Í gær kúrðum við elsta dóttirin uppi í rúmi og ég var að hjálpa henni með heimavinnuna. Meðal annars íslensku, eitthvað orðaforðadæmi í vinnubók við Skruddu (ekki þó þessa Skruddu). Lýsingar á fólki og hún átti að finna eitt lýsingarorð sem við átti. Til dæmis: Siggi kemur alltaf með vel útilátið nesti í skólann, en tímir aldrei að gefa neinum með sér. Siggi er ____________. Flest var nokkuð augljóst, þó ekki allt, nískan hjá Sigga kom hikstalaust. Síðasta spurningin var hins vegar: Jón kann mannasiði og kemur alltaf vel fram. Jón er ____________. Og hvað haldið þið að hún hafi sagt, eins og skot? Kurteis, nehei. Jón var sko nörd…
veit ekki hvert ég ætlaði.
Annars var þetta góð stund hjá okkur. Hún átti líka að finna skammstafanir sem hún þekkti, skrifa hvað þær þýddu og finna aðra möguleika. Upp var gefið td. BSRB, Bandalag sóprana og rámra baritóna, ekki slæmt. Hún mundi eftir ASÍ; við fundum út í sameiningu: Alþjóðlegt skeinifélag ísbjarna. Og varð úr því mikið hláturskast, sérstaklega þegar ég sagði henni að hún yrði náttúrlega að teikna lógóið. Gott að geta dottið í hláturskast með unglingnum sínum ennþá.
Nýlegar athugasemdir