Sarpur fyrir apríl, 2011

útskriftir

eru á fullu í Listaháskólanum þessa dagana, kemst á allt allt of fáa tónleika en reyni að redda því með að gerast fiðluleikari á gamals aldri og stökkva á spilamennsku þar sem mér býðst. Útskriftarnemarnir hafa ekki verið neitt voðalega fúlir yfir því reyndar, enda oft erfitt að veiða hljóðfæraleikara, það er ofgnótt af tónsmíðanemum í deildinni en ekki alveg eins mikið af hljóðfæraleikurum enda eru þau flest eins og útspýtt hundskinn á þessum tíma árs að reyna að halda sína eigin lokatónleika annarinnar plús spila á öðrum hvorum tónsmíðatónleikum. Þannig að fleiri puttar sem geta stutt á strengi eru vel þegnir.

Hvort maður hefur tíma í þetta, það er hins vegar allt annar handleggur á allt öðrum manni. En skemmtilegt er það.

Samæfing kóra í fyrramálið, hlakka til að hitta Óperukórinn sem mun syngja með okkur í Hörpu í þessari viku.

étið

páskaeggsræfillinn minn, númer 4, náði að klárast í dag. Voðalega stolt af sjálfri mér hvað mér tókst að treina það lengi. Þar til ég mundi eftir því að ég er reyndar ekkert sérlega mikill nammigrís. Savoury, that’s me.

Úrbeinuðum kalkún í fyrsta skipti fyrir fjölskylduveislu á páskadag, fuglinn er bráðfyndinn svona flatur. Þarf að henda inn myndum.

Skrítið annars að byrja að kenna aftur, það er svo stutt eftir af skólunum mínum fram að sumarfríi að mér fannst varla taka því, gæti eiginlega ekki verið að það væri venjulegur kennsludagur. Ekkert eftir nema skrifleg tónheyrnarpróf í næstu viku (argh, á eftir að setja inn einkunnir! reminder to self í fyrramálið!).

Næsta vika verður hektísk, þrennir tónleikar í Hörpu og æfingar fyrir þá. Get ekki beðið.

páskar

gleðilega páska, nær og fjær.

Páskaegg falin og fundin (nema eitt, leit stendur yfir)

Hafði enga lyst á lakkrísegginu mínu í morgun, eftirstöðvar af pest kannski en eftir brauðsneið með ósköp venjulegu hænueggi stóð það nú til bóta. Ráðist á eggið, fyrsta skipti svei mér þá sem aðaleggið mitt er ekki frá Nóa. Sé ekkert eftir því, súkkulaðið í Góu egginu er alveg ljómandi og allt nammið inni í bara svo mikið betra.

Nammið já…

Borðaði hlaupbangsa úr poka, einn hvítur og svei mér þá ef það var ekki Póló bragð af honum. Ekki súkkulaðikexið, nei nei, heldur eldgamli gosdrykkurinn, Kjarnadrykkur með gervikjörnum. Held ég hafi ekki fundið þetta bragð í minnsta kosti 30 ár.

lestur

Er eiginlega orðin pínu leið á að hanga í tölvunni – kom að því – þannig að bókasafnið og bókabúðir eru farnar að skipa hærri sess aftur hvað varðar frítíma minn.

Var loksins að klára The Summer Book eftir Tove Jansson, yndisleg fullorðinsbók þó maður sjái Múmínálfaandann í gegn (ekki að Múmínbækurnar séu ekki fullorðins, ég lærði fyrst almennilega að meta þær sem stálpaður unglingur),

Svo er ég dottin í Pratchett aftur, þarf að ná upp alveg slatta af bókum. Sem er gott. Fann nýjustu Tiffany Aching bókina á bókasafninu, sat svo í stofunni um daginn og hló svo mikið að neðanmálsgreinunum að mér fannst ég þurfa að afsaka mig við unglinginn og kærasta hennar sem sátu í borðstofunni.

Þeir sem þekkja Tiffany og kó kannast væntanlega við:

Vantar reyndar eina bók í safnið, Amazon, hér kem ég!

