Archive for the 'úff' Category

Versla við Bílaleigu Akureyrar – Europcar

Einu sinni skrifaði ég póst þar sem ég andskotaðist yfir ömurlegri þjónustu hjá Hljómsýn og Litsýn sjá hér. (heh nei mér finnst ekkert að því að auglýsa það upp á nýtt). Þetta er sú færsla hjá mér sem dúkkar alltaf upp með innlit í hverri einustu viku og er komin með yfir 8000 flettingar. Mikið langt frá því að vera góð auglýsing fyrir viðkomandi fyrirtæki og ég vil allavega trúa því að þeir hefðu grætt á því að allavega borga fyrir viðgerðina á bannsettum heyrnartólunum – sem NB eru síðan búin að brotna hinum megin og sambandið er heldur ekki gott í þeim.

Allavega í dag fékk ég alveg öfuga þjónustu.

Forsagan er ekki sérlega skemmtileg reyndar. Við systurnar vorum að baka sörur hér heima, ekki í frásögur færandi per se, eldri unglingur var að fara í síðasta prófið sitt í menntaskóla, ég þurfti að skjótast með yngri ungling úr skólanum til að spila í ráðhúsinu, allavega púslast hlutirnir þannig að sú eldri tekur bíl systurinnar í prófið. Systur minnar bíl, sko ekki sinnar!

Mín systir tekur síðan minn bíl til að sækja sína dóttur (var einhver að tala um flækjustig?) Nema hvað, hún hringir í mig 5 mínútum seinna, ég á kafi í síðustu sörubotnum í ofn og þá er bara búið að klessukeyra aftan á bílinn minn á ljósum, jeppakall að spila angry birds á símann sinn (tja eða tékka á sms eða álíka) og tók ekki eftir því að það væri komið rautt ljós og stopp bílaröð fyrir framan sig. Beint aftan á, af fullum krafti. (allir krossa putta og tær og handleggi og fætur og snúa tungunni við að Hallveig hafi ekki fengið slæman hnykk. Takk!)

Hringt í 112, þessir gaurar mæta á svæðið, áreksturinn er skólabókardæmi um aftanákeyrslu og Hallveig í 100% rétti ef maðurinn hefur nokkurn tímann séð slíkt tilfelli. Mér skipað að fara á bílaleigu og taka bíl, reyndar fyrsti dagurinn á mína ábyrgð þar sem lögregluskýrsla berst ekki fyrr en daginn eftir og þá fer skoðun fram. Ég næ síðan í Hallveigu á slysó (henni skipað að koma aftur daginn eftir þar sem meiðsli koma oft ekki strax fram í svona málum), hún skutlar mér síðan á næstu bílaleigu.

Sem er semsagt Bílaleiga Akureyrar – Europcar í Skeifunni.

Ég inn, jújú, þeir skipta við Vörð, ég tryggi þar og af þægilegri tilviljun var jeppakallinn (sem var NB í sjokki og hinn almennilegasti) líka tryggður þar.

Erum að ganga frá bílaleigu og ég (sem hef alltaf heyrt og reyndar nýtt mér áður) að fólk eigi að fá sambærilegan bíl í svona tilfellum. Það hefur hins vegar greinilega breyst, kannski um hrun, tryggingafyrirtæki borga núna bara minnsta bíl. Ég tek fram í sakleysi mínu að ég þurfi að koma sellókassa í skottið. Þau: Uuuuuuu? hmmm? tjaaa! neeeei! Ætluðu að láta mig hafa eitthvað smábílkríli (Volkswagen Polo ef ég man rétt). Mér líst lítið á það þannig að þau benda mér á að tala við tryggingafélagið og benda reyndar á ákveðinn aðila þar sem sé liðlegur. Ég fæ hins vegar ekki samband við hann, er víst með kúnna hjá sér og lendi á talsvert óalmennilegri manni sem vill lítið fyrir mig gera og biður mig bara vinsamlegast taka tillit til að svona aukaútgjöld komi sko niður á iðgjöldum allra (við erum að tala hér um rétt rúmlega 2000 krónur á dag í 5 daga NB). Fæ ekkert meira út úr honum, að hluta til skiljanlegt því hann var auðvitað ekkert búinn að fá um málið. Hef líka oft fengið mjög fína þjónustu hjá Verði þannig að ég ætla ekki að fara að tala þau niður – í bili…

