Sarpur fyrir júní, 2016

Kolding dag 5 – Flensburg

Föstudagurinn. Síðasti heili dagurinn á Jótlandi í þetta skiptið. Ekki ætlum við samt að láta þetta vera síðasta skiptið sem við heimsækjum krakkana!

Atli hafði unnið sér inn frídag þennan föstudag þannig að við gátum lagt snemma af stað. Tja semisnemma allavega. Sóttum íbúðarliðið síðmorguns og lögðum íann.

Flensborg er rétt sunnan við landamæri Danmerkur og Þýskalands og Kolding er bara klukkutíma akstur frá landamærunum þannig að ekki vorum við nú lengi að komast þangað. (ohh hvað ég væri til í að geta bara hoppað upp í fjölskyldubílinn og keyrt milli landa!) Meira mál reyndist að finna stæði, gépéessið hafði valið einhvern undarlegan punkt fyrir okkur þegar við völdum Flensborg og þegar við komum að punktinum var það bara á miðri götu í brekku niður að höfn og miðbæ. Ekki reyndist auðvelt að finna stæði í miðbænum, við fórum upp næstu brekku við hliðina en sá vegur reyndist þá fara undir brú sem við héldum vera vegamót og enda á hraðbrautinni aftur þannig að við rétt náðum að sleppa við E 45 til Ítalíu! Náði semsagt að beygja út af áður en að því kom, inn í íbúðahverfi, snúa við á bílastæði hjá niðurlagðri teppaverslun eða álíka, aftur til baka og lagði í stæði sem ég hafði rekið augun í í fyrra skiptið, tæpan kílómetra frá höfninni.

Ekki gerði það nú bofs til. Veðrið eins gott og það verður, 22 stiga hiti, nánast heiðskírt og smá gola.

Niður að höfn komumst við, öll orðin ansi þyrst.

Settumst á bar/veitingahús úti á pramma. Frekar næs.

beðið eftir bjór

beðið eftir bjórnum

Hefðum líka getað sest í svona:

bjórhólf

ég hef aldrei séð svona bjórhólf áður!

Þorstanum svalað og þá var það bara áfram niður í bæ. Höfnin er skemmtileg:

 

gengum fyrir voginn og upp í sjálfan miðbæinn. Þarna var svolítið flott stytta á vegi okkar:

flott stytta

Nýbúin að fá okkur að drekka en nú voru allir auðvitað orðnir svangir. Hlömmuðum okkur á næsta veitingastað sem var ekki með Carlsbergsólhlífar heldur eitthvað meira spennandi bjór í boði.

Hvað á nú að fá sér eiginlega?

Nú schnitzel! en ekki hvað?

Ekki höfðum við haft vit á að skoða hvort staðurinn tæki kort og það gerði hann auðvitað ekki. Jón Lárus var sendur út af örkinni, 50 metra í næsta hraðbanka. Eins mörg mál og hann talar nú er þýska ekki eitt þeirra þó hann kunni reyndar hrafl í henni, honum fannst konan segja 500 metra og skundaði af stað til að leita. Við hin skildum ekkert í hvað hann væri lengi en vorum svosem ekkert að flýta okkur.

Tókst að borga að lokum og fórum að skoða miðbæinn. Þetta fannst mér krúttleg gata:

sæta gatan

Það er ekkert allt of mikið af keðjubúðum þarna og allir túristarnir voru danskir. Fólk í Flensborg talar almennt dönsku enda var þetta auðvitað áður fyrr undir danskri stjórn, ég held það sé þarna alls konar minnihlutaeitthvað, skólar fyrir dönskumælandi börn og þannig lagað.

Út á enda löngu göngugötunnar, splæst í einn ís, til baka í rólegheitunum, aðeins önnur leið niður að höfn og svo var kominn tími á að rölta aftur í bílinn.

Ég gæti vel hugsað mér að fara aftur til Flensborgar, aldrei að vita nema sé hægt að redda íbúðaskiptum þar. Mjög falleg borg.

Heimferð gekk snurðulaust, skiluðum Finni aftur í íbúðina hjá Fífu og Atla, við hin upp á hótel og enduðum á að horfa á Charlie’s Angels uppi í herberginu hjá Freyju og Emil. Það sem sú mynd hefur ekki elst vel!