(jánei, ég er hvorki hætt á facebook né blogginu þó ég nenni ekki að hanga þar eins mikið og stundum áður. Alls ekki á ircinu heldur…)

sumarkvöldin

Gleðilegt sumar, kæru lesendur, þó veðrið sé nú ekki glanslegt ennþá stendur það örugglega til bóta. Og það fljótlega.

Það eru nefnilega mörg ár síðan við gátum sungið með réttu vísuna góðu sem endar: Þegar saman safnast var, sumarkvöldin fjögur.

Kveðjur úr pestarbælinu sem er þó pínu minna slíkt en í gær – ekki að vita nema mér takist að rísa upp og halda afmælisveislurnar sem til standa á morgun.

Bill Gates syndrome

já eða bara kennaraveiki, ég er með hana. Verða ekki veik nema í fríum. Búið að vera snarbrjálað að gera, fyrir utan það sem ég lýsti hér í þarþarsíðasta bloggi (eða svo) bættust við inntökuviðtöl í tónlistardeild LHÍ, var þar í rosalegri törn allan gærdaginn, fyrir tónleikana. Tekur á, þó það sé spennandi að hitta allt þetta flotta fólk.

Gætum mögulega brotið ákveðið blað á næsta skólaári, meira um það síðar.

En allavega þá hrundi ég alveg í nótt, vaknaði titrandi og skjálfandi, veit ekki hvað ég var með mikinn hita, um miðja nótt. Heldur skárri í morgun en góð, nah. Súri pakkinn.

En tónleikarnir í gær voru annars æði, voða stolt af nemöndinni minni, flott útskriftarverk.

pylsur, beikon…

Fagna innilega nýjustu viðbót í matarmenningu Reykvíkinga, hef lengi pirrast yfir því að það sé ekki hægt að fá almennilegt beikon hér og ef nýjar pylsur komu á markaðinn voru það nánast undantekningarlaust afbrigði af vínarpylsum.

En ekki lengur.

Eins og fólk hefur kannski séð er komin þessi frábæra búð á Laugalækinn, gourmethorn Reykjavíkur, þar eru fyrir Frú Lauga (fastur viðkomustaður nú þegar) og fínasta ísbúð ásamt bakaríi. Núna hefur semsagt bæst við búð með alvöru kjötvörum, margar tegundir af pylsum bæði ferskum og reyktum, til að borða heilar eða í sneiðum, nokkrar mismunandi skinkutegundir og beikonið! maður minn! þykkar handskornar vel reyktar sneiðar og þarna er sko ekki vatnssprautað.

Það besta er að þetta er ekki einu sinni neitt sérlega dýrt. Beikonið til dæmis kostar ekki nema 1963 krónur kílóið.

Nei, ég á ekki hlut í búðinni þó ég sé að auglýsa – en ég vil veg hennar sem allra mestan svo hún fari nú örugglega ekki á hausinn. Hef reyndar ekki stórar áhyggjur af því, alltaf þegar ég hef komið er alveg slatti af fólki þar inni (nema reyndar einu sinni þegar ég datt inn klukkan 11 um morgun og spjallaði góða stund við annan eigandann).

Sjá nánar hér.

krókn

veðrið gabbaði mig bæði í gær og í dag, fór út á (reyndar lopa)peysunni og var auðvitað skítkalt í bæði skiptin. Læra af reynslunni, hvað er það?

Krókusarnir mínir liggja á hliðinni en það má nú vonast til að þeir rétti sig við. Svo hlýna vinsamlegast, svo páskaliljurnar verði útsprungnar þarna eftir rúma viku. Sýnist þær vera í biðstöðu eins og er.

Vor, takk…

páháskafrí

alveg að detta inn – er reyndar með tónsmíðanema á morgun og hinn, stöðupróf nýnema í LHÍ á mánudaginn, kóræfingu mánudagskvöld, búin að lofa að spila í útskriftarverki á þriðjudaginn, æfingar fyrir það annað kvöld (svo beint á kóræfingu), sunnudag og mögulega mánudag, önnur kóræfing á mánudaginn, fyrir Hörpuvígslu, og svo er ég að reyna að koma saman stjórnarfundum. Er síðan bókað að gleyma einhverju.

Hver var að nefna páskafrí?