Allavega, gefst upp á símtalinu en þarna er eigandi eða vaktstjóri hjá Bílaleigu Akureyrar hins vegar kominn fram í afgreiðslu og heyrir símtalið mitt. Spyr hvort tryggingarnar hafi viljað gera eitthvað fyrir mig og ég gef nú lítið fyrir það. Hann skipar þá stelpunni sem var að afgreiða mig að skella á mig fimm flokkum dýrari bíl en rukka bara fyrir þann ódýrasta. Bílaleigan taki muninn bara á sig.

Einhvern veginn held ég að bílaleiguna muni meira um þennan sirka 11 þúsund kall en Vörð.

Hins vegar græddi hún ánægðan kúnna – og vonandi líka 8000 innlit og jákvæðni. Svona á þetta að vera, takk fyrir mig.

Hóst. Hóst.

gat nú verið! 5 dögum áður en við eigum að syngja Messías með Sinfóníunni og daginn fyrir fyrstu æfingu með enska stjórnandanum byrjar mín að hósta. Skrítin í röddinni og illt í hálsinum á mánudeginum, ákveð að syngja ekkert á kvöldæfingunni heldur sitja úti í sal og hlusta. Tókst næææstum því, tók undir í eina kaflanum sem ég er ekki alveg með á tæru (eða þeas var ekki á mánudaginn – lærður núna).

Vakna svo auðvitað í morgun alveg þegjandi hás. Muuu.

Fór á hljómsveitaræfinguna, sat reyndar inni í kór en það var ekki spurning um að syngja eða ekki. Steinþagði.

Heim og kveinkaði mér á smettinu. Fékk auðvitað fullt af ráðleggingum.

Þannig að nú sit ég með trefil og hitapoka, sötrandi hálsbólgudrykk frá kaffisigrúnu, royal jelly töflur (í stað própólis, var ekki til í heilsubúðinni og heilsuhúsið lokað í dag vegna vörutalningar!), bé vítamín, dé vítamín (þetta tvennt reyndar sérstakar söngvararáðleggingar frá sérfræðingnum í heilsubúðinni sem gaf mér dé vítamínskot upp á 500 einingar, hvað sem það nú er) sniffandi tetréolíu og búin að spreyja mig með avamys nefspreyinu drengsins (það reyndar í stað þess að skola nefið með saltvatni).

Svo er bara að krossa putta. Þið megið gjarnan gera það með mér, takk. Held mig heima á morgun, ekki bara út af tónleikunum, væri ekki beinlínis sniðugt að fara að kenna með röddina í þessu ástandi. Þarf yfirleitt bara að kynna mig þegar ég hringi í skólana og tala með minni fínu rámu bassarödd, til að þau grípi þetta…

Afmælistónleikarnir

Nýkomin heim frá Egilsstöðum, Þorbjörn bróðir varð fertugur í sumar og lengi var búið að plana að halda afmælistónleika undir merkjum Sumartóna í Egilsstaðakirkju. Fyrst var held ég meiningin að það væru bara Þorbjörn sjálfur og svo Hallveig systir sem héldu tónleika en síðan kom upp sá möguleiki að við systkinin, sem erum jú öll söngmenntuð og störfum (mismikið þó) við söng, gæfum bróður vorum söng í afmælisgjöf. Tónleikaröðin myndi greiða píanista sem spilaði með okkur.

Til stóð að tónleikarnir yrðu 30. júní, daginn eftir afmælið sjálft. Búið var að bóka þennan líka æðislega píanóleikara og við nokkurn veginn búin að velja lög, aríur, dúetta og fleira. Þá kom fyrsta babbið í bátinn, lýst hér.

