Sarpur fyrir júlí, 2017

Berlín 2.0. Dagur 2

Við vorum lítið í að auglýsa á samfélagsmiðlum að við værum í útlöndum í þetta skiptið, sérstaklega vegna þess að íbúðin var aldrei þessu vant mannlaus þó hún væri ekki kattlaus. Mahler gæti samt ekki varist neinum innbrotsþjófum. Henti þó að kvöldi fyrsta dagsins kommenti inn á feisbúkk smá Berlínarstatus. Fékk prontó til baka: Bjór? spurningu frá Öldu Vigdísi vinkonu okkar sem býr í Berlín. Klárt mál. Ákváðum að hittast á crépustað að kvöldi dags tvö. Sem er semsagt að detta inn hér.

Splæstum í morgunmat á hótelinu, hann fylgdi ekki með. Frekar dýr – tja reyndar alveg rándýr. 12 evrur á manninn. Við vorum ekki búin að spotta neina staði í kring og fannst ómögulegt að fara út óétin (enginn ísskápur munið þið!)

Morgunmaturinn reyndist ekkert sérstakur. Ekkert vondur en ekkert sérstakt úrval og langtífrá 12 evru virði. Maður átti að sjóða sín eigin egg í stórum hitapotti, mér tókst að fatta það ekki neitt og stela eggi af einhverjum vesalings hótelgesti sem var í sakleysi sínu að sjóða eggið sitt. Það var svo auðvitað hrátt! Hauspokinn út!

Aðeins aftur upp á herbergi og svo var stímt í vesturátt. Stefnan tekin á KaDeWe, Kaufhaus des Westens. Ætluðum bara í matardeildina nema ég dró Jón Lárus með mér í smá skoðunarferð um hús- og eldhúsbúnaðarhæðina. Alltaf gaman að skoða flotta hönnun í þeirri deildinni.

Það dró svo dilk eftir sér að stoppa á þessari hæð því við kolféllum fyrir karöflu og enduðum á að kaupa hana. Fengum að máta hana í bakpokann svo við kæmum henni alveg pottþétt heim í handfarangrinum.

riedel karafla

skiljanlegt? ha?

en okkur vantaði í alvöru karöflu!

Matardeildin stóð fyrir sínu að vanda!

Þetta eru ekki kirsuber þarna á myndinni neðst til vinstri heldur pínu oggulítil eggaldin! Við hliðina á rauða blómkálinu.

Hádegismatur á víetnamska staðnum. Sama öndin og síðast, lýst í þessari færslu síðan í nóvember. Með mynd. Búin að prófa að gera þetta heima en þá vantaði eitt mikilvægt innihaldsefni. Prófum aftur. Jón var ekki ósáttur og hvítvínið sem við fengum með þessu var alveg fáránlega gott Chardonnay, sérstaklega miðað við að það var nafnlaust á matseðlinum!

Jón og öndin

Kíkt í vínbúðina sem ég hafði farið pílagrímsferðina þarna þegar ég var ein á ferð, ein flaska keypt, Jón Lárus er að fara í vínsmakkferð til Spánar með vínsnobbklúbbnum sínum í haust og vildi smakka tvær týpur fyrirfram. Vorum svo heppin að önnur týpan bauðst okkur að smakka á staðnum en keyptum hina. Hefðum ekkert haft við að gera að kaupa tvær því við kæmumst ekki með neitt vökvakyns heim nema opna flöskuna og hella henni í sjö og hálft hundrað millilítra glös og sett í glæran lokanlegan plastpoka.

Uuuu nei!

Trömpuðum til baka á lestarstöðina, fram hjá UDK sem við höfðum heimsótt í LHÍ ferðinni í nóvember.

Þarna fannst mér ég vera voða fyndin! Skilaði sér ekki á facebook samt 😦

Héngum úti við eins og við gátum, ljómandi veður þó það væri ekki alltaf sól, (og nei það var ekki svona mikil rigning eins og sýnist í tenglinum þarna á undan).

Þá hittingur við Öldu á crépustaðnum hennar. Lest og strætó og labb. Snarklikkaði á að taka mynd af henni. Bara crépunni minni sem reyndist alveg ljómandi.

crépe

Sátum úti og spjölluðum um landanna gagn og nauðsynjar, pólitík, kjötvinnslu, vegan veitingahús, póstþjónustu, forritun og hvað veit ég? Ætli klukkan hafi ekki verið orðin tíu eða svo þegar okkur var orðið fullkalt að sitja og stímdum aftur heim á hótel og Alda heim til sín. Hrundi í bólið og hafði ekki einu sinni lyst á að smakka rauðvínið góða! En það var nú annað kvöld til stefnu.

Skrefafjöldi 14481 skref. Tramp!

Berlín 2.0. Dagur 1

Sveimérþá ef þetta er ekki í fyrsta skipti síðan ég fór að blogga, hvað þá ferðablogga að ég fer til sama lands og sömu borgar tvö skipti í röð. Síðustu færslur heita jú Berlín dagur eitt til fjögur og nú á ég annað sett af Berlín degi eitt til fjögur. Svo 2.0 skal það heita.

Allavega, skyndiákvörðun með þriggja vikna fyrirvara eða svo. Börnin sitt í hverju heimshorninu, dæturnar og kærasti þeirrar eldri í Japan að frílysta sig og sonurinn í Bandaríkjunum með víóluna sína og tenórröddina á kammermúsíknámskeiði. Gamla gengið og kötturinn alein heima í mánuð. Nei þetta gekk ómögulega. Ákváðum að skilja köttinn og blómin eftir í umsjá Gunna sem býr í risíbúðinni og sjá hvort við værum ekki til í að kynnast Berlín betur.

