já bíllinn komst til baka, ekki eins vondur í snjó og við óttuðumst miðað við hvað er lágt undir hann (gamla Mazdan talsvert háfættari eða á maður frekar að segja háhjólaðri?)
Dóttirin sem var veðurteppt í Kópavogi allan gærdaginn semsagt dreif sig út í morgun ásamt kærasta, mokuðu frá okkar bíl og hans fjölskyldubíl, klukkutíma hamagangur, okkar keyrði síðan í burtu en Renaultinn þeirra situr enn pikkfastur að ég viti. Mazda ftw!
Náðum í útréttingar fyrir veislu morgundagsins, reyndar með smá viðkomu í jarðarför hjá mér. Pínu sérkennilegt, sit hér heima og er reyndar búin að finna mig til en það er svona 10 mínútur í að ég þurfi að fara af stað. Nema það er hringt í mig, umsjónarkona í kórnum mínum. „Drífðu þig inn í kirkju núna! aðstandendur vilja byrja snemma, það eru víst allir komnir sem búist er við í athöfnina“. Ég auðvitað rýk af stað, vill til að það er ekki langt á staðinn. Nótum dreift, enginn tími til að æfa (sem betur fer engin flókin músík), byrjum kortéri fyrr en förin var auglýst.
Svo auðvitað tínist að fólk eftirá, steinhissa á því að athöfnin sé byrjuð. Ein kona horfir upp til okkar og bendir sárhneyksluð á úrið sitt, heldur greinilega að kórinn og organistinn stjórni því hvenær athöfnin byrjar. Spes.
Nújæja, búin snemma, Jón Lárus nær í mig og klárum útréttingar. Gátum síðan þvingað bílinn inn í stæði fyrir utan hjá okkur, Jón mokaði svo frá þannig að við getum jafnvel mögulega komist út aftur…
Nýlegar athugasemdir