Sarpur fyrir ágúst, 2012

Dagur tuttuguogeitt. Lokahnykkurinn.

Ekki nenntum við nú að vakna snemma, maður er svo sem ekkert vanur að venja sig á að vakna fyrir allar aldir þegar flogið er með þægilega morgunfluginu frá Keflavík. Lætur sig bara hafa það að stilla klukkuna og vera syfjaður.

Eftir morgunmat var stefnt á mega ostainnkaup. Reiknuðum nú reyndar ekki með að vera með heil fjögur kíló, ferskostar geymast ekki alveg SVO vel og lítið varið í að koma með einhver ósköp af osti til að hann skemmdist bara í ísskápnum. Foie gras var líka keypt (nei ég kaupi ekki þetta með illu meðferðina á gæsunum, sjá hér. Reyndar ekki besta greinin um þetta, ég finn hana ekki).

Til baka heim, henda ostunum í ísskápinn, sækja Freyju sem ekki hafði nennt á markaðinn og út að borða í hádeginu. Rétt hjá okkur var lítið veitingahús sem lét ekki  mikið yfir sér. Frakkarnir höfðu nú samt mælt með því og við höfðum allan timann verið að hugsa um að drífa okkur nú þangað, gengum fram hjá því nánast daglega. Einhvern veginn hafði það nú samt æxlast þannig að þegar við ætluðum út að borða var það annaðhvort eitthvað smotterí eða oftar í samhengi við eitthvað sem við vorum að sýsla annars staðar í bænum. Þannig að þetta var síðasti möguleikinn á því að borða á hverfisveitingahúsinu okkar.

Á leiðinni niðureftir hafði Jón á orði hvað við ættum að gera ef okkur litist ekki á neitt á matseðlinum. Finnur tautaði eitthvað um sushi en meira var ekki rætt. Settumst á útiborð á staðnum og fengum að sjá matseðilinn sem var handskrifaður á krítartöflu.

Andalæri í hunangs/karrísoði á la /po.za.da/

Skemmst frá því að segja að þetta var sá almest spennandi matseðill sem við höfðum séð alla ferðina. Hefði getað hugsað mér að panta allavega fimm af átta aðalréttum á listanum, svipað með forréttina og eftirréttina. Stutta tilboðið (forréttur+aðalréttur eða aðalréttur+eftirréttur) kostaði 13 evrur, þriggja rétta kostaði 16 evrur. Fengum okkur öll aðalrétt og desert, kjúklingurinn í salatinu hans Finns var fullkomlega steiktur og ávextirnir og grænmetið ferskt og brakandi, kálfurinn hennar Freyju frábær og hárrétt eldaður og andalærin okkar Jóns í hunangs/karrísósu voru púra unaður. (matarklám dagsins í boði Hildigunnar).

Ég fór næstum því að gráta að vita af þessum stað og hafa bara borðað þarna einu sinni allar þrjár vikurnar. Ég stakk meira að segja upp á því að við myndum borða þarna aftur um kvöldið. Hálfpartinn í alvöru. Gerðum það nú samt ekki þar sem við áttum rauðvínsflösku sem við þurftum eiginlega að klára með kvöldmatnum (mjög góða en þó ekki svo fína að það tæki því að fara að pakka henni niður í tösku til að fara með heim og borga af í tollinum).

Nújæja, eftir þennan unaðslega mat var ekki til setunnar boðið, heim og pakka og þrífa til að skila íbúðinni vel af okkur. Þurfti nú ekki mikið til, við vorum ekki búin að drasla mikið til, smá afþurrkun, pakka okkar eigin dóti, henda handklæðum í þvottavél og ryksuga og sópa.

Hef ég minnst á hvað ég hata pokaryksugur heitt og innilega? Nei? Þá geri ég það núna. Ég hata pokaryksugur! Heitt og innilega!

Slátrarinn og boeuf tournedos – heitir það ekki turnbauti á íslensku? Ekki viss um að hafa prófað svoleiðis áður. Fyrst bjó Jón Lárus samt til fyrir mig uppáhalds kokkteilinn okkar, Love in the Afternoon. Reyndist betri en heima, jarðarberin voru sætari og betri og cream of coconut sem við keyptum var þykkt og æðislegt. Lúxusátdagur.

Tróðum ofan í töskurnar öllu sem hægt var, horfðum á úrslit í 200 metrum karla og sigurvegarnn með stælana og fórum síðan að sofa. Miðað við hvað ég var hroðalega syfjuð yfir Ólympíuleikunum tók samt ótrúlegan tíma að sofna, var ekki dottin út fyrr en undir miðnætti.

Dagur tuttugu. Montmartre.

