Sarpur fyrir október, 2007

ekki líst mér á

að ég syngi með á tónleikum til heiðurs Jóni Þórarinssyni níræðum á laugardaginn kemur. En Hljómeyki verður allavega þar, Dómkirkjan klukkan 16.00. Dómkórinn, Hljómeyki og Langholtskórinn, ásamt hljóðfæraleikurum.

kalt á tánum

Var fulllengi uppi í dag (undir áhrifum hálfu töflunnar), kom niður og ætlaði ekki að ná í mig hita. Búin að reyna allan fjárann, heitt kakó, teppi, ullarsokka, á ekki hitapoka. Nema hvað, sest upp í rúminu með tölvuna hennar Fífu. Kemur þá ekki Loppa, þessi elska og leggst beint á tærnar á mér og er búin að liggja þar síðan (í svona klukkutíma, myndi ég halda)

Ekki hef ég hugmynd um hvernig hún fór að því að finna þetta á sér (já, örugglega tilviljun, en hún hefur aldrei legið svona áður…)

Og nú er mér heitt. Takk, kisa.

parkódín forteið

er búið.

Muuuu

Og ég sem var búin að eiga þennan 30 taflna pakka í heil 5 ár.

Rann reyndar opinberlega út fyrir svona ári síðan, en síðustu töflurnar hafa svínvirkað núna í lasleika okkar Fífu. Tók síðustu hálfu töfluna í hádeginu.

En mér tókst reyndar að kría út nokkrar venjulegar Parkódín út á kvefið hennar Fífu. Gaman að vita hvort þær endast svona vel.

heldur skárri

í dag en í gær, 38,3 í morgun. Hundslöpp samt. Great!

FrumFlutningur Á Íslandi[tm]

Tónlistarskólinn í Reykjavík (reyndar í smá samvinnu við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar) frumflytur óperu Schuberts, Die Verschworenen (sjá hér). Frumsýning á föstudag, svo sýningar á laugardag, sunnudag og þriðjudag.

Fífa er ekki komin alveg nógu langt í söngnáminu til að vera með þar, en í staðinn spilar hún í hljómsveitinni. Við erum búin að taka frá miða á sunnudeginum, hlakka bara verulega til.

39,5°

meira að segja í armkrikamælingu. Er örugglega með nær 40° í alvörunni.

Oj hvað þetta er leiðinlegt.

ekki góð.

Alls ekki góð, jafnvel.

muuu

hefði átt að fara á Snæfellsnes að undirbúa meistaranámið, fór slíka ferð í fyrra. Sé ekki að það sé fræðilegur möguleiki að ég verði orðin góð á morgun.

Annað hvort er flensan komin eða ég er með leifar af þeirri frá í fyrra.

æði

flottasta grasker sem ég hef séð:

grasker

Viðey

fórum með bekknum hans Finns í Viðey, talsvert betri mæting en í labbitúrinn með Freyju bekk um daginn. Hefðum ekki mögulega getað fengið betra veður, kalt en kyrrt og sól. Skoðuðum stóra vasaljósið, tungumálanördarnir höfðu gaman af því að skoða friðarboðskapinn og þekkja tungumálin og letrin sem hann var skrifaður með. Síðan var gengið til baka að Viðeyjarstofu, afgreiðslufólkið var svo almennilegt að leyfa okkur að borða nestið okkar inni, sumir voru með nesti en aðrir keyptu. Held þau hafi aldeilis ekki tapað á þessu, þar sem auðvitað langaði svo alla í heitt súkkulaði, líka þá sem voru með nesti. Fleiri staðir mættu taka sér þetta til fyrirmyndar, man eftir kaffistofu á Þingvöllum þar sem afgreiðslufólk var bara með stæla, jafnvel þó eiginlega allir keyptu sér en eitt barn var með kókómjólk að heiman.

Það var svo í Viðeyjarstofu sem ég byrjaði að finna fyrir slappleikanum, þannig að við tókum næsta bát heim. En þetta var snilld, krakkarnir skemmtu sér gríðarlega vel og við hin fullorðnu ekki síður. Og mér tókst meira að segja mögulega að veiða hornleikara fyrir SÁ. Sem væri tótal snilld.

Önnur snilldin er þráðlaust mótald sem nær alla leið inn í svefnherbergið mitt. Ójá.

ó NEEEEIII!

ég er að verða veik aftur. Muuu. Nú ekkert magapestarrugl, heldur óþægilegur hósti, erfitt að anda djúpt og hrollur lengst inn í bein.

Komin í bælið með tölvuna unglingsins og bók, reyna að ná þessu úr mér sem fyrst. Hef bara ekki nokkurn tíma til að verða veik. Humm, átti ég ekki einhvern sólhatt einhvers staðar?

ég er líklega svona treg

en ég var bara að fatta núna að Avada kedavra galdurinn er augljóslega beint frá Abrakadabra.

feeling stupid…

í morgun

þegar Finnur kom upp heilsaði hann hressilega með Guten Tag.

Veit ekki alveg hvaðan hann hefur þessa tungumálaáráttu. Humm. Veit það víst…

Já og

Hallveig komst síðan ekki lengra í keppninni.  Samt brilljant að komast þetta langt, þetta er líklega þekktasta og virtasta söngkeppni á Norðurlöndum og ég (og við öll) erum gríðarlega stolt af henni að komast svona langt og fá flotta dóma hjá skríbentum í Finnlandi.

Datt síðan alveg óvænt í prufusöng fyrir Madame Butterfly, hver veit hvað gerist?

Til hamingju með þetta allt, Hallveig mín.

Fór á tónleika

í dag, hlustaði á glænýtt verk eftir hana Þóru Marteins (sem er, held ég, hætt að blogga í bili)

Mjög flott Missa brevis, skemmtileg hljómavinna, vel unnið með textann og heilmiklar andstæður, fallegar laglínur, einmitt eins og ég vil hafa messur. Til hamingju, Þóra mín. Kórinn líka bara mjög fínn, sumt af þessu var ekkert sérlega auðvelt en leyst með glans.

Svolítið sérkennileg uppákoma rétt í lok messunnar, alveg í fíngerðasta – dona nobis pacem (gef oss frið – eða er það gefðokkur rólegheit í nýju útgáfunni, kannski?). Opnast dyrnar á Dómkirkjunni, inn kemur kona, haldandi á plastpokum, skrjáfar ekki smá í pokunum. Ég lít við, og í því segir fraukan stundarhátt: Getið þið sagt mér hvar klósettið er?

Talandi um að hafa ekki sans fyrir umhverfinu.

Veit svo sem ekki hvort það var út af þessu, en Martin ákvað að láta syngja síðasta kaflann aftur, eftir klapp og blómvandaafhendingar og standing ovation. Fínt.

vaaaaá

Þetta er nú með því flottara sem ég hef séð mjög lengi:

Undanúrslit

Hún Hallveig systir er komin í undanúrslit hinnar þekktu Sibeliussöngkeppni sem fer fram þessa vikuna. Glæsilegt hjá henni.

smá pása

á pökkuðum degi.

Jarðarför 13:00, sækja Finn í skólann 14:05, fara með Finn í víólutíma 14:15 (annars hefði ekki þurft að sækja hann), Finnur í tónfræði 15:00, á meðan sækja Freyju, ná í Finn 15:50, keyra Freyju í sellótíma í Kópavogi 16:00, keyra Freyju í kór 17:00, sækja Jón Lárus í vinnuna, versla, skila JLS og Finni heim, fara að hlusta á Freyju í kór 18:00, keyra Fífu á æfingu 19:30. Heim. Líklega sækja Fífu aftur 22:00.

Eins gott að ég sofnaði aftur í morgun og svaf nærri til hálftólf…

textinn

Rökkurstundir

Í silfruðu rökkri hins skamma dags
falla stundirnar að.
Eins og grátóna myndir af gömlum vin
eða góðum stað.
Þær bera til myrkursins hægláta fegurð,
hlýlega þögn og mildustu huggun
og meira en það.

Í ljósgráum skugga hins skamma dags
lyftast draumar á flug.
Eins og lýsandi vitar á vetrarnótt
þeir virkja dug.
Og bera til myrkursins bjartari anda,
sterkari vilja sem gengur til verka
og vinarhug.

Í kyrrlátu skjóli hins skamma dags
má starfa til góðs.
Í hljóði, án óska um endurgjald
eða dægurhrós.
Og bera til myrkursins hógværa velvild,
vingjarnlegt samtal og sönnustu gleði
og heimsins ljós.

Í silfruðu rökkri hins skamma dags
veita stundirnar grið.
Eins og velþekktar leiðir á vonar slóð
þær veita frið.
Og bera til myrkursins blíðustu bænir
kærleik til lífsins og stjörnur sem vísa
á himins hlið.

Harpa Jónsdóttir

hah

Þetta hef ég alltaf sagt.

Aldrei nokkurn tímann fundið mun á mínum börnum, að minnsta kosti…

jóhóhólalagið

búin að skila, húrra.

Harpa, má ég birta textann hér, eða vilt þú, eða hvað? Hann má mjög gjarna koma fram einhvers staðar. Ekki smá fallegur.


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

október 2007
S M F V F F S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
28293031  

sagan endalausa