ég hef voða lítið verið að blogga undanfarið. Eins og mér hefur legið mikið á hjarta. Eyðilegging á tónlistarskólunum okkar – já eyðilegging er ekki of sterkt orð yfir það sem virðist vera að gerast hér. Verð að henda inn grein sem má lesa hér um mikilvægi tónlistarmenntunar og já, minna á grein sem ég hef birt áður hérna – fagið mitt er nefnilega ekki bara eitthvað hobbí. Skiptir svo gríðarmiklu máli fyrir þessa andlegu heilbrigði. Heilbrigð sál í hraustum líkama, já það er helling verið að hugsa um hrausta líkamann en virðist sem heilbrigða sálin sé aðeins minna mál. Hefði ég tíma myndi ég snara greininni – kannski eftir vikuna.
Jamm búin að skafa listann minn niður í ríflega þrjátíu manns. Svona er hann eins og er, en enn eru þetta jú fullmargir.
Stafrófsröðin blífur í bili, ég er ekki viss um að ég birti listann þegar hann er kominn í rétta röð eins og ég mun skila. Efst hjá mér verða þó væntanlega Smári McCarthy og Margrét Jensína Þorvaldsdóttir. Þó er þarna fólk sem ég þekki betur og treysti líka vel.
Smári veit ég að er búinn að hugsa gríðarmikið um stjórnarskrármál, talsvert lengur en bara frá því um hrun. Einnig einn gáfaðasti maður sem ég veit. Margrét er svo bráðskörp kona sem ég treysti mjög vel til að koma með góða punkta og vit inn í umræðuna.
En hér er listinn. Ekki forskrift, enda á enginn að segja öðrum hvað þau eigi að kjósa, en ég mæli með að kjósendur kynni sér fólkið:
Hann Smári McCarthy kunningi minn og einn alklárasti (ef ekki sá klárasti) náungi sem ég veit ætlar að bjóða sig fram til stjórnlagaþings.
Ef það á einhver erindi þar inn þá er það hann. Ég hef ákveðið að gerast stuðningsmaður og undirskrifandi og hvet alla vini og kunningja og já, alla sem hefur einhvern tímann þótt eitthvað vit í því sem ég er að tjá mig að skoða það sem hann hefur fram að færa.
Akkúrat núna er hann á alþjóðaráðstefnunni Internet at liberty, hér er viðtal sem var tekið við hann þar:
Hér er svo pistill frá honum um stjórnlagaþing og nýja stjórnarskrá. Stel miskunnarlaust af facebook þar sem ég held maður þurfi að vera fbvinur til að geta lesið:
Markmið nýrrar stjórnarskrár
by Smári McCarthy on Sunday, 05 September 2010 at 14:37
Þegar lagt er upp með að skrifa nýja stjórnarskrá verðum við að velta fyrir okkur hvað markmiðin eru. Margir hafa sagt núgildandi stjórnarskrá vera ágæta, sem ég er nokkuð ósammála, en þó er ég á því að ef breyta eigi stjórnarskránni þá verðum við að vita til hvers.
Ísland hefur ekki haft margar stjórnarskrár, en sú sem nú gildir er sú eina sem við höfum haft á lýðveldistímanum þrátt fyrir ætlanir um að breyta henni frá upphafi. Stjórnarskrá Íslands frá 1944 var samþykkt á sínum tíma til bráðabirgða, og þjáist hún verulega fyrir það að vera runnin undan rifjum danskra embættismanna í stað þess að hafa verið smíðuð með íslenskar aðstæður í huga og hagsmuni íslendinga að leiðarljósi.
Það er hægt að rífast mikið um það hversu mikil áhrif stjórnarskrá hefur á raunverulegu dagsdaglegu starfsemi innan lands. Mitt viðhorf kemur til af því að ég hef unnið í áratug við að skoða hvernig upplýsingar flæða og hvernig kerfi virka, og ef ég hef lært eitthvað á þeim tíma þá er það það að grunnforsendurnar geta skipt sköpum – rangar grunnforsendur geta leitt til hörmunga.
Lexíur frá Bólivíu
Það er ekki oft sem Ísland er borið saman við Bólivíu, en þar gekk ný stjórnarskrá í gildi 7. febrúar 2009. Þar hafa verið í gildi þar 17 mismunandi stjórnarskrár síðan 1826; að meðaltali ein ný stjórnarskrá á ellefu ára fresti. Það er óhætt að fullyrða að Bólivíumenn eru komnir með ágætis reynslu af því hvernig mismunandi form stjórnarskráa getur haft mismunandi áhrif á stjórnun lands, réttarríkið og, ekki síst, afkomu þjóðar.
