Sarpur fyrir ágúst, 2015

Brussel – London – Reykjavík daag – day – nótt 11

Heimferð. Vaknað 6.15, snemmt en skömminni skárra en upp úr 3 eins og á útleiðinni.

Hún Nicole sem á húsið sem við vorum í fær konu til að þrífa fyrir sig, sú hafði komið á miðvikudeginum þannig að við sluppum við að þrífa allt hátt og lágt. Rifum bara sængurföt af rúmum, fengum okkur morgunmat, smurðum nesti og kláruðum að troða síðasta dóti í töskur. Út úr húsi klukkan 7.25, upp á lestarstöð með töskur í eftirdragi og bakpoka á bökum. Rétt tókst að kaupa miða í tíma fyrir 7.45, við höfðum alltaf keypt miða fyrir alla í einu og annaðhvort okkar Jóns tekið þá á visakortin (yfirleitt Jón) en núna voru Fífa og Atli að kaupa miða fyrir sig alla leið upp á flugvöll en við bara á Zuid og þá vildi sjálfsalinn ekki taka neitt af kortunum þeirra þannig að Jón rauk til baka og náði að borga þá – það stóðst á endum að þau komu hlaupandi upp á pallinn um leið og lestin renndi að. Fjúkk!

Elsta unga fólkið fór svo úr á Noord stöðinni og er hér með úr sögunni (í þessu ferðabloggi skoh).

Komin niður á Zuid fundum við hin svo Eurostarinnganginn, beint inn í gegn um tvöfalda passatékkið og öryggisleitina (út úr Belgíu/Schengen og inn í Bretland). Inn í lest þegar 10 mínútur voru í að hún legði af stað. Nokkuð góðar tímasetningar bara.

Þessi lest var eiginlega betri en sú sem við tókum á leið út, sætin þægilegri. Samt ekkert hleðslutæki fyrir síma (gerði minna til þarna því auðvitað vorum við öll með fullhlaðið þetta snemma morguns). Ferðin gekk fínt, mikill lúxus að geta bara sest svona upp í hraðlest og keyrt langar leiðir.

Þá var það London í 6 klukkutíma. Ekkert okkar þekkir sig almennilega í London. St. Pancrasstöðin þar sem Eurostar lestirnar fara er við hliðina á King’s Cross stöðinni sem er nú á dögum frægust fyrir brautarpall 9 3/4. Krakkarnir (já og við) vildu auðvitað fara og kíkja á stöðina. Þar var búið að búa til þennan pall í forsal stöðvarinnar, með hálfri farangurskerru og öllu tilheyrandi. Löng röð túrista var fyrir framan, allir vildu fá tekna af sér mynd að hlaupa gegn um múrinn. Við slepptum því nú samt.

Skildum stóru töskurnar okkar eftir á Left luggage á St. Pancras. Út að væflast í London fram á síðdegi. Eins og ég sagði þá þekkjum við þetta svæði ekki neitt og tókst að fara í afskaplega óspennandi átt. Ætluðum að finna garð þar sem við gætum sest og borðað nestið okkar. Allt fullt af svona litlum görðum í London auðvitað. Sáum einn á korti sem við rákumst á og stímdum þangað, nokkurra mínútna gangur. Sá reyndist þá ekki dæmigerður pikknikkgarður heldur villigarður þar sem plöntur og dýr fá frið til að vera þau sjálf á smá svæði. Mjög skemmtilegur garður.