Styttist í fríinu, tveir dagar eftir. Freyja hafði beðið þess í ofvæni að fara til Montmartre og skoða, ekki Sacré Coeur og heldur ekki Rauðu mylluna heldur kaffihúsið sem Amélie er tekin upp í að miklu leyti. Amélie er ein af uppáhalds myndum dótturinnar nefnilega.

árbítur

Vaknaði rúmlega sex, vakti hin um sjöleytið (krakkarnir fengu samt að sofa pínu lengur þó ég ýtti aðeins við þeim). Var svo hundsyfjuð sjálf og lagði mig smá aftur. Gat samt ekki sofnað. Allir komnir á fætur fyrir tíu og lögðum í hann upp úr því.

Tvisturinn að Rauðu myllunni, enginn hafði séð hana nema ég, fór reyndar þar á sýningu með Suzukigenginu. Myndataka og svo stefnt á Amélieslóðir. Fundum kaffihúsið hennar og auðvitað urðum við að setjast þar og fá okkur petit dejeuner. Samt ekki morgunmat Amélie, hann var fullstór fyrir okkur sem vorum jú búin að fá okkur morgunmat. Þrjú egg og bagetta og pain au chocolat og hvað veit ég? Allavega var nýkreisti appelsínusafinn, litla bagettan með smjöri og sultu og tebollinn bara ansi gott. Við Jón pöntuðum okkur svoleiðis, Finnur var ekki orðinn svangur, Freyja eiginlega ekki heldur en þáði súkkulaðibrauðið mitt. Finnur hefur aldrei séð Amélie, ekki að vita nema hann verði settur fyrir framan varpið þegar við horfum aftur heima til að rifja þetta allt saman upp.

Áfram á Amélieslóðum, fundum grænmetis- og ávaxtamarkaðinn með leiðinlega gaurnum (væntanlega samt ekki sá sami að afgreiða) og húsið hennar, að við höldum.

Skoðuðum Salvador Dali safnið, ekki fór það nú svo að við færum ekki í eitt listasafn í allri þessari löngu Parísarferð. Höfðum ákveðið að sleppa Louvre alveg, svona risasöfn heilla mig nákvæmlega ekki neitt eins og ég hef áður talað um, Picasso safnið var lokað, verið að taka það í gegn í ár og Orangerie náðum við ekki fyrir löngu biðröðinni upp í turn Notre Dame daginn áður. Dali safnið var æðislegt, mjög fjölbreytt eins og hans langi ferill. Meira að segja Finni þótti gaman að skoða listaverkin.

Þægilegur þessi

Gengið svo gegn um stóra listamannamarkaðinn á hæðinni rétt við Sacre Coeur. Féllum bara fyrir ís. Að kirkjunni, ísinn ekki alveg búinn þannig að við ákváðum að ganga upp með hliðinni á henni. Þar var teiknari næstum búinn að veiða Finn, byrjaður að setja strik á blað þegar við orguðum á hann að koma. Teiknarinn var voða móðgaður og sagðist bara ætla að teikna hann fyrir sitt eigið safn, it’s ART you know! Ég: Uhumm en við borgum sko ekki! Hann: Ég teikna og svo ef ykkur líkar teikningin þá kaupið þið hana. Við: Jáneitakk! Kunni tæpast við að ganga aftur sömu leið til baka, en þá var gaurinn reyndar farinn eitthvert annað.

Sacre Coeur sló í gegn, Freyju fannst hún fallegasta kirkja sem hún hefði nokkurn tímann séð. Hún er auðvitað mjög falleg, það er alveg satt.

Niður tröppurnar sem við sluppum við að ganga upp með því að fara þessar krókaleiðir. Það er nú ansi skemmtilegt þarna, þrátt fyrir óteljandi skransala með draslið sitt. Tók mynd niður einn rampinn, efsti skransalinn var lítt hrifinn og tók fyrir andlitið. No photos, no photos!!!

skransalinn

Komin alveg niður settumst við á bekk til að ákveða hvað næst. Langaði pínulítið að skoða stóra kirkjugarðinn aðeins vestar, plönuðum að kíkja þangað og ganga svo norður fyrir Montmartre hæðina og taka metró á stöðinni hennar Amélie.

Að kirkjugarðinum komumst við klakklaust, sáum reyndar ítalska ísbúð á leiðinni með melónuís, dauðsá eftir hindberjaísnum sem ég hafði fengið mér á markaðnum þó sá hefði verið fínn. Ítalskur melónuís er algerlega toppurinn. Nú, eitthvað fór lítið fyrir hliðum á blessuðum kirkjugarðinum, gengum meðfram heilli hlið, enginn inngangur, fyrir horn, ekkert sjáanlegt. Væntanlega hefðum við þurft að fara í hina áttina en þegar þarna var komið nenntum við ómögulega að fara til baka eða allan hringinn þannig að í staðinn var ákveðið að fá okkur eitthvað að drekka á næsta álitlega stað.

