Kolding dag 1

Já það er tekið smá sumar og dóttir og tengdasonur heimsótt til Jótlands. Haldið þið ekki að hér sé sól og heitt?

Eftir tvær stúdentsveislur (aðra okkar eigin, velheppnaða stúdentsveislu velheppnaðrar stúdínu þar sem ekkert klikkaði nema of lítið freyðivín keypt, afsakið veislugestir ruglið í undirritaðri og svo hina, veislu kærastans hennar þar sem hreint ekki vantaði upp á drykkjarföng og við bóndinn vorum síðust út) var stefnan semsagt tekin á Kolding á miðJótlandi. Undirbjuggum okkur með því að hlusta á The Julekalender klippur og Jón Lárus stillti danska dúólingóið á jóskan framburð. Djók.

IMG_2277

Allavega, frekar ósofin (nei ekki drukkin, það var dagur á milli!) skutluðum við Fífu leynigesti í stúdentsútskrift á BSÍ til að taka rútuna því við vorum fimm í bílnum sem renndum svo á Leifsstöð. Innritun í kassa og uppgötvun sjálfsinnritunar farangurs, mjööög sniðugt dæmi. Ekki mikil né leiðinleg bið í öryggistékk, obligatoríska súkkulaðið og croissantinn á Segafredo. Fífa var glöð að hafa okkur þarna þar sem hún hefur mikið verið að ferðast ein og það er alveg smá skemmtilegra að vera með fólkinu sínu.

Smá seinkun á fluginu en annars viðburðarsnautt. Beint út og fundum strax bílaleiguna þar sem við vorum búin að panta sjömannabíl. Þar var hins vegar tölvuvesen, engar raðir hjá Hertz eða Europcar eða Avis og fleiri en hjá Enterprise var röð upp á svona 5-6 manns og hver afgreiðsla tók einn og hálfan óratíma. Þegar loksins kom að okkur gekk álíka hægt, loksins þótti mér nú samt komið að lokum þegar almennilega stúlkan (sem var reyndar búin að afsaka sig í bak og fyrir með hægaganginn og  ítrekað bjóða okkur kaffi eða te eða vatnsglös) sagði að nú ætti bara eftir að prenta út voucher fyrir okkur kallaði ég á krakkana sem voru annars löngu búin að gefast upp og höfðu fundið sér sæti, að nú væri þetta að koma. Þá tók kortér að prenta út blessaðan samninginn!

Svo fengum við loksins leiðbeiningar um hvar við ættum að finna bílinn. Við þangað. Upp á fimmtu hæð sem Danir kalla fjórðu (hvað er með þessa núlltu hæð?) Fundum afgreiðslueinstakling og fengum í hendur mjög fansí lykil. Ég ýtti á opnatakkann og rak upp undirskálaaugu. Haaaa? neeeeii? ekki er þetta bíllinn okkar? Jújú sagði afgreiðslueinstaklingurinn. Og er eitthvað trikk til að starta? nei ekkert þannig snúið, það er bara takki. Þarft ekkert að stinga „lyklinum“ í neitt, hann þarf bara að vera í bílnum. Jón Lárus var enn ekki farinn að taka eftir hvernig bíllinn leit út og þegar ég gekk svo að bílnum til að opna urðu augun hans sveimér eins og Sívaliturn.

volvo-xc90-first-edition-03

Við vorum búin að borga fyrir Volkswagen Touran eða sambærilegan en bíllinn reyndist vera kolsvartur glænýr Volvojeppi, XC 90 með öllum hugsanlegum græjum, leðursætum og loftkælingu og myndavél þegar maður bakkar og rauðum ljósum á hliðarspeglunum þegar bíll er í blinda blettinum og hvað veit ég?

Sveimérþá ef þetta var ekki biðarinnar virði!

Við vorum búin að ákveða að ég myndi byrja að keyra, Jón Lárus hafði skoðað leiðina og hlaðið gúgulleiðbeiningum inn á símann sinn og ætlaði að vera á oríenteringarvakt. Gekk fínt nema það voru reyndar verulegar tafir kring um Køge.

IMG_2284

Stoppuðum á rasteplads til að fá okkur smá í svanginn. Skiptum um bílstjóra enda var mig að byrja að svíða í augun og Jón keyrði rúman klukkutíma, bút af Sjálandi, yfir allan Fjón og svo skiptum við aftur áður en við komum inn til Kolding. Orientasjón sko.

Storebæltsbroen:

IMG_2292

Hótelið fundum við með góðri leiðsögn. Plöntuðum bílnum í bílakjallara (hundraðkall á dag en hei, þegar maður ætlar að vera á bíl þá kostar það bara – og ekki fræðilegur að leggja þessari drossíu við umferðargötu og hætta á pústra)!

