Sarpur fyrir október, 2009

Chanson triste

hér spilar Freyja Chanson triste eftir Tjækovskí, gekk alveg ágætlega hjá henni. Voða montin mamma. Júlíana Rún spilaði með og gaf góðfúslegt leyfi til að setja þetta á netið.

trúði

ekki mínum eigin hálsi í gærkvöldi – fór að finna fyrir hálsbólgu. Nokkuð sem ég er ekki búin að vera með, þrátt fyrir hósta og svolitla raddbandabólgu. Sem er NB ekki farin enn, grrr. Mundi síðan seint og um síðir eftir tveimur ráðum – gurgla með pensími og taka íbúfen og fara að sofa. Bólgan er nánast farin, finn einn auman hálskirtil þegar ég ýti þar á en ekkert vont að kyngja eða neitt. Hjúkk. Veit ekki hvort virkaði eða bara hvorttveggja.

Er síðan að fara með yngri ungling, hún á að spila á tónleikum á eftir. Búin að æfa voða vel, ég vona það gangi eftir því.

stórskrítið

að vera ein í kotinu – Finnur í æfingabúðum og pabbi hans með honum sem hópstjóri, Freyja farin að passa fyndna barnið og Fífa í afmæli. Og ég sem nenni ómögulega að semja neitt, fæ mér frekar bara rauðvínsglas og hangi á netinu eða eitthvað. Já og ég á víst 2-3 bækur ólesnar.

Verður þetta ekki bara næs?

Jú kisa er reyndar heima…

flinkur

þessi:

hawhawhaw

mynduð þið kaupa námskeið í vefsíðugerð frá þessu fyrirtæki?

Nii, ekki ég heldur…

fyrir þá

sem nota Firefox og langar ekkert sérstaklega til að fá nýjustu uppfærslur um bakspikið á Beyoncé og appelsínuhúðina á Kristy, þá er viðbótin hér algjör snilld. Gætuð þurft að sækja lítið forrit til að virkja viðbótina en síðan ég virkjaði hjá mér get ég bara alveg farið inn á vísi punktur is án þess að verða óglatt. Mæli með þessu.

ekki orð

um rödd og lasleika. Ónei.

Jón Lárus fékkst með örlitlum erfiðismunum til að taka alla drengjakórshelgina, þetta er frá hálfsex á föstudegi til hádegis á sunnudag, hefði eiginlega tæpast tekið því að skipta helginni milli sín. Líka sparar bensín, þó það sé ekkert rosalega langt þarna í Hlíðardalsskóla þá er bensínið nú ekki beinlínis gefins núorðið.

Freyja spilar á tónleikum á laugardaginn, hlakka til að heyra, og Finnur eftir viku.

mjakast

þetta mjakast allt – sleppi væntanlega morgundeginum úr kennslunni líka, kenni svo ekki á fimmtudögum og föstudögum þannig að þá hef ég 4 daga til að ná mér almennilega.

Spurning samt að dobla bóndann til að taka helgina – stráksi að fara í æfingabúðir með drengjakórnum og við erum skráð með einn hóp. Líst ekki á að þurfa að garga yfir hóp.

(reyndar eru þetta pollrólegir strákar sem við verðum með í hóp, fjórir 9 ára guttar – en samt…)

Vá hvað ég má samt svo ekki við að fá svínaflensuna í beinu framhaldi. Allir puttar og tær krossuð!

hvað er

með að búa til nammi – ja reyndar hálstöflur – með sápubragði?

Bað Jón Lárus að kaupa Läkerol með lakkrísbragði, hann kemur heim með ágætis pakka, svartan, en það var sko ekki lakkrísbragð fyrir fimmeyring heldur nánast púra sápubragð. Jakk. Pakkanum hefur verið hent.

Og nei, ekki orðin góð, ég ætlaði að reyna að ná að kenna á morgun en ég er orðin ansi hreint svartsýn á það. Tæpast miðvikudaginn heldur, ég ætla EKKI að fara of snemma út núna og næla mér í lungnabólgu takk.

Mamma og pabbi komu færandi hendi með rafmagnshitapokann sem er þjóðnýttur í fjölskyldunni við svona skemmtileg tækifæri. Farin í bólið með hann.

flutningar

var að senda STEF skýrsluna mína – alveg slatti sem ég veit af í ár og reyndar þykist ég vita að hellingur sé í gangi sem ég veit ekki af. Sem betur fer.

Síðan í sept í fyrra:

5.10.09 Bakkabræður Hásalir, við Hafnarfjarðarkirkju 4’40“ Frumflutningur
01.03.09 Tunga mín Langholtskirkja
Vorlauf
Grátur 1’35“ Frumflutningur
Ástin græðir
(Kammerkór Norðurlands hélt fleiri tónleika með þessum verkum, ég er ekki með staði og nákvæmar dagsetningar)
08.03.09 Blandaðir dansar Hveragerðiskirkja
09.03.09 Blandaðir dansar Langholtskirkja
08.03.09 Píanótríó #1 Þjóðmenningarhús
28.04.09 Stökur Hásalir 2’13“ Frumflutningur
03.05.09 Carmen fratrum Langholtskirkja
Stökur
Stiklur
(þessir tónleikar í Langholtskirkju voru tvíteknir, klukkan 17:00 og 20:00. Einnig fluttu fleiri kvennakórar Stökur í vor)
05.05.09 Carmen fratrum Langholtskirkja
25.05.09 Sé ástin einlæg og hlý Guðríðarkirkja
Ástin græðir eftir vos
Vorlauf
(Kammerkór Akraness hélt þessa tónleika einnig áður – ekki með nákvæmar upplýsingar)
28.05.09 Carmen fratrum Langholtskirkja
30.05.09 Slæðingur Íslenska óperan (píanóútdráttur af verkinu, ekki hljómsveit)
05.07.09 Maríuljóð Langholtskirkja
01.08.09 5 fuglar Skálholtskirkja 9’50“ Frumflutningur á Íslandi (óskráð hjá STEFi?)
22.08.09 Í nálægð þinni Hallgrímskirkja

Smá slatti.

ef

ekki væri búið að fresta aðalfundi og partíi Hljómeykis einu sinni nú þegar, þá myndi ég fresta kvöldinu. En ætli maður drattist ekki gegnum fund og haldi út smástund í partíi.

Verst þetta er víst heima hjá mér…

gaah

röddin lítið skárri en í gær – ég er ekki með neina hálsbólgu lengur að ég finni fyrir, bara hás. Baaad!

hvernig er eiginlega

hægt að gleyma hljóðfærinu sínu? Herra Finni tókst að gleyma víólunni sinni á kóræfingu, í annað skiptið, núna á mánudaginn, ekkert náðist að æfa hann í gær og þegar átti að grípa til hennar í dag, tja, var gripið í tómt. Þetta er held ég bara annað skiptið sem hann þarf að taka hljóðfærið með á æfingu, venjulega tek ég það með heim á mánudögum en hann fær far á æfingu, þannig að honum hefur tekist að gleyma því í bæði skiptin.

Pínu utan við sig, skinnið litla…

segið svo að

Facebook sé ekki snilld! Kvartaði yfir því áðan að það fékkst ekkert íbúfen eða önnur bólgueyðandi lyf í Lyfju þegar stelpurnar skutust fyrir mig þangað áðan. Eftir svona 3-4 mínútur var búið að redda málum, hefði getað sótt íbúfen á 4 staði – styst hér yfir í næsta hús.

Og mikið hrikalega er nú þægilegt að hafa unglinginn með bílpróf – ég lánaði henni bara bílinn í dag og hún fór fyrir mig í 2 sendiferðir í staðinn. Best. Þær báðar reyndar, fóru saman í Lyfjusendiferðina. Sem var reyndar vesen, Freyju fannst ég segja Lyfjaver í símann (reyni alltaf að versla þar ef ég get), þangað komnar var auðvitað lokað enda klukkan að verða hálfátta í kvöld, hringt í mömmu. Nei, Lyfja var það. Þangað komnar: Hringja aftur í mömmu. Sagðirðu stóran pakka eða sterkan pakka? Sterkan sagði ég. Komnar að kassanum: Ekki til íbúfen. Ég: Bara eitthvað bólgueyðandi. Komnar út: hringt einu sinni enn. Ekkert bólgueyðandi til. Ég: Ókei, komið þið heim að borða…

á kafi

í mjög spennandi bók annars – maður gefur sér ekki tíma til að lesa almennilega nema í veikindum – The Gargoyle eftir Andrew Davidson. Mjög spes bók, ótrúlegt hugmyndaflug, sirka hálfnuð með hana. Ekki alveg til að þjóta í gegn um en það er náttúrlega bara gott þegar nægur tími er til stefnu.

Reyndar náði ég að vinna svolítið í dag, tók dúettaseríuna mína við texta Davíðs Þórs Jónssonar (úr Vísum fyrir vonda krakka) og bjó til einsöngsseríu úr henni í staðinn. Vona fólk nýti sér, það eru ekki sérlega oft dúettatónleikar eða gigg en þeim mun oftar sólódót. Þetta er líka talsvert einfaldara svona, tenórröddin var nefnilega eiginlega mjög snúin bara.

kenna

neeeei, ekki á morgun og tæpast hinn daginn. En þá ÆTLA ég að vera búin að ná þessu úr mér! Aðalfundur hjá okkur í Hljómeyki á föstudaginn, sýning á laugardag, af hvorugu má ég missa, takk.

sölumennskan

byrjuð, fjáröflun kóranna, langar einhvern í ljómandi góð Heimaeyjarkerti? 8 kerti á 800 kall, til dimmrauð og hárauð, hvít og fílabeinshvít og eitthvað smá af bláum. Já eða kaffi frá Kaffitári, bæði malað kaffi og baunir.
Um er að ræða poka með 2x250gr af kaffi á kr 1700:
Kólumbía sem er ljúft kaffi með góðri fyllingu, og með ávæning af hnetu, ávöxtum og dálitlum sætleika og Sólarglóð er bragðmikil blanda af kaffi frá Indónesíu og Kólumbíu.

Látið endilega vita, gott að kaupa jólakertin og nóg af þeim, ekki mun veita af birtu í dimmu mánuðunum hér. Gott kaffi er svo alltaf gott er það ekki? (spyr sá sem ekki veit).

Allt fyrir þessa engla:

Klósett- og eldhúspappírssala Grallara fer svo örugglega fljótlega í gang líka…

dagurinn

þungur en bráðskemmtilegur, æfingin í morgun gekk vonum framar, Dvorák verður bara fínn á morgun heyrist mér og nýju verkin mjög skemmtileg og spennandi. Sýningin fín, ég hafði svo prentað út nokkur eintök af lögum eftir mig og gaf söngkonunum í sýningunni, svona vegna þess að þetta var síðasta planaða sýningin hjá mér, vona nú að ég fái einhverjar fleiri samt.

Byrjaði að fá hálsbólgu í morgun, fór ekkert á röddina fyrr en núna í kvöld, ansi hreint góð tímasetning!

Alltaf þegar ég kíkti inn í smink og hár eftir ball voru allir uppteknir þannig að ég endaði bara á því að greiða úr draslinu og henda í mig gogg. Eins og ég er svo sem vön. Ekki vaninn að fara í greiðslur og förðun og læti fyrir árshátíðir eða þannig lagað – var reyndar aðeins meira máluð en venjulega þar sem ég tók sviðsfarðann bara ekkert af. Ágætt mál.

Mjög skemmtileg árshátíð bara, Freyr Eyjólfsson pwnaði Loga Bergmann sem var ekki nógu skemmtilegur síðast og meira að segja makar gátu hlegið að starfsmannavídjóinu, það er sko ekkert alltaf! Maturinn í Gullhömrum hörkugóður að vanda.

En svo tóku Ingó og Veðurguðirnir við (eða Reðurguðirnir eins og ég get svarið að ég heyrði Frey kynna), eitt tvö coverlög ágætlega gerð en þegar þegar þeir fóru að covera Traustan vin, frá Bjartmari fengum við nóg og fórum. Gerist það mikið verra?

Allavega gott að komast heim eftir veeerulega langan dag.

Svo bara mæta á morgun klukkan 5 (17:00) í Seltjarnarneskirkju, hlusta á tvo af efnilegustu blásaranemum okkar frumflytja glæný áhrifamikil verk eftir Óliver Kentish og síðan Nýi heimurinn eftir hlé.

Bóhl…

sérkennilegt

vandamál blasir við mér í dag.

Fyrst hljómsveitaræfing, frá 9:45 – 13:00. Ekkert sérkennilegt við það. Smá pása, þá Söngvaseiðssýning, mæting 14:00, sýning 15:00-17:45 (sirka). Þá er byrjað fyrirpartí fyrir árshátíð Samskipa, sem er haldin í kvöld. Sleppi nokkuð augljóslega megninu af því partíi, sæki Jón Lárus þangað og keyri í Gullhamra.

Vandamálið: Um miðja sýningu fæ ég ballgreiðslu, hárskraut og fínheit. Eftir svona 10 mínútur af sýningarballi er hárskrautið rifið úr og ég treð nunnuhabit yfir hárið.

Hvurn árann geri ég? reyni að fluffa hárið upp aftur eftir sýningu og fá skrautið lánað? (Hallveig, skila því fyrir þína sýningu á morgun :Þ). Þvo á mér hausinn eftir sýningu, henda framan í mig einhverju sparsli aftur og fara með hárið bara einhvern veginn á árshátíð?

Hversdagsvandamálin, maður minn…

stíbbbl

ég er eitthvað óttalega bloggstífluð núna. Hlýtur að losna um þetta fljótlega.

Næstsíðasta planaða sýningin mín á Söngvaseið í gær, sú síðasta á morgun, vonandi fæ ég fleiri seinna í vetur. Fullt af lösnu fólki, til dæmis var ein stelpnanna með svínslegu sóttina, sú sem leikur á móti henni kom í staðinn og lék, þrátt fyrir svæsna gubbupest, hljóp út milli atriða til að kasta upp. Mesta furða að stelpurófan slapp við að kasta upp á sviðið. Held nú ekki að neinn hafi orðið var við þetta.

Baksviðs var svo verið að tala um að veikindin sæjust líka úti í sal, á litla sviðinu var fólki víst smalað saman til að sitja framar. Þrátt fyrir að uppselt hafi verið á sýninguna.

Með pestina annars, ég er voða lítið sótthrædd, læt aldrei flensusprauta mig þó ég ætti örugglega að gera það, síðan ég byrjaði að fá lungnabólgur upp úr inflúensum (gerst tvisvar). Gladdi mig þess vegna að heyra í Samfélaginu í nærmynd í morgun lækni lýsa því yfir að læknum fyrri tíma hefði þótt lítið til svínaflensufaraldurs koma og hefðu vart átt orð yfir hysteríunni í kring um ekki verri veiki.

já, bíddu, var ekki stíbl í gangi annars?


bland í poka

teljari

  • 375.561 heimsóknir

dagatal

október 2009
S M F V F F S
 123
45678910
11121314151617
18192021222324
25262728293031

sagan endalausa