Nestið var nú borðað þarna samt þó þetta væri ekki akkúrat það sem við ætluðum okkur. Vorum kortlaus og ákváðum að reyna að hitta eitthvert niður í bæ. Ég setti Oxford Street í Maps í símanum mínum þó við ætluðum reyndar alls ekki að versla en þekkjum okkur betur kring um það svæði – fyrst fattaði ég svo ekki að stilla á Walk þannig að við vorum að ganga eftir bílaleið og einhvern voðalegan krók þar til ég sá breytingu: Það er lokun á þessari götu, beygðu næstu til hægri. Hmm! Stillti yfir á Walk en það var bara eitthvað alveg út í hött hvað hver bútur var langur (já ég veit London er stóóóór). Þannig að þegar við rákumst á Euston stöðina ákváðum við bara að fá okkur eitthvað að borða og hætta að reyna að fara eitthvað mikið meira miðsvæðis. Fórum á Nandos af einhverri rælni, aldrei farið á þá keðju áður og kunnum ekkert að panta en þegar kjúklingalærisborgararnir okkar komu á svæðið voru þeir alveg gríðarlega góðir og medium var allavega alveg passlega sterkt fyrir mig. Að skvetta medium piri piri sósu á bellurnar (ef franskar heita núna fröllur þá hljótum við að kalla belgískar bellur – franskar kartöflur eru jú frá Belgíu, alls ekki Frakklandi) var kannski örlítið misráðið samt.

Þetta er allrasíðasta matarmyndin úr þessari ferð. Lofa!

Vorum búin að ákveða að taka bara leigubíl aftur á St. Pancras þar til ég rak augun í skilti hjá Euston um gönguleið þangað sem væri bara 1,2 kílómetrar. Einhvern veginn hefur okkur semsagt tekist að fara að nálgast stöðina aftur á vappinu. Svo reyndist auðvitað fullt af skemmtilegu dóti vera allt í kring um þessar stöðvar, British Library, matarmarkaður, fullt af búðum og veitingahúsum – sé samt ekki eftir því að hafa fyrst labbað í hina áttina því annars hefðum við ekki séð skemmtilega villigarðinn.

St. Pancras er ansi flott að framan:

Settumst út hjá veitingahúsi og fengum okkur sitthvort rósavínsglasið til að drepa tímann, Freyja og Emil skutust til að skoða stöðvarnar tvær betur, Finnur sat hjá okkur og var eitthvað að verða framlágur. Skrifuðum það á þreytu.

Ákváðum svo að vera í góðum tíma í lestina til Gatwick. Reyndist ágætt því hún tók lengri tíma en okkur minnti og svo bilaði lestin líka á leiðinni og stoppaði tvisvar milli stöðva, annað skiptið í heilt kortér, mér hefði ekki verið sama ef við hefðum ætlað að láta þetta smella. Annars bara þægilegt og komin á Gatwick gátum við bókað okkur beint inn og farið inn fyrir. Alltaf alveg voðalega gott að vera kominn í gegnum bannsetta öryggisskoðunina og vegabréfaeftirlitið.

Í duty free rákumst við svo á þetta: (nei ég var ekki búin að lofa engri drykkjamynd!)

tímdum ekki að kaupa í þetta skipti en einhvern tímann skal ég fá svona flösku! (vonandi er þetta ekki tímabundin hönnun). Hvort ég tími svo einhvern tímann að opna og drekka verður alveg að koma í ljós!

Enginn orðinn svangur enn eftir Nandos þannig að við keyptum okkur bara þríhyrningssamlokur og vatn. Nema Emil sem langaði ekki í svoleiðis samloku. Sáröfunduðum hann svo þegar þessar reyndust vera enn önnur bragðlaukanúllstilling og hann átti svengdarkvóta eftir fyrir grillaðri samloku inni í biðsal.

Finnur var að verða lasinn greyið og vildi ekkert, hvorki vott né þurrt. Í vélinni var hann eiginlega alveg ómögulegur þannig að þó að Váflugið væri bara ágætt og meira að segja lent á undan áætlun var ég alveg hrikalega fegin að lenda og ekki síður að við hefðum splæst í að hafa bílinn á langtímastæðinu. Hefði verið martröð að taka rútuna heim.

Sólarlagið var samt fallegt á leiðinni:

Og já – heima. Takk fyrir lesturinn öllsömul. Næsta blogg væntanlega frá Róm í nóvember!


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

ágúst 2015
S M F V F F S
 1
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
3031  

sagan endalausa