Sarpur fyrir september, 2008

Farið til Berlínar

Blessað eldsnemmaflugið eins og venjulega, kíktum inn til krakkanna án þess að vekja þau, þurftu að redda sér sjálf í skólann á fimmtudagsmorgninum.  Gekk auðvitað mjög vel, þau eru eldklár og pottþétt krakkarnir, ójá ; )

Eldsnögg út á völl, höfðum tékkað inn á netinu kvöldið áður þannig að við þurftum bara að prenta út farangursmiða og henda á þessa einu tösku sem við vorum með. Hittum þvílík ósköp af fólki sem við þekkjum í Leifsstöð, ég man aldrei eftir að hafa rekist á svona marga vini og kunningja (tja, auðvitað fyrir utan hópinn sem maður er að ferðast með sjálfur).   Hittum svo meira að segja einn á flugvellinum í Berlín, var að taka á móti vini sínum sem var að koma í heimsókn.

Leist hálfilla á hótelið þegar við komum að því, óttalega óhrjálegur inngangur, maður þurfti að hringja bjöllu til að vera hleypt inn og síðan var móttakan á sjöttu hæð (reyndar sjöundu, þjóðverjar byrja að telja á núlli eins og ýmsir aðrir). Gekk þokkalega snurðulaust að útdeila herbergjum, betur en ég hef lent í oft áður þegar þetta stórir hópar eru að skrá sig inn á hótel. Eitthvað var nú samt skrifað skakkt á seðilinn, við Jón Lárus enduðum á að fá stjórnandasvítuna í stað Ólivers og Hildar (kom reyndar í ljós síðar að það var svosem ekkert sérstakt herbergi fyrir stjórnandann en sagan er betri hinsegin).

Herbergin voru bara ljómandi ágæt, ekki íburðarmikil og handklæðin voru svolítið trosnuð, örlítið farið að sjá á hótelinu, en allt var tandurhreint og það hafði verið vandað sig við að gera herbergin klár.

búið um

Við drifum okkur út, sáum ítalskt veitingahús við hlið hótelsins og settumst þar fyrir utan. Þegar við vorum rétt búin að panta okkur drykki kom sms frá Finnboga: „Var svangur og settist niður hjá Ítalanum á neðri hæðinni. Hann lítur ágætlega út“. Ég náttúrlega stóð á fætur, stakk höfðinu inn um dyrnar og spurði hvort hann vildi ekki frekar sitja úti hjá okkur. Sem varð úr.

Smátt og smátt tíndust flestir hljómsveitarfélagarnir út á ítalska staðinn, þar var líka mjög fínn matur, góð vín, ekki dýrt og ágætis þjónusta. (pínu misjafnt reyndar en við vorum alltaf mjög ánægð) Enda var staðurinn nýttur út í æsar af liðinu.

del Moro

Upp á herbergi, augum lokað í 10 mínútur og svo þurftum við að leggja af stað á sameiginlega æfingu hljómsveitanna. Súsanna var búin að kaupa fyrir okkur öll vikumiða í lestirnar þannig að við gátum allan tímann bara hoppað út og inn úr S og U lestum eins og okkur sýndist (væntanlega strætóum líka ef við vildum). Ferðin tók um 50 mínútur með því að skipta einu sinni, Berlín er ansi hreint stór borg og gott að gefa sér góðan tíma í ferðir.

Fundum kirkjuna fyrirhafnarlítið, ótrúlega langur tími sem Þjóðverjarnir vildu taka sér til að raða upp fyrir æfingu (við ruslum þessu yfirleitt upp á svona 10 mínútum, þau vildu mætingu 18:30 og svo byrjaði æfingin ekki fyrr en 19:15. Auðvitað tók ekkert 45 mínútur að raða upp, þannig að við héngum þarna í góða stund áður en æfing hófst. Fékk áfall við fyrsta rennsli á Eldi eftir Jórunni Viðar, en það var nú bara smá byrjunarörðugleikar, æfðum smá og þá rann þetta bara nokkuð vel allt saman. Hljómsveitirnar spiluðu sig saman nokkuð áreynslulítið. Þjóðverjarnir áttu í smá örðugleikum með taktskiptin í Rímnadönsum Jóns Leifs, sérstaklega seinasta kaflanum (Hani, krummi – kaflanum, enda er hann slatti hraður).

