Sarpur fyrir júlí, 2003

pöntuðum hótel í london í gærkvöldi. verðum á mil…

pöntuðum hótel í london í gærkvöldi. verðum á millennium hotel mayfair , 5stjörnu! aldrei verið á fimmstjörnuhóteli áður á ævinni (að ég held). ef maður fer inn á travelnow.com eða lastminute.com , fær maður upp alveg fáránleg tilboð á hótelum! þetta var sama verð og á einhverjum þriggjastjörnuhótelum sem við sáum líka, tíuþúsundkall nóttin, hreint ekki sem verst! þetta verður svooo gaman!

vorum með afskaplega gamaldags mat, fífa kom með fullt af grænkáli úr skólagarðinum heim, þannig að við ákváðum að hafa grønlangkål eins og amma gerði stundum. ég hef aldrei gert svoleiðis áður, og örugglega ekki borðað síðustu 20 árin. keyptum stórt skinkustykki og höfðum kalda skinku, brúnaðar kartöflur og grønlangkål. þvílíkt gott!!! þetta verður sko örugglega fastur liður á sumrin!

búin að borga fyrstu skattútborgunina! 182000, …

búin að borga fyrstu skattútborgunina!

182000, ugggggghhhhhhh!

aumingja anna á skrifstofunni í suzukiskólanum hringdi í mig um daginn alveg eyðilögð, þar sem henni var uppálagt að borga miklu meiri skatt fyrir mig heldur en launin sem ég átti að fá útborguð. róaði hana með því að ég væri búin að leggja inn fyrir þessu öllu saman, og myndi sjá um að borga þetta sjálf! fyrsta útborgun stærst, svo er 109000 á mánuði fram í desember.

uggggggghhhhhhh!

vissi sko ekki í fyrra að ég þyrfti sjálf að standa skil á staðgreiðslu fyrir aukaverkefnin, lagði bara inn á reikning hjá mér, gæti þurft að borga sekt á næsta ári, meira ugh

svolítið vannst mér í dag! svona ein og hálf mínú…

svolítið vannst mér í dag! svona ein og hálf mínúta í samnorræna kórlaginu og kláraði að setja inn allar nóturnar í útskriftarverkinu mínu. nærri því bjarnargreiði hjá hljómsveitinni að setja það á prógrammið, hellings vinna!

þokkalegur útréttingatúr áðan, fór með reikninginn fyrir reykholtsverkefnið, inn í kristskirkju með skriflega bón um að fá að halda tónleika þar, upp á dagblað að útvega mér gagnrýni á skálholtstónleikana, inn í garðabæ með nótur og viðkomandi dagblað, til mömmu og pabba að sækja sundföt barnanna og uppáhaldskanínuna hans finns (búinn að vera grátur og gnístran hérna) endaði uppi í útvarpi að selja tónlistardeildinni upptökuna úr skálholti, úff! heim!

finnur hrundi snemma út af, enda sofnaði hann ekki fyrr en eftir miðnætti í gær, garg!!! stelpurnar að horfa á gamlan náttúrulífsþátt og ég heyri óminn af david (eða var það richard) attenborough neðan úr sjónvarpsherbergi. orðið ágætt í dag!

haldiði ég hafi ekki bara steingleymt tónleikunum …

haldiði ég hafi ekki bara steingleymt tónleikunum í Sigurjónssafni í gærkvöldi 😦 og ég sem ætlaði þvílíkt að mæta! grrr! (reyndar viðurkennist að ég hefði nú kannski ekki einu sinni drattast af stað þó ég hefði munað eftir þeim, var búin að sitja á vondum stól í stúdíói allt síðdegið í gær og var að drepast í bakinu) sorrí þóra, eins og mig langaði til að heyra þetta.

annars er maður alveg skuggalega latur að mæta á tónleika sem ekki tengjast manni sjálfum beint, ég held ég hafi ekki farið á nema tvenna tónleika hjá sinfó síðasta vetur, ljótt þetta! ég hlakka til þegar krakkarnir eru orðin svolítið stærri og ég hef minna að gera (HAHAHA!), þá skal ég fara að vera duglegri. þvílíkt sem maður er alltaf að missa af!

