Sarpur fyrir mars, 2013

páskagöngutúr

Við bóndinn og einkasonurinn vorum orðin frekar mygluð hér heima yfir súkkulaði og tölvum þannig að út var drifið sig í göngutúr í sól og vori (jájá getur vel verið að það eigi eftir að koma kuldakast en það er bara SAMT vor í lofti).

Byrjuðum í styttugarðinum hjá Hnitbjörgum en svo fórum við að rifja upp allar sjoppurnar sem voru einu sinni í miðbænum og gengum um og bentum Finni á hvar þær höfðu verið. Ein á Bergstaðastræti rétt hjá þar sem Þvottahús A. Smith er, önnur á horni Freyjugötu og Njarðargötu, tvær á/við Óðinstorg, rifjuðum svo upp Tvistinn og Örnólf við Snorrabraut þó við reyndar gengjum ekki alla leið þangað. Ekki nema örfáar eftir, Drekinn á sínum stað, Söluturninn við Grundarstíg og Vikivaki. Erum alveg bókað að gleyma einhverjum.

Skemmtilegur bónus (ekki þó Bónus) við gönguna var að við sáum áreiðanlega 5 flottar graffitimyndir sem við höfum aldrei rekið augun í áður. Sumar pottþétt alveg nýjar. Lítið hins vegar um skemmdarverkjagraff. Slatti af nýjum stillönsum og fólk að dytta að húsunum sínum líka. Heimur batnandi fer.

götunafnsmisskilningur

Erum í að dreifa nýjasta sölugóssinu frá Gradualekórnum (rááándýr ferð, vinsamlegast takið vel í söluplöggið næst). Ein vinkona mín hafði keypt nokkrar rúllur af plastpokum og þar sem við bóndinn vorum á ferð í Vesturbæinn hringi ég í hana til að athuga hvort hún sé heima. Sem reyndist vera.

Ég við bóndann: Hún á heima á Rekagranda. Jájá, Drekagranda segir hann. Hvar er það? Ég: Jú þarna vestur í bæ í jólatrjáablokkunum. Hann: Núnú ókei, ég man ekkert eftir þeirri götu. Ég hálfhissa, ekki eins og hún sé vel falin.

Eftir smástund fer hann aftur að velta fyrir sér þessum Drekagranda. Ég horfi á hann í forundran – varstu semsagt ekki að grínast með Drekagrandann? Hún á heima á Rekagranda! Ah!

Við á Rekagranda með engu D-i. Ég inn og segi vinkonunni frá þessu. Hún:

ÉG VIL BÚA Á DREKAGRANDA!!!!

 


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

mars 2013
S M F V F F S
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31  

sagan endalausa