Slíkur fannst um 10 mínútum síðar (já við vorum komin út af mesta túristasvæðinu). Ágætis staður, örstutt frá metróstöðinni. Finnur var eitthvað önugur og við uppgötvuðum að hann hafði eiginlega ekki borðað neitt síðan einn Chocapic (nokkurs konar kókópöffs) disk um morguninn. Bara sítrónusafaglas á Amalíukaffi og svo einn ítalskan ís. Ekki beinlínis besta næringin. Hann hresstist allur við af bagettubita og appelsíni.

Fundum stöðina hennar Amélie, óvenju falleg af metróstöð að vera. Heim í íbúð með smá stoppi í bakaríi og crépuvagni og búð. Crépan í vagninum reyndist mikið betri en á staðnum, eiginlega algjört æði.

Dagur nítján. Upsagrýlur. Loksins!

Krakkar og chimerur í turni

Óttaleg leti í gangi, vaknaði sjö eins og venjulega en skreið aftur upp í rúm og steinsofnaði, svaf til níu. Ógurlega gott. Skutumst að versla, áttum eitthvað svo mikið pasta eftir og planið var að búa til gráðostapasta um kvöldið. Það klikkar aldrei. Heim aftur og glápt á ólympíuleikana, lesið, cassoulet úr krukku í hádegismat, með betri krukkumat sem ég hef á ævi minni fengið.

Dröttuðumst ekki út fyrr en vel eftir hádegið, ætluðum á upsagrýluveiðar og í Orangerie listasafnið í Tuileries garðinum. Kristín hafði samband og sagði okkur að hún ætlaði að hitta skemmtilega Íslendinga í uppáhaldsgarðinum mínum Buttes-Chaumont klukkan fimm og hvort við vildum kannski koma líka. Var ekki alveg viss um að tíminn myndi leyfa það en skyldum reyna.

Bjartsýnu túristar.

Röðin upp í turn á Notre Dame reyndist nærri tveggja tíma löng og sjálfur göngutúrinn um 50 mínútur. Slaufuðum Orangerie strax og við sáum hve hægt röðin gekk en ættum nú að ná Buttes-Chaumont.

Voðalega margar tröppur upp í turn, ágætt að vera í góðu gönguformi eftir ýmsar ferðir. Grýlurnar (upsa og hinsegin, gargoyles eru til að taka vatnsafrennsli en chimeras eru þessar grýlur sem flestir hugsa um) tóku vel á móti okkur þarna uppi.

Ég hefði ekki viljað vera lofthrædd þarna, held að ég sé orðin alveg laus við lofthræðsluna, sveimérþá.

Chimera

Niður komum við ekki fyrr en rétt fyrir fimm. Öll sársvöng og leist ekkert á það að ná garðinum og vinunum af neinu viti. Hringdi bara og bað að heilsa í hittinginn.

Fundum spennandi veitingahús og settumst, reyndist líka fínt nema reyndar var ég alltaf að finna lyktina af sígarettustubbum á jörðinni fyrir neðan. Hafði líka pirrað mig í biðröðinni upp í turninn. Ég held svei mér þá að hér í París höfum við orðið fyrir meiri óbeinum reykingum á þessum þremur vikum en síðastliðin 3-4 ár heima á Íslandi.

Komum svo heim um hálfsjö, kvöldið fór bara í ólympíuleika, lestur og dagbókarskrif. Reyndi að ná sambandi við Fífu en tókst ekki. Hefðum síðan alveg getað farið í garðinn, þau sátu þar á spjalli þar til hann lokaði, klukkan tíu. En hei, það er ekki hægt að gera allt.

Dagur átján. Afmæli og matarboð

Við bóndinn eigum marga merkisdaga, daginn sem við hittumst (skutum reyndar á hann, fundum ekki út nákvæma dagsetningu, haldið upp á hann samt), daginn sem tilhugalíf byrjaði, daginn sem við byrjuðum saman, óopinber trúlofunardagur, opinber trúlofunardagur og svo brúðkaupsafmæli. Seinni partur sumars og fyrst um haustið er undirlagður þessum dögum (ókei opinbera trúlofunin varð ekki fyrr en 4. nóvember). Klárt að einhver þessarra daga myndi lenda á þriggja vikna fríinu okkar í París.

Héldum upp á daginn með því að gera ekkert fram eftir degi og bjóða uppáhalds Parísarbúunum okkar í mat um kvöldið. Höfðum plottað að fara á upsagrýluveiðar en unglingurinn nennti ekki, var of þreytt eftir Versalaferðina. Frestuðum semsagt turnklifri enn og aftur.

