Sarpur fyrir nóvember, 2011

Hóst. Hóst.

gat nú verið! 5 dögum áður en við eigum að syngja Messías með Sinfóníunni og daginn fyrir fyrstu æfingu með enska stjórnandanum byrjar mín að hósta. Skrítin í röddinni og illt í hálsinum á mánudeginum, ákveð að syngja ekkert á kvöldæfingunni heldur sitja úti í sal og hlusta. Tókst næææstum því, tók undir í eina kaflanum sem ég er ekki alveg með á tæru (eða þeas var ekki á mánudaginn – lærður núna).

Vakna svo auðvitað í morgun alveg þegjandi hás. Muuu.

Fór á hljómsveitaræfinguna, sat reyndar inni í kór en það var ekki spurning um að syngja eða ekki. Steinþagði.

Heim og kveinkaði mér á smettinu. Fékk auðvitað fullt af ráðleggingum.

Þannig að nú sit ég með trefil og hitapoka, sötrandi hálsbólgudrykk frá kaffisigrúnu, royal jelly töflur (í stað própólis, var ekki til í heilsubúðinni og heilsuhúsið lokað í dag vegna vörutalningar!), bé vítamín, dé vítamín (þetta tvennt reyndar sérstakar söngvararáðleggingar frá sérfræðingnum í heilsubúðinni sem gaf mér dé vítamínskot upp á 500 einingar, hvað sem það nú er) sniffandi tetréolíu og búin að spreyja mig með avamys nefspreyinu drengsins (það reyndar í stað þess að skola nefið með saltvatni).

Svo er bara að krossa putta. Þið megið gjarnan gera það með mér, takk. Held mig heima á morgun, ekki bara út af tónleikunum, væri ekki beinlínis sniðugt að fara að kenna með röddina í þessu ástandi. Þarf yfirleitt bara að kynna mig þegar ég hringi í skólana og tala með minni fínu rámu bassarödd, til að þau grípi þetta…

fáránlega

skemmtilegir tónleikar áðan, dramað náði hámarki þegar tenórinn var kominn í frakkann í hléi og kominn hálfa leið út í bíl og stjórnandinn á eftir honum að reyna að róa niður – og svo þegar tenórinn ákvað að if you can’t beat them, join them og greip kontrabassann og spilaði með í síðasta stykkinu.

Þið eymingjarnir sem misstuð af tónleikunum, bíðið bara – valdar klippur koma á þigrörið! Ekki viss samt um að tökukonan hafi náð tenórnum í frakkanum.

(beygist ekki annars youtube svona: þúrör um þigrör frá þérröri til þínrörs?)

bókstafahljómar og ég

hafa hingað til ekki verið sérlega góðir vinir. Væntanlega vegna þess að ég spila hvorki á gítar né píanó og þyrfti að hafa talsvert fyrir því að spila eftir slíkum.

Þessa dagana erum við stórfjölskyldan hins vegar að heiðra minningu sameiginlegrar ömmu, Hildigunnar Halldórsdóttur, sem var öflugur textasmiður, á til dæmis Óskasteina, Foli foli fótalipri, Hér búálfur á bænum er, og mikið mikið fleiri texta sem margir kannast við, sérstaklega þeir sem vinna með börnum.

Amma hefði orðið 100 ára 22. janúar á næsta ári, hefði hún lifað. Textarnir hennar eru búnir að vera að safna STEFgjöldum í áratugi, mamma og systur hennar hafa samviskusamlega lagt þetta allt saman inn á bók þannig að nú er kominn svolítill sjóður. Hann skal nota í að gefa út bók og disk með lögum og textum (amma samdi líka nokkur bráðfalleg lög).

En til að lögin nýtist sem best er gott að hafa hljóma með nótunum. Og þar kom að okkur. Enginn í familíunni er sérfræðingur í að setja slíka hljóma þó ýmsir séu flinkir í að spila eftir þeim. Tónskáldið dæmdist auðvitað í hópinn sem skyldi setja hljóma. Þannig að ég settist niður og raðaði niður nokkrum hljómum.

Auðvitað var það svo talsvert minna mál en ég var búin að mikla fyrir mér. Sérstaklega þegar mér var bent á hvernig ég gæti skráð hljómhvörf, sem ég hafði ekki hugmynd um hvernig ætti að gera.

