Við bóndinn og einkasonurinn vorum orðin frekar mygluð hér heima yfir súkkulaði og tölvum þannig að út var drifið sig í göngutúr í sól og vori (jájá getur vel verið að það eigi eftir að koma kuldakast en það er bara SAMT vor í lofti).
Byrjuðum í styttugarðinum hjá Hnitbjörgum en svo fórum við að rifja upp allar sjoppurnar sem voru einu sinni í miðbænum og gengum um og bentum Finni á hvar þær höfðu verið. Ein á Bergstaðastræti rétt hjá þar sem Þvottahús A. Smith er, önnur á horni Freyjugötu og Njarðargötu, tvær á/við Óðinstorg, rifjuðum svo upp Tvistinn og Örnólf við Snorrabraut þó við reyndar gengjum ekki alla leið þangað. Ekki nema örfáar eftir, Drekinn á sínum stað, Söluturninn við Grundarstíg og Vikivaki. Erum alveg bókað að gleyma einhverjum.
Skemmtilegur bónus (ekki þó Bónus) við gönguna var að við sáum áreiðanlega 5 flottar graffitimyndir sem við höfum aldrei rekið augun í áður. Sumar pottþétt alveg nýjar. Lítið hins vegar um skemmdarverkjagraff. Slatti af nýjum stillönsum og fólk að dytta að húsunum sínum líka. Heimur batnandi fer.
Nýlegar athugasemdir