Archive for the 'fjölskyldan' Category

100 ár

Snillingurinn hún amma mín heitin, Hildigunnur Halldórsdóttir, hefði orðið hundrað ára í gær, hefði hún lifað.

Af því tilefni stendur til að gefa út bók, eftir hana liggur ógrynni af textum og nokkur lög, við völdum í sameiningu um 40 texta/lög og verið er að vinna að málinu. Upptökur í bígerð með vorinu (einhverjar væntanlega í sumar jafnvel), teikningar að verða tilbúnar, uppsetning laganna líka.

Textarnir hafa mallað og safnað STEFgjöldum í áratugi, lengi vel kom nú ekki mikið inn á hverju ári en svo gerðist þetta:

og þá fóru hlutirnir að gerast.

Segið svo að það sé ekki gagn að progrokk stundum!

Væntanlega koma síðan meiri fréttir af bókinni. Stay tuned.

lesefni

Herra Finnur er búinn að vera að vandræðast með hvað hann eigi nú að lesa, frekar kresinn á lesefnið. Við pabbi hans höfum verið að reyna að troða upp á hann okkar eigin uppáhaldsbókum frá því við vorum krakkar en það hefur gengið frekar brösuglega. Skiljanlega. Maður treður víst ekki eigin smekk upp á afkvæmin. (Gleymi ekki því hvað mér ÁTTU að þykja bækur Stefáns Jónssonar skemmtilegar þegar ég var krakki, en eina sem ég man úr þeim var eymd og volæði og Hjalti litli að kveðja mömmu sína einn ganginn enn).

Stráksi hefur ekki einu sinni komist inn í Hobbit, algjört sjokk.

Tókst samt að veiða hann inn í Tiffany Aching seríu Terry Pratchett, nú er hann svo upprifinn að hann les frameftir öllu. Sem er reyndar ekki alveg málið þar sem ef minn maður er ekki sofnaður klukkan hálftíu á virkum kvöldum er hann handónýtur morguninn eftir.

enn held ég áfram

að monta mig, sveimérþá! Freyja spilar fyrsta kaflann úr fyrstu sellósvítu Bachs á jólatónleikum í dag:

bókstafahljómar og ég

hafa hingað til ekki verið sérlega góðir vinir. Væntanlega vegna þess að ég spila hvorki á gítar né píanó og þyrfti að hafa talsvert fyrir því að spila eftir slíkum.

Þessa dagana erum við stórfjölskyldan hins vegar að heiðra minningu sameiginlegrar ömmu, Hildigunnar Halldórsdóttur, sem var öflugur textasmiður, á til dæmis Óskasteina, Foli foli fótalipri, Hér búálfur á bænum er, og mikið mikið fleiri texta sem margir kannast við, sérstaklega þeir sem vinna með börnum.

Amma hefði orðið 100 ára 22. janúar á næsta ári, hefði hún lifað. Textarnir hennar eru búnir að vera að safna STEFgjöldum í áratugi, mamma og systur hennar hafa samviskusamlega lagt þetta allt saman inn á bók þannig að nú er kominn svolítill sjóður. Hann skal nota í að gefa út bók og disk með lögum og textum (amma samdi líka nokkur bráðfalleg lög).

En til að lögin nýtist sem best er gott að hafa hljóma með nótunum. Og þar kom að okkur. Enginn í familíunni er sérfræðingur í að setja slíka hljóma þó ýmsir séu flinkir í að spila eftir þeim. Tónskáldið dæmdist auðvitað í hópinn sem skyldi setja hljóma. Þannig að ég settist niður og raðaði niður nokkrum hljómum.

Auðvitað var það svo talsvert minna mál en ég var búin að mikla fyrir mér. Sérstaklega þegar mér var bent á hvernig ég gæti skráð hljómhvörf, sem ég hafði ekki hugmynd um hvernig ætti að gera.

Hugsa samt að mínir hljómar séu svolítið frábrugðnir hinna…

Hér er sýnishorn, glænýtt lag reyndar líka:

dimissjón

já bráðum á ég stúdent – Fífa dimitterar á morgun og svo eru það bara stúdentsprófin.

Fjári er maður nú orðinn gamall!

