Berlin Tag #4. Schulbesuch und Tierpark

Þá var kominn tími á vinnuna þennan umgang. Skólaheimsóknir á dagskrá.

Við byrjuðum á Universität der Künste. Haldið þið ekki að sá skóli hafi verið svona 150 metra frá vínbúðinni sem ég þvældist til allra fyrsta daginn? Hefði ég nú vitað það þá! Ekki það, ég er svo sem ekki viss um að ég hefði meikað að dragnast með þrjár flöskur, þar af eina magnum, í heimsóknina og hefði pottþétt sleppt langa göngutúrnum sem við fórum í. En nú er ég farin aðeins fram úr mér. UdK heimsóknin var frekar mögnuð, vorum þar fram eftir degi. Hanns Eisler heimsóknin komst ekki í framkvæmd og þau sviku okkur líka um tónleikana um kvöldið en þessi borgaði alveg fyrir ferðina, svona námslega séð.

UdK liðið var hins vegar frábært. Alþjóðafulltrúinn tók á móti okkur ásamt bráðskemmtilegum prófessorum frá tónlistardeildinni og þó sérstaklega sviðslistadeild, sem tengdist okkur líka því óperur eru bæði undir sviðslista- og tónlistardeildunum. Sviðslistaprófessorinn, grískur að uppruna, reytti af sér brandarana á milli þess sem hann sagði okkur frá skólanum og við bárum saman deildirnar. Mér sýnist við reyndar ekkert þurfa að skammast okkar fyrir deildina nema auðvitað aðstöðuna! Hugarfarið hjá okkur er framúrstefnulegra, reyndar er það ekki sérlega skrítið miðað við svona gamla og ráðsetta stofnun.

Leiksviðið og tónleikasalurinn, verð þó að viðurkenna að það er smá öfund í gangi! Tónleikasalurinn var reistur fyrir Berlínarfílharmóníuna á sjötta áratug síðustu aldar, rúmum áratug áður en Philharmonie byggingin reis síðan og varð heimili hljómsveitarinnar. Þá var þessi, áföst við listaháskólann, afhent skólanum til eignar og rekstrar. Salurinn er nýttur fyrir skólann um 200 daga á ári, eitthvað smá er um útleigu en ekki sérlega mikið. Kíktum líka inn í upptökustúdíó skólans, vel tækjum búið:

img_2853

Eftir þessa heimsókn fengum við okkur flest í svanginn. Engan langaði með mér á víetnamska veitingahúsið þannig að ég fór bara ein.

Sveimérþá að það var bara besti matur ferðarinnar! Þessu verð ég að reyna að herma eftir heima. Fékk mér önd á grænmetisbeði í sósu úr rauðu karríi og engifer. Og ég sem hélt að brunchinn daginn áður hlyti að vera toppurinn. Veitingahúsið var alveg stappfullt og hellingur að gera sem bendir jú alltaf til að staðurinn standi fyrir sínu.

fullsizeoutput_63

Eftir matinn ákváðum við nokkur að ganga alla leið yfir Tierpark, yndislegt veður og eiginlega enn smá ilmur af sumri.

Enduðum gönguna upp við Brandenborgarhlið og svo Reichstag. Þreytan farin að segja til sín í fótum þannig að ég og ein önnur ákváðum að taka leigubíl upp á hótel. Það reyndist þrautin þyngri! Þeas, leigubíll fannst eins og skot en svo lentum við í – nei fyrirgefið vorum hluti af verstu umferðarteppu sem ég hef á ævi minni upplifað. Þetta eru um 2 kílómetrar upp á hótel og ég held við höfum verið um hálftíma. Sem betur fór tifaði mælirinn ekki stanslaust, bíllinn drap á vélinni þegar hann var stopp og við vorum mikið meira stopp en á ferð. Enduðum á því að fara út úr bílnum til hliðar við hótelið þegar bílstjórinn, sem hafði fórnað höndum og lamið hausnum á stýrið nokkrum sinnum á leiðinni spurði hvort við vildum ekki bara hoppa út þarna, hann yrði örugglega 5 mínútur í viðbót að komast fyrir framan hótelinnganginn. Sorrí þið sem röflið sem háværast yfir þrengingu Grensásvegar. þið vitið ekkert hvað alvöru umferðarteppa er!