Það er áhugavert að skoða Bólivísku stjórnarskránna frá 2009 í ljósi þess að hún var samin með ólíkt uppbyggileg markmið í huga miðað við fyrri stjórnarskrár. Hún táknaði enda sambands milli ríkis og kirkju í Bólivíu, hún kvað skýrt á um jafnræði milli þjóðflokka, setur skýr mörk um landeignir, og tekur á mörgum erfiðum málefnum – til dæmis stendur í 384. grein að kókaplantan sé hluti af menningararfleið landsins, að hún sé ekki eiturlyf í sínu náttúrulega formi, og að ríkið skuli annast eftirlit með verðlagningu, endursölu, framleiðslu og iðnvæðingu plöntunar.
Landeignareglan segir að enginn aðili megi eiga meira en 5000 hektara lands, eða 50 ferkílómetra, sem er þannig séð ekki svo ólíkt íslensku landúthlutunarreglunni frá landnámsöld. Einnig kemur fram í stjórnarskránni að allar náttúruauðlindir séu þjóðarinnar, og enginn hafi framsalsrétt á þeim til erlendra aðila.
Það er margt gott við þessa nýju stjórnarskrá, en kannski ekki síst hvað hún þorir að ganga langt til að ná sínum settu markmiðum. En þó er ég ekki allskostar sáttur við allt sem í henni er. Einmenningskosningar sem ákvarðast af “fyrstur í mark”-kjöri eru til dæmis afskaplega óréttlátar, þar sem aðeins hluti atkvæða í hverju kjördæmi hefur áhrif á niðurstöður kosninganna, og þá er íslenska nálgunin, að nota færanlega hlutfallskosningu, miklu betri. Enn betra væri að nota kerfi sem uppfyllir skilyrði de Condorcet, í það minnsta fyrr stærsta hlutmengi sem hefði Condorcet-sigurvegara, en slíkt er ekkert sérstaklega algengt. Einnig er vafasamt í Bólivísku stjórnarskránni hve mikil völd kjörstjórn hefur, en eflaust má færa ágætis rök fyrir því að svo sé.
(Spænskan mín er afleit, þannig að mín vitneskja um þessa stjórnarskrá kemur úr ýmsum heimildum á ensku, aumum tilraunum til að lesa stjórnarskránna sjálfa með hjálp orðabókar, og spjall við vinkonu mína sem þekkir þetta ágætlega)
Þetta Bólivíska dæmi er ágætt út af því hversu nýlega er búið að taka það fyrir og hversu mikil hefð er fyrir stjórnarskrárbreytingum í landinu. Evo Morales hélt því fram þegar þessi var samin að nú væri markmiðið að búa til stjórnarskrá sem myndi endast í þúsund ár. Eða í það minnsta aðeins meira en ellefu.
En hvert þá?
Ef Íslendingar ætla sér nú að búa til sína eigin stjórnarskrá sem á að endast í hundrað ár, hvað þá þúsund, þá verðum við að geta gert okkur í hugarlund hvernig heimurinn mun verða eftir þann tíma. Ég þykist ekkert sérstaklega berdreyminn og hef afskaplega litla spáhæfileika, en ég get ímyndað mér að einhver af vandamálum næstu aldar verði:
Verulegar breytingar á aðgengi að auðlindum, þá bæði vegna breytinga á loftslagi og vegna þess hvað gengið var hart á auðlindir á tuttugustu öld. Stríð munu eflaust blossa upp vegna aðgengis að frumefnum á borð við litíum og tantalum, en fæst þeirra verða árásarstríð; þau munu flest eiga sér stað bak við luktar dyr í stofnunum á borð við WTO.
Aðgengi að upplýsingum; þar sem þróun á upplýsingatækni hefur enga ástæðu til að hægjast og skilningur okkar á mætti upplýsinga eykst stöðugt, þá munu ótal vandamál koma upp í tengslum við tjáningarfrelsi, hugverkarétti, og gerviskorti. Sú barátta sem nú á sér stað í netheimum um þessi mál mun smitast í auknu mæli yfir í “kjötheima”.
Iðnaður mun breytast verulega með tilkomu aukinnar sjálfvirkni. Ég tel að spádómar Piore og Sabel muni rætast, og ný iðnbylting muni færa framleiðslugetuna í hendurnar á almenningi með auknum hætti, ef eigandavald stendur ekki of mikið í vegi fyrir það.