Þetta var mitt þriðja og Jóns annað skipti í borginni. Í fyrsta skipti var búið að yfirhæpa hana kyrfilega fyrir okkur, allir hlytu að dýrka hana og dá og vilja helst flytja þangað. Svo fannst okkur hún bara svona allt í lagi, pirruðumst á því að vera alltaf að finna klóaklykt í hvert sinn sem við gengum fram hjá grind og já, féllum ekkert fyrir henni. Svo fór ég Jónslaus síðast, með vinnufélögum, bjó á risahóteli við Alexanderstorg, minni klóaklykt og borgin höfðaði meira til mín. Já og kolféll fyrir víetnömskum veitingastað í vesturborginni.

Svo stukkum við á Vátilboð á flugi eitt kvöldið, leituðum uppi hótel á góðum stað og áður en við höfðum tíma til að hugsa okkur um vorum við búin að bóka.

Viðbjóðslega, ógeðslega snemmbúna Váflugið, vél átti að fara í loft 05.45. Já, fyrir klukkan sex! Vaknað þó ekki fyrr en klukkan þrjú þar sem við vorum búin að tékka okkur inn og vorum bara með handfarangur (hvílíkur lúxus).

Svona leit himininn yfir Keflavík út:

sólarupprás.JPG

Ekki þurftum við að sýna vegabréf á leiðinni út.

Obligatoríska morgunmatnum í Kaffitá… nei Segafredo var það víst, hafði farið aftur. Ekki boðist til að hita upp croissantana, engir diskar bara pappírspokar og heita súkkulaðið og espressóinn voru komnir í pappamál í stað almennilegra bolla. Gleited!

Við flugum með Freyju út:

Freyja flugvél

Freyja var sátt.

Flugið, ríflega þrír tímar rauk óvenju hratt áfram því við steinsofnuðum bæði tvö og sváfum alveg af okkur veitingasölu og djútífrí sölumennsku. Besta mál!

Á Schönefeld vorum við snögg út. Ekkert var kallað eftir vegabréfum þar heldur. Schengen að hrynja inn aftur eins og það á að virka, greinilega.

Tókum regional lest niður í bæ. Gekk sjaldan og ein ferð féll niður þannig að við héngum sársyfjuð á brautarpalli í ríflega klukkutíma. Stoppuðum á Ostbahnhof og ákváðum að ganga niður í Mitte þar sem hótelið var staðsett, rétt hjá Checkpoint Charlie. Miðbæjarrotturnar geta nú ekki verið þekktar fyrir annað en að gista í Stadtmitte, eða hvað?

Þetta reyndist hinn lengsti göngutúr en veðrið var verulega gott og ekkert að því að ganga, þó Jón drægi á eftir sér litla ferðatösku. Þetta var að litlu leyti ganga gegn um nein túristasvæði, furðuleg svæði á leiðinni sem litu út fyrir að vera yfirgefnir markaðir og annað frekar shady dæmi. Ekkert skelfilegt svo sem en allavega tveir staðir sem við ákváðum að vera ekkert að forvitnast um.

Rákumst á þennan rammskakka Ampelmann sem virðist geta gengið upp veggi eins og ninja:

skakkur ampelmann

Stopp á einum pöbb, aperol spritz í lágu vatnsglasi og einn bjór, blaðra á fæti, dreginn upp plástur úr tösku og ákveðið að kaupa fleiri í næsta apóteki.

Náðum að Checkpoint Charlie, svo sem ekki merkilegt að sjá, ein mynd vesturberlínarmegin:

checkpoint charlie

Merkilegt fyrirbæri auðvitað en eins og það er núna þá svolítið tourist trap legt.

Þessi vagn fannst okkur flottur. Currywurst safnvagn. Jón Lárus var í stíl og taskan líka.

currywurst bíll.JPG

Örstutt í hótelið sem stendur við sjálft Múrstræti í Mitte. Portúgalskt kattahótel. Sko engir kettir en kattaþema. Þessi stóð og gætti inngangsins:

Kisi

Ég ætla að skrifa umsögn um hótelið á Tripadvisor. Svona þegar ég nenni. Ljómandi herbergi, hreint, snyrtilegt og vel þrifið, peningaskápur á herberginu og frítt net en enginn minibar og þar af leiðandi enginn ísskápur. Slæmt!

Ekki fórum við nú langt eða merkilegt eftir þennan 4-5 kílómetra göngutúr en kíktum þó í smá göngu og búð. Án þess að geta keypt neitt sem þyrfti að setja í ísskáp. Reyndar er Kaupfélag Garðabæjar og nágrennis búið að skemma fyrir manni kirsuberjafíknina í útlöndum. Bjór var keyptur samt, helst af sortinni þyrfti-ekki-að-drekkast-ískaldur. Þetta freyðivín var ekki keypt þó mín væri örlítið freistað:

freyðivín og rör

Já þetta er það sem það sýnist. Freyðivín í pínulitlum flöskum og rör!

Pizza úti á torgi beint á móti hótelinu. Ágætis pizza, hef fengið bæði betri og verri. Dauðþreytt. Upp og drekka einn volgan bjór, klára DuoLingoskammt dagsins og sofa.

Fitubitinn – nei FitBitinn sýndi 15.477 skref. Ekki slæmt!


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

júlí 2017
S M F V F F S
 1
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
3031  

sagan endalausa