Sarpur fyrir mars, 2010

mætti halda

að við værum ekkert að pæla í fermingunni núna eftir nokkra daga – í dag hentum við okkur á kaf í þrif hér heima. Nei við höldum ekki veisluna heima. Fimmta uppþvottavélin af rykugum bjórglösum rúllar í augnablikinu.

(já við eigum slatta af bjórglösum, sjá:)

Jú, bökuðum hlaða af flatkökum til að smyrja og ég skaust í bakarí til að panta snittubrauð. Ætli maður geti fengið þau skorin í bakaríinu?

Norvegur dagur #4. Tónleikar

Og afmæli reyndar.

Vaknaði auðvitað klukkan hálfátta þrátt fyrir að hafa ekki farið að sofa fyrr en klukkan tvö, hefði mátt vita þetta. Sturta og svo ljómandi góður morgunmatur, brauð með alls konar áleggi auðvitað, egg og beikon, safi og te, stór ávaxtabar og svo var hægt að steikja sér vöfflur en ég gerði það nú samt ekki.

Var að farast úr varaþurrki, spurði á hótelinu hvort einhvers staðar væri opið apótek, jú stúlkan hélt nú að eitt væri væntanlega opið, þó ekki fyrr en ellefu (klukkan var rúmlega tíu). Rölti nú þangað samt. Neibb, opnar sko ekki klukkan 11 heldur klukkan ÞRJÚ! Og opið til sex. Sá ekki fram á að geta keypt mér varasalva, var farin að plotta að biðja Maju að koma með varasalva á tónleikana, sá svo opna sjoppu og sveimérþá ef þar var ekki til varasalvi. Fjúkk.

Nákvæmlega ekkert við að vera í bænum, jújú, hefði getað farið í messu reyndar :þ en miðað við að norskir sálmar eru allir 118 erindi og alltaf öll sungin leist mér nú ekki sérlega vel á það.

Það er örugglega mjög fallegt þarna í Kristiansand á sumrin. Ekki akkúrat þarna, samt.


bak við kirkjuna.


hún sjálf bráðfalleg samt.

Fór því aftur inn á hótel, í bólið og á netið, talaði við Finn og Jón Lárus og Hallveigu á msn, sofnaði smástund, fór svo út og fékk mér kínamat í middag (varla hádegismat þar sem þetta var klukkan hálfþrjú). Það átti eftir að koma sér vel. Fékk sms frá Maju um að hún kæmi með vinkonum sínum á seinni tónleikana, hinir of langt í burtu.

Við Úlfar vorum sótt klukkan þrjú á Hotel Norge, keyrðum í Søgne Hovedkirke, skildi Maju mjög vel, þetta var allavega hálftíma keyrsla í vitlausa átt. Falleg sveitakirkja, þokkalega stór samt. Smá æfing og svo tónleikar klukkan fimm. Fínt brassband, þokkaleg hljómsveitin í Úlfars verki en ég verð að viðurkenna að ég ætlaði niður úr sætinu í messunni minni.

Klarinettin duttu út á stórum parti í Kyrie kaflanum þar sem þau hafa gríðarlega mikilvæga parta – sums staðar var bara óvart nánast engin músík þar sem ekki áttu að vera þagnir til dæmis. Fór í sundur á fleiri stöðum líka og ég sárvorkenndi tenórunum tveimur sem þurftu ekki bara að standa fyrir tenórappartinum í kórköflunum heldur auðvitað öllum hetjutenórsólópörtunum líka. Agnus Deikaflinn var sá eini sem var í lagi.


Søgne hovedkirke.

Við Úlfar fengum sitt hvora rósina, svo var pakkað saman og keyrt á hinn staðinn – alveg hafði gleymst að segja okkur að athuga að taka með einhvers konar nesti þannig að ég var ansi hreint fegin að hafa fengið mér þennan síðbúna hádegismat.
Maja og vinkonur mættu á seinni konsertinn. Mikið var ég fegin – hann nefnilega tókst fínt. Hefði fyrir minn smekk mátt vera allavega tvöfalt stærri kór en reyndar naut verkið sín merkilega vel með því að kórinn væri bara eins og eitt af hljóðfærunum í hljómsveitinni í stað þess að vera í forgrunni. Sólóstaðirnir voru nú samt verulega ræfilslegir. En allavega þurfti ég ekkert að síga niður í sætinu á þessum konsert. Meiri blóm, gaf Maju mín þar sem ég myndi nú ekki geta notið þeirra mjög lengi á hótelherberginu.

