Sarpur fyrir ágúst, 2007

já og í

Vatnsvirkjanum, þar sem sturtuhausinn var á tilboðinu, sáum við baðker sem hefði fyllt út í allt baðherbergið okkar. Ef það hefði þá komist þar fyrir.

reddingar

alltaf skemmtilegt þegar allt gengur upp, ætluðum að skjótast og redda nokkrum atriðum áðan. Létum laga fjarstýringuna á öðrum bíllyklinum, keyptum risastóran sturtuhaus (hvað er með að geta lækkað svona græjur úr 16K í 6K á útsölu? Einhver hefur álagningin verið) skiptum ónýtri rauðvínsflösku í (vonandi) heila, (Addi, þetta vín var ekki til í Heiðrúnu, redda meiru takk!), Fífa keypti sér síma (og við féllum úr staðfestu okkar og keyptum síma handa miðbarninu, sá litli fær að prófa að hafa gamla síma stórusystur og sjá hvort hann týnir). Já og smá innkaup í Bónus. Allt tók þetta vel innan við klukkutíma.

finale

nei, þetta eru ekki mín lokaorð hér á blogginu. Lítil hætta á því.

Keypti mér bara um daginn uppfærslu á Finale nótnaskriftarforritinu mínu. Hef hins vegar ekki þorað fyrir mitt litla líf að setja hana inn. Lendi alltaf í tómu tjóni í marga daga þegar ég er að uppfæra, sérstaklega með íslensku stafina.

Hmmm. Á maður að leggja í þetta? Engin deadline næstu vikurnar…

wah!

já, best að fara að læra þetta sóló almennilega, var búin að renna yfir það, virkaði bara mjög einfalt. Svo í fyrrakvöld að syngja það með því sem kórinn er að gera á meðan…

ég ruglaðist.

TVISVAR!

skammarlegt.

farin að æfa mig (Stefán, ég skal ekki ruglast á tónleikunum)

fyrsti kennsludagur

að kvöldi kominn, fínn bara. Líst mjög vel á hópana, frábærir krakkar á ferð. Pínu misjafnlega stödd, en varla kemur það nú á óvart.

Skólasetning í Suzuki á föstudaginn klukkan 17.00, ekki smá súrt að næsta Keðjuverkun er á nákvæmlega sama tíma. Ég hélt hún ætti að vera klukkan sex og að ég næði henni vel. En nei. Fimm. Grrr.

dugnaður getur þetta verið

myndarbúskapur, búin að sulta bæði rabarbara og rifs, tína rifs til að frysta, tína bláber og frysta, sólberin mega vera aðeins lengur en í kvöld tíndir, steiktir og frystir sveppir fyrir veturinn. Líka slatti af hrútaberjum, þó ekki nóg til að sulta. Verður étið.

monti lokið í bili.

(vona annars

að fólk hafi áttað sig á því að síðasta færsla var vottur af sjálfsháði, ég er ekki aaalveg svona sjálfhverf…)

HEI!

ég er ekki inni á top wordpress blogs today! Hvað á þetta nú að þýða? Allir hættir að lesa?

Það sem verra er að þrjú af fjórum eru átaksblogg, eitthvað ddv og léttara líf og þannig. Ég harðneita samt að fara að gera þetta að átaksbloggi…

(ekki að mér veitti af að pæla í línum en ég mun ekki þreyta lesendur mína kæra með fréttum af slíku – þegar ég drattast í gang)

work, werk, wirrk

kennarafundir, stundatöflugerð, allt á fullu. Fyrsti kennsludagurinn á morgun (LHÍ), svo tínast hinir skólarnir inn.

verður ekki smá gott að vera búin að púsla töflum, það er ekki skemmtilegasta vinna ársins. Ónei.

hún Eyja Margrét

er með frábæran pistil í dag. Hvað er eiginlega að sumum?

hananú

mér sýnist ég verða að hætta að nota Nokia síma.

iPhone, hvenær kemur þú?

svona hefðum við

getað gert, hér síðast þegar við borðuðum á Pizza Hut (fyrir eiginlega nákvæmlega 19 árum):

30 mnútur

(svo var maturinn vondur í þokkabót, þegar hann loksins kom)

hvað er með

að hafa í uppskrift: 179 grömm af möndlum? Má ekki vera 180 g? Kakan ónýt?

Lyktar örlítið af beinni þýðingu frá sex únsum. En áttu ekki Hagkaupsbækurnar að vera voðavoða original frá íslenskum meistarakokkum? Ég hefði allavega reynt að hafa þetta ekki aaaalveg svona augljóst…

nýr haus

eins og sést hér er glænýr haus á síðunni. Getur nú vel verið að ég fari til baka í myndina frá Núpi, en þetta er ágætis tilbreyting samt.

Hvernig finnst fólki?

