Archive for the 'vesen' Category

bíllinn og fleira

já bíllinn komst til baka, ekki eins vondur í snjó og við óttuðumst miðað við hvað er lágt undir hann (gamla Mazdan talsvert háfættari eða á maður frekar að segja háhjólaðri?)

Dóttirin sem var veðurteppt í Kópavogi allan gærdaginn semsagt dreif sig út í morgun ásamt kærasta, mokuðu frá okkar bíl og hans fjölskyldubíl, klukkutíma hamagangur, okkar keyrði síðan í burtu en Renaultinn þeirra situr enn pikkfastur að ég viti. Mazda ftw!

Náðum í útréttingar fyrir veislu morgundagsins, reyndar með smá viðkomu í jarðarför hjá mér. Pínu sérkennilegt, sit hér heima og er reyndar búin að finna mig til en það er svona 10 mínútur í að ég þurfi að fara af stað. Nema það er hringt í mig, umsjónarkona í kórnum mínum. „Drífðu þig inn í kirkju núna! aðstandendur vilja byrja snemma, það eru víst allir komnir sem búist er við í athöfnina“. Ég auðvitað rýk af stað, vill til að það er ekki langt á staðinn. Nótum dreift, enginn tími til að æfa (sem betur fer engin flókin músík), byrjum kortéri fyrr en förin var auglýst.

Svo auðvitað tínist að fólk eftirá, steinhissa á því að athöfnin sé byrjuð. Ein kona horfir upp til okkar og bendir sárhneyksluð á úrið sitt, heldur greinilega að kórinn og organistinn stjórni því hvenær athöfnin byrjar. Spes.

Nújæja, búin snemma, Jón Lárus nær í mig og klárum útréttingar. Gátum síðan þvingað bílinn inn í stæði fyrir utan hjá okkur, Jón mokaði svo frá þannig að við getum jafnvel mögulega komist út aftur…

nýr bíll í hús

jamm, samningar tókust við tryggingafélagið og við erum komin með nýjan gamlan bíl í hús. Bóndinn mun skrifa myndabloggfærslu með þeim gamla krumpaða og nýja slétta, vísa á það þegar til kemur. Hefði viljað fá sama litinn aftur en burtséð frá steingrámanum er bíllinn bara ljómandi, meira að segja nokkur smáatriði betri en í þeim gamla (t.o.m. rassahitarinn bílstjóramegin virkar, bilaður í hinum, mikil gleði, maður verður bara að passa sig á að brenna ekki fötin sín eins og gaurinn um daginn:

Svo ég haldi nú áfram með neytendamálin fengum við fína aðstoð hjá Verði, tjónafulltrúinn fann fyrir okkur tvo bíla, mælti með öðrum, okkur langaði reyndar meira í hinn (hann var sko kóngablár eins og sá gamli). Sá eigandi var síðan hættur við að selja bílinn (muuu) en hinn komst svo í okkar eigu, prúttuðum smá, aðallega um að fá að taka nýju vetrardekkin undan þeim gamla og láta hin talsvert meira slitnu sem fylgdu þeim nýrri í staðinn.

Fékkst í gegn, ekkert mál, upp á að við sæjum sjálf um að skipta um dekkin. Hjóluðum í þetta síðdegis á föstudaginn, Jón Lárus var reyndar sárlasinn, að farast úr einhverri magapest og hafði ekki farið í vinnuna en lét sig hafa það að fara í þetta stúss, hefði verið alveg vonlaust að geyma þetta fram yfir helgi. Bíllinn var skráður á hann, annars hefði ég auðvitað bara getað séð um þetta sjálf, en það er víst lítið hægt að skrifa undir fyrir aðra í svona tilfelli. Þrátt fyrir að Skoda Oktavia fjórhjóladrifsbíllinn sem við fengum í stað Volkswagen Pólósins væri ljómandi fínn þurftum við bara að koma þessum málum frá.

Allavega upp í Bernharð notaða bíla, eitt stykki bíll skipti um eigendur nokk átakalaust.