Batinn tók talsverðan tíma, (sem betur fer er hann fullur núna, hamingjunni sé lof) þannig að ekkert vit var í að halda tónleikum og veislu til streitu. Töluðum okkur saman og fundum út að eini möguleikinn væri um miðjan ágúst. Sextándi varð fyrir valinu, vegna ýmissa ástæðna, þeirrar kannski helstrar að Torvald sem sér um sumartónaröðina var að fara til útlanda daginn eftir en líka vegna þess að Hallveig verður með tónleika á menningarnótt og vildi ekki vera of nálægt henni. Þá hófst leit að nýjum meðleikara því okkar kona var auðvitað búin að lofa sér á þeim tíma. Töluðum við alla sem okkur mögulega kom í hug að gætu tekið svonalagað að sér með stuttum fyrirvara. Leitin gekk takmarkað vel þar til Þorbjörn auglýsti á flettismettinu. Þá kom strax ein sem var spennt fyrir þessu. Við tókum vel í það, héldum fund með henni og afhentum nótur.

Viku síðar kom síðan í ljós að þarna hafði hún reist sér hurðarás um öxl. Nánast ekki spilað neitt af þessu áður og sumt var vægast sagt snúið þó það kannski liti einfalt út. Fyrir píanóleikara sem er ekki í fullri þjálfun – já þetta var semsagt einum of. Hún bauðst reyndar til, ef við ekki fyndum neinn annan, að hætta við sumarfrísferðina sína og æfa sig dag og nótt fram að tónleikum. Við vildum nú samt reyna frekar að finna aðra lausn.

Allt í uppnámi aftur. Þar til Kristín mágkona, kona Óla bróður stakk upp á að hann hringdi í vin sinn og meðleikara, hljómsveitarstjórann og píanistann Peter Ford, sem hann hafði margoft unnið með, við sæktum semsagt píanóleikara alla leið til Bretlands. Peter brást glaður við og var til í að spila fyrir farmiða og uppihaldi (takktakktakk!).

Síðan kom nú það alvarlegasta upp á. Besti vinur hennar Hallveigar (og auðvitað vinur okkar allra) lést við köfun á Eyrarsundi. Minningarathöfn um hann var haldin, jú 16. ágúst. Klukkan 15:00 og tónleikarnir voru settir klukkan 20:00. Ekki kom annað til greina en Hallveig væri við athöfnina (reyndar þótti okkur öllum hræðilega sárt að geta ekki verið þar líka). Þetta átti nú samt að geta gengið upp, Hallveig flaug í bæinn að morgni þess sextánda og átti flug til baka klukkan 18:00.

Nema hvað upp úr hádeginu fær hún sms frá Flugfélagi Íslands um seinkun á fluginu til klukkan 20:30! Það var víst fótboltalið að spila leik á Eskifirði og þeir þurftu að ná fluginu í bæinn. Og auðvitað kom engan veginn til greina að áhöfn og vél biðu á Egilsstaðavelli frekar en Reykjavík. Fótbolti náttúrlega gengur fyrir öllu…

Tónleikunum frestað til klukkan 21:15 og prógrammið stokkað upp þannig að Hallveig yrði ekkert fyrr en eftir hlé. Auglýstum seinkunina á netinu og í útvarpinu og hringdum og sendum sms til allra sem okkur datt í hug að myndu mögulega ætla að koma á tónleikana. Um 30 manns mættu samt á svæðið klukkan átta.

Hringdum í flugfélagið upp úr klukkan hálfníu og vélin hafði farið í loftið 8 mínútum eftir áætlaðan tíma. Ekki mátti nefnilega fara út í Egilsstaðavélina fyrr en Grænlandsvél sem lenti rétt á undan hafði tæmt sig (grrr – gat það lið ekki beðið í 5 mínútur úr því þessi vél var tveimur og hálfum tíma of sein þá þegar???) Hallveig og stúlka sem hafði líka farið í minningarathöfnina, ætlaði á tónleikana og var með bílinn sinn úti á velli höfðu látið taka frá sæti númer 1a og 1b, voru hvorug með farangur til að bíða eftir svo þær gátu rokið beint úr vélinni upp í kirkju.