Obligatorísku ostainnkaupin í Kaufhof Galeria og nýja uppáhaldsnammið, Pocket Coffee í hús, inn á hótel, frétti af því að okkur byðust ekki miðar á tónleika kvöldsins sem annars var búið að lofa, þá bara matur og barinn. Matur: Dæmigerður þýskur kvöldverður, undirrituð fékk sér schnitzel með steiktum kartöflum og spældu eggi, einn fékk svínaskanka með tilheyrandi, Berlínarpylsa með súrkáli og svo fékk grænmetisætan í hópnum sér salat með fetaosti. Þetta var ekki salatstaður! Sátum þarna í talsverðan tíma þar sem það munaði sirka helmingi á drykkjaverði miðað við hótelbarinn. Hittum samt fleira gengi þegar við komum á hótelbarinn og heilmiklar umræður spunnust um skólaheimsóknina og hlutverk tónlistarkennarans í því að hvetja til tónlistarneyslu og -nautnar hjá nemendum.

Lokakvöldi lokið. Morgundagurinn bara heimferð. Það þarf að gerast eitthvað markvert til að það komi færsla. Sjáum tiiiiil! (how’z dat for a cliffhanger?)

Berlin Tag #3. Große Brunch

Sunnudagur runninn upp. Talað um kosningaúrslit yfir morgunmatnum. Ég held annars ekki að ég eigi almennt að fara til Berlínar, síðast þegar ég var hér (mitt fyrsta skipti í Berlín) var seint í september 2008.

Bæði hné og fingur voru til friðs. Ákvað samt að taka ekki plástrana af fyrr en heima. Tómt vesen ef ég þyrfti eitthvað að leita mér hjálpar, þó ég hefði reyndar ekki gleymt evrópska sjúkrakortinu mínu heima eins og ég annars hafði óttast.

Eftir morgunmatinn fór ég í langan göngutúr austur frá hótelinu. Leiðsögumaðurinn daginn áður hafði bent okkur á að ef við vildum sjá dæmigerðan austurþýskan arkitektúr ættum við að ganga eftir breiðgötu beint í austur. Væflaðist aðeins smá króka, hálftíma-þrjú kortér eða svo og rölti síðan af stað eftir breiðgötunni. Tók þessa mynd af laufteppi:

img_2825

og tyllti mér á bekkinn sem sést á myndinni smástund. Koma þá ekki Tryggvi og Ibba og höfðu fengið alveg sömu göngutúrahugmyndina. Slóst í för með þeim og við gengum áfram í austurátt.

Listaverkin á veggjunum dæmigerð austantjaldsverk, öll af hamingjusömu fólki, duglegu að vinna vinnuna sína. Mér finnst svo gott þegar saga fær að halda sér, það væri svo mikil synd að eyðileggja þetta. Fyrir utan nú að þetta er alveg bráðfallegt.

Snerum heim eftir íbúðargötu við hliðina á breiðgötunni. Þau fóru upp að skipta í fínu fötin, voru á leið í óperuna eftir sameiginlegan brönsj sem deildirnar buðu upp á. Ég fór og keypti lestarmiða því ég hélt við ætluðum í lestinni á veitingahúsið. Reyndumst svo taka leigubíl.

Deildi slíkum með tveimur til. Við vorum nokkrum mínútum of snemma á veitingastaðnum sem var alveg stappfullur. Veitingafólkið hafði sagt okkur að koma klukkan tvö því þá væri laust en það reyndist semsagt ekki vera. Þurftum að bíða góða stund þar til við öll 28 vorum komin í sæti.

Þarna var risastór ansi flott ljósakróna þó lýsingin frá henni væri kannski ekki á pari við stærðina:

img_2833

Skildum síðan vel að staðurinn væri vinsæll. Ótrúlega flott hlaðborð:

þarna yfir desertinum má sjá hana Þorbjörgu mína sem býr í Berlín núna fram til áramóta og er sárt saknað bæði af vinnustað og úr kórnum!

Sátum góða stund yfir þessu, enda ekki hægt annað. Tókst samt að borða ekki yfir mig, ég veit ekki alveg hvernig ég fór að því. Grænmetið sumt gæti hafa verið það besta sem ég hef fengið. Lítið kjöt en fullt af alls konar grænmeti og ávöxtum.

Tók lestina heim á hótel ásamt Þórunni Sigurðar og upp á herbergi smástund. Eða átti að vera smástund allavega. Varð svo syfjuð um fimmleytið að ég lagði mig og vaknaði ekki fyrr en hálfátta.

Dreif mig út í annan göngutúr, úr því ég var svona voðalega ódugleg að kaupa miða á listviðburði var þó allavega málið að kynnast borginni. Unter den Linden í myrkri er ekkert leiðinleg sko! Jólaskraut farið að birtast í nokkrum verslunargluggum og allt upplýst þó allt sé lokað á sunnudögum.

Currywurst í kvöldmatinn, ekki alveg á pari við hádegið en ekkert svo slæmt samt. Ég hef aldrei smakkað currywurst áður og þetta var ekkert sem verstur skyndibiti.

