Archive for the 'fjölskyldan' Category

100 ár

Snillingurinn hún amma mín heitin, Hildigunnur Halldórsdóttir, hefði orðið hundrað ára í gær, hefði hún lifað.

Af því tilefni stendur til að gefa út bók, eftir hana liggur ógrynni af textum og nokkur lög, við völdum í sameiningu um 40 texta/lög og verið er að vinna að málinu. Upptökur í bígerð með vorinu (einhverjar væntanlega í sumar jafnvel), teikningar að verða tilbúnar, uppsetning laganna líka.

Textarnir hafa mallað og safnað STEFgjöldum í áratugi, lengi vel kom nú ekki mikið inn á hverju ári en svo gerðist þetta:

og þá fóru hlutirnir að gerast.

Segið svo að það sé ekki gagn að progrokk stundum!

Væntanlega koma síðan meiri fréttir af bókinni. Stay tuned.

lesefni

Herra Finnur er búinn að vera að vandræðast með hvað hann eigi nú að lesa, frekar kresinn á lesefnið. Við pabbi hans höfum verið að reyna að troða upp á hann okkar eigin uppáhaldsbókum frá því við vorum krakkar en það hefur gengið frekar brösuglega. Skiljanlega. Maður treður víst ekki eigin smekk upp á afkvæmin. (Gleymi ekki því hvað mér ÁTTU að þykja bækur Stefáns Jónssonar skemmtilegar þegar ég var krakki, en eina sem ég man úr þeim var eymd og volæði og Hjalti litli að kveðja mömmu sína einn ganginn enn).

Stráksi hefur ekki einu sinni komist inn í Hobbit, algjört sjokk.

Tókst samt að veiða hann inn í Tiffany Aching seríu Terry Pratchett, nú er hann svo upprifinn að hann les frameftir öllu. Sem er reyndar ekki alveg málið þar sem ef minn maður er ekki sofnaður klukkan hálftíu á virkum kvöldum er hann handónýtur morguninn eftir.

enn held ég áfram

að monta mig, sveimérþá! Freyja spilar fyrsta kaflann úr fyrstu sellósvítu Bachs á jólatónleikum í dag:

bókstafahljómar og ég

hafa hingað til ekki verið sérlega góðir vinir. Væntanlega vegna þess að ég spila hvorki á gítar né píanó og þyrfti að hafa talsvert fyrir því að spila eftir slíkum.

Þessa dagana erum við stórfjölskyldan hins vegar að heiðra minningu sameiginlegrar ömmu, Hildigunnar Halldórsdóttur, sem var öflugur textasmiður, á til dæmis Óskasteina, Foli foli fótalipri, Hér búálfur á bænum er, og mikið mikið fleiri texta sem margir kannast við, sérstaklega þeir sem vinna með börnum.

Amma hefði orðið 100 ára 22. janúar á næsta ári, hefði hún lifað. Textarnir hennar eru búnir að vera að safna STEFgjöldum í áratugi, mamma og systur hennar hafa samviskusamlega lagt þetta allt saman inn á bók þannig að nú er kominn svolítill sjóður. Hann skal nota í að gefa út bók og disk með lögum og textum (amma samdi líka nokkur bráðfalleg lög).

En til að lögin nýtist sem best er gott að hafa hljóma með nótunum. Og þar kom að okkur. Enginn í familíunni er sérfræðingur í að setja slíka hljóma þó ýmsir séu flinkir í að spila eftir þeim. Tónskáldið dæmdist auðvitað í hópinn sem skyldi setja hljóma. Þannig að ég settist niður og raðaði niður nokkrum hljómum.

Auðvitað var það svo talsvert minna mál en ég var búin að mikla fyrir mér. Sérstaklega þegar mér var bent á hvernig ég gæti skráð hljómhvörf, sem ég hafði ekki hugmynd um hvernig ætti að gera.

Hugsa samt að mínir hljómar séu svolítið frábrugðnir hinna…

Hér er sýnishorn, glænýtt lag reyndar líka:

dimissjón

já bráðum á ég stúdent – Fífa dimitterar á morgun og svo eru það bara stúdentsprófin.

Fjári er maður nú orðinn gamall!

Ætla ekki að kjafta frá búningunum þeirra en hún þurfti að grafa í hlutum frá báðum ömmum og öfum fyrir hann.

alveg hreint gott

þegar stóráfangar eru búnir – stráksi kláraði grunnprófið sitt á víóluna í morgun. Ég var því miður að kenna í LHÍ og gat ekki fylgt honum en pabbi hans er nú betri en enginn og reddaði málinu (vá hvað þetta hljómaði annars rembulega eitthvað – eins og pabbinn sé eitthvað verri að fylgja en ég, aðallega mér sem fannst ómögulegt að vera ekki með, frekar en að Finnur tapaði einhverju). Svo sem ekki eins og foreldrar fái að vera inni í prófinu.

Skólastjórinn og kennarinn hans voru ógurlega ánægðar með hann. Nú er ég síðan viss um að hann tekur ekki upp hljóðfærið í nokkra daga ef ég þekki hann rétt…

Hér vídjó frá undirbúningsrennsli:

Bach gavotta í gé moll – Finnur Jónsson víóluleikari og Ásta Haraldsdóttir píanóleikari

og hér er valverkefnið – lag sem hann samdi alveg sjálfur en mamman hjálpaði svolítið með píanópartinn:

kvartanir, kvartanir

Yfir því hefur verið kvartað að þessi bloggsíða sé eyðileg og tómleg og viðurkennir höfundur það fúslega að hér gerist ekki margt.

Það er ekki vegna þess að það gerist ekkert í lífinu. Þar gerist alveg slatti. Síðast í gær sótti ég um stóran styrk til Tónlistarsjóðs, er að vonast til að geta kynnt Guðbrandsmessuna mína, besta verkið mitt hingað til imnsho í útlöndum. Finnst það eiga það skilið. Svo er stóra stelpan mín búin að syngja á 7 stykkjum Bjarkartónleikum, þar af hef ég farið á tvenna, ekkert stolt mamma neineinei (lygi auðvitað, hvað haldið þið?). Stefnt á New York í febrúar ef atvinnuleyfi fæst fyrir hópinn.

Smíðar á næsta tónverki mjakast áfram, búin að skila rúmum 5 mínútum af 20 slíkum, 4 mínútna kafli til viðbótar mjög langt kominn, annar líka á leiðinni. Spennandi, alltaf spennandi. Í dag var haft samband út af orgelverki í viðbót. Spurning hvenær tími fæst í slíkt.

Guttinn minn var góður við mömmu sína í gær, eitt uppáhaldsfaganna hans í skólanum er heimilisfræði. Hann eldaði spakettí carbonara, óvenjulega útgáfu með kjúklingabitum í viðbót við beikonið. Stóð þarna í skólaeldhúsinu og horfði á matinn, svo mikið var afgangs að hann hefði aldrei getað torgað því öllu sjálfur og hugsaði – já til mömmu sinnar. Fékk tvo þunna plastpoka, setti annan ofan í hinn og pastað í þann innri og tölti heim til að gefa mér hádegismat. Þessi elska.

Nóg í bili, lofa að láta ekki líða svona voðalega langt þar til næst…


bland í poka

teljari

  • 371.275 heimsóknir

dagatal

janúar 2020
S M F V F F S
« Júl    
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa