði mér þar til ég var til í að fara inn á tónleikana/prófið aftur.

WordPress leyfir ekki lengur að ókeypis aðgangurinn embeddi vídeó svo ég ætla ekki að setja inn það sem ég tók af tónleikunum en þeir voru semsagt samt geggjaðir.

Þegar þeim lauk þökkuðum við spilurunum kærlega fyrir. Þau voru líka ansi hreint glöð að hafa okkur því það hafði fækkað í áheyrendahópnum eftir því sem leið á tónleikana, sérstaklega fækkaði um spilara sem voru með fiðlurunum í böndunum, svolítið „ok ég er búin með mitt gigg og þarf að fara“, þó fiðluleikararnir 6 eða 7 væru sjálfir allan tímann að hlusta á samnemendur sína munaði um að hafa 12 stykki sem sátu og hlustuðu allan tímann.

Þá leiddi Oriol okkur út á metróstöð, klippikort keypt fyrir hópinn fram og til baka til L’Hospitalet, smábæjar, svona Garðabæjarúthverfis þar sem seinni hluti vinnudagsins færi fram. Já eða nei, sko, L’Hospitalet byggðist mikið upp af roma fólki og þar er gríðarlega blönduð byggð af alls konar fólki, mikið til innflytjendum frá öllum heimshornum. Semsagt alls ekki Garðabær á neinn hátt!

Byrjuðum á því að fara í skólann sem við vorum að heimsækja:

IMG_0010

Aðallega til að henda af okkur hljóðfærum og töskum fyrir þau sem voru með slíkt meðferðis.

Þaðan 10 mínútna gangur að veitingahúsi hvar Oriol hafði pantað fyrir okkur mat. Mjög spes, í anddyri íþróttahallar mikillar en samt alveg þokkalegasta veitingahús og fólk í nágrenninu kom greinilega mikið þarna að borða. Gæti reyndar samt verið vegna þess að það var eiginlega ekkert annað veitingahús á svæðinu.

Mest spennandi rétturinn sem við höfðum fengið að velja úr hét gilt head. Við höfðum ekki græna glóru um hvað það væri, nema að það var einhver fiskur.

Svona leit hann út:

IMG_0012

Svolítið út eins og glorified gullfiskur.

Aftur í skólann. Fengum fyrirlestur um hvað hann snérist um. Í þessum smábæ fá allir yngri grunnskólanemendur listkennslu. Tvisvar í viku, einn fámennan hóptíma og svo stærri hóptíma. Inni í grunnskólunum. Við höfðum labbað fram hjá einum skóla, í honum var aðallega kenndur dans en líka þjóðlagatónlist. Í öðrum skóla var kenndur jazz, með áherslu á improvisation, í enn öðrum klassík með heilli sinfóníuhljómsveit. Skólinn er með þessu aktíft að berjast gegn aðskilnaði þjóðfélagshópa og blanda öllum hópum saman gegn um listnám. Stórkostlegt starf sem mætti ná lengra upp í aldur (eftir 12 ára verða fjölskyldurnar að borga fyrir að börnin fái að halda áfram í námi og það er ekki boðið upp á einkatíma en það gerist samt ansi hreint margt).

Eftir kynninguna voru síðan tónleikar þar sem þrír aldursflokkar nemenda sýndu getu sína í impró. Þrír kennarar tóku þátt, þar á meðal einn þeirra sem hafði spilað með fiðlurunum fyrr um daginn, strákur að nafni Jesús (nódjók) sem greip í alls konar hljóðfæri og náði ógurlega vel til krakkanna.

Ég var alveg að sofna á tímabili, langur og heitur dagur, hellings labb og þvælingur og alveg smá vín með hádegismatnum. Hristi það samt af mér.

Í lokahópnum var einn ansi efnilegur strákur, 12-13 ára sem spilaði á fiðlu. Hann minnti mig alveg ótrúlega mikið á son vinafólks míns í Bandaríkjunum, álíka gamall, alveg sami augnsvipurinn, brosið og líkamsbygging og holdning. Sá spilar einmitt líka á fiðlu. Þegar tónleikarnir voru búnir og við vorum að spjalla saman fór ég til hans og spurði hvort hann talaði ensku, Já eitthvað smotterí, kom í ljós. Sagði honum frá tvífaranum í BNA. Honum og foreldrunum þótti þetta mjög fyndið. Þau sögðu mér að hann hefði farið á námskeið til Lilju Hjalta í Englandi. Sniðugt, sagði ég, elsta dóttir mín var einmitt í námi hjá henni!

Nema hvað. Þau fóru út, við stóðum áfram í góða stund yfir pica pica, spænsku snakkborði, ólífum, pylsu- og skinkubitum, kexi, kæfu og sultu sem tóku mig alveg yfir í jólahlaðborðsfíling, hvítu og rauðu eins og öll vildu. Yfir þessu nefni ég við einn kennarann að ég hafi verið að tala við þetta fólk. Kennarinn: Já, þau! Mamma stráksins er mjög mikilvæg kona hér um slóðir. Hún er deildarforseti í arkítektúrháskólanum. Ég: Haaaa? Í alvöru? Dóttir mín er þar í háskólanum…! Þessi sem var í fiðlunámi hjá Lilju!