Út í búð að kaupa naut og svín og pylsu og beikon, já rétt til getið, bolognese frá grunni í kvöldmatinn. Fyrir utan að vera einn af aðal uppáhaldsréttunum okkar ætti það líka að ganga í krakkana sem kæmu í matinn. Bakaríið reyndist lokað þannig að leit hófst að öðru opnu, litlar franskar kökur í desert. Gestirnir ætluðu að koma með forréttinn.

Á leiðinni í búðina rákumst við á þetta:

Ofurmálningarsletta

Þetta var greinilega götumálning, semsagt svona fyrir götumerkingar, miðlínur og viðlíka og mun verða þarna þar til skipt verður um gangstétt. Tja nema þeir ákveði að skipta bara strax.

Fundum annað án þess að þurfa að fara niður í túristamiðbæ, ágætt, þurftum heldur ekki að fara í bakaríið sem er næst okkur, það var lokað á laugardeginum og ég hugsa að það hafi verið opið þennan dag en við hættum að versla þar vegna fýlu í afgreiðslukonunum. Þær voru eina tilfellið sem við lentum í af erkitýpunum útrunnu ‘dónalega franska afgreiðslufólkinu’ sem nennir ekki að reyna að skilja mann, hvorki á broguðu frönskunni og alls ekki á ensku.

Eldamennska og svo eitt stykki handboltaleikur. Bolognesan tókst bara þetta ljómandi vel þrátt fyrir að hafa verið sinnt í pásum í boltaleik (djóhók, alltaf sinnt þegar bjallan hringdi enda vorum við nú misföst við leikinn).

Gestirnir komu með ótrúlega góðan forrétt, andahjörtu, snöggsteikt á pönnu og salat með dressing. Hefði auðveldlega getað borðað svona hjörtu sem aðalrétt. Fáránlega góður matur, mjúkt og meyrt fyrir allan peninginn. Selst nær eingöngu í Périgord héraði, enginn annar vill víst sjá þennan frábæra mat. Sud Ouest ftw! Parísardaman varð impóneruð yfir að krakkarnir voru alveg til í að smakka hjörtun, ekki týpískir íslenskir krakkar.

Þrátt fyrir að allir fengju ábót af hjörtunum og salatinu varð bara kurteisisrest eftir af bolognesinu. Sárhneyksluðum Frakkann með því að skera sundur kökurnar þannig að hver gæti smakkað tvær týpur. Þannig gerir maður sko ekki í Frakklandi. Held hann hafi nú samt getað fyrirgefið okkur. Tókst samt að velja tvisvar sinnum hindberjaköku svo hann þyrfti allavega ekki að þola að deila tegundum!

guttarnir og DSinn

Spjallað mikið lengra fram eftir kvöldi en þau áttuðu sig á, vonandi festust þau ekki niðri í metrokerfinu! Finnur og Kári smullu saman síðkvölds yfir Nintendo DéEssinum hans Finns, ég þykist vita hvaða græja verði á næsta jólagjafaóskalista hins yngri.

Dagur sautján. Versalir

Sjö, nú urðu allir að vakna klukkan sjö. Ágætis æfing fyrir föstudaginn fimm dögum síðar þegar allir þyrftu að vakna klukkan fjögur. Samt ekki að hugsa um að vekja alla klukkan sjö-sex-fimm dagana sem eftir voru. Finnur hafði svindlað daginn áður og fór alls ekkert snemma að sofa heldur las til miðnættis. Ég var skíthrædd um að hann yrði alveg hræðilegur um morguninn, sonur minn þarf svefninn sinn og ekkert með það. Hann var hins vegar bara ágætur, mesta furða. Ég var reyndar hundþreytt líka, ekkert skárri en Finnur kvöldið áður, bókin mín var svo spennandi að ég las til hálftvö og var síðan alltaf að vakna alla nóttina. Giskaði á að ég hefði sofið um fjóra tíma í allt, og það í bútum.

Komumst út úr húsi á áætluðum tíma klukkan kortér fyrir átta, tókum tvær lestir til Invalides þar sem við áttum stefnumót við Kristínu og krakkana hennar. Þau voru komin á staðinn og við stefndum á þriðju lestina, RER til Versailles Rive Gauche. Jón Lárus fór síðastur niður rúllustigann og á eftir honum kom vasaþjófur, þegar sá tók eftir að Jón hélt um vasann með veskinu hoppaði hann til baka upp þrepin tvö eða þrjú sem hann var kominn niður. Spes.

Ég skil, skil, skil ekki hvers vegna ekki eru til íslensk bakarí sem baka eftir frönsku hefðinni!