Þetta þrennt muni skapa aðstæður þar sem draumur Gorz um gullöld atvinnuleysisins geta orðið að veruleika – atvinnulíf mun gjörbreytast og verða valkvæmt að meira mæli en áður, en þá þarf að tryggja öllum grunnframfærslu og skapa betri jarðveg fyrir menningarstarfsemi.
Meðan á þessu stendur mun þjóðin eldast verulega. Barneignum fækkar, fólk lifir lengur, og ef ekkert breytist mun þetta hafa verulega íþyngjandi áhrif á velferðarkerfið. Geta okkar til að sinna sjúkum, öldruðum og fötluðum mun verða gríðarlega stór þáttur í samfélaginu okkar.
Skilningur okkar á mannslíkamanum, lífríkinu og eðlisheiminum á eftir að aukast verulega. Í dag skiptum við um hér um bil hvaða líffæri sem er í fólki, ekki er langt þar til að verulega erfiðar siðferðislegar spurningar fara að blossa upp í samfélaginu: geta tveir eða fleiri einstaklingar notað sama líkama? Hvaða réttindi hafa klón? Hefur einstaklingur sem hefur losað sig við líkama sinn ennþá kröfu til mannréttinda?
Þjóðríkjum mun fækka en sjálfstæðum löndum mun fjölga. Síðustu hundruð ár hafa bandaríki Ameríku verið eina landið sem hefur stækkað markvisst, þróunin allsstaðar annarsstaðar er að smærri lönd verða til þar sem forsendur þjóðríkjafyrirkomulagsins bresta. Á Íslandi verður birtingarmyndin líklega aukin krafa til sjálfsstjórnar á því stigi sem við kennum nú við sveitarfélög.
Togstreita milli þjóðernishyggju og múltíkúltúralisma á eftir að ná meiri hæðum með aukinni tengingu milli trúarbragða og þjóðarímyndar. Evrópusambandið á eftir að þurfa að finna einhverja nýja leið út úr því veseni sem það er að koma sér í. Dulda kynþáttahatrið sem felst í fjölþjóðastefnu þarf að uppræta; á Íslandi mun það þýða verulega aukningu í blöndun þjóða, tungumála og hefða.
Ef við ætlum að smíða stjórnarskrá fyrir Ísland sem endist næstu öldina, þá munum við þurfa að taka tillit til þessara atriða, og margra annarra. Við þurfum að taka mið af því gildismati sem er að koma fram og forðast að hengja okkur í gildismati fyrri tíma.
Hverjir bera kyndilinn?
Ég hef ekki séð annað en að þeir sem munu koma að gerð nýrrar stjórnarskrár passi nokkuð vel í þrjá hópa.
Fyrsti hópurinn verður uppfullur af afdönkuðum pólitíkusum sem vilja baða sig einu sinni enn í frægðarljómanum sem fylgir því að stofna nýtt lýðveldi og svo einstaka rísandi stjörnu úr stuttbuxnadeildum flokkanna sem er að reyna að afla sér reynslu í vernduðu umhverfi. Kosningaherferðir þessa hóps verða auðþekktar á því að þeir slá upp undir tveggja milljón krónu hámarkið með styrkjum frá undarlega ónefndum aðilum og fá svo í kjölfarið stuðningsyfirlýsingar og ókeypis auglýsingar frá ýmsum aðilum, kannski mismikið eftir því hvað baráttan verður hörð.
Annar hópurinn verður skipaður fræðimönnum, prófessorum í stjórnmálafræði, lögfræði, og fleiri greinum, sem flestir hverjir munu hafa langan starfsferil að baki í að rannsaka núverandi stjórnskipulag, og vita það að ef breytingar eru gerðar verður öll vinnan þeirra rýrð gildi sínu að hluta. Þó verða þessir aðilar flestir hverjir með einhverjar hugsjónir sem koma af því að hafa horft upp á eitthvað misfarast í stjórnkerfi landsins alla sína starfsævi; þeir munu bera þetta atriði upp sem baráttumál sitt. Þessir aðilar munu birtast í kappræðum sem yfirvegaðir og sjálfsöruggir, leiðréttandi öll mistökin sem hópur þrjú gerir með spekingslegum svip.
Þriðji hópurinn er skipaður pólitískum öfgamönnum sem hafa sterkar skoðanir á öllu milli himins og jarðar, hafa rætt heimsmálin yfir þó nokkuð mörgum kaffibollum og telja sig vita nákvæmlega hvað þurfi að gera. Einhverjir í þessum hóp munu aldrei hafa lesið stjórnarskrá Íslands, hvað þá annarra landa, og flestir þeirra munu telja að allsherjarregla sé “regla” í merkingunni “lögmál”, en ekki “regla” í merkingunni “reiða”. Kosningaherferðir þessa hóps munu sennilega eiga sér stað fyrst og fremst á Facebook, en einhverjir eiga örugglega eftir að efna til fámennra útifunda á Austurvelli.
Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér. Þennan kyndil verður ögn breiðari og skynsamari hópur að bera. Sér í lagi þarf ungt fólk að koma inn í þetta af miklu afli. Ungt fólk mun þurfa að verða gamalt undir þeirri stjórnarskrá sem verður til núna, nema um Bólivískan óstöðugleika verði að ræða, og því skiptir miklu máli að unga fólkið fái að leggja sitt gildismat í púkkið. Ég sagði við vin minn um daginn, sem á von á barni, að aðkoma hans að nýrri stjórnarskrá yrði sennilega besta gjöf sem hann gæti gefið barninu sínu, og mér var mjög alvara með það. Góður vinur minn sagði eitt sinn um ástandið í Íran að “ef unga fólkið tekur ekki völdin munu illu skeggin halda þeim.” Sama á við hér.
Markmið hinna
Mín markmið með nýrri stjórnarskrá eru því ólík markmiðum margra annarra. Ég tel að við verðum að ákveða hvert við viljum fara áður en við leggjum af stað, en það er ljóst að sumir eru bara ekkert sammála um að það eigi nokkuð að leggja af stað. Allskonar stefnur blossa upp á þessum leikvelli, enda eru hagsmunir svo margra með í leiknum – ekki bara þeirra sem nú lifa á landinu, heldur líka þeirra sem munu flytja hingað eða fæðast hér á næstu öld. Einhverjir eiga eftir að leika afturhaldssemishlutverkið í þessu stjórnlagaþingi, einhverjir munu taka eitthvað sem þeir kalla gullin meðalveg, og einhverjir eiga eftir að ganga hart fram með stefnuskrá úr framtíðinni.
Hvað svo sem gerist í stjórnlagaþinginu, þá verður útkoman að vera betra samfélag. Ef við getum ekki sammælst um neitt annað en það þá er það þó eitthvað.
Þeir sem tala fyrir því að við eigum alls ekki að borga þessa árans IceSavepeninga þurfa að svara nokkrum spurningum.
Það er nokkuð vitað og víst að Bretar og Hollendingar munu ekki sætta sig við það. Hvað vill fólk þá gera?
Einangra landið og stunda sjálfsþurftarbúskap?
Ef svo, hvað lengi? Þar til útlendingar hætta að vera reiðir við okkur? Hvenær verður það? Einhvern tímann?
Hvað verður ÞÁ mikill fólksflótti? Við eigum ekki einu sinni kartöflur í ár, uppskeran brást. Hvað verður margt ungt fólk hér eftir ef við segjum við það: Nei því miður, engin epli eða appelsínur framar, hvað þá eitthvað exótískara. Engir nýir símar, netið mun hrynja því við munum ekki geta fengið varahluti, sama með samgöngur. Hellingur í viðbót. Hvað verða margir eftir? Allavega ekki ég.
Svo er hitt svarið: Semja betur.
Fyrir utan það að við hlið Svavars Gestssonar (hvort sem fólk hefur mikla eða litla trú á honum) VORU færir lögfræðingar og þrælvanir samningamenn, þá held ég að það sé nánast alveg sama hvað við finnum og getum borgað fært fólk, Bretar og Hollendingar hafa alltaf efni á stærri hópi og dýrari fræðingum. Burtséð frá því að það var jú búið að leggja drög að talsvert verri samningi í tíð stjórnar flokka þeirra sem hæst hrópa núna um vonlausan samning.
Nei, ég held að við ættum að sætta okkur við þennan (ef hann verður þá á annað borð samþykktur úti með fyrirvörunum), sjáum til hvað mikið fæst upp í skuldir, vonandi sem mest. Ef ekki, já þá kemur fólksflóttinn þá en ekki núna. Er það verra?
Svo fólk haldi nú ekki að ég sé ógurlega glöð með þetta þá er langt frá því. Held bara að þetta sé illskásti kosturinn í stöðunni.
já, maður er spenntur og skelkaður í dag. Hvernig fer þetta allt saman? Ég fæ mig ekki til að mæta niður í bæ á eftir, held nefnilega að við þurfum að samþykkja og borga, eftir því sem ég hef sett mig inn í málið.
