Archive for the 'plögg' Category

á maður ekki að

plögga tónleika?

ænei… eiginlega frekar sorrí að rífa upp bloggfærslu til þess – en það verða samt ansi hreint skemmtilegir tónleikar áhugamannabandsins á morgun, sunnudag. MozartHummelHaydn, Vilhjálmur Ingi einleikari í Hummel trompetkonsert og eins og var óspennandi að æfa hljómsveitarhlutann án einleikara lifnaði stykkið við þegar flotti sólistinn mætti á svæðið og hóf blástur. Hlakka helling til á morgun. Er konsertmeistari í þetta sinn.

Klukkan fimm í Seltjarnarneskirkju. Þetta plögg jafngildir allavega einum seldum miða. Eða tveimur. Er það ekki?

held við

verðum með alveg fáránlega skemmtilega tónleika á sunnudaginn kemur. Áhugamannabandið þeas.

Hann Dean Ferrell, kontrabassaleikari, húmoristi og allsherjarfenómen er sólisti dagsins ásamt Gissuri Páli tenór og Frostrós. Hitt og þetta mun drífa á daga þeirra og okkar, vitum alls ekki allt ennþá þó það séu bara 5 dagar í tónleika – ég er alls ekki viss um að nokkur maður viti hvað muni gerast á tónleikunum.

Hér er tengill á eitt uppátækja Dean.

Endilega kíkja í Seltjarnarneskirkju sunnudaginn 27: nóv klukkan 17:00

úbartsviðtal

var að enda við að eipa um tvö af verkunum mínum í viðtali við hana Margréti Sigurðardóttur, Ópus held ég þættirnir heiti og ég valdi að tala um tvenns konar dúetta, fiðludúettana mína (10 myndir fyrir 2 fiðlur) og svo dúetta sem ég gerði fyrir Hallveigu systur, Eyva minn og hann Árna Heimi fyrir nokkrum árum. Þannig að nú dettur þetta aftur í spilun – vonandi eitthvað meira en bara þennan eina þátt.

Hann verður víst á dagskrá þann 15. nóvember og á netinu þar á eftir, ég mun pottþétt plögga þegar nær dregur.

Annars er bara ansi hreint gaman að rifja svona upp. Hlakka til að heyra hvernig hún klippir mig sundur og saman í þættinum.

hahaaa, kemur örugglega

öllum gersamlega á óvart, sérstaklega fbvinum að nú skal plöggað kertasölu.

Strákarnir í Drengjakór Reykjavíkur keyra sig á kertasölunni fyrir jólin, allir guttar eiga að selja 50 kertaeiningar. Vill til að flestir, trúaðir sem trúlausir (jánei, ætla ekki í umræðuna hér) brenna fullt af kertum á aðventu og yfir jól og strákalingarnir eru að selja þessi fínu gegnheilu Heimaeyjarkerti. Við tókum fjóra liti, aðventufjólubláan, jólarauðan, jólasnjóhvítan og égveitekkihvernigtengistjólum fílabeinshvítan. Flottir allir, svo er hægt að redda dökkgrænum, dökkbláum og dimmrauðum líka. Átta kerti saman í pakka á þúsundkall. Frí heimkeyrsla innan Stórreykjavíkursvæðis.

Hér sjást litirnir. Ef þið sjáið ekki mikinn mun á fílabeinshvíta litnum og þeim jólasnjóhvíta þá er það vegna þess að það er nánast enginn munur á þeim í ár. Þau í Heimaey hafa ekki sett alveg eins mikinn gulan saman við blönduna og í fyrra, hugsa ég.

Hér sjást svo strákarnir, ætla ekki að pósta jólalaginu nærri strax. Finnur er í nærmynd á 1’14“ ef einhver vill sjá.

Akureyri

jamm á maður ekki að plögga það líka?

Fimmtudagkvöldið 21. október kl. 20.30 verða haldnir kammertónleikar í Hofi. Fram koma norðlenskar listakonur, sem flytja tónlist og ljóð eftir konur. Allur aðgangseyrir tónleikanna rennur óskiptur til Krabbameinsfélags Íslands, Bleiku slaufunnar.

