Berlín 2.0. Dagur fjögur

Jæja lokadagurinn rann upp, steinhætt að rigna (tja, humm!), prófuðum annað bakarí í morgunmat, betra en það daginn áður en ekki eins fansí uppsetning.

Upp á hótel aftur og pakka niður í rólegheitunum. Karöflunni pakkað í flugþjónstöskuna eins vel og mögulegt væri og svo allir puttar í kross að hún kæmist heil heim. Ætti að ganga þar sem hún var jú í handfarangri. Hefði aldrei þorað að setja hana í inntékkað! Báðum jökkunum okkar var pakkað utan um. Það var jú sól og hlýtt. Einum bjór hafði okkur ekki tekist að slátra. Kældum í vaskinum. Þýddi lítið.

Lögðumst í bóklestur þar til upp úr ellefu. Tékkinn á netinu fyrir flugið um kvöldið. Fimm evru seðill og koparlita klinkið skilið eftir í tips (ég þoli ekki tips!) Tékkað út. Við vorum búin að borga hótelið fyrirfram þannig að það var ekkert nema skila lyklakortunum. Ætluðum að kaupa okkur kattaraugabol eins og starfsfólkið var í en þeir voru allir uppseldir í öllu nema small. Hvorugt okkar getur notað small. Synd!

bolur.jpg

Jón Lárus var sko búinn að kaupa sér túristabol með Ampelmann, grænum að framan og rauðum á bakinu! En ekki ég og mig langaði í þennan! En small? neeei! Hefðum mögulega getað keypt handa Finni, hann er nógu grannur þó hávaxinn sé. Freyja hefði líka getað notað small.

Fengum að geyma töskuna á hótelinu þar til tími væri kominn til að fara út á völl, um kvöldið. Vorum búin að finna út hvernig væri best að komast úteftir án þess að eiga á hættu að þurfa að bíða klukkutíma eftir lestinni.

Ekki var mikið planað þennan dag, þó ætluðum við að skoða síðasta langa uppistandandi bútinn af Berlínarmúrnum og jafnvel trampa á búnkernum hans Hilla gamla. Röltum niður að Checkpoint og þaðan vestur á bóginn. Sáum Trabantsafnið en nenntum ekki inn. Trabantgarðurinn var líka þarna, einhvers konar skemmtigarður og hægt að fá að keyra í Trabanthalarófu fyrir nokkurt fé. Vorum svo sem ekkert þannig spennt fyrir að taka bíltúr um Berlín. Tókum bara mynd af frekar meðteknu skilti við garðinn og Trabantlimósínu.

trabant limó.JPG

Þessi belgur var aftur kominn á loft, hann blasti við rétt hjá hótelherberginu okkar niðri við jörð í rigningunni og rokinu daginn áður:

veröld á flugi

Hef séð hann áður en aldrei svona í návígi.

Veggbúturinn var markverður. Heilmikil saga sögð þar í máli og myndum. Renndum yfir það meira og minna en tókum engar myndir. Við upphaf og endi göngustígsins var varað við liði eins og við létum gabba okkur í Parísarferðinni. Sáum ekki svoleiðis pakk þarna samt enda hefði það tæpast þýtt þegar var búið að vara svona kyrfilega við þeim!

Þennan stóra Ampelmann sáum við í kyrfilega afgirtum garði á leið frá Veggnum til Búnkersins. Garðurinn leit út fyrir að vera Evrópusambandseitthvað (húsið við hann allavega) en við gátum ómögulega séð hvers vegna hann var svona vel afgirtur! Hefði alveg verið til í að pósa með þessum stóra græna Ampli:

Ampelmann irl

Búnker foringjans var ekkert. Enda hafði hann verið sprengdur í tætlur og yfir honum var bara bílastæði með viðvörun um að þetta væri einkalóð og fólk færi þar inn á eigin áhættu. Jón Lárus skaust nú samt rétt innfyrir. Jú þarna voru reyndar skilti með kortum og slíku. Mikið skil ég annars vel að þetta sé ekki vel auglýst túristaattraksjón í Berlín, gæti ímyndað mér að þarna kæmu nýnasistar í hrönnum í pílagrímaferðir! Good riddance!

Eftir þennan þokkalega göngutúr var stímt á tja, ekki kannski endilega besta en pottþétt fínasta út-að-borða ferðarinnar. Borchardt, staður sem var aðal pleisið í Berlín fyrir einhverjum árum, einn af um það bil fimm veitingahúsum sem poppar fyrst upp þegar fólk stækkar Google Maps kortið, þekkt fyrir besta snitsel í Berlín. Jón Lárus er mikill snitselgaur. Hann kaupir sér nánast aldrei mat í mötuneytinu í vinnunni en þegar er snitsel þá er hans dagur! Þannig að það var skylda að fara á þekktasta snitselstað í Berlín og snappa því til vinnufélaganna! Þannig er það bara!

snitsel.jpg

Hver kann annars trikkið við að húðin á snitselinu verði svona laus frá kjötinu? Ekki ég!

Ég fékk mér nautasteik með bearnaise og kartöfluskífum. Þegar ég pantaði spurðu þjónninn: Medium? ég: Uuuhhh! no! medium rare! Þvuh! lít ég út fyrir að vilja medium steikingu?