Yukari, þýskjapanski stjórnandinn, tók við, lítil og nett japönsk stúlka, skýrt og gott slag – fyrir þá sem sáu hana á annað borð. Heimtuðum pall fyrir hana, fyrir tónleikana daginn eftir, takk.

Eftir æfingu fór hópurinn okkar ásamt flestum Þjóðverjunum á pöbb úti við lestarstöð, settumst þar við borð með þýsku fiðlupari, ógurlega skemmtilegt og hresst fólk. Sýndum þeim þýsku frasabókina sem Súsanna hafði gert fyrir okkur, við mikla kátínu.

Ekki vorum við nú reyndar lengi þarna, né heldur drukkum við mikinn bjór, búin að vera vakandi ansi hreint lengi þannig að rúmin á hótelinu hljómuðu mjög vel. Tókum áhættuferðalag heim, heldur styttri leið en einni fleiri skiptingar, einhverjir lögðu nú ekkert í það og fóru hina leiðina (alla leið niður á Potsdamer Platz, talsverður krókur). Áhættufíklarnir voru nokkrum mínútum á undan en það var nú svo sem bara tilviljun.

Uppgötvaði síðan þegar ég ætlaði að fara að sofa að ég hafði steingleymt að kaupa mér danska kellingablaðið í Leifsstöð, semsagt engar danskar krossgátur sem er annars eðalsvefnmeðalið mitt. Mu. Ekki það, mér tókst svo sem alveg að sofna…

mætt

á svæðið, Berlín var yndisleg og ég hugsa að hljóðfæraleikaraferill okkar í SÁ fari nú tæpast hærra en að spila í þessum sal.

Alltaf gott að koma heim samt, hitta krakkana og sofa í sínu rúmi.

Myndirnar að utan að hlaðast inn, ferðablogg fljótlega en mikið hrikalega er ég annars syfjuð.

allt að smella

nema netsambandið, það er bara ekki að smella neitt. Er að reyna að senda póst með stóru viðhengi til útlanda og það gengur óttalega hægt, ljósleiðari slitinn hjá Voda.

En semsagt, við það að vera búin að pakka, þarf að finna til hrein föt á Finn og íþróttadótið hans fyrir föstudaginn, hljóðfærin krakkanna og nótur – jámm slatti sem þarf. Húsið verður EKKI autt ; )

sveitin úti

er hér. Þarna sjást tónleikarnir okkar, prógramm og staðir.

humm, já

best að fara að búa til stundatöflu fyrir ömmuna og afann, sem verða með yngri krakkana á meðan við erum úti. Talandi um púsl…

sellópúsl

Fram og til baka með 3 sellómöguleika, keyra upp í Breiðholt, keyra til baka, aftur í Tónastöðina, niður í Suzuki að láta kennarann prófa, heim, þar bíður sellisti sem var líka búinn að lofa að prófa, núna með hitt sellóið niðri í Suz svo kennarinn geti kíkt á þetta.

 

Úff.  

 

Vil samt helst klára dæmið, eða allavega ákveða, áður en við förum út.  Styttist tíminn heldur betur.  1 1/2 sólarhringur…

og enn

eru það kosningar í BNA. Hér er snilldargrein. Tengist aðeins í færsluna fyrir neðan, eða skelfingarástandið sem gæti skapast ef hún rætist.

paranoid or not?

Fékk þetta komment við rant um Palin, áðan: …the paranoid person in me does think that by putting Palin on his ticket, McCain has signed a death warrant for himself.