Pakkað niður í töskur og farið að sofa. Snilldardagur.

 

Kolding dag 4 – Heimsókn til Horsens

Upp rann fimmtudagur, enn bjartur og fagur. Meiningin var að stíma til Horsens í heimsókn til Láru Bryndísar, Ágústs, barnahóps og aupairgellu.

Að vanda var ekki lagt af stað í sameiginlegt fyrr en Atli var búinn í vinnunni, semsagt klukkan þrjú. Eitthvað urðum við að gera af okkur fram að því og þar sem við átum tvisvar á veitingahúsi daginn áður ætluðum við allavega ekki að splæsa í svoleiðis þennan dag. Þannig að við sóttum Fífu og Finn og enn var farið í Føtex og keypt í pikknikk. Krakkarnir voru orðin alveg húkkt á Cocio kókómjólk í glerflöskum, Finni fundust flöskurnar líka svo flottar að hann heimtaði að taka eina slíka með heim.

Enn var samt kíkt í Vinspecialisten, Jón hafði rekið augun í spennandi bjór og svo keyptum við rósavín til að taka með okkur til gestgjafanna í Horsens. Vorum reyndar búin að hrifsa magnumflösku af borðinu:

rosé

Svona flösku.

Nema hvað, þegar við komum að borðinu sagði konan að hún yrði að vara okkur við. Þessi flaska nefnilega kostaði um 500 danskar krónur. Jújú, magnum kostar yfirleitt meira en tvær af venjulegri stærð þó innihaldið sé hið sama en þarna kostaði magnum stærðin tvöfalt meira en tvær venjulegar. Svo mikið langaði okkur nú ekki til að koma með stóru flöskuna! Þannig að henni var snarlega skilað (sölukonan reyndar sagðist ekkert sjá fram á að geta yfirleitt selt þessa flösku á uppsettu verði, hún yrði væntanlega bara nýtt í útstillingar og álíka).

Aftur til Fífu, settum rósavínið í kæli (eina sem vantaði í bílinn var ísskápur. Skiliddiggi! Hvorki ísskápur í bíl né hótelherbergi!) og aftur á pikknikkstaðinn. Vorum aðeins nær vatninu í þetta skiptið, til að geta verið í skugga. Allt of heitt að sitja í sólinni en fullkomið í skugganum.

ég í skugga

Það er að segja. Ég var í skugganum!

Útsýnið að kastalanum var ekkert sérlega leiðinlegt undan trénu:

útsýni að kastala

Inn í hótelkjallara eftir bílnum, náðum í Atla, skutluðumst til þeirra til að hann gæti skipt um föt og náðum þar í rósavínsflöskurnar.

Jón Lárus keyrði til Horsens, ég ætlaði síðan að keyra daginn eftir.

on the road

svona var útsýnið mestalla leiðina.

SímaGPSið stóð sig hetjulega, aðeins tvisvar í ferðinni klúðruðum við hvort um sig beygjum en þarna reyndar var smáklúður, við sáum að beygjan sem við ætluðum að taka var alveg að koma, svo keyrðum við fram úr bílum sem höfðu stöðvað við vegkantinn, alveg nokkrum í röð – og fleiri og fleiri þar til við áttuðum okkur á að þarna hefðum við átt að fara aftast í bílaröðina við vegkantinn. (Bíllinn hefði reyndar mótmælt harkalega: Píííp! Píííp! ég er kominn út af veginum! ég á ekki að vera hééér!!!) Það voru nefnilega umferðartafir fyrir ofan útkeyrsluna af hraðbrautinni. Nokkuð sem við reyndar vissum, þar sem umferðartilkynningar yfirtaka bílútvörp þarna, kveikja meira að segja á útvarpinu fyrir mann í svona lúxuskerrum. En semsagt þegar við áttuðum okkur á þessu var auðvitað orðið allt of seint að koma sér inn í röðina og það kom alls alls ekki til greina að reyna að troða sér í röðina, hvað þá á svona frekjulegum ríkisbubbabíl!

Þannig að við tókum bara næsta exit og smá hring til baka. Minnsta mál. Takk snjallsímar!