Tjónafulltrúinn hafði látið liðið í Króki vita af því að við værum á leiðinni þangað til að sækja hitt og þetta dót sem var í þeim gamla. Við þangað, römbuðum á fyrirtækið af slembilukku, inn og báðum um smá hjálp við að skipta um dekkin. Ég er alveg slatti lengi að skipta þó ég kunni það alveg og leist ekki alveg á að skipta um átta dekk, Jón var ekki til stórræðanna út af pestinni. Fólkið í Króki tók slíkt hins vegar ekki í mál, tveir almennilegir menn svippuðu bílunum báðum upp á lyftara (þeim gamla) og búkka (nýrri), drógu fram græjur og skiptu um allt saman, tók kannski kortér í allt. Hefði séð fram á sirka einn og hálfan tíma ef við hefðum þurft að vasast í þessu sjálf. Vildu síðan ekki taka krónu fyrir ómakið og óskuðu okkur bara gleðilegra jóla. Frábær þjónusta atarna.

urr

mýslan mín er að gera mig vitlausa – hún er búin að eiga það til síðustu daga að tvíklikka en núna gerist það nánast alltaf. Var í dag að setja texta við verkið sem ég er að semja og allavega einu sinni tókst henni að fimmklikka (myndi það heita quintuple click upp á ensku?)

Það versta er að hún er innan við ársgömul. Jón Lárus er búinn að grafa upp kvittunina, hún kostaði „bara“ þrjúþúsundogfimmhundruð en á maður samt að fara og röfla? Er ekki tveggja ára ábyrgð á svona eins og öðru tæknidóti eða er það bara ef varan er yfir einhverri ákveðinni upphæð? (þá væntanlega hærri en þrjú og fimm). Veit einhver?

Akkúrat núna var ég að reyna að merkja við category fyrir færsluna, setti inn tvær (vesen og græjur) og í bæði skiptin þurfti ég að smella 5-6 sinnum til að hakið festist.

Eins og ég sagði fyrst, urrr. (já það má sosum verða reiðari yfir ýmsu öðru en það er samt hægt að vera pirraður yfir smáhlutum…)

vá hvað

ég er gríðarlega ánægð með sjálfa mig núna – ákvað að gera úrslitatilraun til að setja inn íslenska stafi í Finale, neyddist til þess nefnilega fyrir nokkru síðan þegar vélin mín hrundi, að uppfæra stýrikerfið í snjóhlébarðann (Snow Leopard, nýjasta Makkastýrikerfið). Hingað til hefur engum tekist að ná íslensku stöfunum inn, en eftir smá fikt, reyndar minna en ég hélt, gekk þetta bara í gegn. Ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum þegar stafirnir birtust í textaboxinu (maður skrifar textann yfirleitt fyrst inn í box og límir síðan undir nóturnar frekar en að skrifa beint í nóturnar. Hljómar asnalega en er samt talsverður kostur, hægt er að taka texta úr öðrum skjölum og líma inn í textaboxið og eiga aðeins við hann þar, frekar en að slá allt beint inn. Það er reyndar líka hægt að skrifa beint undir nóturnar ef vill). Allavega komu stafirnir í textaboxið, ég hélt niðri í mér andanum meðan ég límdi hann síðan við nóturnar, en þeir héldust inni. Alla leið yfir í prentun og .pdf skjal.

Jei!

kvusslax!

allt að bila hjá mér, fyrst hrynur vökvastýrið í bílnum, ég þori ekki að keyra hann nokkurn skapaðan hlut nema upp á verkstæði á mánudagsmorguninn, hitt og þetta sem getur hafa komið upp, svo allt í einu í dag (tja, gær) tekur elsku tölvan mín upp á því að henda út öllum forritum hverju nafni sem þau nefnast. Finder virkar reyndar sem betur fer þannig að ég (held allavega) að mér hafi tekist að bjarga öllum gögnum, var reyndar með megnið af þeim afritað en geri slíkt ekki alveg daglega.

Elsku besta systir mín lánar bílinn sinn (takk Hallveig mín), mágurinn skutlaðist eftir mér til að redda (takk líka Jón), ircfélagar hjálpa með tölvuna – vonandi virkar það.

