Sarpur fyrir apríl, 2023

Ástralíutúr H&H dagur 16. Heim

Best að henda inn lokadeginum, hálf endasleppt að sleppa honum þó ég geri það stundum í þessum ferðabloggum. Þetta var bara svo stór heimferð að það væri skrítið að skrifa hana ekki.

Vöknuðum um hálfníu, ég hafði sofið betur en Hallveig sem hafði aldrei ætlað að sofna út af adrenalínkikkinu. Gengum frá húsinu, við höfðum ekki þurft að borga þessa gistingu (þetta var eina sem var splæst á okkur í allri ferðinni, að öðru leyti vorum við að keyra okkur á okkar styrkjum héðan að heiman og dugði reyndar ekki alveg til, ekki það við bjuggumst svo sem ekki við því heldur. Dýrt fyrirtæki að fara svona hinu megin á hnöttinn).

Bíllinn okkar fíni og þreytta söngkonan.

Ég byrjaði að keyra í þetta skiptið. Ferðin frekar tíðindalítil, pissu- kaffi- og samlokustopp ekki á krúttlegu kaffihúsi eins og á leið þangað heldur bara á svona road trip vegasjoppu. Fínt kaffi samt og þokkalegasta samloka.

Hallveig var enn þreytt en akkúrat þarna var ég ekki nokkurn hlut þreytt svo ég bauðst til að keyra bara áfram, með því skilyrði að Hallveig yrði með mér í gúgul maps rateríinu enda sterkari á því svelli heldur en ég, þó ég hefði reyndar bókað alveg klórað mig fram úr því svona óþreytt.

Aksturinn inni í Sydney gekk bara fínt, það sem við vorum orðnar fjandi góðar í þessu! Bílaleigan bauð upp á skutl á völlinn svo við þurftum ekki að hafa áhyggjur af því. Töskur innritaðar alla leið til Kef sem var mesti lúxusinn. Krossaði bara putta að það færi ekkert alveg óvænt að gjósa svo við þyrftum að gista í London eins og gerðist 2010 þegar við Jón Lárus komum frá Ástralíu, lentum í þvílíku veseni með farangurinn þá.

Loungeið klikkaði ekki frekar en fyrri daginn.

Þessi sleek British Airways vél var alveg að gera sig – allavega utan frá:

en innan í, á almenna farrýminu, var þetta alveg hálfvitalega þröngt! Sjö til átta tíma ferð þar sem er ekki nokkur leið að hreyfa sig er eiginlega ekki alveg að gera sig. Ég var í miðjusæti og tróð bakpokanum undir sætið fyrir framan sem reyndist massíf mistök því ég sat skökk allan tímann og gat ekki teygt úr fótunum. En þetta gekk nú samt.

Lounge í Singapore (minnir mig allavega). Svo fimmtán tíma flugið til London. Heldur betra pláss í vélinni og ég náði, með hjálp svefntöflu, að steinsofa í allavega átta tíma af þessum fimmtán. Hallveigu gekk ekki alveg eins vel að sofa en náði samt nokkrum þokkalegum blundum.

Fyrir lendingu í London. Nema þetta hafi verið út um gluggann í Singapore. Man ekkert!

London Heathrow Terminal 5. Mæli ekki með loungeinu sem Priority Pass virkar í. Fann ekki einu sinni klósett þar og freyðivínið kostaði aukalega (döh!) En svo sem alveg smá næs samt.

Flugið heim, eins og síðast, tók því einhvern veginn ekkert að lyfta vélinni því hún byrjaði strax að fara niður aftur. Farangurinn skilaði sér heill á húfi, Jón Heiðar hennar Hallveigar sótti okkur og það var alveg fááárááánlega gott að koma heim eftir 38 tíma ferðalag!


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

apríl 2023
S M F V F F S
 1
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
30  

sagan endalausa