Eftir tónleikana var okkur skutlað niður í bæ, við Úlfar fórum og fundum opið veitingahús, fengum okkur sitt hvorn bjórinn og pizzu. Hef aldrei fengið sýrðan rjóma með pizzu áður, merkilega gott.

Bara næs, svo upp á hótel, kíkja enn á netið. Yfir 280 ammliskveðjur á smettinu, ekki sem verst. Allt í allt ágætis tónleika- og afmælisdagur.

Norvegur dagur #3. Bregður

Að morgni laugardagsins 13 mars vaknaði ég, já snemma en dreif mig þó strax á fætur þar sem ég þurfti að koma mér niður til Kristiansand með strætó ekki of seint. Maja og Steini gáfu mér alveg mega morgunmat-slash-brunch, brauð og salöt og egg og síld og ávextir og te og safi í boði, var vel sett langt fram eftir degi. Stormur, litli dóttursonurinn kom í heimsókn, pínu feiminn við þessa ókunnu frænku sem hann skildi ekkert hvað sagði, óttalegir dónar við, að tala ekki norsku fyrir framan barnið. (ekki það, hann má sosum alveg heyra íslenskuna, alíslenskur í aðra ættina).

Kvaddi Steina, Storm og Tim hund, Maja keyrði mig niður á rútustöð í veg fyrir strætó. Þakkaði fyrir mig og steig upp í vagn vopnuð bók.

Komin svona um hálfa leið hendast allir til í vagninum þegar vagnstjórinn klossbremsar – ég sat fremst og leit upp og sá að einhver hafði misst vandlega innpakkaðan sófa á götuna. Bílstjórinn, greinilega brugðið, tók míkrófóninn og afsakaði snarstoppið, sem betur fer hafði nú enginn meitt sig. Það var samt ekki þarna sem mér brá (sjá titil). Svona 3-4 mínútum seinna keyrðum við síðan framhjá bíl með kerru hangandi aftan í, búnum að leggja í útskoti, bílstjórinn að klifra út úr bílnum klórandi sér í hausnum. Held ekki við þurfum að velkjast í vafa um hvers vegna.

Ekki las ég nú alla leiðina, horfði slatta út um annars frekar skítugar strætórúðurnar. Sló mig hvað voru margar kirkjur og bænhús þarna úti um allt. Enda biblíubelti Noregs.

Lent í Kristjánssandi, þvældist nokkrar kantaðar götur til að leita að hótelinu, fann það á endanum – hafði farið stoppustöð of seint út. Rakst á þrumandi trúboða á torginu á leiðinni, frekar fljót að forða mér. Hótelið reyndist ljómandi fínt, snyrtilegt herbergi á 6. hæð. Norðmenn kunna að telja og eiga enga núlltu hæð.


uppbúið hótelrúm og elsku litli tölvuræfillinn minn með skemmda skjáinn.

Ég hef nú reyndar séð fallegra útsýni frá hótelglugga:

en frá ganginum sást þetta:

Ekki verst, hreint ekki verst.

Netið náði upp á vel þrjá fjórðu signal á vélinni, dugði fínt. Náði sambandi við Úlfar Inga, hitt íslenska tónskáldið sem átti verk á tónleikunum, sammæltumst í lobbíinu á mínu hóteli, þangað vorum við svo sótt til að fara á æfingu.

Naglakirkja (þýðir annars ekki søm nagli á norsku eins og dönsku?), bráðfalleg nýleg hringlaga kirkja með mögnuðum glerlistaverkum upp miðja kirkju og yfir þakið.

Søm kirkja

í loftinu

Hljómburðurinn var mjög spes, endurkast út um allt ekki ósvipað Hallgrímskirkju, það var alls ekki sama hvar maður sat. Best var að sitja alveg úti í horni þar sem veggur kom inni í hringnum. Ákvað að sitja þar á tónleikunum daginn eftir.

Hittum Martin stjórnanda og aðalsprautu, hér sjást þeir Úlfar á rökstólum um uppsetningu. Úlfar greinilega að pæla í hæðinni.

