Þá var kominn tími á vinnuna þennan umgang. Skólaheimsóknir á dagskrá.
Við byrjuðum á Universität der Künste. Haldið þið ekki að sá skóli hafi verið svona 150 metra frá vínbúðinni sem ég þvældist til allra fyrsta daginn? Hefði ég nú vitað það þá! Ekki það, ég er svo sem ekki viss um að ég hefði meikað að dragnast með þrjár flöskur, þar af eina magnum, í heimsóknina og hefði pottþétt sleppt langa göngutúrnum sem við fórum í. En nú er ég farin aðeins fram úr mér. UdK heimsóknin var frekar mögnuð, vorum þar fram eftir degi. Hanns Eisler heimsóknin komst ekki í framkvæmd og þau sviku okkur líka um tónleikana um kvöldið en þessi borgaði alveg fyrir ferðina, svona námslega séð.
UdK liðið var hins vegar frábært. Alþjóðafulltrúinn tók á móti okkur ásamt bráðskemmtilegum prófessorum frá tónlistardeildinni og þó sérstaklega sviðslistadeild, sem tengdist okkur líka því óperur eru bæði undir sviðslista- og tónlistardeildunum. Sviðslistaprófessorinn, grískur að uppruna, reytti af sér brandarana á milli þess sem hann sagði okkur frá skólanum og við bárum saman deildirnar. Mér sýnist við reyndar ekkert þurfa að skammast okkar fyrir deildina nema auðvitað aðstöðuna! Hugarfarið hjá okkur er framúrstefnulegra, reyndar er það ekki sérlega skrítið miðað við svona gamla og ráðsetta stofnun.
Leiksviðið og tónleikasalurinn, verð þó að viðurkenna að það er smá öfund í gangi! Tónleikasalurinn var reistur fyrir Berlínarfílharmóníuna á sjötta áratug síðustu aldar, rúmum áratug áður en Philharmonie byggingin reis síðan og varð heimili hljómsveitarinnar. Þá var þessi, áföst við listaháskólann, afhent skólanum til eignar og rekstrar. Salurinn er nýttur fyrir skólann um 200 daga á ári, eitthvað smá er um útleigu en ekki sérlega mikið. Kíktum líka inn í upptökustúdíó skólans, vel tækjum búið:
Eftir þessa heimsókn fengum við okkur flest í svanginn. Engan langaði með mér á Cao Cao, víetnamska veitingahúsið þannig að ég fór bara ein.
Sveimérþá að það var bara besti matur ferðarinnar! Þessu verð ég að reyna að herma eftir heima. Fékk mér önd á grænmetisbeði í sósu úr rauðu karríi og engifer. Og ég sem hélt að brunchinn daginn áður hlyti að vera toppurinn. Veitingahúsið var alveg stappfullt og hellingur að gera sem bendir jú alltaf til að staðurinn standi fyrir sínu.
Eftir matinn ákváðum við nokkur að ganga alla leið yfir Tierpark, yndislegt veður og eiginlega enn smá ilmur af sumri.
Enduðum gönguna upp við Brandenborgarhlið og svo Reichstag. Þreytan farin að segja til sín í fótum þannig að ég og ein önnur ákváðum að taka leigubíl upp á hótel. Það reyndist þrautin þyngri! Þeas, leigubíll fannst eins og skot en svo lentum við í – nei fyrirgefið vorum hluti af verstu umferðarteppu sem ég hef á ævi minni upplifað. Þetta eru um 2 kílómetrar upp á hótel og ég held við höfum verið um hálftíma. Sem betur fór tifaði mælirinn ekki stanslaust, bíllinn drap á vélinni þegar hann var stopp og við vorum mikið meira stopp en á ferð. Enduðum á því að fara út úr bílnum til hliðar við hótelið þegar bílstjórinn, sem hafði fórnað höndum og lamið hausnum á stýrið nokkrum sinnum á leiðinni spurði hvort við vildum ekki bara hoppa út þarna, hann yrði örugglega 5 mínútur í viðbót að komast fyrir framan hótelinnganginn. Sorrí þið sem röflið sem háværast yfir þrengingu Grensásvegar. þið vitið ekkert hvað alvöru umferðarteppa er!
Obligatorísku ostainnkaupin í Kaufhof Galeria og nýja uppáhaldsnammið, Pocket Coffee í hús, inn á hótel, frétti af því að okkur byðust ekki miðar á tónleika kvöldsins sem annars var búið að lofa, þá bara matur og barinn. Matur: Dæmigerður þýskur kvöldverður, undirrituð fékk sér schnitzel með steiktum kartöflum og spældu eggi, einn fékk svínaskanka með tilheyrandi, Berlínarpylsa með súrkáli og svo fékk grænmetisætan í hópnum sér salat með fetaosti. Þetta var ekki salatstaður! Sátum þarna í talsverðan tíma þar sem það munaði sirka helmingi á drykkjaverði miðað við hótelbarinn. Hittum samt fleira gengi þegar við komum á hótelbarinn og heilmiklar umræður spunnust um skólaheimsóknina og hlutverk tónlistarkennarans í því að hvetja til tónlistarneyslu og -nautnar hjá nemendum.
Lokakvöldi lokið. Morgundagurinn bara heimferð. Það þarf að gerast eitthvað markvert til að það komi færsla. Sjáum tiiiiil! (how’z dat for a cliffhanger?)
Nýlegar athugasemdir