Sarpur fyrir október, 2010

þingið

Jamm búin að skafa listann minn niður í ríflega þrjátíu manns. Svona er hann eins og er, en enn eru þetta jú fullmargir.

Stafrófsröðin blífur í bili, ég er ekki viss um að ég birti listann þegar hann er kominn í rétta röð eins og ég mun skila. Efst hjá mér verða þó væntanlega Smári McCarthy og Margrét Jensína Þorvaldsdóttir. Þó er þarna fólk sem ég þekki betur og treysti líka vel.

Smári veit ég að er búinn að hugsa gríðarmikið um stjórnarskrármál, talsvert lengur en bara frá því um hrun. Einnig einn gáfaðasti maður sem ég veit. Margrét er svo bráðskörp kona sem ég treysti mjög vel til að koma með góða punkta og vit inn í umræðuna.

En hér er listinn. Ekki forskrift, enda á enginn að segja öðrum hvað þau eigi að kjósa, en ég mæli með að kjósendur kynni sér fólkið:

Anna Benkovic Mikaelsdóttir 4382
Anna Kristjánsdóttir 9068
Ágúst Hjörtur Ingþórsson 5867
Ágústa Sigrún Ágústsdóttir 3623
Birna Þórðardóttir 4921
Elías Halldór Ágústsson 9904
Freyja Haraldsdóttir 2303
Friðrik Þór Guðmundsson 7814
Gunnar Grímsson 5878
Herbert Snorrason 5284
Hjörvar Pétursson 3502
Hlín Agnarsdóttir 6109
Hrafn Sveinbjarnarson 4173
Illugi Jökulsson 9948
Íris Erlingsdóttir 7968
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir 7319
Jón Jósef Bjarnason 5042
Kári Allansson 9145
Kolbrún Anna Björnsdóttir 2204
Kristín Elfa Guðnadóttir 6934
Margrét Jensína Þorvaldsdóttir 3315
Ómar Þorfinnur Ragnarsson 9365
Sigríður Dögg Auðunsdóttir 6153
Sigurður Grétar Guðmundsson4976
Sigþrúður Þorfinnsdóttir 4261
Silja Bára Ómarsdóttir 4987
Smári Páll McCarthy 3568
Stefán Pálsson 4954
Svanur Sigurbjörnsson 4096
Þorgeir Tryggvason 8969
Þorkell Helgason 2853
Þórunn Hjartardóttir 6956

hahaaa, kemur örugglega

öllum gersamlega á óvart, sérstaklega fbvinum að nú skal plöggað kertasölu.

Strákarnir í Drengjakór Reykjavíkur keyra sig á kertasölunni fyrir jólin, allir guttar eiga að selja 50 kertaeiningar. Vill til að flestir, trúaðir sem trúlausir (jánei, ætla ekki í umræðuna hér) brenna fullt af kertum á aðventu og yfir jól og strákalingarnir eru að selja þessi fínu gegnheilu Heimaeyjarkerti. Við tókum fjóra liti, aðventufjólubláan, jólarauðan, jólasnjóhvítan og égveitekkihvernigtengistjólum fílabeinshvítan. Flottir allir, svo er hægt að redda dökkgrænum, dökkbláum og dimmrauðum líka. Átta kerti saman í pakka á þúsundkall. Frí heimkeyrsla innan Stórreykjavíkursvæðis.

Hér sjást litirnir. Ef þið sjáið ekki mikinn mun á fílabeinshvíta litnum og þeim jólasnjóhvíta þá er það vegna þess að það er nánast enginn munur á þeim í ár. Þau í Heimaey hafa ekki sett alveg eins mikinn gulan saman við blönduna og í fyrra, hugsa ég.

Hér sjást svo strákarnir, ætla ekki að pósta jólalaginu nærri strax. Finnur er í nærmynd á 1’14“ ef einhver vill sjá.

stjörnurnar

Átti erindi Vatnsendaveg í gærkvöldi, bóndinn var á vínsmakki (þar sem eiginkonur gauranna eru ekki velkomnar :þ) og við yngri krakkarnir voru í góðu yfirlæti í Garðabænum á meðan.

Sóttum Jón upp úr klukkan 10, ég hef ekki áður keyrt Vatnsendaveginn í koldimmu að ég muni og það var ótrúlega stjörnubjart. Fann útskot, stoppaði bílinn og við Freyja og Finnur fórum út og dáðumst að stjörnuhimninum. Auðvitað var smá ljósmengun frá hverfunum í kring en þetta var samt mögnuð upplifun, maður sér stjörnurnar sjaldan svona vel.