Mjööög gott. Nautið var lungamjúkt. Ekki sous vide eldað (sinarnar voru enn á sínum stað) en þegar skorið var fram hjá þeim var kjötið það mjúkt að sous vide hefði ekkert gert fyrir það. Sósan perfekt (ekkert BETRI en heimagerð hjá okkur eða Hallveigu systur! en samt perfect. Not so humble brag!) Skífurnar hins vegar væri ég til í að vita hvernig þau gerðu! Væntanlega tvídjúpsteiktar, ég nenni því aldrei. Sjáið hvað þær eru bognar! skemmtilegt.

steik og bernes.JPG

Búin að borða, hvert langar okkur? Aftur á Linditrjáagötu og nú í hina áttina, að Brandenborgarhliðinu. Inn í Tierpark. Settumst þar á bekk og hlustuðum í góða stund á sellista með rafmagnsselló og looper pedal. Tónlistarkonunni þótti alveg hroðalega fyndið þegar sellistinn setti lúppu í gang og byrjaði að spila Ave María Bach/Gounod. Það virkar EKKI sem lúppa!

Sláturtíð á þennan eina bjór sem hafði orðið eftir og auðvitað var kælingin síðan um morguninn farin veg allrar veraldar. Rann nú ljúflega niður samt.

Leit upp og sagði: Hmm. Það gæti farið að rigna. Eitthvað svo rigningarlegt!

Tierpark

Í Tierpark komu sníkjudýrin með heyrnleysingjaskiltin. Við fussuðum og snerum okkur frá þeim. Skemmtilegra var að sjá kanínur og krakka að leik.

Röltum fram hjá Philharmonie svo við hefðum nú komið þangað í ferðinni. Ekkert um að vera í húsinu og allt harðlæst eins og við svo sem vissum. Hvers vegna ætli húsið sé ekki opið allt árið um kring og tónleikar eða sýningar í gangi, líkt og í Hörpu þrátt fyrir að fílharmónían sjálf sé í sumarfríi?

Við hefðum nefnilega vel getað þegið að fara inn í hús akkúrat þarna. Því auðvitað fór að rigna. Ekki bara dropar heldur næg úrkoma til að við náðum að verða þokkalega blaut í gegn! Og regnhlífin? Ofan í tösku. Uppi á hóteli!

Hálfhlupum út í Sony Center, tæpan hálfan kílómetra frá Philharmonie þegar við sáum að það þýddi lítið að bíða af okkur skúrina undir skýlinu hjá innganginum. Settumst þar úti (Sony Center er yfirbyggt) og pöntuðum okkur sitthvorn drykkinn, enn ekki orðin svöng eftir matinn. Mér var hins vegar hundkalt og engin teppi á stólunum þarna þannig að við fengum að færa okkur inn, á veitingahúsinu.

Teygðum eins og við gátum úr glösunum okkar (sé fyrir mér alveg rosalega langt og mjótt rósavínsglas), tókst að hanga þarna í góða klukkustund yfir drykkjunum. Jón kláraði bjórinn sinn, þjónninn til okkar til að bjóða honum meira, neitakk, já viljið þið þá fá reikninginn? ég var ekkert búin sko! Það var ekki nándar nærri fullt þannig að ekki vorum við að taka upp pláss en út skyldum við um leið og við kláruðum úr því við ætluðum ekki að kaupa meira. Ekki að það gerði svo sem til, ég kláraði mitt bara í rólegheitunum og það var ekkert rekið meira eftir okkur.

Steinhætt að rigna þegar við komum út og allt að þorna. Við líka.

Vorum orðin alveg hugmynda- og nennusnauð þannig að við ákváðum að rölta bara í rólegheitunum inn á hótel, sækja töskuna og finna okkur lestina út á völl. U bahn 6 frá Stadtmittestöð rétt hjá hótelinu yfir á Tempelhof stöðina, þaðan með S bahn til Schönefeld. Tók taaaalsvert styttri tíma en regional lestin sem við tókum frá vellinum í bæinn á mánudeginum.

Svo stuttan tíma reyndar að þegar við ætluðum að fara inn á flugvöllinn fengum við neitun á boarding passanum. Neibb þið getið ekki komist inn á völlinn fyrr en þremur tímum fyrir brottför! Úpps! ríflega hálftími í það!

Þarna var nákvæmlega ekkert við að vera. Spáðum í sveitingahús (svona sveitastílsveitingahús) en þar voru bara til borgarar og pylsur. Okkur langaði ekkert í pylsur og við höfðum borgarana sterklega grunaða að vera úr kjötfarsi!

Rákum síðan augun í mexíkóskan street food vagn. Sitt hver quesadillan, sárfegin að græna salsan með var ekki með kóríander! vondur bjór (Jón sá eftir góða bjórnum sem var slátrað í Tierpark) og ljómandi límonaði handa mér sem hafði lofað að keyra heim frá FLE og engir fleiri drykkir.

Loksins komumst við inn í flugstöðina. Beint í lounge sem ég hafði séð og notað síðast. Ágætis lounge, matur reyndar mjög lítið spennandi en nægir drykkir, heitir og kaldir, áfengir og óáfengir, hægt að hlaða síma, ljómandi rólegt og útsýni yfir völlinn. Það virtist vera hægt að komast út á svalir, sáum ekki hvernig það væri hægt frá lounge og það var alveg pottþétt ekki auðséð frá almenningsrýminu því við sáum bara fátt fólk þar, greinilega samt farþega, með börn og handfarangur með sér. Kannski eitthvað spes lið með sambönd en þó fullmargir til að það væri trúanlegt. Sex til átta sett af fólki úti á svölum. Dýragarður inni í almenningi í flugstöðinni!