Á meðan hertek ég tölvuna hennar Fífu, vill til að hún er í kórferðalagi um helgina og tók vélina ekki með.

Krossið putta fyrir okkur að þetta verði minna en hellings vesen…

meira púsl

Finnur (eða réttara sagt við foreldrarnir) verðum pínu óvinsæl í dag, hann fær nú í fyrsta skipti að spila með í White Christmashópnum í Suzuki (já, þarna vídjóið sem ég set inn á hverju ári – ég tími ekki einu sinni að taka nýtt því ég er komin með svo mörg innlit á þetta…) og það verða bara tvær æfingar á því. Í kvöld og á sunnudaginn. Í kvöld þarf hann semsagt að skjótast af kóræfingu. Það er ekki vinsælt, tónleikar strákanna á sunnudaginn kemur. Verður samt eiginlega að vera þannig. Pabbi hans sækir hann klukkan rétt fyrir sex, skýtur honum og Freyju á æfinguna, aftur til baka í kirkjuna á kóræfinguna, ætti að ná í skottið á henni, pabbinn nær í Freyju aftur, hún er að spila með í Kanon eftir Pachelbel, æft beint á eftir White Christmas, þá beint í Hafnarfjörð að ná í mig. Eða heim fyrst, fer eftir hvort æfing dregst eitthvað, í Suz eða ekki.

Sunnudagurinn verður svo svipaður, ég reyndar með sýningu klukkan tvö, allt í lagi með það, tónleikar hjá Finni klukkan fimm til svona hálfsjö, æfing í Grensáskirkju (Suz) tíu mínútur fyrir sjö (White Christmas), sjö til kortér yfir (Pachelbel) og svo eru stelpurnar báðar að fara að syngja á aðventukvöldi í Langholtskirkju klukkan átta, eiga eiginlega að mæta sjö en Freyja verður að fá að koma aðeins seint. Suztónleikarnir eru síðan á mánudagskvöld og ég kemst ekki 😥 ekki vinsælt að sleppa tveimur Hljómeykisæfingum og ég valdi Beethoven. Jón Lárus verður bara að vera með vídjóvélina á staðnum.

Voða sniðugt að vera með jólatónleikana snemma en ekki alveg eins þegar allir ætla að hugsa þannig.

Langar annars ekki einhvern að hlusta á litlu englana syngja í Hallgrímskirkju á sunnudaginn klukkan fimm? Eigum enn 3 miðum óráðstafað – og þurfum að borga þá ef við getum ekki selt. Fimmtán hundruð kall miðinn hjá okkur, tvöþúsund við innganginn. Plííís!?

mætti halda

að ég sé rauðhærð, allavega er búinn að vera þvílíkt – tja ekki sparka-í-Hildigunni dagur en allavega vera-fyrir-og-svína-á-Hildigunni dagur. Allt frá því á leiðinni vestur í Neskirkju í morgun, heim aftur, inn í Hafnarfjörð, meira að segja í Fjarðarkaupum tókst fólki alveg þvílíkt að þvælast fyrir mér á leiðinni inn í búð. Og ég sem er búin að þurfa að keyra svo MIKIÐ í dag.

En það fer að verða búið. Eitt skutl í viðbót, ná í Finn í hljómsveit en svo bara elda og kannski rauðvínsglas í kvöld. Er að pæla í þessari uppskrift, hljómar vel…

segið svo að

Facebook sé ekki snilld! Kvartaði yfir því áðan að það fékkst ekkert íbúfen eða önnur bólgueyðandi lyf í Lyfju þegar stelpurnar skutust fyrir mig þangað áðan. Eftir svona 3-4 mínútur var búið að redda málum, hefði getað sótt íbúfen á 4 staði – styst hér yfir í næsta hús.