Biðum smástund eftir lestinni en fengum svo fín sæti. Á leiðinni fengum við fyrirlestur um kóngana, drottningana, ástkonur þeirra og ástmenn. Tókst ekki að klára sögurnar þar sem lestin var ekki lengi á leiðinni. Ég hafði frábeðið mér að fara inn í höllina, verð alltaf alveg búin á því að sjá svona ógurlega mikið skraut. Þannig að ég var send í bakarí og keypti bagettur fyrir okkur, Kristín kom með nestið en ætlaði að kaupa brauðið á staðnum. Þau hin fóru í höllina, ég var nærri búin að biðja Finn um að koma með mér og hefði reyndar betur gert það, en gat nú varla neitað honum um að fara að skoða höllina úr því hann vildi það. Þekki hann nefnilega eiginlega betur en hann sjálfur gerir. Kristín var búin að kaupa alla miða sem við þurftum, krakkarnir þurftu ekki að borga í höllina, Kristín var með VIP miða fyrir sig og einn fullorðinn þannig að þau gátu sleppt öllum röðum og farið fram fyrir sem var snilld. Röðin strax þarna um morguninn var örugglega að minnsta kosti klukkutími þannig að þetta var frábært. Ég rölti bara inn í garðana með brauðið, kíkti smá í kring um mig, fann síðan bekk og bókina sem ég var að lesa og beið eftir þeim hinum. Auðvitað var Finnur síðan orðinn þreyttur á göngunni um höllina eins og ég vissi – og garðarnir eftir. Mesta furða samt hvað hann kvartaði lítið.

Ballsalurinn

Gríðarlega glæsileg gosbrunnasýning, sérstaklega var ég hrifin af ballsalnum. Í görðunum er spiluð frönsk endurreisnarmúsík, margt mjög flott. Diskur með músíkinni fæst og klárt ég féll fyrir einum slíkum.

Niður eftir hluta garðanna, fullt af gosbrunnum á leiðinni. Stoppuðum hjá vatni og vorum með franskan pique nique samsettan af fararstjóranum okkar frábæra með sérstakri rauðvínssendingu frá manninum hennar sem veit sem er að við erum fyrir góð rauðvín. Fattaði auðvitað ekki að taka myndir af úrvalinu en hér er það sem við gátum ekki torgað:

Afgangarnir

Sátum þarna í góða stund í æðislegu veðri þar til Kristín togaði okkur á fætur, gangan um garðana var ekki búin, ekki einu sinni nándar nærri hálfnuð. Upp og skoða tvær „litlar“ hallir, sumarbústaði frá sjálfum Versölum, reistar fyrir mömmur og drottningar og ástkonur og hvað veit ég, upplýsingarnar renna allar saman, maður þyrfti að koma aftur í raun og veru til að taka þetta allt saman inn. Þessar tvær smáhallir voru alveg feikinógur hallaskammtur fyrir undirritaða. Þetta voru hins vegar einu staðirnir þar sem Finnur kvartaði, sagði að hann myndi frekar vilja fara þrjár ferðir í H&M heldur en að skoða fleiri hallir. Og þá er mikið sagt.

Tilbúið sveitaþorp var líka þarna á staðnum, mjög gaman að sjá. Sérstaklega fannst krökkunum skemmtilegt að gefa fiskum af brú, alætur, éta brauð og gúrkur og tabbouleh og atgangurinn er gríðarlegur:

Fleiri gosbrunnar á leið til baka, alltaf var harðstjórinn okkar að plata okkur með „bara eitt í viðbót“, ætli þau hafi ekki verið fimm eða svo. Skil reyndar ekki hvers vegna eru ekki fleiri bekkir kring um alla þessa gosbrunna, fólk er orðið örþreytt eftir garðana en það er hvergi hægt að setjast niður. Reyndi að tylla mér á steinhleðslu (reyndar með smá klipptu hekki framan á) en fékk hróp frá verði, nei það mátti sko ekki. Slapp samt við lögregluflautuna sem verðirnir höfðu annars nýtt sér óspart ef þeir sáu einhvern fara eða gera eitthvað sem ekki mátti.

Örþreytt orðin, skrefin voru frekar erfið út á lestarstöð. Frábærri Versalaheimsókn lokið, allavega í þetta skiptið. Mæli sannarlega með heimsókn með Parísardömunni, hún tekur 100 evrur á manninn og þá er allt innifalið, veitingar, miðar und alles. Og snilldarfararstjórn. Plöhögg!

Urðum samferða alveg að Républik stöðinni þar sem Kristín og krakkarnir héldu áfram heim en við tókum aðra lest heim til okkar. Vorum ekki búin að plotta neina eldamennsku um kvöldið og krakkarnir voru að röfla yfir að þau langaði hvorki í brauð né afganginn af rísottóinu síðan kvöldið áður þegar ég rak augun í að crépustaðurinn var opinn og stakk upp á að við fengjum okkur slíkar. Mætt með fagnaðarJÁHÁum. Við Jón kolféllum fyrir crépu með geitaosti og hunangi, reyndist líka algjört sælgæti. Krakkarnir fengu svo leyfi fyrir eftirmatarcrépu með súkkulaði/nutella og banönum. Ég hefði ekki átt fræðilegan möguleika í aðra eftir þá með ostinum.

