Sarpur fyrir apríl, 2016

Roma – giorno quattro. Kaffi og fleira

vá úff maður, þessi færsla kemur seint! Eins gott ég muni eitthvað hvað við gerðum þennan dag, þarna úti í Róm!

Kaffi sagði hún? Saga að segja frá því.

Ég hef sko aldrei drukkið kaffi. Reynt alveg nokkrum sinnum, heima og heiman, aldrei komist gegn um heilan kaffibolla, fussað yfir bragðinu sem er eiginlega mjög furðulegt því uppáhalds nammið mitt er kaffisúkkulaði (Nói-Síríus, hví í ósköpunum er ekki komið kaffi- eða mokkaPipp?) Jón Lárus gaf mér að smakka fínasta kaffi í Salzburg og ekki einu sinni þar féll ég.

Nema hvað, í morgunmatnum á Hotel Morgana hafði yfirþjónninn mörg orð um besta capuccino í Róm og var ekkert allt of hrifinn af því að fólk vildi eitthvað annað í morgunmatnum. Ég hafði tekið mitt venjulega te fram að þessu og Jón Lárus beðið um espresso, vill yfirleitt ekkert mjólkursull í kaffið sitt. Nema hvað, daginn áður var annaðhvort ekki hlustað á espressopöntunina eða bara gleymdist hún (Ítalir setja yfirleitt bara mjólk í morgunkaffi þannig að það getur nú alveg verið) og ég, hnyklandi brýnnar hugsaði að – fjárinn hafi það, þarna skyldi ég gera lokatilraun við kaffi, ef mér þætti besta capuccino í Róm (lesist með besta mögulega ítalska hreim) ennþá vont þá væri fullreynt. Tók sopa hjá Jóni, smá fitjuppátrýn en svo: hmm þetta er nú ekkert SVO vont. Hmmm! þetta er eiginlega svolítið gott!!!

Þannig að á sunnudagsmorgninum sagði ég já takk við þjóninn þegar hann bauð mér capuccino. Leið nærri yfir Jón Lárus og þegar miðdóttirin sá instagrammið sem ég auðvitað sendi af þessu fékk hún nánast hjartaáfall að eigin sögn.

IMG_1797

Espressóinn hans Jóns fyrir ofan og fyrsti heili kaffibollinn minn á ævinni neðar!

(skemmst frá því að segja að nú drekk ég kaffi. Espresso sko. Ekki á hverjum degi en alveg stundum)

Nújæja. Frídagur. Flug heim ekki fyrr en daginn eftir. Ekkert sérstakt lá fyrir, ætluðum að kíkja á blómatorgið og prófa veitingastaði sem Pamela flautugúrú og fararstjóri hafði bent okkur á. Ákváðum að labba bara niður í miðbæ og detta inn þar sem okkur þætti spennandi.

Ein mynd frá torgi á leiðinni:

IMG_1810

þokkalegasta útsýni!

Lítið annars í frásögur færandi af þeim göngutúr nema eitthvað par var greinilega á svipaðri leið og við og gaurinn keðjureykti. Reyndum tvisvar eða þrisvar annað hvort að dragast aftur úr og þá stoppuðu þau greinilega til að skoða og við náðum þeim, eða þá að við rákumst inn í skemmtilega garða og þá náðu þau okkur. Tókst loksins að hrista þau af okkur í garði með appelsínutrjám og lúðrasveit að spila. Hér er appelsínutré:

IMG_1806

en ég á ekki mynd af lúðrasveitinni því miður.

Þegar við komum í miðbæinn (er annars eitthvað hægt að tala um miðbæ í Róm, hann er allavega ansi víðfeðmur og hótelið okkar, verandi nánast við hliðina á aðaljárnbrautarstöðinni er jú líka í einhvers konar miðbæ) vorum við að verða svöng og ákváðum að halda beint áfram og stefna á pizzariu sem Pamela mælti með. Hún reyndist alveg ansi hreint langt labb í burtu, hefði tekið strætó eða lest eða eitthvað ef við hefðum áttað okkur á því hvað gatan var löng sem hún stóð við. Löbbuðum í örugglega þrjú kortér frá blómatorginu og nýju skórnir voru líka farnir að meiða mig (glatað).

Á næsta horni frá veitingahúsinu sáum við snobbbúsáhaldabúð sem við ákváðum að kíkja inn í þegar við værum búin að borða – og svo enn örlítið lengra sá ég jólagjöfina mína!

ég er sko ekki skófíkill! magnað að fá tvö skópör í einni og sömu ferðinni, ég held bara hreinlega að það hafi aldrei gerst áður. En þessi gluggi, ó mææææ!

IMG_1830

Búðin var lokuð. Jón Lárus ætlaði ekki að geta dregið mig burt frá glugganum. Burt fórum við samt, hungrið dró okkur. Skildum ekki alveg miðann á hurðinni, skildist helst að búðin yrði aftur opnuð klukkan fjögur (þarna var hún ríflega tvö). Pizzarian, ágætis pizzur, þokkalegur bjór, algerlega ódrekkandi rauðvín, ég hefði hellt mínu en bóndinn, eins nýtinn og hann nú er, þrælaði í sig glasinu mínu.

Við tók bið. Tókum göngurúnt. Til baka um hálffjögur. Kíktum í snobbmerkjabúðina. Langaði í þessa ljósbláu hér, passar við eldhúsinnréttinguna en bæði tímdum við því ekki og nenntum ómögulega að halda á brauðrist heim!

IMG_1829

Kannski einhvern tímann.

Klukkan nálgaðist fjögur. Skreið yfir fjögur. Ekkert lífsmark í búðinni. Reyndi að hringja (uppgefið símanúmer fyrir utan búðina). Ekkert svar. Við í annan göngutúr. Góðan hring yfir Tíber. Til baka. Enn ekkert. Næsti pöbb, rósavínsglas í rólegheitunum á litlu útiborði á mjórri gangstétt, frekar sjabbí en þokkalegt rósavín. Fylgdumst með smá uppþoti í götunni þó án þess að óróast neitt. Enn til baka og allt lokað og læst. Ákváðum að fara í allra síðasta göngurúnt, pínu lengri yfir-Tíber-tvær-brýr-yfir-aftur-og-til-baka.

IMG_1836

Haust við Tíber.

Að búðinni aftur og JESS, komin blóm út í kerið fyrir utan! Opnaði klukkan fimm, ekki fjögur.

Voðalega næs eldri sölumaður sem hefði helst viljað selja mér margar týpur af fjólubláu skónum en seldi nú samt bara ein öklastígvél. Ég ekki ósátt. Alls ekki.

Tókum strætó aftur niður í bæ, röltum aftur á blómatorgið, allur markaður búinn þar, einn bjór/aperol spritz á torginu og svo bara veiddur leigubíll við hliðina á Pantheon og upp á hótel. Hópnum var boðið í lokahóf hjá mótshaldara en við hreinlega orkuðum ekki að fara. Röltum út í matvörubúð til að kaupa osta til að fara með heim og eitthvað smotterí til að eiga um kvöldið. Hittum þar nokkra flautara og viðhengi og ákváðum pronto að hafa opið hús (humm tja, herbergi) fyrir þá sem vildu.

Endaði á því að nærri allur hópurinn kíkti til okkar í vínglas og antipasti. Entumst ekki lengi fram eftir kvöldi, rétt upp úr miðnætti (rétt um það leyti sem einhver kom frá hótelinu til að leysa upp partíið) var liðið á förum enda áttu langflestir flug snemma morguninn eftir.

 

Tekur því tæpast að skrifa sér færslu um heimferðina, hún var ekki sérlega markverð nema að því leyti að einn flautarinn svaf nærri yfir sig og rétt náði vélinni. Við klöppuðum þegar hann og tvennt annað sem var með dót frá honum og varð semsagt að bíða eftir honum til að tékka sig inn, skreið inn í brottfararsal þegar við hin vorum komin í út-í-vél röðina.

Jú reyndar, ég fékk mér ekki kaffi á mánudagsmorgninum. Það má nú ekki hrapa að svona ákvörðunum!

IMG_1843


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

apríl 2016
S M F V F F S
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930

sagan endalausa