Vissum ekki hvað við þyrftum að labba langt út að hliði þannig að við ákváðum að fara strax af stað þegar komið væri Go to gate. Reyndist massíf mistök! Hefðum átt að sitja vel lengur.

Tók í hæsta lagi 10 mínútur að labba að hliðinu. Engin sæti laus. Dettur inn boarding. Allir í röð. Lítt skýrmælt tilkynning í hátalarakerfi. Seinkun. Ótímabundið. Fleh. Slepptum ekki staðnum okkar í röðinni. Stóðum þar í kortér. Það er þreytandi að standa upp á annan endann í kortér. Úr röðinni eins og reyndar flestir aðrir. Enn engin laus sæti. Einhver rak augun í það að það væri brjálað þrumuveður og eldingar og læti fyrir utan. Ah! þar kom ástæðan. Það mátti ekki afferma vélina sem var löngu komin. Í lounge hefðum við verið í stúkusæti til að sjá eldingarnar! Aftur í röðina. Loksins vélin tæmd og við inn.

Klukkutíma seinkun, þó ekki meiri. Kláraði bókina mína á leiðinni heim. Keyrt í sólarupprás móti höfuðstaðnum. Fallegt! Lentum á Njálsgötunni og drusluðum inn töskum nánast á sama tíma sólarhrings og við höfðum lagt af stað fjórum dögum fyrr.

Heim.

Rúm.

Himnaríki!

Til Berlínar verður farið aftur!

Heil 18187 skref. Mikið held ég græjan hafi orðið svekkt með mig þegar ég kom heim. Eeeen þú sem byrjaðir svo veeel! 😦

Auglýsingar

Berlín 2.0. Dagur þrjú

Þá var komið að rigningardeginum. Þrátt fyrir instagramlinkinn sem kom í síðustu færslu þá rigndi ekkert, hvorki mánudag né þriðjudag. Miðvikudagurinn borgaði síðan rigningarskuldina nokkurn veginn fyrir alla dagana.

Út í morgunmat. Vorum búin að finna fullt af konditoríum sem buðu morgunmat. Þessi glæsileiki var á helmings verði miðað við hótelkostinn:

morgunmatur

og bara alveg ágætur þó hann sé ekki alveg í fókus þarna.

Ekki ætluðum við nú að hanga inni á hóteli allan heila daginn þó væri blautt. Jafnvel ekki þó það væri líka talsverð gola. Svona gamaldags Íslandsveður, rigning og rok nema það var víst 18 gráður en ekki 6 eða álíka.

Út um ellefuleytið eða svo. Byrjuðum á því að kíkja inn í alveg ógurlega fallega Le Creuset búð. Alveg án þess að kaupa neitt en ég smellti þremur myndum og fékk pínu bágt fyrir hjá afgreiðslufrauku. Það er til siðs að spyrja hvort megi taka myndir! Sem var auðvitað alveg rétt hjá henni og ég baðst innvirðulega afsökunar. En myndunum fékk ég að halda:

 

Langaði nú í hitt og þetta þarna, óneitanlega, en farangursrýmdin leyfði ekki neitt og svo er allt þetta steypujárnsdót ansi þungt. Fallegt samt.

Næst inn í Galeries Lafayette útibúið í Berlín, rétt hjá hótelinu. Splæst í heiðgula regnhlíf (erum það bara við, eða gleyma allir að taka með sér regnhlífar til útlanda? Þrátt fyrir rigningarspá?)

Gólfið flott á ganginum á neðstu hæðinni:

gólf.JPG

Matarmarkaður í Lafayette. Aðal attraksjónin er ég hrædd um. Tók ekki margar myndir í þetta skipti en hér eru litlar rósavínsflöskur og stórar bjórflöskur. Já og fjólublátt kampavín:

Við kaupum stundum Miraval hér heima, uppáhald. Ég hefði verulega viljað geta kippt með mér einni svona hálfflösku!

Áfram var haldið í áttina að Unter den Linden. Þetta fannst mér almennilegt skilti. Það efra sko:

óperuskilti.JPG

góð forgangsröð að beina fólki í rétta óperu!

Á linditrjáagötunni var fengið sér currywurst, þeas Jón Lárus sem hefur aldrei fengið slíkan skyndibita. Ég lét mér frönskurnar nægja. Þetta er svona einsskiptismatur fyrir mig. Jón var sammála. Nauðsynlegt að hafa prófað samt!

Gengum aðeins niður eftir götunni en snérum síðan við og ákváðum að fara á DDR safnið, fyrir ofan Safnaeyju. Alltaf blautari og blautari, ég hafði tekið meðvitaða ákvörðun um að fara bara með sandalana mína þrátt fyrir smá vætuspá og það verður ekki sagt annað en að ég hafi verið orðin vel blaut í fæturna.

Stoppuðum fyrir eitt rósavínsglas í yfirbyggðri götu. Völdum okkur ekki besta sætið því það var við innganginn af AquaDom sjávardýrasýningunni/safninu. Þar var röð út úr dyrum, aðallega fólk með ungana sína og ansi hreint mörg nýttu tækifærið að fá sér sígó áður en þau kæmu inn á safnið. Þessi fugl heimsótti okkur á borðið.

fugl á borði.JPG

en varð fyrir vonbrigðum með okkur því við höfðum ekkert fengið okkur að borða og hann hafði lítinn áhuga fyrir rósavíninu.

