Afmælisleyniferð til München, Tag drei

Jæja styttist í þessari löngu helgi sem ekki var helgi. Síðasti heili dagurinn. Ekkert víst ég nenni að skrifa heimferðardaginn, kemur í ljós hvort eitthvað markvert og/eða skemmtilegt gerist í fyrramálið.

Þessi var allavega eitthvað. Ekki alveg jafn glanslegt veður og daginn áður, eða það er að segja fyrripart dagsins áður, pínu kaldara og líka nokkrir dropar úr lofti. Gerði lítið til.

Fórum ekki á stjá fyrr en um hálftíu, Jón Lárus náði að sofa talsvert betur út en ég, mig vantaði þyngingarsængina mína til að geta sofnað aftur þegar ég vaknaði um sjöleytið.

Morgunmaturinn:

og svo reyndar tvöfaldur espressó og deildum einu apfelstrudel með okkur á kaffihúsinu á horninu.

Plan fyrir daginn var að redda okkur þessum afgönsku kryddum sem við vorum búin að finna heitin á. Fórum í þrjár austurlenskar búðir, það er ekki þverfótað fyrir þeim hér í kring eins og ég held reyndar ég hafi verið búin að nefna. Þarna var hellingur:

fékkst samt ekki alveg allt, fundum ekki karrílauf eða fenugreek lauf. Náði í þau í miklu minni búð beint á móti hótelinu. Tékk.

Aðeins aftur upp á herbergi til að skila innkaupunum og óríentera okkur örlítið. Svo niður í miðborg. Okkur hafði verið bent á nokkra pöbba að skoða og tókst að redda tveimur af þeim, bæði Tegernsee og Andechser am Dom. Hjá dómkirkjunni í München heitir allt eitthvað am Dom. Ég skil ómögulega hvers vegna þetta er ekki tekið upp heima? Hví heitir veitingahúsið við Austurvöll Hjá Jóni, ekki Hjá Dóm? Ha?

Áður en við tókum út þessa pöbba kíktum við samt í nokkrar búðir, meðal annars eina sem heitir safnbúð og er með fáránlega flottu dóti. Mjög hættuleg búð fyrir veskið. Sluppum naumlega. Gekk verr í matarbúðinni í Galeria við Marienplatz, þar fuku nokkrar evrur í ost og te og súkkulaði. Féllum samt ekki fyrir þessari:

Veit ekki með ykkur en ég gæti hugsað mér eitthvað annað að gera við 375 þúsund kall en að sötra hann eina kvöldstund.

Vorum akkúrat að labba inn á ráðhústorgið klukkan tólf. Þar var múgur og margmenni og svo byrjaði músík og klukkuspilið í ráðhústurninum fór að snúast. Var heilmikið sjónarspil og skemmtilegt að ramba akkúrat á þetta.

Á Tegernsee voru smakkaðir bjórar og svo borðuðum við líka þar. Svona þegar okkur tókst að ná upp einhverri svengd eftir kalt snitsel í morgunmat (ha við, á móti matarsóun?) Ég harðneitaði hins vegar fyrirfram í þetta skiptið að taka afganga með heim á hótel, mögulega myndum við borða bara venjulegan morgunmat á heimferðardegi. Það var svo sem ekki heldur mikill afgangur þó maturinn væri vel útilátinn. Jón fékk sér svínaskanka með súrkáli og knödel en ég fékk mér leberkäse sem ég hef aldrei smakkað áður. Var bara ljómandi bragðgott, með ótrúlega góðu kartöflu- og súrgúrkusalati, þunnum radísusneiðum, sinnepi og spældu eggi.