Fífa sótti okkur svo á hótelið og við gengum heim í pínuoggulitlu íbúðina þeirra Atla þar sem hann hafði útbúið auka útskriftarveislu fyrir Freyju og Finn, með dönskum snittum, pulled pork samlokum og feikinógu freyðivíni, enginn þurfti að láta sér eitt glas duga. Tja nema Finnur sem fékk bara appelsín. Þrátt fyrir að vera kominn í fyrirheitna landið þar sem hann má kaupa sér bjór! (ókei hann hefur reyndar ekki minnsta áhuga á því…)

IMG_2298

Sátum fram til ríflega tíu og stungum síðan af, nema Finnur sem ætlar að gista hjá systur sinni. Galopnuðum svaladyr á hótelherberginu til að lifa af molluna. Eini gallinn á herberginu var að enginn  var þar minibar, í sjálfu sér svo sem í lagi en það þýddi enginn ísskápur sem var verra. Hef ekki gist á ísskápslausu hótelherbergi ég veit ekki hvað lengi!

Duolingoskammturinn og sofa. Vel þegið. Mjög vel þegið!

 

Roma – giorno quattro. Kaffi og fleira

vá úff maður, þessi færsla kemur seint! Eins gott ég muni eitthvað hvað við gerðum þennan dag, þarna úti í Róm!

Kaffi sagði hún? Saga að segja frá því.

Ég hef sko aldrei drukkið kaffi. Reynt alveg nokkrum sinnum, heima og heiman, aldrei komist gegn um heilan kaffibolla, fussað yfir bragðinu sem er eiginlega mjög furðulegt því uppáhalds nammið mitt er kaffisúkkulaði (Nói-Síríus, hví í ósköpunum er ekki komið kaffi- eða mokkaPipp?) Jón Lárus gaf mér að smakka fínasta kaffi í Salzburg og ekki einu sinni þar féll ég.

Nema hvað, í morgunmatnum á Hotel Morgana hafði yfirþjónninn mörg orð um besta capuccino í Róm og var ekkert allt of hrifinn af því að fólk vildi eitthvað annað í morgunmatnum. Ég hafði tekið mitt venjulega te fram að þessu og Jón Lárus beðið um espresso, vill yfirleitt ekkert mjólkursull í kaffið sitt. Nema hvað, daginn áður var annaðhvort ekki hlustað á espressopöntunina eða bara gleymdist hún (Ítalir setja yfirleitt bara mjólk í morgunkaffi þannig að það getur nú alveg verið) og ég, hnyklandi brýnnar hugsaði að – fjárinn hafi það, þarna skyldi ég gera lokatilraun við kaffi, ef mér þætti besta capuccino í Róm (lesist með besta mögulega ítalska hreim) ennþá vont þá væri fullreynt. Tók sopa hjá Jóni, smá fitjuppátrýn en svo: hmm þetta er nú ekkert SVO vont. Hmmm! þetta er eiginlega svolítið gott!!!

Þannig að á sunnudagsmorgninum sagði ég já takk við þjóninn þegar hann bauð mér capuccino. Leið nærri yfir Jón Lárus og þegar miðdóttirin sá instagrammið sem ég auðvitað sendi af þessu fékk hún nánast hjartaáfall að eigin sögn.

IMG_1797

Espressóinn hans Jóns fyrir ofan og fyrsti heili kaffibollinn minn á ævinni neðar!

(skemmst frá því að segja að nú drekk ég kaffi. Espresso sko. Ekki á hverjum degi en alveg stundum)

Nújæja. Frídagur. Flug heim ekki fyrr en daginn eftir. Ekkert sérstakt lá fyrir, ætluðum að kíkja á blómatorgið og prófa veitingastaði sem Pamela flautugúrú og fararstjóri hafði bent okkur á. Ákváðum að labba bara niður í miðbæ og detta inn þar sem okkur þætti spennandi.

Ein mynd frá torgi á leiðinni:

IMG_1810

þokkalegasta útsýni!

Lítið annars í frásögur færandi af þeim göngutúr nema eitthvað par var greinilega á svipaðri leið og við og gaurinn keðjureykti. Reyndum tvisvar eða þrisvar annað hvort að dragast aftur úr og þá stoppuðu þau greinilega til að skoða og við náðum þeim, eða þá að við rákumst inn í skemmtilega garða og þá náðu þau okkur. Tókst loksins að hrista þau af okkur í garði með appelsínutrjám og lúðrasveit að spila. Hér er appelsínutré:

IMG_1806

en ég á ekki mynd af lúðrasveitinni því miður.

