Archive for the 'bögg' Category

bráðsniðugt

að skiptast á sölu – nú er ég búin að kaupa bæði gulrætur og kleinur á móti kertasölu, hver veit hvað kemur svo upp næst?

Verst að það eru allir með fjárans klósettpappírinn (sem minnir mig á, nú er Freyja komin með svoleiðis blöð og er farin að selja aftur, klósettpappír, eldhúsrúllur og lakkrís).

Væri svo verulega til í að þurfa ekki að standa í þessu sölustússi samt. Ekki beinlínis það skemmtilegasta sem ég veit…

ekki versla við Hljómsýn og Litsýn

minns er fúll núna!

Forsagan: Fjölskyldan gaf mér heyrnartól í jólagjöf, ég á erfitt með að vinna heima nema þegar ég er ein, þar sem tónsmíðar þurfa talsverða einbeitingu og gengur illa ef einhver er með sjónvarpið í gangi niðri í herbergi fyrir neðan skrifstofuna mína (tröppur á milli, ekki hægt að loka). Þannig að mig var farið að langa í góð heyrnartól. Fórum fyrst í Pfaff til að athuga með Sennheiser, því miður voru ekki til þar tól sem mér fannst henta mér. Við í Hljómsýn og fundum þar þessi og leist vel á. Smelltum okkur á þau.

Nema hvað. Við erum búin að nota þau og passa gríðarvel upp á þau í rúmlega hálft ár, sándið fínt, ekkert upp á það að klaga. Einn daginn sit ég inni í stofu og Freyja hjá mér. Hún ætlar að fara að horfa á einhvern þátt í tölvunni, tekur heyrnartólin og ætlar að setja þau upp á höfuðið. Nema spöngin bara brotnar! Hún er þá úr einhverju ósköp venjulegu plasti, ekkert styrkt. Freyja var ekkert að þvinga þau út og hún er ekki höfuðstór, var bara að smeygja þeim ósköp venjulega upp á höfuðið. Hreint ekki verið að fara illa með þau á nokkurn hátt.

Ég nokkrum dögum seinna í Hljómsýn og lýsi atvikum. Fæ þar mjög almennilegan starfsmann sem segist ætla að athuga hvort ekki sé hægt að græja þetta fyrir mig. Heyri svo ekkert frá þeim í um 3 vikur. Fer núna eftir helgina og þá var komið annað hljóð í strokkinn. (annar afgreiðslumaður sem ég áttaði mig síðan á að var eigandinn): Þið hljótið að hafa farið illa með þetta, svonalagað brotnar ekkert við eðlilega notkun. Við höfum ekkert með þetta að gera. Farðu bara upp í Litsýn, þeir sjá um viðgerðir fyrir okkur. Sagt með talsverðum þjósti.

Ókei, shit happens, við getum auðvitað ekki sannað að það hafi ekki verið farið illa með græjuna. Upp í Litsýn.

Þar er ósköp almennilegur afgreiðslumaður, tekur á móti heyrnartólunum, spyr mig hvað þau hafi kostað (30 þúsund – áttu reyndar að vera heldur dýrari), jújú þá geti nú verið að það fáist varahlutur. Ég heim. Strax daginn eftir fæ ég sms um að þetta sé tilbúið. Þangað aftur og jú jú, viðgerðin búin en getið hvað þetta kostaði.

Fimmtán þúsund fjögur hundruð og áttatíu krónur takk.

Ég ætla ekki að efast um að þetta hafi verið talsverð vinna, en að manninum skyldi ekki detta í hug að hringja í mig þegar hann áttaði sig á því hvað þetta gæti orðið dýrt og spyrja hvort ég vildi samt láta gera við – það get ég ómögulega skilið. Hefði ekki dottið það í hug – annaðhvort fengið að kaupa varahlutinn og altmuligmanden minn hefði fiktað þetta saman, eða þá bara taka fram duct tape og vírherðatré eða álíka.

Allavega mun ég væntanlega hvorki stíga fæti inn í búðina né viðgerðarþjónustuna aftur. Grrrr!

íííkk

ég held að litli sæti usblykillinn minn sé dáinn.

Hann fór nefnilega víst alveg óvart í þvottavélina…

sokkar

Aldrei skil ég svona pakka af sokkum eins og er oft hægt að kaupa, barnasokkar, 5 í pakka sitt parið af hverjum lit. Jú stelpusokka reyndar kannski, en á stráka (pardon, my prejudice’s showing), Finni er allavega nákvæmlega sama í hvernig litum sokkum hann er en mamma hans vill nú helst að þeir séu hreinir, heilir og já, samlitir.

Þar sem sokkar hverfa í Hozone layer í þvotti er náttúrlega til dobía af stökum sokkum, mismunandi lit en að öðru leyti alveg eins.

Ef ég myndi nú hvar ég keypti 10 pör af gráum sokkum (öllum eins) í fyrra myndi ég fara þangað aftur og kaupa annað sett. Búið að vera snilld, finn alltaf tvo sem má para saman. Örugglega slatti af þeim í hósonlaginu en það gerir barasta nánast ekkert til. Þeir sem eftir sitja á jörðinni eru hins vegar farnir að slappast smá, þó amma drengsins hafi stoppað í einn eða tvo.

