Sarpur fyrir ágúst, 2012

Dagur tuttuguogeitt. Lokahnykkurinn.

Ekki nenntum við nú að vakna snemma, maður er svo sem ekkert vanur að venja sig á að vakna fyrir allar aldir þegar flogið er með þægilega morgunfluginu frá Keflavík. Lætur sig bara hafa það að stilla klukkuna og vera syfjaður.

Eftir morgunmat var stefnt á mega ostainnkaup. Reiknuðum nú reyndar ekki með að vera með heil fjögur kíló, ferskostar geymast ekki alveg SVO vel og lítið varið í að koma með einhver ósköp af osti til að hann skemmdist bara í ísskápnum. Foie gras var líka keypt (nei ég kaupi ekki þetta með illu meðferðina á gæsunum, sjá hér. Reyndar ekki besta greinin um þetta, ég finn hana ekki).

Til baka heim, henda ostunum í ísskápinn, sækja Freyju sem ekki hafði nennt á markaðinn og út að borða í hádeginu. Rétt hjá okkur var lítið veitingahús sem lét ekki  mikið yfir sér. Frakkarnir höfðu nú samt mælt með því og við höfðum allan timann verið að hugsa um að drífa okkur nú þangað, gengum fram hjá því nánast daglega. Einhvern veginn hafði það nú samt æxlast þannig að þegar við ætluðum út að borða var það annaðhvort eitthvað smotterí eða oftar í samhengi við eitthvað sem við vorum að sýsla annars staðar í bænum. Þannig að þetta var síðasti möguleikinn á því að borða á hverfisveitingahúsinu okkar.

Á leiðinni niðureftir hafði Jón á orði hvað við ættum að gera ef okkur litist ekki á neitt á matseðlinum. Finnur tautaði eitthvað um sushi en meira var ekki rætt. Settumst á útiborð á staðnum og fengum að sjá matseðilinn sem var handskrifaður á krítartöflu.

Andalæri í hunangs/karrísoði á la /po.za.da/

Skemmst frá því að segja að þetta var sá almest spennandi matseðill sem við höfðum séð alla ferðina. Hefði getað hugsað mér að panta allavega fimm af átta aðalréttum á listanum, svipað með forréttina og eftirréttina. Stutta tilboðið (forréttur+aðalréttur eða aðalréttur+eftirréttur) kostaði 13 evrur, þriggja rétta kostaði 16 evrur. Fengum okkur öll aðalrétt og desert, kjúklingurinn í salatinu hans Finns var fullkomlega steiktur og ávextirnir og grænmetið ferskt og brakandi, kálfurinn hennar Freyju frábær og hárrétt eldaður og andalærin okkar Jóns í hunangs/karrísósu voru púra unaður. (matarklám dagsins í boði Hildigunnar).

Ég fór næstum því að gráta að vita af þessum stað og hafa bara borðað þarna einu sinni allar þrjár vikurnar. Ég stakk meira að segja upp á því að við myndum borða þarna aftur um kvöldið. Hálfpartinn í alvöru. Gerðum það nú samt ekki þar sem við áttum rauðvínsflösku sem við þurftum eiginlega að klára með kvöldmatnum (mjög góða en þó ekki svo fína að það tæki því að fara að pakka henni niður í tösku til að fara með heim og borga af í tollinum).

Nújæja, eftir þennan unaðslega mat var ekki til setunnar boðið, heim og pakka og þrífa til að skila íbúðinni vel af okkur. Þurfti nú ekki mikið til, við vorum ekki búin að drasla mikið til, smá afþurrkun, pakka okkar eigin dóti, henda handklæðum í þvottavél og ryksuga og sópa.

Hef ég minnst á hvað ég hata pokaryksugur heitt og innilega? Nei? Þá geri ég það núna. Ég hata pokaryksugur! Heitt og innilega!

Slátrarinn og boeuf tournedos – heitir það ekki turnbauti á íslensku? Ekki viss um að hafa prófað svoleiðis áður. Fyrst bjó Jón Lárus samt til fyrir mig uppáhalds kokkteilinn okkar, Love in the Afternoon. Reyndist betri en heima, jarðarberin voru sætari og betri og cream of coconut sem við keyptum var þykkt og æðislegt. Lúxusátdagur.

Tróðum ofan í töskurnar öllu sem hægt var, horfðum á úrslit í 200 metrum karla og sigurvegarnn með stælana og fórum síðan að sofa. Miðað við hvað ég var hroðalega syfjuð yfir Ólympíuleikunum tók samt ótrúlegan tíma að sofna, var ekki dottin út fyrr en undir miðnætti.

Dagur tuttugu. Montmartre.

Styttist í fríinu, tveir dagar eftir. Freyja hafði beðið þess í ofvæni að fara til Montmartre og skoða, ekki Sacré Coeur og heldur ekki Rauðu mylluna heldur kaffihúsið sem Amélie er tekin upp í að miklu leyti. Amélie er ein af uppáhalds myndum dótturinnar nefnilega.

árbítur

Vaknaði rúmlega sex, vakti hin um sjöleytið (krakkarnir fengu samt að sofa pínu lengur þó ég ýtti aðeins við þeim). Var svo hundsyfjuð sjálf og lagði mig smá aftur. Gat samt ekki sofnað. Allir komnir á fætur fyrir tíu og lögðum í hann upp úr því.

Tvisturinn að Rauðu myllunni, enginn hafði séð hana nema ég, fór reyndar þar á sýningu með Suzukigenginu. Myndataka og svo stefnt á Amélieslóðir. Fundum kaffihúsið hennar og auðvitað urðum við að setjast þar og fá okkur petit dejeuner. Samt ekki morgunmat Amélie, hann var fullstór fyrir okkur sem vorum jú búin að fá okkur morgunmat. Þrjú egg og bagetta og pain au chocolat og hvað veit ég? Allavega var nýkreisti appelsínusafinn, litla bagettan með smjöri og sultu og tebollinn bara ansi gott. Við Jón pöntuðum okkur svoleiðis, Finnur var ekki orðinn svangur, Freyja eiginlega ekki heldur en þáði súkkulaðibrauðið mitt. Finnur hefur aldrei séð Amélie, ekki að vita nema hann verði settur fyrir framan varpið þegar við horfum aftur heima til að rifja þetta allt saman upp.

Áfram á Amélieslóðum, fundum grænmetis- og ávaxtamarkaðinn með leiðinlega gaurnum (væntanlega samt ekki sá sami að afgreiða) og húsið hennar, að við höldum.

Skoðuðum Salvador Dali safnið, ekki fór það nú svo að við færum ekki í eitt listasafn í allri þessari löngu Parísarferð. Höfðum ákveðið að sleppa Louvre alveg, svona risasöfn heilla mig nákvæmlega ekki neitt eins og ég hef áður talað um, Picasso safnið var lokað, verið að taka það í gegn í ár og Orangerie náðum við ekki fyrir löngu biðröðinni upp í turn Notre Dame daginn áður. Dali safnið var æðislegt, mjög fjölbreytt eins og hans langi ferill. Meira að segja Finni þótti gaman að skoða listaverkin.

Þægilegur þessi

Gengið svo gegn um stóra listamannamarkaðinn á hæðinni rétt við Sacre Coeur. Féllum bara fyrir ís. Að kirkjunni, ísinn ekki alveg búinn þannig að við ákváðum að ganga upp með hliðinni á henni. Þar var teiknari næstum búinn að veiða Finn, byrjaður að setja strik á blað þegar við orguðum á hann að koma. Teiknarinn var voða móðgaður og sagðist bara ætla að teikna hann fyrir sitt eigið safn, it’s ART you know! Ég: Uhumm en við borgum sko ekki! Hann: Ég teikna og svo ef ykkur líkar teikningin þá kaupið þið hana. Við: Jáneitakk! Kunni tæpast við að ganga aftur sömu leið til baka, en þá var gaurinn reyndar farinn eitthvert annað.

Sacre Coeur sló í gegn, Freyju fannst hún fallegasta kirkja sem hún hefði nokkurn tímann séð. Hún er auðvitað mjög falleg, það er alveg satt.

Niður tröppurnar sem við sluppum við að ganga upp með því að fara þessar krókaleiðir. Það er nú ansi skemmtilegt þarna, þrátt fyrir óteljandi skransala með draslið sitt. Tók mynd niður einn rampinn, efsti skransalinn var lítt hrifinn og tók fyrir andlitið. No photos, no photos!!!

skransalinn

Komin alveg niður settumst við á bekk til að ákveða hvað næst. Langaði pínulítið að skoða stóra kirkjugarðinn aðeins vestar, plönuðum að kíkja þangað og ganga svo norður fyrir Montmartre hæðina og taka metró á stöðinni hennar Amélie.

Að kirkjugarðinum komumst við klakklaust, sáum reyndar ítalska ísbúð á leiðinni með melónuís, dauðsá eftir hindberjaísnum sem ég hafði fengið mér á markaðnum þó sá hefði verið fínn. Ítalskur melónuís er algerlega toppurinn. Nú, eitthvað fór lítið fyrir hliðum á blessuðum kirkjugarðinum, gengum meðfram heilli hlið, enginn inngangur, fyrir horn, ekkert sjáanlegt. Væntanlega hefðum við þurft að fara í hina áttina en þegar þarna var komið nenntum við ómögulega að fara til baka eða allan hringinn þannig að í staðinn var ákveðið að fá okkur eitthvað að drekka á næsta álitlega stað.

Slíkur fannst um 10 mínútum síðar (já við vorum komin út af mesta túristasvæðinu). Ágætis staður, örstutt frá metróstöðinni. Finnur var eitthvað önugur og við uppgötvuðum að hann hafði eiginlega ekki borðað neitt síðan einn Chocapic (nokkurs konar kókópöffs) disk um morguninn. Bara sítrónusafaglas á Amalíukaffi og svo einn ítalskan ís. Ekki beinlínis besta næringin. Hann hresstist allur við af bagettubita og appelsíni.

Fundum stöðina hennar Amélie, óvenju falleg af metróstöð að vera. Heim í íbúð með smá stoppi í bakaríi og crépuvagni og búð. Crépan í vagninum reyndist mikið betri en á staðnum, eiginlega algjört æði.

Dagur nítján. Upsagrýlur. Loksins!

Krakkar og chimerur í turni

Óttaleg leti í gangi, vaknaði sjö eins og venjulega en skreið aftur upp í rúm og steinsofnaði, svaf til níu. Ógurlega gott. Skutumst að versla, áttum eitthvað svo mikið pasta eftir og planið var að búa til gráðostapasta um kvöldið. Það klikkar aldrei. Heim aftur og glápt á ólympíuleikana, lesið, cassoulet úr krukku í hádegismat, með betri krukkumat sem ég hef á ævi minni fengið.

Dröttuðumst ekki út fyrr en vel eftir hádegið, ætluðum á upsagrýluveiðar og í Orangerie listasafnið í Tuileries garðinum. Kristín hafði samband og sagði okkur að hún ætlaði að hitta skemmtilega Íslendinga í uppáhaldsgarðinum mínum Buttes-Chaumont klukkan fimm og hvort við vildum kannski koma líka. Var ekki alveg viss um að tíminn myndi leyfa það en skyldum reyna.

Bjartsýnu túristar.

Röðin upp í turn á Notre Dame reyndist nærri tveggja tíma löng og sjálfur göngutúrinn um 50 mínútur. Slaufuðum Orangerie strax og við sáum hve hægt röðin gekk en ættum nú að ná Buttes-Chaumont.

Voðalega margar tröppur upp í turn, ágætt að vera í góðu gönguformi eftir ýmsar ferðir. Grýlurnar (upsa og hinsegin, gargoyles eru til að taka vatnsafrennsli en chimeras eru þessar grýlur sem flestir hugsa um) tóku vel á móti okkur þarna uppi.

Ég hefði ekki viljað vera lofthrædd þarna, held að ég sé orðin alveg laus við lofthræðsluna, sveimérþá.

Chimera

Niður komum við ekki fyrr en rétt fyrir fimm. Öll sársvöng og leist ekkert á það að ná garðinum og vinunum af neinu viti. Hringdi bara og bað að heilsa í hittinginn.

Fundum spennandi veitingahús og settumst, reyndist líka fínt nema reyndar var ég alltaf að finna lyktina af sígarettustubbum á jörðinni fyrir neðan. Hafði líka pirrað mig í biðröðinni upp í turninn. Ég held svei mér þá að hér í París höfum við orðið fyrir meiri óbeinum reykingum á þessum þremur vikum en síðastliðin 3-4 ár heima á Íslandi.