Ætla ekki að kjafta frá búningunum þeirra en hún þurfti að grafa í hlutum frá báðum ömmum og öfum fyrir hann.

alveg hreint gott

þegar stóráfangar eru búnir – stráksi kláraði grunnprófið sitt á víóluna í morgun. Ég var því miður að kenna í LHÍ og gat ekki fylgt honum en pabbi hans er nú betri en enginn og reddaði málinu (vá hvað þetta hljómaði annars rembulega eitthvað – eins og pabbinn sé eitthvað verri að fylgja en ég, aðallega mér sem fannst ómögulegt að vera ekki með, frekar en að Finnur tapaði einhverju). Svo sem ekki eins og foreldrar fái að vera inni í prófinu.

Skólastjórinn og kennarinn hans voru ógurlega ánægðar með hann. Nú er ég síðan viss um að hann tekur ekki upp hljóðfærið í nokkra daga ef ég þekki hann rétt…

Hér vídjó frá undirbúningsrennsli:

Bach gavotta í gé moll – Finnur Jónsson víóluleikari og Ásta Haraldsdóttir píanóleikari

og hér er valverkefnið – lag sem hann samdi alveg sjálfur en mamman hjálpaði svolítið með píanópartinn:

kvartanir, kvartanir

Yfir því hefur verið kvartað að þessi bloggsíða sé eyðileg og tómleg og viðurkennir höfundur það fúslega að hér gerist ekki margt.

Það er ekki vegna þess að það gerist ekkert í lífinu. Þar gerist alveg slatti. Síðast í gær sótti ég um stóran styrk til Tónlistarsjóðs, er að vonast til að geta kynnt Guðbrandsmessuna mína, besta verkið mitt hingað til imnsho í útlöndum. Finnst það eiga það skilið. Svo er stóra stelpan mín búin að syngja á 7 stykkjum Bjarkartónleikum, þar af hef ég farið á tvenna, ekkert stolt mamma neineinei (lygi auðvitað, hvað haldið þið?). Stefnt á New York í febrúar ef atvinnuleyfi fæst fyrir hópinn.

Smíðar á næsta tónverki mjakast áfram, búin að skila rúmum 5 mínútum af 20 slíkum, 4 mínútna kafli til viðbótar mjög langt kominn, annar líka á leiðinni. Spennandi, alltaf spennandi. Í dag var haft samband út af orgelverki í viðbót. Spurning hvenær tími fæst í slíkt.

Guttinn minn var góður við mömmu sína í gær, eitt uppáhaldsfaganna hans í skólanum er heimilisfræði. Hann eldaði spakettí carbonara, óvenjulega útgáfu með kjúklingabitum í viðbót við beikonið. Stóð þarna í skólaeldhúsinu og horfði á matinn, svo mikið var afgangs að hann hefði aldrei getað torgað því öllu sjálfur og hugsaði – já til mömmu sinnar. Fékk tvo þunna plastpoka, setti annan ofan í hinn og pastað í þann innri og tölti heim til að gefa mér hádegismat. Þessi elska.

Nóg í bili, lofa að láta ekki líða svona voðalega langt þar til næst…

Afmælistónleikarnir

Nýkomin heim frá Egilsstöðum, Þorbjörn bróðir varð fertugur í sumar og lengi var búið að plana að halda afmælistónleika undir merkjum Sumartóna í Egilsstaðakirkju. Fyrst var held ég meiningin að það væru bara Þorbjörn sjálfur og svo Hallveig systir sem héldu tónleika en síðan kom upp sá möguleiki að við systkinin, sem erum jú öll söngmenntuð og störfum (mismikið þó) við söng, gæfum bróður vorum söng í afmælisgjöf. Tónleikaröðin myndi greiða píanista sem spilaði með okkur.

Til stóð að tónleikarnir yrðu 30. júní, daginn eftir afmælið sjálft. Búið var að bóka þennan líka æðislega píanóleikara og við nokkurn veginn búin að velja lög, aríur, dúetta og fleira. Þá kom fyrsta babbið í bátinn, lýst hér.

Batinn tók talsverðan tíma, (sem betur fer er hann fullur núna, hamingjunni sé lof) þannig að ekkert vit var í að halda tónleikum og veislu til streitu. Töluðum okkur saman og fundum út að eini möguleikinn væri um miðjan ágúst. Sextándi varð fyrir valinu, vegna ýmissa ástæðna, þeirrar kannski helstrar að Torvald sem sér um sumartónaröðina var að fara til útlanda daginn eftir en líka vegna þess að Hallveig verður með tónleika á menningarnótt og vildi ekki vera of nálægt henni. Þá hófst leit að nýjum meðleikara því okkar kona var auðvitað búin að lofa sér á þeim tíma. Töluðum við alla sem okkur mögulega kom í hug að gætu tekið svonalagað að sér með stuttum fyrirvara. Leitin gekk takmarkað vel þar til Þorbjörn auglýsti á flettismettinu. Þá kom strax ein sem var spennt fyrir þessu. Við tókum vel í það, héldum fund með henni og afhentum nótur.