Þegar við komum í miðbæinn (er annars eitthvað hægt að tala um miðbæ í Róm, hann er allavega ansi víðfeðmur og hótelið okkar, verandi nánast við hliðina á aðaljárnbrautarstöðinni er jú líka í einhvers konar miðbæ) vorum við að verða svöng og ákváðum að halda beint áfram og stefna á pizzariu sem Pamela mælti með. Hún reyndist alveg ansi hreint langt labb í burtu, hefði tekið strætó eða lest eða eitthvað ef við hefðum áttað okkur á því hvað gatan var löng sem hún stóð við. Löbbuðum í örugglega þrjú kortér frá blómatorginu og nýju skórnir voru líka farnir að meiða mig (glatað).

Á næsta horni frá veitingahúsinu sáum við snobbbúsáhaldabúð sem við ákváðum að kíkja inn í þegar við værum búin að borða – og svo enn örlítið lengra sá ég jólagjöfina mína!

ég er sko ekki skófíkill! magnað að fá tvö skópör í einni og sömu ferðinni, ég held bara hreinlega að það hafi aldrei gerst áður. En þessi gluggi, ó mææææ!

IMG_1830

Búðin var lokuð. Jón Lárus ætlaði ekki að geta dregið mig burt frá glugganum. Burt fórum við samt, hungrið dró okkur. Skildum ekki alveg miðann á hurðinni, skildist helst að búðin yrði aftur opnuð klukkan fjögur (þarna var hún ríflega tvö). Pizzarian, ágætis pizzur, þokkalegur bjór, algerlega ódrekkandi rauðvín, ég hefði hellt mínu en bóndinn, eins nýtinn og hann nú er, þrælaði í sig glasinu mínu.

Við tók bið. Tókum göngurúnt. Til baka um hálffjögur. Kíktum í snobbmerkjabúðina. Langaði í þessa ljósbláu hér, passar við eldhúsinnréttinguna en bæði tímdum við því ekki og nenntum ómögulega að halda á brauðrist heim!

IMG_1829

Kannski einhvern tímann.

Klukkan nálgaðist fjögur. Skreið yfir fjögur. Ekkert lífsmark í búðinni. Reyndi að hringja (uppgefið símanúmer fyrir utan búðina). Ekkert svar. Við í annan göngutúr. Góðan hring yfir Tíber. Til baka. Enn ekkert. Næsti pöbb, rósavínsglas í rólegheitunum á litlu útiborði á mjórri gangstétt, frekar sjabbí en þokkalegt rósavín. Fylgdumst með smá uppþoti í götunni þó án þess að óróast neitt. Enn til baka og allt lokað og læst. Ákváðum að fara í allra síðasta göngurúnt, pínu lengri yfir-Tíber-tvær-brýr-yfir-aftur-og-til-baka.

IMG_1836

Haust við Tíber.

Að búðinni aftur og JESS, komin blóm út í kerið fyrir utan! Opnaði klukkan fimm, ekki fjögur.

Voðalega næs eldri sölumaður sem hefði helst viljað selja mér margar týpur af fjólubláu skónum en seldi nú samt bara ein öklastígvél. Ég ekki ósátt. Alls ekki.

Tókum strætó aftur niður í bæ, röltum aftur á blómatorgið, allur markaður búinn þar, einn bjór/aperol spritz á torginu og svo bara veiddur leigubíll við hliðina á Pantheon og upp á hótel. Hópnum var boðið í lokahóf hjá mótshaldara en við hreinlega orkuðum ekki að fara. Röltum út í matvörubúð til að kaupa osta til að fara með heim og eitthvað smotterí til að eiga um kvöldið. Hittum þar nokkra flautara og viðhengi og ákváðum pronto að hafa opið hús (humm tja, herbergi) fyrir þá sem vildu.

Endaði á því að nærri allur hópurinn kíkti til okkar í vínglas og antipasti. Entumst ekki lengi fram eftir kvöldi, rétt upp úr miðnætti (rétt um það leyti sem einhver kom frá hótelinu til að leysa upp partíið) var liðið á förum enda áttu langflestir flug snemma morguninn eftir.

 

Tekur því tæpast að skrifa sér færslu um heimferðina, hún var ekki sérlega markverð nema að því leyti að einn flautarinn svaf nærri yfir sig og rétt náði vélinni. Við klöppuðum þegar hann og tvennt annað sem var með dót frá honum og varð semsagt að bíða eftir honum til að tékka sig inn, skreið inn í brottfararsal þegar við hin vorum komin í út-í-vél röðina.

Jú reyndar, ég fékk mér ekki kaffi á mánudagsmorgninum. Það má nú ekki hrapa að svona ákvörðunum!

IMG_1843

Roma giorno tre – Concerto

Þá var aðal dagurinn runninn upp. Konsert í aðal tónleikahöll Rómverja.