Og mikið hrikalega er nú þægilegt að hafa unglinginn með bílpróf – ég lánaði henni bara bílinn í dag og hún fór fyrir mig í 2 sendiferðir í staðinn. Best. Þær báðar reyndar, fóru saman í Lyfjusendiferðina. Sem var reyndar vesen, Freyju fannst ég segja Lyfjaver í símann (reyni alltaf að versla þar ef ég get), þangað komnar var auðvitað lokað enda klukkan að verða hálfátta í kvöld, hringt í mömmu. Nei, Lyfja var það. Þangað komnar: Hringja aftur í mömmu. Sagðirðu stóran pakka eða sterkan pakka? Sterkan sagði ég. Komnar að kassanum: Ekki til íbúfen. Ég: Bara eitthvað bólgueyðandi. Komnar út: hringt einu sinni enn. Ekkert bólgueyðandi til. Ég: Ókei, komið þið heim að borða…

sérkennilegt

vandamál blasir við mér í dag.

Fyrst hljómsveitaræfing, frá 9:45 – 13:00. Ekkert sérkennilegt við það. Smá pása, þá Söngvaseiðssýning, mæting 14:00, sýning 15:00-17:45 (sirka). Þá er byrjað fyrirpartí fyrir árshátíð Samskipa, sem er haldin í kvöld. Sleppi nokkuð augljóslega megninu af því partíi, sæki Jón Lárus þangað og keyri í Gullhamra.

Vandamálið: Um miðja sýningu fæ ég ballgreiðslu, hárskraut og fínheit. Eftir svona 10 mínútur af sýningarballi er hárskrautið rifið úr og ég treð nunnuhabit yfir hárið.

Hvurn árann geri ég? reyni að fluffa hárið upp aftur eftir sýningu og fá skrautið lánað? (Hallveig, skila því fyrir þína sýningu á morgun :Þ). Þvo á mér hausinn eftir sýningu, henda framan í mig einhverju sparsli aftur og fara með hárið bara einhvern veginn á árshátíð?

Hversdagsvandamálin, maður minn…

krossuðu puttarnir

virkuðu, takk, allir :þ – nú erum við komin með ofninn okkar í lag. Loksins! Þetta var svo flókið dæmi að rafvirkinn þorði ekki annað en að fá vélina til sín á verkstæðið til að geta prófað sig áfram hvort allt virkaði án þess að setja græjurnar okkar hér heima í hættu með því kannski að slá allt út, jafnvel oft.

Nú verða hins vegar bara ofnréttir hér á bæ næsta mánuðinn. Maður verður að vinna upp allt þetta tapaða…

safari 4

er að trufla mig í að hlaða inn vídjóum úr ferðinni, ég held að Youtube sé ekki búið að samkeyra sig við nýju útgáfuna. Annars líst mér ansi hreint vel á hana.

Ekki smá lengi að skrifa dag 6 annars, burtséð frá vídjóunum, viðburðaríkur dagur það.

Meira, tja ætli það náist fyrr en í fyrramálið? Tekur alltaf hellings tíma að vinna þúrörsmyndböndin þeirra megin.

ekki gekk

þetta í þetta skiptið.

Reynum aftur á mánudaginn (og þá væntanlega fram á þriðjudag, meira vesen en við héldum). Fleiri krossaða putta takk…

búin að vera að

pirrast ógurlega yfir því að geta ekki hlaðið myndavélarrafhlöðuna þar sem ég er ekki með tengilinn frá bresku snúrunni úr hleðslutækinu yfir í venjulegar innstungur með mér. Þar til Jón Lárus fattaði áðan að það má skipta út snúrunni úr tækinu með snúrunni úr vídeóhleðslugræjunni. Þanebblaþa!

er að verða

pínulítið þreytt á þessu ofnleysi. Tja reyndar eiginlega svolítið mikið pirruð.

Heyrðum loksins frá rafvirkjanum og þessi teikning sem við fengum í hendurnar bara hreinlega dugir ekki til. Svo sem eins og við þóttumst vera búin að finna út.

Hann sendi eiganda Kokku póst og ég vona að hún sé að reyna að finna út úr þessu fyrir okkur. Höfum samt ekki heyrt neitt frá henni – gæti verið að hún hafi reyndar ekki gert reply to all.