Heim, ég var svo gersamlega búin á því að ég steinsofnaði fyrir klukkan níu og svaf nánast í einu setti til tæplega átta. Borgaði fyrir fjögurra tíma svefninn nóttina áður.

Dagur sextán. Sosum ekkert merkilegt. Blogg samt

Markaðurinn um morguninn eins og aðra markaðsdaga. Keyptum allt nema kjötið fyrir matarboðið sem stefnt var að á mánudegi. Drógum krakkana á fætur um hádegið, ætluðum að fá okkur crépes í hádegismat, Finnur hafði náðarsamlegast fengið leyfi til að borða sætan hádegismat. Crépustaðurinn reyndist síðan lokaður, þetta var annað skiptið sem við ætluðum á þennan stað og hann var ekki opinn. Þar sem við stóðum og reyndum að sjá hvenær væri eiginlega opið þarna komu að tvær franskar stelpur og tilkynntu okkur að þeir sem rækju staðinn væru gyðingar og þess vegna væri lokað – laugardagur sko. Ah.

Tyrkirnir með kebabstaðinn handan við hornið létu sér fátt um finnast um laugardaginn og þar fengum við hið fínasta kebab. Lambakjötið á spjótinu sem við Jón fengum var annaðhvort frá Íslandi eða þá að Guðni Ág hafi gersamlega rangt fyrir sér um að íslenska lambakjötið sé það eina æta í heiminum. Einhvern veginn er ég örlítið efins um að Tyrkirnir notist við rándýrt innflutt lamb. Freyja bjó til listaverk úr því sem hún gat ekki torgað:

kebabbátur með brauðsegli á frönskusjó

Næst bakarí og fleiri makrónukökur, þrjár flöskur af bragðbesta vatninu keyptar, á því stendur Gott fyrir ungbörn og Íslendinga. Þetta með Íslendingana er lygi. Kíktum yfir á Nation torgið sjálft inni í sjö akreina hringtorginu (já það voru gönguljós þangað), þar voru ekki túristar heldur aðallega rónar. Flott torg samt.

Nation

Heim og ég steinsofnaði í tvo tíma, spjallaði síðan við Parísardömuna um Versalaferð dagsins eftir, spáin var ekki sérstök og ég stakk upp á því að við færðum ferðina en þegar ég komst að því að þá sæjum við ekki gosbrunnana kom það sko ekki til greina. Algjör vatnsfíkill, gosbrunnar, fossar og lækir, brim, dýrka það. Ekki samt rigningu neitt sérstaklega.

Jón og Freyja út í smá labb, við Finnur eftir heima, skellti á mig fjólubláu naglalakki, má ekki minna vera fyrir Versali, er það annars?

Rísottó og Milanese sneiðar um kvöldið, ágætt en cordon bleu sneiðarnar frá slátraranum voru betri en þessar Milanese. Frekar kaupa þær aftur.

Brjálaður háspennuleikur Ísland-Frakkland í handboltanum, Jón og Freyja horfðu á Rúv á netinu þar sem leikurinn var ekki nógu merkilegur til að Frakkarnir sýndu hann beint. Spes reyndar þar sem þeir sýndu seinni hálfleik af Íslandi-Svíþjóð nokkrum dögum fyrr. Reyndar var sá leikur talsvert seinna um kvöldið og væntanlega ekkert meira spennandi í gangi á ólympíuleikunum. Eins og lesendur muna væntanlega tryggði íslenska landsliðið sér sigur í riðlinum með því að vinna það franska, glæsilega gert.

Snemma að sofa, þurftum að vakna fyrir allar aldir daginn eftir. Þau hin það er að segja, ég vakna jú alltaf klukkan sjö…

Dagur fimmtán. Parc Asterix

Meiningin var að vakna klukkan sjö en það tókst nú ekki alveg eftir háspennuleik kvöldsins áður, það hefði jú verið ill meðferð á börnum að skipa Finni að fara að sofa áður en leikurinn kláraðist. Gerði síðan ekki mikið til, þar sem garðshliðunum yrði ekki lokið upp fyrr en klukkan tíu.

 

Tveir bjórar og bagetta smurð með uppáhaldsáleggi allra. Finnur vill helst bagettuna sína óskemmda, finnst brauðið best eins og ég nefndi reyndar í gær . Liggur við að ég kunni ekki við það, lítur út eins og litla afskipta stjúpbarnið, allir fá gúmmulaðiálegg á franskbrauðið sitt nema sá minnsti sem þarf að borða brauðið þurrt. Lét það nú samt eftir honum. Drykki handa krökkunum átti að kaupa í garðinum, en við treystum ekki alveg á að geta keypt bjór to go. Hefði samt alveg gengið.

