Canite

jáh ég skrifa ekki mikið hér. Viðurkennist aumlega

En í dag fékk ég skemmtilega sendingu

Svo er málþing í fyrramálið. Kannski pósta ég mínu innleggi þar.

ljóti draumurinn

Sem betur fer trúi ég ekki á drauma. Annars væri ég skíthrædd núna.

Dreymdi semsagt undir morgun að ég væri að keyra á hljómsveitaræfingu, einhver sem ég man ekki hver var með mér í bílnum. Einhvern veginn snéri Seltjarnarneskirkja í suður, ekki vestur, sosum smáatriði. Útsýni út á sjóinn í suðurátt.

Nema hvað. Horfum út á sjó og sjáum þar rísa reykjarmekki svo langt sem augað eygði. Semsagt langa langa röð mekkja, hver fyrir sig var ekki stór. En langt. Mjög langt.

Áttaði mig (í draumnum) eins og skot á að þetta væri ein af þessum risaeldstöðvum sem væri nú að blása og já, þetta væri bara endirinn. Þetta væri stóra gosið sem myndi tortíma lífi eins og við þekktum það. Þannig væri það bara.

Það sem ég man næst í draumnum var að við bóndinn vorum að diskútera að safna fjölskyldunni saman niðri í svefnherberginu okkar, draga fram fjölskyldugrillið, loka öllum gluggum, kveikja upp og fara svo að sofa.

Hef sjaldan ef nokkurn tímann orðið jafn fegin að vakna…

Oj!

Lenti í vibba í vikunni.

Keyptum okkur ofnfranskar í poka í Bónus. Löt, ég veit! Ekki vön að stytta mér leið, það er ekki eins og það sé mikið mál að skera niður kartöflur í báta, krydda og henda í ofninn. Neinei en það var spurning um leti í þetta skiptið. Steikti kjúklingalæri á pönnu og setti síðan helminginn af frönskupokanum ásamt smá slettu af Smith and Wesson (tja eða allavega Wesson) olíu. Allt í fína. Kartöflurnar ekkert mega góðar en hver bjóst svo sem við því? Margoft notað þessa olíu áður.

Svo kom að því að þrífa skúffuna. Það var engin fljótandi olía í henni þannig að henni var bara hent beint í uppþvottavélina. Með uppþvottaefni sem er nú ekki beinlínis þannig að það leysi ekki upp óhreinindi. Svona leit skúffan út þegar vélin kláraðist:

Image
Hmmm!?

Henti skúffunni í baðkarið og lét renna fullheitt vatn í hana. Við erum ekki með hámarkshitavara á baðinu þannig að vatnið verður alveg nærri 80°. Dugði EKKI til. Upp og í (tja ofan á) vaskinn, dregin upp steikarspaði og skafið úr skúffunni. Þurfti þrjár eða fjórar sprautur af uppþvottalegi til að losa rest. Áferðin var eins og trélím, þið vitið þetta hvíta, gamla góða. Ljómandi sem lím en ekki akkúrat það sem ég kæri mig um að borða.

Aumingja kransæðarnar mínar!

Megnið af jukkinu farið, ákvað að keyra langt prógramm og heitt á uppþvottavélinni. Þrír tímar, níðsterkt og basískt uppþvottaefni eins og fyrr, 65° hiti á vatninu.

Út kom skúffan. Enn klístruð í hornunum. Steikarspaðinn útvaðandi í límklessum. Hvurandskotinn?

Á eftir að taka skúffuna með stálull til að hreinsa síðustu restar. Spaðanum gat ég plokkað af límið.

Þetta eða álíka verður hins vegar ekki keypt framar. Kartöflur frá bónda eru málið.

Image

Og svona fór fyrir rest:

Image

Image

Bílaþvottavesen

Fyrir örfáum vikum, eftir eitthvert austan rokið með ösku og tilheyrandi var bíllinn orðinn ansi hreint skítugur og ljótur. Eins og gerist.

Við drifum okkur þess vegna út á þarnæstu bensínstöð á þvottaplan. Gripum í tómt. Engar slöngur. Við á næsta plan, ekkert þar heldur. Á þriðja planinu var ein slanga úti og tveir bílar að bíða. Hvað var með þetta eiginlega? Það hafði ekki verið frost í þó nokkra daga og engin ástæða til að slöngurnar væru ekki úti.

Ég hoppaði út úr bílnum og inn á stöðina (N1 við Ægisíðu) til að spyrja hvort hægt væri að setja út fleiri slöngur. Bensínafgreiðslustúlkan svaraði þá til að hún ætti ekki hægt um vik með það, þar sem slöngunum og burstunum hefði öllum verið stolið.