Það er reyndar leitun að stað á landinu þar sem ekki er einhver ljósmengun, tja allavega stað í sæmilegu ökufæri. Maður sér ljós frá bæjum og þorpum fáránlega langt, á dimmum nóttum, sérstaklega þegar er svona stillt veður eins og í gærkvöldi. Synd, því maður nýtur bæði stjarna og norðurljósa mikið betur ef ekki er annað ljós að trufla.

Frábær upplifun samt.

línur

Humm. Ég á 5 línur eftir af ljóðinu og þarf helst að teygja þær í allavega 7 mínútur. Það er slatti.

Hvað er annars með að biðja um 20-30 mínútna langt verk í svona keppni?

Svo þarf ég að drattast til að skrá verkin mín frá tveimur síðustu árum og leggja inn í Tónverkamiðstöð. Maður myndi halda að formaður stjórnar miðstöðvarinnar væri voða duglegur að halda verkalistanum uppfærðum, en nei ekki alveg, víst…

Búin að vera að uppfæra partana við Blandaða dansa, áhugamannabandið spilar þá í desember. Meira plögg síðar.

lió

er bara oft ári fyndinn. Stráklingur um sex ára eða svo, en talsvert eldri í anda og með smekk fyrir skrímslum.
Finnst hér til dæmis.

brjálað stuð

og búmmtsjakamúsík hér á efri hæðinni, full hæð af MHingum á leið á grímuball á Nasa. Við aldraða settið sitjum niðri í sjónvarpsherbergi sitt með hvora tölvuna, hangandi á smettinu. Gaman aðissu.

Annars hafa úllíngarnir þennan fína tónlistarsmekk, í augnablikinu hljómar Queen á fullu og gengið syngur hástöfum með. Gæti verið verra, gæti verið miiiikið verra.

aðalfundir í hrúgum

jámm, er svona smátt og smátt að reyna að losa mig úr einhverjum ábyrgðarstöðum hér og þar. Á morgun ein formennska frá – kannski losna ég meira að segja frá því að sitja í stjórn, ef einhver er til í að bjóða sig fram (krossa putta).

Tími nú samt ekki að losa tökin á Hljómeyki, það er eiginlega inngróið. Væri kannski vit samt að láta einhverjum öðrum eftir formennsku þar – ef einhver er til í slíkt. Svosem búin að sitja feikinógu lengi.

Svo er nú spurning, eiginlega á ég að vera verkefnisstjóri fyrir Norræna tónlistardaga á næsta ári. Er eitthvað vit í því? Borgar sig ekki að keyra sig í kaf…

(hvers vegna í ósköpunum ætli ég sé annars ekki með neinn póst í kategóríunni „félagsstörf“?)

tónleikarnir

í dag tókust alveg bráðvel, enn alveg í skýjunum. Gunnar Kvaran lék einleik með okkur í Kol Nidrei eftir Bruch, verkið hentar honum fullkomlega, ég hlakka til að heyra upptökuna. Okkur var sagt að við hefðum smitast af spilagleði og innblæstri Gunnars, bara gott mál. Væntanlega er það honum að þakka að húsið var nær fullsetið, óvenju góð mæting.

Pelléas et Mélisande svítan eftir Sibelius er sérkennilegt en magnað tónverk, ég held að við höfum skilað því bara nokkuð vel en mér fannst þó takast enn betur upp í Bruch og svo Schubert sinfóníunni sem ég þekkti reyndar ekkert fyrir.

Kryddlegin hjörtu á eftir, verð að viðurkenna að ég væri alveg til í að fara eitthvert annað næst eftir tónleika. Súpa og salat allt í lagi en ég hef bæði fengið talsvert betri súpur og farið á meira spennandi salatbar. Brauðið og hummusið var samt fínt, hefði þó verið enn betra ef brauðið hefði verið heitt. (jamm, væl punktur is). Og að halda því fram að Polar Beer sé góður bjór – uh nei?!

ahbú Akureyri

mikið var skemmtilegt að skjótast norður, tónleikarnir hjá Ásdísi, Petreu, Láru Sóleyju, Helgu Bryndísi og Eyrúnu alveg frábærir, svo skemmtilegt að hafa ljóðalestur og málaralist og fatahönnun á tónleikunum (ókei, það var reyndar búið að hanna og sauma flíkurnar). Hvað hét nú ljóðskáldið? Gréta eitthvað – mig dauðlangar í bókina hennar þegar hún kemur út.