Nema hvað, þegar við komum út, eftir örugglega allavega hálftíma, standa þau enn þar á spjalli við annað fólk. Ég svíf auðvitað á hana og segi tenginguna. Hún er jafn hissa og ég, og skrifar niður nafn og tölvupóst og segir að Fífa skuli endilega hafa samband við sig ef eitthvað vanti.

Sem er andskotanum magnaðra! Hvað er með að droppa frá Íslandi til milljónaborgar í Katalóníu og lenda akkúrat á tengingu sem gæti nýst dóttur minni? Hvort sem kemur nú eitthvað út úr því!

Nújæja. Heim á hótel, Alveg búin eftir daginn.

Svona var stemningin síðkvölds yfir borginni frá hótelglugganum:

IMG_0952

 

Barcelona primer dia

Suzukiskólaheimsóknarferð til Barcelona. Undirrituð hefur aldrei farið til Spánar fyrr og það er gaman að byrja heimsóknina í Katalóníu.

Freyja skutlaði á völlinn þessi elska. Flugið ekki fyrr en klukkan níu svo það má kalla það þægilegt morgunflug án gæsalappa. Vöknuðum upp úr hálfsex sem er alveg þolanlegt. Reykjanesið skartaði sínu allra fegursta, heiður himinn og blankalogn á leiðinni.

Endurnýjaði símann minn í Elko. Minn var orðinn allavega 5 ef ekki 6 ára og orðinn ansi hreint leiðinlegur svo einn kassi með æfón XR lenti ofan í tösku.

Maginn á mér var eitthvað að ybba sig svo matarlystin var lítil. Hafði mig þó í að fá mér freyðivín og eggjaköku á Nord (já það hjálpaði).  Ég fékk mjög asnalegt glas með freyðaranum! Engin almennileg hrein til:
IMG_1091

Diljá kom og settist hjá okkur, hafði ekki fundið hópinn og var fegin að sjá okkur. Við sátum í rólegheitunum smástund eftir að Go to Gate merkið var komið, aldrei þessu vant, venjulega erum við með þeim fyrstu til að rjúka upp og út að hliði en ákváðum að taka Hallveigu systur á þetta, hún er mun afslappaðri en við, og þurfa ekki að standa upp á endann í hálftíma við hliðið eins og venjulega. Þau hin voru samt orðin óróleg og sendu sms bæði á mig og Diljá. En auðvitað var þetta samt bara mjög fínt, við enduðum á að labba bara aftarlega í röðina og nánast beint út í vél.

Steinsofnaði í fluginu. Ótrúlega vel þegið. Svaf samt ekkert alla leiðina, tók alveg smá tíma í að æfa texta fyrir Salzburgerkeppnina hjá Dómkórnum í júní (já það verður bloggað um þá ferð líka)

IMG_1096

Barcelona tók vel á móti okkur líka, sól og 22° hiti. Gersamlega ídeal! Tekið á móti hópnum á flugvellinum og við teymd í rútu sem keyrði okkur á hótelið.

Lítið mál að skrá okkur inn, við Jón Lárus lentum í herbergi á allra efstu hæð, áttundu hæð sem er í raun sú tíunda, ekki nóg með að Katalóníubúar kunni ekki að telja og byrji á núlltu hæð heldur bæta þau við hæð E áður en þau byrja á einum! (ok það er alveg ágætis röksemdafærsla til fyrir að hafa jarðhæð númer núll en þessi E er ekki að gera sig!)

Upp á herbergi, koma okkur örlítið fyrir og svo út. Vorum snyrtilega veidd af flinkum veiðara inn á veitingahús beint fyrir utan, sem reyndist svo vera samtengt hótelinu og keyra þar morgunmatinn. Ljómandi bjór, ólífur, patatas bravas og kjúklingavængir. Vildum ekki borða mikið því Fífa var búin að panta fyrir okkur borð á uppáhalds tapasstaðnum sínum um kvöldið.

Já því auðvitað er Fífan mín í Barcelona!

Hún mætti síðan upp á hótel og dró okkur upp að Diagonal stræti (hver vill veðja að Joanne Rowling þekki til í Barcelona og hafi fengið hugmyndina að Diagon Alley þar?)

Tapasstaðurinn snilld. Við skildum takmarkað í matseðlinum svo við báðum bara Fífu panta fyrir okkur uppáhalds matinn sinn. Hún veit okkar smekk. Ólífur fylltar með ansjósum, mismunandi tapas brauðsneiðar, eggaldin, sveppir, hinn og þessi ostur kann ekki að nefna þetta allt saman og sleppti matarmyndunum í þetta sinn en gott var þetta allt saman.

Skemmtilegt að þarna var vín í tunnum og fólk getur komið með flöskur og fengið áfyllingu. Á myndina vantar tunnuna næst til vinstri sem á stendur Priorat sem er uppáhalds héraðið okkar:

IMG_1098

Nei ég er samt ekki að tala fyrir að slíkt verði tekið upp heima!

Hundþreytt tókum við lestina aftur upp á hótel, kvöddum Fífu sem fór heim til sín, hún myndi hitta pabba sinn daginn eftir á meðan ég væri pikkföst í starfsdegi með Suz kennurunum mínum yndislegu!


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

júní 2019
S M F V F F S
 1
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
30  

sagan endalausa