Ha?

Hvað í ósköpunum?

Við hinkruðum og náðum að þvo farartækið en veltum fyrir okkur hvernig á þessu gæti staðið. Hver hefur ágirnd á einhverjum slöngudruslum og notuðum kústum? Datt helst í hug að sökudólgurinn væri eigandi bílaþvottastöðva sem vildi gera fólki erfitt fyrir að þvo sjálft.

Sáum núna fyrir helgi að það voru komnar glænýjar gular vatnsslöngur og burstar á fyrstu stöðina, vonandi fær þetta nú að vera í friði. 

páskagöngutúr

Við bóndinn og einkasonurinn vorum orðin frekar mygluð hér heima yfir súkkulaði og tölvum þannig að út var drifið sig í göngutúr í sól og vori (jájá getur vel verið að það eigi eftir að koma kuldakast en það er bara SAMT vor í lofti).

Byrjuðum í styttugarðinum hjá Hnitbjörgum en svo fórum við að rifja upp allar sjoppurnar sem voru einu sinni í miðbænum og gengum um og bentum Finni á hvar þær höfðu verið. Ein á Bergstaðastræti rétt hjá þar sem Þvottahús A. Smith er, önnur á horni Freyjugötu og Njarðargötu, tvær á/við Óðinstorg, rifjuðum svo upp Tvistinn og Örnólf við Snorrabraut þó við reyndar gengjum ekki alla leið þangað. Ekki nema örfáar eftir, Drekinn á sínum stað, Söluturninn við Grundarstíg og Vikivaki. Erum alveg bókað að gleyma einhverjum.

Skemmtilegur bónus (ekki þó Bónus) við gönguna var að við sáum áreiðanlega 5 flottar graffitimyndir sem við höfum aldrei rekið augun í áður. Sumar pottþétt alveg nýjar. Lítið hins vegar um skemmdarverkjagraff. Slatti af nýjum stillönsum og fólk að dytta að húsunum sínum líka. Heimur batnandi fer.

götunafnsmisskilningur

Erum í að dreifa nýjasta sölugóssinu frá Gradualekórnum (rááándýr ferð, vinsamlegast takið vel í söluplöggið næst). Ein vinkona mín hafði keypt nokkrar rúllur af plastpokum og þar sem við bóndinn vorum á ferð í Vesturbæinn hringi ég í hana til að athuga hvort hún sé heima. Sem reyndist vera.

Ég við bóndann: Hún á heima á Rekagranda. Jájá, Drekagranda segir hann. Hvar er það? Ég: Jú þarna vestur í bæ í jólatrjáablokkunum. Hann: Núnú ókei, ég man ekkert eftir þeirri götu. Ég hálfhissa, ekki eins og hún sé vel falin.

Eftir smástund fer hann aftur að velta fyrir sér þessum Drekagranda. Ég horfi á hann í forundran – varstu semsagt ekki að grínast með Drekagrandann? Hún á heima á Rekagranda! Ah!

Við á Rekagranda með engu D-i. Ég inn og segi vinkonunni frá þessu. Hún:

ÉG VIL BÚA Á DREKAGRANDA!!!!

 

Minning

Í dag verður borinn til grafar minn mentor, kollegi og kæri vinur Þorkell Sigurbjörnsson.

Einn af okkar grand old men í tónsmíðunum, eftir hann liggur gríðarlegt magn tónverka, þar á meðal perlur sem við þekkjum öll. Hann var einn okkar framsæknustu nútímatónskálda en gat þar fyrir utan samið verk í öllum mögulegum stílum.

Hann var besti kennari sem ég hef haft í tónlist, ég endurtek iðulega frasa frá honum við nemendur mína. Hafði djúpa innsýn í galdra tónanna. Hann var líka mikill húmoristi og beittur rýnir sem fólk tók mikið mark á. Innsæis hans og þekkingar verður sárt saknað innan Tónskáldafélagsins, Tónverkamiðstöðvar og alls staðar þar sem hann kom að málum.

Ég votta Barböru, Misti, Siggabirni, Sigfúsi, Hnokka og öðrum tengda- og barnabörnum mína dýpstu samúð. Minningin mun lifa.


bland í poka

More Photos

Nýlegar athugasemdir

hildigunnur on Canite
Fríða on Canite
Jón Hafsteinn on Oj!
Guðlaug Hestnes on Oj!
hildigunnur on Oj!

teljari

  • 358,249 heimsóknir

dagatal

júní 2015
S Þ Mi Fi L
« mars    
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
282930  

sagan endalausa


Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.

Join 1.714 other followers