Upp og skrifa færslu. Niður á bar að bíða eftir Parsifalförum og fleirum. Setið fram til hálfeitt við spjall. Ekki verst.

Berlin tag #2. Ausschlafen und spazieren

Steinsofnaði strax eftir birtingu á pósti gærdagsins! Klukkan hefur verið um hálfníu. Vaknaði um fjögurleytið, sofnaði aftur, rumsk klukkan sjö og svo ekki fyrr en hálftíu. Þrettán tíma svefn gerið svo vel! Minnti mig helst á þegar ég svaf yfir mig í Ítalíuferð Hljómeykis í fyrra og fólk hélt helst að ég lægi fárveik uppi á herbergi.

Ljómandi morgunmatur á hótelinu, upp í sturtu, smá net, (aðrar 10 evrur fyrir daginn, alveg hefði ég ekki pantað þetta hótel sjálf. Frítt net er eitt það fyrsta sem ég skoða þegar ég panta mér hótel).

Útsýnið af 29. hæð:

img_2789

Smá innkaupaleiðangur. Bara smá samt, þeas keypti ekki mikið en glápti þeim mun meira.

Vonda Evrópusamband með hættulega sýkta mat!

Svo var stefnan tekin á langan göngutúr með Váleiðsögumanni. Arkað af stað frá hótelinu. Sá þessa klukku:

img_2790

stoppaði og smellti af henni myndinni hér fyrir ofan, hálfhljóp svo af stað að ná hinum og datt í götuna. Beint á vinstra hnéð sem ég meiddi mig á fyrir nokkrum vikum. Urr. Hélt samt smá áfram, haltrandi en þegar ég fann að það vessaði einhver vökvi gegn um buxurnar mínar gafst ég upp, sagði skilið við hópinn og fór frekar í apótek. Þar var ekki til neinn silfurplástur (urr aftur), annað og stærra apótek, þar fékk ég allavega sótthreinsandi sprey og box af plástrum. Upp á hótel í viðgerðarleiðangur. Plástrarnir reyndust litlir og asnalegir, litu sannarlega ekki þannig út á myndinni en ég átti einn silfurplástur í töskunni og splæsti honum á hnéð. (Hafði ætlað hann á puttann á mér sem er enn lengri og leiðinlegri saga, þessi er alveg nógu leiðinleg).

Var hins vegar svo súr yfir að hafa misst af hinum að ég hringdi í meistara Tryggva og fékk hann til að spyrja að því hvort ég gæti farið í lest og náð hópnum einhvern veginn. Leiðsögumaðurinn vildi meina að það væri best að labba af stað og hitta okkur því það styttist í að þau nálguðust hótelið aftur.

Á Safnaeyju hringdi ég aftur og þá voru þau einmitt að koma þangað þannig að þetta náðist nú saman.

Bráðskemmtilegur túr það sem eftir var af honum, enduðum á heilmikilli sögu gyðinga í Berlín, hetjusögum og sorgarsögum og listaverkum til minningar um helförina.

Hótel. Planaður hittingur klukkan átta, hitti fleiri og rölt á eitt ítalskt veitingahús, ekkert pláss, ókí, næsta, pláss til hálftíu. Klukkutíma höfðum við til að panta og borða. Tróðumst fimm við fjögurra manna borð. Bara fínt samt.

Pantaði mér kálfshjarta á spínatbeði. Var verulega voguðust af okkur, hin pöntuðu sér rísottó með trufflum, ravioli með spínati og ricotta lasagna. Allt mjög gott, ég hefði samt ekki viljað skipta við neinn hinna. Hjartað var fáránlega gott, ég yrði ekki hissa þó það hefði verið marinerað í marsalavíni.

Hentum okkur sjálfum út ríflega klukkutíma síðar. Sáum ekki að fólkið sem átti borðið okkar pantað klukkan hálftíu væri mætt á svæðið þannig að við vorum í ágætis málum. Hótelið var næsti viðkomustaður, þar hittum við par úr hópnum og ekki vorum við fyrr sest en fleira fólk streymdi að. Skelltum saman nokkrum borðum og sátum lengi fram eftir, yfir drykkjum og fyrstu tölum þegar þær loksins sýndu sig.

Ekkert viss um að ég vilji neitt fara að tjá mig um kosningaúrslitin. En kokkteillinn var góður!

Berlín Tag #1 Dort und Wein

Jæja ferðablogg. Alveg nauðsynlegt, er það ekki annars? Það finnst mér skoh!

Kennaragengið úr Tónlistardeild Listaháskólans ásamt dittó frá Sviðslistadeildinni var búið að plotta mikið eftir beðna (er hægt að segja svona?) útlandaferð. Margbúin að fara með Suzukiliðinu, heldur sjaldnar með Hafnarfirði en LHÍ gengið var bara alls ekki búið að fara neitt.

