Sarpur fyrir desember, 2015

Roma giorno tre – Concerto

Þá var aðal dagurinn runninn upp. Konsert í aðal tónleikahöll Rómverja.

Morgunmatur að vanda. Súkkulaðikaka, besta í ferðinni. Mætti venjast því að fá sér desert eftir morgunmatinn. Og þó…

Eftir morgunmat fór Jón Lárus í vínbúðarleiðangur en ég ákvað að hvíla mig eins og ég gæti fram að tónleikum. Fór í bað í rólegheitunum, reyndi að þurrka hárið, gekk reyndar ekkert sérlega vel, hárþurrkan á hótelinu var nánast alveg ónothæf, loftið ágætlega heitt en straumurinn svo lítill að ég hefði alveg eins getað hrist á mér hausinn. Gerði samt takmarkað til því það lá svo sem ekkert á.

Lagðist aðeins yfir nóturnar, síðasta hraðatékk og punktar um túlkun og þanniglagað.

Jón kom heim eftir um tvo og hálfan tíma og við ákváðum að skjótast út á horn og fá okkur eitthvað smá í svanginn áður en lagt væri af stað á æfinguna. Höfðum ekki tíma til að setjast neins staðar inn og bíða eftir þjónustu þannig að það var bara næsti standur. Fundum reyndar stað með mat í borði en sem var samt hægt að setjast niður. Get nú ekki sagt að þetta hafi verið neitt sérlega spennandi en hei, við vorum allavega ekki svöng á eftir.

Höfðum ætlað að mæta klukkan hálftvö á tónleikastað, okkur var úthlutað þremur kortérum fyrir æfingu í salnum. Söfnuðumst saman klukkan 10 mínútur fyrir eitt (eða hmm ætluðum að safnast saman þá en hvenær geta nú Íslendingar verið nákvæmir á svoleiðis tíma?) Einhverjir ætluðu að koma sér beint á staðinn, sumir höfðu verið á masterklass um morguninn en smá hópur, 8 manns, var kominn saman á hótelinu um eittleytið. Báðum lobbíið panta tvo leigubíla. Svo bara biðum við og biðum og enginn bíll birtist. Það voru þá einhverjar heilmiklar mótmælastöður lengra fram eftir hótelgötunni og leigubílar komust hvorki lönd né strönd. Vorum hlaupin af stað út á lestarstöð (sem var mínútu gang frá hótelinu) þegar einn bíll birtist. Fjögur okkar fóru í hann en hin fjögur hlupu aftur af stað til að veiða bíl úti á lestarstöð.

Svo var okkar bíll svo lengi að komast út úr hverfinu að þau sem höfðu farið á stöðina voru auðvitað mikið fljótari á tónleikastaðinn.

Náðum nú hópnum sem betur fer samt saman áður en æfing hófst, sem betur fer hafði Pamela farargúrú áætlað mjög góðan tíma.

Salurinn reyndist skráþurr, teppi á sviðinu, en samt var alls ekki slæmt að spila þarna né hlusta. Akkúrat öfugt við Listasafnið þar sem við höfðum haldið sömu tónleika heima, þar er mjög mikil endurómun, nærri of mikil fyrir sum verkin.

Ég tók frekar hröð tempó á æfingunni, viljandi heldur hraðar en á tónleikunum, ágætt að koma fólki aðeins í gang.

Annars gekk æfingin bara fínt. Milli æfingar og tónleika voru síðan þrír og hálfur tími. Ekki tók því að fara til baka á hótelið. Við Jón Lárus nenntum ekki að sitja tvo og hálfan tíma á ekkert sérlega spennandi veitingahúsum sem voru á svæðinu, (mæting klukkutíma fyrir tónleika) þannig að við ákváðum að fara í smá göngutúr. Það var mjög fínt veður, sól og logn og um 14 gráðu hiti.

Svo sem ekkert sérlega spennandi þarna í kring, vorum nærri búin að gefast upp og snúa til baka þegar við rákumst á þetta líka spennandi listasafn með nútímalist. Fórum reyndar ekki á sýninguna en húsið var mjög flott og nokkur listaverk bæði fyrir utan og svo inni í fordyri safnsins. Gátum eytt dágóðri stund þarna.

IMG_1782

IMG_1787

IMG_1789

Til baka og te (ég) og rauðvínsglas (Jón) og kökusneiðar, fram að mætingu.

Svo var kominn tími á alvöru lífsins. Spennt og ánægð.

Tónleikarnir gengu ótrúlega vel, öll tempó smullu og verkin flutu eins og þau áttu að gera. Því miður var ekki gerð upptaka (að ég viti að minnsta kosti) þannig að það fylgir ekkert vídeó eða hljóð en ég hefði viljað heyra sum verkin, gengu talsvert betur en hér heima í Listasafninu.

Að tónleikum loknum var stefnt út að borða á fínt veitingahús að nafni La Matriciana, beint á móti óperuhúsinu. Reyndist þrautin þyngri að veiða leigubíla fyrir allt gengið, 40 mínútna bið eftir hringdum bílum en á endanum rötuðum við á röð þar sem leigubílar komu þokkalega reglulega. Upp á hótel að skila af sér flautum og nótum og sprota og svo á veitingahúsið.

Reyndist alveg magnað, besta mozzarella sem ég hef á ævi minni smakkað og ólífuolían með alveg fáránlega góð! Saltimbocca hoppaði í munninn eins og nafnið ber með sér og allt eftir þessu.

IMG_1795

Minglað fram eftir kvöldi og svo hótel og sof. Besti dagur!

 

Roma giorno due – I turisti

Dagur tvö var frídagur, engin æfing þannig að það var bara tekinn túristapakkinn. Hittum hressa flautuleikara og maka í morgunmatnum (ljómandi fínn hótelmorgunmatur) en héldum svo sem ekki hópinn, einhver þeirra ætluðu að vera massadugleg á flautuhátíð, mæta á masterklassa og tónleika, aðrir höfðu aldrei komið til Rómar og stefndu á Colosseo og Pantheon og Circo massimo, sem við höfðum tekið út í Rómarferðinni 2007. Þannig að við ákváðum að væflast um svæðið bara tvö.

Byrjuðum á því að oríentera okkur í nágrenni hótelsins. Í næstu götu við var stærsta lestarstöð Rómar, Termini. Forljót bygging en þægilegt að hafa svona nálægt. Í hina áttina var síðan ein hinna ofhlöðnu basilika (dómkirkna) borgarinnar. Þær eru þarna á öðru hverju horni og það eru ekki einu sinni neitt sérlega miklar ýkjur. Þessi heitir Basilica di Santa Maria Maggiore og hét Dúrkirkjan hjá okkur eftir þetta.

IMG_1729

Fílaði samt gólfið vel.

IMG_1730

Komum við í kjörbúð á horninu við basilikutorgið og keyptum eitthvað smotterí til að eiga á minibarnum. Herberginu okkar fylgdi fullur minibar sem við máttum drekka úr það sem við vildum án þess að borga fyrir það sérstaklega – en reyndar bara gos og vatn :p

Eitt af því sem við ætluðum að redda okkur í þessari ferð var parmaostakvörn þannig að þegar við rákumst á búsáhaldabúð rétt þarna hjá urðum við alsæl og stímdum þangað inn. Þar náttúrlega kolféllum við fyrir hinu og þessu og komum út með heldur meira en kvörnina. Ekkert af þessu jólaskrauti samt:

IMG_1736

Þarna var flinkur bakari á ferð:

IMG_1738

Gleymdi í fyrsta blogginu að segja frá lyftunum á hótelinu. Það voru þær þrengstu og minnstu lyftur sem ég hef vitað. Greinilega settar inn í stigagatið eftir á og vægast sagt ekki mikið pláss. Hér sést Jón í þeirri þrengri:

IMG_1746

Hádegismatar var neytt á veitingahúsi rétt við hótelið. Vel hægt að sitja úti, ágætis matur en betlararnir voru svolítið þreytandi, sérstaklega ein ung kona í skósíðum kjól sem bara hætti ekki að biðja okkur, þó við værum löngu búin að segja nei og að við værum ekki með neina lausa peninga, bara kort. Ég var ekki sátt við starfsfólk veitingahússins að láta þetta viðgangast, satt að segja. En fyrir utan það var þetta bara ansi næs.

IMG_1764

Þá var það aðal túristadæmið. Við höfðum ákveðið að heimsækja Vatikanið í ferðinni því við slepptum því algerlega 2007 í hitanum. Ég var þarna þegar farin að sjá svolítið illilega eftir að hafa ekki tekið með mér göngusandalana því skórnir voru að byrja að meiða mig þannig að það var ekki inni í myndinni að labba þangað. Allt morandi í skóbúðum í kring um okkur en engir sandalar í hrúgum, greinilega rammvitlaus árstími fyrir slíkt.

Ákváðum að það væri eiginlega bara svolítið sniðugt að hoppa upp í túristarútu, svona hop-on-hop-off. Slíkar voru í massavís hjá Termini þannig að það var ekki vandamál. Keyrðum réttsælis um borgina, framhjá ýmsum af þeim stöðum sem við höfðum heimsótt 2007 og hoppuðum út við Vatikanið.

Þar var auðvitað tveggja tíma röð bara til að skoða Péturskirkjuna og væntanlega að minnsta kosti önnur eins röð hinum megin, við Sixtínsku kapelluna. Fengum auðvitað engan frið fyrir fólki sem vildi selja okkur beinan aðgang inn, fram hjá röðinni og ef mér hefði ekki verið farið að vera illt í fótunum hefðum við tekið slíku boði og farið í tveggja tíma skoðunarferð. Hún verður hins vegar að bíða næsta skiptis, létum okkur duga að rölta um torgið. Þarna var verið að skreyta stærsta og flottasta jólatré sem ég hef á ævi minni séð:

IMG_1771

Gengum til baka, framhjá rútustæðunum og að Castel Sant’Angelo, þar sem Tosca gerist að miklu leyti. Aumu lappirnar á mér komu alveg eins þarna í veg fyrir almennilega skoðunarferð. Kannski næst, en kastalinn er allavega flottur að utan:

IMG_1773

Tókum túristarútuna niður að Campo dei fiori, þar var markaður í gangi, mikið dót og drasl. Settumst á útiveitingahús og fengum okkur bjór og Aperol spritz, tæpast nógu hlýtt fyrir Spritzinn samt, bara um 12 gráður.

Ekki var nú hægt annað en taka blómamynd á blómatorginu:

IMG_1778

Enn einu sinni rútan og nú aftur á Termini. Rákumst á skóbúð sem seldi Sketchersskó og náði að kaupa mér gott par. Aaaaaahhhhhhh!

Upp á hótel. Slökun. Svarti haninn í kvöldmat. Jón pantaði sér Rómarsett af mat en ég einhvern kjötseðil sem reyndist fyrst fínt lasagna en svo nautakjöt í Barolosósu, kjötið þurrt. Sá eftir að hafa ekki pantað sama og bóndinn, mikið betra og meira spennandi:

IMG_1780

Ekkert rauðvínsrugl á mér þetta kvöldið, tónleikar daginn eftir. Fórum ekkert niður á hótelbarinn bara beint upp í herbergi að sofa. Gooottt!


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

desember 2015
S M F V F F S
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
2728293031  

sagan endalausa