það er víst reyndar ekki hægt að gera allt. ég var að leika ofurkonu í vetur, semja eitt stykki messu fyrir kór, einsöngvara og hljómsveit, klára verk fyrir caput, taka lokapróf í söngnum (tvennir tónleikar, með hljómsveit og píanói) kenna 70%, vera á fullu í hljómeyki og hugsa pínulítið um manninn minn og börnin. ekki að hugsa um að gera þetta aftur! tímdi ekki að klippa neitt burt nema sinfóníuhljómsveit áhugamanna, eitthvað verður nú að víkja!

börnin úti á róló, reyna að vinna smá!

dagurinn í dag var nokkuð pródúktívur! einn disku…

dagurinn í dag var nokkuð pródúktívur! einn diskur hljóðblandaður og smáatriðaskoðaður, fundust nokkur hök og smellir, en komumst fyrir flestallt.

þetta verður flottur diskur, jón nordal klikkar aldrei! bestur! þjóðlagaútsetningarnar eru ekkert smá flottar! þeir sem ekki eru vanir nútímatónlist gætu þurft að hlusta oftar en einu sinni, en venst þvílíkt vel. síðasti diskurinn okkar, lög eftir báru grímsdóttur líka flottur (plögg, plögg!), sú tónlist er hins vegar mun aðgengilegri, sum lögin ættu eiginlega heima á vinsældalistum, þjóðlagastíll, flottir rytmar, dýnamík, gaman!

og svo tökum við oliver upp í nóvember, naumast við dælum út diskunum!

tómt vesen í dag! fékk mömmu og pabba til að pa…

tómt vesen í dag!

fékk mömmu og pabba til að passa litlu krakkana og ætlaði sko að eyða deginum í að komast eitthvað áfram í verkefnunum mínum fjórum. nema hvað ég ætlaði rétt aðeins að skreppa með bílinn inn í aukaraf og láta setja græjurnar í hann. þangað klukkan eitt. nemahvað, bíllinn var búinn að vera þar í kortér þegar þeir hringja í mig, og þá höfðum við gleymt (les ekki fattað) að taka snúrupakkann úr gamla bílnum, nýr svoleiðis kostar sexþúsund og ekki tímdum við því! þannig að jón lárus hafði upp á kaupandanum að þeim gamla og fékk leyfi til að nálgast snúrurnar. ég upp í landsteina að sækja jón, við niður í miðbæ, ná í lykil að druslunni, sækja snúrurnar, skila lyklinum, aftur inn í aukaraf, jón tók bíl uppeftir, ég rölti á kaffihús og borðaði köku sem mig langaði ekkert í. klukkan var orðin fjögur þegar ég loxins gat sótt bílinn og þá var bara kominn tími á að sækja jón lárus í vinnuna og síðan krakkana!

og hér sit ég og blogga í stað þess að reyna að pota niður tónum á tölvuskjáinn, ussu suss!

frumflutningur á höfundr aldar áðan, í reykholti, …

frumflutningur á höfundr aldar áðan, í reykholti, gekk fínt. svaka fínir hljóðfæraleikarar og söngvari. skildum litlu krakkana eftir hjá tengdó, og ég, jón lárus og fífa brunuðum í reykholt á nýja bílnum. cruise control svolítið kúl! veðrið þungbúið til að byrja með en létti til á leiðinni uppeftir og þegar í reykholt var komið var komin glampandi sól, fólk stóð úti á túni og tímdi varla inn á tónleikana! mamma og pabbi mættu á svæðið að hlusta.

tónleikarnir byrjuðu á tríói eftir haydn, mjög ljúft. þá kom undirrituð með höfund aldar, hulda björk, bryndís halla og steinunn birna mögnuðu upp seið með snorratextum, gekk svo vel að um leið og verkið var búið kom brjáluð demba og buldi á þakinu. eftir þetta verk kom píanótríó eftir dohnányi, þá hlé og eftir hlé píanókvartett eftir brahms, þvílíkt flottur! verð að eignast upptöku af dohnányi og brahms! verst þetta var sent út beint, get ekki tekið upp úr útvarpi, þetta var brjálæðislega flottur flutningur!

eitt sem fer svolítið í mínar fínustu er þegar fólk mætir á svona tónleika með lítil börn (þriggja ára) krakkagreyin geta náttúrlega ekki setið kyrr og róleg í 2 tíma, þurftu voða mikið að tala og syngja með og svoleiðis! ekki datt mér í hug að taka finn með!

komum út úr kirkjunni og aftur var komin brjáluð blíða! semsagt bara snorri að láta aðeins vita af sér!

og nú er það bara að koma krökkunum í bólið og fagna frumflutningi með kampavínsflöskunni (hmm, 4. víndagur í röð, kannski maður taki sér pásu í nokkra daga!!! uss, neiannars ef við værum frakkar eða ítalir væri þetta jú bara normið! 😉


bland í poka

teljari

  • 371.383 heimsóknir

dagatal

júlí 2003
S M F V F F S
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
2728293031  

sagan endalausa