Komum svo heim um hálfsjö, kvöldið fór bara í ólympíuleika, lestur og dagbókarskrif. Reyndi að ná sambandi við Fífu en tókst ekki. Hefðum síðan alveg getað farið í garðinn, þau sátu þar á spjalli þar til hann lokaði, klukkan tíu. En hei, það er ekki hægt að gera allt.

Dagur átján. Afmæli og matarboð

Við bóndinn eigum marga merkisdaga, daginn sem við hittumst (skutum reyndar á hann, fundum ekki út nákvæma dagsetningu, haldið upp á hann samt), daginn sem tilhugalíf byrjaði, daginn sem við byrjuðum saman, óopinber trúlofunardagur, opinber trúlofunardagur og svo brúðkaupsafmæli. Seinni partur sumars og fyrst um haustið er undirlagður þessum dögum (ókei opinbera trúlofunin varð ekki fyrr en 4. nóvember). Klárt að einhver þessarra daga myndi lenda á þriggja vikna fríinu okkar í París.

Héldum upp á daginn með því að gera ekkert fram eftir degi og bjóða uppáhalds Parísarbúunum okkar í mat um kvöldið. Höfðum plottað að fara á upsagrýluveiðar en unglingurinn nennti ekki, var of þreytt eftir Versalaferðina. Frestuðum semsagt turnklifri enn og aftur.

Út í búð að kaupa naut og svín og pylsu og beikon, já rétt til getið, bolognese frá grunni í kvöldmatinn. Fyrir utan að vera einn af aðal uppáhaldsréttunum okkar ætti það líka að ganga í krakkana sem kæmu í matinn. Bakaríið reyndist lokað þannig að leit hófst að öðru opnu, litlar franskar kökur í desert. Gestirnir ætluðu að koma með forréttinn.

Á leiðinni í búðina rákumst við á þetta:

Ofurmálningarsletta

Þetta var greinilega götumálning, semsagt svona fyrir götumerkingar, miðlínur og viðlíka og mun verða þarna þar til skipt verður um gangstétt. Tja nema þeir ákveði að skipta bara strax.

Fundum annað án þess að þurfa að fara niður í túristamiðbæ, ágætt, þurftum heldur ekki að fara í bakaríið sem er næst okkur, það var lokað á laugardeginum og ég hugsa að það hafi verið opið þennan dag en við hættum að versla þar vegna fýlu í afgreiðslukonunum. Þær voru eina tilfellið sem við lentum í af erkitýpunum útrunnu ‘dónalega franska afgreiðslufólkinu’ sem nennir ekki að reyna að skilja mann, hvorki á broguðu frönskunni og alls ekki á ensku.

Eldamennska og svo eitt stykki handboltaleikur. Bolognesan tókst bara þetta ljómandi vel þrátt fyrir að hafa verið sinnt í pásum í boltaleik (djóhók, alltaf sinnt þegar bjallan hringdi enda vorum við nú misföst við leikinn).

Gestirnir komu með ótrúlega góðan forrétt, andahjörtu, snöggsteikt á pönnu og salat með dressing. Hefði auðveldlega getað borðað svona hjörtu sem aðalrétt. Fáránlega góður matur, mjúkt og meyrt fyrir allan peninginn. Selst nær eingöngu í Périgord héraði, enginn annar vill víst sjá þennan frábæra mat. Sud Ouest ftw! Parísardaman varð impóneruð yfir að krakkarnir voru alveg til í að smakka hjörtun, ekki týpískir íslenskir krakkar.

Þrátt fyrir að allir fengju ábót af hjörtunum og salatinu varð bara kurteisisrest eftir af bolognesinu. Sárhneyksluðum Frakkann með því að skera sundur kökurnar þannig að hver gæti smakkað tvær týpur. Þannig gerir maður sko ekki í Frakklandi. Held hann hafi nú samt getað fyrirgefið okkur. Tókst samt að velja tvisvar sinnum hindberjaköku svo hann þyrfti allavega ekki að þola að deila tegundum!

guttarnir og DSinn

Spjallað mikið lengra fram eftir kvöldi en þau áttuðu sig á, vonandi festust þau ekki niðri í metrokerfinu! Finnur og Kári smullu saman síðkvölds yfir Nintendo DéEssinum hans Finns, ég þykist vita hvaða græja verði á næsta jólagjafaóskalista hins yngri.

Dagur sautján. Versalir

Sjö, nú urðu allir að vakna klukkan sjö. Ágætis æfing fyrir föstudaginn fimm dögum síðar þegar allir þyrftu að vakna klukkan fjögur. Samt ekki að hugsa um að vekja alla klukkan sjö-sex-fimm dagana sem eftir voru. Finnur hafði svindlað daginn áður og fór alls ekkert snemma að sofa heldur las til miðnættis. Ég var skíthrædd um að hann yrði alveg hræðilegur um morguninn, sonur minn þarf svefninn sinn og ekkert með það. Hann var hins vegar bara ágætur, mesta furða. Ég var reyndar hundþreytt líka, ekkert skárri en Finnur kvöldið áður, bókin mín var svo spennandi að ég las til hálftvö og var síðan alltaf að vakna alla nóttina. Giskaði á að ég hefði sofið um fjóra tíma í allt, og það í bútum.

Komumst út úr húsi á áætluðum tíma klukkan kortér fyrir átta, tókum tvær lestir til Invalides þar sem við áttum stefnumót við Kristínu og krakkana hennar. Þau voru komin á staðinn og við stefndum á þriðju lestina, RER til Versailles Rive Gauche. Jón Lárus fór síðastur niður rúllustigann og á eftir honum kom vasaþjófur, þegar sá tók eftir að Jón hélt um vasann með veskinu hoppaði hann til baka upp þrepin tvö eða þrjú sem hann var kominn niður. Spes.

Ég skil, skil, skil ekki hvers vegna ekki eru til íslensk bakarí sem baka eftir frönsku hefðinni!

Biðum smástund eftir lestinni en fengum svo fín sæti. Á leiðinni fengum við fyrirlestur um kóngana, drottningana, ástkonur þeirra og ástmenn. Tókst ekki að klára sögurnar þar sem lestin var ekki lengi á leiðinni. Ég hafði frábeðið mér að fara inn í höllina, verð alltaf alveg búin á því að sjá svona ógurlega mikið skraut. Þannig að ég var send í bakarí og keypti bagettur fyrir okkur, Kristín kom með nestið en ætlaði að kaupa brauðið á staðnum. Þau hin fóru í höllina, ég var nærri búin að biðja Finn um að koma með mér og hefði reyndar betur gert það, en gat nú varla neitað honum um að fara að skoða höllina úr því hann vildi það. Þekki hann nefnilega eiginlega betur en hann sjálfur gerir. Kristín var búin að kaupa alla miða sem við þurftum, krakkarnir þurftu ekki að borga í höllina, Kristín var með VIP miða fyrir sig og einn fullorðinn þannig að þau gátu sleppt öllum röðum og farið fram fyrir sem var snilld. Röðin strax þarna um morguninn var örugglega að minnsta kosti klukkutími þannig að þetta var frábært. Ég rölti bara inn í garðana með brauðið, kíkti smá í kring um mig, fann síðan bekk og bókina sem ég var að lesa og beið eftir þeim hinum. Auðvitað var Finnur síðan orðinn þreyttur á göngunni um höllina eins og ég vissi – og garðarnir eftir. Mesta furða samt hvað hann kvartaði lítið.

Ballsalurinn

Gríðarlega glæsileg gosbrunnasýning, sérstaklega var ég hrifin af ballsalnum. Í görðunum er spiluð frönsk endurreisnarmúsík, margt mjög flott. Diskur með músíkinni fæst og klárt ég féll fyrir einum slíkum.

Niður eftir hluta garðanna, fullt af gosbrunnum á leiðinni. Stoppuðum hjá vatni og vorum með franskan pique nique samsettan af fararstjóranum okkar frábæra með sérstakri rauðvínssendingu frá manninum hennar sem veit sem er að við erum fyrir góð rauðvín. Fattaði auðvitað ekki að taka myndir af úrvalinu en hér er það sem við gátum ekki torgað:

Afgangarnir

Sátum þarna í góða stund í æðislegu veðri þar til Kristín togaði okkur á fætur, gangan um garðana var ekki búin, ekki einu sinni nándar nærri hálfnuð. Upp og skoða tvær „litlar“ hallir, sumarbústaði frá sjálfum Versölum, reistar fyrir mömmur og drottningar og ástkonur og hvað veit ég, upplýsingarnar renna allar saman, maður þyrfti að koma aftur í raun og veru til að taka þetta allt saman inn. Þessar tvær smáhallir voru alveg feikinógur hallaskammtur fyrir undirritaða. Þetta voru hins vegar einu staðirnir þar sem Finnur kvartaði, sagði að hann myndi frekar vilja fara þrjár ferðir í H&M heldur en að skoða fleiri hallir. Og þá er mikið sagt.

Tilbúið sveitaþorp var líka þarna á staðnum, mjög gaman að sjá. Sérstaklega fannst krökkunum skemmtilegt að gefa fiskum af brú, alætur, éta brauð og gúrkur og tabbouleh og atgangurinn er gríðarlegur:

Fleiri gosbrunnar á leið til baka, alltaf var harðstjórinn okkar að plata okkur með „bara eitt í viðbót“, ætli þau hafi ekki verið fimm eða svo. Skil reyndar ekki hvers vegna eru ekki fleiri bekkir kring um alla þessa gosbrunna, fólk er orðið örþreytt eftir garðana en það er hvergi hægt að setjast niður. Reyndi að tylla mér á steinhleðslu (reyndar með smá klipptu hekki framan á) en fékk hróp frá verði, nei það mátti sko ekki. Slapp samt við lögregluflautuna sem verðirnir höfðu annars nýtt sér óspart ef þeir sáu einhvern fara eða gera eitthvað sem ekki mátti.

Örþreytt orðin, skrefin voru frekar erfið út á lestarstöð. Frábærri Versalaheimsókn lokið, allavega í þetta skiptið. Mæli sannarlega með heimsókn með Parísardömunni, hún tekur 100 evrur á manninn og þá er allt innifalið, veitingar, miðar und alles. Og snilldarfararstjórn. Plöhögg!

Urðum samferða alveg að Républik stöðinni þar sem Kristín og krakkarnir héldu áfram heim en við tókum aðra lest heim til okkar. Vorum ekki búin að plotta neina eldamennsku um kvöldið og krakkarnir voru að röfla yfir að þau langaði hvorki í brauð né afganginn af rísottóinu síðan kvöldið áður þegar ég rak augun í að crépustaðurinn var opinn og stakk upp á að við fengjum okkur slíkar. Mætt með fagnaðarJÁHÁum. Við Jón kolféllum fyrir crépu með geitaosti og hunangi, reyndist líka algjört sælgæti. Krakkarnir fengu svo leyfi fyrir eftirmatarcrépu með súkkulaði/nutella og banönum. Ég hefði ekki átt fræðilegan möguleika í aðra eftir þá með ostinum.

Heim, ég var svo gersamlega búin á því að ég steinsofnaði fyrir klukkan níu og svaf nánast í einu setti til tæplega átta. Borgaði fyrir fjögurra tíma svefninn nóttina áður.

Dagur sextán. Sosum ekkert merkilegt. Blogg samt

Markaðurinn um morguninn eins og aðra markaðsdaga. Keyptum allt nema kjötið fyrir matarboðið sem stefnt var að á mánudegi. Drógum krakkana á fætur um hádegið, ætluðum að fá okkur crépes í hádegismat, Finnur hafði náðarsamlegast fengið leyfi til að borða sætan hádegismat. Crépustaðurinn reyndist síðan lokaður, þetta var annað skiptið sem við ætluðum á þennan stað og hann var ekki opinn. Þar sem við stóðum og reyndum að sjá hvenær væri eiginlega opið þarna komu að tvær franskar stelpur og tilkynntu okkur að þeir sem rækju staðinn væru gyðingar og þess vegna væri lokað – laugardagur sko. Ah.