Hugsa samt að mínir hljómar séu svolítið frábrugðnir hinna…

Hér er sýnishorn, glænýtt lag reyndar líka:

dimissjón

já bráðum á ég stúdent – Fífa dimitterar á morgun og svo eru það bara stúdentsprófin.

Fjári er maður nú orðinn gamall!

Ætla ekki að kjafta frá búningunum þeirra en hún þurfti að grafa í hlutum frá báðum ömmum og öfum fyrir hann.

held við

verðum með alveg fáránlega skemmtilega tónleika á sunnudaginn kemur. Áhugamannabandið þeas.

Hann Dean Ferrell, kontrabassaleikari, húmoristi og allsherjarfenómen er sólisti dagsins ásamt Gissuri Páli tenór og Frostrós. Hitt og þetta mun drífa á daga þeirra og okkar, vitum alls ekki allt ennþá þó það séu bara 5 dagar í tónleika – ég er alls ekki viss um að nokkur maður viti hvað muni gerast á tónleikunum.

Hér er tengill á eitt uppátækja Dean.

Endilega kíkja í Seltjarnarneskirkju sunnudaginn 27: nóv klukkan 17:00

grænmetisæturnar gabbaðar

Síðastliðið sumar buðum við hér heima nýsjálenskum merkismanni sem var í heimsókn á landinu í hádegismat og spjall. Kunningi minn hafði áhuga á að hitta manninn og spurði hvort hann mætti koma líka, þá ásamt Bandaríkjamanni sem var í heimsókn hjá honum og síðan syni hans.

Sjálfsagt mál, the more the merrier.

Pælum svolítið í hvað við eigum að hafa í matinn, Nýsjálendingar eiga lamb og fisk jafngott og við (eins gott að Jón Bjarnason og Guðni Ág lesi ekki bloggið mitt!) þannig að varla þætti honum nýnæmi í slíku. Ákveðum að hafa piadine, ítalskar pönnukökur sem við gerum og höldum mikið upp á. Aðalskyndibiti Emilia Romagnahéraðsins.

Fólkið mætir á svæðið, við erum búin að gera pönnukökudeigið og rúlla út kökunum þannig að þær eru tilbúnar til steikingar. Við bjóðum upp á tvenns konar fyllingar, annars vegar parmaskinku, mozzarella og klettasalat og svo hins vegar gullost og hunang. Ég tel þetta upp fyrir fólkið og þeir bandarísku biðja báðir um ostinn því þeir séu grænmetisætur og borði alls ekki kjöt (nokkuð sem þeir höfðu ekki tilkynnt um fyrirfram – eins gott að ég var ekki með lamb eða fisk).

Píadínurnar líka feikivel, allir borða með bestu lyst og biðja um meira. Sá bandaríski hrósar kökunum og spyr hvað sé í þeim. Ég: Já þær eru mjög einfaldar, bara hveiti, salt, vatn og… Olía! Olía!

Þeir voru sem sagt búnir að úða í sig svínafeitinni sem verður að vera í þessum kökum til að bæði bragð og áferð sé rétt. Og alveg pottþétt án þess að verða meint af. Ég fattaði þetta alls ekki fyrr en ég fór að lýsa innihaldinu.

En þeir geta sjálfum sér um kennt að láta ekki vita fyrirfram.

talandi um fjölhæfni

hjá kórnum þá eru verkefni Hljómeykis í vetur eftirfarandi:

Október: Nordic Music days (ný norræn kórtónlist)
Nóvember: Todmobile tónleikar (rokktónlist)
Desember: Messías eftir Handel (barokktónlist)
Febrúar: LOTR sinfónían (kvikmyndatónlist)
Mars: Hassler og Schütz (renaissance)
Maí: Rómeó og Júlía eftir Berlioz (rómantíska tímabilið)

Þurfum helst að troða einhverri klassík í janúar eða apríl til að vera með megnið af tónlistarsögunni.

todmobile

Þegar ég var í tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík hér forðum daga (úff hvað mig langar ekki að rifja upp hvað er langt síðan) voru bæði Þorvaldur Bjarni og Eyþór Arnalds með mér í tónsmíðabekknum (ásamt fleirum auðvitað). Þannig að ég var sjálfskrifaður Todmobileaðdáandi eiginlega frá því áður en grúppan var stofnuð.

