Sarpur fyrir mars, 2009

æfing

amm, í kvöld hittum við stjórnandann Paul McCreesh sem stýrir Sköpuninni á fimmtudaginn. Frekar spennandi, þetta er víst snilldarhljómsveitarstjóri. Hlakka heilmikið til.

Já og festið ykkur nú endilega miða á fimmtudagskvöldið. Á eftir að heyra í einsöngvurunum, vonandi góðir.

beðið

eftir unglingnum þau koma varla í bæinn fyrr en um eittleytið í alfyrsta lagi, lögðu af stað frá Reykjum klukkan níu og ekki er færið nú til hraðaksturs.

Syyyyfjuuuuð…

tíhí

hefur mann ekki stundum langað til að gera svona:

(sjá hér)

Sjálfgræðisflokkurinn hefur EKKERT að gera í ríkisstjórn allavega næstu 8 árin – (myndi reyndar ekki gráta þó árin yrðu þrjátíu) en það bara þarf að vinnast tími til að taka til.

Hér er ansi hreint góður leiðari um málið – úr óvæntri átt og ekki beinlínis um málin hér en ansi hreint auðvelt að yfirfæra.

tónleikar gengu vel

alveg standing ovation og allt, ég held reyndar kannski að Richard hafi átt megnið af því en samt, við stóðum okkur hreint ekki illa, held ég.

Pizzu- og pastahlaðborð á Horninu á eftir, alveg ágætt. Freyja og Finnur komu bæði á tónleikana og skemmtu sér held ég ágætlega, allavega lét Finnur vel af sér. Er að spá í að leyfa Freyju að vera með á einum tónleikum, sjá hvernig hún stendur sig…

næsta vika

lítur frekar svakalega út.

Fyrir utan venjulegu kennsluna er ég að syngja með Sinfóníunni, 3 aukaæfingar þar, + tónleikar og svo er ég með 12 1/2 tíma kúrs, Hljóðfærafræði mannsraddarinnar, í Listaháskólanum. Held ekki ég muni geta mikið samið í vikunni…

hananú

þar nærri dó ég úr hlátri

en ég bý heldur ekki í

(það er sko hægt að smella á punktana þrjá hér fyrir ofan)

prúðu leikararnir

horfðum að beiðni Finns á þátt af Muppet Show í kvöld, hef sjaldan séð betri þátt, (kannski fyrir utan alfyrsta þáttinn, sem var náttúrlega tóm snilld). Í þessum þætti kom Lena Horne í heimsókn, væntanlega númer 11 í fyrstu seríu Prúðuleikaranna. Atriðin hafa elst mjög misvel, sérstaklega eru sumir gestanna alveg út úr kú. Lena Horne er nú samt alltaf flott og ekkert hallærisleg.

Hélt helst að Finnur ætlaði að fara yfirum úr hlátri yfir sænska kokkinum…

grill

jæja, best að draga fram grillið og vona að það komi ekki hríðarbylur eins og í dag.

Nei, það verða ekki fangaborgarar í þetta skiptið…

tónleikar

jæja, komið að áfimmviknafresti plögginu.

Sinfóníuhljómsveit áhugamanna heldur fjórðu tónleika starfsársins á sunnudaginn kemur. Gríðarlega spennandi efnisskrá, að minnsta kosti varð ég fyrir mjög miklum áhrifum þegar ég heyrði Fratres eftir Arvo Pärt í fyrsta skipti, ótrúlega magnað stykki. Og já, við eigum alveg að geta skilað því mjög vel. Richard Simm myndi ég segja að sé einn okkar albestu píanista og píanókonsert Chopins í f-moll er glæsilegt verk, mjög áheyrendavænt. Svo er jú fullgerða sinfónía Schuberts (harðneita að það sé nokkur skapaður hlutur ófullgerður við hana, þó hún sé bara tveir kaflar) alltaf yndislegt verk og við kunnum hana mjög vel, enda ekki mörg ár síðan við fluttum hana síðast.

Kíkið endilega á tónleika, klukkan fimm í Seltjarnarneskirkju.

og meira wahahahah

fundið hér.

wahah

Lét næstum því gabba mig áðan, flettismettivinur var með þessa gellu á síðunni sinni:

Nokkur af hljóðunum sem komu úr barkanum vöktu samt grunsemdir og litlu síðar fannst út að þetta er svona Silvíu Næturkarakter, hér syngur hún eins og hún á að sér.

Mér finnst þetta lag ekki smá flott. Og flutningurinn líka.

mikið er leiðinlegt

að skipta um dekk, þegar bíllinn stendur í brekku…

Fékk reyndar hjálp, sem betur fer, ég gat ekki fyrir mitt litla líf hnikað rónum, allt allt of fastar. Bankaði upp á hjá einum minna ágætu nágranna, myndlistarmanni sem vinnur heima, og hann hjálpaði mér fyrst að losa og svo náttúrlega hætti hann ekkert í miðju kafi, heldur hélt áfram að hjálpa mér að skipta. Góðir nágrannar eru ómetanlegir…

staðfesting

víí, verið að hafa samband frá Noregi, til að panta nótur af Guðbrandsmessunni, til flutnings í maí 2010. Snilld!

heh heh

þetta virkar náttúrlega bara með hæstu toppana:

pad thai

bjuggum til pad thai núðlur í kvöldmatinn, fórum eftir þessari uppskrift með aðferðina – sósan reyndar úr krukku en hver veit hvort maður prófar sósugerð næst.

Spurning líka hvort ætti að prófa að súrsa rófur, talað um pickled turnips í uppskriftinni (hmm, eru rófur ekki annars rutabagas? Man þetta aldrei)

Þetta sló nú ekki pad thai núðlurnar á Krúa út, en sveimérþá ef það var ekki bara ágætis staðgengilsréttur.

pallurinn

Við systir mín vorum á Sunnuflötinni í morgun og uppgötvuðum að það var svo gott veður að það var vel hægt að sitja úti á palli á peysunni. Norðanátt og smá gola, en maður finnur aldrei norðanáttina á pallinum hjá mömmu og pabba.

Ótrúlega gott að setjast út og láta sólina verma sig aðeins. Kannski kemur sumarið eftir allt saman…

símavesen

þurfti bráðnauðsynlega að ná í mann í dag (hafta see a man about a horse). Reyndi að hringja upp úr hádeginu, talaði inn á talhólf og bað hann hringja. Nú, svo lenti ég í tveimur símtölum öðrum, frekar löngum. Fer svo að kenna, sendi skilaboð á smettinu. Hann hringir síðan á meðan ég er með símann þöglan að kenna, ég sendi sms: Er að kenna, hringi á eftir. Búin að kenna. Hringi. Talhólf. Garg. Sendi póst um að ég sé á leið á æfingu, en muni hafa símann opinn. Hann hringir þegar ég er rétt nýsest inn á æfingu. Tek símann. Blíppblíppblípp, batteríið búið.

Náði nú samt að kveikja aftur á símadruslunni til að veiða símanúmerið og fékk að hringja í kirkjunni. Málum reddað…

vitleysisgangur

er þetta :þ

en fyndið…

dvd

jæja, þá er maður kominn á næsta skref í vídjóvinnslu, búin (tja byrjuð) að læra á iDVD og búin að brenna tvo diska með upptökum. Ekki sem verst. Er enn að krukka í iMovie, kann ekki sérlega vel á það.

Þetta er skemmtilegt.


bland í poka

teljari

  • 380.688 heimsóknir

dagatal

sagan endalausa