Tyrkirnir með kebabstaðinn handan við hornið létu sér fátt um finnast um laugardaginn og þar fengum við hið fínasta kebab. Lambakjötið á spjótinu sem við Jón fengum var annaðhvort frá Íslandi eða þá að Guðni Ág hafi gersamlega rangt fyrir sér um að íslenska lambakjötið sé það eina æta í heiminum. Einhvern veginn er ég örlítið efins um að Tyrkirnir notist við rándýrt innflutt lamb. Freyja bjó til listaverk úr því sem hún gat ekki torgað:

kebabbátur með brauðsegli á frönskusjó

Næst bakarí og fleiri makrónukökur, þrjár flöskur af bragðbesta vatninu keyptar, á því stendur Gott fyrir ungbörn og Íslendinga. Þetta með Íslendingana er lygi. Kíktum yfir á Nation torgið sjálft inni í sjö akreina hringtorginu (já það voru gönguljós þangað), þar voru ekki túristar heldur aðallega rónar. Flott torg samt.

Nation

Heim og ég steinsofnaði í tvo tíma, spjallaði síðan við Parísardömuna um Versalaferð dagsins eftir, spáin var ekki sérstök og ég stakk upp á því að við færðum ferðina en þegar ég komst að því að þá sæjum við ekki gosbrunnana kom það sko ekki til greina. Algjör vatnsfíkill, gosbrunnar, fossar og lækir, brim, dýrka það. Ekki samt rigningu neitt sérstaklega.

Jón og Freyja út í smá labb, við Finnur eftir heima, skellti á mig fjólubláu naglalakki, má ekki minna vera fyrir Versali, er það annars?

Rísottó og Milanese sneiðar um kvöldið, ágætt en cordon bleu sneiðarnar frá slátraranum voru betri en þessar Milanese. Frekar kaupa þær aftur.

Brjálaður háspennuleikur Ísland-Frakkland í handboltanum, Jón og Freyja horfðu á Rúv á netinu þar sem leikurinn var ekki nógu merkilegur til að Frakkarnir sýndu hann beint. Spes reyndar þar sem þeir sýndu seinni hálfleik af Íslandi-Svíþjóð nokkrum dögum fyrr. Reyndar var sá leikur talsvert seinna um kvöldið og væntanlega ekkert meira spennandi í gangi á ólympíuleikunum. Eins og lesendur muna væntanlega tryggði íslenska landsliðið sér sigur í riðlinum með því að vinna það franska, glæsilega gert.

Snemma að sofa, þurftum að vakna fyrir allar aldir daginn eftir. Þau hin það er að segja, ég vakna jú alltaf klukkan sjö…

Dagur fimmtán. Parc Asterix

Meiningin var að vakna klukkan sjö en það tókst nú ekki alveg eftir háspennuleik kvöldsins áður, það hefði jú verið ill meðferð á börnum að skipa Finni að fara að sofa áður en leikurinn kláraðist. Gerði síðan ekki mikið til, þar sem garðshliðunum yrði ekki lokið upp fyrr en klukkan tíu.

 

Tveir bjórar og bagetta smurð með uppáhaldsáleggi allra. Finnur vill helst bagettuna sína óskemmda, finnst brauðið best eins og ég nefndi reyndar í gær . Liggur við að ég kunni ekki við það, lítur út eins og litla afskipta stjúpbarnið, allir fá gúmmulaðiálegg á franskbrauðið sitt nema sá minnsti sem þarf að borða brauðið þurrt. Lét það nú samt eftir honum. Drykki handa krökkunum átti að kaupa í garðinum, en við treystum ekki alveg á að geta keypt bjór to go. Hefði samt alveg gengið.

 

Af stað fórum við ekki fyrr en um hálftíu. Keyptum miða á stöðinni okkar, alla leið til Charles de Gaulle flugvallar, þar sem við tæki skutla á vegum garðsins. Metróferðin gekk að óskum og við rötuðum á RER (úthverfalesta)pallinn en þegar lestin kom þá stoppaði hún svo hrottalega stutt að ekki nóg með að bara Jón Lárus og Freyja kæmust inn í hana (semsagt ekki við Finnur) heldur komust ekki allir út úr vagninum sem ætluðu, tóku semsagt hálftíma aukaferð frá Gare du Nord að GDG. Vonandi að enginn hafi misst af lestinni sinni til norðurhluta Frakklands út af þessu.

 

Já semsagt, við Finnur urðum eftir á brautarpallinum. Þakkaði fyrir að það var ekki Finnur einn – símalaus – við höfðum alltaf passað okkur á því að hafa krakkana á undan okkur eða helst milli okkar í svona tilfellum. Kom sér vel í þetta skiptið. Höfðum reyndar sett upp plan í því tilfelli að einhver næði ekki að fara út úr lest, sá skyldi fara út á næstu stöð og hin elta og hittast þar. Þetta hentaði hins vegar talsvert verr í kringumstæðunum: ‘Sumir komust ekki inn í vagninn’. Margreyndi að hringja í Jón Lárus en fékk alltaf connection error, fannst mikið sniðugra að þau færu bara alla leið á CDG og hittu okkur þar. Átta mínútur voru í næstu RERlest og rétt um það bil þegar við Finnur vorum að stíga upp í hana náði Jón að hringja í mig og stinga upp á nákvæmlega því sem ég hafði verið að hugsa um. Hefði verið ótrúlegt vesen, við Finnur að reyna að skima eftir þeim hinum á næstu stöð eða jafnvel fara út úr lestinni og þurfa að taka þá næstu, hefðum aldrei fundið þau þar sem þeirra lest var hraðútgáfan og stoppaði bara einu sinni alla leiðina, okkar hins vegar tíu eða ellefu sinnum. Eins gott að við náðum sambandi. Í þeirra vagni var einhver voða skemmtileg frönsk harmonikumúsík, í okkar kom bara trúboði.

 

Nú, á CDG náðum við öll saman, sem betur fór. Upp og keyptum miða í skutluna í garðinn, gengum svo beint upp í hana. Vesenið skipti semsagt engu máli á endanum, ef við Finnur hefðum náð upp í lestina hefðum við öll bara þurft að bíða tíu mínútum lengur á CDG eftir að skutlan færi af stað.

 

Ástríkur í eigin persónu

Miðarnir okkar útprentuðu svínvirkuðu inn í garðinn og skemmtunin tók við. Ákváðum að vera ekkert að setja bakpokann hans Jóns í geymsluna fyrr en við værum búin að fá okkur nestið okkar. Sem þýddi reyndar að ég missti af fyrsta rússíbananum; við erum svo voðalega löghlýðin að þegar við sáum að maður ætti ekki að fara með töskur í rússíbanana fór ég snarlega úr röðinni með bakpokann. Sá svo eiginlega strax eftir því, þar sem ég sá að allir aðrir létu fyrirmælin sem vind um eyrun þjóta og fóru bara samt með töskur og poka. Raðirnar þarna voru ógnarlangar, ég beið eftir þeim í örugglega fjörutíu mínútur. Sá samt hvenær þau fóru af stað og var búin að telja hve margir bátar færu af stað þar til hringnum væri náð. Tókst semsagt að taka vídjó af þeim niður lokabrekkuna.

 

Sem betur fer var þetta nú ekki mest spennandi rússíbaninn. Ég var einu sinni algjör rússíbanafíkill, svo þegar ég eignaðist börnin gerðist ég lofthrædd og hef eiginlega ekki farið í neitt síðan. Núna ákvað ég að nenna þessu rugli ekki lengur og fór með genginu mínu í næstu röð (hmm já, semsagt, nestið var hesthúsað milli rússíbana og við losuðum okkur við bakpokann). Fjögur húrrahróp hét þessi rússíbani. Biðin þar var 40 mínútur eða svo og svo var ég barasta ekkert hrædd. Lokaði varla augunum á leiðinni upp fyrstu og ljótustu brekkuna. Snilld að vera hætt þessu panikkrugli!

 

Smá dropar duttu úr loftinu og eftir svo sem mínútu var komið hið ótrúlegasta úrhelli. Ætluðum að vera Fearless Icelanders en á endanum voru það bara krakkarnir sem héldu það út, við Jón flúðum undir sólhlíf en þau fóru í hinn stóra vatnsrússíbanann, auðvitað var talsvert styttri röð þar, þar sem allir Frakkarnir héldu okkur selskap og hírðust undir sólhlífum og öðrum hlífum meðan mesta skúrin gekk yfir. Sáum þau framarlega í röð og fundum (að við héldum) útganginn frá rússibananum. Fórum aftur fram fyrir, á meðan skúrin var og slatta eftir það voru bara sendir tómir bátar út, loksins þegar röðin fór aftur af stað var ekki langt í krakkana. Annað skvettuvídjó tekið. Fórum aftur til baka þar sem útgangurinn var en enginn kom þar út þannig að við þurftum að fara aftur fram fyrir og leita. Kom sér vel þarna og oftar hvað Finnur hafði orðið hrifinn af skærappelsínugulu hettupeysunni, ótrúlega auðvelt að finna hann.

Menhir Express

Næsti rússíbani var Ósiris, nýjasta aðdráttarafl Ástríksskemmtigarðsins. Það var enn lengri bið þar, hugsa hún hafi náð 50 mínútum. Þetta var einn alskemmtilegasti rússíbani sem ég hef á ævinni vitað, týpan þar sem sætin hanga í vagninum, fætur hanga frítt, fullt af skrúfum og lykkjum og allt. Hefði verið til í að fara beint aftur í þennan en ekki alveg eins til í tæplega klukkutíma bið.

Gervitöframenn

Langaði í eitthvað smotterí eftir þetta, fengum okkur samloku (Freyja) köku (við Finnur) og bjór (Jón). Reyndist nákvæm tímasetning, akkúrat þegar við vorum að borga brást á með annarri svona brjálaðri skúr. Eitthvað hafði kvarnast úr garðgestum við regnskúrirnar því röðin við næsta og stærsta rússíbanann reyndist ekki nema um 20 mínútur. Akkúrat þegar við vorum að koma á pallinn kom svo þriðja skúrin, rétt sluppum undir skjólið við pallinn (önnur nákvæm tímasetning). Tíu mínútur í viðbót þurftum við að bíða þar, því rússíbanarnir eru ekki keyrðir í úrhelli. Grey fólkið sem var tveimur mínútum á eftir okkur í röðinni! Sáum reyndar fullt af fólki í Parc Asterix regnslám, væntanlega hefur verið góður bissniss í þeim þennan daginn.

 

Þessi rússíbani reyndist reyndar einum of fyrir mig, ekki að ég yrði neitt hrædd, ókei var reyndar með augun meira lokuð en í hinum en það var aðallega vegna þess að það var svo ferlega erfitt að halda höfðinu kyrru upp við sætisbakið og það lamdist alltaf við ytri höfuðhlífarnar, það var hrikalega óþægilegt og ég kom út með mega hausverk sem lagaðist ekki fyrr en um tuttugu mínútum seinna. Frekar súrt. Hefði átt að sleppa þessum og fara frekar í Osiris aftur. Feikinógu skemmtilegur og passlega scary.

 

Krakkarnir fóru í eitt tæki til, sjá vídjó, við gamla settið ákváðum að sitja það af okkur. Hefði reyndar örugglega farið nema vegna þess að ég var enn með hausverk. Gerir svo sem ekki til.

Trójuhesturinn

Gaman við Parc Asterix að maður bara kaupir sér miða og þá eru nánast öll tækin ókeypis. Við hefðum þurft að borga í hjólabátana (tímdum ekki) og auðvitað ef við hefðum viljað prófa einhverja skotbakka eða einarma bandítta. Sem var enginn spenningur fyrir. Auðvitað er peningaplokk í gangi eins og í góðum og gegnum kapítalískum venjúum, hefðum getað keypt myndir af okkur öskrandi í rússíbönunum fyrir 9 evrur og veitingar voru hreint ekki ódýrar en það var hægt að komast hjá því öllu ef maður vildi.

 

Misstum af höfrungasýningunni reyndar sem var synd, föttuðum ekki að síðasta sýning var klukkan þrjú. Ástæða til að koma aftur, bara. Samt tæpast í þessari Frakklandsferð.

 

Jánei, EuroDisney var ekki á dagskránni. Vorum í Frakklandi, ekki Bandaríkjunum.

 

Heimferðin gekk snurðulaust fyrir sig, skil samt ekki hvers vegna miðarnir til baka kostuðu tveimur evrum meira en þangað. Lentum í íbúðinni um sjöleytið, afgangar í matinn, gott rósavín um kvöldið. Ekki séns að fara meira út þennan daginn, ónei, allir ótrúlega þreyttir eftir langan dag.