Út aftur á Linditrjáagötu, gengið upp framhjá Safnaeyju og að innganginum í DDR safnið. Þar var auðvitað 200 metra röð! Allir fengið sömu „góðu“ hugmyndina. Ekki nenntum við röðinni, ég er hálfgerð safnafæla hvort sem er. Ákváðum að ganga upp að Alexanderplatz sem var ekki orðið langt frá okkur og kíkja á austurþýska arkitektúrinn sem ég lýsi í þessari færslu frá Nóvember. Svona var útsýnið upp að Sjónvarpsturni:

sjónvarpsturn

Gegn um lestarstöðina, aðeins út á torgið, en svo litum við bara hvort á annað: Jæja, er ekki bara spurning um að fara inn á hótel og þorna? Æji jú! Arkítektúrinn fer ekki neitt. Þannig að það var bara U-bahn og hótel og bók og skipta um alklæðnað! Já og fótabað fyrir mig! Ég hálfsé eftir að hafa ekki tekið mynd af löppunum á mér, alveg grútskítugum nema með hreinu fari eftir sandala! Veit samt ekki hvort ég hefði birt myndina hér…

Vorum búin að spá hvort við ættum að kíkja á kommunikationsafnið sem var bara rétt hjá okkur en enduðum á að bara nenna því ómögulega. Þannig að við fórum ekkert út fyrr en kominn var tími á kvöldmat.

Aftur stímt á víetnamska staðinn. Í þetta skiptið hinn andarétturinn sem þau buðu upp á:

önd.JPG

andarbringa með avocadosalati og sætri sojasósu. Mjög gott þó hvorugu okkar þætti hún slá út þessa frá deginum áður, með karríkókosengifersósunni. Staðurinn heitir annars Cao Cao, stendur við Marburger Strasse örstutt frá Tierpark lestarstöðinni. Virkilega vel þess virði að heimsækja!

Beint aftur upp á hótel. Við áttum jú rauðvínsflösku sem við hreinlega neyddumst til að slátra. Úr plasttannburstaglösunum sem var eina sem var í boði á hótelherberginu! Ég hef stöku sinnum fengið „lánuð“ rauðvínsglös, labbað með þau upp af happy hour eða álíka í hótelanddyri og svo bara skilið eftir á herberginu en við fórum aldrei á happy hour í þessari ferð, né borðuðum á hótelveitingahúsinu utan morgunmatarins, þar sem við fengum jú ekkert rauðvín!

Vínið var mjög gott þrátt fyrir vöntun í búnaði. Verður pantað. Hlakka til að smakka úr alvöru glasi!

15798 skref þennan daginn. Ójá.

Berlín 2.0. Dagur 2

Við vorum lítið í að auglýsa á samfélagsmiðlum að við værum í útlöndum í þetta skiptið, sérstaklega vegna þess að íbúðin var aldrei þessu vant mannlaus þó hún væri ekki kattlaus. Mahler gæti samt ekki varist neinum innbrotsþjófum. Henti þó að kvöldi fyrsta dagsins kommenti inn á feisbúkk smá Berlínarstatus. Fékk prontó til baka: Bjór? spurningu frá Öldu Vigdísi vinkonu okkar sem býr í Berlín. Klárt mál. Ákváðum að hittast á crépustað að kvöldi dags tvö. Sem er semsagt að detta inn hér.

Splæstum í morgunmat á hótelinu, hann fylgdi ekki með. Frekar dýr – tja reyndar alveg rándýr. 12 evrur á manninn. Við vorum ekki búin að spotta neina staði í kring og fannst ómögulegt að fara út óétin (enginn ísskápur munið þið!)

Morgunmaturinn reyndist ekkert sérstakur. Ekkert vondur en ekkert sérstakt úrval og langtífrá 12 evru virði. Maður átti að sjóða sín eigin egg í stórum hitapotti, mér tókst að fatta það ekki neitt og stela eggi af einhverjum vesalings hótelgesti sem var í sakleysi sínu að sjóða eggið sitt. Það var svo auðvitað hrátt! Hauspokinn út!

Aðeins aftur upp á herbergi og svo var stímt í vesturátt. Stefnan tekin á KaDeWe, Kaufhaus des Westens. Ætluðum bara í matardeildina nema ég dró Jón Lárus með mér í smá skoðunarferð um hús- og eldhúsbúnaðarhæðina. Alltaf gaman að skoða flotta hönnun í þeirri deildinni.

Það dró svo dilk eftir sér að stoppa á þessari hæð því við kolféllum fyrir karöflu og enduðum á að kaupa hana. Fengum að máta hana í bakpokann svo við kæmum henni alveg pottþétt heim í handfarangrinum.

riedel karafla

skiljanlegt? ha?

en okkur vantaði í alvöru karöflu!

Matardeildin stóð fyrir sínu að vanda!

Þetta eru ekki kirsuber þarna á myndinni neðst til vinstri heldur pínu oggulítil eggaldin! Við hliðina á rauða blómkálinu.

Hádegismatur á víetnamska staðnum. Sama öndin og síðast, lýst í þessari færslu síðan í nóvember. Með mynd. Búin að prófa að gera þetta heima en þá vantaði eitt mikilvægt innihaldsefni. Prófum aftur. Jón var ekki ósáttur og hvítvínið sem við fengum með þessu var alveg fáránlega gott Chardonnay, sérstaklega miðað við að það var nafnlaust á matseðlinum!