Hófum tónleikana, enn pínu stressuð. Húsfyllir í kirkjunni. Í hléi mætti Hallveig á svæðið, svippaði sér í tónleikapilsið (var fulltónleikadressuð fyrir utan það) – og við gátum klárað.

Þrátt fyrir þetta ótrúlega hindrunarhlaup voru tónleikarnir mjög skemmtilegir, allavega fyrir okkur – og Peter píanóleikari stóð sig stórkostlega! Kærar þakkir.

Fleiri myndir hér.

meiri rauð ljós

Röflaði fyrir nokkrum vikum um fólk sem keyrði yfir á rauðu ljósi bara sisvona. Ekki hjálpaði röflið svo sem, mér finnst þetta ekkert vera að skána. Slæmt, en ennþá verra sá ég í fyrradag og svo aftur í dag.

Sat í bílnum mínum á rauðu ljósi á gatnamótum Álfheima og Langholtsvegar, og sé allt í einu tvo litla gutta, á að giska fimm eða sex ára. Ekki fóru þeir nú mikið eftir ljósinu, ruku á hlaupahjólunum sínum beint yfir á rauðu, bíll var að fara yfir á grænu og snarnegldi niður. Ekki munaði miklu að hann færi á þá. Guttarnir voru snöggir að hverfa, ég keyrði síðan á eftir bílnum og bílstjórinn var greinilega í sjokki, gaf stefnuljós í eina átt og beygði síðan í aðra, sá síðan að hann stöðvaði bílinn, væntanlega til að jafna sig.

Þakkaði fyrir að ekki fór verr.

Nema hvað, í dag var ég nýbúin að keyra dótturina á æfingu í Langholtskirkju (fyrri daginn var ég að sækja hana), sit aftur á rauðu ljósi á nákvæmlega sama stað. Koma ekki aftur tveir litlir, veit ekki hvort það voru þeir sömu, yfir Langholtsveginn á rauðu, small yfir á rautt á gönguljósinu mín megin og grænt hjá mér – og þeir beint fyrir mig! Vildi til að ég var með opin augun, ekki síst vegna fyrra atviksins, og var ekki farin af stað! Flautaði á þá, þegar þeir voru farnir yfir og hristi framan í þá vísifingur – hefði auðvitað átt að reyna að stoppa bílinn og tala við þá en gerði það reyndar ekki, enda þegar ég hefði verið búin að finna stæði hefðu þeir væntanlega verið horfnir.

Ef lesendur hér búa í Langholtshverfi og eiga lítinn strákling á þessum aldri, VINSAMLEGAST athuga að hann fari eftir ljósinu. Og auðvitað að líta í kring um sig jafnvel þó það sé grænt!

nákvæmt gos

já var ekki verið að tala um títtnefndan heimsendi klukkan átján? Gosið byrjaði klukkan sjö í gærkvöldi – en við erum jú klukkutíma á undan. Ótrúleg nákvæmni í gangi.

Keypti mér farmiða til Stokkhólms í gærkvöldi, á að fara 12. júní og til baka þann 16. Stelpurnar líka á faraldsfæti, hvor með sínum kórnum, hér eru margir puttar krossaðir.

Komumst til Ástralíu í fyrra þrátt fyrir Eyjó greyið, nú er að vita hvað Grímsvötn gera.

kemst ekki yfir

að ég skuli hafa drattast og skráð mig í leikfimina aftur í dag, ekki að ég nenni því ekki (ótrúlegt en satt) en ég bara HEF EKKI TÍMA TIL ÞESS núna að klippa 3 morgna í viku í sundur fyrir eitthvað sprikl.

Hef bara svo fjári gott af því samt…

Lofa síðan að hvorki skrifa staf né status um ræktina. Enda slíkir statusar nærri jafn leiðinlegir og fjölpóstar eða auglýsingapóstar.

