Jæja lokadagurinn rann upp, steinhætt að rigna (tja, humm!), prófuðum annað bakarí í morgunmat, betra en það daginn áður en ekki eins fansí uppsetning.
Upp á hótel aftur og pakka niður í rólegheitunum. Karöflunni pakkað í flugþjónstöskuna eins vel og mögulegt væri og svo allir puttar í kross að hún kæmist heil heim. Ætti að ganga þar sem hún var jú í handfarangri. Hefði aldrei þorað að setja hana í inntékkað! Báðum jökkunum okkar var pakkað utan um. Það var jú sól og hlýtt. Einum bjór hafði okkur ekki tekist að slátra. Kældum í vaskinum. Þýddi lítið.
Lögðumst í bóklestur þar til upp úr ellefu. Tékkinn á netinu fyrir flugið um kvöldið. Fimm evru seðill og koparlita klinkið skilið eftir í tips (ég þoli ekki tips!) Tékkað út. Við vorum búin að borga hótelið fyrirfram þannig að það var ekkert nema skila lyklakortunum. Ætluðum að kaupa okkur kattaraugabol eins og starfsfólkið var í en þeir voru allir uppseldir í öllu nema small. Hvorugt okkar getur notað small. Synd!
Jón Lárus var sko búinn að kaupa sér túristabol með Ampelmann, grænum að framan og rauðum á bakinu! En ekki ég og mig langaði í þennan! En small? neeei! Hefðum mögulega getað keypt handa Finni, hann er nógu grannur þó hávaxinn sé. Freyja hefði líka getað notað small.
Fengum að geyma töskuna á hótelinu þar til tími væri kominn til að fara út á völl, um kvöldið. Vorum búin að finna út hvernig væri best að komast úteftir án þess að eiga á hættu að þurfa að bíða klukkutíma eftir lestinni.
Ekki var mikið planað þennan dag, þó ætluðum við að skoða síðasta langa uppistandandi bútinn af Berlínarmúrnum og jafnvel trampa á búnkernum hans Hilla gamla. Röltum niður að Checkpoint og þaðan vestur á bóginn. Sáum Trabantsafnið en nenntum ekki inn. Trabantgarðurinn var líka þarna, einhvers konar skemmtigarður og hægt að fá að keyra í Trabanthalarófu fyrir nokkurt fé. Vorum svo sem ekkert þannig spennt fyrir að taka bíltúr um Berlín. Tókum bara mynd af frekar meðteknu skilti við garðinn og Trabantlimósínu.
Þessi belgur var aftur kominn á loft, hann blasti við rétt hjá hótelherberginu okkar niðri við jörð í rigningunni og rokinu daginn áður:
Hef séð hann áður en aldrei svona í návígi.
Veggbúturinn var markverður. Heilmikil saga sögð þar í máli og myndum. Renndum yfir það meira og minna en tókum engar myndir. Við upphaf og endi göngustígsins var varað við liði eins og við létum gabba okkur í Parísarferðinni. Sáum ekki svoleiðis pakk þarna samt enda hefði það tæpast þýtt þegar var búið að vara svona kyrfilega við þeim!
Þennan stóra Ampelmann sáum við í kyrfilega afgirtum garði á leið frá Veggnum til Búnkersins. Garðurinn leit út fyrir að vera Evrópusambandseitthvað (húsið við hann allavega) en við gátum ómögulega séð hvers vegna hann var svona vel afgirtur! Hefði alveg verið til í að pósa með þessum stóra græna Ampli:
Búnker foringjans var ekkert. Enda hafði hann verið sprengdur í tætlur og yfir honum var bara bílastæði með viðvörun um að þetta væri einkalóð og fólk færi þar inn á eigin áhættu. Jón Lárus skaust nú samt rétt innfyrir. Jú þarna voru reyndar skilti með kortum og slíku. Mikið skil ég annars vel að þetta sé ekki vel auglýst túristaattraksjón í Berlín, gæti ímyndað mér að þarna kæmu nýnasistar í hrönnum í pílagrímaferðir! Good riddance!