Jón og öndin

Kíkt í vínbúðina sem ég hafði farið pílagrímsferðina þarna þegar ég var ein á ferð, ein flaska keypt, Jón Lárus er að fara í vínsmakkferð til Spánar með vínsnobbklúbbnum sínum í haust og vildi smakka tvær týpur fyrirfram. Vorum svo heppin að önnur týpan bauðst okkur að smakka á staðnum en keyptum hina. Hefðum ekkert haft við að gera að kaupa tvær því við kæmumst ekki með neitt vökvakyns heim nema opna flöskuna og hella henni í sjö og hálft hundrað millilítra glös og sett í glæran lokanlegan plastpoka.

Uuuu nei!

Trömpuðum til baka á lestarstöðina, fram hjá UDK sem við höfðum heimsótt í LHÍ ferðinni í nóvember.

Þarna fannst mér ég vera voða fyndin! Skilaði sér ekki á facebook samt 😦

Héngum úti við eins og við gátum, ljómandi veður þó það væri ekki alltaf sól, (og nei það var ekki svona mikil rigning eins og sýnist í tenglinum þarna á undan).

Þá hittingur við Öldu á crépustaðnum hennar. Lest og strætó og labb. Snarklikkaði á að taka mynd af henni. Bara crépunni minni sem reyndist alveg ljómandi.

crépe

Sátum úti og spjölluðum um landanna gagn og nauðsynjar, pólitík, kjötvinnslu, vegan veitingahús, póstþjónustu, forritun og hvað veit ég? Ætli klukkan hafi ekki verið orðin tíu eða svo þegar okkur var orðið fullkalt að sitja og stímdum aftur heim á hótel og Alda heim til sín. Hrundi í bólið og hafði ekki einu sinni lyst á að smakka rauðvínið góða! En það var nú annað kvöld til stefnu.

Skrefafjöldi 14481 skref. Tramp!

Berlín 2.0. Dagur 1

Sveimérþá ef þetta er ekki í fyrsta skipti síðan ég fór að blogga, hvað þá ferðablogga að ég fer til sama lands og sömu borgar tvö skipti í röð. Síðustu færslur heita jú Berlín dagur eitt til fjögur og nú á ég annað sett af Berlín degi eitt til fjögur. Svo 2.0 skal það heita.

Allavega, skyndiákvörðun með þriggja vikna fyrirvara eða svo. Börnin sitt í hverju heimshorninu, dæturnar og kærasti þeirrar eldri í Japan að frílysta sig og sonurinn í Bandaríkjunum með víóluna sína og tenórröddina á kammermúsíknámskeiði. Gamla gengið og kötturinn alein heima í mánuð. Nei þetta gekk ómögulega. Ákváðum að skilja köttinn og blómin eftir í umsjá Gunna sem býr í risíbúðinni og sjá hvort við værum ekki til í að kynnast Berlín betur.

Þetta var mitt þriðja og Jóns annað skipti í borginni. Í fyrsta skipti var búið að yfirhæpa hana kyrfilega fyrir okkur, allir hlytu að dýrka hana og dá og vilja helst flytja þangað. Svo fannst okkur hún bara svona allt í lagi, pirruðumst á því að vera alltaf að finna klóaklykt í hvert sinn sem við gengum fram hjá grind og já, féllum ekkert fyrir henni. Svo fór ég Jónslaus síðast, með vinnufélögum, bjó á risahóteli við Alexanderstorg, minni klóaklykt og borgin höfðaði meira til mín. Já og kolféll fyrir víetnömskum veitingastað í vesturborginni.

Svo stukkum við á Vátilboð á flugi eitt kvöldið, leituðum uppi hótel á góðum stað og áður en við höfðum tíma til að hugsa okkur um vorum við búin að bóka.

Viðbjóðslega, ógeðslega snemmbúna Váflugið, vél átti að fara í loft 05.45. Já, fyrir klukkan sex! Vaknað þó ekki fyrr en klukkan þrjú þar sem við vorum búin að tékka okkur inn og vorum bara með handfarangur (hvílíkur lúxus).

Svona leit himininn yfir Keflavík út:

sólarupprás.JPG

Ekki þurftum við að sýna vegabréf á leiðinni út.

Obligatoríska morgunmatnum í Kaffitá… nei Segafredo var það víst, hafði farið aftur. Ekki boðist til að hita upp croissantana, engir diskar bara pappírspokar og heita súkkulaðið og espressóinn voru komnir í pappamál í stað almennilegra bolla. Gleited!

Við flugum með Freyju út:

Freyja flugvél

Freyja var sátt.

Flugið, ríflega þrír tímar rauk óvenju hratt áfram því við steinsofnuðum bæði tvö og sváfum alveg af okkur veitingasölu og djútífrí sölumennsku. Besta mál!

Á Schönefeld vorum við snögg út. Ekkert var kallað eftir vegabréfum þar heldur. Schengen að hrynja inn aftur eins og það á að virka, greinilega.

Tókum regional lest niður í bæ. Gekk sjaldan og ein ferð féll niður þannig að við héngum sársyfjuð á brautarpalli í ríflega klukkutíma. Stoppuðum á Ostbahnhof og ákváðum að ganga niður í Mitte þar sem hótelið var staðsett, rétt hjá Checkpoint Charlie. Miðbæjarrotturnar geta nú ekki verið þekktar fyrir annað en að gista í Stadtmitte, eða hvað?