Morgunmatur að vanda. Súkkulaðikaka, besta í ferðinni. Mætti venjast því að fá sér desert eftir morgunmatinn. Og þó…

Eftir morgunmat fór Jón Lárus í vínbúðarleiðangur en ég ákvað að hvíla mig eins og ég gæti fram að tónleikum. Fór í bað í rólegheitunum, reyndi að þurrka hárið, gekk reyndar ekkert sérlega vel, hárþurrkan á hótelinu var nánast alveg ónothæf, loftið ágætlega heitt en straumurinn svo lítill að ég hefði alveg eins getað hrist á mér hausinn. Gerði samt takmarkað til því það lá svo sem ekkert á.

Lagðist aðeins yfir nóturnar, síðasta hraðatékk og punktar um túlkun og þanniglagað.

Jón kom heim eftir um tvo og hálfan tíma og við ákváðum að skjótast út á horn og fá okkur eitthvað smá í svanginn áður en lagt væri af stað á æfinguna. Höfðum ekki tíma til að setjast neins staðar inn og bíða eftir þjónustu þannig að það var bara næsti standur. Fundum reyndar stað með mat í borði en sem var samt hægt að setjast niður. Get nú ekki sagt að þetta hafi verið neitt sérlega spennandi en hei, við vorum allavega ekki svöng á eftir.

Höfðum ætlað að mæta klukkan hálftvö á tónleikastað, okkur var úthlutað þremur kortérum fyrir æfingu í salnum. Söfnuðumst saman klukkan 10 mínútur fyrir eitt (eða hmm ætluðum að safnast saman þá en hvenær geta nú Íslendingar verið nákvæmir á svoleiðis tíma?) Einhverjir ætluðu að koma sér beint á staðinn, sumir höfðu verið á masterklass um morguninn en smá hópur, 8 manns, var kominn saman á hótelinu um eittleytið. Báðum lobbíið panta tvo leigubíla. Svo bara biðum við og biðum og enginn bíll birtist. Það voru þá einhverjar heilmiklar mótmælastöður lengra fram eftir hótelgötunni og leigubílar komust hvorki lönd né strönd. Vorum hlaupin af stað út á lestarstöð (sem var mínútu gang frá hótelinu) þegar einn bíll birtist. Fjögur okkar fóru í hann en hin fjögur hlupu aftur af stað til að veiða bíl úti á lestarstöð.

Svo var okkar bíll svo lengi að komast út úr hverfinu að þau sem höfðu farið á stöðina voru auðvitað mikið fljótari á tónleikastaðinn.

Náðum nú hópnum sem betur fer samt saman áður en æfing hófst, sem betur fer hafði Pamela farargúrú áætlað mjög góðan tíma.

Salurinn reyndist skráþurr, teppi á sviðinu, en samt var alls ekki slæmt að spila þarna né hlusta. Akkúrat öfugt við Listasafnið þar sem við höfðum haldið sömu tónleika heima, þar er mjög mikil endurómun, nærri of mikil fyrir sum verkin.

Ég tók frekar hröð tempó á æfingunni, viljandi heldur hraðar en á tónleikunum, ágætt að koma fólki aðeins í gang.

Annars gekk æfingin bara fínt. Milli æfingar og tónleika voru síðan þrír og hálfur tími. Ekki tók því að fara til baka á hótelið. Við Jón Lárus nenntum ekki að sitja tvo og hálfan tíma á ekkert sérlega spennandi veitingahúsum sem voru á svæðinu, (mæting klukkutíma fyrir tónleika) þannig að við ákváðum að fara í smá göngutúr. Það var mjög fínt veður, sól og logn og um 14 gráðu hiti.

Svo sem ekkert sérlega spennandi þarna í kring, vorum nærri búin að gefast upp og snúa til baka þegar við rákumst á þetta líka spennandi listasafn með nútímalist. Fórum reyndar ekki á sýninguna en húsið var mjög flott og nokkur listaverk bæði fyrir utan og svo inni í fordyri safnsins. Gátum eytt dágóðri stund þarna.

IMG_1782

IMG_1787

IMG_1789

Til baka og te (ég) og rauðvínsglas (Jón) og kökusneiðar, fram að mætingu.

Svo var kominn tími á alvöru lífsins. Spennt og ánægð.

Tónleikarnir gengu ótrúlega vel, öll tempó smullu og verkin flutu eins og þau áttu að gera. Því miður var ekki gerð upptaka (að ég viti að minnsta kosti) þannig að það fylgir ekkert vídeó eða hljóð en ég hefði viljað heyra sum verkin, gengu talsvert betur en hér heima í Listasafninu.

Að tónleikum loknum var stefnt út að borða á fínt veitingahús að nafni La Matriciana, beint á móti óperuhúsinu. Reyndist þrautin þyngri að veiða leigubíla fyrir allt gengið, 40 mínútna bið eftir hringdum bílum en á endanum rötuðum við á röð þar sem leigubílar komu þokkalega reglulega. Upp á hótel að skila af sér flautum og nótum og sprota og svo á veitingahúsið.