Dagur fjórtán. Ljósasjó

Þessi dagur var lagður upp sem afslöppun, hringdi í Parísardömuna fyrir hádegið til að plotta Versalaferð og matarboð, kjöftuðum í tæpan klukkutíma. Komst þá meðal annars að því að það var ekkert þak á niðurhali í gangi heldur hafði Orange síma- og netfyrirtækið verið í einhverjum vandræðum með tengingar. Döh! Fórum síðan ekkert út fyrr en um hádegið og þá út að borða. Ítalskur staður við Nation torgið varð fyrir valinu, höfðum rekist á hann á vafri okkar um svæðið. Píadínur stukku af matseðlinum og við bara urðum að prófa. Krökkunum leist samt ekkert á möguleikana á áleggi, enginn geitaostur og hunang eða parmaskinka, klettasalat og mozzarella, hvað þá nutella þannig að þau fengu sér borgara sem reyndust ljómandi góðir.

þriggja osta píadína

Píadínurnar okkar Jóns voru fínar, þriggja osta (Jón) og sveppir og kjúklingur (ég), kjúklingabringurnar reyndar fullmikið eldaðar eins og á öllum nema bestu veitingahúsum. Hvað er með að ofelda kjúklingabringur? eins og þær eru rosalega góður matur þegar þær eru rétt eldaðar þá eru þær óspennandi orðnar þurrar (ég hef ennþá aldrei fengið heileldaðan kjúkling þar sem bringurnar voru ekki þurrar – mismikið auðvitað samt. Maður ætti kannski að prófa að smjörsprauta þær eins og kalkúnabringurnar. Eða bara elda þetta aldrei saman eins og ég reyndar geri).

Komum við á netkaffi á leið heim til að prenta út miðana sem við vorum búin að kaupa fyrir Ástríksskemmtigarðinn daginn eftir, prentarinn í íbúðinni var bilaður.

Svo vorum við bara inni fram á kvöld, stefndum á Eiffelturninn eftir sólarlag til að sjá blikkandi ljósin og upplýsta gosbrunnana á Trocadéro. Tókum lestina upp úr klukkan níu á stöðinni okkar, afskaplega fámennt í lestinni sem var ágætt. Eiffelturninn sveik ekki, rosalega flottur, reyndar voru gosbrunnarnir ekki upplýstir sem kom mér á óvart. Finn dauðlangaði í ógurlega flott vasaljós sem einhverjir skransalar voru með á Trocadéro torginu. Við harðneituðum þar sem yfirleitt er svonalagað óttalegt rusl, hægt að leika sér með það tvisvar og svo ónýtt. Væri reyndar sjálf alveg til í svona ljós, sendu marga græna depla í stað eins stórs hvíts. Stemningin á torginu var gríðargóð, fullt af fólki og allir að taka myndir og vídjó auðvitað.

Gengum hringinn kring um gosbrunnana, sáum strák spila á selló og gáfum honum tvær evrur, hann var nokkuð góður bara.

Varla þarf nú að kynna þennan:

Sigldum aftur á Trocadéros metróstöðina, á leiðinni niður tröppurnar að pallinum stóðu tvær stelpur og spjölluðu saman, voru svolítið fyrir. Strákur kom upp á móti, Finnur komst ekki með góðu móti og stoppaði. Ég: Finnur! áfram! Handviss um að strákurinn væri vasaþjófur og stelpurnar væntanlega í slagtogi við hann, frekar dularfullt hvernig þær breiddu úr sér þarna á tröppunum. Við vorum sem betur fer í vasaþjófamode (Freyja með hendurnar á myndavélinni og ég hélt í rennilásinn á töskunni) ekki nokkur leið að stela frá okkur án þess við tækjum eftir því alla vega. Sluppum að minnsta kosti með allar eigur með okkur í lestina.

Grilljón manns á pallinum, allir á leið heim eftir ljósasjóið á Eiffel. Troðfull lest, við Finnur náðum sætum en svo stóð hann upp eftir 2-3 stöðvar þegar inn kom móðir með lítinn strák steinsofandi á öxlinni. Fækkaði síðan smátt og smátt þegar miðbænum sleppti.

Eitt leiðinlegt sá ég, inn í lestina kom ungt par, strákurinn hélt fast í upphandlegg stelpunnar og nánast dró hana með sér inn í lestina. Hún settist svo í fangið á honum en þetta tak var frekar ljótt og ég efast ekki mikið um að þetta sé ofbeldissamband. Gerði auðvitað ekkert samt, ótalandi málið og veit svo sem ekki hvað ég hefði getað gert þó ég hefði getað tjáð mig almennilega.

Háspennuhandboltaleikur við Svíþjóð sýndur í franska sjónvarpinu þegar við komum heim, svo bara sofa. Langur dagur framundan.

Dagur þrettán. Fossar í París.

Steinsvaf alla nóttina, aldrei þessu vant, rumskaði ekki fyrr en hálfátta. Ótrúlega mikill lúxus. Jón kom fram rúmum hálftíma síðar og Finnur svolítið seinna. Markaðurinn heimsóttur að vanda (markaðsdagar á miðvikudögum og laugardögum). Keyptum (fyrir utan hin obligatorísku kirsuber) líbanska smárétti í hádegismat (góðir en svolítið þurrir) og svo risa risastór kjúklingalæri með leggjum fyrir kvöldmatinn. Fjögur sett af slíkum vógu nærri tvö kíló! Kaffi, nýbrennt og malað og það voru ekki einu sinni ýkjur, sáum kaffisölumanninn hella úr brennaranum sínum í dallinn sem við keyptum síðan úr, og létum hann mala fyrir okkur. Ótrúlega gaman.  Á markaðnum var hópur af túristum frá hóteli í nágrenninu. Við fastagestirnir urðum auðvitað hundpirruð á þessum ignorant túristum sem þvældust fyrir heimamönnunum. Ussuss!

Kaffi

 

Planið var göngutúr í Parc de Bercy. Jón Lárus hljóp í bakarí og keypti tvær risastórar bagettur fyrir okkur í nesti. Ég fór hins vegar að skoða bókina góðu sem Frakkarnir gáfu okkur og tók eftir öðrum garði, aðeins fjær, sem heitir Parc des Buttes Chaumont. Lýsingin á þeim garði var talsvert meira spennandi en Parc de Bercy. Ákváðum að fara frekar þangað. Nesti smurt, leist ekkert á að við næðum að borða allt þetta brauð þannig að við enduðum á að skipta bara öðru brauðanna niður á okkur. Reyndist líka feikinóg. Finnur vill helst bagettuna sína bara með engu og það var látið eftir honum. Við hin vorum með dijonnaise (frábær uppfinning atarna), skinku og mismunandi osta.

 

Allavega, gengið (og hlaupahjólað) af stað með nesti og nýja skó. Hálfnuð í garðinn og þá fór auðvitað að rigna. Ákváðum að sitja af okkur regnið á næsta veitingastað, settumst inn og pöntuðum okkur smáræði að drekka. Við manninn mælt auðvitað að þá steinhætti að rigna og kom sól. Ójæja. Drukkum rósavínsglasið okkar og nýkreista sítrónusafann og heita súkkulaðið áður en haldið var áfram. Nánast akkúrat þarna hætti París allt í einu að vera nokkurn hlut túristaleg og datt í úthverfi. Minna spennandi götur en svo sem allt í lagi.

Rákumst á þetta flotta graffító á leiðinni

 

Gengum gegn um annan minni garð á leiðinni. Sá reyndist ágætur líka, var með skemmtilegu klifursvæði fyrir Finns stærð þannig að við auðvitað urðum að stoppa þar líka. Finnur pantaði að við færum aftur þangað í pique nique, aldrei að vita hvort það yrði ekki hægt. Í þessum garði hófst hin ógurlegasta tröppuganga. 106 tröppur upp trjágöng. Þar efst uppi var síðan ótrúlega flott útsýni yfir París, Eiffelturninn, Notre Dame, Ljóta húsið! sagði Freyja, og bara allan miðbæinn. Mjög gaman að sjá.

 

Áfram gegn um lítt skrautlegar úthverfagötur þar til við lentum á garðinum sem stefnt var á. Buttes Chaumont. Þessi garður er einn af fjórum lungna Parísarverkefnum Napóleons. Heilmikið hannaður, úr aflagðri grjótnámu og mjög hæðóttur. Gersamlega missti töluna á tröppum upp og niður, fyrir nú utan að oft voru stígarnir bara hallandi og ekki tröppur. Sem var gott fyrir þann hlaupahjólandi af okkur.

 

Skemmst er frá því að segja að ég er snarbúin að skipta um uppáhaldsgarð í París og jafnvel heiminum öllum eins og ég þekki. Þessi garður er ótrúlega skemmtilegur, lækir og fossar og vatn og brýr hátt yfir. Nestið var ekki sem verst, Freyja lýsti því yfir að hún væri búin að finna nýjan næstuppáhaldsmat, eftir alvöru Tagliatelle bolognese. Eins gott við ákváðum samt að gera bara samlokur úr öðru brauðinu, hefði ekki verið fræðilegur möguleiki að borða bæði.

Einn fossanna

 

Trampið þennan daginn var komið upp fyrir átta kílómetra og það var ansi heitt í sólinni þannig að við ákváðum að taka metró til baka. Ekki hjálpaði það nú upp á tröpputalninguna, skiptum um línu á Jaures stöðinni, frá 7a yfir í línu 2 til Nation. Lína 7a reyndist vera lengst niðri í iðrum jarðar og lína 2 á háum palli. Taldi ekki tröppurnar þar en þetta voru örugglega 4-5 hæðir. Ágætt að vera í þokkalegu formi úr Listaháskólanum, á Sölvhólsgötu kenni ég á 4. hæð og þar er sko engin lyfta.

 

Við Finnur fórum beint heim en Freyja fór með pabba sínum að kíkja á vínbúðina sem hann hafði ekki fundið tveimur dögum fyrr. Keyptar tvær spennandi flöskur til að taka með heim og svo löbbuðu þau heim rúma 4 km.

 

Risakjúklingur í matinn og svo var bara gert sem allra minnst um kvöldið. Allir dauðþreyttir.

Dagur tólf. Chill. Já og þrif.

Vaknaði ekki fyrr en klukkan 8, þá var Finnur búinn að vera vakandi frá 7. Hafði pínu á tilfinningunni að hann hefði laumast í tölvuna en vonandi ekki horft á neitt að ráði. (niðurhal takmarkað, munið þið). Ekki margt var á dagskrá þennan daginn en við höfðum einsett okkur að fara ekki út fyrir hússins dyr fyrr en við værum búin að þrífa gólfin. Var orðið óþægilegt að ganga um berfættur, foj. Drógum fram kúst og ryksugu, ég mundi hvers vegna ég þoli ekki ryksugur, allavega týpurnar með ryksugupoka. Fýlan af þessu! Langar í Rainbow eða aðra vatnshreinsandi. Við eigum ekki ryksugu heima (enda nánast engin teppi) en fáum regnbogann lánaðan hjá mömmu og pabba sirka tvisvar á ári til að lemja á teppinu inni hjá Finni og tökum þá yfirleitt sófa og stóla og rimlagardínur í leiðinni.

 

Allavega, fínt að klára að þrífa. Rólegheit og Ólympíuleikar (sund – handboltaleikur Íslands og Túnis var að sjálfsögðu ekki sýndur í Frakklandi). Um eittleytið fórum við í göngutúr í Printemps, ég ætlaði að athuga hvort sjampóið mitt væri til þar, hafði keypt næringu í stað sjampós í fríhöfninni, misminnti hvort mig vantaði. Fann það (húrra) og fékk meira að segja ilmvatnsprufu frá Dior í kaupbæti. Verst að ég nota aldrei ilmvötn, hefði frekar þegið prufu af body lotion eða álíka. Freyja var að leita sér að bikiníi en þetta Printemps var bara ekki með nein sundföt (slappt) þó það væri til endalaust af dragfínum nærfötum. Finnur var á hlaupahjólinu þannig að þeir pabbi hans urðu eftir fyrir utan og fóru í smá rúnt um hverfið á meðan.