Flugið var á algerlega óguðlegum tíma, flogið klukkan 06.10. Mæting klukkan 02.50 fyrir Engeyjarr- nei fyrirgefið Kynnisferðarútuna. Ég var búin að ákveða að fara í bælið klukkan tíu og athuga hvort ég næði að sofna og gæti þannig náð svona ríflega fjögurra tíma svefni en nei, hringir þá ekki kórstjóri í öngum sínum og sárvantar sópran í eldsnögga upptöku klukkan tíu. Bóngóða ég gat ekki sagt nei þegar maðurinn bar sig svona illa en fékk loforð um að þetta yrði búið hálfellefu, ég ætlaði þá bara að labba út. Tókst næstum því, ég var allavega komin aftur heim fyrir ellefu og fór að sofa.

Síminn pípti á mig klukkan 02.25, nesti og Jón Lárus skutlaði mér niður á BSÍ. Hitti þar nokkra mismyglaða ferðafélaga, þrjár stappfullar rútur út á völl. Gekk hnökralaust að skrá töskurnar inn og aldrei þessu vant engin röð í öryggistékki.

Venjulegi pakkinn í Leifsstöð, fékk mér ekki freyðivín í morgunmat þó kórstjórinn kvöldið áður segði að ég ætti sannarlega fyrir því. Reddast í Berlín! Rauðvínsflaska í fríhöfninni til að eiga uppi á herbergi. Keypti mér in-ear Sennheiser heyrnartól því ég gleymdi mínum risastóru heima.

Vélin af stað örlítið á eftir áætlun en það gerði ekkert til því það var þvílíkur meðvindur að við græddum það allt til baka. Steinsvaf mest af leiðinni. Berlín Schönefeld, lítill og krúttlegur völlur 40 mín frá miðborginni, (búið að leggja niður Tempelhof í miðborginni og Berlín varð ekki ónýt). Hress gaur frá váflugi kom með rútu og sótti okkur. Nei ekkert of hress, bara ljómandi skemmtilegur og sagði okkur frá því sem fyrir augun bar á leiðinni. Nestið étið í rútunni.

Hótel, riiisastórt, ég með einkaherbergi á 29. hæð og sko ekki efst! Herbergið ljómandi en netið dýrt og ömurlegt. Já ég er að skrifa bloggfærslu á dýru og ömurlegu neti. Næ ekki að tengja símann við netið sem ég keypti á 10 evrur sólarhringinn. Bögg.

Nújæja, ekki var planið að hanga inni á herbergi allan daginn. Ég var með eina sendiferð á dagskránni, heimsókn í spennandi vínbúð. Smá bögg (ókei ekki smá) að ná ekki netinu á símann og geta ekki notað google maps til að finna. Meiningin var að fara í þessa sendiferð á laugardagsmorguninn en hafandi svo sem ekkert sérstakt fyrir stafni síðdegis á föstudeginum ákvað ég að láta vaða. Tók smástund að finna lestina, hún hét S eitthvað og ég fann ekkert nema fullt af U inngöngum og H sem voru sporvagnarnir sem ég hélt annars að gætu verið S. S reyndist síðan vera Schnellbahnnet, ofanjarðarlestir. Besta mál. Hélt ég.

Keypti miða og fann rétta brautarpallinn. Þekkti ekki almennilega inn á endastöðvarnar þannig að ég spurði stelpu sem stóð og beið með mér hvort ég stæði réttu megin til að komast vesturúr. Jú jú sagði hún en athugaðu að það er verið að gera við teinana og það þarf að taka strætó eftir tvær stoppustöðvar. Bögg!

Ég út á þarnæstu stoppustöð. Klórandi mér í hausnum og skiljandi lítið í óskýru skilaboðunum í hátalarakerfi stöðvarinnar. Rölti út, var nærri búin að falla fyrir leigubíl en sá þá strætó sem stóð og beið og leit einmitt út fyrir að vera í framhaldsakstri. Hafði semsagt rambað beint á réttan útgang úr lestarstöðinni og beygt í rétta átt. Alveg af tilviljun.

Strætó fínn, sá ansi margt á leiðinni. Einfaldasta mál að finna vínbúðina. Innkaupaseðillinn virkaði samt ekki nema að hluta til, vínbúðin hafði fengið póst frá Jóni Lárusi um vínin sem okkur langaði að kaupa en tókst að misskilja hann alveg herfilega. Náði nú samt alveg að kaupa spennandi rauðvín.

img_2777

Svona lítur uppskeran semsagt út.