Síminn leiddi okkur beinustu leið í söbörbið þar sem Lára og Ágúst búa með börnum og buru. Við hliðina á spítalanum þar sem Ágúst var að enda við að fá yfirlæknisstöðu. Flott það. Lára Bryndís er organisti, fastráðin og giggari og allsherjar múltítaska. Eins og við var að búast var höfðinglega tekið á móti okkur, dælt í okkur drykkjum og mat, ég lét símann minn alveg í friði í heimsókninni en sníkti mynd af himnaríkisgarðinum hjá Freyju.

garður 2

Trampólínið var prófað fram og til baka, ekki síst þegar Ágúst tók sig til og setti garðvökvunargræjuna undir þannig að hægt væri að hoppa og kæla sig niður í einu.

þetta þarna þótti okkur líka merkilegt!

Húsbóndinn stakk af á æfingu (jájá hann er líka múltítasker, spilar líka á orgel eins og eiginkonan), við fengum að hjálpa eitthvað smá við að búa til salat og grilla, ég hef aldrei áður fengið hamborgara í kálblöðum í stað brauðs. Merkilega gott.

Rósavín rann ljúflega niður allar þær kverkar sem máttu.  Við hugsuðum okkur til hreyfings þegar börnin fóru að þreytast og þurftu að komast í ró, best að snúa ekki alveg rútínunni við hjá fólki í miðri viku þó við værum í fríi.

Takk fyrir okkur enn og aftur, elsku Lára og Ágúst ef þið lesið!

Heimferðin gekk snurðulaust, við skiluðum Finni heim í íbúð, Fífa og Atli komu aðeins á hótelið, inn í herbergi Freyju og Emils og gamla settið fór í sitt herbergi til að redda duolingoskömmtum dagsins. Það sem maður getur orðið þreyttur!

Kolding dag 3 – Afmæli og kastali

Þá rann upp afmælisdagur Fífu, ein af aðalástæðunum fyrir tímasetningu ferðarinnar. Tuttuguogfjögurra ára! flottan mín!

Hún átti frí þennan daginn þannig að við drifum okkur strax til hennar eftir morgunmat (semsagt um ellefuleytið). Føtex fyrir drykki og ég, sem var farin að brenna í hársverðinum keypti mér hatt:

hattur

Kíktum í vinspecialisten, Jón var spenntur fyrir hinu og þessu þar. Við erum vínglasasnobbarar og eigum eitthvað smá af Riedelglösum en þetta, sem Finnur rak augun í, hef ég nú ekki séð áður:

 

riedel kókglös

kókið er samt örugglega alveg voðalega gott úr þessum glösum! Nei við keyptum ekki!

Þennan dag var stefnt í kastalaferð, kastali staðarins heitir Koldinghus og er, að ég kemst næst, stundum notaður af konungsfjölskyldunni og var þeirra aðalbústaður á tímabili. Við sáum kastalann úr hótelherberginu okkar:

betra útsýni af hóteli

Dannebrog og læti. Eða reyndar engin læti, þetta var voða rólegt allt saman.

Fyrst löbbuðum við samt hinum megin við kastalann, bak við íbúðahótelið sem er bak við pikknikkstaðinn okkar. Við ætluðum að panta íbúð þar, hefði verið svo ansi þægilegt að geta verið í íbúð frekar en á hótelherbergjum, bæði upp á að við gætum verið öll saman og eldað/borðað öll sjö en í febrúar/mars þegar við skoðuðum málið var allt upppantað þar þannig að það þýddi víst lítið. Pössum okkur á því næst (og já, það verður næst).

Við Jón Lárus ætluðum semsagt að bjóða í mat um kvöldið, afmælismat fyrir Fífu, á einhverjum þokkalegum veitingastað. Búin að fara á tripadvisor og spotta spennandi stað, löbbuðum þangað en alveg harðlæst og lokað. Gúgull sagði okkur við nánari skoðun að það opnaði klukkan fimm.

Við til baka. Langaði að sitja úti og fá okkur eitthvað að drekka, fyrir valinu varð sami staður og daginn áður. Gleymdi að segja frá rugluðu þjónustunni sem gerði tóma vitleysu, kom með hvítt í stað rósavíns og ruglaði í bjórnum. Þennan dag var annar að þjóna og gerði bara allt hárrétt.