 

Af stað fórum við ekki fyrr en um hálftíu. Keyptum miða á stöðinni okkar, alla leið til Charles de Gaulle flugvallar, þar sem við tæki skutla á vegum garðsins. Metróferðin gekk að óskum og við rötuðum á RER (úthverfalesta)pallinn en þegar lestin kom þá stoppaði hún svo hrottalega stutt að ekki nóg með að bara Jón Lárus og Freyja kæmust inn í hana (semsagt ekki við Finnur) heldur komust ekki allir út úr vagninum sem ætluðu, tóku semsagt hálftíma aukaferð frá Gare du Nord að GDG. Vonandi að enginn hafi misst af lestinni sinni til norðurhluta Frakklands út af þessu.

 

Já semsagt, við Finnur urðum eftir á brautarpallinum. Þakkaði fyrir að það var ekki Finnur einn – símalaus – við höfðum alltaf passað okkur á því að hafa krakkana á undan okkur eða helst milli okkar í svona tilfellum. Kom sér vel í þetta skiptið. Höfðum reyndar sett upp plan í því tilfelli að einhver næði ekki að fara út úr lest, sá skyldi fara út á næstu stöð og hin elta og hittast þar. Þetta hentaði hins vegar talsvert verr í kringumstæðunum: ‘Sumir komust ekki inn í vagninn’. Margreyndi að hringja í Jón Lárus en fékk alltaf connection error, fannst mikið sniðugra að þau færu bara alla leið á CDG og hittu okkur þar. Átta mínútur voru í næstu RERlest og rétt um það bil þegar við Finnur vorum að stíga upp í hana náði Jón að hringja í mig og stinga upp á nákvæmlega því sem ég hafði verið að hugsa um. Hefði verið ótrúlegt vesen, við Finnur að reyna að skima eftir þeim hinum á næstu stöð eða jafnvel fara út úr lestinni og þurfa að taka þá næstu, hefðum aldrei fundið þau þar sem þeirra lest var hraðútgáfan og stoppaði bara einu sinni alla leiðina, okkar hins vegar tíu eða ellefu sinnum. Eins gott að við náðum sambandi. Í þeirra vagni var einhver voða skemmtileg frönsk harmonikumúsík, í okkar kom bara trúboði.

 

Nú, á CDG náðum við öll saman, sem betur fór. Upp og keyptum miða í skutluna í garðinn, gengum svo beint upp í hana. Vesenið skipti semsagt engu máli á endanum, ef við Finnur hefðum náð upp í lestina hefðum við öll bara þurft að bíða tíu mínútum lengur á CDG eftir að skutlan færi af stað.

 

Ástríkur í eigin persónu

Miðarnir okkar útprentuðu svínvirkuðu inn í garðinn og skemmtunin tók við. Ákváðum að vera ekkert að setja bakpokann hans Jóns í geymsluna fyrr en við værum búin að fá okkur nestið okkar. Sem þýddi reyndar að ég missti af fyrsta rússíbananum; við erum svo voðalega löghlýðin að þegar við sáum að maður ætti ekki að fara með töskur í rússíbanana fór ég snarlega úr röðinni með bakpokann. Sá svo eiginlega strax eftir því, þar sem ég sá að allir aðrir létu fyrirmælin sem vind um eyrun þjóta og fóru bara samt með töskur og poka. Raðirnar þarna voru ógnarlangar, ég beið eftir þeim í örugglega fjörutíu mínútur. Sá samt hvenær þau fóru af stað og var búin að telja hve margir bátar færu af stað þar til hringnum væri náð. Tókst semsagt að taka vídjó af þeim niður lokabrekkuna.

 

Sem betur fer var þetta nú ekki mest spennandi rússíbaninn. Ég var einu sinni algjör rússíbanafíkill, svo þegar ég eignaðist börnin gerðist ég lofthrædd og hef eiginlega ekki farið í neitt síðan. Núna ákvað ég að nenna þessu rugli ekki lengur og fór með genginu mínu í næstu röð (hmm já, semsagt, nestið var hesthúsað milli rússíbana og við losuðum okkur við bakpokann). Fjögur húrrahróp hét þessi rússíbani. Biðin þar var 40 mínútur eða svo og svo var ég barasta ekkert hrædd. Lokaði varla augunum á leiðinni upp fyrstu og ljótustu brekkuna. Snilld að vera hætt þessu panikkrugli!