þetta finnst mér

fyndið.

ojbara

hvað þetta sænska verk er hrikalega mikill raddbrjótur.

Fyrri helmingur verksins samanstendur af urri, söng á innsogi, hvísli, surgi og fleiru skemmtilegu. Í síðari helmingnum er löngum tónum haldið í það óendanlega. Og fyrsti sópran þarf að halda háa c í að ég held 20 sekúndur.

Ég á þokkalega eftir að nota þetta stykki sem víti til varnaðar í Hljóðfærafræði mannsraddarinnar – kúrsinum mínum í framtíðinni. Og ég á bókað eftir að tala við þessa sænsku stelpu og biðja hana blessaða að gera ekkert svipað í framtíðinni, a.m.k. ef hún vill fá verkin flutt.

En við fengum gott hláturskast á æfingunni í dag…

rosalegt!


I am nerdier than 91% of all people. Are you a nerd? Click here to find out!

Og ég skrökvaði engu, reyndi ekki einu sinni í alvöru að hækka mig.

Hrmmm

Æfingin í kvöld leiddi í ljós að hið seinna af finnsku verkunum tveimur er eiginlega ekkert svo vitlaust. Það fyrra – ég á eiginlega eftir að berjast fyrir því að við reynum að gera míkrótónana í því, ég held við getum það vel.

Þetta sænska, ööö – ég á enn eftir að sjá vit í því.

týndur (aftur)

Herra Finnur, sjö ára týndist í dag. (já, hann er fundinn, annars væri ég nú líklega ekki að blogga hér, döh!)

Hafði stungið af um miðjan dag, við vorum viss um að hann væri heima hjá Gunnari besta vini sínum sem býr hér bak við. Nema hvað, um sjöleytið hringi ég í mömmu Gunnars til að láta senda hann heim.

Neibb. Þeir þá hvorugur þar.

Við svo sem ósköp róleg áfram, þeir eru vanir að þvælast um og leika sér lengi vel, maður er bara feginn meðan þeir eru úti, ekki inni í tölvunni eins og þeir vilja stundum vera.

Við Fífa á æfingu (jámm, hún er í símakórnum, fyrsta alvöru sönggiggið hennar), ég náttúrlega þagga niður í símanum. Seint og um síðir á æfingunni (hálftíu) kíki ég á símann. 2 hringingum ósvarað. Mamma hans Gunnars.

Úff.

Ég hringi, gaurarnir týndir, ég inn á æfingu aftur: Fífa, við verðum að fara heim, Finnur er týndur. Reyni að hringja í Jón Lárus, síminn drepst (x#%/&%$ batterí), heim, enginn Finnur. Jón Lárus, mamma Gunnars og systur búin að fara á alla staði sem þeim datt í hug, skólalóð, Tjörnina, alls staðar í kring náttúrlega, hvergi finnast strákarnir. Hringt í lögregluna og ég leggst í símann til að hringja í alla strákana í bekkjunum þeirra. Hvergi finnast þeir. Tvær mömmur úr bekkjunum beint út að leita með okkur hinum. Lögreglan mætir, lýsing tekin af strákunum og send út boð á þeirra rásir.

Mömmu Gunna dettur allt í einu í hug að þeir hafa stundum verið að sækja í félagsskap nokkurra ára eldri stráka. Við vissum af einum, en hann er í útlöndum, þannig að þeir voru ekki þar. Næst ekki í annan, né mömmu hins en tókst að grafa upp heimilisfang hjá pabba þess. Amma Gunna var síðan á leiðinni þangað þegar hún sér strákana hundblauta og skíthrædda á Grettisgötunni á leið heim.

Jú jú, þeir höfðu verið hjá öðrum þessara 11 ára. Hljómaði alls ekki nægilega vel. Þeir höfðu svo sem verið fyrst í legó og svo í tölvuleikjum, en síðan verið úti að finna felustaði „þar sem löggan finnur mann ekki“ Say WHAT?

Undir lokin var þeim svo hent út, Finnur sagðist hafa kallað á mig, ef ég skyldi vera nálægt og heyra í sér; þegar hann fannst var hann ekki í jakkanum heldur hélt á honum og húfunni (var samt í vettlingunum).

Finnur er búinn að heita því að fara ALDREI aftur að leika við þessa gaura. Mér sýnist hann ekkert langa til þess heldur. Sem betur fer.

20

krakkar búnir í tónheyrnarstöðuprófi. Þá sér maður nokkurn veginn hvernig bekkirnir munu líta út.

Nokkrir sleppa alveg við tónheyrn hjá mér (vonandi sem flestir, þeim mun færra í bekkjunum, þeim mun betra – og ég nenni ómögulega að fara að bæta við mig degi)


bland í poka

teljari

  • 377.785 heimsóknir

dagatal

ágúst 2007
S M F V F F S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  

sagan endalausa