Hlýtur að vera hægt að finna út úr þessu. Ekki reikna ég með að neinn sé að henda 60 cm gaseldavél með rafmagnsofni, frá Ilve til að við getum hirt úr henni stykki…

lyklaborðið mitt

gafst upp í morgun. Reyndar orðið frekar gamalt, ég fékk að mig minnir ekki nýtt lyklaborð með þessari vél, sem er nú orðin að verða tveggja og hálfs árs. Lengi búið að vanta á það vinstri hástafatakkann, spurning hvort ég geti vanið mig á að nota hann aftur, var alltaf farin að nota þann hægri, líka þegar ég hef verið á vélum þar sem allt í lagi er með báða takka. Svo var borðið líka stundum farið að pota inn auka bilum, þar til í morgun að biltakkinn virkaði bara alls ekki. Alveg í svona 5 mínútur. Var búin að bölva þessu og búin að klippa út bil til að líma (það er talsvert pirrandi) en eftir smástund bara gafst blessað borðið alveg upp.

Hjólaði út í apple og fjárfesti í nýju lyklaborði, flatt og voða fínt. Hitt er í uppþvottavélinni í augnablikinu (nei, ekkert uppþvottaefni, já ég hef bjargað borðum amk. tímabundið með þessu, bara passa að þorni vel). Nei er ekki enn farin að nota vinstri hástafatakkann.

Nú langar mig út – en ekki alveg strax, morgunninn fór fyrir lítið í samningu.

nújæja

búið að hafa samband við Kaupþing og málinu verður kippt í lag – búið að endurgreiða færslugjöldin og verið að pússa reikningana þannig að þetta komi ekki fyrir aftur. Virðist eins og netbankafærslurnar hafi skráðst eins og hringing í þjónustufulltrúa í bankanum með beiðni um millifærslu – það er alveg eðlilegt að slíkt kosti einhverjar krónur.

Markaðsreikningurinn er ekki lokaður heldur, og debetkortið með óbreyttum kjörum. Standi þetta allt saman, getur vel verið að við höldum áfram að vera hjá Kaupþingi.

símavesen

þurfti bráðnauðsynlega að ná í mann í dag (hafta see a man about a horse). Reyndi að hringja upp úr hádeginu, talaði inn á talhólf og bað hann hringja. Nú, svo lenti ég í tveimur símtölum öðrum, frekar löngum. Fer svo að kenna, sendi skilaboð á smettinu. Hann hringir síðan á meðan ég er með símann þöglan að kenna, ég sendi sms: Er að kenna, hringi á eftir. Búin að kenna. Hringi. Talhólf. Garg. Sendi póst um að ég sé á leið á æfingu, en muni hafa símann opinn. Hann hringir þegar ég er rétt nýsest inn á æfingu. Tek símann. Blíppblíppblípp, batteríið búið.

Náði nú samt að kveikja aftur á símadruslunni til að veiða símanúmerið og fékk að hringja í kirkjunni. Málum reddað…

er að lesa

bók sem ég pikkaði upp af rælni á bókasafninu, Living with Teenagers. Höfundur gefur ekki upp nafn sitt – skiljanlega ef krakkarnir eru enn táningar, the ultimate face ef vinirnir læsu – en úff, ég þekki ekki (ennþá, vonandi) svona slæma unglingaveiki. Ekki héðan, ekki frá okkur systkinunum, ekki frá krökkunum sem ég kenni, hvergi.

Kannski ekki að ástæðulausu að bresk ungmenni eru lítt þoluð á sólarströndum og víðar…

skattskattskatt

komið að því að henda skattadótinu í endurskoðandann. Mikil ósköp hvað safnast af launadóti og miðum, skelfilega þægilegt að þurfa ekki að finna út úr þessu lengur.

heppni

já, mín megin, verulega heppin að hafa ekki beðið með að hjóla í tryggingarnar og kaupa tölvuna, Nanna óheppnari. Efast um að næsta sending verði jafn ódýr.

Ætli þjónustuleysið hafi eitthvað með þetta að gera…?


bland í poka

teljari

  • 375.556 heimsóknir

dagatal

janúar 2023
S M F V F F S
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
293031  

sagan endalausa