Tókst síðan að bakka á bíl fyrir utan hjá Bárusprikli en sem betur fer var það auðkúlan mín í dekkið á hinum bílnum. Hjúkk!

baka, baka, baka

bakstursdagur mikill hér í dag, Fífa ákvað að baka hafraklatta með rúsínum, ég þurfti að baka eplaköku fyrir kaffisamsæti eftir tónleika Kammerklúbbsins, Finnur var með vinahóp og bakaðir voru karamellusnúðar (ókei, hitaðir, úr frysti) og núna er Jón Lárus að setja seytt rúgbrauð í ofninn, verður þar í nótt. Eigum að koma með íslenskar kræsingar á lokahóf pólsk-íslenska samstarf Kammerklúbbsins annað kvöld, og hvað er íslenskara en seytt rúgbrauð með kæfu?

Krakkarnir (þeas. Fífa og Finnur) voru eiginlega orðin frekar fúl yfir að ég væri alltaf að baka en aldrei fengju þau neitt af afurðunum.

Allavega eins gott að ofninn sé í standi.

alltaf jafn

fáránlega góð tilfinning þegar miðvikudagskvöldið er runnið upp (geta annars kvöld runnið upp eða bara dagar?) og þessir þrír löööööngu dagar vikunnar búnir. Mánudagur frá níu til tíu, þriðjudagur hálftíu til tíu og miðvikudagur hálftíu, tja kennslan reyndar ekki nema til hálfátta en í kvöld var líka fundur, var búin klukkan hálftíu og náði í unglinginn á hljómsveitaræfingu klukkan rétt fyrir tíu.

(já já, ég veit, heimskulegt að monta sig af því hvað maður hafi nú mikið að gera, eins og þið öll hin séuð ekki álíka upptekin).

Mér finnst hins vegar vel þess virði að hrúga svona á þrjá daga til að geta haft síðustu tvo frí (bwahahah, frí!). Eða til að semja…

Spurning reyndar hvort maður á að henda inn umsókn um starfslaun á föstudaginn, ég hef ekki sótt um starfslaun í örugglega 7 ár eða svo. Ef einhver man eftir bloggfóníunni minni – já ég sótti semsagt um hana síðast og er alveg búin með svona 3 mínútur af þriðja kafla (Allegro furioso – Barnaland kemst í málið) þannig að ekki get ég sýnt fram á að vera búin með mikið þar. Hef samt svo sem verið að semja heilan helling þannig að það gerir væntanlega ekki sérlega mikið til.

ekki versla við Hljómsýn og Litsýn

minns er fúll núna!

Forsagan: Fjölskyldan gaf mér heyrnartól í jólagjöf, ég á erfitt með að vinna heima nema þegar ég er ein, þar sem tónsmíðar þurfa talsverða einbeitingu og gengur illa ef einhver er með sjónvarpið í gangi niðri í herbergi fyrir neðan skrifstofuna mína (tröppur á milli, ekki hægt að loka). Þannig að mig var farið að langa í góð heyrnartól. Fórum fyrst í Pfaff til að athuga með Sennheiser, því miður voru ekki til þar tól sem mér fannst henta mér. Við í Hljómsýn og fundum þar þessi og leist vel á. Smelltum okkur á þau.

Nema hvað. Við erum búin að nota þau og passa gríðarvel upp á þau í rúmlega hálft ár, sándið fínt, ekkert upp á það að klaga. Einn daginn sit ég inni í stofu og Freyja hjá mér. Hún ætlar að fara að horfa á einhvern þátt í tölvunni, tekur heyrnartólin og ætlar að setja þau upp á höfuðið. Nema spöngin bara brotnar! Hún er þá úr einhverju ósköp venjulegu plasti, ekkert styrkt. Freyja var ekkert að þvinga þau út og hún er ekki höfuðstór, var bara að smeygja þeim ósköp venjulega upp á höfuðið. Hreint ekki verið að fara illa með þau á nokkurn hátt.