Að tónleikunum stendur Trio Colore, sem skipað er Ásdísi Arnardóttur selló, Láru Sóleyju Jóhannsdóttur, fiðlu og Petreu Óskardóttur, þverflautu. Tríóið munu frumflytja tvö íslensk verk sem samin hafa verið sérstaklega að þessu tilefni. Höfundar verkanna eru Hildigunnur Rúnarsdóttir og Guðrún Ingimundardóttir.

Auk Trio Colore koma fram Eyrún Unnarsdóttir, mezzosópran og Helga Bryndís Magnúsdóttir, píanóleikari.

Um kynningar og ljóðalestur sér leikkonan Bryndís Ásmundsdóttir.

Miðaverð er kr. 2500

Eigi ég lesendur fyrir norðan (hæ Fríða…) þá endilega kíkja. Við Jón Lárus skjótumst norður og verðum á tónleikunum, það er nú ekki frumflutt kammerverk eftir mann á hverjum degi! Hlakka mikið til.

pluggg

Sinfóníuhljómsveit áhugamanna heldur tónleika á sunnudaginn kemur, klukkan fimm í Seltjarnarneskirkju.

Einleikari er Gunnar Kvaran – hann svíkur sko ekki. Með honum spilum við Kol Nidrei eftir Max Bruch. Annað sem við spilum er Pelléas et Mélisande svíta eftir Jean Sibelius og sinfónía númer 3 eftir Franz Schubert. Ekki sú þekktasta en bráðskemmtilegt verk. Stjórnandi er Oliver Kentish, nú sem oftar og einleikari á enskt horn Guðrún Másdóttir (Sibelius).

Endilega kíkja…

hrrrikalega

var gaman í gær! Fyrir utan nú flottu sólistana og bandið sem er alltaf gott þá fékk kórinn endalaust hrós og ekki síður einsöngvararnir úr okkar röðum. Hlustið endilega á útsendinguna hér eða enn betra, tryggið ykkur einn þeirra fáu miða sem eru eftir í kvöld og skellið ykkur – lofa frábærri upplifun. sinfonia.is…

plögg dagsins

er færsla. Nema færsla dagsins sé plögg

Hann Smári McCarthy kunningi minn og einn alklárasti (ef ekki sá klárasti) náungi sem ég veit ætlar að bjóða sig fram til stjórnlagaþings.

Ef það á einhver erindi þar inn þá er það hann. Ég hef ákveðið að gerast stuðningsmaður og undirskrifandi og hvet alla vini og kunningja og já, alla sem hefur einhvern tímann þótt eitthvað vit í því sem ég er að tjá mig að skoða það sem hann hefur fram að færa.

Akkúrat núna er hann á alþjóðaráðstefnunni Internet at liberty, hér er viðtal sem var tekið við hann þar:

Hér er svo pistill frá honum um stjórnlagaþing og nýja stjórnarskrá. Stel miskunnarlaust af facebook þar sem ég held maður þurfi að vera fbvinur til að geta lesið:

Markmið nýrrar stjórnarskrár
by Smári McCarthy on Sunday, 05 September 2010 at 14:37
Þegar lagt er upp með að skrifa nýja stjórnarskrá verðum við að velta fyrir okkur hvað markmiðin eru. Margir hafa sagt núgildandi stjórnarskrá vera ágæta, sem ég er nokkuð ósammála, en þó er ég á því að ef breyta eigi stjórnarskránni þá verðum við að vita til hvers.
Ísland hefur ekki haft margar stjórnarskrár, en sú sem nú gildir er sú eina sem við höfum haft á lýðveldistímanum þrátt fyrir ætlanir um að breyta henni frá upphafi. Stjórnarskrá Íslands frá 1944 var samþykkt á sínum tíma til bráðabirgða, og þjáist hún verulega fyrir það að vera runnin undan rifjum danskra embættismanna í stað þess að hafa verið smíðuð með íslenskar aðstæður í huga og hagsmuni íslendinga að leiðarljósi.
Það er hægt að rífast mikið um það hversu mikil áhrif stjórnarskrá hefur á raunverulegu dagsdaglegu starfsemi innan lands. Mitt viðhorf kemur til af því að ég hef unnið í áratug við að skoða hvernig upplýsingar flæða og hvernig kerfi virka, og ef ég hef lært eitthvað á þeim tíma þá er það það að grunnforsendurnar geta skipt sköpum – rangar grunnforsendur geta leitt til hörmunga.
Lexíur frá Bólivíu
Það er ekki oft sem Ísland er borið saman við Bólivíu, en þar gekk ný stjórnarskrá í gildi 7. febrúar 2009. Þar hafa verið í gildi þar 17 mismunandi stjórnarskrár síðan 1826; að meðaltali ein ný stjórnarskrá á ellefu ára fresti. Það er óhætt að fullyrða að Bólivíumenn eru komnir með ágætis reynslu af því hvernig mismunandi form stjórnarskráa getur haft mismunandi áhrif á stjórnun lands, réttarríkið og, ekki síst, afkomu þjóðar.
Það er áhugavert að skoða Bólivísku stjórnarskránna frá 2009 í ljósi þess að hún var samin með ólíkt uppbyggileg markmið í huga miðað við fyrri stjórnarskrár. Hún táknaði enda sambands milli ríkis og kirkju í Bólivíu, hún kvað skýrt á um jafnræði milli þjóðflokka, setur skýr mörk um landeignir, og tekur á mörgum erfiðum málefnum – til dæmis stendur í 384. grein að kókaplantan sé hluti af menningararfleið landsins, að hún sé ekki eiturlyf í sínu náttúrulega formi, og að ríkið skuli annast eftirlit með verðlagningu, endursölu, framleiðslu og iðnvæðingu plöntunar.
Landeignareglan segir að enginn aðili megi eiga meira en 5000 hektara lands, eða 50 ferkílómetra, sem er þannig séð ekki svo ólíkt íslensku landúthlutunarreglunni frá landnámsöld. Einnig kemur fram í stjórnarskránni að allar náttúruauðlindir séu þjóðarinnar, og enginn hafi framsalsrétt á þeim til erlendra aðila.
Það er margt gott við þessa nýju stjórnarskrá, en kannski ekki síst hvað hún þorir að ganga langt til að ná sínum settu markmiðum. En þó er ég ekki allskostar sáttur við allt sem í henni er. Einmenningskosningar sem ákvarðast af “fyrstur í mark”-kjöri eru til dæmis afskaplega óréttlátar, þar sem aðeins hluti atkvæða í hverju kjördæmi hefur áhrif á niðurstöður kosninganna, og þá er íslenska nálgunin, að nota færanlega hlutfallskosningu, miklu betri. Enn betra væri að nota kerfi sem uppfyllir skilyrði de Condorcet, í það minnsta fyrr stærsta hlutmengi sem hefði Condorcet-sigurvegara, en slíkt er ekkert sérstaklega algengt. Einnig er vafasamt í Bólivísku stjórnarskránni hve mikil völd kjörstjórn hefur, en eflaust má færa ágætis rök fyrir því að svo sé.
(Spænskan mín er afleit, þannig að mín vitneskja um þessa stjórnarskrá kemur úr ýmsum heimildum á ensku, aumum tilraunum til að lesa stjórnarskránna sjálfa með hjálp orðabókar, og spjall við vinkonu mína sem þekkir þetta ágætlega)
Þetta Bólivíska dæmi er ágætt út af því hversu nýlega er búið að taka það fyrir og hversu mikil hefð er fyrir stjórnarskrárbreytingum í landinu. Evo Morales hélt því fram þegar þessi var samin að nú væri markmiðið að búa til stjórnarskrá sem myndi endast í þúsund ár. Eða í það minnsta aðeins meira en ellefu.
En hvert þá?
Ef Íslendingar ætla sér nú að búa til sína eigin stjórnarskrá sem á að endast í hundrað ár, hvað þá þúsund, þá verðum við að geta gert okkur í hugarlund hvernig heimurinn mun verða eftir þann tíma. Ég þykist ekkert sérstaklega berdreyminn og hef afskaplega litla spáhæfileika, en ég get ímyndað mér að einhver af vandamálum næstu aldar verði:
Verulegar breytingar á aðgengi að auðlindum, þá bæði vegna breytinga á loftslagi og vegna þess hvað gengið var hart á auðlindir á tuttugustu öld. Stríð munu eflaust blossa upp vegna aðgengis að frumefnum á borð við litíum og tantalum, en fæst þeirra verða árásarstríð; þau munu flest eiga sér stað bak við luktar dyr í stofnunum á borð við WTO.
Aðgengi að upplýsingum; þar sem þróun á upplýsingatækni hefur enga ástæðu til að hægjast og skilningur okkar á mætti upplýsinga eykst stöðugt, þá munu ótal vandamál koma upp í tengslum við tjáningarfrelsi, hugverkarétti, og gerviskorti. Sú barátta sem nú á sér stað í netheimum um þessi mál mun smitast í auknu mæli yfir í “kjötheima”.
Iðnaður mun breytast verulega með tilkomu aukinnar sjálfvirkni. Ég tel að spádómar Piore og Sabel muni rætast, og ný iðnbylting muni færa framleiðslugetuna í hendurnar á almenningi með auknum hætti, ef eigandavald stendur ekki of mikið í vegi fyrir það.
Þetta þrennt muni skapa aðstæður þar sem draumur Gorz um gullöld atvinnuleysisins geta orðið að veruleika – atvinnulíf mun gjörbreytast og verða valkvæmt að meira mæli en áður, en þá þarf að tryggja öllum grunnframfærslu og skapa betri jarðveg fyrir menningarstarfsemi.