Í kvöld, loksins, fékk ég svo að troða upp með bandinu, fyrsta skipti ever sem Todmobile hefur haft kór á tónleikum. Komum fram í fimm lögum af um 20, hrikalega skemmtilegt, stemningin í Eldborg ólýsanleg. Þetta verður sko ekki í síðasta skipti, pant Hljómeyki vera áskriftarkór!

Nú erum við annars búin að syngja bæði með Sólstöfum og Todmobile á innan við ári. Stefnubreyting? Nei fjölhæfni…

ekki flugfélagið og ekki fyrir dyrum en innlit á bloggið í gær voru nær 400! og ég sem hef ekki séð nema svona kring um 30-50 á dag í allri bloggletinni.

Kannski – bara kannski – sparka svona tölur manni aftur í gang. Lofa þó engu.

alveg hreint gott

þegar stóráfangar eru búnir – stráksi kláraði grunnprófið sitt á víóluna í morgun. Ég var því miður að kenna í LHÍ og gat ekki fylgt honum en pabbi hans er nú betri en enginn og reddaði málinu (vá hvað þetta hljómaði annars rembulega eitthvað – eins og pabbinn sé eitthvað verri að fylgja en ég, aðallega mér sem fannst ómögulegt að vera ekki með, frekar en að Finnur tapaði einhverju). Svo sem ekki eins og foreldrar fái að vera inni í prófinu.

Skólastjórinn og kennarinn hans voru ógurlega ánægðar með hann. Nú er ég síðan viss um að hann tekur ekki upp hljóðfærið í nokkra daga ef ég þekki hann rétt…

Hér vídjó frá undirbúningsrennsli:

Bach gavotta í gé moll – Finnur Jónsson víóluleikari og Ásta Haraldsdóttir píanóleikari

og hér er valverkefnið – lag sem hann samdi alveg sjálfur en mamman hjálpaði svolítið með píanópartinn:

já væri þetta

ekki líka hægt svona?

vísukorn

ekki eftir mig samt en á þokkalega við. Og má ekki gleymast, nokk góð:

Að týna hreinlega hönskunum sínum
er hátíð á móti því
að týna öðrum og henda hinum
en heimta hinn týnda á ný.

Nema ég henti ekki hanskanum því ég mundi eftir vísunni (og reyndar hafði hugmynd um hvar hinn gæti verið. Á Borgarbókasafninu. Sem hann og var…)

kvartanir, kvartanir

Yfir því hefur verið kvartað að þessi bloggsíða sé eyðileg og tómleg og viðurkennir höfundur það fúslega að hér gerist ekki margt.

Það er ekki vegna þess að það gerist ekkert í lífinu. Þar gerist alveg slatti. Síðast í gær sótti ég um stóran styrk til Tónlistarsjóðs, er að vonast til að geta kynnt Guðbrandsmessuna mína, besta verkið mitt hingað til imnsho í útlöndum. Finnst það eiga það skilið. Svo er stóra stelpan mín búin að syngja á 7 stykkjum Bjarkartónleikum, þar af hef ég farið á tvenna, ekkert stolt mamma neineinei (lygi auðvitað, hvað haldið þið?). Stefnt á New York í febrúar ef atvinnuleyfi fæst fyrir hópinn.

Smíðar á næsta tónverki mjakast áfram, búin að skila rúmum 5 mínútum af 20 slíkum, 4 mínútna kafli til viðbótar mjög langt kominn, annar líka á leiðinni. Spennandi, alltaf spennandi. Í dag var haft samband út af orgelverki í viðbót. Spurning hvenær tími fæst í slíkt.

Guttinn minn var góður við mömmu sína í gær, eitt uppáhaldsfaganna hans í skólanum er heimilisfræði. Hann eldaði spakettí carbonara, óvenjulega útgáfu með kjúklingabitum í viðbót við beikonið. Stóð þarna í skólaeldhúsinu og horfði á matinn, svo mikið var afgangs að hann hefði aldrei getað torgað því öllu sjálfur og hugsaði – já til mömmu sinnar. Fékk tvo þunna plastpoka, setti annan ofan í hinn og pastað í þann innri og tölti heim til að gefa mér hádegismat. Þessi elska.

Nóg í bili, lofa að láta ekki líða svona voðalega langt þar til næst…


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

nóvember 2011
S M F V F F S
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
27282930  

sagan endalausa