Meiningin var að vakna klukkan sjö en það tókst nú ekki alveg eftir háspennuleik kvöldsins áður, það hefði jú verið ill meðferð á börnum að skipa Finni að fara að sofa áður en leikurinn kláraðist. Gerði síðan ekki mikið til, þar sem garðshliðunum yrði ekki lokið upp fyrr en klukkan tíu.
Tveir bjórar og bagetta smurð með uppáhaldsáleggi allra. Finnur vill helst bagettuna sína óskemmda, finnst brauðið best eins og ég nefndi reyndar í gær . Liggur við að ég kunni ekki við það, lítur út eins og litla afskipta stjúpbarnið, allir fá gúmmulaðiálegg á franskbrauðið sitt nema sá minnsti sem þarf að borða brauðið þurrt. Lét það nú samt eftir honum. Drykki handa krökkunum átti að kaupa í garðinum, en við treystum ekki alveg á að geta keypt bjór to go. Hefði samt alveg gengið.
Af stað fórum við ekki fyrr en um hálftíu. Keyptum miða á stöðinni okkar, alla leið til Charles de Gaulle flugvallar, þar sem við tæki skutla á vegum garðsins. Metróferðin gekk að óskum og við rötuðum á RER (úthverfalesta)pallinn en þegar lestin kom þá stoppaði hún svo hrottalega stutt að ekki nóg með að bara Jón Lárus og Freyja kæmust inn í hana (semsagt ekki við Finnur) heldur komust ekki allir út úr vagninum sem ætluðu, tóku semsagt hálftíma aukaferð frá Gare du Nord að GDG. Vonandi að enginn hafi misst af lestinni sinni til norðurhluta Frakklands út af þessu.
Já semsagt, við Finnur urðum eftir á brautarpallinum. Þakkaði fyrir að það var ekki Finnur einn – símalaus – við höfðum alltaf passað okkur á því að hafa krakkana á undan okkur eða helst milli okkar í svona tilfellum. Kom sér vel í þetta skiptið. Höfðum reyndar sett upp plan í því tilfelli að einhver næði ekki að fara út úr lest, sá skyldi fara út á næstu stöð og hin elta og hittast þar. Þetta hentaði hins vegar talsvert verr í kringumstæðunum: ‘Sumir komust ekki inn í vagninn’. Margreyndi að hringja í Jón Lárus en fékk alltaf connection error, fannst mikið sniðugra að þau færu bara alla leið á CDG og hittu okkur þar. Átta mínútur voru í næstu RERlest og rétt um það bil þegar við Finnur vorum að stíga upp í hana náði Jón að hringja í mig og stinga upp á nákvæmlega því sem ég hafði verið að hugsa um. Hefði verið ótrúlegt vesen, við Finnur að reyna að skima eftir þeim hinum á næstu stöð eða jafnvel fara út úr lestinni og þurfa að taka þá næstu, hefðum aldrei fundið þau þar sem þeirra lest var hraðútgáfan og stoppaði bara einu sinni alla leiðina, okkar hins vegar tíu eða ellefu sinnum. Eins gott að við náðum sambandi. Í þeirra vagni var einhver voða skemmtileg frönsk harmonikumúsík, í okkar kom bara trúboði.
Nú, á CDG náðum við öll saman, sem betur fór. Upp og keyptum miða í skutluna í garðinn, gengum svo beint upp í hana. Vesenið skipti semsagt engu máli á endanum, ef við Finnur hefðum náð upp í lestina hefðum við öll bara þurft að bíða tíu mínútum lengur á CDG eftir að skutlan færi af stað.

Ástríkur í eigin persónu
Miðarnir okkar útprentuðu svínvirkuðu inn í garðinn og skemmtunin tók við. Ákváðum að vera ekkert að setja bakpokann hans Jóns í geymsluna fyrr en við værum búin að fá okkur nestið okkar. Sem þýddi reyndar að ég missti af fyrsta rússíbananum; við erum svo voðalega löghlýðin að þegar við sáum að maður ætti ekki að fara með töskur í rússíbanana fór ég snarlega úr röðinni með bakpokann. Sá svo eiginlega strax eftir því, þar sem ég sá að allir aðrir létu fyrirmælin sem vind um eyrun þjóta og fóru bara samt með töskur og poka. Raðirnar þarna voru ógnarlangar, ég beið eftir þeim í örugglega fjörutíu mínútur. Sá samt hvenær þau fóru af stað og var búin að telja hve margir bátar færu af stað þar til hringnum væri náð. Tókst semsagt að taka vídjó af þeim niður lokabrekkuna.
Sem betur fer var þetta nú ekki mest spennandi rússíbaninn. Ég var einu sinni algjör rússíbanafíkill, svo þegar ég eignaðist börnin gerðist ég lofthrædd og hef eiginlega ekki farið í neitt síðan. Núna ákvað ég að nenna þessu rugli ekki lengur og fór með genginu mínu í næstu röð (hmm já, semsagt, nestið var hesthúsað milli rússíbana og við losuðum okkur við bakpokann). Fjögur húrrahróp hét þessi rússíbani. Biðin þar var 40 mínútur eða svo og svo var ég barasta ekkert hrædd. Lokaði varla augunum á leiðinni upp fyrstu og ljótustu brekkuna. Snilld að vera hætt þessu panikkrugli!
