Þá var aðal dagurinn runninn upp. Konsert í aðal tónleikahöll Rómverja.
Morgunmatur að vanda. Súkkulaðikaka, besta í ferðinni. Mætti venjast því að fá sér desert eftir morgunmatinn. Og þó…
Eftir morgunmat fór Jón Lárus í vínbúðarleiðangur en ég ákvað að hvíla mig eins og ég gæti fram að tónleikum. Fór í bað í rólegheitunum, reyndi að þurrka hárið, gekk reyndar ekkert sérlega vel, hárþurrkan á hótelinu var nánast alveg ónothæf, loftið ágætlega heitt en straumurinn svo lítill að ég hefði alveg eins getað hrist á mér hausinn. Gerði samt takmarkað til því það lá svo sem ekkert á.
Lagðist aðeins yfir nóturnar, síðasta hraðatékk og punktar um túlkun og þanniglagað.
Jón kom heim eftir um tvo og hálfan tíma og við ákváðum að skjótast út á horn og fá okkur eitthvað smá í svanginn áður en lagt væri af stað á æfinguna. Höfðum ekki tíma til að setjast neins staðar inn og bíða eftir þjónustu þannig að það var bara næsti standur. Fundum reyndar stað með mat í borði en sem var samt hægt að setjast niður. Get nú ekki sagt að þetta hafi verið neitt sérlega spennandi en hei, við vorum allavega ekki svöng á eftir.
Höfðum ætlað að mæta klukkan hálftvö á tónleikastað, okkur var úthlutað þremur kortérum fyrir æfingu í salnum. Söfnuðumst saman klukkan 10 mínútur fyrir eitt (eða hmm ætluðum að safnast saman þá en hvenær geta nú Íslendingar verið nákvæmir á svoleiðis tíma?) Einhverjir ætluðu að koma sér beint á staðinn, sumir höfðu verið á masterklass um morguninn en smá hópur, 8 manns, var kominn saman á hótelinu um eittleytið. Báðum lobbíið panta tvo leigubíla. Svo bara biðum við og biðum og enginn bíll birtist. Það voru þá einhverjar heilmiklar mótmælastöður lengra fram eftir hótelgötunni og leigubílar komust hvorki lönd né strönd. Vorum hlaupin af stað út á lestarstöð (sem var mínútu gang frá hótelinu) þegar einn bíll birtist. Fjögur okkar fóru í hann en hin fjögur hlupu aftur af stað til að veiða bíl úti á lestarstöð.
Svo var okkar bíll svo lengi að komast út úr hverfinu að þau sem höfðu farið á stöðina voru auðvitað mikið fljótari á tónleikastaðinn.
Náðum nú hópnum sem betur fer samt saman áður en æfing hófst, sem betur fer hafði Pamela farargúrú áætlað mjög góðan tíma.
Salurinn reyndist skráþurr, teppi á sviðinu, en samt var alls ekki slæmt að spila þarna né hlusta. Akkúrat öfugt við Listasafnið þar sem við höfðum haldið sömu tónleika heima, þar er mjög mikil endurómun, nærri of mikil fyrir sum verkin.
Ég tók frekar hröð tempó á æfingunni, viljandi heldur hraðar en á tónleikunum, ágætt að koma fólki aðeins í gang.
Annars gekk æfingin bara fínt. Milli æfingar og tónleika voru síðan þrír og hálfur tími. Ekki tók því að fara til baka á hótelið. Við Jón Lárus nenntum ekki að sitja tvo og hálfan tíma á ekkert sérlega spennandi veitingahúsum sem voru á svæðinu, (mæting klukkutíma fyrir tónleika) þannig að við ákváðum að fara í smá göngutúr. Það var mjög fínt veður, sól og logn og um 14 gráðu hiti.
Svo sem ekkert sérlega spennandi þarna í kring, vorum nærri búin að gefast upp og snúa til baka þegar við rákumst á þetta líka spennandi listasafn með nútímalist. Fórum reyndar ekki á sýninguna en húsið var mjög flott og nokkur listaverk bæði fyrir utan og svo inni í fordyri safnsins. Gátum eytt dágóðri stund þarna.
Til baka og te (ég) og rauðvínsglas (Jón) og kökusneiðar, fram að mætingu.
Svo var kominn tími á alvöru lífsins. Spennt og ánægð.
Tónleikarnir gengu ótrúlega vel, öll tempó smullu og verkin flutu eins og þau áttu að gera. Því miður var ekki gerð upptaka (að ég viti að minnsta kosti) þannig að það fylgir ekkert vídeó eða hljóð en ég hefði viljað heyra sum verkin, gengu talsvert betur en hér heima í Listasafninu.
Að tónleikum loknum var stefnt út að borða á fínt veitingahús að nafni La Matriciana, beint á móti óperuhúsinu. Reyndist þrautin þyngri að veiða leigubíla fyrir allt gengið, 40 mínútna bið eftir hringdum bílum en á endanum rötuðum við á röð þar sem leigubílar komu þokkalega reglulega. Upp á hótel að skila af sér flautum og nótum og sprota og svo á veitingahúsið.
Reyndist alveg magnað, besta mozzarella sem ég hef á ævi minni smakkað og ólífuolían með alveg fáránlega góð! Saltimbocca hoppaði í munninn eins og nafnið ber með sér og allt eftir þessu.
Minglað fram eftir kvöldi og svo hótel og sof. Besti dagur!
Nýlegar athugasemdir