Níðþungt drasl, ég hafði ekkert ætlað að fara í vínbúðina þegar ég fór út þannig að ég var ekki með bakpokann minn og dröslaði þessu öllu til baka í strætó og lest og upp á hótel. Fór vitlausu megin út úr lestarstöðinni á Alexanderplatz og þetta blasti við:

img_2776

Inn og út aftur hinu megin, inn á hótel, fram hjá Börger King stað inni í hótelbyggingunni, ætti ég að fá mér bara svoleiðis í kvöldmat upp á herbergi? kannski? upp á 29. hæð og losna við vínin, niður aftur að fá mér að borða, þetta fína bistró og bar freistaði óneitanlega meira en Börgerking. Þar inni sátu svo Tryggvi, Ibba og Elín Anna. Bættist í hópinn og ánægjuleg kvöldmatarstund.

Þau stímdu á tónleika í Berlínarfílharmóníunni, ég hafði ekki keypt miða á þetta og fór upp á herbergi alveg útúrkeyrð. Öfundaði þau samt pínu af að vera að fara á tónleika í þessu stórkostlega húsi hjá þessari stórkostlegu hljómsveit. Samt ekki. Sú öfund var víst pínu endurgoldin.

Herbergi. Rauðvínsglas úr fríhöfninni. Náttföt. Blogg.

Meira á morgun.

Danmörk dagur 8 – Malmö fyrst og svo Danmörk aftur

Lokadagurinn. Heim um kvöldið. Flugið okkar var ekki fyrr en sjö um kvöldið þannig að okkur lá ekkert svakalega á að rjúka suður á Kastrup.

Byrjuðum daginn á að hafa samband við tapað-fundið hjá DSB út af blessuðum bakpokanum. Ekkert kom út úr því nema að við ættum að fara á safnpunktinn þeirra á Hovedbanegården. Ákváðum að vera ekkert að þeytast það þarna um morguninn, fara bara frekar fyrr af stað í flugið.

Bryndís og Rein áttu frí þennan dag, svo heppilega vildi til að það var þjóðhátíðardagur Svía. Það er ekki gert neitt sérlega mikið úr honum frekar en reyndar þeim danska en frí var nú samt.

Okkur langaði til að sýna krökkunum Vesturhöfnina, mjög skemmtilegt svæði með (auðvitað alveg rándýrum) íbúðum, bæði í Turning Torso blokkinni frægu og svo bara alls konar skemmtilegum húsum, misþröngum götum, alls konar listaverkum og kaffihúsum, ísbúðum og veitingahúsum. Ísbúðirnar földu sig reyndar ansi vel fyrir okkur.

rotating

Gengið að skoða skemmtilegt listaverk með hnöttóttum steinum sem snúast stanslaust í vatnsflaumi. Sá rauði sat reyndar fastur.

Bryndís og Rein þurftu að skreppa frá og við hin röltum um svæðið og fengum okkur síðan hádegismat.

við gamla gengið fengum okkur bæði þetta smurbrauð með laxi, aspas, poached eggi (hvað heitir það nú aftur á íslensku?) og hollandaisesósu. Þið sjáið nú hvað það fór vel í okkur!

Þessa rákumst við síðan á á röltinu – vorum fyrst ekki viss hvort þetta væri stytta en síðan sneri hún höfðinu og horfði á okkur. Dýrka uglur!

Ugla

Nújæja, þegar sænska gengið hafði lokið sínum erindum komu þau aftur, fundu ísbúð fyrir Finn og keyptu handa honum ís, skutluðu okkur síðan í veg fyrir lestina til Kastrup. Þökkuðum hjartanlega fyrir okkur að sjálfsögðu, höfðingjar heim að sækja!

Ekki gleymdist nein taska í lestinni að þessu sinni! Veeeel passað upp á!

Út á Kastrup. Tékkuðum okkur og töskurnar okkar inn, vorum auðvitað í góðum tíma og nenntum engan veginn að þvælast með allt draslið inn til Hovedbanen og til baka. Né reyndar krakkana, þau fengu bara fyrirmæli um að ráfa um Kastrup og/eða finna sér kaffihús. Enginn svangur enn, annars hefðum við örugglega stýrt þeim á Burger King uppi á annarri hæð. Þessi Burger King er iðulega eina keðjuskyndibitamáltíðin sem við fáum okkur í Danmörku, tja reyndar mögulega fyrir utan Steff-Houlberg, veitingahúsin þegar inn er komið eru bara svo hálfvitalega dýr að það er fínt að fá sér staðlaðan borgara í alrýminu.

En við Jón Lárus semsagt stímdum til Hovedbanen.