Eftir þennan þokkalega göngutúr var stímt á tja, ekki kannski endilega besta en pottþétt fínasta út-að-borða ferðarinnar. Borchardt, staður sem var aðal pleisið í Berlín fyrir einhverjum árum, einn af um það bil fimm veitingahúsum sem poppar fyrst upp þegar fólk stækkar Google Maps kortið, þekkt fyrir besta snitsel í Berlín. Jón Lárus er mikill snitselgaur. Hann kaupir sér nánast aldrei mat í mötuneytinu í vinnunni en þegar er snitsel þá er hans dagur! Þannig að það var skylda að fara á þekktasta snitselstað í Berlín og snappa því til vinnufélaganna! Þannig er það bara!
Hver kann annars trikkið við að húðin á snitselinu verði svona laus frá kjötinu? Ekki ég!
Ég fékk mér nautasteik með bearnaise og kartöfluskífum. Þegar ég pantaði spurðu þjónninn: Medium? ég: Uuuhhh! no! medium rare! Þvuh! lít ég út fyrir að vilja medium steikingu?
Mjööög gott. Nautið var lungamjúkt. Ekki sous vide eldað (sinarnar voru enn á sínum stað) en þegar skorið var fram hjá þeim var kjötið það mjúkt að sous vide hefði ekkert gert fyrir það. Sósan perfekt (ekkert BETRI en heimagerð hjá okkur eða Hallveigu systur! en samt perfect. Not so humble brag!) Skífurnar hins vegar væri ég til í að vita hvernig þau gerðu! Væntanlega tvídjúpsteiktar, ég nenni því aldrei. Sjáið hvað þær eru bognar! skemmtilegt.
Búin að borða, hvert langar okkur? Aftur á Linditrjáagötu og nú í hina áttina, að Brandenborgarhliðinu. Inn í Tierpark. Settumst þar á bekk og hlustuðum í góða stund á sellista með rafmagnsselló og looper pedal. Tónlistarkonunni þótti alveg hroðalega fyndið þegar sellistinn setti lúppu í gang og byrjaði að spila Ave María Bach/Gounod. Það virkar EKKI sem lúppa!
Sláturtíð á þennan eina bjór sem hafði orðið eftir og auðvitað var kælingin síðan um morguninn farin veg allrar veraldar. Rann nú ljúflega niður samt.
Leit upp og sagði: Hmm. Það gæti farið að rigna. Eitthvað svo rigningarlegt!
Í Tierpark komu sníkjudýrin með heyrnleysingjaskiltin. Við fussuðum og snerum okkur frá þeim. Skemmtilegra var að sjá kanínur og krakka að leik.
Röltum fram hjá Philharmonie svo við hefðum nú komið þangað í ferðinni. Ekkert um að vera í húsinu og allt harðlæst eins og við svo sem vissum. Hvers vegna ætli húsið sé ekki opið allt árið um kring og tónleikar eða sýningar í gangi, líkt og í Hörpu þrátt fyrir að fílharmónían sjálf sé í sumarfríi?
Við hefðum nefnilega vel getað þegið að fara inn í hús akkúrat þarna. Því auðvitað fór að rigna. Ekki bara dropar heldur næg úrkoma til að við náðum að verða þokkalega blaut í gegn! Og regnhlífin? Ofan í tösku. Uppi á hóteli!
Hálfhlupum út í Sony Center, tæpan hálfan kílómetra frá Philharmonie þegar við sáum að það þýddi lítið að bíða af okkur skúrina undir skýlinu hjá innganginum. Settumst þar úti (Sony Center er yfirbyggt) og pöntuðum okkur sitthvorn drykkinn, enn ekki orðin svöng eftir matinn. Mér var hins vegar hundkalt og engin teppi á stólunum þarna þannig að við fengum að færa okkur inn, á veitingahúsinu.
Teygðum eins og við gátum úr glösunum okkar (sé fyrir mér alveg rosalega langt og mjótt rósavínsglas), tókst að hanga þarna í góða klukkustund yfir drykkjunum. Jón kláraði bjórinn sinn, þjónninn til okkar til að bjóða honum meira, neitakk, já viljið þið þá fá reikninginn? ég var ekkert búin sko! Það var ekki nándar nærri fullt þannig að ekki vorum við að taka upp pláss en út skyldum við um leið og við kláruðum úr því við ætluðum ekki að kaupa meira. Ekki að það gerði svo sem til, ég kláraði mitt bara í rólegheitunum og það var ekkert rekið meira eftir okkur.