Ég nokkrum dögum seinna í Hljómsýn og lýsi atvikum. Fæ þar mjög almennilegan starfsmann sem segist ætla að athuga hvort ekki sé hægt að græja þetta fyrir mig. Heyri svo ekkert frá þeim í um 3 vikur. Fer núna eftir helgina og þá var komið annað hljóð í strokkinn. (annar afgreiðslumaður sem ég áttaði mig síðan á að var eigandinn): Þið hljótið að hafa farið illa með þetta, svonalagað brotnar ekkert við eðlilega notkun. Við höfum ekkert með þetta að gera. Farðu bara upp í Litsýn, þeir sjá um viðgerðir fyrir okkur. Sagt með talsverðum þjósti.

Ókei, shit happens, við getum auðvitað ekki sannað að það hafi ekki verið farið illa með græjuna. Upp í Litsýn.

Þar er ósköp almennilegur afgreiðslumaður, tekur á móti heyrnartólunum, spyr mig hvað þau hafi kostað (30 þúsund – áttu reyndar að vera heldur dýrari), jújú þá geti nú verið að það fáist varahlutur. Ég heim. Strax daginn eftir fæ ég sms um að þetta sé tilbúið. Þangað aftur og jú jú, viðgerðin búin en getið hvað þetta kostaði.

Fimmtán þúsund fjögur hundruð og áttatíu krónur takk.

Ég ætla ekki að efast um að þetta hafi verið talsverð vinna, en að manninum skyldi ekki detta í hug að hringja í mig þegar hann áttaði sig á því hvað þetta gæti orðið dýrt og spyrja hvort ég vildi samt láta gera við – það get ég ómögulega skilið. Hefði ekki dottið það í hug – annaðhvort fengið að kaupa varahlutinn og altmuligmanden minn hefði fiktað þetta saman, eða þá bara taka fram duct tape og vírherðatré eða álíka.

Allavega mun ég væntanlega hvorki stíga fæti inn í búðina né viðgerðarþjónustuna aftur. Grrrr!

kvusslax!

allt að bila hjá mér, fyrst hrynur vökvastýrið í bílnum, ég þori ekki að keyra hann nokkurn skapaðan hlut nema upp á verkstæði á mánudagsmorguninn, hitt og þetta sem getur hafa komið upp, svo allt í einu í dag (tja, gær) tekur elsku tölvan mín upp á því að henda út öllum forritum hverju nafni sem þau nefnast. Finder virkar reyndar sem betur fer þannig að ég (held allavega) að mér hafi tekist að bjarga öllum gögnum, var reyndar með megnið af þeim afritað en geri slíkt ekki alveg daglega.

Elsku besta systir mín lánar bílinn sinn (takk Hallveig mín), mágurinn skutlaðist eftir mér til að redda (takk líka Jón), ircfélagar hjálpa með tölvuna – vonandi virkar það.

Á meðan hertek ég tölvuna hennar Fífu, vill til að hún er í kórferðalagi um helgina og tók vélina ekki með.

Krossið putta fyrir okkur að þetta verði minna en hellings vesen…

rigningrill

Í dag er frumburðurinn sjálfráða, tíminn flýgur víst svolítið hratt.

Ekki var það nú eingöngu þess vegna sem við ákváðum að grilla í dag, við Jón Lárus höfðum samþykkt að sýna mat í grillblaði Vikunnar sem er á leiðinni út. Þegar ég hafði játað þessu við hana Gurrí mína uppgötvaði ég að þó við séum óhemju dugleg að prófa nýja rétti og prófa okkur áfram með ýmsan mat erum við ekki sérlega tilraunaglöð við grillið. Oftast grillum við lambalundir, bara með salti og pipri, bakaðar kartöflur og laukur með, stundum borgara eða pylsur, stundum fisk, yfirleitt afskaplega einfalt. Eins og er svo sem oft best.

Það er samt kannski ekki nógu spennandi til að gefa sem uppskrift í grillblaði. Lagðist í netrannsóknir, fann eina uppskrift sem mér leist á, hnikaði henni nú talsvert til samt svo ég stæli ekki beint og við prófuðum þetta um daginn. Reyndist mjög gott.