Reyndist alveg magnað, besta mozzarella sem ég hef á ævi minni smakkað og ólífuolían með alveg fáránlega góð! Saltimbocca hoppaði í munninn eins og nafnið ber með sér og allt eftir þessu.

IMG_1795

Minglað fram eftir kvöldi og svo hótel og sof. Besti dagur!

 

Roma giorno due – I turisti

Dagur tvö var frídagur, engin æfing þannig að það var bara tekinn túristapakkinn. Hittum hressa flautuleikara og maka í morgunmatnum (ljómandi fínn hótelmorgunmatur) en héldum svo sem ekki hópinn, einhver þeirra ætluðu að vera massadugleg á flautuhátíð, mæta á masterklassa og tónleika, aðrir höfðu aldrei komið til Rómar og stefndu á Colosseo og Pantheon og Circo massimo, sem við höfðum tekið út í Rómarferðinni 2007. Þannig að við ákváðum að væflast um svæðið bara tvö.

Byrjuðum á því að oríentera okkur í nágrenni hótelsins. Í næstu götu við var stærsta lestarstöð Rómar, Termini. Forljót bygging en þægilegt að hafa svona nálægt. Í hina áttina var síðan ein hinna ofhlöðnu basilika (dómkirkna) borgarinnar. Þær eru þarna á öðru hverju horni og það eru ekki einu sinni neitt sérlega miklar ýkjur. Þessi heitir Basilica di Santa Maria Maggiore og hét Dúrkirkjan hjá okkur eftir þetta.

IMG_1729

Fílaði samt gólfið vel.

IMG_1730

Komum við í kjörbúð á horninu við basilikutorgið og keyptum eitthvað smotterí til að eiga á minibarnum. Herberginu okkar fylgdi fullur minibar sem við máttum drekka úr það sem við vildum án þess að borga fyrir það sérstaklega – en reyndar bara gos og vatn :p

Eitt af því sem við ætluðum að redda okkur í þessari ferð var parmaostakvörn þannig að þegar við rákumst á búsáhaldabúð rétt þarna hjá urðum við alsæl og stímdum þangað inn. Þar náttúrlega kolféllum við fyrir hinu og þessu og komum út með heldur meira en kvörnina. Ekkert af þessu jólaskrauti samt:

IMG_1736

Þarna var flinkur bakari á ferð:

IMG_1738

Gleymdi í fyrsta blogginu að segja frá lyftunum á hótelinu. Það voru þær þrengstu og minnstu lyftur sem ég hef vitað. Greinilega settar inn í stigagatið eftir á og vægast sagt ekki mikið pláss. Hér sést Jón í þeirri þrengri:

IMG_1746

Hádegismatar var neytt á veitingahúsi rétt við hótelið. Vel hægt að sitja úti, ágætis matur en betlararnir voru svolítið þreytandi, sérstaklega ein ung kona í skósíðum kjól sem bara hætti ekki að biðja okkur, þó við værum löngu búin að segja nei og að við værum ekki með neina lausa peninga, bara kort. Ég var ekki sátt við starfsfólk veitingahússins að láta þetta viðgangast, satt að segja. En fyrir utan það var þetta bara ansi næs.

IMG_1764

Þá var það aðal túristadæmið. Við höfðum ákveðið að heimsækja Vatikanið í ferðinni því við slepptum því algerlega 2007 í hitanum. Ég var þarna þegar farin að sjá svolítið illilega eftir að hafa ekki tekið með mér göngusandalana því skórnir voru að byrja að meiða mig þannig að það var ekki inni í myndinni að labba þangað. Allt morandi í skóbúðum í kring um okkur en engir sandalar í hrúgum, greinilega rammvitlaus árstími fyrir slíkt.

Ákváðum að það væri eiginlega bara svolítið sniðugt að hoppa upp í túristarútu, svona hop-on-hop-off. Slíkar voru í massavís hjá Termini þannig að það var ekki vandamál. Keyrðum réttsælis um borgina, framhjá ýmsum af þeim stöðum sem við höfðum heimsótt 2007 og hoppuðum út við Vatikanið.

Þar var auðvitað tveggja tíma röð bara til að skoða Péturskirkjuna og væntanlega að minnsta kosti önnur eins röð hinum megin, við Sixtínsku kapelluna. Fengum auðvitað engan frið fyrir fólki sem vildi selja okkur beinan aðgang inn, fram hjá röðinni og ef mér hefði ekki verið farið að vera illt í fótunum hefðum við tekið slíku boði og farið í tveggja tíma skoðunarferð. Hún verður hins vegar að bíða næsta skiptis, létum okkur duga að rölta um torgið. Þarna var verið að skreyta stærsta og flottasta jólatré sem ég hef á ævi minni séð:

IMG_1771

Gengum til baka, framhjá rútustæðunum og að Castel Sant’Angelo, þar sem Tosca gerist að miklu leyti. Aumu lappirnar á mér komu alveg eins þarna í veg fyrir almennilega skoðunarferð. Kannski næst, en kastalinn er allavega flottur að utan:

IMG_1773

Tókum túristarútuna niður að Campo dei fiori, þar var markaður í gangi, mikið dót og drasl. Settumst á útiveitingahús og fengum okkur bjór og Aperol spritz, tæpast nógu hlýtt fyrir Spritzinn samt, bara um 12 gráður.

Ekki var nú hægt annað en taka blómamynd á blómatorginu:

IMG_1778

Enn einu sinni rútan og nú aftur á Termini. Rákumst á skóbúð sem seldi Sketchersskó og náði að kaupa mér gott par. Aaaaaahhhhhhh!

Upp á hótel. Slökun. Svarti haninn í kvöldmat. Jón pantaði sér Rómarsett af mat en ég einhvern kjötseðil sem reyndist fyrst fínt lasagna en svo nautakjöt í Barolosósu, kjötið þurrt. Sá eftir að hafa ekki pantað sama og bóndinn, mikið betra og meira spennandi:

IMG_1780

Ekkert rauðvínsrugl á mér þetta kvöldið, tónleikar daginn eftir. Fórum ekkert niður á hótelbarinn bara beint upp í herbergi að sofa. Gooottt!

Roma giorno uno – Là

Rómarferð, langþráð. Fjölskyldan fór til Ítalíu 2007 og var fyrstu 5 dagana í Róm, í hitabylgju mikilli í júlí. Undirrituð hreifst gríðarlega af borginni og hefur langað mikið til að koma þangað aftur. Þannig að þegar Íslenski flautukórinn falaðist eftir stjórnanda í Rómarferð, á Flautissimo flautuhátíðina sló ég að sjálfsögðu til.

Æfingar og tónleikar heima, gekk nokkuð vel þó það sé skrítið að stjórna hópi fólks sem allt kann verkin betur en stjórnandinn sjálfur (þau höfðu spilað öll verkin áður nema mitt eigið nýja stykki).

Svo var haldið af stað. Jón Lárus kom með, Freyja skutlaði út á völl, við hittum slatta flautuleikara og nokkra maka í Leifsstöð á leið út til London. Keypti koparlitar lakkrískúlur og obligatoríska súkkulaði-og-croissantskammtinn í flugstöðinni. Hitti mökk af tónskáldum á leið til Bratislava á tónlistarhátíð. Örugglega gaman þar líka.

Flugið lítt fréttnæmt, náði samt tveimur góðum blundum sem er sjaldgæft en mátti vel notast við það.

Á Gatwick skildu leiðir, við höfðum einhverra hluta vegna pantað Rómarflug sem var tveimur tímum seinna en þau hin. Væntanlega hefur það sparað einhverja þúsundkalla. Pínu súrt því hópurinn hittist á sérvaldri trattoriu um kvöldið í tíu rétta máltíð en við náðum því semsagt ekki. Lítið við því að gera.

Á Gatwick tókum við allra allra síðasta tékk á breskum hamborgurum og svei mér þá ef hamborgaramenningin hefur ekki haldið innreið sína í breskar flughafnir. Þessi var allavega hörkufínn:

IMG_1721

Allar græjur líka til staðar til að gera kokkteilsósu með, ég hef aldrei notað Colmans sinnep í kokkteilsósu. Gæti vanist því!

Eftir mat voru enn tveir og hálfur tími í að við gætum tékkað okkur inn þannig að við sátum sem fastast á Wetherspoon, drógum upp bækur og keyptum okkur bjór og rósavín. Tíminn flaug.

IMG_1725

Þau á Wetherspoon eru reyndar með ágætis smekk í bjór:

IMG_1724

Einhvern veginn hafði okkur tekist að bóka EasyJet flugið þannig að við værum með forgangstékkinn og fremst í vélinni. Hef ekki græna glóru hvers vegna! en það var ekkert mjög óþægilegt.

Það sem var enn betra var þó að þegar við bókuðum herbergið á hótelinu voru öll ódýru herbergin búin þannig að við neyddumst til að bóka eitthvað aðeins dýrara. Það reyndist síðan vera business dæmi og við vorum sótt á flugvöllinn og skutlað beint upp á hótel. Hef svo Jón Lárus grunaðan um að hafa hnippt í gengið og beðið þau um að hafa fjólublátt þema í herberginu…

IMG_1726

Þrælþægilegt rúm, legið í því á skrifandi stundu, með rauðvín í vatnsglasi. Róm, hér erum við!

Brussel – London – Reykjavík daag – day – nótt 11

Heimferð. Vaknað 6.15, snemmt en skömminni skárra en upp úr 3 eins og á útleiðinni.

