Við vorum lítið í að auglýsa á samfélagsmiðlum að við værum í útlöndum í þetta skiptið, sérstaklega vegna þess að íbúðin var aldrei þessu vant mannlaus þó hún væri ekki kattlaus. Mahler gæti samt ekki varist neinum innbrotsþjófum. Henti þó að kvöldi fyrsta dagsins kommenti inn á feisbúkk smá Berlínarstatus. Fékk prontó til baka: Bjór? spurningu frá Öldu Vigdísi vinkonu okkar sem býr í Berlín. Klárt mál. Ákváðum að hittast á crépustað að kvöldi dags tvö. Sem er semsagt að detta inn hér.
Splæstum í morgunmat á hótelinu, hann fylgdi ekki með. Frekar dýr – tja reyndar alveg rándýr. 12 evrur á manninn. Við vorum ekki búin að spotta neina staði í kring og fannst ómögulegt að fara út óétin (enginn ísskápur munið þið!)
Morgunmaturinn reyndist ekkert sérstakur. Ekkert vondur en ekkert sérstakt úrval og langtífrá 12 evru virði. Maður átti að sjóða sín eigin egg í stórum hitapotti, mér tókst að fatta það ekki neitt og stela eggi af einhverjum vesalings hótelgesti sem var í sakleysi sínu að sjóða eggið sitt. Það var svo auðvitað hrátt! Hauspokinn út!
Aðeins aftur upp á herbergi og svo var stímt í vesturátt. Stefnan tekin á KaDeWe, Kaufhaus des Westens. Ætluðum bara í matardeildina nema ég dró Jón Lárus með mér í smá skoðunarferð um hús- og eldhúsbúnaðarhæðina. Alltaf gaman að skoða flotta hönnun í þeirri deildinni.
Það dró svo dilk eftir sér að stoppa á þessari hæð því við kolféllum fyrir karöflu og enduðum á að kaupa hana. Fengum að máta hana í bakpokann svo við kæmum henni alveg pottþétt heim í handfarangrinum.
skiljanlegt? ha?
en okkur vantaði í alvöru karöflu!
Matardeildin stóð fyrir sínu að vanda!
Þetta eru ekki kirsuber þarna á myndinni neðst til vinstri heldur pínu oggulítil eggaldin! Við hliðina á rauða blómkálinu.
Hádegismatur á víetnamska staðnum. Sama öndin og síðast, lýst í þessari færslu síðan í nóvember. Með mynd. Búin að prófa að gera þetta heima en þá vantaði eitt mikilvægt innihaldsefni. Prófum aftur. Jón var ekki ósáttur og hvítvínið sem við fengum með þessu var alveg fáránlega gott Chardonnay, sérstaklega miðað við að það var nafnlaust á matseðlinum!
Kíkt í vínbúðina sem ég hafði farið pílagrímsferðina þarna þegar ég var ein á ferð, ein flaska keypt, Jón Lárus er að fara í vínsmakkferð til Spánar með vínsnobbklúbbnum sínum í haust og vildi smakka tvær týpur fyrirfram. Vorum svo heppin að önnur týpan bauðst okkur að smakka á staðnum en keyptum hina. Hefðum ekkert haft við að gera að kaupa tvær því við kæmumst ekki með neitt vökvakyns heim nema opna flöskuna og hella henni í sjö og hálft hundrað millilítra glös og sett í glæran lokanlegan plastpoka.
Uuuu nei!
Trömpuðum til baka á lestarstöðina, fram hjá UDK sem við höfðum heimsótt í LHÍ ferðinni í nóvember.
Þarna fannst mér ég vera voða fyndin! Skilaði sér ekki á facebook samt 😦
Héngum úti við eins og við gátum, ljómandi veður þó það væri ekki alltaf sól, (og nei það var ekki svona mikil rigning eins og sýnist í tenglinum þarna á undan).
Þá hittingur við Öldu á crépustaðnum hennar. Lest og strætó og labb. Snarklikkaði á að taka mynd af henni. Bara crépunni minni sem reyndist alveg ljómandi.
Sátum úti og spjölluðum um landanna gagn og nauðsynjar, pólitík, kjötvinnslu, vegan veitingahús, póstþjónustu, forritun og hvað veit ég? Ætli klukkan hafi ekki verið orðin tíu eða svo þegar okkur var orðið fullkalt að sitja og stímdum aftur heim á hótel og Alda heim til sín. Hrundi í bólið og hafði ekki einu sinni lyst á að smakka rauðvínið góða! En það var nú annað kvöld til stefnu.
Skrefafjöldi 14481 skref. Tramp!
Nýlegar athugasemdir