Meðan á þessu stendur mun þjóðin eldast verulega. Barneignum fækkar, fólk lifir lengur, og ef ekkert breytist mun þetta hafa verulega íþyngjandi áhrif á velferðarkerfið. Geta okkar til að sinna sjúkum, öldruðum og fötluðum mun verða gríðarlega stór þáttur í samfélaginu okkar.
Skilningur okkar á mannslíkamanum, lífríkinu og eðlisheiminum á eftir að aukast verulega. Í dag skiptum við um hér um bil hvaða líffæri sem er í fólki, ekki er langt þar til að verulega erfiðar siðferðislegar spurningar fara að blossa upp í samfélaginu: geta tveir eða fleiri einstaklingar notað sama líkama? Hvaða réttindi hafa klón? Hefur einstaklingur sem hefur losað sig við líkama sinn ennþá kröfu til mannréttinda?
Þjóðríkjum mun fækka en sjálfstæðum löndum mun fjölga. Síðustu hundruð ár hafa bandaríki Ameríku verið eina landið sem hefur stækkað markvisst, þróunin allsstaðar annarsstaðar er að smærri lönd verða til þar sem forsendur þjóðríkjafyrirkomulagsins bresta. Á Íslandi verður birtingarmyndin líklega aukin krafa til sjálfsstjórnar á því stigi sem við kennum nú við sveitarfélög.
Togstreita milli þjóðernishyggju og múltíkúltúralisma á eftir að ná meiri hæðum með aukinni tengingu milli trúarbragða og þjóðarímyndar. Evrópusambandið á eftir að þurfa að finna einhverja nýja leið út úr því veseni sem það er að koma sér í. Dulda kynþáttahatrið sem felst í fjölþjóðastefnu þarf að uppræta; á Íslandi mun það þýða verulega aukningu í blöndun þjóða, tungumála og hefða.
Ef við ætlum að smíða stjórnarskrá fyrir Ísland sem endist næstu öldina, þá munum við þurfa að taka tillit til þessara atriða, og margra annarra. Við þurfum að taka mið af því gildismati sem er að koma fram og forðast að hengja okkur í gildismati fyrri tíma.
Hverjir bera kyndilinn?
Ég hef ekki séð annað en að þeir sem munu koma að gerð nýrrar stjórnarskrár passi nokkuð vel í þrjá hópa.
Fyrsti hópurinn verður uppfullur af afdönkuðum pólitíkusum sem vilja baða sig einu sinni enn í frægðarljómanum sem fylgir því að stofna nýtt lýðveldi og svo einstaka rísandi stjörnu úr stuttbuxnadeildum flokkanna sem er að reyna að afla sér reynslu í vernduðu umhverfi. Kosningaherferðir þessa hóps verða auðþekktar á því að þeir slá upp undir tveggja milljón krónu hámarkið með styrkjum frá undarlega ónefndum aðilum og fá svo í kjölfarið stuðningsyfirlýsingar og ókeypis auglýsingar frá ýmsum aðilum, kannski mismikið eftir því hvað baráttan verður hörð.
Annar hópurinn verður skipaður fræðimönnum, prófessorum í stjórnmálafræði, lögfræði, og fleiri greinum, sem flestir hverjir munu hafa langan starfsferil að baki í að rannsaka núverandi stjórnskipulag, og vita það að ef breytingar eru gerðar verður öll vinnan þeirra rýrð gildi sínu að hluta. Þó verða þessir aðilar flestir hverjir með einhverjar hugsjónir sem koma af því að hafa horft upp á eitthvað misfarast í stjórnkerfi landsins alla sína starfsævi; þeir munu bera þetta atriði upp sem baráttumál sitt. Þessir aðilar munu birtast í kappræðum sem yfirvegaðir og sjálfsöruggir, leiðréttandi öll mistökin sem hópur þrjú gerir með spekingslegum svip.
Þriðji hópurinn er skipaður pólitískum öfgamönnum sem hafa sterkar skoðanir á öllu milli himins og jarðar, hafa rætt heimsmálin yfir þó nokkuð mörgum kaffibollum og telja sig vita nákvæmlega hvað þurfi að gera. Einhverjir í þessum hóp munu aldrei hafa lesið stjórnarskrá Íslands, hvað þá annarra landa, og flestir þeirra munu telja að allsherjarregla sé “regla” í merkingunni “lögmál”, en ekki “regla” í merkingunni “reiða”. Kosningaherferðir þessa hóps munu sennilega eiga sér stað fyrst og fremst á Facebook, en einhverjir eiga örugglega eftir að efna til fámennra útifunda á Austurvelli.
Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér. Þennan kyndil verður ögn breiðari og skynsamari hópur að bera. Sér í lagi þarf ungt fólk að koma inn í þetta af miklu afli. Ungt fólk mun þurfa að verða gamalt undir þeirri stjórnarskrá sem verður til núna, nema um Bólivískan óstöðugleika verði að ræða, og því skiptir miklu máli að unga fólkið fái að leggja sitt gildismat í púkkið. Ég sagði við vin minn um daginn, sem á von á barni, að aðkoma hans að nýrri stjórnarskrá yrði sennilega besta gjöf sem hann gæti gefið barninu sínu, og mér var mjög alvara með það. Góður vinur minn sagði eitt sinn um ástandið í Íran að “ef unga fólkið tekur ekki völdin munu illu skeggin halda þeim.” Sama á við hér.
Markmið hinna
Mín markmið með nýrri stjórnarskrá eru því ólík markmiðum margra annarra. Ég tel að við verðum að ákveða hvert við viljum fara áður en við leggjum af stað, en það er ljóst að sumir eru bara ekkert sammála um að það eigi nokkuð að leggja af stað. Allskonar stefnur blossa upp á þessum leikvelli, enda eru hagsmunir svo margra með í leiknum – ekki bara þeirra sem nú lifa á landinu, heldur líka þeirra sem munu flytja hingað eða fæðast hér á næstu öld. Einhverjir eiga eftir að leika afturhaldssemishlutverkið í þessu stjórnlagaþingi, einhverjir munu taka eitthvað sem þeir kalla gullin meðalveg, og einhverjir eiga eftir að ganga hart fram með stefnuskrá úr framtíðinni.
Hvað svo sem gerist í stjórnlagaþinginu, þá verður útkoman að vera betra samfélag. Ef við getum ekki sammælst um neitt annað en það þá er það þó eitthvað.

var að fá

alveg (þó ég segi sjálf frá) yndislegan disk í hendurnar, Gersemar þjóðlagasafnsins.

diskur

Marta Halldórsdóttir og Ólafur Kjartan Sigurðarson syngja 39 þjóðlög við undirleik Arnar Magnússonar, Tómasar Guðna Eggertssonar og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur. Flestar útsetningar eftir undirritaða. Leyfi mér samt að mæla með diskinum, gefinn út af Smekkleysu og fæst í helstu hljómplötubúðum landsins (þar á meðal Gogoyoko og tonlist.is – án þess að ég hafi reyndar gáð að því…)

plöggidí

á sunnudaginn kemur, þann 7. mars klukkan 20:00 flytur Hljómeyki hina yndislegu sálumessu franska tónskáldsins Duruflé ásamt fleiri verkum.

Tónleikarnir verða í Kristskirkju í Landakoti, unaðslegur hljómburður og rammi um verkin.

Um að gera að bregða sér á tónleika, um klukkutími að lengd, ekki verður hlé. Ágætt að taka með sér sessu, Kristskirkja er ekki með þægilegustu bekki í veröldinni.

Stjórnandi á tónleikunum er Magnús Ragnarsson, á orgel kirkjunnar leikur Steingrímur Þórhallsson og Marta Halldórsdóttir og Ágúst Ólafsson syngja einsöng.

Aðgangseyrir 1500 krónur í forsölu í 12 tónum og hjá kórfélögum (má hafa samband í kommentakerfinu – ég þarf að selja nokkra miða) en 2000 krónur við innganginn.

tvöfalt plögg og söknuður

Vá hvað ég mun sakna Söngvaseiðs, síðasta sýningin í dag. Þó ég hafi auðvitað ekki tekið þátt í öllum 85 sýningunum (eða svo) þá er þetta búið að vera hrikalega skemmtilegt og ég búin að kynnast fullt af yndislegu fólki, börnum og fullorðnum, kvöddum fyrri barnahópinn með tárum í gær og svo alla í dag auðvitað.

Ég held reyndar að það sé nánast uppselt en prófið samt – það gæti verið einn og einn miði eftir.

Svo þarf ég hins vegar að hlaupa beint eftir sýningu, tek væntanlega ekki einu sinni uppklappið, tónleikar hjá okkur í Sinfóníuhljómsveit áhugamanna klukkan fimm (Söngvaseiðssýningin er búin kortér fyrir fimm) í Seltjarnarneskirkju. Þar eru mjög áhugaverð verk, Hymni eftir Snorra Sigfús, yndislegt hægferðugt verk með sterk höfundareinkenni Snorra, konsert fyrir – haldið ykkur: 8 pákur og eitt óbó eftir Jiri Druzchetsky, í klassískum stíl og svo Pákusinfónían eftir Haydn, bráðskemmtilegt stykki með stefjum frá austurevrópu. Lofa Frank í stuði á pákunum.

Hvernig væri nú að kíkja á annanhvorn staðinn í dag? Mjög ólíkt en bráðgóð skemmtun á báðum stöðum.

bölvun járns

Ekki man ég hvort ég hef byrjað plögg fyrir tónleika svona snemma áður en mikið hrikalega held ég að tónleikarnir okkar þann 8. nóv verði magnaðir. Kolheiðið verk í kirkjunni, fáránlega flott, Raua Needmine eftir Veljo Tormis. Já fleira, margt fleira en nú er ég bara með það á repeat.

Ekki verra að stóri litlibróðir kemur frá Egilsstöðum til að syngja tenórsólóið.

vantar samt diskinn minn ennþá…

Nánar þegar nær dregur.

plöhögg

Fífa og heill risastór hópur af vinum og félögum hennar er að fara að flytja 5. sinfóníu Sjostakóvitsj í Háskólabíói á laugardaginn kemur klukkan fimm. Rumon Gamba, aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og snillingur stjórnar krökkunum í þessu stórvirki.

Mæli sterklega með tónleikunum – þetta eru gríðarflottir krakkar og verkið náttúrlega magnað.

prag-olomouc

Gradualekórinn er að fara til Tékklands í keppnisferð eftir nokkra daga. Verður spennandi. Þær halda tónleika á fimmtudaginn kemur í Langholtskirkju klukkan (hmm, já, klukkan hvað) 20:00. Mæli með að fólk kíki, þetta verða pottþétt mjöööög flottir tónleikar. Kórinn er landi og þjóð til sóma.

Sjá hér fyrir þá sem eru með flettismettiaðgang.

rekstrarvörusala

jæja komið að því, Fífa að fara í kórferð – verður árlegt úr þessu sýnist mér.

Ef einhver vill ágætis klósettpappír (þriggja laga góður Lotus, 30 rúllur á 3.900) eða eldhúsrúllur, (tveggja laga, 20 rúllur á 3.300) keyrt heim að dyrum þá hafið samband.

Já og hún er reyndar líka að selja kórdiska, fínir diskar á 2000 kall, nýjasti síðan í fyrra en það eru líka til eldri Gradualediskar. Upplagt að kaupa til að fylla upp í diskarekkann eða þá fyrir gjafir…

tónleikar

jæja, komið að áfimmviknafresti plögginu.