Hún Nicole sem á húsið sem við vorum í fær konu til að þrífa fyrir sig, sú hafði komið á miðvikudeginum þannig að við sluppum við að þrífa allt hátt og lágt. Rifum bara sængurföt af rúmum, fengum okkur morgunmat, smurðum nesti og kláruðum að troða síðasta dóti í töskur. Út úr húsi klukkan 7.25, upp á lestarstöð með töskur í eftirdragi og bakpoka á bökum. Rétt tókst að kaupa miða í tíma fyrir 7.45, við höfðum alltaf keypt miða fyrir alla í einu og annaðhvort okkar Jóns tekið þá á visakortin (yfirleitt Jón) en núna voru Fífa og Atli að kaupa miða fyrir sig alla leið upp á flugvöll en við bara á Zuid og þá vildi sjálfsalinn ekki taka neitt af kortunum þeirra þannig að Jón rauk til baka og náði að borga þá – það stóðst á endum að þau komu hlaupandi upp á pallinn um leið og lestin renndi að. Fjúkk!

Elsta unga fólkið fór svo úr á Noord stöðinni og er hér með úr sögunni (í þessu ferðabloggi skoh).

Komin niður á Zuid fundum við hin svo Eurostarinnganginn, beint inn í gegn um tvöfalda passatékkið og öryggisleitina (út úr Belgíu/Schengen og inn í Bretland). Inn í lest þegar 10 mínútur voru í að hún legði af stað. Nokkuð góðar tímasetningar bara.

Þessi lest var eiginlega betri en sú sem við tókum á leið út, sætin þægilegri. Samt ekkert hleðslutæki fyrir síma (gerði minna til þarna því auðvitað vorum við öll með fullhlaðið þetta snemma morguns). Ferðin gekk fínt, mikill lúxus að geta bara sest svona upp í hraðlest og keyrt langar leiðir.

Þá var það London í 6 klukkutíma. Ekkert okkar þekkir sig almennilega í London. St. Pancrasstöðin þar sem Eurostar lestirnar fara er við hliðina á King’s Cross stöðinni sem er nú á dögum frægust fyrir brautarpall 9 3/4. Krakkarnir (já og við) vildu auðvitað fara og kíkja á stöðina. Þar var búið að búa til þennan pall í forsal stöðvarinnar, með hálfri farangurskerru og öllu tilheyrandi. Löng röð túrista var fyrir framan, allir vildu fá tekna af sér mynd að hlaupa gegn um múrinn. Við slepptum því nú samt.

Skildum stóru töskurnar okkar eftir á Left luggage á St. Pancras. Út að væflast í London fram á síðdegi. Eins og ég sagði þá þekkjum við þetta svæði ekki neitt og tókst að fara í afskaplega óspennandi átt. Ætluðum að finna garð þar sem við gætum sest og borðað nestið okkar. Allt fullt af svona litlum görðum í London auðvitað. Sáum einn á korti sem við rákumst á og stímdum þangað, nokkurra mínútna gangur. Sá reyndist þá ekki dæmigerður pikknikkgarður heldur villigarður þar sem plöntur og dýr fá frið til að vera þau sjálf á smá svæði. Mjög skemmtilegur garður.

Nestið var nú borðað þarna samt þó þetta væri ekki akkúrat það sem við ætluðum okkur. Vorum kortlaus og ákváðum að reyna að hitta eitthvert niður í bæ. Ég setti Oxford Street í Maps í símanum mínum þó við ætluðum reyndar alls ekki að versla en þekkjum okkur betur kring um það svæði – fyrst fattaði ég svo ekki að stilla á Walk þannig að við vorum að ganga eftir bílaleið og einhvern voðalegan krók þar til ég sá breytingu: Það er lokun á þessari götu, beygðu næstu til hægri. Hmm! Stillti yfir á Walk en það var bara eitthvað alveg út í hött hvað hver bútur var langur (já ég veit London er stóóóór). Þannig að þegar við rákumst á Euston stöðina ákváðum við bara að fá okkur eitthvað að borða og hætta að reyna að fara eitthvað mikið meira miðsvæðis. Fórum á Nandos af einhverri rælni, aldrei farið á þá keðju áður og kunnum ekkert að panta en þegar kjúklingalærisborgararnir okkar komu á svæðið voru þeir alveg gríðarlega góðir og medium var allavega alveg passlega sterkt fyrir mig. Að skvetta medium piri piri sósu á bellurnar (ef franskar heita núna fröllur þá hljótum við að kalla belgískar bellur – franskar kartöflur eru jú frá Belgíu, alls ekki Frakklandi) var kannski örlítið misráðið samt.

Þetta er allrasíðasta matarmyndin úr þessari ferð. Lofa!