Þetta reyndist hinn lengsti göngutúr en veðrið var verulega gott og ekkert að því að ganga, þó Jón drægi á eftir sér litla ferðatösku. Þetta var að litlu leyti ganga gegn um nein túristasvæði, furðuleg svæði á leiðinni sem litu út fyrir að vera yfirgefnir markaðir og annað frekar shady dæmi. Ekkert skelfilegt svo sem en allavega tveir staðir sem við ákváðum að vera ekkert að forvitnast um.

Rákumst á þennan rammskakka Ampelmann sem virðist geta gengið upp veggi eins og ninja:

skakkur ampelmann

Stopp á einum pöbb, aperol spritz í lágu vatnsglasi og einn bjór, blaðra á fæti, dreginn upp plástur úr tösku og ákveðið að kaupa fleiri í næsta apóteki.

Náðum að Checkpoint Charlie, svo sem ekki merkilegt að sjá, ein mynd vesturberlínarmegin:

checkpoint charlie

Merkilegt fyrirbæri auðvitað en eins og það er núna þá svolítið tourist trap legt.

Þessi vagn fannst okkur flottur. Currywurst safnvagn. Jón Lárus var í stíl og taskan líka.

currywurst bíll.JPG

Örstutt í hótelið sem stendur við sjálft Múrstræti í Mitte. Portúgalskt kattahótel. Sko engir kettir en kattaþema. Þessi stóð og gætti inngangsins:

Kisi

Ég ætla að skrifa umsögn um hótelið á Tripadvisor. Svona þegar ég nenni. Ljómandi herbergi, hreint, snyrtilegt og vel þrifið, peningaskápur á herberginu og frítt net en enginn minibar og þar af leiðandi enginn ísskápur. Slæmt!

Ekki fórum við nú langt eða merkilegt eftir þennan 4-5 kílómetra göngutúr en kíktum þó í smá göngu og búð. Án þess að geta keypt neitt sem þyrfti að setja í ísskáp. Reyndar er Kaupfélag Garðabæjar og nágrennis búið að skemma fyrir manni kirsuberjafíknina í útlöndum. Bjór var keyptur samt, helst af sortinni þyrfti-ekki-að-drekkast-ískaldur. Þetta freyðivín var ekki keypt þó mín væri örlítið freistað:

freyðivín og rör

Já þetta er það sem það sýnist. Freyðivín í pínulitlum flöskum og rör!

Pizza úti á torgi beint á móti hótelinu. Ágætis pizza, hef fengið bæði betri og verri. Dauðþreytt. Upp og drekka einn volgan bjór, klára DuoLingoskammt dagsins og sofa.

Fitubitinn – nei FitBitinn sýndi 15.477 skref. Ekki slæmt!

Berlin Tag #4. Schulbesuch und Tierpark

Þá var kominn tími á vinnuna þennan umgang. Skólaheimsóknir á dagskrá.

Við byrjuðum á Universität der Künste. Haldið þið ekki að sá skóli hafi verið svona 150 metra frá vínbúðinni sem ég þvældist til allra fyrsta daginn? Hefði ég nú vitað það þá! Ekki það, ég er svo sem ekki viss um að ég hefði meikað að dragnast með þrjár flöskur, þar af eina magnum, í heimsóknina og hefði pottþétt sleppt langa göngutúrnum sem við fórum í. En nú er ég farin aðeins fram úr mér. UdK heimsóknin var frekar mögnuð, vorum þar fram eftir degi. Hanns Eisler heimsóknin komst ekki í framkvæmd og þau sviku okkur líka um tónleikana um kvöldið en þessi borgaði alveg fyrir ferðina, svona námslega séð.

UdK liðið var hins vegar frábært. Alþjóðafulltrúinn tók á móti okkur ásamt bráðskemmtilegum prófessorum frá tónlistardeildinni og þó sérstaklega sviðslistadeild, sem tengdist okkur líka því óperur eru bæði undir sviðslista- og tónlistardeildunum. Sviðslistaprófessorinn, grískur að uppruna, reytti af sér brandarana á milli þess sem hann sagði okkur frá skólanum og við bárum saman deildirnar. Mér sýnist við reyndar ekkert þurfa að skammast okkar fyrir deildina nema auðvitað aðstöðuna! Hugarfarið hjá okkur er framúrstefnulegra, reyndar er það ekki sérlega skrítið miðað við svona gamla og ráðsetta stofnun.

Leiksviðið og tónleikasalurinn, verð þó að viðurkenna að það er smá öfund í gangi! Tónleikasalurinn var reistur fyrir Berlínarfílharmóníuna á sjötta áratug síðustu aldar, rúmum áratug áður en Philharmonie byggingin reis síðan og varð heimili hljómsveitarinnar. Þá var þessi, áföst við listaháskólann, afhent skólanum til eignar og rekstrar. Salurinn er nýttur fyrir skólann um 200 daga á ári, eitthvað smá er um útleigu en ekki sérlega mikið. Kíktum líka inn í upptökustúdíó skólans, vel tækjum búið:

img_2853

Eftir þessa heimsókn fengum við okkur flest í svanginn. Engan langaði með mér á víetnamska veitingahúsið þannig að ég fór bara ein.

Sveimérþá að það var bara besti matur ferðarinnar! Þessu verð ég að reyna að herma eftir heima. Fékk mér önd á grænmetisbeði í sósu úr rauðu karríi og engifer. Og ég sem hélt að brunchinn daginn áður hlyti að vera toppurinn. Veitingahúsið var alveg stappfullt og hellingur að gera sem bendir jú alltaf til að staðurinn standi fyrir sínu.

fullsizeoutput_63

Eftir matinn ákváðum við nokkur að ganga alla leið yfir Tierpark, yndislegt veður og eiginlega enn smá ilmur af sumri.