Svo hringdi ljósmyndarinn í morgun og spurði hvenær hann gæti komið og tekið mynd. Jújú, í kvöld, allt í fína með það, klukkan 6 skyldi hann koma.

Hjólaði í snilldar veðri út í Melabúð og keypti lambakótilettur, átti allt í löginn (þegar blaðið kemur út verður uppskriftinni velt út á Brallið). Heim, blanda lög, settist aftur við tölvuna og veit ekki fyrr en það er farið að hellirigna.

Nújæja, skúrin gengur yfir. Jón Lárus kemur heim um hálfsexleytið og hendir yfir kolunum, tíu mínútum eða svo seinna mætir síðan ljósmyndarinn. Og næsta skúr.

Ekki dugði að bíða, kolin orðin grá, við út, tekin af okkur mynd úti í garði í hellirigningunni og svo grilluðum við í sameiningu, Jón Lárus á grillinu og ég með regnhlífina fyrir ofan.

Stundum væri ég til í að eiga ekki svona kreppugrill…

humm maður á nú eiginlega ekki

að toppa gleðilegs-sumars-færsluna með einhverri leiðinlegri sölufærslu en ég var að uppgötva að á morgun rennur út fresturinn til að skila pöntunum fyrir tvisvaráári pappírs- og lakkríssölu stelpnanna í Graduale.

Þær eru semsagt að selja:

Papco klósettpappír tveggja laga 48 rúllur, 3.400
sama, nema þriggja laga, (mæli með þessum) 30 rúllur 4.100
Papco eldhúsrúllur tveggja laga, 24 rúllur á 3.400
Lakkrís, 500 g á 1.000

Heimsending á höfuðborgarsvæðinu lofað. Ætti að koma í næstu viku.
Látið endilega vita, þetta eru ágætis vörur og góður kór til að styrkja…

snúin

tilvera að vera með snúinn fót. Það var alger óþarfi að hrynja í götuna á bílastæðinu fyrir utan Suzukiskólann í dag, leit út eins og þjappaður snjór en undir leyndist flughálka, ég beint á hausinn og hægri fótur þurfti endilega að snúast í rammvitlausa átt.

Náði að keyra heim með harmkvælum, urraði á Finn (sem ég var að keyra heim af hljómsveitaræfingu) þegar hann spurði hvort við gætum komið við einhvers staðar að kaupa eitthvað í svanginn (hann reyndist svo reyndar ekkert svangur þegar heim var komið), réð við að ýta löppinni beint niður á bensíngjöf og bremsu með því að passa upp á að hún færi ekkert á ská og ógnarvarlega í þokkabót.

Inn, alltaf verra og verra, hlóð mér í tölvustólinn, löppin upp á stól við hliðina, argaði á teygjusokk og íbúfen og kælielementið sem við notum í kælitöskuna okkar í langferðum og handklæði til að vefja utan um. Búin að sitja nánast eins og klessa síðan, smá viðkoma í sófanum og önnur við matborðið, Fífa eldaði hrikalega góðan pastarétt, bóndinn heim til að horfa á Útsvar á plúsnum og nú aftur við vélina. Reyndar fyndið, símtal yfir matnum, vinkona ætlaði að draga mig á tónleika en ég – uh nei fer ekki mikið en áttu hækjur? Hún átti eina og skutlaði til mín. Fæ svo tvær á morgun frá litlusystur líka.

Á morgun er Finnur svo að útskrifast úr þriðju Suzukibókinni, þangað verð ég að fara, það er bara svo einfalt. Haltra yfir bílastæðið og passa mig á laumuhálku undir snjó.

meiri sterar

jamm, lungnalæknirinn fyrirskipar annan sterakúr og áframhald af bakflæðidótinu. Segir þurfa þolinmæði, þetta muni koma á endanum. Fór í myndatöku í gær og það sést ekkert að lungunum – eins og læknirinn var reyndar búinn að spá. Hringdi síðan í mig (inn í miðjan leikfimitíma) og sagði mér að byrja aftur á lyfjunum. Varaði við meiri matarlyst (urrg, tók eftir því síðast), að ég gæti orðið uppstökkari (hmm, veit ekki með það, þarf að spyrja fjölskylduna), erfiðleikum með svefn (ekki sem verst síðast nema þegar ég asnaðist til að fá mér tebolla eitt kvöldið).