Það væri synd að segja að þessi tapað-fundið skrifstofa sé vel merkt á kortunum yfir stöðina. Við vorum góða stund að leita en svo reyndist hún bara vera til hliðar þar sem aðalmiðasalan er, hjá innganginum framan á stöðinni.

Þar var hin alúðlegasta frauka við afgreiðslu. Við lýstum fyrir henni töskunni og að hún væri með Tveimur Tölvum Í! og að Við værum að Fara til Íslands á Eftir! alveg með handapati og látum. Hún pikkaði á tölvuna sína og klóraði sér í hausnum og fann ekkert út úr þessu en sagði síðan: Heyrið þið, komið bara hér til hliðar og ég hleypi ykkur inn í geymsluna fyrir fundna dótið. Jáá góð hugmynd atarna.

Inn til hliðar. Fullt fullt af svörtum tölvubakpokum. Minn er reyndar með upphleyptri grárri rönd og sveimérþá að ég ræki ekki strax augun í akkúrat þannig poka! Þarna! þarna! getur verið þessi! æsingurinn var sko ekkert minni en áður.

Og í þessum bakpoka voru ásamt öðru ein nýleg Macbook pro og einn enn nýrri ThinkPad. Poookinn miiiiinnnn! ég get svarið að ég hoppaði af kæti. Mikið held ég það sé gaman að vinna í svona starfi – þeas. þegar fólk finnur dótið sitt.

Ofboðslega létt tókum við svo lestina til baka á Kastrup. Sameinuðumst krökkunum og fórum í röðina í öryggisleitina, alls ekkert langa né leiðinlega (ekki bara vegna þess hve við vorum í góðu skapi, hún bara var örstutt aldrei þessu vant).

Versluðum ekkert að ráði, splæstum okkur bara í sushi sem reyndist reyndar ekkert gott, ágætis hvítvín samt, Freyja og Emil reyndar tímdu ekki sushiinu og fengu sér pizzu, örugglega mikið betri og allavega talsvert ódýrari.

Flugið lítt frásagnarvert, allar töskur skiluðu sér, klóruðum okkur í hausnum yfir nýju reglunum með áfengiskaup og rauða hliðið, hefðum ekki þurft að klóra okkur í hausnum yfir nýju reglunum með áfengiskaup og rauða hliðið því nýju reglurnar voru alls ekki komnar í gagnið. Magnið okkar slapp aldrei þessu vant, þurftum ekki að borga neitt. Gæti haft eitthvað með Freyju nýorðna tvítuga og eitt sett af leyfi í viðbót.

Heim í seinna lagi, skutluðum Emil heim til sín, kíktum í Hagkaup til að farast ekki úr hungri morguninn eftir, Þorbjörg húspassari kíkti á okkur (takk enn og aftur) og þar með lýkur ferðabloggi í þetta sinn.

Danmörk dagur 7 – Alls ekki Danmörk! Malmö!

Næstsíðasti dagurinn rann upp, bjartur heitur og fagur í úthverfi Malmö. Ekkert leiðinlegt við það. Morgunmatur í boði Reins. Spjölluðum aðeins og gúgluðum hvernig væri best að leita að blessuðum/bannsettum bakpokanum, fundum einhver símanúmer og reyndum að hringja en Danirnir ekkert sérlega mikið í því að ansa í svoleiðis síma á sunnudagsmorgni, tja reyndar ekki allan sunnudaginn. Sendum póst á netfang sem við fundum og ákváðum að ýta þessu veseni úr hausnum og njóta síðasta heila dagsins í ferðinni. Rein sagði Bryndísi líka vera snilling í að redda svonalöguðu og það yrði ágætt að fá hana heim um kvöldið og ráðfæra okkur.

Garðurinn þeirra Reins og Bryndísar og barna er algjör paradís, pallur og ekki bara pottur heldur heil sundlaug, mætti halda að við værum í Flórída, ekki Malmö. Munur að vera hljóðfæraleikari í Svíþjóð! almennilegt!

Verstur fjárinn að eiga ekki mynd af tréhúsinu sem Finnur svaf í báðar næturnar. Það er flott.

Þegar gengið var vaknað dobluðum við Rein til að skutla okkur í búð til að kaupa inn svo við lægjum nú ekki uppi á fjölskyldunni í tvo heila daga. Það var ekki meiningin. Keypt inn fyrir kvöldið og morguninn – við aularnir höfðum svo auðvitað ekki fattað að maður kaupir ekki svo glatt vínflösku með matnum á sunnudegi í Svíþjóð. Hvítvínið með humrinum í hættu! Tja reyndar ekki mikilli, við splæstum bara flösku sem við höfðum ætlað að taka með okkur heim, í staðinn og Rein átti nógan bjór og eitthvað smá vín líka.