Hef aldrei hugsað út í þetta áður, en klárt að það er fullt af byssuóðum ofurkristnum nötturum þarna fyrir vestan sem sér fyrir sér himnaríki, komist þeirra kandídat að, eina sem er fyrir er þessi gamli kall þarna…

bóndi minn

er með ofurnördafærslu á síðunni í dag, um sorpflokkun og mælingar. Hreint ekki slæmur árangur, þó við segjum sjálf frá.

næstsíðasta

æfingin fyrir Berlín, takk. Þetta er allt að smella saman hjá bandinu. Fengum snilldar frasabók hjá henni Súsönnu, sem hefur, ásamt annarri, borið hitann og þungann af ferðaplönum. Til dæmis:

Fyrir strengjaleikara (þó ekki víólurnar):
Svona á að spila þetta – So muss man das spielen!
Þetta eru réttu strokin – Das sind die richtigen Striche!
Ég get spilað þetta í 12. stillingu – Ich kann das in der 12. Lage spielen!

Fyrir víóluleikara:
Við viljum sitja aftast – Wir wollen ganz hintern sitzen!

Fyrir brass:
Einn bjór, takk – Ein Bier, bitte.

Og svo framvegis.

Hlakka mikið til…

ný gleraugu



ný gleraugu, originally uploaded by hildigunnur.

já, önnur nýju gleraugun hans Finns eru komin, það var til eitt sett af glerjum á landinu. Hin koma eitthvað seinna.

En nú sér hann allavega, skinnið litla…

mig langar að eiga þennan kofa!

pikkaði þessa mynd út sem skjáskot úr youtube myndbandi, snilldarpláss fyrir kofa. Veit ekki hvort væri sniðugt að vera þarna með lítil börn, samt…

öðru sellóinu

skilað, allavega í bili, nú erum við með þetta dýrara heima.  Það er nær fimmhundruðþúsundkallinum en eins og fólk benti á hér um daginn skiptir bara svo miklu máli að börn séu með góð hljóðfæri í höndunum, upp á hvað þetta er gaman, allt saman.

berlín

nálgast óðum, tónleikarnir á sunnudaginn eftir rúma viku og það er sko búið að selja meira en SJÖ HUNDRUÐ MIÐA! Veit ekki hvað það eru mörg ár af venjulegum tónleikagestum hjá okkur í áhugamannabandinu…

hummm

kennarinn hennar Freyju er lasinn og Siggi frændi er í útlöndum, hvern á ég að biðja um að prófa þessi selló til að heyra hvort það dýrara er þessum 200 þúsund króna munar virði?

ég hef heyrt um súkkulaðihúðaðar

rúsínur og jógúrthúðaðar rúsínur en þetta er ný tegund af húðun á rúsínur. Tær snilld.

írsk pöntun

var að klára útsetningu á þessu írska þjóðlagi, án hljóðfæra reyndar, pöntun frá kór á Írlandi. Alltaf hrikalega skemmtilegt að fá pantanir frá útlöndum (ekki fengið margar hingað til, en það kemur þó fyrir – alltaf oftar og oftar).

er ekki alveg

voðalega skammarlegt að fara að sofa rétt rúmlega átta?

Ég er allavega alveg að farast úr syfju, svíður í augun og allt. Svefnsýki, einhver?

mikið held ég

að það hafi verið sniðugt að færa víólutíma sonarins frá fimmtudögum yfir á mánudaga. Nú nýtast helgarnar helmingi betur við æfingar en áður – og það er ekki síður vegna tregðulögmáls mömmunnar en barnsins.

galdrakisi

þessi köttur hlýtur að vera meistari í Dimmalimm.

Vodpod videos no longer available.

more about "galdrakisi", posted with vodpod

(fundið hjá Tótu).


bland í poka

teljari

  • 377.779 heimsóknir

dagatal

september 2008
S M F V F F S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
282930  

sagan endalausa