Martin og Úlfar

Fyrst var Úlfars verk æft, mér leist ljómandi vel á hljómsveitina, ágætis áhugamannaband ekkert ósvipað okkar eigin Sinfóníuhljómsveit áhugamanna – meira að segja með aðkeyptan pákuleikara eins og við venjulega. Sem var reyndar afskaplega ánægjulegt þar sem pákuparturinn er mjög mikilvægur í verkinu mínu.

Svo mætti kórinn á svæðið fyrir æfingu á Guðbrandsmessunni.

Fyrst skildi ég lítið í því hvað fáir væru mættir í tíma. Svo fékk ég hreinlega áfall – verkið var skrifað fyrir Langholtskórinn þegar hann var stór, um 60 manns. Þarna mættu 12.

tólf.

Þar af tveir tenórar og þrír bassar.

Ekki nóg með það heldur voru þau ekki með sólista heldur söng kórinn sólistapartana.

ÞARNA brá mér. Er nefnilega ekki alveg sama hvernig er farið með þessi sköpunarverk mín.

Reyndar alveg mesta furða hvað þetta lítill kór stóð í hljómsveit í spariMozartstærð. Úlfari fannst hljómsveitin njóta sín talsvert betur en á diskinum þar sem söngurinn er mikið meira í forgrunni. Mér fannst hann hins vegar týnast of mikið fyrir minn smekk.

Áhugamannakór og dittó hljómsveit þannig að þetta var ekki alveg eins pottþétt og hér heima en samt músíkalskt og fínt, fyrsta klarinett pínu óstabílt, hafði tendens til að vera annað hvort slagi á undan eða slagi á eftir, krossum putta fyrir tónleikana. 2-3 staðir pínu shaky hjá kórnum líka.

Keyrð heim á hótelin okkar, gat lagt mig í góða stund og svo vorum við sótt aftur og keyrð heim til stjórnandans sem bauð okkur í mat og spjall ásamt formanni hljómsveitarinnar og frú, ljómandi skemmtilegt og indælt kvöld, ekkert of lengi enda tónleikar daginn eftir. Hótel, náði emmessennsambandi við bóndann og góðu spjalli, fór svo illu heilli að lesa allt of spennandi bók sem ég auðvitað kláraði – sem betur fór enginn doðrantur en samt til tvö. Alltaf held ég að „ég geti jú bara sofið út“. Mun ég einhvern tímann læra?

var að fá

alveg (þó ég segi sjálf frá) yndislegan disk í hendurnar, Gersemar þjóðlagasafnsins.

diskur

Marta Halldórsdóttir og Ólafur Kjartan Sigurðarson syngja 39 þjóðlög við undirleik Arnar Magnússonar, Tómasar Guðna Eggertssonar og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur. Flestar útsetningar eftir undirritaða. Leyfi mér samt að mæla með diskinum, gefinn út af Smekkleysu og fæst í helstu hljómplötubúðum landsins (þar á meðal Gogoyoko og tonlist.is – án þess að ég hafi reyndar gáð að því…)

Norvegur dagur #2

Föstudagurinn var aðallega afslöppun par excellence. Vaknaði reyndar hroðalega snemma, hvað er með þetta að vakna alltaf klukkan hálfsjö-sjö þó ég megi vel sofa út???

Gat svo reyndar sem betur fer sofnað aftur, hálftíu þegar ég rumskaði næst hljómaði talsvert mikið betur.

Maja fór að vinna um morguninn en Hrönn frænka tók sér frí, þannig að eftir sturtu og fótaferð stímdi ég þangað, hundurinn fékk að fara með. Fínheita morgunmatur og spjall þar til Hrönn þurfti að fara.

Hrönn
hér sést Hrönn á leið út, var boðið í helgarferð í spa í Krakow.

Fékk að kíkja aðeins í tölvuna hennar, aðallega smettið og tékka á póstinum. Hundarnir voru náttúrlega að gera mig vitlausa, Hrönn á hvolp sem þurfti voða mikið að leika við hund Maju og Steina, hlaupandi fram og til baka á stofugólfinu, ég endaði á að henda þeim út í garð (já það má þarna).