Kannski var þetta í Adams í Penis Mall. Mætti tékka…

ekki var ég

nú svo drukkin á árshátíð Hljómeykis um síðustu helgi að ég geti kennt því um en einhvern veginn tókst mér að gleyma skónum mínum uppfrá! tja reyndar veit ég alveg hvernig ég fór að því, notaði tónleikaskóna líka sem inniskó í búðunum, tíndi til dótið mitt á sunnudagsmorgninum klædd í inniskó sem eru svo sem líka útivænir, bárum töskurnar og nótnapokann út í bíl, settumst inn og keyrðum í bæinn.

Svo í fyrramorgun þegar ég ætlaði út í leikfimi fann ég hvergi götuskóna mína. Hugsaði svo sem ekki meira út í það akkúrat þá, dreif mig bara út í einhverjum skódruslum, kom heim, settist við tölvuna og fór að athuga póstinn. Þá hafði auðvitað einn kórfélagi tekið eftir skóm í anddyri en þó ekki tekið þá með.

Vill til að Væla systir er á leiðinni upp í Hálskolt um næstu helgi, ekki að vita nema ég geti doblað hana til að kippa skónum mínum með heim. (blikk, blikk…)

hóst, snörl, rýt

nei, ég er ekki komin með kvef, eiginlega ætla ég aðallega að hrósa tónleikagestunum í gær.

Það var nefnilega bara hóstað milli fyrsta og annars kafla, bilin milli annars og þriðja og fjórða kafla fengu að vera nánast alveg hóstafrí.

Þagnir í tónlist eru jafnmikilvægar og tónarnir nefnilega. Líka milli kafla í heildstæðum verkum. Áhrifamikil lok kafla, byrjun á næsta er ekki veiðileyfi á líkamshljóð. Milli verka, hvort sem er klappað eða ekki er allt annar hlutur.

Og að fólk skuli ekki fatta að nota tækifærið þegar allt er á fullu í hljómsveitinni, brass og slagverk í gangi, til að losa sig við hóstann og snýturnar, því næ ég bara engan veginn. Þá heyrist nefnilega ekki neitt.

Var einmitt að kenna Finni þetta í gær, hann vildi endilega hvísla einhverju að mér rétt á meðan strengirnir voru með tremoló í pp – stoppaði hann af en leyfði svo næst þegar eitthvað meira var að gerast. Mikið sniðugra og truflar ekki neinn.

Só ðer!

neeeei

það átti ekkert að fara að rigna aftur! Ég sem ætlaði í sveppa- og berjamó á morgun!

Kannski er ekki rigning fyrir austan fjall?

þvílík vinna

að fara í gegn um alla brandarana sem ég hef misst af þessa rúmu viku! Náði að hreinsa upp Skálholtsvikuna á mánudaginn og er að rúnna út þessa núna.

Ekki einu sinni byrjuð á Fréttablöðunum, bóndinn hneggjar yfir Gelgjunni hér inni í eldhúsi, og það eru fleiri góðar seríur þar. Svo ég haldi áfram að dissa Moggann þá er hann bara með tvær góðar seríur, önnur er Kalli og Kobbi (harðneita að kalla það Kalvin og Hobbes), sem maður náttúrlega kann utanað og svo Grím og Gæsamömmu sem er fín. Hitt er rusl. Hvernig stendur á því, með svona margar góðar seríur, að kaupa bara rusl?

Allavega, Bound and Gagged var með eina ansi góða hér:

(hmm, minnir mig á að lesa Gelgjuna á netinu, mér hefur ekki tekist að gerast áskrifandi þar þó ég hafi reynt, grrr!)

búið að skemma

sturturnar hér í skálanum, það voru settir upp nýir og fínir sturtuklefar með blöndunartæki með hitastilli (efast reyndar um að það fáist öðruvísi núna). Þetta þýðir að það rétt drýpur úr sturtunum, allavega eftir að einhver sturtar niður úr klósettunum. Hér er semsagt lítill þrýstingur á kalda vatninu.

Sé fram á sund á hverjum degi. Sem betur fer er úrval sundlauga hér í kring.

urrg

memory card error á litlu myndavélinni minni. Sem betur fer voru ekki margar eða mikilvægar myndir á kortinu – held ég…

hljóðmengun

hvernig stendur á því að fólki finnst sjálfsagt að koma með græjur út í garð og stilla uppáhaldsmúsíkina sína á fullt blast, þegar það fer út í sólbað? Fórum í Skipasund áðan að sækja okkur sumarblóm, þar sat gaur í næsta garði með eitthvað leiðinda rokk á fullu, samkvæmt húsráðendum hafði þetta verið allan daginn í gær og aftur í dag. Svo heim, sátum úti á palli svolitla stund, einhver í nágrenninu blastaði kántrísöngkonu, reyndar ekki alveg eins hátt og í Skipasundinu en nógu hátt samt.