 

croque monsieur

Þegar 20 mínúturnar sem við Freyja höfðum gefið okkur í búðinni voru búnar, héldum við áfram út götuna þar til við vorum komin nærri því að hringveginum um París. Stoppuðum á einum stað og fengum okkur croque monsieur og eitthvað að drekka. Við köllum ristuðu samlokurnar okkar heima alltaf croque monsieur og Finnur var búinn að bíða eftir því alla ferðina að fá tækifæri til að panta slíkt. Reyndist svo mikil vonbrigði fyrir hann því osturinn var allt of bragðmikill og með hvítmyglubragði. Ekki hans tebolli. Ég dró hann að landi (hafði ekki pantað mér) og pabbi hans borðaði ostinn sem hann hafði skafið af sneiðunum. Hann mun væntanlega ekki panta sér slíkt aftur og vill sko ekki meina að Frakkar kunni að elda croque monsieur! (djók – en þetta er vísun í sögu af konu í Ítalíuferð fyrr í sumar, sú hafði haft nánast allt á hornum sér alla ferðina og síðast heyrðist í henni talandi við manninn sinn um að: Þeir kunna ekki einu sinni að búa til almennilegan ítalskan mat hérna!!!)

 

Rólega heim, komið við í óprófuðum stórmarkaði, reyndist frekar dýr en keyptum samt smá. Ís með nýja uppáhaldsbragðinu mínu, saltkaramellu, bragðið reyndar frekar útvatnað en við hverju býst maður svo sem af Nestlé?

 

Synkróníseraðar dýfingar þegar við komum heim, ólympískar dýfingar eru bara svo ótrúlega flott grein. Ég væri alveg til í að sjá fleiri dýfingakeppnir en þetta sér maður eingöngu á ÓL. Svo kom flúðasvig (veit ekki hvað það myndi heita á íslensku), virtist fáránlega erfitt, keppandi á kajak í brjáluðum flúðum og þurfti að komast gegn um ákveðna braut. Þrælgaman að horfa. Síðan var skipt yfir á lyftingar – æh gátu þeir ekki haldið áfram með dýfingarnar? Þær voru ekki búnar! Mikið væri ég til, þegar svona viðburðir eru, að eiga interaktíft sjónvarp og geta valið hvað ég horfði á.

 

Um kvöldið var síðan stefnt á víetnamskan veitingastað. Sá var ekki langt í burtu, vorum ekki nema um 10 mínútur að labba þangað, þurftum svo að bakka og taka út pening þar sem á matseðlinum í glugganum stóð að staðurinn tæki ekki kort og við vorum ekki með neitt gríðarlega mikinn lausan pening með okkur.

 

nei, glasið í bakgrunninum er ekkert sérstaklega lítið

Höfðum vonast til að uppáhalds víetnamski rétturinn okkar, Thit kho to myndi fást en það gerði hann nú ekki. Við Jón féllum bæði fyrir karamelliseruðum kjúklingi, Freyja nautakjöti með lauk og Finnur súpu með nautakjöti og núðlum. Auðvitað kom svo maturinn með gríðarmagni af kóríander – sem betur fer bara ofan á matnum og auðvelt að plokka í burtu. Nema auðvitað af súpunni – en sem betur fer kom þarna í ljós að Finnur hefur ekki erft kóríanderóþol foreldranna og borðaði sitt með bestu lyst. Við hin bjuggum til kóríanderfjall á servéttunni hennar Freyju.

 

Fyrir utan þetta var maturinn frábær. Smá misskilningur milli okkar og þjónsins reyndar, Freyja drekkur ekki gos og við vorum að reyna að komast að því hvort límonaðið sem var á matseðlinum væri með gosi. Skildum hvorki fram né til baka og enduðum á að panta það fyrir báða krakkana. Svo reyndist þetta auðvitað vera gosvatn og Finnur neyddist til að drekka bæði glösin.

 

Súpan hans Finns var síðan svo mikil að hún hefði örugglega dugað fyrir þrjú okkar. Hinir skammtarnir voru sannarlega ekki litlir heldur, ég og Freyja gáfumst báðar upp án þess að geta klárað, Jón átti ekki séns í að draga neitt að landi og Finnur, eftir að hafa borðað örugglega tuttugu mínútum lengur en við hin (alltaf flókið að borða súpu með prjónum) gafst upp fjórum til fimm sentimetrum frá því að klára súpuna.

 

Fengum ekki leyfi til að kaupa glas merkt víetnömskum bjór, heim og Ólympíuleikar restina af kvöldinu. Gaman að horfa á Suður-Afríkustrákinn slá út Phelps í 200 metra flugsundi, tilfinningarnar báru hann algerlega ofurliði.

Dagur ellefu. Makrónukökur

Vaknaði klukkan sjö eins og venjulega, framúr og smá net. Gaurarnir vöknuðu ríflega klukkutíma seinna. Finnur fékk kortérið sitt í tölvunni (netnotkun takmörkuð vegna niðurhals, sjá fyrri færslur) og svo kveikti hann á sjónvarpinu og ætlaði í Xbox tölvuna í leikinn sinn. Hitti þá á frönsku Eurosport lýsendurna alveg í botni í æsingnum, verið var að synda fjórum sinnum hundrað metra skriðsund (já veit, „frjáls aðferð“ en það syndir jú enginn það nema á skriði). Franska liðið lá í öðru sætinu, svona fjórðungi úr metra eftir bandaríska liðinu. Þar til á síðasta sprettinum, rétt undir lokin, þá seig sá franski fram úr og liðið vann. Við gríðarlegan fögnuð lýsendanna (hann ÁT besta sundmann í heimi! FEIS!). Hrikalega gaman að sjá þetta.

 

Svo eftir hálftíma auglýsingar kom – hokkí. Finnur fékk leyfi fyrir Xbox. Ýtt við Freyju. Skutumst í búð eftir brýnustu nauðsynjum, meiri bjór ossona, hádegismatur á línuna og svo út.

 

Byrjuðum á Avenue Haussmann. Freyja vildi endilega kíkja inn í stóra H&Mið á horninu, við Jón drógum Finn með okkur í barna- og unglingadeildina á meðan eldri unglingur frílystaði sig í sinni deild. Drengurinn skyldi fataður upp. Uppgötvaði mér til mikillar furðu að honum þykir appelsínugulur flottari en fjólublár. Óskiljanlegt. Allavega fékk hann skærappelsínugula hettupeysu, svartar gallabuxur, appelsínugul- og bláröndóttan bol og gráa hneppta peysu. Og sokka. Drengnum reddað fyrir (gasp!) skólabyrjun eftir tæpan mánuð. (í skrifandi stund eftir tvo daga, enn meira gasp).

 

Við Freyja höfðum afgreitt Lafayette kvennamegin nokkrum dögum fyrr og farið upp á þak, ákváðum að nenna ekki því húsi aftur, tókum út gourmethlutann, fengum að smakka þokkalegt en rándýrt kampavín hjá sölukonu sem var síðan endalaust að sýna okkur pínulitlu flöskurnar sem væru passlegar í ísskápinn á hótelinu. Nenntum ómögulega að leiðrétta hana. Og jafnvel þó við hefðum verið á hóteli erum við fullfær um að deila heilli kampavínsflösku milli okkar tveggja, þyrftum ekki svona 1/4 stærð. Þó tvær hefðu verið. Sáum hins vegar risastórar flöskur þarna líka, ég held þessi stóra þarna heiti Metúsalemog sé 6 lítrar.

Metúsalem og frændur

 

Maður missir alveg áttirnar í svona gígantískum gúrmeibúðum, enduðum á því að kaupa bara einn pastapakka og einn súkkulaðipakka. Langaði í allt.

 

Þá hinn staðurinn, hvað heita svona department stores á íslensku? Printemps. Fórum í vitlaust hús fyrst, upp á áttundu hæð og komumst ekkert ofar. Þar var reyndar hrikalega flotta veitingahúsið undir kúplinum, þess virði að sjá þó við tímdum nú ekki að setjast þar og borða neitt. Ég fékk mér hvítvínsglas þar með Suzukidömunum þegar við fórum í námsferð til Parísar 2008. Í eystri byggingunni var hins vegar hægt að fara alla leið upp á þak. Stórkostlegt útsýni og magnað að vera þarna alveg ofan í gylltu kúplunum á húsunum. Keyptum okkur ekkert á þakveitingahúsinu heldur en það var reyndar ekki vegna þess að við tímdum ekki, þar var ekkert óhemju dýrt, heldur út af næsta stað sem stefnt var á.

 

Sem var semsagt makrónukökustaðurinn, Ladurée. Flettið upp makrónukökum (macaroons) í París og Ladurée dettur inn í flestum niðurstöðunum. Pantaði mér kökur með lakkrís, saltaðri karamellu, sítrónu og hindberjum. Allar mjög góðar, lakkrísinn hefði mátt vera pínulítið bragðmeiri, en bæði sítrónan og sérstaklega saltkaramellukakan var gersamlega himnesk, Held svei mér þá að saltkaramella sé nýja uppáhalds bragðtegundin mín. Einhvern veginn get ég samt ekki alveg ímyndað mér að Kjörís eða Emmess muni búa til svoleiðis ís í nánustu framtíð. Mætti samt alveg skjóta því að Sandholt að prófa…

 

Þau hin voru líka mjög ánægð með sitt, kaffimakrónan (Jón og Freyja) var síst. Finnur pantaði sér reyndar ekki makrónur heldur súkkulaðilúxusköku. Heita súkkulaðið krakkanna var himneskt, ótrúlega þykkt og ríkt. Drykkirnir okkar krakkanna voru líka bornir fram í svo yndislega flottum og gamaldags könnum. Þeir kunna líka að laga te, láta vatnið ekki sjóða eins og gert er á nánast öllum kaffihúsum, allavega heima. 80° er málið (mig langar í ketil sem maður getur valið að slökkvi á sér við 80°. Slíkir eru til, en dýrir).

Makrónukökur og te

 

Eftir Ladurée var strikið tekið á Place de la Concorde og þaðan í gegn um Tuileries garðinn að Louvre. Ég hef aldrei áður gengið í gegn um Tuileries garðinn þó ég hafi komið báðum megin að honum og nánast hringinn. Held ég hafi nefnt það áður, en mér finnst svo mikil snilld við þessa Parísarferð að vera nógu lengi til að geta gert hundrað hluti sem ég hef aldrei haft tíma til áður. Fyrir utan að taka aðal túristastaðina einu sinni enn, fyrir krakkana.

 

Meðfram stórum hluta garðsins er lítið tívolí með slatta af tækjum. Sum voru algjör hryllingur að mínu mati, kúla sem tveir gátu setið í og var þeytt upp í loftið eins og í risastórri teygjubyssu, oj! Nei takk, ekki fyrir mig! Krakkarnir prófuðu einn stuttan vatnsrússibana en fengu ekki leyfi fyrir fleiru, enda var stefnt á Ástríksgarðinn (Parc Asterix) örfáum dögum síðar.

 

Gengið upp að Louvre, gegn um pínulitla sigurbogann, horfðum á hina tvo í gegn um hann, frekar magnað. Engin röð inn í Louvre aldrei þessu vant, giskuðum á að það væri lokað fyrir aðgang klukkan fimm (klukkan var rétt rúmlega), þó safnið sé væntanlega opið lengur þýðir jú ekkert að hoppa þarna inn fyrir nokkrar mínútur (nema þá til að hlaupa og skoða Mónu Lísu, sem er versta ástæða í heimi til að fara í Louvre – sé það eina ástæðan). Ég hef reyndar mjög takmarkaðan áhuga á Louvre en við plönuðum Dali safnið og Orangerie, Picasso safnið var lokað vegna viðgerða því miður.

Við krakkarnir rukum heim í metró, en Jón stefndi á eina vínbúð til – rétt hjá sagði hann, 6 brúm vestar sagði ég – og nei takk það er ekkert rétt hjá. Var síðan ágætt að við strækuðum, þar sem búðin er alls ekki opin á mánudögum. Þar slapp hann við smá röfl frá okkur…

Lasagna úr kjötborði Franprix í kvöldmat, mjög fínt miðað við að vera ekki heimatilbúið. Óratíma að skrifa þessa færslu. Meiri ólympíuleikar. Fínn dagur.

Dagur tíu. Upsagrýlur. Ekki.

Vöknuðum ákveðin í því að klifra alla leið upp í turn á Notre Dame. Þrátt fyrir allar tröppurnar (sem eru reyndar ekkert mikið fleiri en upp að Sacré Coeur sem enn var eftir á listanum). Drifum okkur niður á Nation metróstöðina eftir morgunmat, ætluðum í Línu 1 beint niður að Hótel de Ville, rétt hjá Frúarkirkjunni. Þar var fyrsta hindrun. Viðgerð á línu eitt, lokuð til tólf. Vorum smá stund að ákveða hvernig væri best að fara, komumst niður á leið. Ekki stórmál, hoppuðum út við Pompidou safnið til að sýna krökkunum, Freyju þótti byggingin óhugnanlega ljót (enda er hún ekki þekkt fyrir smáfríðleika sinn beinlínis). Finni þótti hún hins vegar töff. Biðröð inn, byggingin var að opna, ákváðum að kíkja þangað aftur á heimleiðinni og skoða innviðina.

Finnur á núllpunkti

Á torginu við Hótel de Ville var búið að setja upp risaskjá með Ólympíuleikunum og það var hægt að leigja sér grjónapúða og liggja fyrir framan og horfa. Slepptum því nú samt. Áfram yfir á eyju. Þá reyndist mörghundruð metra röð til að komast upp í turn. Okkur Jóni og Finni þótti full vel í lagt að standa klukkutíma í biðröð til að þurfa að borga fyrir að labba upp 250 tröppur. Freyja var samt hálffúl en við lofuðum henni að við myndum prófa síðar, kannski einhvern tímann í rigningu, athuga hvort ekki yrði styttri röð. Þannig að ekki skoðuðum við upsagrýlurnar í návígi í þetta skiptið. Freyja náði samt myndum af nokkrum, neðan frá jörðu. Römbuðum í þetta skiptið á Point Zéro sem við fundum ekki fyrir mannþröng í fyrra skiptið.

Til baka yfir á meginlandið, Freyja keypti sér Parísarmynd í túristasjoppu og við fengum okkur rándýran Häagen Dazs ís, þarf ekkert að gera það aftur í þessari ferð. Hann var bæði dýrari og alls ekki eins góður og Berthillion ísinn. Kostur samt að það var engin röð (já skrítið…)

Aftur að Pompidou og núna var engin röð, beint inn. Það er að segja eftir að við horfðum á ótrúlega skemmtilega lúðrasveit leika listir sínar á torginu fyrir framan. Skemmtilegasta við torgið við Pompidou, það er alltaf svo margt að gerast þar fyrir utan. Held það sé bara alveg spontant, efast um að það þurfi leyfi.

Fórum ekki á listasýningu í þetta skiptið, rákum augun í að fyrsta sunnudag í mánuði væri ókeypis inn þannig að við ákváðum að kíkja aftur viku seinna. Búðirnar í Pompidou eru alltaf alveg ógurlega skemmtilegar, ég hefði auðveldlega getað verslað fyrir 500 evrur en eina sem við keyptum voru minjagripir handa dóttur og tengdasyni. Finnur keypti sér samt smá, einhvern tístandi marglitan segulfugl. Í bókabúðinni rákumst við svo á pínulego og hann keypti sér svoleiðis líka, legóvíólu.

Í rúllustigana utan á Pompidou komst maður ekki nema að vera annaðhvort að fara á safnið eða í veitingahúsið, slepptum því í þetta skiptið.

Rákumst á voðalega spennandi veitingahús/vínbúð á leiðinni á metróstöðina en það var bara ekki búið að opna þannig að við drifum okkur uppeftir. Beikon og egg biðu okkar. Héldum við. Svo fundum við hvergi beikonið sem ég hefði getað svarið að væri í ísskápnum. Eggjakaka með pylsu og basil varð þrautalendingin. Horft á Formúluna og svo út í göngutúr, höfðum spottað garð kenndan við Söruh Bernhard. Fínn labbitúr en ég hugsa krakkarnir hefðu nú notið garðsins betur ef þau hefðu verið svona 8 árum yngri. Gerði lítið til samt, gangan stóð fyrir sínu. Gríðarflottar súlur sem ramma inn Nation torgið. Rákumst á veitingastað sem er með píadínur á matseðlinum, það skyldi prófast.

Finnur á hlaupahjólinu við Nation torgið

Stórfurðulegt var að sjá stóra Printemps búð við götuna, furðulegt vegna þess að ég þóttist hafa séð hana úr leigubílnum um morguninn þegar við komum til Frakklands. Fór nefnilega að leita að henni en hún bara gúglaðist alls ekki. Prófið að gúgla Printemps Paris locations. Þar sést eingöngu aðalbúðin við Boulevard Haussmann. Ég hélt hreinlega að ég hefði séð ofsjónir af þreytu þarna um morguninn en svo var búðin bara þarna. Nýju sandalar stóðust þriggja kílómetra göngu, opinberlega gefnir út sem borgarskór.

Marineraðar svínasneiðar af markaðnum ásamt sætum kartöflum og kúrbít elduðum í Le Creuset fati (laaaaangar í!) og ógurlega góðu hrásalati í kvöldmatinn. Matarklám ég? naaah…

Dagur níu. Promenade plantée

Við Jón vöknuðum um hálfáttaleytið og kveiktum á sjónvarpinu, Ólympíuleikarnir að byrja. Opnunarhátíðin hafði verið kvöldið áður, við mismikla hrifningu facebookvina. Eurosport hins vegar tók allan morguninn í að sýna opnunarhátíðina aftur, í stað þess að sýna það sem var að gerast. Fundum hvergi stöð sem sýndi keppni. Tékkaði á útvarpi allra landsmanna og að sjálfsögðu var þar verið að sýna undanrásir í sundi. Ekki samt á netinu. (ekki að við hefðum horft á það, á takmarkaða niðurhali Frakkanna okkar).

Skutumst á markað til að kaupa kirsuber, basil, mozzarella, brauð og rósavín. Auðvitað féllum við fyrir aðeins meiru, til þess eru jú markaðir. Krakkarnir urðu eftir heima. Undir hádegið kom svo smá bein útsending frá ÓL, skotfimi, en þá vorum við á leiðinni út og létum útsendinguna ekki kyrrsetja okkur.

Promenade plantée

Fyrir valinu þennan daginn hafði orðið mjög spennandi gönguleið, Promenade plantée. Hún liggur frá Bastillutorginu (næstum því, frá upphafi Avenue Daumesnil) og alla leið út fyrir borgina. Þetta er járnbrautarspor sem var aflagt 1969 og gerður göngustígur í staðinn. Liggur yfir götur og gangstíga og hús, meðfram henni og sums staðar yfir er plantað heilmiklum gróðri. Gríðarlega skemmtileg ganga og flott útsýni sums staðar. Rétt þegar við vorum komin upp urðum við vitni að alvöru frönsku rifrildi. Á götunni beint fyrir neðan okkur stoppaði bíll, kona í farþegasætinu reif upp hurðina, stökk út og hljóp hinum megin við bílinn. Orgaði á bílstjórann, sýndist það vera stelpa en sá ekki vel hve gömul, sú maldaði eitthvað í móinn, sú fyrri löðrungaði bílstjórann og skipaði að hunzkast í farþegasætið. Hin hlýddi, sú fyrri vippaði sér í bílstjórasætið og keyrði burt. Einu sinni urðum við vitni að ítölsku rifrildi og nú höfðum við séð franskt dittó. Á göngustígnum uppgötvaði ég að gleraugun mín voru brotin. Bögg, þrátt fyrir að þetta væru bara ódýr Hagkaupsfjarsýnisgleraugu (mig langar miiiiikið í lasik síðan ég sá að þeir eru farnir að meðhöndla aldurstengda fjarsýni). Allavega var ég með önnur gleraugu heima í húsi þannig að þetta var nú svosem engin katastrófa.

Kíktum á Opéra Bastille, Freyja var aldeilis ekki hrifin af byggingunni og fannst hún forljót, sérstaklega miðað við gömlu óperuna. Því miður eru engar óperusýningar í gangi yfir hásumarið, annars hefði verið ógurlega gaman að fara á einhverja flotta sýningu.

Gengum heim eftir Rue du Fouberge Saint-Antoine, rak augun í hroðalega flotta græna og hvíta handtösku og splæsti í hana. (mín ástralska tveggja ára gamla var farin að láta á sjá). Vorum svo búin að lofa krökkunum að setjast inn á créperiestaðinn rétt hjá okkur og fá okkur crepu. Hann reyndist síðan lokaður þannig að það fór aðeins út um þúfur. Lítil hrifning. Heim, áttum crépur með sykri í ísskápnum, hituðum þær og settum nutella á. Ekki alveg eins gott og á crépustað en ágætis sárabót samt.

Jón Lárus náði að horfa á tímatökuna í Formúlunni, eftir það kom ógurlega löng og ekki sérlega skemmtileg klippa sem maður hefði getað svarið að Ingólfur Hannesson hefði sett saman. Hvað er með samsetningar af slysum og óhöppum í íþróttum? Ég bara næ ómögulega upp í hvað er skemmtilegt við að horfa á fólk meiða sig og klúðra. (já þarna meiddust alveg pottþétt nokkrir). Eftir það kom reyndar hjólakeppni sem var alveg hörkuspennandi (allavega undir lokin). Ég sofnaði samt yfir henni, alveg að farast úr syfju. Krakkarnir fengu síðan leyfi til að svissa yfir í tölvuleikinn sinn, Lego Pirates of the Caribbean.

Svo datt inn sms. Kattalúgan heima hafði brotnað og stóð nú galopin. Þetta hefur gerst áður og Jóni Lárusi alltaf tekist að laga hana. Sendum leiðbeiningar en það gekk ekki, þannig að Frakkarnir þurftu að fara í Dýraríkið og kaupa nýja lúgu. Bauðst til að Fífa færi með þau þangað en þau vildu ekki heyra á það minnst, kortér með strætó, engin ástæða til að ómaka hana. Ég heimtaði allavega að þau segðu mér hvað hún kostaði, ætlaði aldeilis ekki að þau þyrftu að borga nýja lúgu, rándýrt dót. Mjög leiðinlegt að þetta skyldi einmitt gerast á þeirra vakt. Lúgan var reyndar eldgömul og orðin ansi léleg en ég hélt nú ekki að hún myndi detta endanlega í sundur akkúrat á þessum þremur vikum. Sérstaklega súrt vegna þess að við höfðum hugsað okkur, þegar þyrfti að skipta um lúgu, að fá þá lúgu sem maður gæti látið setja örmerkingu í eyrað á kisu sem opnaði lúguna, þá gæti hún ekki týnt aðgangnum sínum ef ólin hennar slitnaði. Eins og hefur gerst nokkur skipti.

Tómata- og mozzarellasalat

Tómata- og mozzarellasalat í kvöldmatinn. Gæti vanist þessu. Tókst reyndar ekki að láta það líta eins skrautlega út, þar sem við keyptum mozzarelluna á ítalska básnum á markaðnum, sölumaðurinn varaði okkur við að það þyrfti að borða hann mjög fljótlega því hann geymdist ekki vel, það var svo ekki nokkur leið að skera hann í fallegar sneiðar þannig að það endaði á því að þetta varð salat í skál. Bragðið var jafnvel enn betra en fyrri daginn, samt.  Alveg væri mér sama þó kúlan af svona mozzarella kostaði þúsundkall heima, ég myndi samt splæsa í það stundum!

Dagur átta. Aquaboulevard

Þessi dagur átti að fara í vatnsleikjagarðinn eins og hann lagði sig. Dagurinn sko. Ég vaknaði í svitakófi sem ekki tengdist aldrinum klukkan hálfsex, opnaði alla glugga og svaladyr til að reyna að vinna á mollunni. Það gekk reyndar alveg fínt, það hafði kólnað niður í svona 25° og ég náði smá gegnumtrekk. Gat samt ómögulega fest svefn upp á nýtt, sudokubókin mín sem er annars eðal svefnmeðal var inni hjá Finni og ég vildi ómögulega vekja hann svona snemma. Las í staðinn og auðvitað var bókin mín allt of spennandi.

Skriðum nú samt ekki á fætur fyrr en um hálfáttaleytið og krakkarnir um klukkutíma síðar. Ætluðum ekki að lenda í morguntraffíkinni frá Nation yfir á Montparnasse aftur þannig að við fórum ekki af stað fyrr en klukkan hálftíu.