Ég vona bara ég fái frekar dugnaðarkast, klári karlakóralagið og komist vel af stað með strengjakvartettinn fyrir Tékkland. Já og svo má alveg við því að þrífa smá hérna fyrir jólin – ágætt að fá pínu steraspark til þess (já já ég veit það þarf ekki að stressa sig þannig fyrir jólin en einhvern tíma árs verður víst að þrífa almennilega inn í hornin og upp á skápum, hví ekki núna?)

úff

longtæm nó blogg! Ekki gott.

Klikkað að gera að undirbúa tónleikana og fleira – þarf líka að komast í pósthús og senda einn disk af Guðbrandsmessu til Bandaríkjanna, lofaði að senda það í dag en það er víst fullseint, skipti yfir á vetrardekk í dag og fór á bókasafnið, tókst að gleyma kortinu mínu þar auðvitað en fékk þrjár ljóðabækur sem lofa góðu.

Svo finnst mér þetta alveg klikkað flott.

þetta er sárt

en ég bara verð að vísa í frétt á morgunblaðsvefnum. Og ég sem ætlaði ekki einu sinni að skoða þann vef framar, að óbreyttu.

Ekki er ég á móti því að gera vel við íþróttir. En mér finnst að einhverjir mættu muna eftir að íslensku tónlistarfólki og gestum, iðulega heimsfrægum listamönnum hefur verið boðið upp á þessa aðstöðu síðastliðin 40 ár.

Stendur til bóta núna reyndar – loksins – hvort sem fólk er nú sátt við endanlega útkomu tónlistarhússins eður ei. En það er grátbroslegt að þegar fótboltagengið þarf að sætta sig við eina athöfn í bíóinu sé það skelfilegt hneyksli.

Hvað er að?

þung helgi

bókstaflega – hlakka lítt til að mæta í leikfimi í fyrramálið.

En þýðir ekki að gefast upp.

Sagðún og fékk sér annað rauðvínsglas…

nenni ómögulega

að fjasa yfir Moggamálum. Menningarritstjórar voru látnir fjúka – veit það á vont eða gott? Ekki hefur maður alltaf verið par sáttur við umfjöllunina en verður hún betri núna eða verður hún engin? Eða mögulega birt ljóð eftir fyrrverandi og núverandi þóknanlega ritstjóra?

Pólitíkin er vitað hvernig verður.

Æh, og ég sem er venjulega svo bjartsýn – hvað á þetta að þýða allt saman?

ég ætlaði ekkert

að verða lasin núna!

Held ekki að ég fari að hrína neitt, var bara slöpp og náði ekki í mig hita og gat engan veginn einbeitt mér á kóræfingu í kvöld. Sé til í fyrramálið en mér finnst líklegra en ekki að ég ætti að halda mig heima allavega á morgun.

Ekki séns að ég ætli að vera lasin á föstudaginn…

í gær

á leið í eina af mínum fjölmörgu vinnum lenti ég næstum því í árekstri. Kannski var ég að keyra örlítið yfir 30 km/klst (ekki mikið samt) á – hvaðhúnnúheitir gatan sem liggur milli Þjóðarbókhlöðunnar og Hótels Sögu, þegar kona á hvítum jeppa keyrir út úr bílastæðunum og í veg fyrir mig. Þurfti að snarnegla niður, eins gott að viðbrögðin eru þokkaleg ennþá, hugsa það hafi verið svona 30 sm milli bílanna þegar ég var stopp.

Konugreyinu brá náttúrlega jafn mikið og mér – bakkaði til baka og hleypti mér framhjá.

Frekar óþægilegt…


bland í poka

teljari

  • 375.416 heimsóknir

dagatal

desember 2022
S M F V F F S
 123
45678910
11121314151617
18192021222324
25262728293031

sagan endalausa