Eins og gerist og gengur þurfti að skila bjórnum. Þar sem ég sat á afvikna staðnum hljómaði týrólaband af krafti og mynd af þessum huggulega gaur í lederhosen var í fullri stærð beint fyrir framan mig inni á básnum:

Ég veiiiiit ekki alveg! 😀

Kíktum í ostabúð en keyptum ekki neitt þó þetta væri freistandi, örugglega ekki eins gott samt og Bel paese osturinn sem við splæstum í í Galeria búðinni, reyndar smá fyndið þar, við spurðum konuna í ostaborðinu hvort hún ætti Bel paese og jújú, tók stórt stykki og ég sagði, já kannski helminginn af þessu. Leit á Jón og hann, nei aðeins meira kannski, svo ég sagði eitthvað óskýrt um þriðjung og hún færði hnífinn. Ætlaði svo að fara að pakka inn minna stykkinu og við bæði í einu: Neinei, hitt stykkið sko! En já, enginn þessara freistaði nógu mikið þó þetta sé flott:

Langaði samt smá í pínulítinn ostaskera af norsku sortinni en tja, eigum svo sem alveg nóg af svona smádóti og svo sker maður líka ost með hníf nema hann sé að fara ofan á ristað brauð!

Datt aðeins inn í gúrmeibúðina í Galeria aftur til að kaupa smotterí fyrir páskadagsmorgun í Dómkirkjunni, messur þar bæði klukkan 8 og 11 og kaffihlaðborð í boði kórfélaga milli messa. Efast um að ég nái einhverjum stórvirkjum í bakstri eða álíka á laugardaginn svo í þetta skiptið legg ég fram litskrúðuga skál af páskasúkkulaði. Og hananú. Keypti samt ekki páskahéra á línuna:

Andechser am Dom. Örmjó gata frá hliðargötu út frá Ráðhústorginu. Allt önnur stemning en á Tegernsee en líka mjög flott og Andechs stendur alltaf fyrir sínu, tala nú ekki um af krana. Ég meikaði samt ekki annan bjór þarna.

Heim á hótel. Rákumst á þennan svakalega flotta aspassölubás á leiðinni:

Við skimuðum eftir stað til að fá okkur ferskan aspas, Spargelzeit greinilega að detta inn en við sáum hvergi, því miður.

Slökun á hótelinu og fyrripartur bloggskrifa dagsins þar til kominn var tími á kvöldmat (díses skrifa varla um annað en mat, já og drykk!) Höfðum pantað á ítölskum stað þetta lokakvöld, góðan spöl fyrir norðan hótelið. Skoðuðum S-bahn og U-bahn og regional og tram og strætó en alltaf snúið og tómt ves svo við splæstum bara í bíl. Vorum fegin því, þar sem meira að segja leigubílstjórinn ruglaðist og þurfti að slökkva á mælinum og snúa við. Keyrði inn í dimma hliðargötu og við alveg hmmm?! en jújú þarna var staðurinn, ekki fræðilegur að fólk rambi á hann neitt, verður að vita af honum og fara sér ferð. Lítill og mjög næs staður. Féllum bæði fyrir ribeye steik með kóngssveppum af krítartöflumatseðlinum.

Sko. Sveppirnir voru púra unaður, ég er ekki viss um að ég hafi nokkurn tímann fengið svona góða kóngssveppi áður (og þá varla bara svona góða sveppi). Kartöflurnar líka mjög góðar. Steikin fín en ég hef fengið betri, oggulítið seig og rauðvínið var of heitt. Sé samt alls ekki eftir því miðað við að fá alveg örugglega fjóra eða fimm gígantíska kóngssveppi. Hljóta að vera ræktaðir, ég hélt ekki að það væri hægt en það er alls ekki kóngssveppatími núna, allavega ekki í Evrópu.

Annar leigari til baka og skrifandi stund er uppi í ljómandi fína hótelrúmi, náttfötin gera sig og svo bara heim í fyrramálið. Snilldar ferð!

0 Responses to “Afmælisleyniferð til München, Tag drei”



  1. Færðu inn athugasemd

Færðu inn athugasemd




bland í poka

teljari

  • 380.688 heimsóknir

dagatal

mars 2024
S M F V F F S
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31  

sagan endalausa