Splass

Eftir 20 stöðvar af grænni línu og 5 stöðvar af bleikri komum við á stöðina næst Aquaboulevard vatnsleikjagarðinum. Tókst að fara vitlaust og labba tæplega tveggja kílómetra krók – hefði verið hægt að komast hjá því með að líta í kring um okkur þegar við komum upp úr metróstöðinni. Inngangurinn í garðinn var semsagt 300 metra frá stöðinni en ekki tvo kílómetra. Bara í suður í stað austur. Þurftum að á á leiðinni og keyptum okkur vondar samlokur og ágætis vatn. Passa sig á þríhyrningssamlokum í Frakklandi, þær ná ekki Sómagæðum, ónei. Allavega ekki Sómasamlokunum með beikoni, sveppum og tómötum, þær eru toppurinn.

Rándýrt inn í garðinn rúmar 17 þúsund fyrir okkur öll. Vel þess virði samt, snilldar rennibrautir, ég fór nokkrar ferðir, Jón heldur fleiri og krakkarnir fleiri en þau gátu talið. Vorum þarna í þrjá klukkutíma og flúðum síðan þegar fór að rigna. Maður hefði getað orðið blautur sko! Í sólbaðinu (ekki mikil sól en samt nógu hlýtt til að liggja í sólstól) tók ég eftir að lærin á mér voru fjólublá. Fjólublá! Hafði keypt mér leggings sem náðu rétt niður fyrir hné á markaðnum nokkrum dögum fyrr og þær létu semsagt svona hroðalega lit.

Heim, vorum búin að plotta þennan pastarétt í kvöldmat en þegar til átti að taka gat ég ómögulega hugsað mér pasta þannig að við komum við hjá slátraranum á horninu og keyptum cordon bleu og kartöflur grillaðar í kjúklingalegi. Fáránlega gott. Vildi óska að það væru alvöru slátrarabúðir heima á Íslandi.  Nokkrir vísar að slíkum en allt of óalgengt.

Litfagrir drykkir

Kláraði fjórðu bókina mína um kvöldið og byrjaði á fimmtu – styttist í langlokuna, lagði samt ekki alveg í að byrja á henni, of þreytt eftir að hafa vaknað svona vibba snemma. Plottuðum um fjögur kíló af osti með heim – apéricubes er fyrirfram gefið, ásamt geitaosti handa Fífu.

Dagur sjö. Meiri hiti.

Vaknaði klukkan sjö og datt í hug að prófa hvort netið virkaði. Það gerði það sem betur fór. Sem þýddi að þó maður klári niðurhalið fær maður smá tíma á hverjum degi. Allavega mjög gott að komast aðeins í heimabankann og geta flett upp hinu og þessu. Já og bara oggupínu fb. Hefði verið glatað að geta ekki fundið út hvar vatnsgarðurinn sem stefnt var á á föstudeginum væri og sjá að veðurspáin hafði batnað aftur.

Matseðillinn

Um ellefuleytið drifum við okkur út, stefnt var á markað ekki langt frá og svo í hádegismat á Bistrot Paul Bert, svokallað neo-bistro, sem er ákveðin endurvakning bistrosins, fókuserar á þrjá góða rétti á viðráðanlegu verði í stað 9 rétta Michelin spreða sem fara með mann á hausinn. Höfðum fengið ábendingu um svona staði, ekki nákvæmlega þennan, ég gúglaði neo-bistrot og 11. hverfi og fékk þennan stað upp. Hann reyndist síðan vera í korta/leiðsögubókinni sem Frakkarnir gáfu okkur og líka í Lonely Planet bókinni okkar.

Sítrónulaxatartar

 

Markaðurinn var ekkert merkilegri en okkar markaður sem er nær, þyrftum ekkert að fara þangað aftur endilega. Í kring voru mjög skemmtilegar handverksbúðir, alls konar skóarar og bólstrarar og lyklasmiðir, mjög áhugavert hverfi. Verst að Fífa, aðal handverksáhugamanneskjan í fjölskyldunni var ekki með okkur.

Fengum borð á bistróinu og pöntuðum okkur þriggjarétta (við Jón) og tvíréttað (krakkarnir). Æðislegur matur og alls ekki dýrt. 18 evrur fyrir þríréttað, án víns.

Það var alveg fáránlega heitt þennan dag. Þegar við vorum búin að borða kíktum við í matvöruverslun rétt hjá bistróinu og ákváðum að þangað þyrftum við sannarlega að fara aftur, mun meira spennandi og betra úrval en í Franprixunum okkar. Þar fékkst líka uppáhalds vatnið okkar, Vattwiller (ég kallaði það aldrei annað en Rottweiler), tókum svo eftir því þegar við komum heim að það var sérstaklega auglýst sem gott fyrir smábörn. Smábörn og vatnvanda Íslendinga semsagt.

Komin heim klukkan rúmlega tvö og ekkert okkar langaði aftur út í hitann þannig að við opnuðum bara alla glugga til að það yrði líft í íbúðinni fyrir mollu og lásum og lögðum kapla restina af deginum.

Dagur sex. Netlaus

Þennan dag ætluðum við að taka því rólega, bakarí um morguninn, keyptum svo glænýjar bagettur að ég varð að rétta Jóni með asbestputtana þær, gat ekki haldið á þeim fyrir hita. Nýju sandalarnir mínir rétt réðu við bakarísheimsóknina, ekki að ég byggist við öðru reyndar, þó ég væri búin að reyna að venja fæturna mína við þá aðeins heima.

krakkarnir og Rossini

 

Eitthvað smá ætluðum við að kíkja á netið en þá var það bara dottið út. Við erum með svo mikið pláss á niðurhalinu okkar heima að við höfðum ekkert athugað að Frakkarnir væru mögulega ekki með endalaust pláss, krakkarnir voru búnir að vera að horfa á anime og Glee og einhverja fleiri þætti og nú vorum við óvart bara búin með kvótann. Að við héldum. Og nærri vika eftir af mánuðinum. Reyndum að ná í Frakkana til að athuga hvort netið myndi ekki örugglega detta inn um mánaðamótin þar sem við þyrftum víst að komast aðeins í heimabankann til að redda Visareikningnum. Pínu óþægilegt að komast ekki í póstinn en annars gerði netleysi svo sem ekki mikið til. Hugsa að Facebook reddi sér án okkar í vikutíma eða svo. Frakkar svöruðu ekki, reynt síðar.

 

Smurðum okkur bagettur og örkuðum í Pére Lachaise kirkjugarðinn. Kippti hlaupahjóli elstu Frakkastelpu með fyrir Finn. Í kirkjugarðinum reyndist nú ekki hægt að fara í neinn lautartúr, ansi þröngt milli legsteina og engar grasflatir né bekkir.  Fundum grafir Rossinis, Chopins, Jim Morrison og Charpentier, nenntum ekki að leita að Edith Piaf enda í hinum enda garðsins, rétt misstum af Poulenc (löbbuðum framhjá án þess að taka eftir), nokkrir fleiri sem við hefðum getað hugsað okkur að sjá. Ákváðum að rölta aftur þangað síðar, enda alveg kortérs gang frá íbúðinni okkar. Heim aftur og pikknikkið var bara úti á pínulitlu svölunum okkar. Bagettur með dijonnaise, skinku og þykkum sneiðum af góðum osti, ekki verst. Restin af deginum var meira og minna úti á svölum og músík úr tölvunni. Maður verður stundum að taka bara svona afslöppunardag (planaður næsta dag líka). Stóri kosturinn við að vera svona lengi í fríi er auðvitað sá að það er hægt að gera allt sem mann langar – þegar mann langar. Þarf ekki að þvinga allt inn í neinn tímaramma.

Dagur fimm. Splitt

Þessum degi hafði verið ákveðið að eyða í búðaráp. Unglinginn langaði voðalega að kaupa sér föt en við vissum sem var að sá stutti myndi ekki njóta slíks ráps. Ekki að ræða það að hann yrði eftir einn heima þannig að við plottuðum að finna eitthvað sem hann hefði áhuga á og pabbi hans færi með honum þangað en ég elti Freyju í HáOgEmmin.

Krakkarnir á líbanska staðnum

Fyrst var samt planið að fara á uppáhalds veitingastaðinn okkar Jóns, L’Incroyable, á Rue de Richelieu. Frábær staður með ekta frönskum heimilismat, sérstaklega góðum kökum í desert og víni hússins í karöfluvís. Okkur til sorgar virtist sem staðurinn væri hættur, byrgt fyrir glugga og ekkert sem gaf til kynna að um tímabundna lokun væri að ræða. Eigum samt eftir að kíkja aftur þangað í von um að eitthvað líf leynist með staðnum.

Í staðinn fórum við yfir götuna og rötuðum á líbanskan veitingastað. Það reyndist hin besta ákvörðun, sérstaklega voru grilluðu lambaspjótin okkar Finns frábær, ásamt rauða kúskúsinu og jógúrtsósunni sem fylgdi réttunum.

Löbbuðum niður á Rue de Rivoli og þar skildu leiðir. Jón Lárus og Finnur stefndu á uppfinningasafnið í Palais de la découverte en við Freyja í búðir. Svo sem ekki frá miklu að segja, unglingurinn keypti sér einar 12 flíkur og ég ekkert. Nei skrökva því, keypti mér fjólubláa alpahúfu og klút í stíl. Í túristabúð, ekki H&M. Karlpeningurinn skoðaði safnið og fór í Planetarium, dauðsáu reyndar eftir að hafa ekki haft talsvert betri tíma, Finn langaði að sjá efnafræðihlutann og píhlutann og margt fleira sem ekki reyndist tími til. Fóru svo síðan í uppáhalds vínbúðina okkar, Lavinia, til að kaupa smá lúxusvöru.

Citron pressé

Mæltum okkur mót við Lafayette, við vorum svolítið fyrr á ferðinni og stoppuðum á veitingahúsi til að fá okkur að drekka, maður var endalaust þyrstur í hitanum. Freyja drekkur ekki gos en vildi límónaði, við fundum stað sem seldi slíkt (Café Opera eða álíka á götunni upp að gömlu Óperunni). Þjónninn spottaði okkur strax sem túrista og ávarpaði á ensku en svo pantaði ég á frönsku og ruglaði hann alveg í ríminu. Ég kann vægast sagt litla frönsku, rétt svo get reddað mér að panta á veitingahúsum, en er hins vegar með þokkalegan framburð þannig að fólk heldur alltaf að ég tali miklu meira en ég síðan geri. Allavega fengum við límónaði og Orangina, þjónninn hélt síðan auðvitað að unglingurinn vildi gosið en sú fullorðna límonaðið og plantaði því fyrir framan mig. Það var borið fram svolítið flott, nýkreistur sítrónusafi sem fyllti hálft glas, lítil vatnskarafla (reyndar með besta vatni sem við fengum í ferðinni) og svo sykur til að sæta. Freyja ætlaði aldrei að hætta að hella sykri, mömmunni ofbauð alveg. Þetta varð síðan uppáhaldsdrykkur krakkanna í ferðinni, fékkst nánast alls staðar. Finnur gat á endanum pantað sér það sjálfur, meira að segja.

Nú svo fundum við Lafayette og skoðuðum smá, unglingurinn keypti sér eina flík til og við enduðum uppi á toppi. Frábært útsýni frá þaki Lafayette. Jón Lárus hringdi akkúrat þegar við vorum þar uppi, þá voru þeir feðgarnir að lenda. Mæltum okkur mót við götuna milli húsanna tveggja sem Lafayette fyllir. Komum á svipuðum tíma, Finnur var orðinn gersamlega búinn á því þannig að í staðinn fyrir að kíkja á gúrmeibúðina í hinu LaFayettehúsinu drifum við okkur á Opéra metróstöðina (sem við vissum um), fundum þar út að við gætum tekið lest eina stöð og þar næðum við lestinni sem stoppaði næst íbúðinni okkar. Flott. Þar til við sáum að lestin fór til baka og við hefðum getað tekið hina lestina beint frá stöð sem heitir, já La Fayette og var talsvert nær staðnum sem við vorum á þegar við lögðum af stað til Opéra stöðvarinnar. Nevermænd, vitum það þá næst. Stefnum á að kíkja aftur á LaFayette og Printemps.

Restin af austurlenska matnum í matinn og afslöppun. Ekki sem verst. Sérstaklega að sitja úti á svölum með rósavínsglas vegna þess að rauðvín er of heví fyrir hitastigið. Sérstaklega að vera nánast of heitt klukkan tíu, úti á svölum. Sérstaklega að spjalla við nágrannann á frönsku og skilja nánast allt (sko Jón en ekki ég). Er þetta lífið eða er þetta lífið?