Sinfóníuhljómsveit áhugamanna heldur fjórðu tónleika starfsársins á sunnudaginn kemur. Gríðarlega spennandi efnisskrá, að minnsta kosti varð ég fyrir mjög miklum áhrifum þegar ég heyrði Fratres eftir Arvo Pärt í fyrsta skipti, ótrúlega magnað stykki. Og já, við eigum alveg að geta skilað því mjög vel. Richard Simm myndi ég segja að sé einn okkar albestu píanista og píanókonsert Chopins í f-moll er glæsilegt verk, mjög áheyrendavænt. Svo er jú fullgerða sinfónía Schuberts (harðneita að það sé nokkur skapaður hlutur ófullgerður við hana, þó hún sé bara tveir kaflar) alltaf yndislegt verk og við kunnum hana mjög vel, enda ekki mörg ár síðan við fluttum hana síðast.

Kíkið endilega á tónleika, klukkan fimm í Seltjarnarneskirkju.

rauðsokkur

Ég veit ekki hvort það komst til skila til allra flytjenda og tónskálda kvennatónleikanna í dag, en stefnan var að við yrðum allar í rauðum sokkum eða sokkabuxum, svona í tilefni dagsins.

Ég keypti mér allavega rauðar sokkabuxur og mun mæta í þeim á eftir.

Klukkan fimm í Þjóðmenningarhúsinu, svo allir muni nú eftir þessu…

peelögg!

Á sunnudaginn kemur, þann 8. mars verða haldnir ógurlegir kvennatónleikar í Þjóðmenningarhúsinu, klukkan fimm (17:00)

Á efnisskrá eingöngu verk eftir konur, flutt af konum. Karlar þó að sjálfsögðu velkomnir að koma og hlusta (áður en við verðum skotnar í kaf er örugglega hægt að benda á ansi marga hliðstæða tónleika þar sem kynin eru í öfugu hlutfalli – enda ekki skrítið miðað við hlutfall kvenna og karla í tónsmíðum gegn um aldirnar).

Efnisskrá hér, gessovel:

Jórunn Viðar: Íslensk svíta
(1918) fyrir fiðlu og píanó

Anna Þorvaldsdóttir: Auðir bíða vegirnir
(1977) fyrir sópran, fiðlu og píanó

Hildigunnur Rúnarsdóttir: Píanótríó
(1964) fyrir fiðlu, selló og píanó

Þuríður Jónsdóttir: Epithalamion
(1967) fyrir sópran, flautu og píanó

Karólína Eiríksdóttir: Renku
(1951) fyrir klarínettu, fiðlu, selló og píanó

—– HLÉ —–

Bára Grímsdóttir: Dance suite for Matti
(1960) fyrir einleiks fiðlu

Þóra Marteinsdóttir: Brotabrot (frumflutningur á Íslandi)
(1978) fyrir klarínettu, fiðlu, píanó

Elín Gunnlaugsdóttir: Im dunklen Spiegel
(1965) fyrir sópran, enskt horn, fiðlu,
víólu og selló

Mist Þorkelsdóttir: Transfiguration (frumflutningur á Íslandi)
(1960) fyrir klarínettu, fiðlu og píanó

Eins og sést er talsverður aldursmunur á tónskáldunum. Verður forvitnilegt að heyra þróunina.

Kaffistofa Þjóðmenningarhúss verður opin og fólk hvatt til að fá sér kaffibolla og meððí í hléi – eða jafnvel á meðan, þetta verða langir tónleikar og alveg sjálfsagt að koma bara fyrir part af þeim, lauma sér inn eða út í klappi og róti milli verka.

unglingurinn

er búin að vera á Siglufirði alla helgina, með Ungfóníu. Þau héldu tónleika í dag klukkan 2, gekk víst ógurlega vel, eru nú á leið í bæinn aftur, reiknað með þeim um 11leytið.

Endurtaka tónleikana í Háskólabíói klukkan 20:00 annað kvöld, þangað kem ég alla leið frá Skálholti til að hlusta (ýmislegt á sig lagt).

Hvet alla til að kíkja á framtíðartónlistarfólk landsins og sjá hvað þau geta. Miðar á 2000 kall við inngang. Spila Appalachian Spring eftir Copland, nýtt verk eftir Benna Hemm Hemm og svo þriðju sinfóníu Mendelssohns, þá skosku. Mæli eindregið með því

hrós

fórum í Markið í morgun og fengum þvílíkt fína þjónustu. Hreint ekki hægt að reikna með svona, við hefðum ekkert kvartað þó við hefðum verið látin borga eitthvað.


bland í poka

teljari

  • 373.752 heimsóknir

dagatal

nóvember 2021
S M F V F F S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
282930  

sagan endalausa