Svo mætti Maja á svæðið eftir vinnu, skiluðum hundi og fórum í göngutúr niður í bæ. Snjórinn var akkúrat að byrja að bráðna svolítið mikið þó enn væri nú hellingur af honum, ég hugsa að bærinn sé gríðarfallegur bæði vor, sumar og svo að vetrarlagi þegar er nýfallinn snjór – verð að fara aftur þangað síðar. Snjór sem er orðinn skítugur og drasl vetrarins farið að kíkja upp er ekki alfallegasta ástand bæja almennt.

Það var nú samt margt fallegt þarna:

höfnin
séð yfir höfnina í Grimstad.

Kíktum aðeins í Kringlu staðarins, ég þurfti auðvitað að fara í matarbúð, eitt það skemmtilegasta sem ég geri í útlöndum er að fara í matarbúðir og skoða hvað viðkomandi þjóð borðar. Rifjaði auðvitað upp heilmargt sem ég hafði haldið upp á þegar ég var úti á lýðháskóla fyrir fleiri árum en ég kæri mig um að muna. Keypti smá úrval af norsku nammi til að taka með mér heim. Norskt nammi er nefnilega gott, betra en það danska að mínu mati.

Settumst á kaffihús, ég bara VARÐ að fá mér drykk sem hét varm karamel (heitt karmell?) Það var ekki vont, samt eiginlega eins væmið og það hljómaði.

karamelludrykkur
heitur karamelludrykkur

Heim, hittum Fivu, dóttur Hrannar og nöfnu Fífu minnar (og ástæðu fyrir hennar nafni, Fiva er tveimur árum eldri en frænka sín og við urðum ógurlega hrifin af þessu nafni þegar við heyrðum hvað litla frænka hefði verið skírð, ákváðum strax að ef við eignuðumst dóttur yrði hún skírð Fífa).

Steini beið okkar Maju svo heima með hrikalega góðan kjúklingarétt og rauðvínsglös, takk fyrir mig aftur, borðuðum og kíktum aðeins á sjónvarpið, Norske talenter – norska útgáfan af Britain’s got Talent og spjallþáttur og svo bara spjalla frameftir kvöldi og hlusta á tónlist.

Maja
Maja föðursystir.

Það eru nærri tíu ár síðan ég kom síðast til Noregs, Hljómeyki fór á stórt norrænt-balkneskt kóramót sem fulltrúi Íslands, Finnur fór með, alveg þriggja mánaða gamall (hmm, þarf eiginlega að finna myndina sem var tekin af honum, liggjandi í kerrunni sinni með sólgleraugu, hrikalegur töffari).

Allavega var yndislegt að kíkja í heimsókn til frændfólksins, kærar þakkir fyrir mig og ég kem áreiðanlega aftur.

íííkk

ég held að litli sæti usblykillinn minn sé dáinn.

Hann fór nefnilega víst alveg óvart í þvottavélina…

hrikalega er gaman

að vera farin að æfa Rakhmaninov aftur og ekki síður að hafa dótturina með.

Höldum tónleika hér í bænum 17. maí (spurning hvort við eigum að syngja rússneskuna með norskum hreim kannski?), ég veit nú reyndar ekkert hvort ég hef neitt í það að gera að syngja með á þeim tónleikum, verð nýlent frá Ástralíu – ýkjulaust, lendum um fjögurleytið í Keflavík og tónleikarnir eru klukkan átta – en ég tók vatnsglastestið og fann út að ég var ekki ómissandi, fékk fyrir mig fínan sópran úr Mótettunni til öryggis.

Verð hins vegar sannarlega með um hvítasunnuna þegar Hljómeyki syngur verkið á Dalvík.

Noregur dagur #1

Jæja – hrikalega er maður nú orðinn slappur á blogginu. Hefði ekki trúað þessu upp á mig.

Byrja nú samt á smá ferðasögu hér, eins og sumir lesendur vita væntanlega, þá fór ég til Noregs til að hlusta á Guðbrandsmessuna mína flutta í tvígang í nágrenni Kristiansand, í miðju biblíubeltinu alveg syðst í Noregi.

Ég held ég byrji þessar ferðafærslur alltaf eins, vaknað eldsnemma, tók til bakpokann með tölvunni, var nærri búin að gleyma flugfreyjutöskunni en var minnt á, fann nánast ætan banana í skápnum (finnast þeir óætir um leið og þeir verða of dökkgulir, í raun áður en komnir eru svartir blettir), sæti kallinn minn keyrði mig út á völl, þar fastir liðir eins og venjulega, heitt súkkulaði (drekkandi frá Kaffitári ef maður sleppir þeytta rjómanum) og croissant með skinku og osti og kók, langaði reyndar ekkert í kókið þegar til kom, setti ofan í bakpoka.

Fór í bókabúðina á vellinum, keypti danskt blað í vélina, gleymdi hins vegar að kaupa stílabók sem ég hafði ætlað til að krota niður ferðasögu, fann ekki mína. Nennti ómögulega aftur í bókabúðina, ákvað að ég hlyti að fá svona í bókabúð á Gardermoen.

Noise cancelling heyrnartólin mín svínvirka í flugvélum, taka dyninn niður um allan helming. Ég fékk þau reyndar fyrst ekki til að virka með tölvunni og var orðin pínu pirruð en þá voru þau bara dottin úr sambandi heyrnartólamegin.

Flugið fínt, var ekkert svöng eftir súkkulaðið og smjörhornið þannig að ég borðaði ekki nestið mitt. Kom sér ágætlega, á Gardermoen var bara hægt að kaupa samlokur á sem svaraði 2000 kalli íslenskum. Já neitakk! Vonandi yrði ekki allt svona dýrt alla ferðina. Nestið og kókið sem var búið að hristast í töskunni minni frá Íslandi var bara fínt þarna meðan ég beið eftir vélinni til Kristiansand.

Fann engar stílabækur í bókabúðinni á Gardermoen en ég hugsa þið hefðuð séð kvikna á ljósaperunni yfir hausnum á mér þegar ég kveikti á því að ég var jú með tölvu – í tölvu eru oftast nær ritvinnsluforrit. Jahá.

Tvöfalt rugl í innritun, fyrst sá ég ekki mun á 0 og O á miðanum mínum þannig að vélin virkaði ekki, fór svo á næsta Baggage Drop – það reyndist ekki SAS heldur eitthvað norwegian.no flugfélag. Tók svo eftir núll-O ruglinu þannig að innritunarvélin virkaði. Þurfti að skrá töskuna mína inn með fingrafaraskanna í baggage drop, frekar fúlt að láta taka af sér fingraför en svo sem ekki mikið annað að gera.

Komin inn settist ég á kaffihús með innstungum fyrir tölvuna, ætlaði að sjá hvort ég kæmist á netið en það þurfti að kaupa netaðgang (nískupúkar!) Reyndi að kaupa en gekk ekki vel, það náðist ekki almennilegt samband og ég gat svo hætt við þegar voru bara ca 3 kortér sem ég hefði getað notað af klukkutímanum, hann dýr eins og annað á flugvellinum og ekki hægt að geyma tíma þar til ég færi heim, ónotaður tími rynni bara út.

Keypti mér pínulítinn bjór í hrikalega sætu hálfpintu kilkennyglasi. – hmm já ég var með allt of litla tösku til að safna bjórglösum (minnsta fluffutaskan okkar). Gat tengst rafmagni allavega, með því að kaupa þennan oggulitla bjór. Sem var kúl, gat nýtt vélina um borð í Sasfluginu þó ekki væri nema til að hlusta á smá músík og spila minesweeper.

Missti mátulega af strætó til Grimstad, þurfti að bíða í 50 mínútur. Oh well. Held að ég hefði þurft að labba beint út og gefa skít í töskuna mína til að ná þeim fyrri. Allavega hinkr hinkr og meiri minesweeper og svo strætó og skipti yfir í annan strætó og Grimstad, sendi Maju föðursystur sms um að ég væri komin (var kortéri fyrr en var búið að segja mér) – svo stóð hún bara 10 metra frá mér. Gaman.

Þangað heim. “Kvöld”matartími í Noregi löngu búinn. (yfirleitt upp ur fjögur á daginn). Fékk 2 brauðsneiðar (nánast bara búin að borða brauð allan daginn en leist ekki alveg á bara kökur – var semsagt boðið í barnaafmæli hjá litla gutta hennar Hrannar frænku – auðvitað boðinn þessi fíni kjúklingaréttur, þáði smá á undan kökunum. Verulega gaman að hitta fólkið mitt.