Steinhætt að rigna þegar við komum út og allt að þorna. Við líka.
Vorum orðin alveg hugmynda- og nennusnauð þannig að við ákváðum að rölta bara í rólegheitunum inn á hótel, sækja töskuna og finna okkur lestina út á völl. U bahn 6 frá Stadtmittestöð rétt hjá hótelinu yfir á Tempelhof stöðina, þaðan með S bahn til Schönefeld. Tók taaaalsvert styttri tíma en regional lestin sem við tókum frá vellinum í bæinn á mánudeginum.
Svo stuttan tíma reyndar að þegar við ætluðum að fara inn á flugvöllinn fengum við neitun á boarding passanum. Neibb þið getið ekki komist inn á völlinn fyrr en þremur tímum fyrir brottför! Úpps! ríflega hálftími í það!
Þarna var nákvæmlega ekkert við að vera. Spáðum í sveitingahús (svona sveitastílsveitingahús) en þar voru bara til borgarar og pylsur. Okkur langaði ekkert í pylsur og við höfðum borgarana sterklega grunaða að vera úr kjötfarsi!
Rákum síðan augun í mexíkóskan street food vagn. Sitt hver quesadillan, sárfegin að græna salsan með var ekki með kóríander! vondur bjór (Jón sá eftir góða bjórnum sem var slátrað í Tierpark) og ljómandi límonaði handa mér sem hafði lofað að keyra heim frá FLE og engir fleiri drykkir.
Loksins komumst við inn í flugstöðina. Beint í lounge sem ég hafði séð og notað síðast. Ágætis lounge, matur reyndar mjög lítið spennandi en nægir drykkir, heitir og kaldir, áfengir og óáfengir, hægt að hlaða síma, ljómandi rólegt og útsýni yfir völlinn. Það virtist vera hægt að komast út á svalir, sáum ekki hvernig það væri hægt frá lounge og það var alveg pottþétt ekki auðséð frá almenningsrýminu því við sáum bara fátt fólk þar, greinilega samt farþega, með börn og handfarangur með sér. Kannski eitthvað spes lið með sambönd en þó fullmargir til að það væri trúanlegt. Sex til átta sett af fólki úti á svölum. Dýragarður inni í almenningi í flugstöðinni!
Vissum ekki hvað við þyrftum að labba langt út að hliði þannig að við ákváðum að fara strax af stað þegar komið væri Go to gate. Reyndist massíf mistök! Hefðum átt að sitja vel lengur.
Tók í hæsta lagi 10 mínútur að labba að hliðinu. Engin sæti laus. Dettur inn boarding. Allir í röð. Lítt skýrmælt tilkynning í hátalarakerfi. Seinkun. Ótímabundið. Fleh. Slepptum ekki staðnum okkar í röðinni. Stóðum þar í kortér. Það er þreytandi að standa upp á annan endann í kortér. Úr röðinni eins og reyndar flestir aðrir. Enn engin laus sæti. Einhver rak augun í það að það væri brjálað þrumuveður og eldingar og læti fyrir utan. Ah! þar kom ástæðan. Það mátti ekki afferma vélina sem var löngu komin. Í lounge hefðum við verið í stúkusæti til að sjá eldingarnar! Aftur í röðina. Loksins vélin tæmd og við inn.
Klukkutíma seinkun, þó ekki meiri. Kláraði bókina mína á leiðinni heim. Keyrt í sólarupprás móti höfuðstaðnum. Fallegt! Lentum á Njálsgötunni og drusluðum inn töskum nánast á sama tíma sólarhrings og við höfðum lagt af stað fjórum dögum fyrr.
Heim.
Rúm.
Himnaríki!
Til Berlínar verður farið aftur!
Heil 18187 skref. Mikið held ég græjan hafi orðið svekkt með mig þegar ég kom heim. Eeeen þú sem byrjaðir svo veeel! 😦
Nýlegar athugasemdir