Smá dropar duttu úr loftinu og eftir svo sem mínútu var komið hið ótrúlegasta úrhelli. Ætluðum að vera Fearless Icelanders en á endanum voru það bara krakkarnir sem héldu það út, við Jón flúðum undir sólhlíf en þau fóru í hinn stóra vatnsrússíbanann, auðvitað var talsvert styttri röð þar, þar sem allir Frakkarnir héldu okkur selskap og hírðust undir sólhlífum og öðrum hlífum meðan mesta skúrin gekk yfir. Sáum þau framarlega í röð og fundum (að við héldum) útganginn frá rússibananum. Fórum aftur fram fyrir, á meðan skúrin var og slatta eftir það voru bara sendir tómir bátar út, loksins þegar röðin fór aftur af stað var ekki langt í krakkana. Annað skvettuvídjó tekið. Fórum aftur til baka þar sem útgangurinn var en enginn kom þar út þannig að við þurftum að fara aftur fram fyrir og leita. Kom sér vel þarna og oftar hvað Finnur hafði orðið hrifinn af skærappelsínugulu hettupeysunni, ótrúlega auðvelt að finna hann.
Menhir Express
Næsti rússíbani var Ósiris, nýjasta aðdráttarafl Ástríksskemmtigarðsins. Það var enn lengri bið þar, hugsa hún hafi náð 50 mínútum. Þetta var einn alskemmtilegasti rússíbani sem ég hef á ævinni vitað, týpan þar sem sætin hanga í vagninum, fætur hanga frítt, fullt af skrúfum og lykkjum og allt. Hefði verið til í að fara beint aftur í þennan en ekki alveg eins til í tæplega klukkutíma bið.

Gervitöframenn
Langaði í eitthvað smotterí eftir þetta, fengum okkur samloku (Freyja) köku (við Finnur) og bjór (Jón). Reyndist nákvæm tímasetning, akkúrat þegar við vorum að borga brást á með annarri svona brjálaðri skúr. Eitthvað hafði kvarnast úr garðgestum við regnskúrirnar því röðin við næsta og stærsta rússíbanann reyndist ekki nema um 20 mínútur. Akkúrat þegar við vorum að koma á pallinn kom svo þriðja skúrin, rétt sluppum undir skjólið við pallinn (önnur nákvæm tímasetning). Tíu mínútur í viðbót þurftum við að bíða þar, því rússíbanarnir eru ekki keyrðir í úrhelli. Grey fólkið sem var tveimur mínútum á eftir okkur í röðinni! Sáum reyndar fullt af fólki í Parc Asterix regnslám, væntanlega hefur verið góður bissniss í þeim þennan daginn.
Þessi rússíbani reyndist reyndar einum of fyrir mig, ekki að ég yrði neitt hrædd, ókei var reyndar með augun meira lokuð en í hinum en það var aðallega vegna þess að það var svo ferlega erfitt að halda höfðinu kyrru upp við sætisbakið og það lamdist alltaf við ytri höfuðhlífarnar, það var hrikalega óþægilegt og ég kom út með mega hausverk sem lagaðist ekki fyrr en um tuttugu mínútum seinna. Frekar súrt. Hefði átt að sleppa þessum og fara frekar í Osiris aftur. Feikinógu skemmtilegur og passlega scary.
Krakkarnir fóru í eitt tæki til, sjá vídjó, við gamla settið ákváðum að sitja það af okkur. Hefði reyndar örugglega farið nema vegna þess að ég var enn með hausverk. Gerir svo sem ekki til.
Trójuhesturinn
Gaman við Parc Asterix að maður bara kaupir sér miða og þá eru nánast öll tækin ókeypis. Við hefðum þurft að borga í hjólabátana (tímdum ekki) og auðvitað ef við hefðum viljað prófa einhverja skotbakka eða einarma bandítta. Sem var enginn spenningur fyrir. Auðvitað er peningaplokk í gangi eins og í góðum og gegnum kapítalískum venjúum, hefðum getað keypt myndir af okkur öskrandi í rússíbönunum fyrir 9 evrur og veitingar voru hreint ekki ódýrar en það var hægt að komast hjá því öllu ef maður vildi.
Misstum af höfrungasýningunni reyndar sem var synd, föttuðum ekki að síðasta sýning var klukkan þrjú. Ástæða til að koma aftur, bara. Samt tæpast í þessari Frakklandsferð.
Jánei, EuroDisney var ekki á dagskránni. Vorum í Frakklandi, ekki Bandaríkjunum.
Heimferðin gekk snurðulaust fyrir sig, skil samt ekki hvers vegna miðarnir til baka kostuðu tveimur evrum meira en þangað. Lentum í íbúðinni um sjöleytið, afgangar í matinn, gott rósavín um kvöldið. Ekki séns að fara meira út þennan daginn, ónei, allir ótrúlega þreyttir eftir langan dag.
Nýlegar athugasemdir