Bryndís Ásmundsdóttir kynnti þarna eins og herforingi með húmor – ekki skemmdi það fyrir heldur.

Við Jón bjuggum til úr þessu snemmbúna helgarferð, flugum norður í vetrarríkið seinnipart fimmtudags, tónleikar þá um kvöldið, nutum lífsins í rólegheitum í gær, náðum hluta af kórahátíð í Hofi í dag (reitar eiginlega sér blogg reyndar) og svo flogið heim klukkan fjögur. Og helgin ekki einu sinni búin. Gæti varla verið betra. Systir Jóns og mágur eiga stúdíóíbúð á besta stað í bænum og við fengum að vera þar, allt í auðveldu göngufæri.

Tókum út nokkra veitingastaði bæjarins á þessum örfáu dögum:

Bautinn – alveg fínn bara, ágætis borgari og pizza en það var eiginlega ekkert bearnaisebragð að bearnaisesósunni sem annars seldi mér borgarann.

Bláa kannan – alveg nothæft heitt súkkulaði, ég er búin að læra að sleppa þeytta rjómanum þegar ég veit ekki hvernig súkkulaðið á viðkomandi stað er, eiginlega bara súkkulaðið á Mokka, 10 dropar og 101 restaurant sem þolir að hafa þeytta rjómann án þess að verða of bragðlaust. Rúnnstykki með osti sosum svipað og hvar sem er annars staðar. Tvöfaldi espressóinn hans Jóns og langlokan voru ljómandi góð.

1862 Nordic Bistro í Hofi – afskaplega góðar smurbrauðsneiðar og fínt hvítvín með.

Strikið – besta risotto sem ég hef fengið á veitingastað hér á landi. Kjúklingabitar að mestu mjög góðir en þeir þynnstu voru við það að verða þurrir. Þjónustan fín, ágætis brauð og pestó borið fram fyrir mat, hvítvín hússins líka ljómandi gott.

Pizzustaðurinn Bryggjan var síðan langsíst – hvernig í ósköpunum dettur fólki sem rekur veitingastað í hug að hafa enska boltann gersamlega í botni yfir saklausu fólki sem er að reyna að borða í friði? Nevermænd boltapöbba en svona á ekki heima á veitingastað. (Enda var staðurinn galtómur). Sem betur fer datt okkur í hug að fá bara pizzurnar okkar í kassa og röltum með þær upp í íbúð hvar við kveiktum á kertum og skiptum á milli okkar einum bjór sem ég hafði ekki haft lyst á kvöldið áður eftir rísottóið á Strikinu. Pizzurnar voru sosum ekkert vondar reyndar.

Verst að hafa ekki asnast til að taka vídjóvélina með og taka upp tónleikana, eða allavega verkið mitt. Stelpurnar ætla að renna því inn fyrir mig fljótlega.

Eftir tónleika – komin í lopapeysuna frá mömmu:

pólland

hún Freyja og 10 af krökkunum í kammerhópnum hennar fóru til Póllands fyrr í haust. Þar fengu þau frábærar viðtökur og námskeið, spiluðu og æfðu allan daginn. Sáum tvö vídjó með þeim, ásamt pólskum samstarfskrökkum og kennara, hér er annað:


Freyja er í miðjunni í sellóhópnum, situr á öðru púlti.

Þau eru nú að safna fyrir ferð út aftur í sumar, vonandi gengur það hjá þeim (söfnunin sem ég er að vonast til að verði EKKI klósettpappír)

jón spæjó

Ekki á hverjum degi sem við hér heima leysum mál fyrir lögregluna en í gær datt Jóni Lárusi í hug að bíllinn sem er búinn að standa hér fyrir utan síðan fyrir helgi og safna á sig sektarmiðum í bunkum gæti verið þar vegna þess að – ja eigandinn vissi ekki hvar hann væri. Ekki alveg eðlilegt að safna svona sektum eins og enginn sé morgundagurinn. Jón segir frá þessu á sinni síðu, hér.