Er samt ekkert að kvarta, allt verður þetta gaman, hlakka sérstaklega til að hitta umsækjendur næsta árs í Listaháskólanum, alltaf spennandi að sjá nýjan hóp af flottu fólki.

smellir

Man nokk vel eftir því þegar ég var krakki og var kennt að á tónleikum ætti ekki að heyrast í manni þar sem það gæti auðveldlega truflað fólk í kring. Nokkuð sem ég hef innrætt mínum ungum líka með góðum árangri. Það sem ég þoldi verst, mögulega fyrir utan skrjáf í konfektpokum (hvað var líka eiginlega með að selja konfekt í hörðum sellófanpokum í leikhúsi og óperu?) voru heldri frýr sem þurftu alltaf að vera að taka upp gleraugun sín og setja niður aftur og létu smella í gleraugnahulstrunum.

Nú er ég ein þessara frúa sem þarf að nota gleraugu til að geta lesið prógrammið.

En ekki að ræða það að ég láti heyrast til mín smella í gleraugnahulstri! Né heldur skrjáfa í nammipoka…

hver baðar

annars eiginlega ketti?

Ekki ég.

Reyndar, gæti nú verið að þessi köttur eða sambærilega loðnir þyrftu á baði að halda stöku sinnum:

Loppa sér allavega um að halda sér hreinni. Heyrði reyndar einu sinni: Cats aren’t clean, they’re just covered in cat spit.

venjubundin

sala komin í gang, Gradualekórinn er að fara í tónleikaferð til Skotlands í júní.

Til sölu:

tveggja laga klósettpappír 48 rúllur kr 3.400
þriggja laga klósettpappír 36 rúllur kr 4.100 (mælum með þessum)
Lakkrís, 500 g kr. 1000
Eldhúsrúllur tveggja laga, 24 rúllur kr 3.400

Afhent þriðjudaginn 19. apríl, heimkeyrsla á höfuðborgarsvæðinu. Takið nú endilega undir svo við förum ekki á hausinn af ferðakostnaði 😉

brúðkaup

Sitjum inni í stofu í gærkvöldi, gömlu hjónin og sú nýorðin 15 ára.

Ég rekst á frétt á ruv.is vefnum. Les upphátt með uppgerðar fagnaðarhreim í röddinni:

ég: Vúhú, konunglega brúðkaupið verður auðvitað í beinni á ruv!

bóndinn: Fjúkk, var farinn að hafa áhyggjur!

unglingurinn lítur upp með undrunarsvip: Hvaða brúðkaup?

Einhvern veginn varð ég voðalega ánægð með úllínginn minn sem hefur svona lítinn áhuga á „ríkogfrægafólkinu“…

milli funda

kennslu og æfinga tók ég eitt skutl, sækja Finn í afmæli í Keiluhöllina og keyra Freyju á kóræfingu inn í Langholt. Á leiðinni Rondó eins og venjulega (FM 87,7 – algengasta stillingin í bílnum). Yfir geislanum hjá þeim Fauré Requiem, sem Freyja er nýbúin að spila með áhugamannabandinu og neskórnum.

Ekki óeðlilegt, stöðin keyrir sig jú mikið til á klassískum standördum.

Nema núna. Einhver hafði nefnilega ýtt á random á spilaranum og kaflarnir voru í rammvitlausri röð. Spes.

Rondó stóð reyndar undir nafni um daginn, heyrði Strengjaserenöðu Tjækofskís þrisvar sama daginn.

afrek dagsins

Einn bónaður bíll. Ekki ég, bóndinn (sagði ég eitthvað um að þetta þyrftu að vera eigin afrek?)
smá vesen með nýju tölvuna lagað (vonandi)
horft á LOTR 1 með syninum
eldað rogan josh úr karríbókinni frá óla bró

Semsagt voðalega góður dagur. Finnst samt að ég hefði átt að vera að gera eitthvað annað, örugglega einhver ósköp af spennandi tónleikum og slíku sem ég hef misst af. Só vott?

var að uppgötva

nýja brandarasíðu – nei ég hef ekki of mikinn tíma…

Tvö dæmi, vonandi er hægt að beintengja:

lovitt!


bland í poka

teljari

  • 377.779 heimsóknir

dagatal

apríl 2011
S M F V F F S
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930

sagan endalausa