Sóttum Atla á hótelið sem hann vinnur, lögðum bílnum í hótelkjallaranum okkar og stímdum upp í kastala. Þar var auglýst Fabergé sýning og við vorum hellings spennt fyrir henni.

27587206345_760814493f_o

Gosbrunnur í hallargarði

rústir

Rústir að innan. Skemmtilega hannað skoðunarrými, pallar og grindverk falla ótrúlega vel að rústunum sjálfum. Pínu óþægilegt að ganga eftir dúandi trégólfum upp á, hvað? sjöttu hæð?

Finnur á leið upp

Finni fannst þetta samt ekkert óþægilegt!

Sýninguna fundum við. Engin egg en fullt af flottum Fabergé hlutum og skemmtileg margmiðlunarsýning um Fabergé sjálfan og skrautgripina.

Þarna vorum við í dágóða stund enda margt að skoða. Einhverjum túristahóp tókst að vera alveg voðalega fyrir okkur samt (við vorum ekkert túristar, neinei!)

Inn af sýningarsalnum sáum við svo inn í saumastofu og næst þar fyrir innan var stórt herbergi með búningum sem hægt var að máta:

Atli ekki alveg í fókus þarna!

Finnur dró okkur síðan upp í turn, við hefðum kannski ekki nennt ef við hefðum vitað hvað þetta voru voðalega margar tröppur (níunda hæð sagði Emil með skrefa- og hæðateljaraúrið sitt)

En útsýnið var stórkostlegt:

 

Þá var búið að opna á veitingastaðnum. Við þangað aftur. Allt stappfullt allt kvöldið. Bögg! Til baka. Rak augun í spennandi stað þar sem ekki voru nein læti. Hr og fru Paps, vin og tapas. Semsagt tapasstaður með dönsku/norrænu ívafi. Nýja norræna eldhúsið án þess að borga hvítuna úr augunum og báðar litlutærnar. Pláss fyrir okkur um kvöldið, besta mál!

Pöntuðum borð klukkan sjö og röltum heim á hótel í millitíðinni. Skrefin urðu mörg þennan daginn.

Mættum á sirka tilsettum tíma í mat. Skemmst frá því að segja að þetta var alveg dýrlegt. Heimabakað (tja veitingahússbakað) súrdeigsbrauð sem enginn endir var á, fjórir stórir plattar fyrir okkur sjö með allskonar kræsingum og vertinn, sem var spenntur fyrir að við værum íslendingar valdi fyrir okkur vín sem pössuðu við. Ekki miðað við útrásarvíkingaverð samt:

platter

Lax og rækjur og skinkur og fylltir piprar og ólífur og andapaté og sultur og sósur og ostar, úff!

Kvöldið var fullkomnað með því að kortinu mínu var hafnað. Hmm Þarf að tékka á þessu! Sem betur fer eigum við nokkur kort og gátum dreift þessu niður en ég átti nú bæði að eiga fyrir þessu á debetinu og er með einhvern hellings yfirdrátt líka þannig að þetta var frekar undarlegt.

Fífa var held ég bara nokk sátt við afmælisdaginn.

Kolding dag 2. Lautartúr

Dagur tvö byrjaði vel, þessi líka fíni hótelmorgunmatur, danskur og enskur að vild. Engar matarklámsmyndir af honum samt. Vorum smástund að finna safann, það var safavél sem leit út eins og vatnskrani með ipad með mynd af söfum við hliðina. Safarnir ekkert spes samt, bara einhverjir rynkeby platdjúsar. Kaffivél var þokkaleg.

Nújæja. Fífa var í skólanum fram að hádegi að skila af sér stóru verkefni. Atli að vinna til þrjú. Finnur fékk að sofa út heima hjá þeim en við hin byrjuðum á verkefninu Skoða miðbæinn. Bara voðalega sætur og yfirkomanlegur miðbær í Kolding. Keyptum nesti fyrir lautartúr í Netto. Netto er mikið leiðinlegri búð í Danmörku en á Íslandi. Já það er hægt.

trjágöng

Þessi trjágöng með, tja, pínulitlum laxastiga? leiddu upp að Koldinghus, kastalanum á svæðinu. Við þangað. Fórum ekki inn því það átti að bíða næsta dags en femminn í mér gladdist við þessa sjón í kastalagarðinum:

 

Eftir góðan göngutúr sótti svengd og þorsti á liðið. Fundum veitingahús sem leit vel út og drógum saman tvö borð, í fyrsta en ekki síðasta skiptið í þessari ferð. Fimm til sjö manns þurfa pláss! (ókei vorum bara fjögur þarna reyndar en borðin voru lítil). Pantað rósavín og Grimbergen, voðalega kynjaskipt eitthvað:

getið nú hvað við Freyja fengum okkur (og ekki var tekin mynd af)?