Skaust á kóræfingu hjá kórnum hennar Maju, fínn hljómur í kórnum, fallegt og tandurhreint, mættu vera heldur fleiri karlar (eilífðarvandamál – get ekki fullþakkað fyrir karlavalið í Hljómeyki núna) frábær stjórnandi en frekar skrítið rep sem þau voru að æfa – enda fannst Maju að þau hefðu nú kannski átt að vera að æfa eitthvað annað akkúrat þá. Eitt mjög flott lag æfðu þau samt, þar sem textinn er efnafræðiuppskrift að aðalinnihaldinu í sápu.

Heim aftur og aftur til Hrannar, boðið upp á rauðvínsglas og spjall fram eftir kvöldi, bóndi hennar gafst upp á allri íslenskunni en hún hafði gott af henni. Plottað ættarmót næsta sumar (2011)
Kveikt á tölvunni til að fylla á stílabókina, rændi neti af einhverju húsi í nágrenninu, náði sambandi við irc en ekki http. Þreyttur. Soovah!

poncho

myndasöguna les ég daglega þrátt fyrir óþolandi hundspottið – hér ná kettirnir honum heldur betur:

smá forsmekk

af tónleikunum annað kvöld má heyra hér:

In Paradisum eftir Duruflé. Lokakaflinn úr Requiem og lokakaflinn á tónleikunum okkar. Bannað að klappa eftir þetta, ég er ekki antiklappmanneskja en þarna á það bara ekki við.

Sérstaklega vegna þeirra sem við tileinkum tónleika okkar að þessu sinni.

já eða nei eða kannski eða ekkert eða heima

Ekkert held ég. Autt. En niðureftir fer ég.

Get ekki fengið af mér að kjósa nei. Þó ég vilji náttúrlega ekkert þennan samning eins og komið er. Að senda stuðningsyfirlýsingu til helv… stjórnarandstöðunnar. Uuu, nei.

Þar með kýs ég samt heldur ekki já. Því ég vil ekkert þennan samning.

Maður Á að nota kosningaréttinn – þess vegna ætla ég ekki að sitja heima, skilaboð frá Jóhönnu um að hún ætli að sitja heima tel ég afskaplega misráðin. Þó að það sé alveg rétt að þessi kosning er orðinn alger farsi.

Súri pakkinn. Fer og kýs í fyrramálið fyrir kóræfingu og reyni svo að ná vonda bragðinu og kekkinum úr hálsinum með unaðslegum Duruflé.

í allar áttir

það virðist vera allt að gerast hjá mér þessa dagana, útbreiðsla í allar áttir. Núna fyrir stundu var útvarpsútsending + bein netútsending á Guðbrandsmessunni minni – frá útvarpsstöð í Princetonháskóla. Í afkynningu hljómaði: „Without doubt one of the major choral works of our time“ ásamt stuttri kynningu á undirritaðri og verkinu. Þessi útvarpsmaður hefur verið með þátt sem kynnir lítt þekkta tónlist í klassíska geiranum síðan 1993.

Maður er bara frekar rígmontinn hér :þ

Þetta sama verk er ég svo að fara til Noregs og hlusta á, á tvennum tónleikum eftir hálfan mánuð.

Svo auðvitað Ástralía, það verður ágætis kynning líka, lagið mitt verður á tónleikum þar sem aðeins verða flutt 3 verk, eins og ég hef áður nefnt.

Montfærslu lokið…

plöggidí

á sunnudaginn kemur, þann 7. mars klukkan 20:00 flytur Hljómeyki hina yndislegu sálumessu franska tónskáldsins Duruflé ásamt fleiri verkum.

Tónleikarnir verða í Kristskirkju í Landakoti, unaðslegur hljómburður og rammi um verkin.

Um að gera að bregða sér á tónleika, um klukkutími að lengd, ekki verður hlé. Ágætt að taka með sér sessu, Kristskirkja er ekki með þægilegustu bekki í veröldinni.

Stjórnandi á tónleikunum er Magnús Ragnarsson, á orgel kirkjunnar leikur Steingrímur Þórhallsson og Marta Halldórsdóttir og Ágúst Ólafsson syngja einsöng.

Aðgangseyrir 1500 krónur í forsölu í 12 tónum og hjá kórfélögum (má hafa samband í kommentakerfinu – ég þarf að selja nokkra miða) en 2000 krónur við innganginn.


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

mars 2010
S M F V F F S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
28293031  

sagan endalausa