Til baka og svo gerðum við satt að segja ekkert fram eftir degi. Nema lesa og spjalla á pallinum:

pallur

nema sá sem er ekki sólarfíkill (og virðist heldur ekki nást í neitt voðalega góðan fókus):

úllíngur

þar til líka hann dróst út – í laug:

sundlaugin

sem var nóta bene himnesk!

meira að segja kettirnir fóru út og lögðust í leti! Sif og Snúður eru sómalíkettir, allt of vogaðir, passa sig ekki á bílum og mega þess vegna ekki fara út nema í bandi:

Snúður og Sif

Tókst mesta furða að vera ekki tölvuleysispirruð og -stressuð.

Um kvöldið var svo farið út á götuhátíðina. Rein er konunglegur fiðlari (ýkjulaust, er með stimpil upp á það að hann spili fyrir sænsku hirðina) og kippti með sér þjóðlagahljóðfærinu út og svo var farið í ratleik sem við unnum ekki en urðum okkur samt ekki til skammar og síðan grillað fyrir gengið. Mikið gaman:

Loksins kom svo Bryndís heim og við spjölluðum lengi fram eftir kvöldi. Engin mynd tekin, en þeim mun meira spjall og skálað og hlegið frameftir. Flugið daginn eftir var að kvöldlagi þannig að ekkert stress.

Danmörk dagur 6 – Köben

Lokadagurinn í Kolding runninn upp. Ekki var ferðin alveg búin, þessi dagur var planaður í Kaupmannahöfn og svo væri ferðinni heitið yfir sundið til Malmö í tvo daga.

Planið hafði verið að heimsækja Irme vinkonu okkar, konu á aldur við mömmu og pabba, hafði verið nánast eins og aukamamma mín þegar við vorum í námi í Danmörku. Þá var sko ekkert Skype og Facebook, rándýrt að hringja milli landa, við mamma leyfðum okkur símtal sirka einu sinni í mánuði. Þegar ég átti svo von á Fífu var ansi hreint gott að eiga aukamömmu til að ráðfæra sig við.

Nema hvað, þegar ég heyrði í henni tveim dögum fyrr sagðist hún eiga hópmiða í Tívolí og geta boðið 4 með sér inn í garðinn. Krakkarnir voru svo auðvitað spennt fyrir að fara í Tívolí, Finnur hafði aldrei farið þangað áður. Slatta auðveldara líka heldur en að rusla öllum upp í lestina til Birkerød og þaðan í stórum leigubíl heim til Irme.

Ég doblaði elstu krakkana til að koma með, við vorum jú með stóran bíl og þau myndu síðan bara taka lestina til baka til Kolding.

Tékkað út af hótelinu, eitthvað hafði bókunin farist fyrir þannig að það var ekki skráð í afgreiðslukerfið að við værum búin að borga bæði herbergin. Sem betur fer gátum við sýnt fram á bæði pósta frá sölusíðunni og úttekt á vísareikningunum þannig að gaurinn varð að trúa okkur.

Komumst loks í bílinn, talsvert tetrisafrek að koma öllum farangrinum fyrir þar sem við gátum ekkert notað aftursætin eins og á leiðinni til Kolding, af stað, náðum í Fífu, Atla og Finn heim til F&A og svo bara bless bless Kolding. Ekki í síðasta skiptið takk, þangað væri ég til í að fara aftur áður en krakkarnir klára námið.

Aksturinn til Kaupmannahafnar gekk smurt og þægilega, enda varla annað hægt á lúxuskerrunni. Þegar við vorum að renna inn á Amager datt mér í hug að það hefði auðvitað verið langlangþægilegast að keyra bara yfir til Malmö með dótið okkar, skilja það eftir hjá Bryndísi vinkonu okkar, sem við ætluðum að gista hjá tvær síðustu næturnar, keyra svo til baka til Kastrup til að skila bílnum og vera farangurslaus í Kaupmannahöfn. Þetta var hins vegar fullseint í rassinn gripið, við vorum ekki með símanúmerið hjá Rein manni Bryndísar og ég mundi ekki heimilisfangið sisvona. Þannig að við vorum ekkert að vasast í þessu og keyrðum bara beint í bílastæðahúsið til að skila. Hefðum reyndar átt að taka okkur þessar mínútur sem hefði tekið að finna út úr málinu, það hefði sannarlega sparað okkur mökk stress og vesen seinna um daginn. En komum betur að því síðar í færslunni.

Áttum auðvitað ekki aukatekið orð til að lýsa kagganum, við strákinn sem tók við bílnum. Hann var ekki farinn að prófa hann einu sinni sjálfur og gat ekki beðið að taka rúnt á honum og prófa alla spennandi takkana!