Fletti upp á síðu lögreglunnar og viti menn, þar var bíll sem svaraði til lýsingarinnar. Jón var í vinnunni og mundi náttúrlega ekki númerið þannig að þegar hann kom heim tékkaði hann á því og jújú, passaði. Hringdi í löggz en þá var náttúrlega búið að loka. Fann síðan síðu þar sem var auglýst eftir kagganum og sendi póst. Svo núna í morgun hafði ekki borist svar við póstinum þannig að Jón hringdi aftur í löggunúmerið þegar skiptiborðið opnaði. Vel tekið við því og nú er búið að ná í bílinn.

Maður hefði annars haldið að stöðumælaverðir ættu að hafa augun hjá sér hvað svona varðar, tæpast alveg eðlilegt að bílar standi bara og safni sektum. Reyndar var einn leigubíll hér fyrir utan í smá tíma um daginn, kominn með 4-5 miða. Spes. (hver veit svo sem hvort honum hafði líka verið stolið?)

Akureyri

jamm á maður ekki að plögga það líka?

Fimmtudagkvöldið 21. október kl. 20.30 verða haldnir kammertónleikar í Hofi. Fram koma norðlenskar listakonur, sem flytja tónlist og ljóð eftir konur. Allur aðgangseyrir tónleikanna rennur óskiptur til Krabbameinsfélags Íslands, Bleiku slaufunnar.

Að tónleikunum stendur Trio Colore, sem skipað er Ásdísi Arnardóttur selló, Láru Sóleyju Jóhannsdóttur, fiðlu og Petreu Óskardóttur, þverflautu. Tríóið munu frumflytja tvö íslensk verk sem samin hafa verið sérstaklega að þessu tilefni. Höfundar verkanna eru Hildigunnur Rúnarsdóttir og Guðrún Ingimundardóttir.

Auk Trio Colore koma fram Eyrún Unnarsdóttir, mezzosópran og Helga Bryndís Magnúsdóttir, píanóleikari.

Um kynningar og ljóðalestur sér leikkonan Bryndís Ásmundsdóttir.

Miðaverð er kr. 2500

Eigi ég lesendur fyrir norðan (hæ Fríða…) þá endilega kíkja. Við Jón Lárus skjótumst norður og verðum á tónleikunum, það er nú ekki frumflutt kammerverk eftir mann á hverjum degi! Hlakka mikið til.

Þar sem ég var

að hamast við að skanna gamlar Hljómeykisgreinar til að koma inn á heimasíðuna sem ætti fljótlega að opna, rakst ég á nokkurra ára gamla grein um enn eldri framtíðarsýn eftir Gísla Halldórsson, ömmubróður minn.

Greinin er bráðskemmtileg, ég ætla ekki að líma hana hér inn þar sem hún yrði ólæsileg hér á síðunni og ég kann ekki að gera svona dót sem stækkar þegar maður smellir á myndina á flickr (ekki viss um að það sé hægt) en hér má lesa. Fullt af dóti sem hefur gengið nokkuð nákvæmlega upp, auðvitað annað sem ekki virkaði. Fyndnast eiginlega að hann lýsir eiginlega helst veruleikanum hér fyrir svona þremur árum…

skil ekkert í

hvers vegna kötturinn er ekki búinn að vera með nefið stanslaust við magann á mér að furða sig á látunum – hef sjaldan eða aldrei vitað annað eins garnagaul og núna í þessari bannsettu magapest. Jámm ekki enn orðin alveg góð, fór að kenna í gær og gafst upp um miðjan dag, elsku Þóra mín samkennari og Hljómeykisfélagi sá aumur á mér og tók fyrir mig seinni tvo tímana. Ákvað svo í dag að vera gáfuð og halda mig heima og ná þessum fjára algerlega úr mér.

Er að dútla við að skanna gamlar blaðaúrklippur í staðinn. Verst að skanninn minn er ekki alveg nógu stór, nær ekki heilum blaðsíðum.

Önnur færsla eftir smá, um skemmtilega grein sem ég fann.

pluggg

Sinfóníuhljómsveit áhugamanna heldur tónleika á sunnudaginn kemur, klukkan fimm í Seltjarnarneskirkju.

Einleikari er Gunnar Kvaran – hann svíkur sko ekki. Með honum spilum við Kol Nidrei eftir Max Bruch. Annað sem við spilum er Pelléas et Mélisande svíta eftir Jean Sibelius og sinfónía númer 3 eftir Franz Schubert. Ekki sú þekktasta en bráðskemmtilegt verk. Stjórnandi er Oliver Kentish, nú sem oftar og einleikari á enskt horn Guðrún Másdóttir (Sibelius).