Vorum búin að ákveða að taka bara leigubíl aftur á St. Pancras þar til ég rak augun í skilti hjá Euston um gönguleið þangað sem væri bara 1,2 kílómetrar. Einhvern veginn hefur okkur semsagt tekist að fara að nálgast stöðina aftur á vappinu. Svo reyndist auðvitað fullt af skemmtilegu dóti vera allt í kring um þessar stöðvar, British Library, matarmarkaður, fullt af búðum og veitingahúsum – sé samt ekki eftir því að hafa fyrst labbað í hina áttina því annars hefðum við ekki séð skemmtilega villigarðinn.

St. Pancras er ansi flott að framan:

Settumst út hjá veitingahúsi og fengum okkur sitthvort rósavínsglasið til að drepa tímann, Freyja og Emil skutust til að skoða stöðvarnar tvær betur, Finnur sat hjá okkur og var eitthvað að verða framlágur. Skrifuðum það á þreytu.

Ákváðum svo að vera í góðum tíma í lestina til Gatwick. Reyndist ágætt því hún tók lengri tíma en okkur minnti og svo bilaði lestin líka á leiðinni og stoppaði tvisvar milli stöðva, annað skiptið í heilt kortér, mér hefði ekki verið sama ef við hefðum ætlað að láta þetta smella. Annars bara þægilegt og komin á Gatwick gátum við bókað okkur beint inn og farið inn fyrir. Alltaf alveg voðalega gott að vera kominn í gegnum bannsetta öryggisskoðunina og vegabréfaeftirlitið.

Í duty free rákumst við svo á þetta: (nei ég var ekki búin að lofa engri drykkjamynd!)

tímdum ekki að kaupa í þetta skipti en einhvern tímann skal ég fá svona flösku! (vonandi er þetta ekki tímabundin hönnun). Hvort ég tími svo einhvern tímann að opna og drekka verður alveg að koma í ljós!

Enginn orðinn svangur enn eftir Nandos þannig að við keyptum okkur bara þríhyrningssamlokur og vatn. Nema Emil sem langaði ekki í svoleiðis samloku. Sáröfunduðum hann svo þegar þessar reyndust vera enn önnur bragðlaukanúllstilling og hann átti svengdarkvóta eftir fyrir grillaðri samloku inni í biðsal.

Finnur var að verða lasinn greyið og vildi ekkert, hvorki vott né þurrt. Í vélinni var hann eiginlega alveg ómögulegur þannig að þó að Váflugið væri bara ágætt og meira að segja lent á undan áætlun var ég alveg hrikalega fegin að lenda og ekki síður að við hefðum splæst í að hafa bílinn á langtímastæðinu. Hefði verið martröð að taka rútuna heim.

Sólarlagið var samt fallegt á leiðinni:

Og já – heima. Takk fyrir lesturinn öllsömul. Næsta blogg væntanlega frá Róm í nóvember!

Brussel daag 10. Góðar fréttir og annars eiginlega ekkert

Dagurinn byrjaði á besta mögulegan máta. Fífa fékk tölvupóst um að hún hefur fengið skólavist í Designskolen Kolding – sem þýðir að innan mánaðar verður hún farin í nám til Danmerkur. Það er mjög erfitt að komast að í þessum skóla og við erum gríðarlega stolt af henni!

Annars gerðum við nú lítið þennan dag. Nema Jón Lárus sem fór í strætó og lestum 18 kílómetra leið þar sem hann hafði mælt sér mót við sprúttsala nokkurn, nei ókei gaur sem flytur inn og selur góð vín og Jón langaði í eitt sérstakt slíkt og lagði þetta á sig. Var ekkert að draga okkur hin með, enda óþarfi.

Dagurinn fór annars meira og minna í afslöppun eins og síðasta degi í fríi sæmir. Skutumst í búð til að kaupa í nesti fyrir ferðalagið, löng heimferð fyrir höndum daginn eftir.

Veit eiginlega ekki hvað ég get eipað um daginn annað en auðvitað matarklámið að venju, höfðum splæst í andabringur í búðinni þremur dögum fyrr og frestað eldun tvö kvöld (fyrst komum við seint heim og síðan var grillveður).

Ekki vont!

Dagur 10

Settumst út á pall í síðasta skiptið í þessu fríi, létum okkur hafa það þó það væri pínu svalt (hefði verið búin að kveikja upp í útiarninum heima á palli við þetta hitastig). Sólarlag ekki af ljótasta tagi:

IMG_1573

Svo var bara farið að pakka og púsla í töskur og ganga frá. Frábært frí við það að klárast, bara heimferðin eftir. Gæti nú reitað færslu samt því við verðum í 6 tíma í London.


bland í poka

More Photos

teljari

  • 361,654 heimsóknir

dagatal

júní 2016
S M F V F F S
« Maí    
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
2627282930  

sagan endalausa


Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.

Join 1.714 other followers