Enduðum gönguna upp við Brandenborgarhlið og svo Reichstag. Þreytan farin að segja til sín í fótum þannig að ég og ein önnur ákváðum að taka leigubíl upp á hótel. Það reyndist þrautin þyngri! Þeas, leigubíll fannst eins og skot en svo lentum við í – nei fyrirgefið vorum hluti af verstu umferðarteppu sem ég hef á ævi minni upplifað. Þetta eru um 2 kílómetrar upp á hótel og ég held við höfum verið um hálftíma. Sem betur fór tifaði mælirinn ekki stanslaust, bíllinn drap á vélinni þegar hann var stopp og við vorum mikið meira stopp en á ferð. Enduðum á því að fara út úr bílnum til hliðar við hótelið þegar bílstjórinn, sem hafði fórnað höndum og lamið hausnum á stýrið nokkrum sinnum á leiðinni spurði hvort við vildum ekki bara hoppa út þarna, hann yrði örugglega 5 mínútur í viðbót að komast fyrir framan hótelinnganginn. Sorrí þið sem röflið sem háværast yfir þrengingu Grensásvegar. þið vitið ekkert hvað alvöru umferðarteppa er!

Obligatorísku ostainnkaupin í Kaufhof Galeria og nýja uppáhaldsnammið, Pocket Coffee í hús, inn á hótel, frétti af því að okkur byðust ekki miðar á tónleika kvöldsins sem annars var búið að lofa, þá bara matur og barinn. Matur: Dæmigerður þýskur kvöldverður, undirrituð fékk sér schnitzel með steiktum kartöflum og spældu eggi, einn fékk svínaskanka með tilheyrandi, Berlínarpylsa með súrkáli og svo fékk grænmetisætan í hópnum sér salat með fetaosti. Þetta var ekki salatstaður! Sátum þarna í talsverðan tíma þar sem það munaði sirka helmingi á drykkjaverði miðað við hótelbarinn. Hittum samt fleira gengi þegar við komum á hótelbarinn og heilmiklar umræður spunnust um skólaheimsóknina og hlutverk tónlistarkennarans í því að hvetja til tónlistarneyslu og -nautnar hjá nemendum.

Lokakvöldi lokið. Morgundagurinn bara heimferð. Það þarf að gerast eitthvað markvert til að það komi færsla. Sjáum tiiiiil! (how’z dat for a cliffhanger?)

Berlin Tag #3. Große Brunch

Sunnudagur runninn upp. Talað um kosningaúrslit yfir morgunmatnum. Ég held annars ekki að ég eigi almennt að fara til Berlínar, síðast þegar ég var hér (mitt fyrsta skipti í Berlín) var seint í september 2008.

Bæði hné og fingur voru til friðs. Ákvað samt að taka ekki plástrana af fyrr en heima. Tómt vesen ef ég þyrfti eitthvað að leita mér hjálpar, þó ég hefði reyndar ekki gleymt evrópska sjúkrakortinu mínu heima eins og ég annars hafði óttast.

Eftir morgunmatinn fór ég í langan göngutúr austur frá hótelinu. Leiðsögumaðurinn daginn áður hafði bent okkur á að ef við vildum sjá dæmigerðan austurþýskan arkitektúr ættum við að ganga eftir breiðgötu beint í austur. Væflaðist aðeins smá króka, hálftíma-þrjú kortér eða svo og rölti síðan af stað eftir breiðgötunni. Tók þessa mynd af laufteppi:

img_2825

og tyllti mér á bekkinn sem sést á myndinni smástund. Koma þá ekki Tryggvi og Ibba og höfðu fengið alveg sömu göngutúrahugmyndina. Slóst í för með þeim og við gengum áfram í austurátt.

Listaverkin á veggjunum dæmigerð austantjaldsverk, öll af hamingjusömu fólki, duglegu að vinna vinnuna sína. Mér finnst svo gott þegar saga fær að halda sér, það væri svo mikil synd að eyðileggja þetta. Fyrir utan nú að þetta er alveg bráðfallegt.

Snerum heim eftir íbúðargötu við hliðina á breiðgötunni. Þau fóru upp að skipta í fínu fötin, voru á leið í óperuna eftir sameiginlegan brönsj sem deildirnar buðu upp á. Ég fór og keypti lestarmiða því ég hélt við ætluðum í lestinni á veitingahúsið. Reyndumst svo taka leigubíl.

Deildi slíkum með tveimur til. Við vorum nokkrum mínútum of snemma á veitingastaðnum sem var alveg stappfullur. Veitingafólkið hafði sagt okkur að koma klukkan tvö því þá væri laust en það reyndist semsagt ekki vera. Þurftum að bíða góða stund þar til við öll 28 vorum komin í sæti.

Þarna var risastór ansi flott ljósakróna þó lýsingin frá henni væri kannski ekki á pari við stærðina:

img_2833

Skildum síðan vel að staðurinn væri vinsæll. Ótrúlega flott hlaðborð:

þarna yfir desertinum má sjá hana Þorbjörgu mína sem býr í Berlín núna fram til áramóta og er sárt saknað bæði af vinnustað og úr kórnum!

Sátum góða stund yfir þessu, enda ekki hægt annað. Tókst samt að borða ekki yfir mig, ég veit ekki alveg hvernig ég fór að því. Grænmetið sumt gæti hafa verið það besta sem ég hef fengið. Lítið kjöt en fullt af alls konar grænmeti og ávöxtum.

Tók lestina heim á hótel ásamt Þórunni Sigurðar og upp á herbergi smástund. Eða átti að vera smástund allavega. Varð svo syfjuð um fimmleytið að ég lagði mig og vaknaði ekki fyrr en hálfátta.

Dreif mig út í annan göngutúr, úr því ég var svona voðalega ódugleg að kaupa miða á listviðburði var þó allavega málið að kynnast borginni. Unter den Linden í myrkri er ekkert leiðinleg sko! Jólaskraut farið að birtast í nokkrum verslunargluggum og allt upplýst þó allt sé lokað á sunnudögum.

Currywurst í kvöldmatinn, ekki alveg á pari við hádegið en ekkert svo slæmt samt. Ég hef aldrei smakkað currywurst áður og þetta var ekkert sem verstur skyndibiti.

Upp og skrifa færslu. Niður á bar að bíða eftir Parsifalförum og fleirum. Setið fram til hálfeitt við spjall. Ekki verst.

Berlin tag #2. Ausschlafen und spazieren

Steinsofnaði strax eftir birtingu á pósti gærdagsins! Klukkan hefur verið um hálfníu. Vaknaði um fjögurleytið, sofnaði aftur, rumsk klukkan sjö og svo ekki fyrr en hálftíu. Þrettán tíma svefn gerið svo vel! Minnti mig helst á þegar ég svaf yfir mig í Ítalíuferð Hljómeykis í fyrra og fólk hélt helst að ég lægi fárveik uppi á herbergi.

Ljómandi morgunmatur á hótelinu, upp í sturtu, smá net, (aðrar 10 evrur fyrir daginn, alveg hefði ég ekki pantað þetta hótel sjálf. Frítt net er eitt það fyrsta sem ég skoða þegar ég panta mér hótel).

Útsýnið af 29. hæð:

img_2789

Smá innkaupaleiðangur. Bara smá samt, þeas keypti ekki mikið en glápti þeim mun meira.

Vonda Evrópusamband með hættulega sýkta mat!

Svo var stefnan tekin á langan göngutúr með Váleiðsögumanni. Arkað af stað frá hótelinu. Sá þessa klukku:

img_2790

stoppaði og smellti af henni myndinni hér fyrir ofan, hálfhljóp svo af stað að ná hinum og datt í götuna. Beint á vinstra hnéð sem ég meiddi mig á fyrir nokkrum vikum. Urr. Hélt samt smá áfram, haltrandi en þegar ég fann að það vessaði einhver vökvi gegn um buxurnar mínar gafst ég upp, sagði skilið við hópinn og fór frekar í apótek. Þar var ekki til neinn silfurplástur (urr aftur), annað og stærra apótek, þar fékk ég allavega sótthreinsandi sprey og box af plástrum. Upp á hótel í viðgerðarleiðangur. Plástrarnir reyndust litlir og asnalegir, litu sannarlega ekki þannig út á myndinni en ég átti einn silfurplástur í töskunni og splæsti honum á hnéð. (Hafði ætlað hann á puttann á mér sem er enn lengri og leiðinlegri saga, þessi er alveg nógu leiðinleg).

Var hins vegar svo súr yfir að hafa misst af hinum að ég hringdi í meistara Tryggva og fékk hann til að spyrja að því hvort ég gæti farið í lest og náð hópnum einhvern veginn. Leiðsögumaðurinn vildi meina að það væri best að labba af stað og hitta okkur því það styttist í að þau nálguðust hótelið aftur.

Á Safnaeyju hringdi ég aftur og þá voru þau einmitt að koma þangað þannig að þetta náðist nú saman.

Bráðskemmtilegur túr það sem eftir var af honum, enduðum á heilmikilli sögu gyðinga í Berlín, hetjusögum og sorgarsögum og listaverkum til minningar um helförina.

Hótel. Planaður hittingur klukkan átta, hitti fleiri og rölt á eitt ítalskt veitingahús, ekkert pláss, ókí, næsta, pláss til hálftíu. Klukkutíma höfðum við til að panta og borða. Tróðumst fimm við fjögurra manna borð. Bara fínt samt.

Pantaði mér kálfshjarta á spínatbeði. Var verulega voguðust af okkur, hin pöntuðu sér rísottó með trufflum, ravioli með spínati og ricotta lasagna. Allt mjög gott, ég hefði samt ekki viljað skipta við neinn hinna. Hjartað var fáránlega gott, ég yrði ekki hissa þó það hefði verið marinerað í marsalavíni.

Hentum okkur sjálfum út ríflega klukkutíma síðar. Sáum ekki að fólkið sem átti borðið okkar pantað klukkan hálftíu væri mætt á svæðið þannig að við vorum í ágætis málum. Hótelið var næsti viðkomustaður, þar hittum við par úr hópnum og ekki vorum við fyrr sest en fleira fólk streymdi að. Skelltum saman nokkrum borðum og sátum lengi fram eftir, yfir drykkjum og fyrstu tölum þegar þær loksins sýndu sig.

Ekkert viss um að ég vilji neitt fara að tjá mig um kosningaúrslitin. En kokkteillinn var góður!


bland í poka

teljari

  • 366,166 heimsóknir

dagatal

maí 2018
S M F V F F S
« Ágú    
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
2728293031  

sagan endalausa

Auglýsingar