Mat fengum við líka, flest einhverja borgara og dót. Heldur engar matarklámsmyndir af því. Bráðfalleg grákráka (sem Finnur vill annars kalla grákur) hoppaði upp á borðum í leit að afgangs mat, okkur til skemmtunar en síður til ánægju veitingafólksins. Skiljanlega reyndar.

Nújæja, enn var labbað og nú heim til Fífu sem var búin að skila verkefninu og komin heim. Gátum plantað lautartúrsdótinu í litla ísskápinn þeirra Atla. Fórum í Føtex til að bæta aðeins við nestið. Það er hins vegar ekki leiðinleg búð.

Til baka á hótelið, bíllinn út úr kjallaranum, Atli sóttur og skotist í búðakjarna fyrir utan miðbæinn. Lagði í stæði hjá verslanamiðstöðinni, heimafólkið gerði enga athugasemd en svo var alveg heillöng ganga að búðunum sem þau ætluðu síðan í – voru ekki einu sinni í miðstöðinni sjálfri heldur fyrir utan. Svona svipað og Korputorg, risabúðir sem ekki er innangengt á milli og varla ætlast til að fólk labbaði milli búðanna, fólk tæki örugglega bílana á milli. Ég hljóp meira að segja til baka og sótti bílinn en svo var svo flókið að komast út af bílastæðinu að ég endaði á að leggja inni á stæðinu við miðstöðina, bara eins nálægt hinum búðunum og ég komst.

lúxuxkerran

Freyja, Fífa, Emil og Lúxuskerran!

Þarna þurfti að kaupa lak fyrir Finn sem hafði annars sofið á vindsænginni laklaus, neinei ég gleymdi ekkert að fara út með lak handa honum, aldeilis ekki! og kíkt í Elko, eða Elgiganten sem ég gæti trúað að sé sama keðja.

ef ég einhvern tímann stofna bjórbúð í Danmörku mun ég láta hana heita Ølgiganten.

Prentarablek og lak í húsi ásamt heyrnartólum fyrir Finn, hans voru orðin léleg. Til baka til að sækja mat, þá á hótelið, bíllinn í bílageymsluna, við endann á hótelinu var kastalagarðurinn og vatnið, sirka hálfur kílómetri að lengd.

Kolding sø

Pikknikkkrakkar! Hvað eru mörg k í því?

pikknikkkrakkar

Við Jón Lárus og Finnur þreyttumst á undan hinum fjórum og löbbuðum á undan þeim á hótelið. Þetta er annars hótelið (ásamt reyndar bókasafni og íbúðum, allt í sama risahúsinu):

hótelið

Tylltum okkur á bekk um miðja leið, mistök að sitja hlémegin við einhverja Dani sem byrjuðu auðvitað að reykja. Færðum okkur um tvo bekki til að sitja áveðurs. Krakkarnir sem höfðu fylgst með okkur frá pikknikkstaðnum skildu ekki neitt í neinu hvað við værum að færa okkur um bekk. Verst að geta ekki sett inn hlekk á bráðfyndið snapchat Freyju. Annars var víst auðvelt að fylgjast með okkur, gaurarnir í misappelsínugulum buxum og ég í skærbleikum bol, Danirnir meira og minna allir í svörtu.

Nenntum ómögulega heim í sjóðheitu íbúð krakkanna en þau skutust og sóttu desertinn sem enginn hafði haft lyst á daginn áður. Ostakakan hans Atla. Og þá er loksins komið að matarklámmyndinni:

ostakaka Atla

Unnum í kökunni á okkar hótelherbergi fram eftir kvöldi, svo fóru allir á sinn svefnstað og unnu í duolingo eða náminu sínu eða tölvuleik með nýjum heyrnartólum eða hvað veit ég? Góður dagur.


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

júní 2016
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
2627282930  

sagan endalausa