Frekar pirrandi og tillitslaust, ekki nokkur ástæða til að hafa músíkina hærri en svo að maður sjálfur njóti hennar en trufli ekki aðra. Já eða taka æpoddana eða önnur slík tæki í notkun – mér dettur til dæmis ekki í hug að allir hafi jafn gaman af Mahler og Prokoffieff og ég.

mikið er leiðinlegt

að skipta um dekk, þegar bíllinn stendur í brekku…

Fékk reyndar hjálp, sem betur fer, ég gat ekki fyrir mitt litla líf hnikað rónum, allt allt of fastar. Bankaði upp á hjá einum minna ágætu nágranna, myndlistarmanni sem vinnur heima, og hann hjálpaði mér fyrst að losa og svo náttúrlega hætti hann ekkert í miðju kafi, heldur hélt áfram að hjálpa mér að skipta. Góðir nágrannar eru ómetanlegir…

urr

hvað er með þessar nýju Nova flash auglýsingar á mogganum. Orðið ólesandi fyrir þessu, fer fyrir textann mjög víða. Setti upp flash block á Firefoxinn en það gerir moggabloggið nánast ólæsilegt. Plííísplísplís, moggabloggarar sem ég les og lesa hér, splæsið nú í að vera auglýsingalaus. Held það sé bara Heiða og Lára Hanna sem eru án auglýsinga, úr mínum moggahring.

hvaðan í ósköpunum

kemur þetta útburðarvæl sem berst hér inn um gluggana kvöld eftir kvöld? Er Innipúkinn á Barnum (eða heitir hann aftur 22 núna)?

Þessi fúli gamlingi hér gæti allavega alveg lifað án búmmtsjakasins inn um gluggana, takk.

úff

þau koma ekki fyrr en upp úr hálftólf, sýnist mér, kannski nær tólf. Og ég sem er að farast úr syfju…

En mikið hlakka ég til að sjá unglinginn aftur!

ætluðum

að tilkynna hjólið hans Finns stolið en þá er skrifstofan ekki opin nema til hálffjögur, héldum það væri til fjögur. Er enn að vonast til að það hafi ratað í óskilamuni, ótrúlegt að einhver hafi stolið þessu hjóli til að eiga það, eða senda út, ekki svo merkilegt hjól.

Hins vegar eru víst einhverjir prowlers á ferli í Garðabænum þessa dagana, fólk þorir varla að fara í burtu í frí, einni fjölskyldu frétti ég af sem náði ekki einu sinni upp í flugvélina, þegar það var hringt í þau, búið að brjótast inn og stela hellings verðmætum. Andstyggilegt.

komin niður

í gegn um bunkann, sleppti slatta, er bókað ekki að missa af miklu.

Tannlæknir áðan, lokasprettur á nýju tönninni, gert upp, 81K úff. Hrikalega er svona dót dýrt. Má víst samt þakka fyrir að ekki þurfti að gera brú eða setja festingu í bein.

Erfiðar fréttir í morgun, stundum vildi maður óska þess að trúa á eitthvað og geta beðið fyrir fólki. Vonandi fer allt vel.

Best að vinna smá áður en ég sest við ferðasöguna…

gaaah

svaf alveg hroðalega illa, er að drepast í bakinu, (má ekki beygja mig, þá kemur stingur), svo pípir síminn á mig til að minna á kennarafund í Suzuki og ég er ekki á bílnum.

VÆÆÆL!

kisuræfillinn

hún hatar að fara til dýralæknis, fór með hana þangað í dag til að tékka á þessu inkontinens dæmi í greyinu, væntanlega með væga sýkingu. Titraði og skalf, hundræfill í búri vælandi þarna líka, ekki róaðist hún við það, fékk tvær sprautur og heim með sér tvenns konar lyf og nýtt fóður.

Lyfin, já, þarf að taka eina og hálfa litla pillu, tvisvar á dag. Gáfum henni fyrsta skammt núna í kvöld. Þurfti þrjá til. Ekki auðvelt. Tíu daga skammtur. Úff!

vona að hún móðgist ekki svo illilega við okkur að hún hlaupi að heiman. Ætluðum að gefa henni verðlaun, eina rækju, eftir pillurnar en auðvitað var ræfillinn orðin svo æst og pirruð og hrædd að hún leit ekki við henni. Át samt rækjuna síðar, úr dallinum sínum.

Vona virkilega að greyið átti sig á því að þetta er ekki svona svakalegt, ég hlakka engan veginn til að berjast svona við hana í 19 skipti til…

ég dáist að

þjónum sem aldrei virðast lenda á erfiðum töppum þegar þeir opna vínið fyrir framan mann.

Lenti á tveimur erfiðum í dag, annar var svo stífur að ég hreinlega var ekki nægilega sterk til að ná honum og hinn seinni slitnaði í tvennt. Væri þokkalega vandræðalegt að lenda í öðru hvoru fyrir framan borðið sem pantaði vínið.

Væntanlega þýðir þetta aðallega vankunnáttu mína. Og þó…


bland í poka

teljari

  • 375.416 heimsóknir

dagatal

desember 2022
S M F V F F S
 123
45678910
11121314151617
18192021222324
25262728293031

sagan endalausa