Drögnuðumst með farangurinn niður í lestina til Hovedbanegården, þar tróðum við dótinu í tvö stór geymsluhólf, gott að vera laus við það. Enn var um hálftími þar til við ætluðum að hitta Irme. Allir orðnir svangir, við röltum yfir á Ráðhústorgið til að fá okkur að borða, ekki sniðugt að þurfa að borða mikið í Tívolí sjálfu. Þar var þá fjölmenningarhátíð í gangi, þjóðdansar á sviði, alveg fáránlega mikill hávaði í músíkinni, sjóðheitt, við orkuðum ekki að labba langt þannig að þó það hafi örugglega verið fullt af alls konar spennandi mat í básum enduðum við flest á pylsuvagni. Tróðum í okkur pylsum og vorum svo dauðfegin að fara úr hávaðanum. Irme sendi mér sms og sagðist vera komin inn í Tívolí, myndi svo koma út og hitta okkur við innganginn þegar við kæmum.

Allt stóðst það, inn í Tívolí, tylltum okkur á pöbb í skugga.

Krakkarnir stefndu svo auðvitað á tækin en við Jón Lárus og Irme tókum bara góðan rúnt um garðinn, settumst niður þegar okkur langaði og röltum áfram eftir löngun. Troðfullt af fólki enda laugardagur og veðrið eins og best varð á kosið.

Pöbb númer tvö:

Frábær Tívolíferð sem endaði á smurbrauði á einum staðnum til.

Kvöddum Irme og upp á lestarstöð, sóttum draslið okkar í hólfin og sögðum bless í bili við Fífu og Atla sem fundu síðan lestina sína til baka til Kolding.

Við skildum ekki bofs í því hvers vegna við fundum hvergi á plani neinar lestir út úr landinu. Vorum orðin svolítið stressuð þegar við föttuðum síðan að við þyrftum bara að taka lestina til Kastrup og skipta þar því eftir hryðjuvesenið um vorið voru bara engar beinar ferðir, þurfti alltaf að skipta um lestir við landamæri. Ókeiii. Við þangað. Var búin að kaupa miða fyrir okkur öll fram og til baka frá Hovedbanegården til Malmö, slapp til að við næðum helgarmiða, sparaði alveg slatta pening.

Drösla farangrinum inn í lest. Drösla farangrinum út úr lest. Drösla farangrinum á hinn brautarpallinn, þar voru opinberu landamærin til Svíþjóðar og þurfti að sýna passa. Styttist í lest. Ég: Jón Lárus, hvar er bakpokinn okkar??? Jón: Það veit ég ekki!!! Í bakpokanum voru BÁÐAR TÖLVURNAR OKKAR!

Bakpokinn hafði gleymst í lestinni frá KBH til Kastrup. Uppi á farangursgrind fyrir ofan sætin okkar. OMG!

Við Jón í dauðastressi upp aftur, búið að loka farmiðasölunni, fundum bara upplýsingar fyrir flugvöllinn sjálfan, þar var engar upplýsingar að fá um DSB týntogtröllumgefið. Fengum bara símanúmer og var sagt að það væri frekar að reyna að fá upplýsingar um þetta daginn eftir.

Til baka, eiturpirruð auðvitað. Krakkarnir höfðu beðið á brautarpallinum og voru fegin að sjá okkur aftur, þó bakpokalaus værum.

Þýddi lítið að pirra sig á þessu þannig að við reyndum að slappa af eins og við gátum. Vildi til að við erum bæði mjög öflug í að bakka upp tölvurnar og vinna á netinu þannig að við vissum að það væru engin gögn týnd. Nóg samt.

Yfir til Malmö. Drösla næstum því öllum farangrinum upp af lestarpallinum og skima eftir Malmö Live, nýja tónlistar- og ráðstefnuhúsi (og hóteli) Malmö. Það var auðfundið:

malmö live

Magnað hús. Hittum Rein sem var að spila konsert þar um kvöldið og gat farið með okkur túr um húsið. Hann sagði konsertsalinn vera enn betri en Eldborg sem ég trúi náttúrlega mátulega :þ

Náðum svo að troða farangri, krökkum og okkur sjálfum upp í bílinn hans og heim í hús. Finnur fékk að sofa uppi í tréhúsi úti í garði en við hin fengum herbergi inni. Vínglas og ostar, gott og rólegt spjall við Rein (Bryndís hafði tekið gigg á Jótlandi og kæmi ekki heim fyrr en daginn eftir) og úff hvað var gott að fara að sofa!

 


bland í poka

teljari

  • 364,407 heimsóknir

dagatal

júlí 2017
S M F V F F S
« Nóv    
 1
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
3031  

sagan endalausa