Hræddust er ég við að stjórnin falli og við fáum liðið í D í stjórn, þau langar ekki í neitt meira en það, geta falið þræðina og forðað einkavinunum.
frá honum Hjörvari, hér. Skyldulesning, sérstaklega fyrir liðið sem ætlar nú að fara aftur að treysta pakkinu sem kom okkur í skítinn (hvað er AÐ þjóðinni???)
Vinnuhópur VG hefur skilað af sér tillögum um niðurfærslu höfuðstóls á þeim skuldum þar sem fólk varð að taka háu lánin, þannig að skuldin verði aðeins fyrir þeirri upphæð sem er raunvirði fasteignar. Vona að þetta fari í gegn, ég held þetta sé nokkuð sanngjörn leið. Nú er ég að tala um fólk sem er kannski að kaupa sína fyrstu íbúð, ekki liðið sem tók sér lán til að geta nú átt tvo porschejeppa eða það sem ‘varð’ að hreinsa allt út úr íbúðinni því hún var svo ‘ógeðsleg’ á la innlitútlitþáttaruglið. Það verður að finna leið til að vinsa hafrana frá sauðunum í þessu tilliti. Ég er ekki viss um að þeir sem hafa hæst séu þeir sem eiga erfiðast nefnilega…
voðalega trúi ég lítið á leiðina – hættum að borga af lánunum. Fannst þetta sniðugt fyrst og skráði mig á flettismettigrúppur um samtök um það. En í alvöru, fólk, hvað græðum við á því að setja fjárhag þjóðarinnar algerlega á hliðina? Því það myndi gerast, það er alveg augljóst. Sama hvað manni er illa við bankana og þess vegna íbúðalánasjóð þurfum við á þeim að halda. Ég er ekki viss um að við viljum horfast í augu við að bankakerfið hrynji aftur.
Klárt, það verður að reyna að koma í veg fyrir að fólk missi húsnæði en ég er ekki viss um að þetta sé góð leið.
Svo finnst mér fólk vera svolítið búið að missa sjónar á því að þessi ríkisstjórn er að taka við herfilegu búi, farið að gleypa við einhverju væli hjá formönnum Framsóknar og Sjálfstæðis. Hvað er með það? Við vissum alveg að það eru ekki til neinar töfralausnir, ég skil ekki hvers vegna nú á að vera hægt að draga þær upp úr hatti.
Að því sögðu þá mætti nú alveg fara að klára þessa stjórnarmyndun…
Kjósa
Búð (vantar í afmælismatinn í kvöld)
Tékka á ferskum kræklingum
Freyja á kammeræfingu
Tónleikar hjá yngri krökkunum
Aðrir tónleikar hjá yngri krökkunum
Taka til
Hnoða í og steikja tvöfaldan skammt af tortillum
Taka á móti 10 unglingsstelpum sem eru að koma í gistiafmæli
Steikja hakkjukk fyrir tortillur
Gefa stelpustóðinu að borða
Senda stóðið niður í yngriunglings herbergi og/eða sjónvarpsherbergi
Blása upp tvær stórar og eina litla loftdýnu
Varpa öndinni léttar
Horfa á kosningasjónvarp
Smá prógramm í dag semsagt. Svolítil skörun, (JLS og Fífa taka til og hnoða í tortillur meðan ég er með krakkana á þessum tvennum tónleikum).
Gleðilegar kosningar, kjósið nú samkvæmt sannfæringu og endilega notið kosningaréttinn, hann er ekkert sjálfgefinn.
já, þau eru orðin frekar desperat og skilja ómögulega hvers vegna fólk samþykkir ekki bara allt sem þau segja. Má ekki reka til baka lygarnar og draumórana í þeim. Sjá síðu BB og svo hér.
bloggheimar nú og ég er að bera í hinn fræga bakkafulla læk, en mikið er ég sátt við útkomu könnunarinnar í Rvk norður. Að Borgarahreyfingin sé komin langt upp fyrir Framsókn er gríðarlega gott. Ekki síður hve Sjálfstæðisflokkurinn setur niður – þó ég skilji engan veginn fólk sem getur hugsað sér að kjósa hann og finnist 22 prósent allt allt of hátt.
Þorgerður Katrín virtist nálægt taugaáfalli í fréttum áðan – vill láta hætta að tala um spillingu flokksins og tala heldur um málefni þjóðfélagsins. Gott og vel, ef D hefði ekki fengið að láta hlutina dankast í alla þessa mánuði eftir hrun hefði maður kannski tekið þetta aðeins til greina.
Kudos svo til Svandísar fyrir að þora að nefna orðið mútur á opinberum vettvangi. Það sem allir hugsuðu…
Nýlegar athugasemdir