Endilega kíkja…

í lok sækjum-og-sendum

pakkans í morgun (Freyja í hóptíma í Suzukiskólanum hálftíu til hálfellefu, Finnur í Ólympíustærðfræði tíu til ellefu í HR, Finnur í karate í Þórshamri tólf til eitt, versla og fara með músardrusluna og skipta henni – reyndist í ábyrgð en afgreiðsludúddinn vildi láta verkstæðið kíkja á hana áður en ég fengi nýja, gott að eiga gömlu Mighty Mouse-ina sem var hætt að geta skrollað, annars væri ég músarlaus og allslaus, nokkuð sem er gersamlega vonlaust á borðvélinni minni), keyrðum við til vesturs á heimleið. Sá þá einn alfallegasta regnbogabút sem ég hef nokkurn tímann augum litið, verst að hafa ekki verið með almennilega myndavél, bara símann. Sá alveg slatta af fólki sem hafði stöðvað bílana til að dást að boganum og taka mynd.

Finnur spurði hvort þetta væri kannski sjálf Bifröst (og átti þá ekki við stað uppi í Borgarfirði).

regnbogi

eins og maður

hafi nú ekki fengið nóg af hruni þá á nú að steypa sér á kaf í kvöld og sjá Enron í Borgó.

Veit ekki alveg hvort ég hlakka til eða kvíði fyrir, kannski pínu blanda beggja.

(jú annars, auðvitað hlakka ég til…)

urr

mýslan mín er að gera mig vitlausa – hún er búin að eiga það til síðustu daga að tvíklikka en núna gerist það nánast alltaf. Var í dag að setja texta við verkið sem ég er að semja og allavega einu sinni tókst henni að fimmklikka (myndi það heita quintuple click upp á ensku?)

Það versta er að hún er innan við ársgömul. Jón Lárus er búinn að grafa upp kvittunina, hún kostaði „bara“ þrjúþúsundogfimmhundruð en á maður samt að fara og röfla? Er ekki tveggja ára ábyrgð á svona eins og öðru tæknidóti eða er það bara ef varan er yfir einhverri ákveðinni upphæð? (þá væntanlega hærri en þrjú og fimm). Veit einhver?

Akkúrat núna var ég að reyna að merkja við category fyrir færsluna, setti inn tvær (vesen og græjur) og í bæði skiptin þurfti ég að smella 5-6 sinnum til að hakið festist.

Eins og ég sagði fyrst, urrr. (já það má sosum verða reiðari yfir ýmsu öðru en það er samt hægt að vera pirraður yfir smáhlutum…)

dómur

jámm, kom dómur í morgunblaði nokkurra landsmanna – en ég kvarta reyndar ekki í þetta sinnið:

safnanir

nei, ekki að selja neitt – núna – en mér líst þannig á að við verðum mikið að spamma fólk í vetur. Freyja er að selja klósettpappír fyrir ekki færri en 3 aðila fyrir ferðir, ein söfnunin búin, önnur fljótlega af stað og sú þriðja, veit ekki alveg. Ætla að reyna að reka eftir því að sú selji eitthvað annað en endilega klósettpappír, eldhúsrúllur, kaffi og lakkrís (hmm, klósettpappír og lakkrís í sömu sölu…). Gradualekórinn stefnir á Bandaríkjaferð, kammerhópinn langar að fara á námskeið í Póllandi og svo er 9. bekkur í Austurbæjarskóla að fara á skíði til Dalvíkur (sú söfnun er við það að verða búin – það á reyndar eftir að vera með kaffihús á afmæli Austurbæjarskóla í næstu viku, en það þarf allavega ekkert að hringja í fjölskyldu og vini eða spamma hér og á smettinu fyrir það).

Finnur verður síðan væntanlega með kerti kring um jólin eins og í fyrra. Fífa vinnur smá með skóla og ætlar takk fyrir að borga fyrir sig sjálf í Gradualeferðina. Ekki slæmt – nóg samt. Veit ekki hvort Nobili fer líka í ferð næsta sumar en það hefur amk. ekki frést af neinni sölu í kring um það.

Flandur er á þessum krökkum annars.


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

október 2010
S M F V F F S
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31  

sagan endalausa