Viku síðar kom síðan í ljós að þarna hafði hún reist sér hurðarás um öxl. Nánast ekki spilað neitt af þessu áður og sumt var vægast sagt snúið þó það kannski liti einfalt út. Fyrir píanóleikara sem er ekki í fullri þjálfun – já þetta var semsagt einum of. Hún bauðst reyndar til, ef við ekki fyndum neinn annan, að hætta við sumarfrísferðina sína og æfa sig dag og nótt fram að tónleikum. Við vildum nú samt reyna frekar að finna aðra lausn.

Allt í uppnámi aftur. Þar til Kristín mágkona, kona Óla bróður stakk upp á að hann hringdi í vin sinn og meðleikara, hljómsveitarstjórann og píanistann Peter Ford, sem hann hafði margoft unnið með, við sæktum semsagt píanóleikara alla leið til Bretlands. Peter brást glaður við og var til í að spila fyrir farmiða og uppihaldi (takktakktakk!).

Síðan kom nú það alvarlegasta upp á. Besti vinur hennar Hallveigar (og auðvitað vinur okkar allra) lést við köfun á Eyrarsundi. Minningarathöfn um hann var haldin, jú 16. ágúst. Klukkan 15:00 og tónleikarnir voru settir klukkan 20:00. Ekki kom annað til greina en Hallveig væri við athöfnina (reyndar þótti okkur öllum hræðilega sárt að geta ekki verið þar líka). Þetta átti nú samt að geta gengið upp, Hallveig flaug í bæinn að morgni þess sextánda og átti flug til baka klukkan 18:00.

Nema hvað upp úr hádeginu fær hún sms frá Flugfélagi Íslands um seinkun á fluginu til klukkan 20:30! Það var víst fótboltalið að spila leik á Eskifirði og þeir þurftu að ná fluginu í bæinn. Og auðvitað kom engan veginn til greina að áhöfn og vél biðu á Egilsstaðavelli frekar en Reykjavík. Fótbolti náttúrlega gengur fyrir öllu…

Tónleikunum frestað til klukkan 21:15 og prógrammið stokkað upp þannig að Hallveig yrði ekkert fyrr en eftir hlé. Auglýstum seinkunina á netinu og í útvarpinu og hringdum og sendum sms til allra sem okkur datt í hug að myndu mögulega ætla að koma á tónleikana. Um 30 manns mættu samt á svæðið klukkan átta.

Hringdum í flugfélagið upp úr klukkan hálfníu og vélin hafði farið í loftið 8 mínútum eftir áætlaðan tíma. Ekki mátti nefnilega fara út í Egilsstaðavélina fyrr en Grænlandsvél sem lenti rétt á undan hafði tæmt sig (grrr – gat það lið ekki beðið í 5 mínútur úr því þessi vél var tveimur og hálfum tíma of sein þá þegar???) Hallveig og stúlka sem hafði líka farið í minningarathöfnina, ætlaði á tónleikana og var með bílinn sinn úti á velli höfðu látið taka frá sæti númer 1a og 1b, voru hvorug með farangur til að bíða eftir svo þær gátu rokið beint úr vélinni upp í kirkju.

Hófum tónleikana, enn pínu stressuð. Húsfyllir í kirkjunni. Í hléi mætti Hallveig á svæðið, svippaði sér í tónleikapilsið (var fulltónleikadressuð fyrir utan það) – og við gátum klárað.

Þrátt fyrir þetta ótrúlega hindrunarhlaup voru tónleikarnir mjög skemmtilegir, allavega fyrir okkur – og Peter píanóleikari stóð sig stórkostlega! Kærar þakkir.

Fleiri myndir hér.

fullorðnast

já börnin manns eru víst að fullorðnast, eiginlega hraðar en ég vildi.

Fífa og kórinn hennar eru farin til Manchester að halda tónleika með Björk og bandi, sjá hér. Fór á generalprufuna hér heima um daginn og þetta verður gríðarlega flott, reyndar eiginlega aðgengilegasta músík frá Björk í talsverðan tíma, ég upplifði þetta sem einhvers konar punkt sem músíkin hennar síðastliðin ár safnast í.

Nokkrir tónleikar úti, síðan verða vonandi tónleikar hér í haust og svo getur verið að þær fái að fara með í framhaldstúrinn, þar verða New York, Ríó, Róm og Japan ef ég man rétt. Á allt samt eftir að koma í ljós.

Allavega er stóra barnið mitt komið í atvinnumannapakkann, verður núna burtu í heilan mánuð. Tómlegt hér heima en mikið hrikalega held ég að þetta verði gaman hjá þeim.

brúðkaup

Sitjum inni í stofu í gærkvöldi, gömlu hjónin og sú nýorðin 15 ára.

Ég rekst á frétt á ruv.is vefnum. Les upphátt með uppgerðar fagnaðarhreim í röddinni:

ég: Vúhú, konunglega brúðkaupið verður auðvitað í beinni á ruv!

bóndinn: Fjúkk, var farinn að hafa áhyggjur!

unglingurinn lítur upp með undrunarsvip: Hvaða brúðkaup?

Einhvern veginn varð ég voðalega ánægð með úllínginn minn sem hefur svona lítinn áhuga á „ríkogfrægafólkinu“…

afrek dagsins

Einn bónaður bíll. Ekki ég, bóndinn (sagði ég eitthvað um að þetta þyrftu að vera eigin afrek?)
smá vesen með nýju tölvuna lagað (vonandi)
horft á LOTR 1 með syninum
eldað rogan josh úr karríbókinni frá óla bró

Semsagt voðalega góður dagur. Finnst samt að ég hefði átt að vera að gera eitthvað annað, örugglega einhver ósköp af spennandi tónleikum og slíku sem ég hef misst af. Só vott?

hver pantaði

eiginlega þennan snjó? Ekki ég allavega. Botninn datt úr kuldaskónum hennar Freyju í skíðaferðalaginu á Dalvík um daginn (já bókstaflega – sólinn á öðrum skónum datt af. Arfaslöpp ending, keyptir í haust) Hentum þeim í gáminn við bústaðinn sem við fórum í þá helgina, veiddum Freyju úr rútunni í Borgarnesi. Vildi til að Finnur hafði tekið með sér sandala til að nota sem inniskó og Freyja komst í kuldaskóna hans til að vera í á leiðinni heim.

Ætlaði að reyna að sleppa við að kaupa nýja kuldaskó þar til í haust, ég er ekki alveg viss um að það gangi, ef veðurspáin helst…

bóndinn

á afmæli í dag, til hamingju með daginn allrabesti maður í heimi!

óvitlaust

Hún Magga Pála er óvitlaus, hlustið endilega á hana hér. Þetta hefur reyndar alltaf verið viðkvæðið hér heima. Man eftir einu sinni að við fjölskyldan sátum á Grillhúsinu, pöntunin okkar hafði gleymst, þannig að við þurftum að bíða ansi lengi eftir matnum. Finnur var ekki fæddur, stelpurnar hafa verið þriggja og sjö ára eða álíka. Sátu þarna sallarólegar og lituðu eða eitthvað og við bóndinn spjölluðum saman á lágu nótunum.

Áður en við fórum heim höfðu tvær manneskjur, sín í hvoru lagi, undið sér að okkur og hrósað okkur fyrir hvað þetta væru róleg börn.

Það þarf að vera virðing fyrir börnunum, auðvitað þurfa þau að komast að líka en þau mega sannarlega ekki valta yfir allt og alla. Svolítið hrædd um að allt þetta peningapakk sem fór svona illa með okkur hafi alltaf verið vant því að geta hegðað sér eins og þeim sýndist og aldrei þurfa að taka tillit til neins nema sjálfs sín.

morgunstund

nei ekkert með gull, en mikið er eitthvað gott að vakna fyrst og fá rólegheitastund í 1-2 tíma að morgni áður en þau hin vakna. Bara tölvan og tebolli og ristuð brauðsneið, einhver róleg músík (ekki jóladiskur, orðið ágætt af þeim í bili).

Eldri unglingur reyndar kíkti hér við í nokkrar mínútur, gisti hjá kærastanum og farin í vinnuna, sú yngri gisti líka, með kammerklúbbsvinum sínum, frábær hópur þar, nokkuð viss um að þau sofa til hádegis. Karlpeningurinn hins vegar steinsofandi hér niðri.

Væmnu færslu lokið. (best að finna væmna mynd til að bæta í).

jólajóla

búin að öllu. Feis!

tja eða svona nánast öllu sem ég ætla að gera.

Mun ekki þvo veggi né loft. Þó væntanlega myndi vera þörf á því, sérstaklega inni í skrifstofu, rykugir veggir bak við tölvuna.

Mun heldur ekki „taka skápana“ Gleymið því. Þreif samt gaseldavélina áðan, gallinn við gasið eru þessar djúpu hellur eða hvað maður kallar þær undir járngrindunum.

Hér eru enn bunkar á skrifborðinu mínu, ég er reyndar búin að átta mig á því að ég mun væntanlega aldrei losna við einn af þeim, alltaf dót í vinnslu í hlaða. Verður að hafa það.

En pakkar eru tilbúnir og jólakort send sveimérþá, búin að syngja á nokkrum jólatónleikum og hlusta á margfalt fleiri, þó ég hefði viljað fara meira. Ein eða tvær jólamessur munu væntanlega detta inn líka svona úr því maður er nú kominn í kór sem tengist kirkju.

Búin að hengja upp ljósagardínurnar og familían meira að segja búin að setja upp og skreyta jólatréð. Bóndinn langt kominn með að þvo gólfin.

Jamm sé fram á rólegasta aðfangadag í manna minnum. Sem er ekki slæmt.


hluti pakkaflóðsins.

jólasöngvar

Langholtskórsins byrjaðir, Gradualekórinn tekur þátt að vanda, stelpurnar báðar þar með. Ég fer á tónleikana annað kvöld en hrikalega er ég fegin að Fífa er stoltur bílprófshafi og keyrir í kvöld og á sunnudaginn (jáannars ég er semsagt að syngja Jesu, meine Freude með glænýjum Kammerkór Dómkirkjunnar á sunnudagskvöldið) þannig að við þurfum ekki að vera í sækjum-og-sendum pakkanum nákvæmlega núna.

Sá pakki fer reyndar ört minnkandi, Fífa sér nánast alveg um sig sjálf (eða fær bílinn lánaðan gegn bensínkaupum með misreglulegu millibili), Freyja þarf eiginlega skutl þegar sellóið er með í för, annars er hún á eigin vegum og Finnur meira að segja fer á hlaupahjólinu bæði í karate inn í Brautarholt og hljómsveit í Sóltúnið nánast alltaf.

Var reyndar að tala við samkennara mína fyrr í ár, komst að því að þau smyrja enn nesti fyrir 17-19 ára unglinga sína. Sárhneykslaðist á því – stelpurnar sjá algerlega um sig sjálfar og tíáringurinn hefur borið ábyrgð á nestinu sínu frá í fyrrahaust.

lúxusinn

kannski ekki alveg eins og þarna hedóníski næstum því útrunni pakkinn um daginn en bóndinn fékk jólagjöf frá vinnunni í gær…

sunnudagur

að vera vakinn um níuleytið á sunnudagsmorgni af litlum tíu ára gutta sem er búinn að steikja french toast fyrir alla fjölskylduna og leggja á borð – er eitthvað mikið betra til?

Hjá sumum er desember ekkert minna pakkaður en aðrir mánuðir en hér á bæ er þetta að verða ansi þægilegt bara, komið jólafrí í áhugamannabandinu (já tónleikarnir í gær gengu bara mjög vel, takk), líka Hljómeyki, Listaháskólinn klárast í nýhafinni viku og 2 vikur eftir af hinum skólunum.

Spurning um að fara að kíkja á jólakort og -gjafir?

afrakstur

helgarinnar – já þessi helgi var reyndar frekar þung, tónleikar Hljómeykis á fimmtudag (gengu gríðarvel), partí á eftir, aðalfundur Tónverkamiðstöðvar á föstudag og veisla á eftir til að þakka fólkinu sem kom að flutningum og björgun eftir brunann fyrir einu og hálfu ári, aðalfundur Hljómeykis og partí á eftir, matarboð í kvöld með hluta af systkinahópnum, tilraunakeyrsla á matseðli áramótanna sveimérþá!

En aðalatriðið var nú samt tónleikarnir sem krakkarnir spiluðu á á laugardaginn – maður verður jú að setja hluti í samhengi! Hér koma þau:

Freyja:

og Finnur:


bland í poka

teljari

  • 375.556 heimsóknir

dagatal

janúar 2023
S M F V F F S
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
293031  

sagan endalausa