Dagur fjögur. Eiffel og fleira

Flettum Eiffelturninum upp á netinu og sáum að vegna bilunar keyrði turninn bara á einni lyftu og búast mætti við tveggja tíma bið í biðröð til að komast inn. Hmm. Ekki ætluðum við að svíkja krakkana um útsýnisferð. Ákváðum að vakna snemma um morguninn og helst vera mætt um leið og opnaði, klukkan 9 að morgni. Rifum okkur þess vegna á fætur klukkan hálfátta og út úr húsi kortér yfir átta (eða reyndar náðum því nú ekki alveg, en fjórar mínútur ættu nú ekki að muna öllu).

Bein metróferð frá stóru stöðinni Nation, rétt hjá okkur, að stöð alveg í nágrenni Eiffelturnsins. Fundum sæti í lestinni, svona fellisæti við gangveg. Það voru mistök, hefðum átt að fara í almennileg sæti þó við hefðum ekki getað setið saman. Tveim stöðvum frá þar sem við komum inn snarfylltist allt af Parísarbúum á leið í vinnuna þannig að okkur var ekki sætt, maður varð að standa upp úr þessum sætum þar sem það tók minna pláss. Stóðum semsagt nánast allar 23 stöðvarnar, hátt í þrjú kortér.

Biðröðin var síðan auðvitað fleirihundruð metra löng þrátt fyrir að við værum mætt í hana nítján mínútur yfir níu. Fórum nú samt í hana, tók tæplega tvo klukkutíma. Í röðinni kom annar stelpuhópur, nú talandi, með svipuð undirskriftaspjöld, í þetta skipti með mynd af manni í hjólastól. Nei, létum ekki gabbast aftur! Lengdin á röðinni hefði ekki gert mikið til nema vegna þess að þegar við vorum komin nánast að miðasölunni duttu inn skilaboð á ljósaskiltin. Lokað upp í topp (Sommet fermé). Væntanlega vegna roks, það var þokkaleg gola. Súrt. Fórum samt upp á aðra hæð og löbbuðum hringinn. Það er nú ekkert slæmt útsýni þaðan heldur. En krakkarnir verða bara að eiga toppinn inni þegar þau fara næst til Parísar – ekki séns að við nenntum að fara aftur í svona biðröð í þessari ferð þó hún sé þriggja vikna löng.

Finnur kælir sig

Sársvöng þegar turninum sleppti, gengum samt upp að gosbrunnunum við Trocadéros, vættum fæturna í tjörninni hjá neðsta gosbrunninum (gott), horfðum á tvær stillingar á gosum, löbbuðum upp allar tröppurnar hjá Trocadéros og þaðan í metróstöð. Stefndum á Latínuhverfið til að fá okkur að borða á Rue Mouffetard.

Ítalskt veitingahús á torgi, ágætis pizzur, tókst að panta mér bjór/gosbland sem var fokvont, Jón náði að koma því niður en ég sníkti vatn úr flöskunni hennar Freyju. Þarna lánaðist síðan Finni loksins að fá tíramísúið sitt í þriðju tilraun.

Kíktum á Panthéon og Svartaskóla, sáum nafn Snorra Sturlusonar vitlaust stafað á háskólavegg, ekki viss hvaða bygging það er. Til baka á Mouffetard, einir sandalar keyptir og austurlenskt teikavei í kvöldmat. Alveg tekst manni að verða ótrúlega þreyttur á plampi í hita (já veit ég er að endurtaka mig frá deginum áður og þaráður). Metró, heim, sófi, úff. Höfðum  ofmetið svengdina þannig að helmingurinn af teikaveiinu dugði feikivel.

Dagur þrjú. Vor frú og ís

Daginn þennan var stefnt á eyjarnar. Fyrsta metróferðin, loksins, sagði Finnur. (Svo var hann auðvitað fljótur að verða blasé).

Byrjuðum á Notre Dame, stutt röð og labbað gegn um kirkjuna. Fallegur kórsöngur en við fundum hvergi kórinn. Alltaf eru gluggarnir nú jafn fallegir. Enga stillansa var að sjá, ég held þetta sé í fyrsta skipti sem ég sé kirkjuna án viðgerðar- eða hreinsunarstillansa. Enda var hún ekki svört lengur.

Berthillion bragðtegundir

Gengum sunnan við kirkjuna til að fara út á næstu eyju. Tókst þar að láta gabba okkur (held ég), við brúna milli eyjanna stóð hópur af stelpum að safna undirskriftum að við héldum. Virtust mállausar og væru að safna fyrir málleysingja. Héldu á spjöldum með merkjum frá Unesco og Amnesty og Rauða krossinum og ég veit ekki hverju. Svo átti maður auðvitað að skrifa hvað maður vildi gefa. Ég henti í þær tíu evrum, svo vildu þær annað eins frá Finni, (þar neitaði ég) Jón rétti sinni tuttugu og hélt hann myndi fá til baka en það gerðist að sjálfsögðu ekki. Neituðum að greiða stelpunni sem Freyja skrifaði hjá neitt. Heimsku túristarnir fóru semsagt þrjátíu evrum fátækari frá stelpunum og ég á eftir að sjá málleysingja fá eitt einasta sent af þessu.

Röðin í Berthillionísbúðina var stutt, hægfara en vel þess virði. Smökkuðum 8 mismunandi bragðtegundir, ég var hrifnust af karamellu með söltuðu smjöri. Ótrúlega góður ís.

Þá var nánast kominn tími á að eltast við lokin á Tour de France. Ákváðum  að labba, ekki svo langt frá endanum á eystri eyjunni að Champs Élysées. Gengum niður meðfram Signuströndinni og ákváðum að þangað þyrftum við ekkert að fara. Hvað er spennandi við strönd ef maður getur ekki farið í sjóinn (eða ána)? Bara sjóðandi heitur sandur og ekki möguleiki að kæla sig niður. Úff.

Alveg að bráðna í sólinni, settumst inn á stað og fengum okkur að drekka. Finnur pantaði aftur tiramisú ásamt safa að drekka (við hin bara drykki) og einhvern veginn misskildi þjónninn hann, hann fékk bara safann, þannig að þetta var önnur tiramisúpöntunin sem fór út um þúfur hjá honum. Frekar erfitt.

Þá var plampað fram með öllu Louvre til að komast við endann á Champs Elysées. Fórum eins langt og við komumst, það var auðvitað troðið, allir að bíða eftir hjólaköppunum. Áreiðanlega meira en 30° hiti í sólinni. Biðum þar í þokkalegustu stöppu fólks í meira en hálftíma. Finnur var orðinn ansi þreyttur á þessu en við tókum hundraðogelleftu meðferð á hann og hann fékk að bíða áfram með okkur. Vorum reyndar heppin, fyrir aftan þvöguna birtist sjúkrabíll sem þurfti að komast fram hjá, hópurinn þurfti að víkja til hliðar og þegar hann var kominn framhjá náðum við að komast svo sem eins og tveimur röðum nær þannig að við sáum götuna þar sem hjólagengið fór framhjá. Þarna var ekki pláss fyrir neitt personal space.

Svo komu þeir. Í einni þvögu. Við sáum fyrst ekki mikið, rétt í skottið á þeim. Þá fóru einhverjir sem voru þarna fremstir í þvögunni þannig að við komumst örlítið framar. Hinkruðum eftir öðrum hringnum hjá genginu. Sáum þá svo ansi vel þegar þeir komu í annað skiptið framhjá. Þá var þetta nú orðið nokkuð gott og við drifum okkur út úr hópnum.

Pelotónninn

Gersamlega búin á því, næsta metróstöð og heim. Lákum niður í sófa og stóla. Úff. Sátum svo úti með rósavínsglös á svölunum hálft kvöldið og lásum. Unaður, eftir að sólin var farin af svölunum.

París dagur tvö. Markaður og jurtagarður

Vorum búin að ákveða að vakna nú ekki of seint, Jón talaði um að vakna klukkan átta en ég gat nú talað hann ofan af því – feikinóg að vakna níu svona í fríinu. Nægur tími til stefnu. Hefði verið allt annað mál ef við hefðum bara verið í helgarferð og ætlað að ná að gera ALLT í París. En ekki svo, þrjár vikur höfðum við til stefnu.

Vaknaði síðan um tvöleytið um nóttina og fannst endilega Loppa vera til fóta í rúminu mínu, eitt andartak áður en ég áttaði mig á því að það væri víst ómögulegt. Þá sat Finnur þar og spilaði á Nintendo DS vélina sína. Hafði ekki getað sofið í sínu herbergi og flutt sig til okkar en sofnaði samt ekki strax. Ég tók af honum tölvuleikinn og sagði að hann mætti sofa uppi í hjá okkur þessa nótt.

Við steinsofnuðum strax. Ég vaknaði síðan um hálfátta og laumaðist fram úr. Kíkti á netið og las svolitla stund og vakti síðan hin klukkan hálftíu. Reyndist feikinóg.

Þennan dag var stefnt á stóran matarmarkað sem er haldinn á laugardögum og miðvikudögum. Dýrka svona markaði, endalaust af ávöxtum, grænmeti, kjötvörum , sveppum, brauði og fleiru. Keyptum slatta inn fyrir daginn og næstu daga (þrjár týpur af osti í viðbót, áttum þá sjö) .Heim aftur, hádegismatur og svo drifum við okkur af stað í göngutúr í Jardin des plantes.

Freyju crépe

Góður göngutúr þangað, um 4 kílómetrar, Finnur var hálfpirraður enda svefninn ekki alveg kominn í lag hjá honum eftir fyrrinóttina. Skapið lagaðist þó talsvert þegar við settumst inn á veitingahús og fengum okkur hressingu. Mismunandi crépes, Nutella, Grand Marnier og sulta (sem reyndist vera marmelaði) með rjóma, Finnur ætlaði að panta sér tiramisú en það var ekki til þannig að hann fékk súkkulaðibúðing í staðinn. Konan í veitingahúsinu skildi ekkert í því að við fengjum okkur bara desert og bauð okkur að kaupa steik líka. Slepptum því nú samt. Þjónninn ætlaði heldur ekki að trúa því að við vildum kaupa dökkan bjór, þráspurði okkur að því hvort við værum örugglega að velja Pelforth brune, ekki blonde. Skil ekkert í þeim.

Grasagarðurinn, Jardin des plantes er uppáhaldsgarðurinn okkar Jóns Lárusar, síðan við komum til Parísar í annað skiptið, frá Danmörku og áttum afskaplega lítinn pening, eyddum síðasta deginum í garðinum.

Garðurinn flottur að vanda, höfum samt stundum séð hann í meiri blóma. Jón fór með krakkana inn í stóra gróðurhúsið til að skoða exótísku plönturnar en ég beið úti, langaði meira til að sitja í sólinni smástund.

Heim aftur,  vorum búin að tala um að taka metro uppeftir en ákváðum síðan að labba bara, Finni til skelfingar. Hann var ekkert að segja okkur frá því að skórnir væru farnir að meiða hann, fyrr en við vorum komin meira en hálfa leið til baka. Uppgötvuðum það á besta stað, beint fyrir utan metro stöð, ætluðum að drífa okkur niður og fara restina með lestinni. Nei þá var bara hægt að fara inn um þennan inngang ef maður átti miða. Sem við áttum ekki. Jón hljóp til að finna hinn innganginn í stöðina en á meðan rak ég augun í að við vorum líka við hliðina á apóteki. Inn og keypti plástur og þegar stráksi var kominn með plástur á hælinn var hann alveg til í að labba restina. Sem var ágætt, því ég efast um að það hafi verið meira en ein metro stöð á þá sem næst var íbúðinni okkar.

Kvöldmaturinn

Tómata/mozzarella/basilsalat í kvöldmatinn. Tómatarnir ekkert þannig mikið betri en þeir íslensku (ég hef talað um það áður hvað ég sé ekkert endilega sammála því að íslenskir tómatar séu óspennandi og það sannaðist þarna líka) en alvöru mozzarella di bufala er hins vegar gersamlega allt annar matur en gúmmímozzarellan sem fæst á Íslandi. Salatið var púra unaður, ákvað strax að það yrði sko gert aftur.

Rólegheitakvöld, dagbókarskrif, lestur og smá net.


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

ágúst 2012
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa