Jæja. Sunnudagur. Síðasti heili dagurinn í Barcelona að þessu sinni. Skyldi skiptast milli Suzukigengisins og Fífu.
Bakpokarnir höfðu svínvirkað um nóttina, bólgan var alveg horfin og ég fann mjög lítið fyrir fætinum. Eins gott!
Þennan morgun var á ferðaplani að fara í hop-on-hop-off tveggja hæða strætó með kennurunum. Það var ekkert minna en frábært. Fyrir utan að ég steingleymdi hattinum mínum inni á hótelherbergi og var skíthrædd um að skaðbrenna í hársverðinum! Slapp reyndar til en ég setti rútubæklinginn upp á haus þegar við vorum lengi utan skugga.
Það er nefnilega merkilega skemmtilegt að fara í svona ferð. Sjónarhornið er allt annað en frá götu. Ég hef takmarkaða þolinmæði fyrir heyrnartólunum sem mani (sic) er skammtað við kaup á miðum í rútuna. In-ear heyrnartól nefnilega passa ómögulega í eyrun á mér, detta endalaust úr ef ég held þeim ekki hreinlega í með höndunum. Sem ég nenni ekki. Jón setti sín í og heyrði hvað var sagt og hlustaði svo á skelfilega muzakið milli merkilegu staðanna. Ég bara horfði og naut.
Sjáið þið bara hvað við vorum meðetta:

Eftir hringinn, sem teygðist reyndar á upp í úthverfi, örugglega aðallega til að geta keyrt fram hjá heimavelli Börsunga var planið að kíkja á útitónleika hjá honum Jesúsi frá föstudeginum. Ein úr hópnum var búin að spyrja um leiðbeiningar hvernig við kæmumst þangað best af hringnum. Bílstjórinn alveg: Jájá, best að klára hringinn og fara svo út á næstu stoppustöð. Þá eruð þið komin á götuna. Við hlýddum þessu samviskusamlega! Eeen! jújú við vorum komin á götuna. Tónleikarnir voru við númer 30. Stoppustöðin var sirka rétt hjá númer 230. Ég skýt á að við höfum þurft að ganga 3 kílómetra! Eins gott að hnéð hagaði sér!
Við hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að setjast niður og fá okkur að borða og drekka þegar við loksins kæmumst á áfangastað. Það reyndist hins vegar ekki alveg málið, enginn matur á staðnum, bara lítill bar og við komumst ekki einu sinni fyrir á borðunum fyrir utan en það voru reyndar dregin út nokkur hænuprik (les barstólar) og hvítvín/bjór/vatn fengum við. Tónleikarnir mjög skemmtilegir reyndar.
En við vorum orðin svöng. Við Jón Lárus mundum eftir að hafa labbað fram hjá veitingahúsi með álitlegum tapas seðli rétt á undan. Hópurinn (eða reyndar það sem eftir var af honum, nokkur höfðu átt pantað borð á veitingastað og stungu af áður en tónleikar kláruðust) röltu þangað. Þá reyndist þetta einn af þessum týpísku katalónsku stöðum – sem hljómar svo sem ekki illa nema þeir hafa tendens til að vera með spilakassa. Og það langaði okkur ekki! Ekki spennandi stemning.
Við vorum komin ekki sérlega langt frá hótelinu, örstutt frá enda Paral·lel strætis. Löbbuðum til baka í áttina að honum, semsagt aftur fram hjá pöbbnum, þá var Jesús sestur með velfortjent bjórkrús. Þökkuðum honum kærlega fyrir tónleikana og hann spurði hvað við værum að fara að gera. Við: BORÐA! hann: Það er verslunarmiðstöð hér rétt hjá, farið endilega þangað og upp á þak, þar er fullt af skemmtilegum veitingastöðum og snilldar útsýni yfir borgina! Við þangað! Reyndist hið alskemmtilegasta. Greinilega fjölskylduvænir staðir, frekar mikill hávaði en hellings stemning. Barcelona er reyndar mjög fjölskylduvæn borg, leikvellir úti um allt og ekki fitjað upp á nef þó fólk sé með börn hvar sem er. Besta mál.
Við Jón Lárus deildum djúpsteiktum sjávarréttum. Ekki verst. Hreint ekki sem verst:

Þau hin voru með alls konar annað, við vorum sérstaklega hrifin af djúpsteiktum eggaldinsneiðum með hunangi. Þurfum að gera tilraunir með þetta allt saman!
Röltum þakhringinn eftir mat. Útsýni til dæmis svona:

Endinn á Paral·lel var einmitt við þetta torg. Við höfðum séð gosbrunn í gangi þegar við vorum að koma inn í verslunarmiðstöðina (sem var NB með mögulega lengstu rúllustigum sem ég hef séð! kannski fyrir utan einhverjar stöðvar í London Underground) en þegar við komum út aftur var búið að slökkva á honum svo við slepptum að labba upp að höllinni. Ég er sko með gosbrunnablæti! (viðvörun til fólksins sem við erum að fara að ferðast með eftir eina og hálfa viku! Eyrún og Ástráður take note!)
En semsagt. Beint upp á hótel þar sem við ætluðum að hitta Fífu aftur. Stóðst eiginlega á endum, við vorum komin rétt á undan henni.
Búið að þrífa herbergið. Ekki í frásögur færandi. Og þó!
Ég hafði sett mynd á Instagram fyrsta kvöldið. Life Hack. Taka með sér drusluvínglös á hótel. Má skilja eftir.

Eins og fólk veit þá er ekki boðið upp á almennileg glös á hótelherbergjum. Tja allavega hótelherbergjum sem venjulegt fólk tímir að nýta sér. Tannburstaglösin eru misskemmtileg sem hugguleg vínglös að kvöldi (já eða um miðjan dag þess vegna). Og í öllum lifandis bænum, þvoið þau áður en þið drekkið úr þeim! Fréttum af herbergisstarfskrafti á góðu hóteli sem var kennt að þurrka úr tannburstaglösunum með skítugu handklæðunum frá fyrri notanda herbergis! But I digress!
Allavega höfðum við komið með glös með okkur. Lítil og ræfilsleg en mátti notast við þau og endalaust betri en tannburstaglösin. Þó þau væru reyndar úr gleri á þessu hóteli (voru einnota úr þunnu bláu plasti í París fyrir ári). Þau höfðu fengið að vera í friði fram að þessu. Því þarna, þegar við komum upp á herbergi voru glösin HORFIN! Við skildum ekkert! Þarna var alveg dót sem hefði verið meira vit í að stela, líkjörsflaska til dæmis, sem við höfðum ekki læst inni í peningaskáp, nei tvær glasadruslur hurfu! Var ég búin að taka það fram að við skildum ekkert?
Og við neyddumst til að drekka fína rósacavað úr þessu: (já við vorum búin að þvo glasið).

Ímyndið ykkur okkur, vínsnobbarana! Og grey Fífa þurfti að fá sinn skammt úr (þó glærum) kaffibolla!
Hneyksluðumst á þessu góða stund! Sátum svo líka lengi vel og spjölluðum alveg hneykslunarlaust. Vorum í góðum tíma, ekki stóð annað til þennan dag en að fá okkur ís og svo var planið að fara í matarboð til fjölskyldu sem reyndist Fífu alveg frábærlega þegar hún kom fyrst til Barcelona, leyfðu henni að gista og redduðu henni herbergi til leigu í vetur.
Niður í lobbí, sirka tveim tímum seinna, urðum jú að klára cavað! Ekki myndi það geymast!
Ég var alveg ákveðin í því að kvarta yfir vínglasahvarfinu. Sveif á afgreiðsluna og sagði okkar farir ekki sléttar! Manngreyið alveg haaaaa??? voruð þið með ykkar eigin glös? þrifafólkið nefnilega hefur fyrirmæli um að taka öll glös sem ekki fylgja herbergjunum því þau hafi alveg bókað verið fengin lánuð á veitingastað hótelsins (sem ég hef satt að segja oft gert og skilið svo bara eftir á herberginu þegar ég tékka mig út). Hann hafði bara aldrei heyrt um að fólk kæmi með glös með sér. Baðst margfaldlega afsökunar og ætlaði að leita glösin uppi!
Hlógum að þessu alla leið út á Römblu.
Ís. Reyndar eini ísinn í ferðinni, mesta furða. Ég fékk mér ís með bökuðum eplum. Hreint ekki sem verst.
Ætluðum að vera komin til Lolu og Luis klukkan átta og ekki vildum við vera of snemma á ferðinni svo við tókum þetta bara rólega. Lína tvö yfir í Poblenou þar sem Fífa býr líka.
Það væru engar ýkjur að segja að tekið hafi verið höfðinglega á móti okkur. Yndislegt lið! Luis talar eingöngu spænsku og katalónsku og Jón Lárus fékk fína æfingu í spænskunni sinni og ég skildi ekkert! (ok smá en bara gegn um ítölskuna) En það gerði ekki spor til. Lola talaði ensku og krakkarnir þeirra líka.
Luis er í katalónsku löggunni, Guardia Urbana. Sem sagt götulögreglu Barcelona. Í Barcelona eru svo starfandi Mossos d’Esquadra sem er landslögregla Katalóna, Guardia Civil herlögregla Spánar þrátt fyrir nafnið, (hlutverk hennar innan Katalóníu var að hluta til yfirtekið af Mossos en hún sér samt um landamæragæsluna ennþá) Guardia Maritima sem er hafnarlögreglan og svo er Policia Nacional, Spánarlögreglan, sem inniheldur meðal annars antiterror squads og það voru þau sem voru send á mótmælin í kring um kosningarnar hvort Katalónía ætti að verða sjálfstæð. Sem var tekið eins fáránlega illa á og mögulegt var! Og svo fyrir utan þessi fyrirbæri er líka sérstök spillingarlögregla, SVA, Servicio de Vigilancia Aduanera.
En ég held samt að Rannsóknarrétturinn sé ekki til lengur.
Allavega sátum við í góða stund úti á svölum. Í komplexinu er þetta:

sem var ansi mikill lifesaver fyrir dótturina í hitanum í haust sem leið.
Þetta var í matinn:

ostafondue í aðalrétt og alls konar tapasdæmi, takið sérstaklega eftir brauðinu sem er neðst í miðið, grillað brauð með tómat og kryddi, sérkatalónskur skyndiréttur sem var iðulega í boði.
Spjallað lengi frameftir. Okkur var ráðlagt að taka bara leigubíl upp á hótel, langþægilegast þegar klukkan væri orðin þetta margt og Raval ekki besti staðurinn ef fólk væri ekki fullkomlega óríenterað/liti út fyrir að vera túristar. Og leigubílar ekki dýrir. Ég spurði hvort þau myndu hringja á bíl. Hringja? ha? hvers vegna? Luis fer bara með ykkur út og veifar bíl! Sem reyndist eiginlega auðveldara en meira að segja þau héldu, það var akkúrat bíll að skila af sér fólki nánast beint fyrir utan. Fífu höfðu þau ekki nokkrar áhyggjur af, að labba heim til sín 10 mínútna spöl, enda ekki í Raval.
(ég held nú samt að við hefðum ekki lent í neinum vandræðum sko, svo slæmt var hverfið nú ekki…)
Bíllinn samt ekkert dýr og ansi hreint þægilegt að vera keyrt upp að dyrum.
Á herberginu fundum við svo þessi:

Tandurhrein…
Nýlegar athugasemdir