 

Smá dropar duttu úr loftinu og eftir svo sem mínútu var komið hið ótrúlegasta úrhelli. Ætluðum að vera Fearless Icelanders en á endanum voru það bara krakkarnir sem héldu það út, við Jón flúðum undir sólhlíf en þau fóru í hinn stóra vatnsrússíbanann, auðvitað var talsvert styttri röð þar, þar sem allir Frakkarnir héldu okkur selskap og hírðust undir sólhlífum og öðrum hlífum meðan mesta skúrin gekk yfir. Sáum þau framarlega í röð og fundum (að við héldum) útganginn frá rússibananum. Fórum aftur fram fyrir, á meðan skúrin var og slatta eftir það voru bara sendir tómir bátar út, loksins þegar röðin fór aftur af stað var ekki langt í krakkana. Annað skvettuvídjó tekið. Fórum aftur til baka þar sem útgangurinn var en enginn kom þar út þannig að við þurftum að fara aftur fram fyrir og leita. Kom sér vel þarna og oftar hvað Finnur hafði orðið hrifinn af skærappelsínugulu hettupeysunni, ótrúlega auðvelt að finna hann.

Menhir Express

Næsti rússíbani var Ósiris, nýjasta aðdráttarafl Ástríksskemmtigarðsins. Það var enn lengri bið þar, hugsa hún hafi náð 50 mínútum. Þetta var einn alskemmtilegasti rússíbani sem ég hef á ævinni vitað, týpan þar sem sætin hanga í vagninum, fætur hanga frítt, fullt af skrúfum og lykkjum og allt. Hefði verið til í að fara beint aftur í þennan en ekki alveg eins til í tæplega klukkutíma bið.

Gervitöframenn

Langaði í eitthvað smotterí eftir þetta, fengum okkur samloku (Freyja) köku (við Finnur) og bjór (Jón). Reyndist nákvæm tímasetning, akkúrat þegar við vorum að borga brást á með annarri svona brjálaðri skúr. Eitthvað hafði kvarnast úr garðgestum við regnskúrirnar því röðin við næsta og stærsta rússíbanann reyndist ekki nema um 20 mínútur. Akkúrat þegar við vorum að koma á pallinn kom svo þriðja skúrin, rétt sluppum undir skjólið við pallinn (önnur nákvæm tímasetning). Tíu mínútur í viðbót þurftum við að bíða þar, því rússíbanarnir eru ekki keyrðir í úrhelli. Grey fólkið sem var tveimur mínútum á eftir okkur í röðinni! Sáum reyndar fullt af fólki í Parc Asterix regnslám, væntanlega hefur verið góður bissniss í þeim þennan daginn.

 

Þessi rússíbani reyndist reyndar einum of fyrir mig, ekki að ég yrði neitt hrædd, ókei var reyndar með augun meira lokuð en í hinum en það var aðallega vegna þess að það var svo ferlega erfitt að halda höfðinu kyrru upp við sætisbakið og það lamdist alltaf við ytri höfuðhlífarnar, það var hrikalega óþægilegt og ég kom út með mega hausverk sem lagaðist ekki fyrr en um tuttugu mínútum seinna. Frekar súrt. Hefði átt að sleppa þessum og fara frekar í Osiris aftur. Feikinógu skemmtilegur og passlega scary.

 

Krakkarnir fóru í eitt tæki til, sjá vídjó, við gamla settið ákváðum að sitja það af okkur. Hefði reyndar örugglega farið nema vegna þess að ég var enn með hausverk. Gerir svo sem ekki til.

Trójuhesturinn

Gaman við Parc Asterix að maður bara kaupir sér miða og þá eru nánast öll tækin ókeypis. Við hefðum þurft að borga í hjólabátana (tímdum ekki) og auðvitað ef við hefðum viljað prófa einhverja skotbakka eða einarma bandítta. Sem var enginn spenningur fyrir. Auðvitað er peningaplokk í gangi eins og í góðum og gegnum kapítalískum venjúum, hefðum getað keypt myndir af okkur öskrandi í rússíbönunum fyrir 9 evrur og veitingar voru hreint ekki ódýrar en það var hægt að komast hjá því öllu ef maður vildi.

 

Misstum af höfrungasýningunni reyndar sem var synd, föttuðum ekki að síðasta sýning var klukkan þrjú. Ástæða til að koma aftur, bara. Samt tæpast í þessari Frakklandsferð.

 

Jánei, EuroDisney var ekki á dagskránni. Vorum í Frakklandi, ekki Bandaríkjunum.

 

Heimferðin gekk snurðulaust fyrir sig, skil samt ekki hvers vegna miðarnir til baka kostuðu tveimur evrum meira en þangað. Lentum í íbúðinni um sjöleytið, afgangar í matinn, gott rósavín um kvöldið. Ekki séns að fara meira út þennan daginn, ónei, allir ótrúlega þreyttir eftir langan dag.


bland í poka

teljari

  • 371.383 heimsóknir

dagatal

ágúst 2012
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa